Síldarmannagötur lágu upp frá bænum Botni lá Grillirahryggjaleið yfir í Skorradal, um Reiðskarð og yfir að Sarpi eða Vatnshorni í Skorradal og áfram Hálsaleið í Borgarfjarðardali. Göturnar eru, sem fyrr segir, varðaðar upp fjallið rétt fyrir utan Botnsskála í Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan, sem er í raun ein, hlykkjast upp eftir Síldarmannabrekkum skammt utan við Brunná. Við upphaf leiðarinnar hefur verið hlaðin stór varða og öll leiðin var stikuð og vörðuð sumarið 1999. Gangan yfir garðinn er hvorki erfið né hættuleg. Útsýnið af Þyrli er mikið og fagurt, landslagið fjölbreytt og örnefni fjölmörg. Við Bláskeggsá má velja um að ganga áfram norður Síldarmannagötur eða fara eftir gamalli götu niður í Litla-Sandsdal.
Kaupfélag Hvalfjarðar starfaði á annan áratug á fyrrihluta síðustu aldar. Félagið tók við afurðum bænda, aðallega fuglum og ull. Seldi bændum í staðinn fóðurvörur og annað til búskapar. Höfn var á Hrafneyri og afgreiðsla og vörugeymsla þar og í Kalastaðakoti. Verzlunarhúsið stendur enn í Kalastaðakoti. Gömul verzlunarleið liggur upp úr Litla-Sandsdal og á Síldarmannagöturnar upp til Borgarfjarðardalanna. Þessa leið fóru lestir með ull, sláturvörur og rjúpur sem mikið voru veiddar í Borgarfirði fyrripart síðustu aldar. Önnur verzlunarleið liggur uppúr Botnsdal og liggur sunnanvið Súlur til Þingvallasveitar, Leggjarbrjótsleið (Leggjarbrjótur). Þetta eru frægustu verzlunarleiðir fyrri alda. Þjóðleið um Svínadal og Geldingadraga liggur enn á sama stað og gamla póstleiðin.
Upphaf leiðarinnar um Síldarmannagötur er, sem fyrr segir, fyrir vestan Brunná. Síðan liggja göturnar í krákustigum stall af stalli.
Þegar leiðin er fetuð vörðu af vörðu má vel gera sér í hugarlund hvað ferðalangar hafi verið að hugsa á göngunni. Tvennt tekur í hugann; annars vegar leiðin sjálf og þar með útsýnið af götunni yfir Hvalfjörð og síðan Skorradal, Hvort sem um er að ræða út eftir vatninu endilöngu eða inn dalinn, yfir Fitjar og að Skorradalsvatni, og hins vegar tilgangur ferðarinnar hvort sem hón var stutt eða löng. Gatan virðist erfið við fyrstu sýn, en úr greiðist er á reynir.
Haldið var um Reiðskarð. Í það liggur leiðin um Síldarmannabrekkurnar yfir að Sarpi eða Vatnshorni í Skorradal. Þegar í fornöld hétu göturnar þessu nafni. Það bendir til þess að síldveiðar hafi verið stundaðar í Hvalfirði. Menn hafa getið sér þess til að veiðarnar hafi farið þannig fram, að hlaðinn hafi verið garður þvert yfir voginn, Síldarmannagarður, og hann notaður við ádrátt þegar fjaraði út. Leifar af þess háttar garði hefur fundist í Grafarvogi í Reykjavík.
Eins og að ofan greinir fóru Hólmverjar Síldarmannagötur að Hvammi í Skorradal og stálu þar yxn Þorgrímu smiðkonu og ráku suður á hálsinn. Uxarnir snéru hins vegar á Hólmverja vegna fjölkyngi Þorgrímu og komust aftur heim í Hvamm. Frá þessu er sagt í Harðar sögu og Hólmverja.
Á einum stað lýsir séra Friðrik Friðriksson ferð skólapilta í Latínuskólann um mánaðarmótin september-október 1887. Þeir fóru Síldarmannagötur en villtust af leið og komust við íllan leik niður utan við Þyril í staðinn fyrir að fara um Reiðskarð og um Síldarmannabrekkur fyrir vestan Brunná. Með séra Friðriki voru m.a. Steingrímur frá Gautlöndum og Guðmundur Guðmundsson.
Þeim var fylgt upp á brúnina af manni frá Vatnshorni, en þegar þeir komu upp á heiðina var farið að skyggja og vegur aðeins slitróttar götur. Götunum týndu þeir brátt og einnig leiðarmerkjum sem þeim hafði verið sagt frá. Þoka skall á og þeir lentu út í forarflóa og hestana þurftu þeir hvað eftir annað að draga upp úr keldum.
Seinna komu þeir á brún og héldu þar ráðstefnu. Ákveðið var að senda Steingrím og Guðmund á undan til að kanna móinn, óþarfi að fórna öllum ef þarna skyldi vera hengiflug. Séra Friðrik kaus að doka við.
Tvímenningarnir komu brátt aftur og töldu óhætt að fara þarna niður. Á var þarna á vinstri hönd og fyrst gekk allt ljómandi vel, leiðin greiðfær, en seinna komu þeir þar sem áin rann í gljúfri. Þeir urðu að fara um mjóa skeið þar sem einn hestur rétt náði að fóta sig. Þar selfluttu þeir hestana um einstígi og niður komust þeir heilu og höldnu.
Þegar haldið er áfram, yfir í Reykholtsdal, um svonefnda Hálsaleið, tekur við nokkuð þétt kjarr, en á Síldarmannagötum var yfirleitt vandræðalaust talið, enda gróðurminna sunnanmegin í Skorradal.
Áður en sagt er skilið við Hvalfjarðarbotn er rétt að segja frá því, að Þorgríma smiðkona frá Hvammi í Skorradal hafði ágirnd á hringnum Sótanaut. Svo var einnig um Þorbjörgu kötlu í Kötlugróf. Þessum hring var talin fylgja ógæfa en þær skeyttu því engu og háðu einvígi um hann. Í Hvaðfjarðarbotni fundust þær svo dauðar kerlingarnar allar rifnar og bútaðar í sundur. Hjá kumlum þeirra þótti að sögn löngum reimt.
En svo haldið sé áfram Hálsaleiðina þá er farið úr Skorradal yfir í Lundarreykjadal hjá Háafelli og komið niður hjá Hóli. Einnig er hægt að fara upp frá Grund í Skorradal um Mávahlíðarsneiðina yfir í Lundarreykjadal. Um Lundarreykjadal var farið Bugana hjá Grímsá niður að Götuási.
Þótt um háa hálsa sé um að fara er gatan greið – og útsýnið stórbrotið í veðri, sem nú var. Varla hreyfði hár á höfði, en hitastigið var í við hæsta, um 28°C. Fróðir menn segja að það gerist varla hærra á þessum slóðum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimild m.a.:
-http://www.sorli.is/
-http://www.kjos.is/
-http://www.847.is/i
-http://www.hvalfjordur.is/
-http://www.skorradalur.is/