Á tveimur upplýsingaskiltum framan við Siggubæ gegnt Hellisgerði í Hafnarfirði er annars vegar fjallað um „Siggu í Siggubæ“ og hins vegar „Siggubæ„:
Sigga í Siggubæ
Sigríður eða Sigga eins og hnún var ávallt kölluð var fædd að Merkinesi í Höfnum sunnudaginn 17. júlí 1892 og var hún einkabarn foreldra sinna. Hún var atorkusöm kona sem lét fátt fram hjá sér fara. Snemma hóf hún að starfa á fiskreitum bæjarsins veið breiðslu og síðar við vask, jafnframt því sem hún sá um dreifingu Alþýðublaðsins að föður sínum látnum.
Henni var jafnaðarmennska í blóð borin og fann hún skoðunum sínum farveg innan Alþýðuflokksins og verkalýðshreyfingarinnar. Á fiskreitunum kynntist Sigga baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum og upplifði það að vinna sömu vinnu og karlarnir en fyrir lægri laun en þeir. Sigríður var ein af stofnendum Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar árið 1925. Hún átti sæti í samninganefnd félagsins árið eftir stofnun þess, var fjármálaritari frá 1929 til 1932 og ritari félagsins í 14 ár. Henni var fátt óviðkomandi hvort sem halda þurfti ræðu eða vinna fyrir félagið á einn eða annan hátt. Meðal annars tók hún að sér að sauma félagsfána verkakvennafélagsins sem afhentur var við hátíðlega athöfn í febrúar árið 1930.
Framsýn, föst en höfðingleg
Eitt af helstu baráttumálum og hugðarefnum Sigríðar innan verkakvennafélagsins var stofnun dagheimilis fyrir börn útivinnandi kvenna en sjálf var Sigga barnlaus og ógift. Það var árið 1932 að hún léði máls á stofnun dagheimilis á félagsfundi hjá verkakvennafélaginu. Kvað hún brýna þörf á slíku heimili og taldi æskilegt að konurnar hefðu forgöngu um að hrinda því í framkvæmd.
Ári seinna varð hugmynd hennar að veruleika er dagheimili var stofnað. Fyrst um sinn var það til húsa í gamla barnaskólanum við Suðurgötu, í bæjarþingsalnum og var það einungis opið yfir sumartímann. Ári eftir stofnun dagheimilisins lagði Sigríður fram þá tillögu að verkakvennafélagið reisti sitt eigið hús fyrir starfsemina. Hlaut tillaga hennar brautargengi og byggði félagið hús að Hörðuvöllum. Fljótlega varð það þó of lítið en vegna hvatningarorða Siggur var brátt ráðist í stækkun.
Málefni dagheimilisins átti hug og hjarta Sigríðar, hún átti sæti í dagheimilisnefndinni frá árinu 1935 og var formaður nefndarinnar í alls 24 ár. Árið 1970 sýndi Sigga starfsemi dagheimilisins sérstakan hlýhug er hún stofnaði minningarsjóð um foreldra sína og afhenti svo dagheimilinu sjóðinn, að upphæð krónur 50.000, til eignar og ráðstöfunar.
Sigga og pólitíkin
Þrátt fyrir miklar annir hjá Siggu við félagsstörf innan verkalýsðhreyfingarinnar tók hún einnig virkan þátt í stjórnmálastarfi Alþýðuflokksins í bænum. Allt frá stofnun flokksins hafði hún fylgt honum að málum og þegar kom að því að stofna kvenfélag innan hans í nóvember 1937 var hún ein af forkólfum þess og gjaldkeri til tuga ára. Kvenfélagið var eitt það fyrsta sinnar tegundar á landinu og stofnun þess því dæmi um brautryðjandastarf í póitískum málefnum kvenna. Allt frá stofnun félagsins var Sigríður óþreytandi við að koma með hugmyndir og áskoranir um það sem betur mátti fara, bæði í bæjarmálum og á landsvísu. Hún var síðan kosin fyrsti heiðursfélagi félagsins og var jafnframt heiðursfélagi í verkakvennafélaginu.
Siggubær
Siggubær er dæmigerður timburbær klæddur með bárujárni, en bæirnir svonefndu voru veggjalágir, svo til allir undir súð og höfðu einungis glugga á göflunum. Bæirnir voru ekki stóri í fermetrum talið, Siggubær er t.d. aðeins um 6.2 m á lengd og 3.8 , á breidd sem var algeng stærð á þessum húsum.
Bæjum eins og Siggubæ var gjarnan skipt upp í skilrúm. Styttri hlutinn var stundum hólfaður í tvennt, í eldhús og lítið herbergi en til þess að fá meira pláss var oftar en ekki byggður áfastur inngönguskúr.
Allir þurfa þak yfir höfuðið
Um aldamótin síðustu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þjóðarinnar, fólk fluttist úr sveitum á mölina í leit að betri tækifærum fyrir sig og sína. Erlendur Marteinsson, fæddur árið 1864, frá Merkinesi í Höfnum og kona hans Sigurveig Einarsdóttir, fædd árið 1968, voru ein af þeim sem tóku sig upp og settust að hér í Hafnarfirði, enda mikill uppgangur í bænum vegna nýrra útgerðarhátta.
Ekki var auðvelt að verða sér úti um húsnæði og eini möguleiki fólks var að leigja inni á öðrum eða byggja sér eigið húsnæði. Það kostaði mikla peninga að reisa hús og lánsfé lá ekki á lausu. Erlendur hafði ráðið sig í vinnu hjá August Flygering sem þá var að hefja þilskipaútgerð sína í Hafnarfirði. August lánaði Erlendi 494 kr. og 10 aura og samkvæmt samningi þeirra átti að greiða lánið upp á fjórum árum. Árið 1902 réðst Erlendur í það verk að reisa hús fyrir sig, konu sína og einkadóttur, Sigríði, sem þá var á tíunda ári. Bærinn þeirra skiptist í tvö hólf og var styttri endinn hólfaður í tvennt en til að byrja með var ekki um neitt eiginlegt eldhús að ræða. Annað herbergið var eins konar forstofa, því inngönguskúrinn var byggður seinna.
Þegar Erlendur hafði gert upp skuld sína við August, að fjórum árum liðnum eins og samningurinn sagði til um, var lagt í að klæða þakið og veggina með járni. Inngönguskúrinn var byggður og eldhúsið tekið í notkun. Árið 1915 var skúrinn stækkaður og um það leyti var útihúsið byggt.
Siggubær er ekki stór en þrátt fyrir það bjó hér eins og áður sagði þriggja manna fjölskylda og um tíma var herbergið í norðurendanum leigt út il Valgerðar Ólafsdóttur frá Hliðsnesi. Erlendur lést árið 1935 eftir margra ára vanheilsu og sjúkralegu á heimili sínu. Eftir það bjuggu þær mæðgur saman í húsinu sem fjölskyldan hafði af dugnaði komið sér upp.“