Tag Archive for: Skarfar

Skarfur

Fræðiheiti skarfs er Phalacrocoracidae. Hann er af ætt pelíkanfugla sem telur um 40 tegundir um allan heim nema á eyjum í miðju Kyrrahafi. Skarfar eru sjófuglar sem halda sig við ströndina eða á vötnum nálægt sjó. Flestir skarfar eru dökkleitir eða svartir, með langan mjóan gogg með krók á endanum. Skarfar lifa á fiski og kafa eftir æti. Þeir verpa í varpnýlendum á skerjum og í klettum.
Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) og toppskarfur ( P.aristotelis). Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð.

Dílaskarfur

Skarfur

Dílaskarfur.

Dílaskarfurinn er stóri bróðir toppskarfsins. Fullorðinn dílaskarfur í varpbúningi, frá janúar til júní, er með hvíta kverk og vanga. Hann er oft með hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, þannig að höfuðið virðist kantað að aftan. Dílaskarfur fær nafnið af stórum, hvítum díl, sem hann ber á lærunum í varpskrúðanum. Aðrir hlutar fuglsins eru blásvartir og glansandi. Í vetrarbúningi, frá júlí fram í desember, er hann allur litdaufari og tapar hvíta litnum, nema á kverk. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Goggurinn er dökkur, en gulur við ræturnar, krókboginn í oddinn, gulur fiðurlaus blettur er við goggrót. Fætur eru svartir, augu blágræn.
Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt getur reynst að greina skarfana að á færi. Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp. Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Dílaskarfur styggur og var um sig á varpstöðvum og er hann alger andstæða „litla bróður“, toppskarfsins.

Hópar fljúga venjulega oddaflug. Oft má sjá skarfa á leið til eða frá náttstað í eyjunum í Kollafirði og fæðuslóða í Hafnarfirði og á Álftanesi fljúga yfir Seltjarnarnes eða Vesturbæ Reykjavíkur kvölds og morgna á veturna.

Skarfar tilheyra ættbálki árfætla eða pelíkanfugla og eru skyldir súlum, pelíkönum, spírum, skutlum og freigátufuglum.

Skarfur

Skarfur á kolaveiðum.

Dílaskarfur lifir á fiski og er slyngur kafari, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.

Dílaskarfur verpur í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Dvelur á veturna með ströndum fram en leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn og skarfar sjást jafnvel á vötnum á hálendinu. Nokkrir tugir halda oft til á Þingvallavatni. Toppskarfurinn er aftur á megin eindreginn sjófugl.

Aðalvarpstöðvar dílaskarfs er norðanverður Faxaflói og Breiðafjörður. Áður varp hann allvíða á Norðurlandi og jafnvel víðar. Varpútbreiðslan dróst saman snemma á síðustu öld, hann hvarf þá frá Norðurlandi og öðrum landshlutum nema Vesturlandi. Lágmark var í stofninum 1993, en eftir það hefur honum fjölgað jafnt og þétt. Hann er nú farinn að verpa á Ströndum og fyrir skömmu fannst varp í eyju í Djúpavogshreppi. Eftir varptímann dreifast skarfarnir um land allt.

Dílaskarfur er algengur varpfugl víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Erlendis verpur hann gjarnan í trjám og jafnvel gömlum háspennumöstrum, nærri fiskiríkum vötnum inntil landsins.

Lítil þjóðtrú fylgir dílaskarfinum, þó þótti fuglinn gefa mönnum vísbendingu um fisk í sjó. Hann var líka veðurviti og réðu menn í veður af flugi hans eða hátterni.

Á flæðiskeri (lokaerindi)
Yfir skerið skella bárur, skrokkur titrar.
Hátt mót vindi kría kallar:
“Krí nú skolast bjargir allar”

Dílaskarfur skeri framhjá skríður öldu.
Kallar: “vinur komdu fljótur
köfum saman – gamli þrjótur”.

Nú syndir hjá hin sæmilega síldartorfa
Sælt er líf og fengsæll flóinn.
Ég flaksa vængjum – stekk í sjóinn. – HBJ.

Skarfur

Toppskarfur.

Dílaskarfur er stór, dökkur og hálslangur sjófugl. Fullorðnir fuglar eru svartir, í varpbúningi (síðla vetrar og á vorin) er hann með hvíta kverk og vanga, oft hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, minna á pönkara. Stór hvítur díll er á hvoru læri og bera þeir nafn sitt af honum. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Kynin eru eins.

Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt er að greina skarfana að á færi, en dílaskarfurinn er miklu stærri, með þykkari gogg og flatara enni . Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp.

Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Er styggur og var um sig á varpstöðvum. Félagslyndur.

Dílaskarfur er fiskiæta, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Hann kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.

Verpir í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi.

Dvelur á veturna með ströndum fram. Hann leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn, aðallega á veturna, jafnvel inn á hálendið á sumrin. Toppskarfur gerir það aldrei.

Toppskarfur

Skarfur

Toppskarfur.

Hann verpir á sjávarklettum í Vestur- og Suður-Evrópu, Suðvestur-Asíu og Norður-Afríku. Hann hefur oftast vetursetu á svipuðum slóðum og hann verpir, nema þeir fuglar sem verpa allra nyrst. Við Ísland er ein mesta skarfabyggðin við Breiðafjörð en þar voru talin árið 1975 um 6.600 hreiður og er það einnig aðal varpsvæði hans. Á veturna er hann aftur á móti við ströndina um allt vesturland, frá Vestmannaeyjum og Faxaflóa og allt norður fyrir Vestfirði, á Ströndum inn á Húnaflóa.

Toppskarfurinn er meðalstór svartur, grannur og langur sjófugl, um 68 – 78 sentimetra langur með 95 – 110 sentimetra vænghaf. Honum er oft ruglað saman við Dílaskarf en þótt hann sé líkur honum er hann nokkru minni en Dílaskarfurinn.

Á varptímanum er hann alsvartur með grænleitri slikju en hún er tilkomin vegna dökkra fjaðrajaðra og virðist hann fyrir vikið vera hálf hreistraður að ofan. Fullorðnir fuglar hafa einkennandi uppsveigðar fjaðrir á höfðinu frá því eftir áramótin og fram á vor. Ungfuglarnir eru aftur á móti dökkbrúnir með ljósan framháls.

Toppskarfar halda hópinn og verpa í byggðum og þá helst á lágum eyjum og hólmum en einnig stundum á lágum klettum og í fuglabjörgum. Hreiðrið er einfaldur hraukur úr þangi og fóðrað með fjöðrum og grasi. Eggin eru frá einu til sex og liggur hann á í 30 til 31 dag.

Skarfur

Toppskarfur.

Toppskarfur heldur sig við ströndina og sést sjaldan inn í landi. Hann er einn besti kafari meðal skarfa og getur kafað 45 metra eða meira. Fæða hans kemur frá sjávarbotni og aðalfæða þeirra er sandsíli. Toppskarfurinn rennblotnar svo við köfunina að hann þarf að þurrka sig og sjást þeir oft með útbreidda vængina í sólbaði eða að blaka þeim. Er oft sagt að þá sé hann að „messa“. Eins og með marga fugla sem sérhæfa sig í köfun er hann er frekar klaufskur við að taka sig á loft. Hann er nokkuð veiddur og hefur því fækkað aðeins fyrir vikið.

Toppskarfur er nokkru minni og grennri en dílaskarfur. Hálsinn er styttri og grennri og höfuðið minna, en annars getur verið erfitt að greina þessa fugla sundur eftir stærð og vexti nema sjá þá saman. Höfuð toppskarfs er hnöttóttara, enni brattara og goggur áberandi grennri en á dílaskarfi. Í varpbúningi er toppskarfur alsvartur með grænleitri slikju. Virðist hreistraður að ofan vegna dökkra fjaðrajaðra. Uppsveigður fjaðratoppur á höfði er einkenni fullorðinna fugla frá því í janúar fram á vor. Ungfugl er dökkbrúnn, með ljósan framháls, en ekki ljósleitur á bringu og kviði eins og ungir dílaskarfar. Kynin eru eins.

Toppskarfur er djúpsyndur og ber höfuðið hátt á sundi eins og dílaskarfur. Eftir köfun þarf toppskarfur að þurrka vængina og situr þá oft og blakar þeim, ,,messar“ eins og dílaskarfur, en breiðir ekki jafn mikið úr vængjunum. Hann er fremur klaufalegur þegar hann hefur sig á loft, flýgur með hraðari vængjatökum en dílaskarfur og teygir hálsinn og gogginn ekki upp eins og hann, flýgur fremur lágt. Er venjulega félagslyndur.

Toppskarfur er fiskiæta, kafar eftir bráðinni, fangar m.a. sandsíli, síld, marhnút, þorsk, ufsa og sprettfisk. Stingur sér á sundi og kafar með fótunum.

Heldur sig við strendur og sést nær aldrei inn til landsins eins og dílaskarfurinn. Verpur í byggðum, er algengastur á lágum eyjum eða hólmum í Breiðafirði og Faxaflóa. Er einnig í lágum klettum, stundum í fuglabjörgum eða í stórgrýtisurðum. Hreiðrinu svipar til dílaskarfshreiðurs.

Toppskarfur er staðfugl, sem sést víða um vestanvert landið á veturna. Hann hefur breiðst út um Strandir á undanförnum árum og er nú farinn að verpa í Papey. Hann verpir við strendur Evrópu, frá Kólaskaga suður í Miðjarðarhaf og til Marokkó.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Skarfur
-https://nmsi.is/molar/fugl_manadarins/dilaskarfur/
-https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=4&id=42
-https://is.wikipedia.org/wiki/Toppskarfur
-https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=1&id=60

Skarfur

Dílaskarfur.