Tag Archive for: Silfur Egils

Minna-Mosfell

Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.

Mosfell

Mosfellskirkja.

Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn.

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru „laugar“ og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; „Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar“, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að „jarðholnum“ við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist; þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.

Sjá meira HÉR.

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason.

Vefsíðuritari FERLIRs sendi Bjarka Bjarnasyni, hinum mætasta vísi Mosfellinga, eftirfarandi fyrirspurn:

„Sæll Bjarki;
Getur þú bent mér á hvar örnefnið „Þrælapyttur“ er í landi Minna-Mosfells?“

Bjarki svaraði:
„Sæll og blessaður.
Já, ég kannast vel við örnefnið en heyrði það þó ekki í mínum uppvexti á Mosfelli. Kynntist því ekki fyrr en ég las það í heimildum eftir að ég komst til vits og ára.
Séra Magnús Grímsson, sem var prestur á Mosfelli 1855-1860 skrifaði: „Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „… býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eða bein þeirra.“

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Tjörnin fyrrum, áður en hún var framræst.

Staðsetning Þrælapytts virðist hafa verið ljós á tímum séra Magnúsar en síðan virðist fjara undan því og það einfaldlega týnst. Ég hafði samband við Sigurð Skarphéðinsson (f. 1939) sem er alinn upp á Minna-Mosfelli. Hann kannaðist ekki við örnefnið þannig að það virðist ekki hafa verið lifandi í munni manna, amk. eftir miðja síðustu öld.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði „Þrælapytts“,

Hinsvegar sagði Sigurður mér þá sögu að fyrir neðan bæinn á Minna-Mosfelli hafi verið hringlaga og nafnlaus tjörn, 5-8 metrar í þvermál. Var haft á orði að silfur Egils væri fólgið þar.
Þegar tjörnin var ræst fram var fylgst vel með því hvort einhver ummerki um silfrið kæmu í ljós.“

Vefsíðuritari fór í framhaldinu á vettvang og knúði dyra hjá Bjarka og þakkaði honum svarið. Hann hafði greinilega haft fyrir því að grúska bæði í minni og gömlum heimildum, auk þess sem hann hafi leitað til annarra er gerst þekkja til staðhátta. Í samræðum kom fram að landshagir væru verulega breyttir frá því sem áður var. Í stað mýra neðan bæjanna á Mosfelli væru nú gróin tún. Engin þekkt vilpa, sem ætti við lýsingu Magnúsar, sem var prestur á Mosfelli í fimm ár, væri nú á bökkum Kýrgils, enda væru þar nú engin mýrardrög. Benti Bjarki á fyrrnefndan Sigurð, sem væri einstök sagnarkista og byggi nú þar skammt austar við Minna-Mosfell, á bæ nefndum Sigtún.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Ritari heimsótti Sigurð, vingjarnlegan eldri mann. Hann sagðist vel muna eftir pyttinum djúpa beint niður af Minna-Mosfelli þar sem hann var uppalinn. Líkt og Bjarki sagði hann umhverfið neðan Mosfells, sem börnin frá Hrísbrú vildu nefna Hrísbrúarfjall, væri mikið breytt frá því sem áður var. Í stað mýranna væru nú komin framræst tún. Einhvern tíma hafi hann minnst jarðfræðing segja frá því að neðanjarðará, aðra en Kaldá, rynni um dalinn. A.m.k. hafi hann fyrrum jafnan sótt rennandi vatn í vilpu neðst í honum. Vilpuna þá lagði aldrei, jafnvel í miklum frostum. Þegar miklir þurrkar urðu á níunda áratug síðustu aldar og flestir lækir þornuðu upp, var alltaf hægt að sækja vatn í vilpuna. En þetta er nú útúrdúr.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell; Þrælapyttur – loftmynd.

Sigurður sagði að beint niður af bænum Minna-Mosfelli hafi verið fyrrnefnd tjörn í mýrinni. Orð hafi verið haft á að þar hafi þrælarnir, er getið er um í Egils-sögu, fundist. Tjörnin hafi verið ræst fram fyrir mörgum árum og sést frárennslisskurðurinn vel. Nú hafi verið grafin rotþró frá bænum skammt austan við tjarnarstæðið. Í hans minni hafi þetta verið eina vilpan á þessu svæði, í hvarfi frá Hrísbrú, þar sem hóllinn, sem Mosfellskirkja stendur nú á – er getið um í Egils-sögu.
Sigurður vildi þó ekki bera ábyrgð á að um sömu vilpu væri að ræða og séra Magnús skrifaði um á sínum tíma.
Frábært veður.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

Hrísbrú

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kjósarsýsla – Egill Skalla-Grímsson

Kålund

Rit Kålunds.

Kjósarsýsla hefur allt annað yfirbragð en Gullbringusýsla, og inn í hana liggur leiðin af Seltjarnarnesi. Þegar komið er yfir Elliðaár, blasir við mikill hluti Mosfellssveitar; eru þar einnig grýtt holt og ógrónir melar, en mestur hluti landsins er þó grösugur, sums staðar þýfðar mýrar eða engjadrög, en bæir með græn tún liggja dreift þar sem hærra er og þurrara, en smáfjöll og hæðir skipta bygðinni í daladrög og smábyggðir. Í fiskibyggðum er algengt, að bæir og hús standi saman í þyrpingum næstum eins og sveitaþorp í Danmörku, en upp til landsins er annar háttur á; aðeins hér og þar má sjá stóran bæ, þar sem landi hefur verið skipt og mynduð svokölluð hverfi eða þorp, heldur liggur hver bær venjulega út af fyrir sig mitt í landareign sinni.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

En tvímælalaust er Mosfellsdalurinn, sem liggur nyrst, merkilegastur dalur í Mosfellssveit. Hann er þeirra stærstur og einnig merkilegur sögulega, því að þar dvaldist Egill Skalla-Grímsson síðustu æviár sín. Hann nær upp frá Leirvognum frá vestri til austurs. Norðan við hann er Mosfell, aflangt hvelft fjall, liggur í sömu stefnu og dalurinn, og hallast jafnt niður til austurs, nær í fremur lága heiði. Undir eða í suðurbrekku Mosfells eru þrír bæir, Hrísbrú, Mosfell og Minna-Mosfell. –

Mosfell

Mosfell.

Mosfell er myndarlegur bær, prestsetur og kirkjustaður, í miðið, Minna Mosfell. Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.
Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að

Mosfell

Mosfell 2024.

Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru „laugar“ og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur. Egill lést skömmu síðar og var fluttur niður í Tjaldarnes og orpinn haugur yfir hann. En þegar Grímur á Mosfelli var skírður, lét hann reisa þar kirkju (þ.e. á Mosfelli).

Egill Skalla-Grímsson

Gröf Egils Skalla-Grímssonar.

Er sagt, að Þórdís hafi þá látið flytja bein Egils til kirkjunnar. Til þess bendir, „að síðan er kirkja var gerð á Mosfelli, en ofan tekin á Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður“, og þá fundust undir altarinu mjög stór mannabein, sem að sögn gamalla manna voru bein Egils. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarðinum á Mosfelli. (Eg.s. 298-99). Meðal þeirra sem voru viðstaddir þegar þetta gerðist nefnir sagan Skafta prest Þórarinsson, en hann er telinn sá sem nefndur er lifandi árið 1143, og hafa menn því ætlað að kirkjan hafi verið flutt um miðja 12. öld.

Samkvæmt Gunnlaugs sögu (61) bjó höfðinginn Önundur nokkru síðar á Mosfelli, sem hafði goðorð „suður um nesin“, sonur hans var Hrafn, er fær að konu Helgu hinnar fögru í fjarveru sambiðils síns, Gunnlaugs ormstungu. Eftir að Gunnlaugur og Hrafn höfðu fellt hvor annan í hólmgöngu í Noregi, ríður Illugi, faðir Gunnlaugs með 30 menn til Mosfells. Önundur og synir hans komust í kirkju, en Illugi náði tveimur frændum hans og lét drepa anna, en fóthöggva hinn (Gunnlaugs saga 105).

Kýrgil

Kýrgil – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má á frásögn Egils sögu, að kirkja sú er Grímur reisti, hefur staðið við Hrísbrú, en hún hefur ekki getað verið sjálfstæð jörð, því sagan segir, að kirkjan hafi verið á Mosfelli, en segir sjálf síðar, að hún hafi verið að Hrísbrú. Í samræmi við þetta er það, að rétt við bæinn Hrísbrú nokkur skref til útnorðurs, er hóll, Kirkjuhóll, þar sem gamla kirkjan á að hafa staðið. En bærinn hlýtur næstum að hafa staðið þar sem kirkjan var upphaflega reist. Svo sem áður hefur verið tekið fram, má það heita föst reglu á íslenskum kirkjustöðum, að kirkjan er upphaflega sett annaðhvort gagnvart eða fast við bæjarhús, fyrirkomulag sem var mjög hagkvæmt, svo sem sjá má af tilvitnunni í Gunnlaugs sögu, að kirkjuna mátti nota sem nokkurn veginn öruggt hæli, ef óvinir sóttu að.

Hrísbrú

Hrísbrú – túnakort 1916.

Ekkert er það heldur sem mælir á mót, að bærinn á Mosfelli hafi upphaflega staðið þar sem Hrísbrú er nú, og þessi staður hefði vel getað þótt heppilegastur fyrir fyrsta ábúanda; hér er fjallshlíðin hæst og graslendið breiðast þaðan og fram að mýrinni, og miðað við þann mikla búrekstur sem einkenndi höfuðbólin í fornöld er ekkert óeðlilegt að hugsa sér, að túnið hafi náð langt austur á við og jafnvel yfir tún Mosfells og Minna-Mosfells. Bærinn hefur auðvitað ekki breytt um nafn, þó að hann væri fluttur, aftur á móti hlaut bærinn, sem byggður var úr Mosfells landi og reistur var annað hvort samstundis eða síðar á gamla bæjarstæðinu, að fá nýtt nafn, og það kann að hafa legið beint við, þar sem Hrísbrú var, því að bærinn hefur verið nefndur eftir vegi, sem var lagður hrísi, og kann að hafa verið þess ærinn þörf á leið yfir mýrina fyrir neðan bæinn.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Gilið sem sagan minnist á, þar sem Egill kynni að hafa falið fé sitt, er vafalaust Kýrgil, sem svo er nefnt; það liggur austan túns á Minna-Mosfelli; þar nær efst ofan úr fjalli niður í rætur og er alldjúpt, og rennur lítill lækur eftir botni þess. Auk þess eru tvö önnur gil, en miklu minni, í fjallinu milli Hrísbrúar og Mosfells.
Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; „Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar“, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að „jarðholnum“ við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði „Þrælapytts“,

Þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.
Sjá meira um Kýrgil og Þrælapytt HÉR.
Jón Ólafsson frá Grunnavík segir svo frá í stuttri íslenski ritgerð um fornminjar fundnar víðs vegar á Íslandi utan hauga“ (Addit, 44 fol.), að Erlendur bróðir hans – sýslumaður í Ísafjarðarsýslu – hefði sagt honum, að um 1725 þegar hann var á unga aldri var í þjónustu skólameistara í Skálholti, hefðu eitt sinn nokkru af földu fé Egils skolað fram í vatnavöxtum; hefðu um 3 peningar fundist, hefði hann séð einn þeirra og hefði hann verið á stærð sem tískildingur („tískildingr heill vorra tíma“); á honum hefði verið ógreinileg áletrun ef til vill ANSLAFR eða eitthvað þess háttar. Magnús Grímsson greinir frá munnmælum um, að fátækur bóndi eigi að hafa fundið fé Egils í Kýrgili, leynt fundinum, en allt að einu orðið auðugur maður.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel ofan við Selás.

Ekki er ljóst, hvar selið hefur verið þar sem Þórdís dvaldist, meðan Egill kom áformi sínu fram. Norðan við Mosfell er dálítið hæðardrag, sem heitir Selás, og telja flestir að þar sé staðurinn. Nú eru selfarir sjaldgæfar á Íslandi, til þeirra þarf mikinn mannafla, en áhöfn sjaldan svo stór, að slíkt borgi sig. Mosfell er þó einn þeirra bæja, þar sem það hefur jafnan verið stundað, en á síðari tímum hefur seljalandið verið í hallanum í Mosfellsheiði niður í Mosfellsdalinn, þar sem heita Gullbringur.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Örnefnið Tjaldanes þekkist nú ekki, en lítill oddi, Víðiroddi (eftir nafni slétturnar Víðir), er þar sem árnar tvær renna saman, um 7-800 faðma suðvestan við Hrísbrú; liggur þarna yfir alfaraleið meðfram Köldukvísl, en einmitt oddinn á á vera áfangastaður sá sem nafnið Tjaldanes bendir á, og orð sögunnar „ofan í Tjaldanes“ eiga vel við staðinn; í oddanum er lítil hæð, sem gæti verið leifar af haug. Staðurinn er fallegur, og ef Egill hefur verið jarðsettur þar, hefur sannarlega verið vel valið.“

Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ 2006 segir m.a. um Hrísbrú:
„Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason). Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þórarinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestr Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokkurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutningurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255). Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niður-stöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74). Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).

Hrísbrú

Uppgröftur á Hrísbrú.

Sunnan við Köldukvísl er hluti af stykki því, sem nefnt er Víðir og er í eigu Hrísbrúar. Neðsti oddinn á Víðinum nefnist Tjaldanes en á nesi því var Egill Skalla-Grímsson heygður (Ari Gíslason). Haugurinn liggur fast við ána (Köldukvísl) að sunnanverðu, um 100 m frá oddanum, þar sem Suðurá og Kaldakvísl mætast. Um 50 m neðan (N) þjóðvegarins upp Mosfellsdal. Haugurinn er um 7,70 m langur í vestur og um 5 m í norður. Hann er á árbakkanum og sýnilegt er að áin hefur brotið talsvert af honum. Auðsætt er, að haugurinn hefur einhvern tíma náð talsvert lengra í norður, eða alveg að farveg árinnar nú. Upphafleg stærð hans hefur mjög líklega verið um 7,70 m í norður og vestur, sem jafnframt hefur verið þvermál hans í báðar áttir.

Víðir

Víðirinn – gröf Egils.

Enn sést greinilega að haugur þessi, sem svo er kallaður, hefur verið hringlaga. Sker hann sig vel frá umhverfinu og sést nokkuð langt að, sjái maður oddann á annað borð. Haugurinn er hæstur um miðjuna um 0,5 m, en er aflíðandi í suður. Norðan miðju er hann mikið skemmdur, örugglega af vatnagangi árinnar, sem framhjá rennur. Fáeinar þúfnamyndanir eru utan á haugnum. Til að sjá er haugurinn eins og lág bunga eða upphækkun fremst á bakka Köldukvíslar. Nú er girðing yfir hann endilangan frá austri til vesturs. Land það, sem hann stendur á er nú notað til hestabeitar og er allt afgirt. Haugurinn er líkastur því, sem um náttúrumyndun sé að ræða, en skal þó ekkert fullyrt í þeim efnum. Engar hleðslur eru heldur sjáanlegar þar. Um 14 m sunnan við hauginn eru undirstöður stálgrindahúss eða bragga. Vestan við haug þennan er smáþýfi, um 20-50 m, og eilítið grænna. Líklega er þetta svona frá náttúrunnar hendi, e.t.v. getur lítil tóft eða tóftir leynst þarna þótt ótrúlegt sé (Ágúst Ó. Georgsson). Í Víðisoddanum er sagt að verið hafi áningarstaður ferðamanna fyrr á tímum.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 31-37.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Málmleitartæki

Í „Þjóðminjalögum“ frá árinu 2001 (nr. 107 31. maí) var ákvæði er gerði notkun málmleitartækja við leit að forngripum í jörðu óheimila nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar. Ákvæðið var í 16. gr. laganna og hljóðaði þannig: „Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.“

Hafnir

Fornleifarannsókn í Höfnum.

Í 18. gr. laganna voru „forngripir“ skilgreindir þannig: „Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Fornleifavernd ríkisins fundinn svo fljótt sem við verður komið.“
Þjóðminjalögin hafa verið felld úr gildi.

Í „Þjóðminjalögum“ frá 1989 (nr. 89 29. maí) var sambærilegt ákvæði í 24. gr.: „Óheimil er öðrum en starfsmönnum þjóðminjavörslunnar notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar„.

Ekkert slíkt ákvæði var í „Þjóðminjalögunum“ 1969 (nr. 52 19. maí 1969).

Málið var að enginn greinarmunur var gerður í lögunum hvort fólk væri að leita með málmleitartækjum að nýlegum minjum eða fornum.

Málmleitartæki

Fornleifafræðingar nota málmleitartæki – nú án þess að spyrja um sérstakt leyfi frá Þjóðminjaverði.

Nú eru í gildi „Lög um menningarminjar“ (nr. 80 29. júní 2012) er tóku gildi 1. jan. 2013. Í þeim lögum er hvergi getið um bann við notkun málmleitartækja í leit að fornminjum í jörðu. Í 3. gr. laganna eru „fornminjar“ skilgreindar þannig í 3. gr.: „Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu.

-Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
-Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri„.

Á Vísindavef HÍ er spurningunni „Nota fornleifafræðingar á Íslandi málmleitartæki?“ svarað:

Málmleitartæki

Auðvelt er að finna fornminjar í jörðu með notkun málmleitartækja.

„Líklegt er að flestir fornleifafræðingar hafi haldið á málmleitartæki að minnsta kosti einu sinni, enda leitar fornleifafræðin mjög oft til annarra tækni- og vísindagreina þegar kemur að framþróun.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur.

Fornleifafræði er fjölbreytt fag, enda eru margar hliðar á hinu liðna. Fornleifafræðingar rannsaka allt frá sameindasýnum undir smásjá að samhengi milli bæja á lands- og heimsálfuvísu, og breytingar sem eiga sér stað yfir margar aldir. Fornleifafræðingar skrifa um atburði sem ýmsir aðrir fræðimenn tjá sig um – þá helst sagnfræðingar. En hvað greinir fornleifafræðinga frá öðrum fræðimönnum? Í stuttu máli má segja að rannsóknarviður þeirra sé venjulega einhvers konar efnismenning. Fornleifafræðingar túlka liðna atburði með tilliti til mannvistarleifa. Auðvitað þurfa þessar leifar ekkert endilega að vera fornar – aðferðafræði fornleifafræðinga geta oft sagt margt um nýliðna atburði.

Fornleifar

Minjafundur við uppgröft.

Það er mikilvægt að hafa hugtakið ‘aðferðafræði’ í huga þegar rætt er um fornleifafræði, enda safna fornleifafræðingar gögnum með mjög einkennandi aðferðum. Þá má helst nefna uppgröftinn sjálfan; þó eru til fjölmargar aðrar leiðir til að afla gagna um efnismenningu hins liðna.
Fornleifafræðingar grafa með ýmsum aðferðum, en þær eru allar ítarlegar og kalla á mikla teikni- og skráningarvinnu. Algengasta aðferðin (svokölluð single-context recording) krefst þess að öll jarðlög séu grafin í öfugri tímaröð, frá hinu yngsta til hins elsta.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Jarðlög eru aðskilin á þeirri forsendu að hægt sé að útskýra hluta efnis innan uppgraftarsvæðis sem afleiðingu einhvers konar atburðar. Slíkir atburðir geta varað í margar aldir eða nokkur augnablik; fornleifafræðingar reyna sjaldan að tjá sig um það. Mikilvægara er að geta raðað þessum atburðum í tímalinu – atburðarás frá nútímanum að órofnu jarðlagi sem sýnir engin ummerki um mannvist. Fornleifafræðingar reyna að skilja þessa atburðarás með því að fjarlægja hið yngsta fyrst, þar til engin mannvistarummerki eru sjáanleg lengur. Það er því alls ekki markmið fornleifauppgraftar að finna málmgripi sérstaklega – allur jarðvegur innan rannsóknarsvæðis er fjarlægður og skrásettur.

Málmleitartæki

Málmleitartæki.

Í stuttu máli er takmarkað gagn af málmleitartæki við fornleifauppgröft, en tækið bíður upp á rannsóknaraðferðir sem geta hæglega aflað gagnlegra upplýsinga um liðna atburði þegar aðstæður leyfa, þá helst við yfirborðsmælingar eða kortlagningu á uppblásnum svæðum.

Málmleitartæki nota segulsvið til að finna málmhluti á stuttu færi, sjaldan lengra en 40 cm. Sum greina einnig á milli ólíkra málma. Venjulega eru slík tæki notuð til að finna málmhluti undir yfirborði. Hvernig gæti slíkt tæki gagnast við fornleifauppgröft? Ef fjarlægja þarf yngstu jarðlög fyrst, þá er lítið gagn af vitneskju um gripi neðar í jarðveginum. Ef gripurinn situr í jarðlagi sem er eldra en hið yngsta óuppgrafna lag, þá er ekki tímabært að grafa hann upp. Ef hann tilheyrir yngsta óuppgrafna jarðlaginu, þá mun hann finnast við uppgröft, enda vanda fornleifafræðingar sig mjög við uppgröftinn.

Fornmunir

Fornmunur.

Einnig er vert að hafa í huga að vanalega er einfalt að sjá ummerki um málmhlut, þar sem tæring málms litar og breytir jarðveginum umhverfis málminn. Fyrir þær sakir er ekki algengt að sjá fornleifafræðinga nota málmleitartæki á uppgraftarsvæðum.
En hvað ef fornleifafræðingar sjá einfaldlega ekki málmgripinn við uppgröft? Þá endar hann væntanlega í fötu sem tæmd er í moldarhaug. Hér getur málmleitartækið komið að góðum notum, og hefur höfundur þessa svar séð slíkt tæki notað sem hálfgert öryggisnet til að ná málmhlutum sem fóru óvart á hauginn. Þó er slík notkun ekki algeng. Fornleifafræðingar nota frekar sigti til að forðast þetta, en sigtið gagnast að sjálfsögðu einnig til að finna mannvistarleifar sem ekki eru úr málmi, eins og viðar- og beingripi. Einnig bíður sigtið upp á mun ítarlegra öryggisnet en málmleitartækið, enda fer allur jarðvegurinn í gegnum sigtið.

Málmleitartæki

Sérsveit lögreglunnar með málmleitartæki að leit að „fornleif“ í jörðu við Austurgötu í Hafnarfirði.

Oft eru aðstæður óhentugar fyrir málmleitartæki. Málmleitartæki nema málmhluti á allt að 40 cm færi, ef stærð hlutarins leyfir. Einnig þarf að hafa í huga að málmur í bergi getur truflað tækið. Bergtegundir hafa iðulega eitthvað magn af járni, enda eru bergtegundir flokkaðar meðal annars af járnoxíðhlutfalli (FeO-hlutfall) þeirra. Blágrýti, algengasta bergtegundin á Íslandi, hefur hátt járnoxíðhlutfall.

Fornmunir

Vettvangur stríðsátaka er vinsæll meðal fólks.

Í ljósi þess mætti segja að tækið virki ekki vel nema mannvistarlög séu innan við 40 cm frá yfirborði og bergið dýpra. Þetta er ansi þröngur gluggi.
En málmleitartæki geta þó gagnast fornleifafræðingum við ákveðnar aðstæður. Gefum okkur að fornleifafræðingur vilji rannsaka bardaga þar sem skotvopn voru notuð. Líklegt er að skotárásir hermanna hafi skilið eftir mikið magn af skothylkjum. Hér gæti málmleitartæki komið sér vel til að kortleggja helstu átakasvæði bardagans. Connor & Scott telja að slíka notkun megi rekja til ársins 1958, þegar Ron Rickey kortlagði staðsetningu hermanna í bardögunum í Little Bighorn og Big Hole í Montana.

Málmleitar

Í leit að fornmunum með málmleitartæki.

Á Íslandi var notkun málmleitartækja lengi vel bönnuð. Þau voru gerð lögleg með nýjum menningarminjalögum sem tóku gildi 1. janúar 2013 (þó ekki hljóðalaust). Nýlega var málmleitartæki notað við rannsókn á mögulegri höfn við Vatnsfjörð í Ísafjarðardjúpi, og ekki kæmi á óvart þó tækið skjóti oftar upp kollinum hér á landi.
Í stuttu máli er takmarkað gagn af málmleitartæki við fornleifauppgröft, en tækið bíður upp á rannsóknaraðferðir sem geta hæglega aflað gagnlegra upplýsinga um liðna atburði þegar aðstæður leyfa, þá helst við yfirborðsmælingar eða kortlagningu á uppblásnum svæðum. Þó slík tæki hafi verið bönnuð lengi á Íslandi eru þau nú lögleg.“

Í Morgunblaðinu 23. október 2014 er fjallað um notkun málmleitartækja undir fyrirsögninni „Amast við fjársjóðsleit„.
Ekki gert ráð fyrir aðkomu áhugamanna að leit að fornminjum -Ekki lengur bannað að nota málmleitartæki en ekki má hreyfa við jarðvegi í leit að forngripum -Skylda að tilkynna um gripi.

Málmleitartæki

Áhugafólk við leit að fornminjum.

„Ekki er gert ráð fyrir aðkomu áhugamanna við leit að fornminjum í lögum um menningarminjar. Þeir geta leitað á yfirborðinu, til dæmis með málmleitartækjum, en mega ekki róta í jarðvegi til að fá svar við því hvort forngripir eru undir. Forstöðumaður Minjaverndar ríkisins veltir því fyrir sér hvort ekki ætti að gera ráð fyrir samstarfi við áhugafólk við þá stefnumörkun sem nú er framundan.

Málmleitartæki

Staffordshire-sjóðurinn í Englandi fannst með aðstoð málmleitartækis.

Fréttir berast oft af því frá nágrannalöndunum að áhugamenn um fornminjar hafi rambað á merka forngripi með notkun málmleitartækja. Áhugamenn hafa til dæmis fundið merka fjársjóði frá víkingaöld, bæði í Danmörku og Bretlandi.

Málmleitar

Derek McLennan með gripi sem hann fann með málmleitartæli.

Nýjasta dæmið er Skotinn Derek McLennan sem fann falinn fjársjóð frá víkingaöld í Dumfriesskíri í síðasta mánuði. Telja sérfræðingar þetta merkasta fjársjóð sem fundist hefur á Skotlandi. McLennan og félagar hans voru að leita með málmleitartækjum. Hann datt líka í lukkupottinn í fyrra þegar hann fann stærsta sjóð silfurpeninga frá miðöldum sem fundist hefur í Skotlandi.

Erfið samviskuspurning
Leit að forngripum er áhugamál fjölda fólks í nágrannalöndunum, ekki síst í Bretlandi. Þar eru reglur um slíka leit rýmri en á Norðurlöndunum og svipar til reglna í Bandaríkjunum. Íslenskar reglur taka mið af norrænum rétti þar sem þeir eru tortryggðir sem leggja það á sig að leita að forngripum. Óttast fornleifafræðingar að fólk hirði sjálft gripina og valdi tjóni á fornleifum. Þannig var almenningi bannað að nota málmleitartæki við fornleifarannsóknir en búið er að taka það ákvæði út úr íslenskum lögum.

Fornmunir

Gripir, sem Derek fann með aðstoð málmleitartækis.

Það nýmæli er í lögum um menningarminjar sem samþykkt voru á árinu 2012 að einungis þarf formlegt leyfi Minjastofnunar til að stunda fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér. Tilkynna þarf aðrar rannsóknir, þótt ekki sé grafið upp. Þá er það spurningin hvað maðurinn með málmleitartækið gerir þegar hann fær svörun um að eitthvað sé undir. Hann má ekki grafa eftir fornleifum. Hann má sjálfsagt grafa ef hann telur að undir sé járnadrasl yngra en 100 ára. Þetta hlýtur að vera erfið samviskuspurning.
Hitt er svo annað mál að fornleifafræðingar nota lítið málmleitartæki við rannsóknir sínar hér á landi. Hefðbundnari aðferðir henta þeim betur. Þá má geta þess að járninnihald bergs er hátt hér á landi og getur truflað tækin.

Málmleitartæki

Hægt er að greina sprengubrot með aðstoð málmleitatækja.

Málmleitartæki eru notuð við ýmislegt fleira en að leita að jarðsprengjum og silfursjóðum. Þau eru til sölu í verslunum, bæði tæki sem henta atvinnumönnum í framkvæmdum og áhugamönnum. Þau kosta frá fáeinum tugum þúsunda en draga þá skammt. Tæki eins og Skotinn var með kosta hér um 130 þúsund krónur, samkvæmt upplýsingum frá versluninni Íhlutum. Málmleitartæki er einnig hægt að fá leigð í áhaldaleigum. Hentugt getur verið að grípa til þeirra ef skartgripur hverfur í sandinn í Nauthólsvík.

Ekki margir sjóðir hér

Málmleitartæki

„Mesti og mik­il­væg­asti“ silf­ur­sjóður frá vík­inga­tím­an­um, sem fund­ist hef­ur í Bretlandi frá ár­inu 1840, verður sýnd­ur al­menn­ingi í London og York eða Jór­vík í næsta mánuði. Er hann tal­inn geta varpað nýju ljósi á þenn­an tíma.
Talið er, að auðugur maður og kannski vík­ing­ur hafi grafið hann í jörð í Norðimbralandi á 10. öld, lík­lega 927 eða 928, til að koma í veg fyr­ir, að hann félli í hend­ur Engil­söx­um en þeir tók­ust oft á um yf­ir­ráð yfir land­inu við vík­inga eða nor­ræna menn. Er sjóður­inn met­inn á rúm­lega millj­ón sterl­ings­punda, rúm­lega 205 millj­ón­ir ís­lenskra króna.
Pen­ing­arn­ir segja sína sögu:
Í sjóðnum er meðal ann­ars silf­ur­bik­ar, sem einn og sér er met­inn á meira en 40 millj. kr., 617 pen­ing­ar, hring­ar og óunnið silf­ur. Talið hef­ur verið, að á þess­um tíma hafi Stafford­skíri og Jór­vík­ur­skíri verið und­ir yf­ir­ráðum Engilsaxa en af sum­um pen­ing­anna má þó ráða, að nor­ræn­ir menn hafi þá verið að slá sína eig­in mynt á þess­um svæðum. Að öðru leyti voru pen­ing­arn­ir komn­ir víða að, frá Norður­lönd­um, meg­in­landi Evr­ópu, frá Tashkent í Úsbekíst­an og alla leið frá Af­gan­ist­an. Þykir það sýna vel hve menn­ing­ar­leg og efna­hags­leg tengsl við um­heim­inn voru mik­il á þess­um tíma.

Ekki eru miklar líkur á að stórir silfursjóðir liggi hér í jörðu. Það er ef til vill heppilegt fyrir fornleifaverndina. Freistingarnar eru minni. Mjöll Snæsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, nefnir þrjá sjóði frá síðustu öld en þeir fundust í Gaulverjabæ, Ketu á Skaga og Miðhúsum á Héraði. Sá síðastnefndi fannst 1980.

Fornmunir

Mynt sem fannst með málmelitartæki. Hún var slegin í Erkibiskupstíð Annós II er af gerð sem ekki hefur áður fundist eða þekkst.

Auk þess hafa fundist minni sjóðir og stakir silfurpeningar. Allir sjóðirnir fundust fyrir tilviljun, vegna einhverra framkvæmda. Gaulverjabæjarsjóðurinn hefur sérstöðu því hann er eini hreini peningasjóðurinn. Í honum eru um 350 peningar frá ýmsum löndum. Uppistaðan er enskir og þýskir peningar frá því um 1000 eða fyrr.
Mjöll segir það rökrétt að hér séu fáir sjóðir miðað við nágrannalöndin. Líklegt sé að fleiri sjóðir hafi verið grafnir þar sem fleira fólk bjó. Því má bæta við að faldir fjársjóðir hafa gjarnan verið tengdir hernaði. Menn hafi átt þá til að kaupa sig frá ófriði eða verið að fela fjármuni sína vegna hernaðar og síðan fallið sjálfir. Þótt oft hafi verið ófriður á milli höfðingja hér á landi var það þó talið friðsamt og ekki eins mikil ástæða til að fela sjóði og í nágrannalöndum þar sem barist var um yfirráð.

Silfur Egils eign ríkisins

Silfur Egils

Silfurpeningur, sem fannst á Þingvöllum.

Ef einhver dettur í lukkupottinn, til dæmis með því að finna silfur Egils Skallagrímssonar í Mosfellsdal, er sjóðurinn eign íslenska ríkisins og ber að tilkynna fundinn tafarlaust til Minjastofnunar og skila honum til Þjóðminjasafnsins. Raunar má ekki hagga kistunum, hvað sem kann að vera eftir af þeim, eða fjarlægja lausa hluti vegna þess að fornleifafræðingar vilja geta rannsakað ummerkin nákvæmlega. Áhugamaðurinn fær fleira en heiðurinn af fundi sjóðsins því hann á rétt á að fá greiðslu sem svarar til helmings af verðmæti hans og landeigandinn hinn helminginn.

Sjá meira um silfur Egils HÉR, HÉR og HÉR.

HÉR má sjá nýlega frétt um árangur leitar áhugamanns að fornminjum með málmleitartæki.
Málmleitartæki

Málmleitartæki

Þrátt fyrir ákvæði gildandi Minjalaga má lesa eftirfarandi á vefsíðu Minsjastofnunar [jan 2021]:
„Á Íslandi er almenningi ekki leyfilegt að nota málmleitartæki til að leita að fornminjum“.

Í sjónvarpsþætti RÚV um silfur Egils fullyrti forstöðukona Minjastofnunar að notkun málmleitartækja, annarra en fornleifafræðinga, væri óheimil, sjá HÉR. – Það er einfaldlega tómt bull.

fornmunir

Það er mikil íþrótt í Danmörku að fara um með málmleitartæki um lendur bænda sem það leyfa og leita að fjársjóðum.
Í Danmörku finna málmleitarmenn nú orðið flesta þá málmfundi og sjóði sem bitastæðir þykja í Danaveldi og víðar. Talið er að flestir hópar og klúbbar málmleitartækjamanna séu heiðarlegt fólk sem skilar af sér verðmætunum á tilheyrandi safn, sem síðan rannsakar fundarstaðinn þegar uppskeru á akri bóndans lýkur.
Lög í Danmörku, svokölluð Danefælov (Dánarfjárlög), sjá einnig til þess, að þeir sem sjóðina finna fái eitthvað fyrir sinn snúð.

Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk til að nota málmleitartæki við leit að fornminjum í jörðu. Bent skal á að ef slíkar finnast, ber þrátt fyrir allt, að tilkynna það til Minjastofnunar. Áhugasamir á Reykjanesskaganum geta einnig haft samband á netfangið ferlir@ferlir.is.

Heimildir:
-Þjóðminjalög. 2001 nr. 107 31. maí.
-Lög um menningarminjar. Lög nr. 80 29. júní 2012.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65813
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1528433/

Málmleitartæki

Málmleitartæki eru af ýmsum gerðum.

Kýrgil

Í síðustu ferð FERLIRs þar sem metnar voru aðstæður í Bæjargili og Kirkjugili í sunnanverðu Mosfelli kom fátt fram er bent gæti til þess að silfur Egils væri þar að finna. Gilin eru, og hafa væntanlega ekki verið, vænleg til fjárfelu.
NKýrgilú var kíkt á Kýrgilið, það austasta af þremur fyrrnefndum. Gilið er jafnframt það grynnsta og lengsta af þeim. Á bökkum þess og ofar eru gróningar undir og millum mela. Þegar komið var upp fyrir brúnir, í gróningana, sáust tvær mannvistarleifar. Sú fyrri virðist vera af fornu húsi, en það efra er torráðnara. Fuglasöngur fyllti lognið við undirspil gilslækjarins. Þegar komið var að efri mannvistarleifunum tók málmleitartæki, sem hafði verið með í för í öðrum tilgangi, vel við sér – lét jafnvel svo illum látum að ekki var komist hjá því að slökkva á því til að fá viðværunæði á vettvangi.
Reglugerð um þjóðmunavörslu (374/98) segir m.a. að „yfrborðskannanir (mælingar, myndun o.þ.h.), jarðsjármælingar, kannanir með málmleitartæki (eftir leyfi þjóðminjavarðar) og aðrar þær aðgerðir á fornleifasvæðum, sem ekki hafa í för með sér jarðrask, teljast ekki til fornleifarannsókna í merkingu 54. gr. og 1. mgr. þessarar greinar.“
Í Þjóðminjalögum (107/2001) segir í 16. gr. að „óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.“

Dularfull

Hér er reyndar um einstaklega þröngsýnt ákvæði að ræða, sett til að minnka líkur á að „einhverjir“ leiti að forngripum með málmleitartæki og „skjóti þeim undan“. Skynsamlegra væri að hvetja fólk til að nota málmleitartæki við leitir að forngripum – og að tilkynna um árangurinn. Í 19. gr. Þjóðminjalaga er t.a.m. hvati til þess að svo verði, sbr. að „nú finnst forngripur úr gulli eða silfri, þar á meðal gullpeningar eða silfurpeningar, og skal þá Fornleifavernd ríkisins meta málmverð hlutarins og leggja ofan á tíu af hundraði. Skal annar helmingur fjárhæðarinnar greiddur finnanda en hinn landeiganda…“
Í fyrsta lagi eru mjög litlar líkur á að forngripir finnist með hjálp tækjanna hér á landi (það hefur verið reynt af „sérfræðingum“) og í öðru lagi, ef slíkur gripur myndi finnast, þá má telja næsta öruggt að haft yrði samband við Þjóðminjasafnið, enda myndi hann verða lítt eigulegur hversdags og án allrar verðskuldugrar athygli. Fundurinn myndi áreiðanlega kalla á forvörslu og varðveislu, umleitan tengsla og samhengis og nánari uppljóstrun eða frekari upplýsingagjöf. Forngripir, sem finnast hér á landi, eru ekki í svo „eigulegu ástandi“ eða slíkt augnayndi að ástæða sé til að takmarka möguleika á fundi þeirra og þar með auknum líkum á almannayndi með framangreindu lagaómyndarákvæði.
TóftinMeð aukinni notkun málmleitartækja aukast hins vegar líkur á að eitthvað áhugavert finnist, sem ella myndi liggja óhreyft í jörðu og engu til gangs.
Annað ákvæði laganna (18. gr) kveður á um að „forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Fornleifavernd ríkisins fundinn svo fljótt sem við verður komið.“ Hér fara reyndar ákvæði laganna og raunveruleikinn lítt saman því varla er til verri stofnun en Fornleifaverndin til að annast móttöku slíkra tilkynninga. Hafa viðbrögð hennar hingað til frekar virkað fælandi en hvetjandi. Það eitt, umfram öll boð og bönn, dregur úr áhuga fólks á að tilkynna fundi, en eykur að sama skapi líkur á að munir skili sér ekki til opinberrar varðveislu.
Til að auka líkur á afrakstri fornleifakannanna hér á landi er nauðsynlegt að skapa sameiginlegan (vinsamlegan) vettvang fræðimanna og áhugafólks þar sem víðsýni, jákvæðni og skilningur ræður ríkjum.
Spurningin er hvort minjarnar á meðfylgjandi mynd, sem var tekin í ljósaskiptunum, gæti gefið til kynna hugsanlegan hvílustað þræla þeirra er Egill átti að hafa drepið eftir að hafa komið silfursjóð sínum fyrir á „öruggum“ stað? Stærðin gefur a.m.k. vísbendingu um tvöfalt mannvistarrými.
Frábært veður – sem og útsýni og hljómlist kvöldkyrrðarinnar.

Mos

Kýrgil

Einhverjum gæti þótt sveitarfélagsmerki Mosfellsbæjar tvírætt; tákn á annarri hlið ensks silfurpeningis frá 10. öld. Hvers vegna var ekki notað táknið á hinni hliðinni? Þessi spurning gæti þess vegna verið myndlíking margra annarra sambærilegra er vaknað gætu um sama efni – silfur Egils.

Mosfellsbær

Mosfellsbær.

Í 88. kafla Egilssögu segir að „Egill Skalla-Grímsson varð maður gamall, en í elli hans gerðist hann þungfær, og glapnaði honum bæði heyrn og sýn. Hann gerðist og fótstirður. Egill var þá að Mosfelli með Grími og Þórdísi.
Það var einn dag, er Egill gekk úti með vegg og drap fæti [hrasaði] og féll. Konur nokkrar sáu það og hlógu að og mæltu: „Farinn [þrotinn að kröftum] ertu nú Egill, með öllu, er þú fellur einn saman.“
Egill varð með öllu sjónlaus. Það var einhvern dag, er veður var kalt um veturinn, að Egill fór til elds að verma sig. Matseljan ræddi um, að það var undur mikið, slíkur maður sem Egill hafði verið, að hann skyldi liggja fyrir fótum þeim, svo að þær mætti eigi vinna verk sín.
Það var enn eitt sinn, er Egill gekk til elds að verma sig, þá spurði maður hann, hvort honum væri kalt á fótum, og bað hann eigi rétta of nær eldinum.
Það var um sumarið, er menn bjuggust til þingas, þá beiddi Egill Grím að ríða til þings með honum. Grímur tók því seinlega [dræmt]. Og er þau Grímur og Þórdís töluðust við, þá sagði Grímur henni, hvers Egill hafði beitt. „Vil ég, að þú forvitnist, hvað undir mun búa bæn þessari.“
Þórdís gekk til máls við Egil, frænda sinn. Var þá mest gaman Egils að ræða við hana. Og er hún hitti hann, þá spurði hún: „Er það satt, frændi, er [að] þú vilt til þings ríða? Vildi ég, að þú segðir mér, hvað væri í ráðagerð þinni.“
„Ég skal segja þér,“ kvað hann, „hvað ég hefi hugsað. Ég ætla að hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungur gaf mér, er hvor tveggja er full af ensku silfri. Ætla ég að láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast. Síðan ætla ég að sá silfrinu, og þykir mér undarlegt, ef allir skipta vel sín á milli. Ætla ég, að þar myndi vera þá hrundingur [ryskingar] eða pústrar [löðrungar] eða bærist að um síðir [kæmi til þess að lokum] að allur þingheimurinn berðist.“
Þórdís segir: „Þetta þykir mér þjóðráð, og mun uppi, meðan landið er byggt.“
Síðan gekk Þórdís til tals við Grím og sagði honum ráðagerð Egils.
„Það skal aldrei verða, að hann komi þessu fram, svo miklum firnum.“
Og er Egill kom á ræður við Grím um þingferðina, þá taldi Grímur það allt af, og sat Egill heima um þingið. Eigi líkaði honum það vel. Var hann heldur ófrýnn.
Að Mosfelli var höfð selför [haft í seli] og var Þórdís í seli um þingið. Það var eitt kveld, þá er menn bjuggust til rekkna að Mosfelli, að Egill kallaði til sín þræla tvo, er Grímur átti. Hann bað þá taka sér hest – „vil ég fara til laugar.“ Og er Egill var búinn, gekk hann út og hafði með sér silfurkistur sínar. Hann steig á hest, fór síðan ofan eftir túninu fyrir brekku þá, er þar verður, er menn sú síðast.
En um morguninn, er menn risu upp, þá sáu þeir, að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.
En hvorki kom aftur síðan þrælarnir né kisturnar, og eru þar margar gátur á, hvar Egill hafði fólgið fé sitt.
Silfur Egils
Fyrir austan garð að Mosfelli gengur gil ofan úr fjalli, en það hefir orðið þar til að merkja [vísbendingar], að í bráðaþeyjum [asahláku] er þar vatnfall mikið, en eftir það er vötnin hafa fram fallið, hafa fundizt í gilinu enskir peningar. [Skv. þessu hefur þegar verið farið að finnast af silfri Egils fyrir miðja 13. öld. Heimild er til frá öndverðri 18. öld um, að enskir silfurpeningar hafi fundist hjá Mosfelli eftir vatnavexti. Virðist áletrun þeirra hafa bent til Ólafs Skotakonungs. Sjá Kristján Eldjárn: Gengið á reka, Akureyri 1948, bls. 96-196]. Geta sumir menn þess, að Egill muni þar féð hafa fólgið. Fyrir neðan tún að Mosfelli eru fen stór og furðulega djúp. Hafa það margir fyrir satt, að Egill muni þar hafa kastað í fé sínu. Fyrir sunnan ána eru laugar og þar skammt frá jarðholur stórar, og geta þess sumir, að Egill mundi þar hafa fólgið fé sitt, því að þangað er oftlega sénn [séður] haugaeldur. Egill sagði, að hann hefði drepið þræla Gríms, og svo það, að hann hafði fé sitt fólgið, en það sagði hann engum manni, hvar hann hefði fólgið.
Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana. En er hann var andaður, þá lét Grímur færa Egil í klæði góð. Síðan lét hann fytja hann ofan í Tjaldanes og gera þar haug, og var Egill þar í lagður og vopn hans og klæði.“
Í 89. kafla sögunnar segir að „Grímur að Mosfelli var skírður, þá er kristni var í lög leidd á Íslandi. Hann lét þar kirkju gera. En það er sögn manna, að Þórdísi hafi látið flytja Egil til kirkju, og er það til jarðtegna að síðan er kirkja var ger að Mosfelli, en ofan tekin að Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður. En undir altarisstaðnum, þá fundust mannabein. Þau voru miklu meiri en annrarra manna bein. Þykjast menn vita að sögn gamalla manna, að mundi verið hafa bein Egils.
Þar var þá Skafti prestur Þórarinsson [var uppi á fyrri hluta 12. aldar], vitur maður. Hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn. Var hausinn undarlega mikill, en hitt þótti meir frá líkindum [með meiri ólíkindum], hve þungur var. Hausinn var allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins. Tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum [skalli á öxi] á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom, hvítnaði hann, en ekki dalaði [dældaðist] né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskaddur [auðskemmdur] fyrir höggum smámennis, meðan svörður [hársvörður] og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.“
Faðir Egils, Skallagrímur Kveldúlfsson, var norskur. Hann kom til Íslands nokkru fyrir aldamótin 900. Skallagrímur fæddist árið 863 og ólst upp á bæ föður síns og Salbjargar, konu hans, í Firðafylki í Noregi. Átti Skallagrímur einn bróður, Þórólf, sem er talinn vera 5 árum eldri.
Skallagrímur var ljótur maður, dökkur á brún og brá, berserkur mikill og skáld. Eiginlega hét hann bara Grímur en þegar hann var hálfþrítugur að aldri var hann orðinn nauðasköllóttur og fékk því viðurnefni sitt. Undir nafninu Skalla-Grímur er hann þekktastur. Þau eignuðust synina Þórólf (f. 900) og Egil (f. 910) en á milli þeirra eru dæturnar Sæunn og Þórunn. Auk þess átti Egill eina fóstursystur, Ásgerði.
Á fyrstu uppvaxtarárum Egils kemur það strax í ljós að honum muni svipa mikið til föður síns, þ.e. verða mjög ljótur, svartur á hár, dökkur yfirlitum en mjög öflugur að vígi og geysilega sterkur. En annað var með bróður hans sem var mjög myndarlegur og mikill „glansgæi“ og allstaðar velkominn. Snemma kemur upp öfund Egils í garð Þórólfs.
Þegar Egill er 17 ára fer hann í sína fyrstu utanferð með Þórólfi, bróður sínum, eftir þónokkrar erjur við bróður sinn og föður. Egill og Þórólfur verða mjög nánir á ferðalögum sínum og tekst með þeim mikill bróðurkærleikur. Það verður honum því mikill missir þegar Þórólfur deyr í fyrrnefndri orrustu Aðalsteins konungs við smákonunga á Bretlandi.
Í Egilssögu er sagt frá því, er að framan greinir, að Egill Skallagrímsson hafi eytt síðustu æviárum sínum í Mosfellsdal en talið er að hann hafi látist um árið 990.
Til eru ýmsar kenningar um fyrirkomleika silfursjóðs Egils. Telja verður ólíklegt að Egill hafi leikið sér að því að koma honum fyrir á stað, sem hann hefði ekki getað nálgast hann aftur, s.s. í heitri laug eða hyldjúpu dýi. Þá er gilið líklegri staður, enda hafa þar fundist enskir silfurpeningar eftir leysingar.
Annar möguleiki er sá að þrælarnir, væntanlega fullfrískir og burðarlegir, hafi einfaldlega látið sig hverfa með kisturnar tvær, enda Egill þá aldraður bæði orðinn sjóndapur og fótafúinn. Eflaust hefur þrælanna verið leitað, enda gætu þeir verið vísbending um felustaðinn, en hvergi er getið um að leifar þeirra hefðu fundist. Ólíklegt má telja að gamli maðurinn, heilsulaus og verkfæralaus, hafi haft tök á því að dysja þá eða hylja svo gjörsamlega.
Líkleg skýring á ástæðu þess að Egill hafi viljað grafa sjóð sinn er sú að eigandinn hafi trúað því að ef sjóðinum yrði komið í jörðina fyrir dauða sinn myndu fjármunirnir nýtast honum í öðru lífi. Einnig gæti skýringin verið sú að honum hafi sárnað skyndilega og því ekki viljað að þau sem ollu því fengju að njóta verðmætanna. Fleiri skýringar koma og til greina.
Bjarki Bjarnason í Mosfellsdal segir þetta vera flókið mál sem hann hafi hugsað mikið um. „Fyrsta spurningin er: Hvar stóð Mosfellsbærinn á dögum Eglis? Stóð hann þar sem Hrísbrú er núna? Þar hafa fundist leifar af kirkju. Gilið næst Hrísbrú hefur verið kallað Bæjargil, gilið hjá kirkjunni heitir Kirkjugil en gilið vestan við mig heitir Kýrgil.“
Í bókinni „Gengið á reka“ – tólf fornleifaþættir, eftir Kristján Eldjárn er einn þátturinn um „Kistur Aðalsteins konungs. Þar segir að „tveir íslenskir bóndasynir, Þórólfur Skallagrímsson frá Bogr og Egill bróðir hans, þá um það bil 27 ára að aldri“, hafi verið með „Aðalsteini Játvarðssyni Englakonungi er hann háði stórorustu sína við Ólaf kvaran Sigtryggsson og bandamenn hans við Brunnanburg eða Vínheiði, eins og sá staður er kallaður í Egils sögu“. Þórólfur féll í orustunni. Þetta gerðist árið 937. [Fimm skoskir konungar í blóma lífsins og sjö jarlar lágu í valnum. Aðalsteinn, eða Athelstan of Wessex, innleiddi Northumbria í ríki sitt og stýrði sameinuðu Englandi til dauðadags 27. október 939, eða tveimur árum eftir atburðina á Vínheiði.]
„Aðalsteinn efni til mikillar veislu eftir sigurinn á Vínheiði.“ Egill settist þar niður, brúnaþungur mjög. Konungur „tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu í bug hringnum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti…
Eftir það lét konungur bera inn kistur tvær; báru tveir menn hvora; voru báðar fullar af silfri. Konungur mælti: „Kistur þessar, Egill, skaltu hafa, og ef þú kemur til Íslands, skaltu færa þetta fé föður þínum; í sonargjöld sendi ég honum; en sumu fé skaltu skipta með frændum ykkar Þórólfs, þeim er þér þykja ágætastir“.
„Á þennan hátt komust silfurkistur Aðalsteins konungs til Íslands. En það var Egill, sem tók silfrið undir sig einan og sýndi aldrei neinn lit á að skipta því, hvorki við föður sinn né aðra menn. ekki kallaði Skallagrímur heldur eftir fénu, fyrr en hann fann feigð á sér og fór að hugsa til að grafa fémuni sína í jörðu, en þann sið virðast Mýramenn hafa haft, rétt eins og menn gera erfðaskrá sína nú á dögum. Ekki vildi Egill lausar láta kisturnar, enda var Skallagrímur ekki blankari en svo, að kvöldið fyrir dauða sinn gat hann lagt inn í Krumskeldu kistu vel mikla og eirketil, hvort tveggja fullt af silfri.“
Egill „mun vera fégjarnasta skáld, sem uppi hefur verið á Íslandi, og mundu hafa orðið illt verk að deila við hann skáldastyrk, ef sú hefði verið öldin á hans dögum. Í sögu hans eru raktar fjáröflunarferðir hans víða um lönd, enda varð hann stórauðugur…
En ást þá, er Egill hafði haft á Þórólfi, lagði hann að nokkru leyti á silfurkisturnar, bróðurgjöldin. Þeirra gætti hann með afbrýðissemi og tortryggni og hafði jafnan með sér á ferðum sínum. Er engu líkara en hann hafi snemma ætlað sér eitthvað sérstakt með þetta silfur, að það skyldi koma eftirminnilega við sögu hans, lífs og liðins. Það voru þessir peningar, sem hann ætlaði að sá um Þingvöll í þeirri von, að þar mundu verða hrindingar eða pústrar eða jafnvel að allur þingheimur berðist.“ [Einnig gæti Egill hafa viljað varðveita sjóðin til minningar um atburðina á Vínheiði sem og samvista hans við Aðalstein Englakonung, sem dó einungis tveimur árum eftir að hann gaf frá sér sjóðinn].
Frásögnin um hvað varð um silfur Egils „sýnir, að fólki í Mosfellssveit hefur snemma orðið skrafdrjúgt um silfur Egils og jafnvel gert skipulegar tilraunir til að finna það. Mikið má það vera, ef sá hefur verið margur þar í sveit, er saklaus sé af því að hafa einhvern tíma dreymt stóra drauma um að finna þetta silfur, enda þóttust menn sjá loga upp af því fram á 19. öld. Og munnmæli herma, að ekki hafi allir verið jafnóheppnir, eins og eftirfarandi saga sýnir: „Þverárkot heitir bær einn í Mosfellssókn. hann stendur norðanvert við Leirvogsá, á bak við Mosfell austanhallt, sunnan undir Esjunni, skammt vestar en Svínaskarð er. Einn góðan veðurdag um vorið fór Þverárkotsbóndinn og fólk hans til kirkju að Mosfelli. En kirkjuvegur frá Þverárholti liggur um austanhallann á Mosfelli og yfir Kýrgil ofarlega. Þegar að gilinu kom, veik bóndi sér lítið eitt upp með því til að gegna nauðsynjum sínum, en fólkið hélt áfram götuna. Þegar bóndi náði því, varð vinnumaður hans þess var, að hann var moldugur á handleggnum, og spurði, hví svo væri. Bóndi svaraði fáu og vildi ekkert um það tala: féll þetta svo niður. Heim varð bóndi samferða fólki sínu og gekk til rekkju um kvöldið eins og aðrir. En um nóttina á hann að hafa leynzt einsamall frá bænum og komið afur með morgninum. Segja menn, að hann hafi fundið peningana í kirkjuferðinni, en sótt þá og komið þeim undan um nóttina. Átti bóndi þessi síðan að hafa skipt silfri þessu við Jón Ólafsson ríka í Síðumúla fyrir gjaldgenga peninga. Er sagt, að bóndi hafi á fám árum orðið ríkur í Þverárkoti, og á því er peningafundurinn helzt byggður.“
Þessi saga er í venjumegum þjóðsagnarstíl, og skal ekki fjölyrða um hana. En hún sýnir, hvert hugurinn stefndi. Séra Magnús Grímsson, þjóðsagnasafnarinn, sem prestur var að Mosfelli 1855-60, hafði hins vegar fræðimannlegan áhuga á þessu efni og hugsaði mikið um, hvar Egill hefði fólkið fé sitt…
Hér skal sagt frá smáatviki, sem styður fastlega allt í senn, að Egill hafi átt enskt silfur, að hann hafi grafið það í jörð á Mosfelli og að eitthvað af þessu silfri kunni að hafa fundizt þar í gili.
Ritari Árna Magnússonar, Jón Ólafsson frá Grunnavík, hefur látið eftir sig rit um fornleifar, og þar er að finna eftirfarandi frásögn um silfrið á Mosfelli: „Erlendur sýslumaður, bróðir minn, þá hann var ungur þénari Erlendar Magnússonar, skólameistara í Skálholti, hefur sagt mér, að hér um annó 1725 hafi í vatnavöxtum spýtt fram nokkrum þeim silfurpeningum svo fundizt hafi hé rum þrír, og hafi hann á nefndum tíma séð einn þeirra að vísu. Sagði hann peningur sá hefði verið á stærð sem tískildingur heill vorra tíma og hefði staðið á honum nokkuð krasslegt og ómerkilegt letur, kannske ANSLAFR eða þvílíkt með fleiri bókstöfum“. Þessir peningar, sem um er að ræða, fundust á Mosfelli og voru taldir vera úr kistum Egils. Jóni hefur þótt fundurinn merkilegur, því að hann getur hans einnig í öðru riti.
Peningur sá, er hér um ræðir, hefur verið sleginn fyrir Ólaf kvaran Sigtryggsson, líklega árið 937, árið sem Egill barðist á Vínheiði. Sigtryggur faðir hans hafði verið konungur í Dyflinni á Íralndi, en flúið þaðan árið 920. Hann dó árið 926 eða 927. Ólafur flýði til Írlands eftir ósigurinn fyrir Aðalsteini, eins og fyrr segir. Hann var óþreytandi að gera peninga. Jafnskjótt og hann hafðináð einhverjum lítils háttar völdum, lét hann myntara taka til peningagerðar. Fundist hafa á Bretlandseyjum margir silfurpeningar hans, er hann lét slá á Englandi, og bera þeir þrenns konar áletranir, sem hver samsvarar séstöku tímabili ís tjórn hans. Á hinum elztu stendur ANLAF CVNVNC, en hinum yngri ANLAF REX (TIUS) B(RITANNAIAE), þ.e. Ólafur konungur alls Bretlands, og ONLAF REX. Telst myntfræðingum svo til, að seinasta gerðin muni vera frá ca. 948-52, önnur frá 941-44, en hin elzta, sem ber norræna nafnið cvnvnc, þ.e. konungur, frá þeim örskamma tíma, er Ólafur sat í Jórvík fyrir orsutuna við Brunanburg 937, ellegar 926 eða 027, ef nokkur fótur væri því, að hann tæki Jórvík þá. Þó hallast enskir myntfræðingar yfirleitt að því, að peningarnir með ANLAF CVNVNC séu slegnir í Jórvík 937.
Líkindin eru svo mikil, að jafngildir fullri sönnun. Á 18. öld var myntsaga víkinganna á Englandi lítt sem ekki kunn, og hvorki Jón Grunnvíkingur né nokkur annar Íslendingur gat þá haft hugmynd um, að Ólafur kvaran hefði látið slá mynt á Rngalndi, og enn síður vissu þeir, að Ólafs nafn var Anlaf fyrir vestan haf, og loks gat þeim ekki komið til hugar að blanda Ólafi kvaran í þetta mál, því að þeir vissu ekki, að Ólafur rauði Skotakonungur, sem sagan kallar svo, væri í rauninni Ólafur kvaran… Það var handhægt fyrir Aðalstein að greiða Agli bróðurgjöldin með þessu nýfengna, hertekna silfri. Að líkindum hefur konungi verið Ólafssilfrið útfalara en silfur það, sem slegið var fyrir sjálfan hann, lögmæt ríkismynt með nafni hans. Ef til vill hefur höfðingsskapur hans gagnvart hinum erlenda sveitamanni ekki verið eins heiður og kistustærðin benti til.
Mörgum mun eflaust sýnast, að Ólafspeningurinn frá Mosfelli sanni, að sagan um silfurkistur Aðalsteins konungs og Egil Skallagrímsson sé sönn, hafi gerzt í raun og veru, eins og sagan segir.
Mörgum hefur ekki auðnazt að komast til meiri þroska en það, að þeim finnst sagan önnur og ómerkari, ef hún er skki sönn. Og þeim er vorkunn.“
Allt frá bernsku var Egill mikill ofsamaður. Hann vildi ekki láta segja sér fyrir verkum eins og kemur mjög vel fram þegar Skalla-Grímur, faðir Egils, drap ambáttina Brák, sem var í uppáhaldi hjá Agli. Egill tók þessu afar illa og gekk svo langt að drepa besta vin föður síns, sem jafnframt var húskarl hans.
Snemma koma skáldeiginleikar Egils í ljós og ljóðin og braghendingar hans voru eitt helsta tæki hans til tjáningar. Hvor Egill hafi verið tilfinningaskertur eða ekki verður seint eða aldrei vitað. Vísir að tilfinningum í garð kvenna kom ekki í ljós fyrr en Egill var kominn á þrítugsaldurinn. Þá giftist Þórólfur, bróðir Egils, Ásgerði, sem Egill hafði þekkt í fjölda ára og var mjög hrifinn af.
Egill var berserkur sem þýðir að hann komst í trylltan bardagaham þegar mest á reyndi. Þessi karlmannlegi eiginleiki Egils fylgir honum allt til dauðadags og er hann einmitt einna frægastur fyrir líkamlegt atgervi sitt, sem og bragsnilli sína.
Sem gott dæmi um hversu mikill víkingur hann var er að hann taldi víkingaferð ekki vel heppnaða nema hann næði í fúlgu fjár og dræpi sem flesta.
Það einkennir persónu Egils alla hans ævi hversu fégráðugur og lítt gjafmildur hann er. Hann reynir ávallt af fremsta megni að krækja í þá aura sem hann mögulega getur náð í, hvort sem hann eignast þá á heiðarlegan hátt eða með drápum og svikum.
Í 88. kafla Egils sögu segir að „En um morguninn, er menn risu upp, þá sáu þeir, að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn; fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.
En hvorki kom aftur síðan þrælarnir né kisturnar, og eru þar margar gátur á, hvar Egill hafi fólgið fé sitt. Fyrir austan garð að Mosfelli gengur gil ofan úr fjalli; en það hefir orðið þar til merkja, að í bráðaþeyjum er þar vatnfall mikið, en eftir það er vötnin hafa fram fallið, hafa fundist í gilinu enskir peningar; geta sumir menn þess, að Egill muni þar féð hafa fólgið.“
Gilið „austan garðs að Mosfelli“ er Kýrgilið. Það ku geta leikið illum látum í leysingum. Það er því eðlilegt að athygli fólks, sem leitar silfur Egils, beinist þangað. En það að Egill „hvarflaði á holtinu fyrir austan garð“ segir ekkert um að hann hafi falið sjóð sinn í gilinu. Þar er um hreina ágiskun manna að ræða. Peningafundir í „gilinu“ hafa ýtt undir hana.
Ljóst má vera að Egill hefur falið silfurkistur sínar. Ef þrælarnir hefðu stungið af með þær hefði það haft sögulegan eftirmála, líkt og varð með þræla Hjörleifs. Egill hefur líklegast komið þeim fyrir, a.m.k. tímabundið, innan seilingar frá Hrísbrú. Svo kærkominn var honum sjóðurinn og svo vandlega hafði hann gætt hans að hann hefur áreiðanlega ekki viljað gefa hann frá sér með öllu. Egill þekkti gilin og vissi hvernig þau létu.
Gilin í sunnanverðu Mosfelli eru sárindi bólstrabergs og móbergs. Barmar þeirra eru smámulningur bólstra- og brotabergs. Fallegar klettamyndanir eru í þeim, en fáir aðgengilegir felustaðir. Ofan giljanna er berangur og melar. Í efstu hlíðum eru mosar og stærra grjót á köflum.
Grónasta gilið er Kýrgil. Fallegir hvammar og gróningar eru með því svo til upp á fjallsenda. Á austurbarmi þess mótar fyrir a.m.k. tveimur litlum tóftum eða öðrum torráðnum mannvirkjum. Auðvelt er að fara með hest upp með gilinu, allt til enda.
FERLIR hefur kannað aðstæður á og við Mosfell. Til að ganga úr skugga um og kanna einn líklegasta staðinn nálægt Mosfelli verður ekki hjá því komist að halda inn í umrætt gil – og þá enn lengra upp með því.

Heimild:
-Egilssaga – Skálholt 1967, bls. 349-354.
-Kristján Eldjárn – Gengið á reka – Kistur Aðalsteins konungs – 1948, bls. 97 – 106.
-http://www.fva.is/harpa/forn/egils/person/aevi.html
-Mbl.is – 22. nóvember 2000 –  Tilvísun í silfur Egils.

Fornleifauppgröftur