Gengið var frá Sléttuhlíð upp að Selvogssgötu undir Smyrlabúðahrauni.
Þaðan var gamla gatan gengin niður að helli, sem í seinni tíð hefur verið nefndur Kershellir, en Hvatshellir er afhellir innan af honum. Stór varða er á suðvesturbrún hans. Farið var niður í hellinn og hann skoðaður hátt og lágt. Hann liggur til vesturs úr jarðfallinu, um 40 metra langur. Segja má að hellirinn hafi verið óvenju fallegur því hæfilega löng grýlukert lágu niður úr svo til öllu lofti hans. Á leiðinni út var farið til vinstri, framhjá jarðfallinu, til austurs og þar inn þrönga hraunrás, sem séra Friðrik Friðriksson kom á spjöld sögunnar í frásögn hans af Sölva. Hellirinn er nefndur eftir göngufélaginu „Hvatur“, sem mun hafa farið þangað af og til og m.a. haldið samkomur sínar í honum. Hellirinn er nokkuð þröngur til að byrja með, en víkkar á ný í hvelfingu. Þá þrengist hann aftur, en opnast síðan inn í enn aðra hvelfingu. Alls er hellirinn um 100 m langur. Til leiðbeiningar skal þess getið að til skamms tíma voru þrjár litlar vörður á Kersbrún norðaustan við op hans (Ólafur Þorvaldsson 1949). Þessar vörður voru sameinaðar í eina um eða eftir 1960.
Ketshellir er sunnan við Kershelli/Hvatshelli. Hann er í gróinni hraunrás í um 30 metra fjarlægð og liggur í sömu stefnu og Kershellir (vesturs). Hellirinn er rúmgóður og um 30 metra langur. Hann er í fornum ritum nefndur Selshellir.
Samkvæmt Jarðarbókinni sem Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að árið 1703 í Gullbringusýslu kemur fram: að jörðin á selstöðu þar sem heitir Kietsheller. Sami hellir var einnig nefndur í tengslum við Hamarskot, sem var hjáleiga Garðakirkju. Var greint frá því að selstöðu ætti Hamarskot í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel. (Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-1942). Hellirinn var á mörkum jarðanna og opinn í báða enda og þar af leiðandi notaður af ábúendum beggja jarða til helminga og þá jafnan nefndur einu nafni Selhellir.
Vestan við hellana sér niður á grassvæði. Selvogsgatan liggur niður að því og áfram í gegnum það uns hún sveigir að Setbergsshlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum.
Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir. Þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar. Sunnan við Hamarskotshelminginn er hlaðinn stekkur.
Svæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jafnframt skoða mikið á stuttum tíma. Gerður var uppdráttur af svæðinu.Sjá meira HÉR.
Veður var með ágætum – bjart og stillt.