Tag Archive for: sjóbúð

Herdísarvík

Þorvaldur Thoroddsen fjallar um „Ferðir sínar á Suðurlandi sumarið 1883“ í Andvara 1884. Hér segir af aðbúnaði vermanna í sjóbúðum í Selvogi og víðar á sunnanverðurm Reykjanesskaganum, sem og ágangi tófunnar, sem fæstir virtust sýna athygli þrátt fyrir ærið tilefni:

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

„Selvogur er allmikið fiskipláss, þó æði sje þar brimasamt og skerjótt fyrir landi; graslendi er sáralítið, en beit allgóð í heiðunum; sandfok gjörir mikinn skaða, enda er lítið gjört til að hepta það, nei, pvert á móti, melgrasið er rifið upp og notað í meljur, og lyngið og víðirinn í heiðunum er rifinn í eldinn, og svo blæs náttúrlega hinn sendni jarðvegur allur í sundur, og þaðan fýkur svo yfir betri blettina. Það er hjer sem víða annarstaðar á Íslandi, par sem land gengur úr sjor, að það er mest mönnunum að kenna; hugsunarleysi og stundarhagnaður hafa gjört landinu mikinn skaða. Víða má sjá, að miklu meid byggð hefir verið í Selvogi fyrrum; stórkostlegar garðhleðslur sjást því nærri alstaðar í sandinum, en nú er par allt blásið upp, og ekkert stingandi strá; mest kveður að þessum garðhleðslum fram með ströndinni milli Strandakirkju og Vogsósa, og nálægt kirkjunni eru rústir og garðar af bænum Strönd, sem fyrir löngu er kominn í eyði.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1884.

Strandakirkja, sem svo margir heita á, stendur nú ein fjarri byggð á kringlóttum grasfleti (kirkjugarði), sem vindurinn hefir rifið sandinn frá, svo hátt er niður af honum til allra hliða, en enginn garður í kring. Fyrir framan Hlíðarvatn er sandrif og fellur sjór inn í vatnið um ósa hjá Vogsósum, en í útsynningi skefur sandinn svo upp af grandanum, að ósinn fyllir, svo þar verður þurrt; vatnið er því alltaf að grynnka að framanverðu og að austanverðu, en vestanmegin jetur það sig alltaf meir og meir inn í hraunið; tveir hólmar kváðu hafa verið í því, Hlíðarhólmi og Strandarhólmi, sem eru nú horfnir.

Hlíðarvatn

Horft á Hlíðarvatn úr Hlíðarskarði.

Á Vogsósum er töluverð selveiði. Bygging er mjög ljeleg í Selvogi, eins og í Grindavík, og allt öðruvísi en í verstöðunum norðan á nesinu. Í sjóplássum þessum sunnanfjalls liggja vermenn í sjóbúðum, og eru flestar þeirra miklu líkari peningshúsum en mannahíhýlum. Vanalega eru stein- og torfbálkar beggja megin, og á þeim reistar stoðir upp í ræfrið; milli stoðanna hafa sjómenn flet sín, en á stoðirnar hengja þeir skinnklæðin. Sumstaðar er lítil skvompa fyrir endanum, og er hún kölluð »kór«. Þar hvílir vanalega einhver hálfdrættingurinn. Mismunur er náttúrlega á því, hve hreinlega er um gengið í búðum þessum, en sumstaðar er það fremur sóðalegt, eins og við er að búast, þar sem svo mörgum mönnum er kasað saman; gluggar eru vanalega engir, nema lítil vindaugu með rúðubroti í; verður loptið því eigi gott. ef ekki er haft því meira hreinlæti, þar sem allt hlandast saman: svitalyktin af fólkinu og lyktin af grútmökuðum skinnklæðum. Betur færi, að menn færi að leggja þessar sjóbúðir niður, en höguðu heldur til eins og í sjóplássunum norðan á nesinu.

Tófa

Tófa.

Það stendur sauðfjárrækt mjög fyrir þrifum í þessum byggðarlögum, hve tóur eru fjarska algengar; í hraununum eru svo óteljandi holur, að mjög illt er að vinna grenin, enda er víðast lítið gjört að því; frá Vogsósum hefir nú á seinni árum verið töluvert unnið af grenjum, on það er til lítils gagns, úr því nábúarnir ekkert gjöra. Í sumum sveitum á Reykjanesi drepur tóan nærri hvert lamb, þannig t. d. í Höfnum, og þó eru menn svo rænulausir, að engin samtök oru gjörð til að eyða þessum ófögnuði.
Tvisvar í sumar reið jeg á förnum vegi fram á tóur, sera voru að drepa kind. Tóurnar eru líka víða svo spakar, að þær hlaupa um eins og hundar, og horfa grafkyrrar á ferðamenn, sem um voginn fara.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.04.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls 21-24.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.