Tag Archive for: Sjónarhóll

Vatnsleysutrönd

Á 20. öldinni urðu miklar breytingar á mannlífi, híbýlum, verfærum og atvinnuháttum á Íslandi.

Ásláksstaðir

Nýibær – Farmal í forgrunni.

Um aldamótin 1900 voru t.d. u.þ.b. helmingur húsa í Reykjavík úr torfi og grjóti, önnur hús voru úr timbri sem og einstaka steinhlaðin. Bílar og dráttarvélar þekktust ekki. Fólk ferðaðist um á milli staða fótgangandi, á hestum eða hestvögnum undir lok aldarinnar. Hér er ætlunin að lýsa u.þ.b. eitt hundrað ára tímabili í aðstæðum og staðháttum á bæjum Vatnsleysutrandar, m.a. með hliðsjón af þeim breytingum sem þar hafa orðið. Til viðmiðunar er t.d. notuð túnakort tveggja bæja; Hlöðuness og Ásláksstaða frá árinu 1919 í samanburði við uppfært túnakort af sömu bæjum árið 2024. Á kortunum má glögglega sjá hinar miklu breytingar sem þar hafa orðið á mannvirkjum á ekki lengri tíma.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – túnakort 1919.

Haustið 1894 hafði Björn Þorláksson frá Munaðarnesi, Mýrasýslu, farið til Noregs þar sem hann keypti sláttuvél og rakstrarvél fyrir búnaðarskólann á Hvanneyri. Það munu hafa verið fyrstu heyvinnuvélarnar sem komu til landsins. Fyrstu heyvinnuvélarnar, sláttuvélar og síðan rakstrarvélar, bárust hingað rétt fyrir aldamótin 1900 og eftir því sem meira var sléttað af gömlu túnunum og nýræktir bættust við breiddist þessi vélanotkun út. Víða nýttust sláttuvélarnar einnig vel á sléttum engjum.
Þessar nýmóðis vélar var í fyrstu beitt fyrir hesta, en eftir að fyrsta fyrsta dráttarvélin var keypt til landsins vorið 1926 tók hún smátt og smátt við af hestaflinu. Líklega er rakstrarvél það vinnutæki sem hestum var hvað síðast beitt fyrir hérlendis. Með tilkomu dráttarvélanna lærðu bændur í fyrstu að aðlaga gömlu heyvinnuvélarnar að þeim, en upp frá því óx tæknivæðingin hröðum skrefum.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Dráttarvélavæðingin náði þó til fæstra grasbýla og þurrabúða á Vatnsleysutrönd því hvorutveggja fór að mestu í eyði um aldamótin 1900. Eftir tórðu enn stærri býlin í nokkra áratugi og náði einstaka bóndi að eignast Farmal Cup áður en yfir lauk.

Akfær vagnvegur fyrir bifreiðir ofan bæjanna á Vatnsleysutröndinni var lagður á fyrstu áratugum nýrar aldar. Áður byggðust samgöngurnar á slóðum millum bæja eða kirkjugötunni til og frá kirkjum sveitarinnar. Byrjað var á Suðurnesjaveginum frá Reykjavík 1904 og árið 1908 náði hann að Stóru-Vatnsleysu. Árið 1909 var byrjað á veginum frá Keflavík og mættust vegavinnuflokkarnir í Vogum árið 1912. Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík tilkeflavíkur. Ári seinna tókst að aka bifreið fyrsta sinni til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi. Fyrsta bifreiðin, semvitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til landsins 20. júni 1913. Ökumaður og farþegar skyldu bifreiðina eftir í Keflavík og fóru sjóleiðina heim til Reykjavíkur.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í bókinni „Frá Suðurnesjum“, útgefin 1960, segir í formála m.a.: „Það mun vera allfast í eðli manna, einkum er þeir taka að reskjast, að líta til baka um farinn veg, staldra við, og rekja í huga sér atvikin, stór og smá. Ganga í anda forna slóð og tína upp brotasilfrin, sem hlaupið var yfir í hugsunarleysi, sem vel má verða öðru fólki, í nútíð og framtíð, til fróðleiks og skemmtunar.
Sú kynslóð, sem nú er á förum, hefir lifað þær mestu breytingar, sem yfir okkar þjóð hafa gengið í efnahags- og menningarlegu tilliti. Því lengra, sem líður frá og meiri breytingar verða, því ótrúlegri verða frásagnir eldri eða látinna manna um það, sem einu sinni var.“

Hlöðunes

Hlöðunes – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Nánast allir bændur á Ströndinni voru útvegsbændur, þ.e. höfðu viðurværi sitt af sjósókn og nokkrar skepnur sér til búbóta. Flestir bæir eða bæjarhverfi höfðu selstöður í ofanverðri heiðinni. Í langflestum tilvikum var um fjársel að ræða, en þau höfðu flest lagst af um og eftir 1870. Eftir það var fært frá heima við bæi.
Á flestum þeirra voru jafnan tvær kýr, nokkrar kindur og einstaka hross. Rafmagn þekktist ekki. Vatn fékkst einungis úr nálægum brunnum og vatnsstæðum.

Við útgerðina voru aðallega notuð sexmannaför eða minni skip. Áttæringar voru þó til á stærri bæjum þar sem gert var út frá heimverum. Útver tíðkuðust ekki á norðuströnd Reykjanesskagans, að Hólminum undir Stapa frátöldum.
Skinnklæði vou alíslensk, gerð úr sauðskinni, kálfskinni og hrosshám. Skinnbrækur til skiptanna, sjóhattar sauaðir úr mjúum striga og olíubornir.

Vogar

Minni-Vogavör.

Í byrjun aldarinnar hófst vélvæðing fiskiskipaflotans með því að setja mótora í báta og kaupa kúttera og gufuknúna togara. Þetta markaði m.a. upphaf atvinnubyltingar á Vatnsleysutrönd og gerði það að verkum að fólk leitaði síður atvinnu hjá einstaka bændum. Býli lögðust af við lát ábúendanna og afkomendurnir fluttust í nærliggjandi þéttbýli.
Í kringum 1920 varð fjöldi þéttbýlisbúa orðinn meiri en sveitafólks, og þessi þróun hélt áfram. Í lok aldarinnar bjuggu rúm 90% Íslendinga í þéttbýli, þar af yfir 60% í Reykjavík og nágrenni.

Hlöðunes

Hlöðunes 2024.

Á 20. öldinni breyttist allt. Atvinnulífið varð vélknúið og lífshættir gerbreyttust á skömmum tíma. Vélvæðing varð upphafið að atvinnubyltingu um land allt. Þá urðu miklar breytingar á húsakostinum. Í byrjun aldarinnar voru torfbæir enn algengir, en smám saman tóku steinhús að ryðja sér til rúms. Með aukinni þéttbýlismyndun urðu timburhús algengari, síðar fjölbýlishús og raðhús. Eftir Jamestown-strandið utan við Hafnir árið 1881 þar sem heill timburfarmur af úrvalsviði rataði í land eftir strand, byggðust upp nokkur timburhús á Ströndinni, t.d. Ytri-Ásláksstaðir. Fyrstu steinsteyptu húsin voru síðan reist um 1928 (s.s. Sjónarhóll og Knarranes).

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir 2024.

Bæirnir í Hlöðversneshverfinu fóru flestir í eyði um 1900, s.s. Atlagerði, Gerði og Gerðiskot. Búskap var hætt í Narfakoti um 1920, þótt bærinn væri notaður til búsetu eftir það, Hlöðunes fór í eyði 1959 og Halldórsstaðir um 1960. Í Ásláksstaðahverfinu var búið á Innri-Ásláksstöðum til 1930 og á Ytri-Ásláksstöðum til 1980. Ekki er vitað hvenær Fagurhóll fór í eyði, en það hefur að líkindum verið fyrir 1900. Ábúð í Garðhúsum var hætt um 1920 er fólkið flutti að Móakoti. Þar var búskap hætt um 1925. Á Sjónarhóli, arftaka Innri-Ásláksstaða, var búið fram til 1943, en eftir það var húsið notað sem athvarf.

Hlöðunes

Gömlu Halldórsstaðir 2024.

Til er frásögn kaupamanns sem réðst til vinnu á bæ á Vatnsleysuströnd 1925. Þá var 20. öldin tæplega genginn þar í garð, hvorki hvað varðar húsakost eða verkmenningu snerti. Þarna bjó hann í torfbæ, útihús voru öll úr torfi og grjóti, fjósflórinn hellulagður. Akvegurinn hafði verið aðlagaður bílaumferð, en heimkeyrslur flestar gerðar fyrir vagna. Slegið var með orfi og ljá og heyið rakað, sætt og bundið. Myllusteinn var jafnan við bæjarvegginn. Þjóðlífið var í hnotskurn eins og það hafði verið í þúsund ár.

Ásláksstaðir

Útihús við Móakot 2024.

Kolur voru gerðar til ljósa um aldir, síðar lýsislampar. Eldker voru notuð til að flytja eld og ljós milli bæjarhluta og híbýla. Lýsislampar komu síðan til sögunnar og loks olíuluktir. Steinolíulampinn var fundinn upp 1855 og segja má að hann, ekki stærri en hann var, hafi verið fyrsti boðberi tæknivæðingar heimilanna sem gaf til kynna tæknibyltingu nútímans inn í hið rótgróna bændasamfélag, sem hér hafði þá staðið tiltölulega lítið breytt í þúsund ár.

Ásláksstaðir

Fagurhóll við Ásláksstaði 2024.

Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar“ segir m.a. um Vatnsleysuströnd: „Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennilegasta sveit hér á landi. Þar eru hvergi kúahagar né slægjur. Byggðin er á örmjórri ræmu með fram sjónum, en þó sundur slitin. Bæirnir hafa verið reistir á hraunbrúninni við sjóinn. Með mikilli atorku og erfiðismunum hefur bændum tekist að rækta þar víðlend tún, breyta hraunjaðrinum við sjóinn í iðgræna gróðurspildu. Þetta eru afrek margra kynslóða, en hlýtur að vekja undrun aðkomumanna, því hvergi á byggðu bóli er land jafn-óaðgengilegt til ræktunar sem hér. Allt var grjót upphaflega, jarðvegur sama sem enginn, og í hafstormum bar sædrifið salt á land, en holskeflur muldu kletta og tættu upp túnjaðrana.

Halldórsstaðir

Gamall Famal við Halldórsstaði 2024.

Þá er þessi litla sveit merkileg fyrir það, að hún var um aldir einhver mesta veiðistöð landsins. Það var á árum hinna opnu skipa. Hver einasti bóndi sveitarinnar var þá útvegsmaður, og sumir áttu margar fleytur. Þeir voru atvinnurekendur í stórum stíl. Á hverri vertíð voru þar álíka margir aðkomumenn og fólk var margt í sveitinni, eða jafnvel fleiri. Menn þessir komu úr innsveitum, norðan úr Skagafirði, austan úr Skaftafellssýslu og af öllu svæðinu þar á milli.“ Vinnuhjú fengu í sumum tilvikum að byggja sér kotbýli í námunda við bæina þar sem það bjó uns jarðnæði losnaði annars staðar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Sveitin á Ströndinni tók miklum breytingum á 20. öld. Minningarnar um mannlífið felast nú í skrifum manna eins og Guðmundar Björgvins Jónssonar, Björns Eiríkssonar og Árna Óla, auk leifa mannvirkjanna; hlaðinna garða, brunna, varða, stekkja, nausta, hrófa og sjóhúsa, auk gróinna og samanfallinna veggja híbýlanna sem þar stóðum fyrrum.

Heimildir:
-https://www.landneminn.is/is/namsefni-fyrir-innflytjendur/saga-landafraedi-og-lifsstill
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/grunnsyning/thjod-verdur-til/timabil/1900-2000-leidin-til-samtimans
-Strönd og vogar, 1981, Árni Óla, bls.7.
-Frá Suðurnesjum, frásagnir frá liðinni tíð, 1960, bls. 7.
-Þjóðlíf í Þúund ár, Daniel Bruun, bls. 11.
-Íslensk þjóðmenning, 1987, bls.364.
-Sjósókn, endurminningar Erlends Björnssonar frá Breiðabólstöðum, 1945.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Dr%C3%A1ttarv%C3%A9l
-Bjarni Guðmarsson, 1997. Saga Keflavíkur 1890-1920, bls. 25-30.
-Guðmundur Gíslason Hagalín. Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðarstjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum, bls. 157-158. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1962.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd.

Garðbær

Húsið Sjónarhóll á Vatnsleysuströnd var byggt 1886. Það var timburhús. Það gerði Lárus Pálsson „hómapati. Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarraneshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum.

Garðbær

Garðhús.

Árið 1925 keypti Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði Sjónarhól, en hann átti þessa eign ekki lengi því á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur.

Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Hann byggði nýtt íbúðarhús, steinhús, sem enn stendur, árið 1929 suðaustan við gamla húsið, sem þá var notað sem gripahús.

Garðbær

Garður við Garðhús.

Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað þar að börnin voru farin að heiman. Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Magnús og Erlendsína eignuðust 7 börn; 5 stúlkur og tvo drengi.

Einn dreng, Þórð, eignaðist Magnús með vinnukonu að Sjónarhól, Guðríði. Hún bjó með sambýlismanni sínum í Garðhúsi, litlum steinbæ skammt suðaustan túngarðs Sjónarhóls. Fátt er um Guðríði og mann hennar vitað annað en að hann sótti sjóinn. Fullyrt var að Magnús hafi nauðgað Guðríði og fór málið fyrir dómstóla. Hitt er ljóst að daginn sem Guðríður átti að fæða klæddi Erlendsína sig upp í peysuföt, gekk heim að Garðhúsi og tók á móti barninu, jafnframt því sem hún bauð það velkomið í heiminn.

Garðbær

Garðhús – útihús.

Eftir stendur litla steinhúsið á milli Innri-Ásláksstaða og Minni-Knarrarness. Eftir að það var yfirgefið og þakið fokið af að mestu gerðu piltar í sveit í Knarrarnesi sér það að leik að brjóta veggina niður, en voru stöðvaðir í miðjum kliðum.

Húsið er ca. 8-10 fermetrar. Steinsteyptir veggirnir hafa augljóslega verið púkkaðir með grjóti til drýgindar. Dyr sneru mót norðri. Ofn hefur verið í norðvesturhorninu, innan við dyrnar (þar er loftop neðst á vegg). Skammt norðvestan við húsið er útihús, gert af torfi og grjóti. Ekki er ólíklegt að Guðríður hafi haft nokkrar skjátur til búbætis. Norðan við bæjardyrnar mótar fyrir brunni. Austan hans eru leifar af hlöðnum vegg, líklega frá þeim tíma er bærinn Fagurhóll stóð þar á hólnum.

Garðbær

Garðhús – tóftir Fagurhóls.

Ef vel er að gáð má sjá móta fyrir tóftum þess bæjar sunnan við Garðhúss. Fagurhóll fór í eyði fyrir árið 1900. Líklegt er að Garðhús hafi verið byggður um og eftir 1930.

Leifar Garðhúss, þótt litlar séu, vekja jafnan athygli vegfarenda á leið um Vatnsleysutrandarveginn þar sem það stendur stakt norðan hans, millum Sjónarhóls og Minna-Knarrarness, sem fyrr sagði. Fæsti þeirra hafa hugmynd um nafnið á tóftunum, hvað þá um ábúendurna, sem þar bjuggu um tíma.

Garðbær

Garðhús.

Ekki er getið um kotið Garðhús í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar um „Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysutrandarhreppi. Þá er hvorki Guðríðar né sambýlismanns hennar getið að öðru  leyti en því að systkynin á Sjónarhóli hafi átt hálfbróður, nefndar Þórð er jafnan var kenndur við móður sína. Þó segir í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Ásláksstaði  að Konráð Andrésson hafi byggt Garðhús árið 1917 og var það jarðlaust í landi Sjónarhóls, við mörk Knarrarneshverfis. Umhverfis kotið hafi heitið Garðhúsablettur og þar hafi verið útihús. Ekki er ólíklegt að litla steinsteypta húsið hafi verið byggt á rústum eldra Garðhúss, sem áður hafði verið byggt úr rústum Fagurhóls.

Þórður Guðríðarson bjó lengi í Hafnarfirði.

Heimildir:
-Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysustrandarhreppi – Guðmundur Bjögvin Jónsson, útg. 1987, bls. 269-272.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Ásláksstaðabæina.

Garðbær

Garðhús.

Kaplakriki

Hér verður lítillega fjallað um húsbyggjendur og íbúðaeigendur á fyrstu árum Sjónarhóls í Hafnarfirði, eða allt þangað til þáverandi hús var fært FH að gjöf árið 1965.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Í bókinni, „Að duga eða drepast“ (útg. 1962), sögu Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðastjóra sem Guðmundur Gíslason Hagalín skrásetti, er að finna merkilegar heimildir um lífið á Ströndinni rétt um og fyrir og eftir aldamótin 1900. Fyrsti kaflinn er afskaplega falleg lýsing, einskonar héraðslýsing á Vatnsleysuströndinni. Þar fangar sögumaður mjög vel andstæðurnar í landslaginu og en gerir sér um leið grein fyrir sögu byggðarinnar.

Í „Dánarminning“ um Eirík Jónsson í Morgunblaðinu 21. júlí 1922 segir:

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd.

„Hinn 18. apríl 1922 drukknaði í fiskiróðri Eiríkur Jónsson á Sjónarhól í Hafnarfirði, ásamt syni sínum Jóni Ágúst og Ara B. Magnússyni, syni Magnúsar Jóhannessonar verkstjóra í Hafnarfirði. Eiríkur sál. var fæddur í Hátúni á Vatnsleysuströnd 2. júní 1857. Var hjá foreldrum sínum þar til hann var 7 ára, fór þá að Njarðvík og ólst þar upp til tvítugs aldurs; fluttist þá í vinnumennsku að Landakoti á Vatnsleysuströnd.
LandakotVar lausamaður á Þórustöðum í sömu sveit þar til hann kvæntist 20. júní 1889 eftirlifandi konu sinni, Sólveigu G. Benjamínsdóttur frá Hróbjartsstöðum í Hnappadalssýslu. Fluttist hann þá að Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd og bjó þar í átján ár, eða til ársins 1907, er hann fluttist til Hafnarfjarðar, og dvaldi þar síðan.

Þau hjón eignuðust ellefu börn; af þeim dóu tvö í æsku og tveir synir þeirra drukknuðu í sjónum uppkomnir, Benjamín Franklín, sem drukknaði við Vestmannaeyjar af skipinu „Argo“ 28. febr. 1910, og Jón Ágúst, er drukknaði með föður sínum, 20 ára gamall.

Grindavík

Opinn tíæringur.

Eiríkur sál. stundaði alla æfi sjómennsku og þó mestmegnis eða nær eingöngu á opnum fleytum; byrjaði þá atvinnu strax eftir fermingu og fór að verða formaður strax um tvítugs aldur. Stundaði hann fiskveiðar á opnum bátum alllengi á Austurfjörðum og víðar kringum landið, og var þá ætíð formaður, og þótti takast vel. Eiríkur sál. var kappsmaður til sjósóknar meðan heilsan leyfði, enda kappsmaður í flestu, sem hann lagði hug og höfn að. Hann átti oft við þröngan efnahag að búa, og var honum það víst oft áhyggjuefni, því hugurinn var mikill og skapið stórt.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á kampinum – sjóhús.

Þau hjón áttu oft mjög erfitt með að framfleyta heimili sínu, meðan þau bjuggu á Halldórsstöðum, enda þá oft fiskileysi; einnig munu ef til vill þröngsýnisáhrif annara þar ráðandi manna oft og einatt hafa beiskjað þeim lífið meira en vera hefði átt. Aftur á móti mun efnahagur og geta hafa orðið meiri eftir að þau komu til Hafnarfjarðar, enda þótt heilsa væri þá farin að lamast allmikið. En kona hans var honum samtaka, og var og er enn dugnaðar og tápkona, enda hefir hún víst oft orðið að taka á slíku um ævina, eins og margar þær konur, er í slíkum sporum hafa staðið.

Sólveig G. BenjamínsdóttirEiríkur sál. byggði sjer gott og myndarlegt íbúðarhús í Hafnarfirði og vann mikið að því að laga í kringum það.“ – S.G.

Í Nýju kvennablaði árið 1947 er grein um „Sumarbarnið„, Sólveigu G. Benjamínsdóttur:
„Árið 1907 fluttist fjölskyldan til Hafnarfjarðar. Sýndu hjónin þá mikinn dugnað að koma sér upp húsi. Nefndu þau húsið sitt Sjónarhól. Hafði Sólveig svo lengi greiðasölu og hlynnti að mörgum fátækum, sjúklingum og sængurkonum. Nú eru sex börn hennar á lífi, öll landskunn, en þrjá syni sína og eiginmanninn missti hún í sjóinn.“

Skv. upplýsingum Byggðasafns Hafnarfjarðar liggur eftirfarandi fyrir um Reykjavíkurveg 22 (Sjónarhól):

Sjónarhóll

Reykjavíkurvegur 22 Sjónarhóll Eiríkur Björnsson sjómaður byggði húsið árið 1908. Hafði hann og fjölskyldan flutt til Hafnarfjarðar frá Halldórsstöðum á Vatnsleysu árið áður. Sólveig kona Eiríks fékk það hlutverk að velja húsinu lóð og valdi því stað á lóð er þá var í eigu Garðakirkju, með útsýni yfir fjörðinn og kom því nafnið að sjálfu sér, „Sjónarhóll“. Umsjón með byggingunni hafði Jóhannes Reykdal en yfirsmiður var Eggert Böðvarsson og lauk smíðinni á jólaföstu 1908. Var Egill Eyjólfsson málari fenginn til að mála skilti á húsið. Rauða rós á fagurgrænum stilk málaði Egill framan við heiti hússins. Síðar var það í höndum Árna Árnasonar málarameistara að endurmála skiltið en þá var það aðeins nafn hússins.

„Árið 1907 fluttu hjónin Eiríkur Jónsson (1856-1922) og Sólveig Benjamínsdóttir (1866-1949) frá Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar með börn sín, sem þá voru orðin 7, en alls eignuðust þau 11 börn. Árið eftir hófust þau handa við að byggja sér hús. Sólveig hafði augastað á lóð við Reykjavíkurveg, gegnt fiskreitum Brydesverslunar (fyrir norðan og vestan þar sem Reykjavíkurvegur og Skúlaskeið mætast nú), en það land átti Garðakirkja. Sólveig lét sig ekki mun um að fara á fund Jens Pálssonar prófasts og falast eftir lóðinni. Hann tók bón hennar vel og lóðin varð þeirra. Á hæðinni sem húsið stóð var útsýni til allra átta og fékk húsið því nafnið Sjónarhóll og var númer 22 við Reykjavíkurveg. Á lóðinni var einungis ber klöpp, enginn jarðvegur og ekkert lausagrjót, því það hafði allt verið flutt yfir veginn á reiti Bydes.

Það varð því að flytja að allt grjót í sökkulinn undir húsið. Húsð var 10 álna langt og 9 á breidd og allmikill skúr við norðurendann. Niðri var eldhús og tvö herbergi — og önnur tvö uppi á loftinu. Bárujárn var á þaki. Milli laga í veggjum var troðið hefilspónum. Stór og góð eldavél var í eldhúsinu, og þótti sá hiti, sem frá henni lagði um húsið, nægileg upphitun, svo að ekki voru keyptir ofnar, enda þótti húsið verulega hlýtt.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Smíði hússins var lokið á jólaföstu 1908 og næsta vor fékk Sólveig Eyjólf Illugason málara til að mála nafn hússins á skilti sem sett var á húsið. Framan við nafnið málaði hann rauða rós á fagurgrænum stöngli. Þegar spjaldið var síðar endurmálað var rósinni sleppt.

Þann 18. apríl 1922 drukknaði Eiríkur ásamt Jóni Ágústi (1901-1922) syni sínum, sem var um tvítugt, og þriðja manni þegar bátur þeirra fórst í ofsaveðri.
Haustið 1946 hófst Björn Eiríksson (1894-1983), sonur Eiríks og Sólveigar, handa við að grafa fyrir nýju húsi í norðausturhorni lóðar Sjónarhóls.

Sjónarhóll

Sjónarhóll hinn nýi um 1980 – Á myndinni eru, talið frá vinstri: Árni Ágústsson (3. apríl 1922 – 6. apríl 2008), Bergþór Jónsson (15. júlí 1935-) og Björn Eiríksson (9. september 1894 – 7. maí 1983).

Þegar búið var að steypa kjallarann sumarið 1947 hófst Björn handa um að færa gamla „hólinn“. Hann byrjaði á því að rífa skorsteininn úr húsinu, annars færði hann það með öllu í. Um leið og hann færði það, sneri hann því þannig, að norðurendinn sneri út að götu, en suðurendinn gekk inn á nýsteypta planið, þar sem Björn geymdi timbrið. Gamla húsið náði út á miðjan þennan steypt flöt og var vesturhliðin á suðurlóðamörkunum, þá fyrst fékk hann nægjanlegt rými fyrir nýja húsið. Þetta var mjög erfitt verk, en þannig fór minnst fyrir því og nú gat gamla húsið staðið þar sem það var komið, meðan verið var að byggja það nýja. Gísli Guðjónsson var aðalmaðurinn og verkstjóri við flutninginn á gamla húsinu, en sjálfur tengdi Björn við það vatnið og frárennslið. Bjó svo fjölskyldan áfram í húsinu í heilt ár.

Sjónarhóll

Bautasteinn að baki Sjónarhóli – Á myndinni eru, talið frá hægri: Árni Ágústsson, Björn Eiríksson og Bergþór Jónsson.

Björn flutti í nýja húsið ásamt Guðbjörgu Jónsdóttur (1894-1993) konu sinni í júní 1948, en áður höfðu tvö barna þeirra hafið búskap í húsinu. Á sjómannadaginn 2. júní 1957 lét Björn reisa á lóð sinni stuðlabergsstein til minningar um föður sinn og þrjá bræður sína sem drukknuðu. Sá bautasteinn var síðar fluttur í Kaplakrika, þar sem FH-ingar hafa aðstöðu.

Í gögnum frá Byggðasafni Hafnarfjarðar kemur fram að árið 1948 hafi Magnúsi Óskari Guðbjartssyni (1921-1994) verið heimilað að flytja gamla Sjónarhólshúsið á lóð númer 5 við Bröttukinn í Hafnarfirði. Þar var húsið sett á steyptan grunn og stækkað nokkuð. Ekki er vitað hversu lengi Magnús átti húsið, en í manntalsskýrslu árið 1953 býr hann þar enn ásamt konu sinni Hallgerði Guðmundsdóttur (f. 1924) og fimm börnum þeirra ásamt öðrum hjónum með eitt barn, sem hafa væntanlega leigt íbúð þá sem Magnús auglýsti til leigu í húsinu í ágúst 1950.

Brattakinn 5

Brattakinn 5.

Þess má geta að Björn Eiríksson sótti skiltið með nafni hússins þegar það hafði verið flutt í í heilu lagi í Bröttukinn, því hann taldi að aðeins eitt hús ætti að bera nafnið, en nýr Sjónarhóll var þegar risinn við Reykjavíkurveg. Skiltið er enn til, því það hangir nú yfir innganginum í félagsheimili FH-inga, Sjónarhól í Kaplakrika, en Björn var mikill velgjörðarmaður félagsins. (Skiltið það ‘atarna er nú horfið en eftir stendur nafnið „Sjónarhóll“ með iðnaðarskrift ofan við innganginn.)

Björn Eiríksson

Bifreið með númerinu HF-1 og karlmaður í jakkafötum með kaskeiti. Maðurinn á myndinni er Björn Eiríksson, Björn á Sjónarhóli í Hafnarfirði.

Í Morgunblaðinu 1969 er grein um „Björn Eiríksson 75 ára – Að duga eða drepast„, eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Þar segir m.a. um nefnda bók, sögu Björns um lífið og tilveruna:

„Ekki stóð á Birni til eins eða neins, og hófst með okkur ágæt samvinna.
Svo kom þá út á kostnað Skuggsjár Olívers Steins í Hafnarfirði bókin „Að duga eða drepast“, sem ég tel fyrir ýmsar sakir eina af merkustu bókum, sem ég hef skrifað.“

Og Guðmundur heldur áfram: “

Að duga eða drepast

Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðastjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum. Guðmundur Gíslason Hagalín skráði.

Til sönnunar því, að ekkert sé þar ofsagt hjá okkur Birni, vil ég láta þess getið, að hin merka kona, Sigríður Sæland í Hafnarfirði, skrifaði mér bréf, þá er hún hafði lokið lestri bókarinnar og sagði, að frekar hefði Björn, bróðir hennar, dregið úr en ýkt, en hún var elzt barna þeirra Halldórsstaðahjóna og mátti því bezt muna erfiðleika fjölskyldunnar.

…Þar hefur og Björn látið reisa íslenzkan steindrang til minningar um föður sinn og þrjá bræður. Eiríkur Jónsson og Jón Ágúst, sonur hans drukknuðu í fiskiróðri á báti Eiríks 18. apríl 1922. Benjamín Franklín við Vestmannaeyjar 28. febrúar 1910, einnig í fiskiróðri, og Bjarni fórst á Fieldmarshal Robertson í Halaveðrinu mikla 1925. Eru nöfn þeirra feðga, ásamt fæðingar- og dánardægrum höggvin á dranginn. Stendur þessi drangur ekki aðeins til minningar um þessa feðga, sem sjórinn hremmdi, heldur vitnar hann einnig ljóslega um eitt af styrkustu skapgerðareinkennum Björns Eiríkssonar, ræktarsemi hans og tryggð, sem ekki nær einungis til nánustu skyldmenna, heldur og allra, sem hann hefur bundið vináttu við.

Kaplakriki

Bautarsteinninn við inngang „Sjónarhóls“ í Kaplakrika.

Björn lítur svo á, að íþróttir séu ómetanlegur þáttur í uppeldi ungs fólks, og fyrir fáum árum ánöfnuðu þau hjónin Fimleikafélagi Hafnarfjarðar Sjónarhól eftir sinn dag, þar eð þau munu líta svo á, að þau hafi að fullu rækt foreldraskyldur við börn sín.“ – Guðmundur Gíslason Hagalín

Í Morgunblaðinu 1965 má finna fyrirsögnina „FH færð að gjöf glæsileg húseign við aðalgötu Hafnarfjarðar – Bjöm Eiríksson og kona hans gefa Sjónarhól við R.víkurveg Fimleikafélagi Hafnarfjarðar„:
„FH hefur verið færð stórkostleg gjöf, sem [varla á] sér hliðstæðu í sögu íþróttahreyfingarinnar hér á landi. Hjónin Björn Eiríksson og Guðbjörg Jónsdóttir hafa ákveðið að gefa FH húseignina Sjónarhól nr. 22 við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði ásamt lóðarréttindum og tveim bilskúrum. Eignin verður félaginu til ráðstöfunar og hagnýtingar þegar það hjónanna er lengur lifir er fallið frá.

Húsið Sjónarhóll, sem verður þannig eign FH að þeim hjónum látnum, er sem kunnugt er öllum Hafnfirðingum nr. 22 við Reykjavíkurveg. Stærð hússins er 13 x 11 m. Húsið er tvílyft steinhús með risi og kvistum.

SjónarhóllMeð gjöf sinni vilja þau hjónin stuðla að því að sem flestum hafnfirzkum unglingum gefist kostur á að fá þá aðhlynningu og aðhald á uppvaxtarárum sínum, sem þau telja að félagsstarfsemi FH hafi veitt börnum þeirra. Ef stjórn FH telur rétt á sínum tíma að selja Sjónarhól ætti andvirði eignarinnar að verða drjúgur liður til að reisa veglegt félagsheimili FH á þeim stað sem stjórnin telur heppilegri. Þannig myndi gjöfin alla vega verða lyftistöng fyrir enn öflugri og víðtækari starfsemi félagsins.
Stjórn FH og allir þeir, sem hafa unnið að félagsstörfum FH á undanförnum árum eru hrærð ir yfir hinni rausnarlegu gjöf. Betri og varanlegri meðmæli er ekki hægt að hugsa sér.

Kaplakriki

Kaplakriki – áletrun á bautasteininum.

Þessi gjöf verður ómetanleg fyrir FH og íþróttahreyfinguna í Hafnarfirði, í þeirri merkingu að menn yngri og eldri fyllast krafti, sem mun koma fram í félagsstarfseminni á komandi árum, ekki hvað síst í að vera hvetjandi afl ungum sem gömlum.

Samþykki þeirra systkinanna fyrir gjöf foreldranna verður fagur og sterkur minnisvarði foreldra þeirra. Og það verður verk FH að framlag þeirra hjónanna verði til þess að hin unga æska Hafnarfjarðar verði aðnjótandi þeirra áhrifa, sem þau telja að hafi orðið svo mikilvæg fyrir uppeldi barna þeirra.“

Þeim hjónum, sem og afkomendum þeirra, hefur verið sýndur ýmiss sómi í vistarverum FH í Kaplakrika.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – áletrun á málverki; „Halldórsstaðir, fæðingarheimili Björns Eiríkssonar – 9. 9. 1894“.

Í vistarverum Sjónarhóls í Kaplakrika hangir uppi málverk frá þeim hjónum af Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd. Á rammanum er skilti með meðfylgjandi áletrun; „ “Halldórsstaðir, fæðingarheimili Björns Eiríkssonar – 9. 9. 1894”.

Saga Eiríks, Sólveigar, Björns og Guðbjargar er vel þess virði að henni sé gefinn nánari gaumur – þótt ekki væri fyrir annað en ruglið í fornleifaskráningum og misvísunum í heimildum er varða fæðingarstað Björns að Halldórsstöðum. Sú saga þarfnast nánari og betri skýringa, þótt ekki væri fyrir annað en að teknu tilliti til þeirra miklu minja, sem þar er enn að finna….

Heimildir:
-Morgunblaðið, 21. júlí 1922, Dánarminning, bls. 3.
-Nýtt Kvennablað. 4. tbl. 01.04.1947, Sumarbarnið, bls. 5.
-https://husaflutningar.is/brattakinn-5-hafnarfirdi/
-Morgunblaðið, 9. sept. 1969, Björn Eiríksson 75 ára, Að duga eða drepast, bls. 24.
-Morgunblaðið 16. des. 1965, FH færð að gjöf glæsileg húseign við aðalgötu Hafnarfjarðar, bls. 2.
Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd. Málverkið hangir uppi á vegg í Sjónarhóli, aðstöðu FH í Kaplakrika.

Möngusel

Í örnefnalýsingu Vilhjálms Ivars Hinrikssonar frá Merkinsi um Hafnaheiðina má m.a. lesa eftirfarandi:
stapafell-23„Um Stapafell (Stapafellsþúfu) eru hreppamörk Hafna-, Grindavíkur- og Njarðvíkurhreppa. Áður er nefnd krossgata vestan Þrívörðuhæðar. Vegurinn, sem liggur til vinstri, er Stapafellsvegur. Lautin, eða lægðin, er nefnd Lágar. Þegar suður fyrir Lágar kemur, hækkar landið og á hægri hönd er geysimikil hæðarbunga með klappahólum. Norðvestan í hæð þessari eru rústir gamlar og heitir það Kirkjuvogssel. Þar litlu ofar – til hægri – er klofinn, hár klapparhóll, sem heitir Sauðhóll. Þar er gamalt refagren undir klapparbrún mót suðvestri. Það heitir Sauðhólsgren. Dálítið ofar sjáum við bera við loft nokkrar hólóttar hæðir, það eru einu nafni Gjáhólar. Í norðaustur frá hæsta hólnum er lág, bungumynduð, lítil klöpp með tvær holur inn undir, önnur til austurs, hin til suðvesturs, þetta er Gjáhólagren.
Nú komum við að miklu landsigi, er liggur langt suðvestur í Hafnaheiði og til norðausturs í Njarðvíkurheiði. Þetta landsig heitir Súlnagjá. Hér stönzum við og horfum til Stapafells, því að mörgu er að hyggja.
Á hægri hönd, svo sem 300 faðma til norðvesturs, er dálítil flesja milli tveggja hæða, er liggja frá suðaustri til norðvesturs. Á flesjunni er dálítill grasi gróinn hóll með lágum sperrulöguðum helli mót suðvestri, og uppi á brúninni er vörðubrot. Þetta heitir Hellisgreni. Á vinstri hönd ([til] austurs) er nokkuð stór hóll og er nefndur Urðarhóll. Í hól þessum var greni, Urðarhólsgreni. Greni þetta eyðilagði herliðið með jarðróti.
Arnarbaeli-23Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður. Gren var í hól þessum áður fyrr, en aldrei í tíð núlifandi manna. Í norðaustur frá því, er við stöndum, er gríðarstór klapparhóll og mest áberandi, dyngjulagaður og mjög sprunginn. Hann heitir Grákolluhóll. Þar norðaustur af er hár, klofinn klapparhóll, Stóri-Klofningur. Dálítið ofar er annar hóll, líkur hinum, en minni, Litli-Klofningur. Báðir eru hólar þessir neðan við sjálfa heiðarbrúnina.
Nú ökum við til baka og tökum veginn, sem liggur til Hafna. Þegar kemur niður fyrir Bringa, sem áður eru nefndir, sjáum við litla tjörn á vinstri hönd, Vötn (í Vötnunum). Í leysingum getur verið þarna vatnsagi talsverður, því landi hallar þarna alls staðar að og verður stór slakki milli Arnarbælis að vestan og Selsins og Gjáhóla að austan. Ofarlega í hvilft þessari, sem er að mestu basaltklappir, eru þrír talsverðir hólar, og heita þeir einu nafni Hvalhólar. Ef við horfum til Arnarbælis, sjáum við bríkur og brúnir, sem lækka til norðvesturs, Arnarbælisveggir, en lægðin kölluð einu nafni Kirkjuvogslágar.
Merkinessel-23Í nærri beinni línu frá Arnarbæli til norðvesturs eru þrír hólar. Hinn efsti heitir Sjónarhóll. Sá í miðið heitir Torfhóll og er hann þeirra stærstur, með rofhnubb uppi á toppnum. Neðst er strýtumyndaður, grasi vaxinn hóll, sem heitir Grænhóll.
Nú er rétt að keyra í Hafnir á afleggjarann, sem liggur til Reykjaness, og athuga kennileiti og örnefni þau, sem sjást og með veginum liggja. Fyrsta hæð, sem við förum yfir, eftir að húsum sleppir, heitir Lúðvíkshæð. Skammt suðvestar er hár, klofinn hóll og á sitthvorum barmi sprungunnar eru vörður. Þetta heita Bræður. Garðlag liggur á hægri hönd til sjávar í stefnu á þykka vörðu með dálitlu tré í. Þetta er Sundvarða fyrir Merkinessund, og skal hún bera í Bræður á aðalsundi.
Landið á hægri hönd, að Merkinesvör, er nefnt Flatir(nar). Þá er komið að hringmynduðum grjótgarði á vinstri hönd. Það heitir Innstigarður. Upp frá Innstagarði liggur breitt lægðardrag allt upp að Norður-Nauthólum og kallast einu nafni Merkineslágar. Skammt upp frá Innstagarði er gróin laut og við vesturbrún hennar eru gamlar rústir og stór varða með gati neðst er þar hjá. Þetta er kallað Strákur. Nokkuð langt ofar er lítil varða á klapparhorni, sem heitir Stelpa.
Midsel-21Upp af Lágunum við dálítið skarð í hæðarkinninni í vestur frá Norður-Nauthólum eru mjög gamlar rústir. Það heitir Gamla-Merkinessel. Augljóst er, að landkostir hafa daprazt og selið fært upp í Mönguselsgjána. Niður af Arnarbæli til vesturs eru hólar og graslautir og er það svæði nefnt Kúadalir. Nú höldum við áfram veginn að öðrum grjótgarðinum á vinstri hönd. Það heitir Skipagarður. Þangað voru vertíðarskipin sett í Merkinesi og geymd milli vertíða. Niður á sjávarkampinum er varða með stöng. Hún skal bera í vörðu, sem við sjáum aðeins í norðaustur frá Skipagarði, skammt frá veginum.
Heiðarbríkurnar til suðurs frá Skipagarði heita Sjómannagerði. Þar sést móta fyrir grjótgörðum og hafa þeir verið notaðir til að herða á fisk fyrr á tímum.
Þá ökum við meðfram Merkinestúngarði og sem leið liggur, unz við förum framhjá háum, blásnum hól á vinstri hönd. Hann heitir Syðri-Grænhóll. Nokkru vestar er ekið framhjá háum klapparhól með vörðubroti á. Hann heitir Stóridilkur.

hafnaheidi-233

Skammt neðar er minni hóll strýtulaga. Hann heitir Litlidilkur. Þar næst ökum við yfir túnið á Kalmanstjörn. Junkaragerði er á hægri hönd (nánar síðar). Nú ökum við yfir dalverpi vestan túnsins á Kalmanstjörn og heitir hann Hundadalur. Uppi á hæðinni til vinstri eru tvær vörður á lágum hólum, þannig hlaðnar, að gat er gegnum þær báðar neðst. Þetta heita Grindarhólar.
Dálitlum spöl ofar er sérkennilegur klapparhóll, áþekkur gömlum torfkofa í laginu. Hann heitir Bæli, mikið notaður sem mið, bæði við leiðir og lendingar og eins á grunnamiðum. Þar, en ofar eru tvær vörður með litlu millibili á klöppum og heita þær Systur. Til suðausturs upp frá Kalmanstjörn er holt, sem liggur frá suðvestri til norðausturs, og nokkru hærra til norðausturs, með vörðubroti á, svo sem 1 km frá bænum; það heitir Merarholt.
Nú liggur leiðin framhjá Stekkhól og áfram að Kirkjuhöfn. Þegar við erum í dálitlu skarði með Kirkjuhafnarhól á hægri hönd, er hóll á vinstri hönd og markar fyrir garðrústum á köntum hans, en sjálfur er hóllinn nærri flatur að ofan. Þetta er talinn vera kirkjugarðurinn í Kirkjuhöfn. Hvenær kirkjan hefur verið lögð niður, er ekki áreiðanlega vitað, en líklegt er talið um miðja 14. öld. Sagt er, að bein hafi verið flutt frá Kirkjuhöfn til Kirkjuvogskirkju, þegar kirkjan var flutt frá Vogi, sem hefur verið einhvern tímann upp úr 15. öld. Þeim, sem kynnast vilja nánar um þetta, er bent á bók Magnúsar Þórarinssonar, Frá Suðurnesjum, bls. 74.
Þegar við rennum augum til suðvesturs, frá Kirkjuhafnarhól, þá sjáum við tvo grasi vaxna, nokkuð stóra hóla upp frá Sandhöfn. Þetta eru Sandhafnarhólar. Á syðri hólnum eru margar rústir og líklegt eftir fjölda þeirra, að þar hafi verið að minnsta kosti tvíbýli. Gamlar réttir og gerði hafa verið suður frá bænum og standa partar af görðum þessum ótrúlega vel enn í dag. Lengst til suðvesturs ber við loft mikil hæð skammt upp frá Hafnabergi og uppi á henni er klappahóll með vörðubroti. Þessi hóll heitir Bjarghóll.“

Heimild:
-Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.

Miðsel

Miðsel – uppdráttur ÓSÁ.

Ásláksstaðir

Í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ lýsir Guðmundur Björgvin Jónsson (1913-1998) Ásláksstaðahverfi:

Atlagerði (rústir)

Ásláksstaðir

Atlagerði.

Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti. Vestan við Gerðistanga er Álasund eða Álfasund. Um þessar nafngiftir hefur verið meiningarmunur, en Narfakotsbræður, sem bjuggu allan sinn aldur í nálægð við vitann og gættu hans í áratugi höfðu ekki heyrt annað nafn á sundinu en Álfasund.

Atlagerði

Atlagerði.

Í Atlagerði bjuggu hjónin Ingimundur Ingimundarson, f. 1837 og kona hans, Sigríður Þorkelsdóttir, f. 1845. Ingimundur var fyrsti vitavörður Atlagerðisvita, með sömu kjör og Narfakotsbræður síðar (sjá þar). Ingimundur stundaði sjó ásamt því er til féll í landi. Hann hafði engar landnytjar og greiddi landskuld til Ásláksstaða. Ingimundur og Sigríður voru síðust búendur í Atlagerði. Þeirra börn voru m.a. Þórður, f. 24. mars 1883 er
drukknaði frá unnustu sinni, Pálínu, sem gekk þá með barn þeirra, Þórð. Annar sonur Ingimundar og Sigríðar var Guðmundur, f. 1888, sem drukknaði líka á besta aldri.

Fagurhóll (rústir)

Ásláksstaðir

Fagurhóll.

Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðarjarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón, ekki veit ég nafn konunnar, en maður hennar hét Jón. Pau áttu að minnsta kosti einn son, Magnús, og varð hann síðar maður „Gunnu fögru“. Frá Fagurhóli var þessi fjölskylda farin um aldamót, en í staðinn kominn þangað Jón Þórarinsson, f. 1869 og bústýra hans, Ástríður Ólafsdóttir, f. 1877. Móðir Jóns, Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 1832, var hjá þeim. Hjá þeim ólst upp Stefán Runólfsson, bróðir Kristmanns, bónda og kennara á Hlöðversnesi (sjá þar). Jón og Ástríður voru fyrst vinnuhjú á Auðnum, hjá Guðmundi Guðmundssyni og trúlofuðust þar, en hófu síðan búskap í Fagurhóli. Hve lengi, svo og hver hefur verið síðasti búandi þar, er mér ekki kunnugt.

Móakot (í eyði)

Ásláksstaðir

Móakot 2021.

Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er á suðurhluta Ásláksstaðarjarðar og er nú sameinað aðaljörðinni. Margir hafa verið búendur þar, enda allvel hýst á eldri tíma mælikvarða.

Móakot 1

Ásláksstaðir

Þar bjuggu um aldamótin Bjarni Sigurðsson, f. 1855, og kona hans, Kristín Jónsdóttir frá Móakoti. Bjarni var bróðir Gísla í Minna-Knarrarnesi. Þeirra börn voru: 1) Jón, f. 1890 (dó ungur), 2) Margrét, f. 1891. Hennar maður var Ingvar Gunnarsson, kennari, frá Skjaldarkoti. Þau bjuggu í Hafnarfirði, 3) Sigurður, f. 1893. Kona hans Anna Bjarnadóttir frá Stóru-Vatnsleysu (sjá þar). Sigurður lést á sóttarsæng á besta aldri frá ungri konu og tveim dætrum. Þau bjuggu í Reykjavík. 4) Þórður, f. 11. sept. 1895, d. 3. nóv. 1981. Hann stundaði eigin bílaakstur. Kona hans var Sigríður Ketilsdóttir úr Laugardal, f. 20. apríl 1901. Þau bjuggu í Hafnarfirði.
Síðar bjuggu í Móakoti Jón Hansson og kona hans, Guðrún Árnadóttir, fyrir og um 1929-30. Guðrún var dóttir Árna á Halldórsstöðum.
Þar næst bjuggu þar Guðmundur Hvamms (sjá Hvamm) og kona hans, Filippía Nikulásdóttir. Síðan bjuggu þar ýmsir leiguliðar árlangt eða að sumri til, m.a. bjó þar Stefán Hallsson, kennari með konu sinni, Arnheiði Jónsdóttur, (sjá Vorhús í Vogum).

Móakot 2

Ásláksstaðir

Móakot.


Þar bjuggu Árni Sveinsson, ekkjumaður, f. 1840 og bústýra hans, Margrét Jónsdóttir, f. 1867, (systir Ingibjargar, konu Magnúsar á Innri-Ásláksstöðum). Árni átti son fyrir, Jón, f. 1868, ári yngri en bústýran. Árni og Margrét áttu einn son, Bjarna, er varð maður Ásu Bjarnadóttur frá Vorhúsum (sjá þar). Bjarni var f. 1898 og voru því 30 ár á milli hálfbræðranna. Þegar Árni hætti að búa lagðist Móakot 2 af.

Nýibær (áður Hallandi, nú í eyði)

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Nýibær í Ásláksstaðarhverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.
ÁsláksstaðirUm aldamótin bjó í Nýjabæ Valgerður Grímsdóttir, f. 1850. Maður hennar, Kristján, var þá látinn. Þau höfðu átt dóttur, Guðrúnu, f. 1. ágúst 1872, d. 21. nóv. 1918 (úr spönsku veikinni). Guðrún hafði átt fyrir mann, Konráð Andrésson, f. 17. ágúst 1869, d. 10. sept. 1945. Valgerður Grímsdóttir átti húsið en leigði jörðina af ekkjunni Guðfinnu Halldórsdóttur, er áður hafði búið þar.
Um 1901 fóru Guðrún og Konráð að búa í Nýjabæ ásamt Valgerði, móður Guðrúnar, og höfðu þau jörðina á leigu áfram, en Guðfinna, eigandi jarðarinnar og seinni maður hennar Sigurður Jónsson voru þá húshjón á Auðnum hjá Guðmundi Guðmundssyni (sjá Auðna). Konráð byggði upp Nýjabæ árið 1911 og á meðan var fjölskyldan á loftinu á Ásláksstöðum og þar fæddist yngsta barn þeirra hjóna, Valdimar. Konráð vann hverja þá vinnu er til féll, en leigujörðin gaf aðeins af sér eitt kýrfóður. Hann fór því, eins og margir úr hreppnum á þeim tíma í kaupavinnu, og helst fór hann vestur í Dali, en þaðan var hann ættaður. Fyrstu árin fóru bæði hjónin vestur og þar fæddist fyrsta barn þeirra. Alls eignuðust þau 4 börn: 1) Kristján Níels, f. 1902, skipstjóra, bjó í Ytri-Njarðvík, d. 1985, 2) Guðrúnu, (lést ung), 3) Margréti, f. 1908, býr í Reykjavík, 4) Valdimar, f. 1911 atvinnubílstjóri, býr í Reykjavík.

Ásláksstaðir

Nýibær.

Jarðeigandinn, Guðfinna Halldórsdóttir, og seinni maður hennar, Sigurður Jónsson, vildu fá jörðina til eigin nota árið 1917. Þau voru þá búin að vera í 15 ár húshjón á Auðnum. Þegar Konráð varð að fara frá Nýjabæ, fékk hann inni á næsta bæ, Sjónarhóli, en hann átti Nýjabæjarhúsið og reif það til nota á öðrum stað. Guðfinna og Sigurður urðu því að byggja að nýju upp húsið, líkt og það er í dag. Ekki urðu þau lengi þar, því eftir tvö eða þrjú ár lést Sigurður, um 1919, og varð þá Guðfinna ekkja í annað sinn. Hún ól upp sér óskyldan dreng, Valgeir Jónsson, og fylgdust þau að meðan hún lifði. Guðfinna var mikil hannyrðakona og saumaði fyrir fólk og hafði nóg að gera. Hún seldi Nýjabæ árið 1921 og leigðu sér húsnæði eftir það meðan hún lifði.
ÁsláksstaðirKaupandinn að Nýjabæ var Sigurjón Jónsson, hálfbróðir Davíðs Stefánssonar bónda á Ásláksstöðum. Kona Sigurjóns var Guðlaug Guðjónsdóttir, systir Elísar á Efri-Brunnastöðum (sjá þar). Sigurjón og Guðlaug voru bæði dugleg og ráðdeildarsöm. Hann var lengst af vertíðarmaður í Ytri-Njarðvík, en á sumrin vann hann við búskap og hjá nágrönnum. Sigurjón var ávallt snar í snúningum þegar á þurfti að halda. Þegar Sigurjón lést árið 1955, brá Guðlaug búi og flutti til Keflavíkur og bjó þar til æviloka hjá Svövu dóttur sinni og Gesti tengdasyni sínum. Sigurjón og Guðlaug eignuðust 5 börn: 1) Svövu, bjó í Keflavík (látin), 2) Lilju, býr í Bandaríkjunum, 3) Einar Hallgrím, (lést ungur), 4) Guðjón (lést um tvítugt), 5) Karlottu, bjó í Bandaríkjunum (látin).
Næst Sigurjóni og Guðlaugu komu að Nýjabæ, Guðlaugur og Theódór, sonur hans. Þeir bjuggu þar í fá ár. Síðasti búandi þar var Guðjón Sigurjónsson og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir. Hún var frá Seyðisfirði og hann var fæddur í Reykjavík, en alinn upp á Marðarnúpi í Ásahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þau fluttu frá Nýjabæ um 1970 til Ytri-Njarðvíkur. Hann lést árið 1985. Þegar Guðjón fór frá Nýjabæ, seldi hann hreppnum forréttinn sem síðan seldi eigendum Ásláksstaða, og var jörðin þá komin til síns heima þó aldrei hafi farið langt.

Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.
Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi. Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.
Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Sjónarhóll (í eyði)

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Um 1886 byggði Lárus Pálsson „hómapati“ Sjónarhól. Hann var fæddur 30. jan. 1842, d. 16. ágúst 1919. Lárus var einn af 23 systkinum frá Arnardranga í Kirkjubæjarhreppi, V-Skaftafellssýslu. Kona hans var Guðrún Þórðardóttir frá Höfða ( sjá Hellna). Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum. Lárus byggði nýtt hús austan við Innri-Ásláksstaði og nefndi það Sjónarhól. Það hús var timburhús og allt rúmgott, enda fór fjölskyldan stækkandi. Lárus stundaði útgerð, en mikill tími fór í að sinna sjúklingum með hómapatískum lyfjum og meðferð, enda var hann alþekktur um suðvesturland fyrir lækningar sínar. Lárus bjó á Sjónarhóli til ársins 1889 eða í 12 ár. Hann flutti þá til Reykjavíkur og lést þar árið 1919, 77 ára gamall.
Eftir Lárus komu að Sjónarhóli, Magnús Magnússon, f. 1858 og ráðskona hans, Guðný Bjarnadóttir, f. 1850. Þau voru með fósturbarn, Guðmund Sigmundsson, f. 1895 og einnig fylgdi þeim vinnumaður, Ásmundur Guðmundsson, f. 1878.

Ásláksstaðir

Sjónarhóll.

Síðan komu að Sjónarhóli hjónin Brynjólfur Ólafsson og kona hans, Jónína Jónsdóttir. Þau höfðu byrjað búskap í Reykjavík um 1907 en fluttu að Sjónarhóli um 1910 og bjuggu þar í 15 ár. Brynjólfur stundaði landvinnu og sjómennsku eins og títt var um þær mundir. Man ég hann sem meðalmann á hæð, herðabreiðan með dökkt hár og mikið efrivaraskegg. Sér í lagi bar á honum við kirkjuathafnir því hanri var söngmaður mikill og hafði það embætti að vera forsöngvari í Kálfatjarnarkirkju. Hann hafði mikila rödd og var leiðandi í söngnum.
Þau hjón eignuðust 4 börn: 1) Ólafíu Margréti, f. 1907 í Reykjavík og bjó hún þar síðar (látin), 2) barn er dó ungt , 3) Dagbjörtu f. 1912, bjó í Hafnarfirði (látin), 4) Ragnhildi f. 1917, býr í Reykjavík. Brynjólfur og Jónína ólu upp einn dreng, Svein Samúelsson, bróður Einars er ólst upp í Austurkoti í Vogum.
Árið 1925 var Brynjólfi boðinn kauparéttur að Sjónarhóli. Hafði hreppurinn eignast jörðina og Brynjólfur því verið leiguliði. Brynjólfur hafnaði kaupunum og flutti til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan. Kaupandi að Sjónarhóli varð Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði (bróðir Gunnlaugs kaupmanns þar). Friðfinnur átti þessa eign ekki lengi, því að á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur (sjá Halldórsstaði, Sjónarhól Vogum og Sjónarhól á Vatnsleysuströnd).
Ásláksstaðir
Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Síðar byggði hann nýtt hús árið 1929, það hús sem nú stendur. Reisulegt steinhús sem stendur suðaustur af gamla húsinu sem var orðið 43 ára gamalt og var að lokum notað fyrir gripahús. Smiður að nýja húsinu var Jón Helgason, mágur Magnúsar. Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað það að börnin voru farin að heiman. Hann var og útslitinn, með ágerandi kölkun í mjöðm sem síðar var reynt að laga í Noregi með litlum árangri. Börn Magnúsar og Erlendsínu voru: 1) Helgi (látinn), 2) Guðjón (lést ungur), 3) Ragnhildur, 4) Guðjón (nýlátinn ), 5) Anna Dagrún, 6) Guðrún Lovísa, 7) Guðlaug (látin), 8) Sigurveig, 9) Þórður, hálfbróðir (Guðríðarson), 10) Sesselja (lést barn). Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Innri-Ásláksstaðir (horfnir)

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahverfi,

Um aldamótin bjuggu á Innri-Ásláksstöðum Magnús Magnússon, f. 1860, og kona hans, Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1860. Þeirra börn voru: 1) Jónína, f. 1888, 2) Vilborg, f. 1891, 3) Magnús, f. 1893, 4) Guðrún, f. 1894, 5) Margrét, f. 1895. Einn son átti Magnús fyrir hjónaband, Sigurð að nafni.
Jónína átti Helga Jónsson frá Nýjabæ hjá Stóru-Vatnsleysu. Helgi fórst með m/b. Hermanni frá Vatnsleysu árið 1916. Vilborg, dóttir Magnúsar, átti Ólaf Teitsson frá Hlöðversnesi og bjuggu þau í Reykjavík. Vilborg var sérstakur velunnari Kálfatjarnarkirkju og gaf henni m.a. altarisdúk. Einn sonur Ólafs og Vilborgar var Eggert prestur á Kvennabrekku í Dölum. Ingibjörg lést á Innri-Ásláksstöðum, en Magnús kvæntist aftur og hét sú kona Eyrún. Átti hún son, Einar Hallgrímsson, er hún hafði með sér.
Magnús og Eyrún bjuggu í nokkur ár á Innri-Ásláksstöðum en fluttu síðan til Hafnarfjarðar og dóu þar. Munu þau hafa verið síðustu búendur á Innri-Ásláksstöðum og lagðist jörðin síðan undir Sjónarhól.“

Vogarétt

Sýsluréttin árið 2022.

Í Örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði segir Gísli Sigurðsson:
„Landamerkjalýsing Ásláksstaðahverfis úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu: Landamerkjalýsing þessi innibindur Ásláksstaðahverfi, en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandi (Nýibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi tilheyrir land allt, girt og ógirt, á milli Hlöðuneshverfis að sunnan og Knarrarness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær.“

Í „Athugasemdum og viðbætum Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum“ segir um Ásláksstaðasel:

Knarrarnessel

Knarrarnesel – uppdráttur ÓSÁ.

„Ásláksstaðasel á að vera austur af Hlöðunesseli milli þess og Knarrarnessels. Magnús á Sjónarhóli talaði um, að fé væri uppi í Huldum, segir Lúðvík. Friðrik gizkar á, að það séu hólar milli Hrafnagjár og Klifgjár, hægra megin við stíginn yfir Hrafnagjá. Þar er leitótt.“

Knarrarnessel

Knarrarnessel  að baki – vatnsstæði.

Í Jarðabók ÁM og PV árið 1703 segir um selstöðu Stóru Ásláksstaða: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
Um selstöðu Minni Ásláksstaða segir í Jarðabókinni 1703: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarness sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina“.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Ásláksstaðir, Guðmundur Björgvin Jónsson 1913-1998, bls. 261-272.
-Örnefnalýsing – Ásláksstaðahverfi. Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing: Athugasemdir og viðbætur Friðriks og Lúðvíks Davíðssona á Ásláksstöðum.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, Gullbringusýsla – Vatnsleysustrandarhreppur, Stóru Aslaksstader og Minne Aslaksstader, bls 129-133.

Ásláksstaðir

Ásláksstaði – nokkur örnefni.