Tag Archive for: sjóklæði

Sjóklæði

„Skinnklæði voru notuð hér á landi allt frá landnámsöld og þá sérstaklega á sjó.
Vanalega var um að ræða stakk og brók auk höfuðfats og vettlinga. Þrjár gerðir voru af stökkum og fólst munurinn sjoklaedieinkum á ermunum. Þeir voru úr sauðskinni, missíðir, og náðu flestir undir mið læri. Ærskinn þótti best í brækur en kálfskinn var oftast laft í bakið og rassinn. Brækurnar voru þrenns konar og var mismunurinn einkum fólginn í gerð fótabúnaðar. Við skálmarnar á einni gerðinni voru áfastir leðurskór en við hinar voru hafðir sérstakir sjóskór. Nauðsynlegt var að binda snæri þétt utan um skinnklæðin, um mitti og klof, til þess að brækurnar fylltust ekki af sjó þegar þannig stóð á. Einnig var bundið ofan við úlnliði. Af sjóvettlingum, sem voru úr ull, þurfti þrjú til sex pör yfir vertíðina. Höfuðfat var fyrrum hetta en hattur í einni tíð. Um 1870 voru sjóhattar mestmegnis innfluttir úr ferniseruðu lérefti og oftast gulir. Notkun skinnklæða var víðast hætt á tímabilinu 1870-1935.
Samkvæmt alþýðutrúnni var sjómaður í skinnklæðum friðhelgur svo að ekki mátti leggja hendur á hann þótt hann hefði unnið óbótaverk.“

„Sjóklæði höfðu allir vermenn, þótt þau væru allmisjöfn að gæðum, og jafnvel lítt held hjá sumum. Öll voru sjóklæði í þann tíma gjörð úr skinni. Sterk sauðskinn voru oftast notuð í hvorttveggja, brók og stakk, nema í setskautann á brókinni var ætíð haft kálfskinn. Skinn þau, sem notuð voru í sjóklæði, voru oftast brákelt, áður þau skyldu sniðin og saumuð. Aðferðin við að brákelta skinn var á þann veg: Stórt hrútshorn var tekið og borað gat á það í báða enda. Síðan var sterkum spotta bundið í hornið, svo að við myndaðist lykkja. Var hornið síðan hengt upp á bæjarþilið, eða einhvern annan hentugan stað. Fyrst voru skinnin sett í dall með vatni í, og bleytt vel og síðan tekin upp úr og slegin með tréspaða. Loks byrjar brákunin. Hvert skinn var tekið og dregið, upp og niður í hrútshornið, þar til það þótti nægilega elt. Hélzt þessi brákunaraðferð á Snæfellsnesi nokkuð fram yfir miðja 19. öld. Líklegt þykir mér, að orðið brákun, sem haft er um verknað þann, er áður er greindur, stafi hér af því, að sumstaðar var sagt jöfnum höndum, að bráka og keipa færi. Skinnið var dregið upp og niður í hrútshorninu, líkt og færið í vaðbeygjunni á borðstokknum. Stakkur niður á mið lafri og brók, gyrt um mitti, með þykkum nautsskinnsskóm, bundnum á rist, utan yfir á fótum, voru öll sjóklæðin. Snæri var dregið í hálsmál stakksins, með tréstubb á hvorum enda, hálsmálið dregið saman og bundið við. Einnig voru snæri aftan á ermum stakksins á hvorum niðurhandlegg, og þeim vafið um hann. Voru bönd þessi nefnd hálsbjargartígull og handtíglar. Vermenn báru nýtt lýsi á sjóklæði sín, þegar þau slitnuðu, svo þau mætti betur verjast leka. Er þess getið, að eigi hafi það aukið á ilmandi þef sjóklæðanna.

Veiðarfærin, sem vermenn notuðu, voru lítiltæk og fábrotin. Enginn vermaður mátti þó koma svo til skips, að hann hefði eigi með sér góðan öngul, línur, ásamt vaðsteini, byrðaról og fiskihníf. Byrðarólin var gjörð úr sterkri línu með tréklossa á öðrum enda, en alllanga nál úr eik eða hvalbeini á hinum.“

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 60. árg. 1998, bls. 46-47.
-Blanda, 6. bindi 1936-1939, 19-20. hefti, bls. 136-137.

Sjóklæði

Sjómenn í vör.