Tag Archive for: Skagagarðurinn; Skálareykir

Skagagarður

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags í Garði árið 2017“ er m.a. fjallað um Skagagarðinn og Skálreyki:

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

„Lokaðist það af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert fyrir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn,“ segir í örnefnalýsingu. Í sýslu- og sóknalýsingu frá um 1860 segir ennfremur: „Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í Túngarðinn á Kirkjubóli.“
Enn sér fyrir Skagagarði sunnan Skagabrautar en norðan hennar er hann farinn í tún og þar sjást engin ummerki hans.

Í Chorographicu Árna!Magnússonar frá 1720 segir: „Garður (sú sveit) hefur nafn af girðingum. Menn meina landið hafi afgirt verið frá Hrafnkelsstöðum og so continue að Þórustöðum.“ Í sýslu-og sóknalýsingu frá 1839: „… Ein hefir höfuðgirðing verið yfir þveran Skagann, sem Skagagarður kallast; á honum voru að sögn læst hlið.“ Í annarri lýsingu frá um 1840 segir ennfremur: „Mikill garður hefir í fyrndinni þaðan [frá Flankastöðum] legið, sem enn sést merki til, og hefir náð allt inn að Útskálum. Er það sögn manna, að með þeim garði hefðu allir átt að fara, sem innan að sóttu jólagleði þessa [á Flangastöðum], svo ekki villtust menn, þó niða myrkur væri.

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Þessi fornaldargarður liggur sunnanvert fyrir Skaganum eða heiðar megin, en Skaginn er sléttlendur og hagbeitarpláss frá Útskálum. Er þessi garður, sem heita má gersamlega niður fallinn, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.“

Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar um Reykjanesskaga frá 1860 segir um Skagagarð: „Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasi grónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum. Garðurinn hefur að mestu verið hlaðinn úr stórgrýti og að líkindum afar hár og þykkur, eftir sem út lítur 3/4 álna á þykkt. Nú geta 2 menn riðið samsíða ofan á rúst hans víðast hvar. Með!þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur.“

Skagarður

Skagagarðurinn – loftmynd.

Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977: „En Skagagarðurinn mikli, sem byggðin hefur nafn af og prestarnir lýsa svo fagurlega, hann er enn til, friðlýstur og heill, að öðru leyti en því að á einum stað var rofið skarð í hann 1964 til að komast þar í gegn með veg sem liggur frá Sandgerði til Út-Garðs…. Á milli Út-Garðs (Útskálahverfis) og Kirkjubólshverfis er víðáttumikið land, sem ætíð hefur verið lítt eða ekki byggt fyrr á tíð og raunar enn á vorum dögum. Þetta er sendið land og grýtt og virðist ekki kostamikið. Upp undir heiðinni og þá ofarlega eða efst á Skaganum liggur Skagagarðurinn þvert yfir hann í nokkurn veginn beinni línu frá Útskálum, þ.e. Túngarðinum á Útskálum, þótt sú samkoma sjáist ekki nú, og þar til hann hverfur fyrir ofan bæina Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði í Kirkjubólshverfi, þar sem hann hefur á sama hátt náð sambandi við túngarð.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn.

Þessi beini garður, hinn!raunverulegi Skagagarður, hefur verið röskir 1500 m að lengd. Hann er sannarlega þess virði að skoða hann. Hugsum okkur að við komum eftir þjóðveginum frá Sandgerði og stefnum til garðs. Fyrir ofan Kolbeinsstaði klofnar vegurinn í tvennt. Til hægri liggur vegur til Inn-Garðs og síðan áfram til Keflavíkur. Til vinstri liggur áðurnefndur vegur til Út-Garðs og hann förum við. Þá sjáum við fljótlega Skagagarðinn nærri vegi til vinstri handar og ekki líður á löngu þar til við komum þar sem vegurinn sker garðinn. Þar er ráð að staldra við, ef maður hefur hug á að átta sig á Skagagarðinum. Við lítum um öxl og sjáum hvernig hann nær sambandi við túnin í Kirkjubólshverfi, og til hinnar handarinnar sjáum við glöggt hvernig garðurinn stefnir til norðausturs rétt utan við Útskálakirkju.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Hér er auðvelt að sjá hvernig garðurinn tengir saman Útskálahverfi og Kirkjubólshverfi og hvernig hann girðir af Skagann, nokkurn veginn á mörkum hans og heiðarinnar. Hér er mjög auðskilið að þetta er aðalvarnargarður Skagans og einnig hvernig hann hefur getað tengst túngörðum til beggja hliða, sem vel hugsanlega hafa náð alla leið til Rafnkelsstaða að austan og Þórustaða að vestan eins og Árni Magnússon segir, eða jafnvel alla leið til Flankastaða eins og prestarnir segja. Í Kirkjubólshverfinu má enn rekja þessa garða að mestu leyti og á loftmynd sjást þeir greinilega og hvernig þeir enda við sjó rétt fyrir sunnan Þórustaði. Í Garðinum sést þetta miður sökum þess hve mjög hefur byggst þar en þó hygg ég að einnig þar mætti sjá búta af túngörðum ofan gömlu túnanna. Ekki fer hjá því að Skagagarðurinn veki undrun fyrir mikilleika sakir. Sú spurning hvarflar jafnvel í hug manns sem snöggvast að hann sé alls ekki mannaverk, heldur náttúrulegur ávalur ás. Slíkt væri dálaglegt.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Til þess að vera ekki einn um ábyrgðina fékk ég þrjá glögga menn til að gera með mér áreið á garðinn haustið 1976. Einn þeirra var dr. Sigurður Þórarinsson. Hann sagði orðrétt þegar hann sá garðinn: „Það er ekkert í náttúrunnar ríki sem getur búið þetta til.“ Reyndar urðum við allir vel sammála um að vissulega væri Skagagarðurinn mannaverk. Hann má heita þráðbeinn, og þegar vel er að gáð er fleira sem sýnir að hann er af mannahöndum gerður. Hann hefur verið borið saman úr grjóti og jarðvegshnausum og áreiðanlega verið bæði hár og þykkur en með tímanum flast út og að nokkru sandorpist. Við þetta hefur hann smátt og smátt fengið þennan ávala svip og að lokum orðið firnabreiður í grunninn, víða líklega um 15m.

Skagagarður

Skagagarður.

Skýrar hleðslur sjást varla í honum nú, þótt steinar standi upp úr víða, og þegar skarðið var rofið í hann vegna vegarins 1964 tók verkstjóri (Björn Jóhannesson)!ekki eftir greinilegri hleðslu svo hann muni. Reyndar er túngarðurinn á Hofi í Garði fróðlegur til samanburðar við Skagagarð. Hann er með ólíkindum mikill og ávalur nokkuð á svipaðan hátt, en til muna minna útflattur. Og beint upp frá gerðum, við hornið á íþróttavellinum sem nú er, má sjá vænan bút af mjög fornlegu garðlagi sem að öllu leyti minnir á Skagagarðinn sjálfan. Að sögn prestanna góðu áttu nokkur hlið að hafa verið á Skagagarðinum. Ekki er það nema eðlilegt, en í raun réttri er þetta hermt í sögum til þess að skýra nokkur skörð sem nú eru í garðinn. En sum þeirra eru langtum of víð til að teljast hlið, og kem ég nú ekki auga á nærtæka skýringu á skörðum þessum. Garðurinn kann að hafa verið rofinn af einhverjum ástæðum, en þó mætti fremur virðast við athugun sem skörðin hafi verið frá upphafi og þá ef til vill fyllt upp í þau með einfaldri grjótgirðingu, sem síðan hefur hrunið eða verið fjarlægð. Hefur garðurinn kannski aldrei verið fullgerður í sinni stóru mynd?“

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Í bók Jóns Böðvarssonar, Suður með sjó frá 1988 segir: „Nýjar rannsóknir jarðfræðinganna Guðrúnar Larsen og Hauks!Jóhannessonar hafa leitt í ljós að Skagagarðurinn á Suðurnesjum er miklu eldri en áður var haldið. Niðurstöðu þessa fengu þau eftir að hafa grafið gegnum garðinn á þremur stöðum. Að sögn Hauks mælist garðurinn nú 1500 metra langur, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum…. Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé út yfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna!akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem telin er jafngömul torfgarðinum. Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er í gegnum hann. Ljóst er að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.“
Í skýrslu Garðars Guðmundssonar og fleiri í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 2002-2003 segir: „Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11.öld.“

Garður

Skagagarður.

Viðbót 2017: Garðurinn var rakinn frá Skálareykum norður að Skagabraut. Hann er ekki mjög áberandi en sést þó alla leiðina sem lágur hryggur,5-8m breiður og mest 0,3-0,4m hár, algróinn. Hann fjarar heldur út eftir því sem nær dregur Skagabraut. Rúmum 100 m sunnan Skagabrautar er líkt og rask hafi orðið á garðinum á rúmlega 10 m löngum kafla sem sést helst á því að þar er garðurinn mjög ógreinilegur og gróður með öðru móti en í móanum umhverfis. Þar sem raskinu sleppir liggur greinilegur hryggur líkt og í framhaldi af garðinum en heldur meira í austur en fyrr, í stefnu skammt vestan við Skagabraut 23. Þessi hryggur tilheyrir líklega ekki garðinum heldur virðist hann liggja fast vestan við hrygginn þótt hann sé orðinn mjög óljós á þessu bili. Garðinn má rekja þokkalega á loftmynd í stefnu á heimreiðina að Skagabraut 36. Leiða má að því líkum að heimreiðin sé ofan á garðlaginu forna, sem haldi svo áfram til norðurs skammt vestan við bæjarhól á Útskálum og allt niður að sjó. Áður hafði í skráningu verið vikið að því að líklega væri garðurinn horfinn norðan Skagabrautar en á loftmyndum virðist votta fyrir honum í túninu tæpa 100 m NNV af íbúðarhúsinu á Útskálum.

Skálareykir

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Í örnefnalýsingu segir: „Skálareykir eru gamlar bæjarrústir fast við miðjan Skagagarð. Þar sér fyrir túngarði og húsarústum…Skálareykja finnst ekki getið, hvorki 1703 né 1847. Eru til ýmsar tilgátur um býli þetta, m.a. að Ketill gufa hafi byggt skála, annan að Gufuskálum og annan að Útskálum. Svo var byggður nýr bær, þar sem reykirnir sáust frá báðum hinum skálunum, og því nefndur Skálareykir. Önnur segir, að þar sjáist merki og að þar hafi verið draugagangur, er setti bæinn í eyði, en trúlegra er, að það hafi verið vatnsskortur og fjarlægð frá sjó.

Skálareykir

Tóftir Skálareykja.

„1839:“Í mæli er að bær!hafi þá staðið á Skaganum nálægt þessum garði, sem Skálareykir hafi verið kallaðir; hafa allt til þessa sést þar bæjarrústir og mót til túngarðs. Ekki eru nema munnmæli, að þaðan hafi staðurinn verið fluttur að Útskálum, en hitt er víst, að þar hafi einhverntíma verið jörð byggð, þó hennar sé ekki getið.“
SSGK, 162;c.1840: „Nálægt þessum garði er í mæli, að hafi staðið bær, sem Skálareykir hafi heitið, og sjáist þar nú til bæjarrústa og túngarðsgirðingar umhverfis. Hvergi hef ég í jarðabókum séð þá jörð nefnda, enda hef ég fátt fengið í hendur af gömlum skjölum.“
SSGK,184;c.1860: „Með þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur, og þá hefur að líkindum enginn bær staðið fyrir utan hans nema einn, sem enn sér rústir af og hét á Skálareykjum [Skálareykir hdr.]. Sá bær hefir staðið þétt við garðinn miðjan, Skagamegin, og má vera að þar hafi verið gæzlumaður akranna og garðsins, ef bærinn er svo gamall eins og garðurinn. Á Skálareykjum sér enn fyrir túngörðum og bæjar- og húsarústum í meðallagi stórum.“

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

1902: „Fyrir austan þær (girðingar), þar sem nú er fjárrétt, er sagt að bær hafi verið og heitið Skálareykir. Er sagt að á þeim bæ hafi hvílt sú skylda, að verja akrana og girðingarnar fyrir ágangi af skepnum. Ekki er getið hvers vegna hann er kenndur við reyki. Má vera það bendi til þess, á þessu svæði hafi fyrrum verið jarðhitar, sem seinna hafi kólnað, og með þeim jarðhita hafi akuryrkjan þar staðið og fallið.“
BJ í Árbók 1903, 36. Rústir býlisins má greina um 200 m sunnan við fiskverkun H. Péturssonar og um 300 m suðvestan við nýlegt íbúahverfi við Spóaland. Rústir býlisins eru í þýfðu túni. Hluti þess er afgirtur og nýttur til hrossabeitar. Nokkuð af ökuslóðum liggja í kringum og og þvert yfir rústirnar.
1977 segir í Árbók Ferðafélagsins: „Minnast verður á Skálareyki. Rétt er það sem prestarnir herma að garðlag harla fornlegt afmarkar þar vænan blett rétt utan við garðinn og þó reyndar báðum megin við hann, því að garðurinn liggur gegnum girðinguna eins og best sést á loftmynd. Innan í girðingunni mótar fyrir mjög vallgrónum mannaverkum, en tvær grjóthlaðnar og snotrar húsatóftir miklu unglegri ofan á. Þar sagði fólk í Garði að gullkista væri grafin. Hvort þarna hefur verið! bær skal ósagt látið, en þessar minjar eru friðlýstar með garðinum sem rétt er, því að þær eru eins og samvaxnar honum. Nafnið mun líklega að hálfu dregið af Útskálum, en að hálfu er það óráðin gáta.“

Skálareykir

Skálareykir – uppdráttur.

KE í ÁFÍ 1977, 117. Rústir býlisins eru báðu megin Skagagarðs sem sést vel á þessu svæði og ná yfir svæði sem er um 200 x 130 m stórt. Bæjarhóllinn hefur líklega verið þar sem tóft A er nú en hún virðist vera fremur ung. Gætu því eldri byggingarstig verið undir tóftinni. Er hóllinn um 15 x 15 m að stærð og 0,5 m hár. Er hann veglegasti hóllinn á svæðinu og grasi vaxinn. Tóft A: Ofan á hólnum er tóft, líklega af fjárhúsi. Er hún 10 x 10 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Bæði snúa í NA-SV. Hólf I, hið austara, er 6 x 2,2 m að innanmáli og hefur um 2 m breitt op á syðri skammhlið. Fyrir utan opið er röð fremur stórra steina. Hólf II er 6 x 2,5 m að innanmáli og er op á því fyrir miðri vestari langhlið. Er opið ríflega 1 m breitt. Veggir tóftarinnar eru flestir 2 m breiðir nema sá sem aðskilur hólfin tvö, hann er aðeins um 1 m að breidd. Allir eru veggirnir 0,6 m háir. Líklega eru þeir grjót- eða torf- og grjóthlaðnir og sér í steina í öllum veggjum. Hleðslur eru grónar grasi. Gerði B: 5 m norðvestan við tóft A er ferhyrnt gerði. Hefur það líklega umlukið kálgarð eða rétt. Er það 16 x 15 m að stærð og snýr í NA-SV. Breidd veggja er um 1,5 m og hæð þeirra 0,3 m. Á stöku stað sést glitta í grjót í gegnum grassvörðinn. Ekki er eins þýft innan garðlagsins og utan þess.

Skálareykir

Skálareykir – loftmynd.

Erfitt er að átta sig á aldri garðlagsins en líklega er það ekki mjög fornt. Gerði C: 20 m sunnan við tóft A er annað gerði. Er það 26 x 7 m að utanmáli og snýr í NA-SV. Skammhliðar gerðisins virðast hafa rofnað í burtu en víða vantar einnig hluta í langhliðar. Breidd veggja er um 0,8 m og hæð þeirra er 0,4 m. Ekkert grjót sést í hleðslunum. Nánast engar þúfur eru innan garðlagsins. Líkt og garðlag B kemur helst til greina að um sé að ræða kálgarð eða einhvers konar aðhald.

Skagagarður

Skaggarður – loftmynd.

Aldur garðlagsins er óræður. Tóft D: 3 m suðvestan við tóft A er afar ógreinileg tóft útihúss. Er hún u.þ.b. 11 x 9 m að utanmáli og snýr í VNV-ASA. Virðist hún við fyrstu sýn aðeins vera upphækkun í landslaginu eða framhald af bæjarhólnum en ef vel er að gáð má greina leifar tveggja hólfa. Snúa bæði til NNV-SSA. Sést glitta í grjót á nokkrum stöðum sem líklega er úr veggjum útihússins. Tóft þessi er líklega mun eldri en tóft A. Garðlag E: Túngarður liggur utan um býlið. Afmarkar hann svæði sem er sporöskjulaga, u.þ.b. 200 x 130 m að stærð og snýr í N-S. Garðurinn er mikið siginn og sést sem hryggur í túninu, 3-5 m breiður og um 0,2 m hár. Víðast hvar er fremur greinilegur nema norðaustast þar sem hann hverfur sjónum á um 80 m vegalengd. Aðeins sést í grjót á stöku stað. Tóft F:!95 m suður af tóft A og upp við garðlag E er lágur hóll. Er hann 9 x 4 m að stærð, 0,3 m hár og flatur að ofan. Líklegast verður að teljast að útihús hafi staðið þar en að hleðslur þess séu nú útflattar. Tóft G: Austast við garðlag E, um 45 m suðaustan við tóft A er hóll. Er hann 8 x 7 m að stærð og ríflega 1 m hár. Stingur hann nokkuð í stúf við hið flata umhverfi í kring. Engar greinilegar rústir eru á honum en ójöfnur ofan á honum gætu verið leifar mannvirkis.

Skagagarðurinn gerður sýnilegur

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – minnismerki.

Suðurnesjabær fékk í sumar (2020) styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem lið í sérstöku fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19-faraldursins.

Suðurnesjabær sótti um styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins. Það nefnist „Aðkomusvæði við Skagagarðinn“, nýr ferðamannastaður í Garði. Verkefnið felur í sér hönnun og verklegar framkvæmdir. Markmiðið er að gera Skagagarðinn sýnilegan og vekja athygli á honum.

Heimild:
-Garður á Reykjanesi: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags – Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Heimildaskrá:
-ÁFÍ 1977: Kristján Eldjárn. 1977. „Skagagarður – fornmannaverk“. Árbók Ferðafélags Íslands bls. 107-119. Ferðafélag Íslands.
-Árbók 1902: Brynjúlfur Jónsson. 1903. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags, bls. 31-52.
-Árbók 2002-2003: Garðar Guðmundsson o.fl. „Fornir akrar á Íslandi. Meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum.“ Árbók Hins íslenzka!fornleifafélags, bls. 79-106.
-Árni Magnússon. 1953. „Chorographica Islandica.“ Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju: annar flokkur. Bókmenntafélagið, Reykjavík.
-Birna Lárusdóttir!(ritstj.). 2008. Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I: fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna). FS404k08011. Fornleifastofnun Íslands.
-Fasteignabók 1956-57: Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955. Reykjavík 1956-57.
-Herforingjaráðskort 1910: Generalstabens topografiske kort. Nr. 17, Suðurnes N.A. Mælt 1908, útg. 1910. Kjöbenhavn.
-Jón Böðvarsson. 1988. Suður með sjó: Leiðsögn um Suðurnes. Rótaríklúbbur Keflavíkur, Keflavík.
-Loftmynd 1974: LMI-Kort-D16-D-5481. Landmælingar Íslands.
-Magnús Grímsson. 1940. „Fornminjar á Reykjanesskaga.“ Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess II, 243-62. Reykjavík.
-SSGK: Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Reykjavík. 1937-39.
-Túnakort 1919: Túnakort fyrir Rosmhvalaneshrepp frá því um 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.
-Umsögn Minjastofnunar Íslands um deiliskipulag í Garði, dags.!5. september 2017. MÍ201708-0023/6.09/ÞH 34
-Ö-Útskálar: Örnefnaskrá fyrir Útskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Skagagarður

Skagagarðurinn í Garði.