Tag Archive for: skátaskáli

Gjár

Þann 3. apríl 2009 var birt „AUGLÝSING um náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar„. Hvorki í auglýsingunni né í sérstakri, væntanlega rándýrri, nánast óþarfa skýrslu, um friðlýsingarsvæðið, er hvergi, af einhverri ástæðu, getið um fyrrum skógrækt og bústað og athafnir fólks í Gjánum á síðari árum. Sagan sú virðist ekki heldur hafa verið skráð í opinberar bækur bæjarins, þrátt fyrir fyrirliggjandi heimildir þar um. Sagan sú virðist því með öllu huld þeim er hingað til hafa viljað um þær fjalla.

Gjár

Gjár – loftmynd.

FERLIR lék forvitni á að vita nánar um framangreindar mannvistir í árþúsunda gamalli hrauntjörninni frá Búrfelli vestast í Gjánum. Þar má í dag m.a. sjá hlaðna garða, hleðslu við grunn flaggstangar, húsgrunn og leifar af bústað, auk myndarlegra trjáa, sem þar hafa verið gróðursett, vonandi til langrar framtíðar.

Helgi G. Þórðarson átti bústaðinn síðastur manna uns hann varð skemmdarvörgum að bráð um og í kringum 1980. Uppaflega mun Þórir Grani Baldursson, arkitekt, hafa byggt bústaðinn þarna í skjóli innan friðsældar Gjárinnar á árunum í kringum 1949 með samþykki bæjarráðs og staðfestingu bæjarstjórnar, líkt og gekk og gerðist með frumkvöðla skógræktarmanna í Sléttuhlíð á árunum 1925 og síðar.

Gjár

Gjár – garður.

Baldvin Jónsson? eignaðist bústaðinn um tíma uns Helgi og eiginkona hans, Thorgerd Elísa Mortensen, festu kaup á honum um 1974. Þau hjónin stunduðu m.a. skógrækt í nágrenninu, eða allt þangað til bústaðurinn var gereyðilagður í kringum 1980. Áður hafði hann nokkrum sinnum orðið fyrir barðinu á veiklynduðum skemmdarvörgum.
Bústaðasvæðið hafði verið afgirt, en skömmu fyrir friðlýsinguna 2009 höfðu bæjaryfirvöld fyrirskipað að girðingin skyldi fjarlægð. Eftir standa í dag girðingastaurarnir sem og hliðsstólparnir. Starfsfólki Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hafði verið fyriskipað að fjarlægja netgirðinguna á stólpunum.

Gjár

Gjár – aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2024. Skástrikaði hlutinn er friðuð svæði. 

Að sögn afkomenda Helga hefur þeim verið fyrirmunað að endurreisa bústaðinn þrátt fyrir gildandi lóðasamning sem þeim er á hverju ári gert að greiða af lögbundin fasteignagjöld.
Þórir Grani (1901-1986) var þekkur arkitekt. Hann starfaði t.d. sem forstöðumaður hjá Teiknistofu landbúnaðarins 1938-1969, teiknaði fjölmargar opinberar byggingar; héraðsskóla, kaupfélagshús, samkomuhús og verksmiðjuhús víða um landið. Hann var frumkvöðull í gerð húsa með stíl fúnksjónalisma. Hins vegar er hvergi getið um hið lítillátlega athvarf hans í Gjánum.

Helgi G. Þórðarson

Helgi G. Þórðarson (1929-2003).

Nefnds Baldvins virðist hvergi vera getið í tengslum við þennan tiltekna bústað.
Á kortum danska herforingaráðsins frá 1903 til 1974 er á tímabilinu skráð örnefnið „Skátaskáli“ í Gjánum. Hingað til hefur ekki verið hægt að rekja uppruna þessa „örnefnisins“.
Helgi G. Þórðarson var í Skátafélaginu á Ísafirði, þá 18 ára. Á aðalfundi þess árið 1948 mátti t.d. lesa eftirfarandi: „Aðalfundur félagsins var haldinn í Alþýðuhúsinu 7. okt. Ritari var kosinn Magnús Baldvinsson, gjaldkeri Helgi G. Þórðarson og skálavörður Kristján Arngrímsson. Á fundinum var samþykkt, að félagið segði sig úr íþróttasambandi Íslands. Var þetta gert með hliðsjón af ályktun, sem gerð var á aðalfundi B.I.S. 1944, þar sem þess er óskað, að skátafélögin taki ekki þátt i opinberum kappmótum.
1. október hyrjaði félagið á að halda regluleg varðeldakvöld eða skemmtifundi með Valkyrjum, og var fyrsti varðeldurinn haldinn í Alþýðuhúsinu 14. október. Tókst þessi varðeldur mjög vel, og hafa slíkir varðeldar verið haldnir mánaðarlega síðan. Þá byrjaði félagið einnig að gefa út fjölritað innanfélagsblað, sem nefnt var Varðeldar, og var Helgi G. Þórðarson ritstjóri þess.“

Gjár

Gjár – skógrækt.

Þess er og getið í heimildum að Helgi hafi verið ötull skógræktarmaður í upplandi Hafnarfjarðar.
Í Morgunblaðinu 2003 er minningargrein um Helga. Þar segir m.a.: „Helgi kvæntist Thorgerd Elísu Mortensen frá Frodby á Suðurey í Færeyjum, hjúkrunarfræðingi 1929. Hún er dóttir Daniel Mohr Mortensen kóngsbónda þar.
Börn Helga og Thorgerdar eru Þórður, Daníel og Hallur, allt fyrrum skátar með þeim formerkjum „skáti – ávallt skáti“).

Gjár

Gjár – herforingjaráðskortið 1967. „Skátabústaður“ var ekki til á eldri kortum ráðsins.

Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum í Ögurvík við alla almenna vinnu útvegsmanna eins og hún gerðist á fjórða og fimmta tug síðustu aldar. Þar gekk hann í barnaskóla og síðar í Héraðsskólann í Reykjanesi við Djúp. Hús foreldra hans brann 1943 og fluttist fjölskyldan ári seinna út á Ísafjörð og þremur árum seinna til Reykjavíkur. Helgi lauk gagnfræðaprófi frá gagnfræðaskólanum á Ísafirði 1945 og landsprófi 1946, stúdentsprófi frá MR 1950, fyrrihlutaprófi í verkfræði frá HÍ 1954 og M.Sc.prófi í verkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1958.

Gjár

Gjár – leifar bústaðar Helga.

Í dag (2025) mæta aðkomufólki á vettvangi annars vegar sorglegar leifar sögu bústaðarins og hins vegar blómstrandi afurð skógræktarinnar.
Skv. framangreindu má sjá að yfrið hefur verið nóg að gera hjá Helga og Elísu samfara slitdróttri dvölinni í Gjánum, enda tala vanrækt verksummerkin þar í dag sínu máli. Hafnarfjarðarskátarnir höfðu sóst eftir að kaupa (aðrir segja að yfirtaka) bústaðinn undir það síðasta, en úr varð  því skiljnlega ekki eftir eyðilegginguna. Skátarnir höfðu þá um þann mund þann draum að byggja skála í Helgadal. Bæjaryfirvöld komu í veg fyrir slíkar hugmyndir, líkt og svo margar aðrar annars góðar, en enn í dag má þó þar sjá þar fyrrum undirstöðurnar undir „draumabústað“ þeirra.

Gjár

Gjár.

Skv. upplýsingum afkomenda Helga er þeim enn gert að greiða fasteignagjöld af „bústaðnum“ í Gjánum, þrátt fyrir að hafa verið meinað af hálfu bæjaryfirvalda að endurbyggja hann og nýta svæðið á upphaflegan hátt. Girt hafði t.d. verið umhverfis bústaðastæðið, en bæjaryfirvöld fengu starfsfólk Skógrækarfélags Hafnarfjarðar til að fjarlægja girðinguna, en girðingarstaurarnir standa þó enn. Svo virðist sem bæjaryfirvöld viti ekkert hvernig þau eigi að bregðast við þessu máli, hvorki laga- né skynsamlega.

Kaldársel

Gjár – herforingjaráðskort frá 1927 – hvergi minnst á „Skátaskála“.

Hið skondna er og að á umræddu athafnasvæðinu hafa í skrám Byggðasafns Hafnarfjarðar opinberlega verið skráðar sjö „fornleifar“ þrátt fyrir að slíkar minjar skv. gildandi Minjalögum verða að teljast a.m.k. eitt hundrað ára eða eldri til að geta talist til slíkra skráninga. Engar þessara tilteknu minja í fornleifaskráningunni uppfylla þau skilyrði!

Allir sem og öll er geta gefið nánari upplýsingar um mannvistirnar í Gjánum er velkomið að hafa samband við ferlir@ferlir.is

Sjá nánar um „Friðlýsingu Kaldárhrauns og GjárnaHÉR.

Gjár

Á þessu opinberlega auglýstu korti virðist bústaðasvæðið „Skátaskáli“, efst fyrir miðju (h.m. við O7), vera undanþegið friðlýsingunni!!??

Heimildir:
-Einhverjar 20 ára, 1. tbl. 29.02.1948.
-Morgunblaðið, 308 tbl. 13.11.2003, bls. 40.
-ust.is/library/sida/Nattura/Kald%c3%a1rhraun%20og%20Gj%c3%a1rnar
-ferlir.is/kaldarhraun-og-gjarnar-fridlysing/
Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005 – 2024

Hæaibjalli

Þorvaldur Örn Árnason skrifaði í Skógræktarblaðið árið 2011 um Hábjalla í Vogum:

Háibjalli„Þegar ekið er vestur eftir Reykjanesbraut í átt til Keflavíkur og komið er framhjá Vogavegamótum gefur að líta í suðurátt trjáreit undir klettabelti. Það er skógræktin við Háabjalla í Vogalandi.
Bjallinn er misgengi sem er austast af fimm misgengjum sem ganga út úr Vogastapa til suðvesturs. Skógrækt hófst við Háabjalla 1949 og er þar nú gróðursæll skógarreitur í eigu Skógræktar- og landgræðslufélagsins Skógfells. Eru hæstu trén allt að 17 m. Þangað er aðeins um hálftíma gangur frá Vogum.

Veður, jarðvegur, gróður
Veðurfar á Suðurnesjum er að sumu leyti hagstætt gróðri en að öðru leyti ekki. Meðalárshiti er meðal þess sem hæst gerist á landinu, en hitasveiflur litlar svo lítið er um heita daga og frost eru væg. Ársúrkoman var 1.124 mm og fellur verulegur hluti hennar sem regn. Í janúar ríkja norðaustlægar áttir en á sumrin suðlægar.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þótt megnið af bæjarlandinu einkennist af hrauni er þar meira af gróðurmold en sýnist, milli hraunhóla og klappa. Það kom berlega í ljós þegar verið var að grafa fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar svo og í húsgrunnum nýbygginga í Vogum. En það skiptast á hólar og lautir og á hólunum eða hraunkollunum er jarðvegur víða mjög þunnur. Þannig háttar einmitt til á skógræktarsvæðinu við Háabjalla þegar fjær dregur klettabeltinu.
Búskaparhættir fyrr á öldum gengu mjög nærri gróðri og jarðvegi hér, einkum beit búfjár og eldiviðartaka. Þegar allur skógur og kjarr var uppurið í nágrenninu var rifið upp lyng og mosi til að brenna og til að greiða með skatt til kóngsins manna á Bessastöðum. Með batnandi efnahag dró mjög úr eldiviðartöku og nú hefur jarðhitinn tekið við.
Nokkuð fjölbreyttur gróður þrífst í skjólinu af Háabjalla. Má þar nefna blágresi, brönugrös, jarðarber, hrútaber og síðast en ekki síst skógfjólu. Sitkagrenið er byrjað að sá sér í skóginum.

Búfjárbeit og friðun

Háibjalli

Háibjalli.

Skógræktarfélag Suðurnesja hóf strax eftir stofnun þess 1950 baráttu fyrir friðun Suðurnesja fyrir beit. Árið 1969 gerði Skógræktarfélag Suðurnesja samþykkt um nauðsyn þess að lausaganga sauðfjár yrði bönnuð en einungis leyft að hafa fé í afgirtum hólfum. Leitað var til sveitarfélaganna og var Rosmhvalanesið þá friðað fyrir beit og girt af árið eftir. Árið 1977 létu öll sveitarfélögin og Landgræðslan girða þvert yfir skagann frá Vogum til Grindavíkur og friða svæðið vestan þeirrar girðingar fyrir beit, Háibjalli þar með talinn. Sauðféð er síðan í sérstökum beitarhólfum en því hefur fækkað verulega.

Háibjalli

Háibjalli.

Sauðfé frá Grindavík hefur sótt nokkuð inn í Vogalandið og stundum unnið skaða á trjárækt við Háabjalla. Fyrir fáeinum árum náðist samkomulag um að banna lausagöngu sauðfjár einnig í landi Grindavíkur og girti Landgræðslan þá víðáttumikið beitarhólf við Núpshlíðarháls sunnan Trölladyngju.
Þessi beitarfriðun Suðurnesja skiptir gríðarmiklu máli fyrir þá sem rækta og annast um skóga og garða. Áður en hún kom til fór drjúgur hluti orku og fjármuna skógræktarfólks í að girða, viðhalda girðingum og reka út fénað sem slapp inn. Þannig stríð heyja menn enn víða um land.

Landslag við Háabjalla

Háibjalli

Háibjalli.

Háibjalli er um 20 m hár hamar, norðvesturbarmur einnar af fjölmörgum misgengissprungum á þessu svæði. Sprungurnar myndast þegar landið gliðnar er Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn reka hvor í sína átt. Þannig er líklegt að vegalengdin milli Voga og Grindavíkur lengist að meðaltali um 2 cm á ári af þeim sökum. Suðausturbarmur Háabjallasprung unnar hefur sigið mikið og því er norðvesturbarmurinn svo hár sem raun ber vitni og nýtur skógurinn skjóls af honum.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir. Háibjalli fjær.

Snorrastaðatjarnir eru þar sem landið hefur sigið mest. Fjöldi sprungna með svipaða stefnu (NA-SV) eru beggja vegna Snorrastaðatjarna, alveg frá hábungu Vogastapa og langleiðina að Fagradalsfjalli í suðaustri. Misgengissprungurnar mynda nokkra stalla suðaustan í Vogastapa sem nefndir eru bjallar og er Háibjalli hæstur þeirra.
Hægt er að líta á landslag þetta sem smækkaða mynd af Þingvöllum, þar sem Háibjalli eða Hrafnagjá (hæstu misgengissprungurnar í Vogum) myndu svara til Almannagjár og Snorrastaðatjarnir til Þingvallavatns.

Seltjörn

Seltjörn – náttúruminjasvæði.
Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluti Hrafnagjár, Grindavík, Reykjanesbæ (áður Njarðvík), Vatnsleysustrandarhreppi, Gullbringusýslu. (1) Svæði frá Seltjörn til Snorrastaðatjarna, ásamt skógarreitum. Einnig syðsti hluti Hrafnagjár. (2) Gróskumikill gróður í Snorrastaðatjörnum. Gróðursælir skógarreitir undir Háabjalla og í Sólbrekkum. Mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri.

Háibjalli er á náttúruminjaskrá, ásamt Snorrastaðatjörnum og Hrafnagjá austan við, og Seltjörn og Sólbrekkum vestan við. Megnið af þessu svæði tilheyrir Sveitarfélaginu Vogum en Seltjörn og Sólbrekkur tilheyra Reykjanesbæ og syðsti hluti Hábjallamisgengisins er í Grindavíkurlandi. Samkvæmt aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga er stefnt að friðlýsingu þessa svæðis. „Til greina kemur að friða þetta svæði sem fólkvang, e.t.v. framhald af Reykjanesfólkvangi ef hann verður stækkaður til vesturs, nema það verði hluti af eldfjallagarði.“
Víst má telja að land þetta og Vogaheiðin öll hafi verið viði vaxið við landnám. Eftir beitarfriðun í rúm 30 ár er birki- og víðikjarr mikið að sækja í sig veðrið, t.d. austan við Litla-Skógfell og þar austur af við Kálffell. Líklega verður þetta allt vaxið lágu kjarri eftir nokkra áratugi ef búfé verður að mestu haldið frá því.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir.

Um 600 m suðaustan við Háabjalla eru tjarnirnar sem bera nafn Snorrastaða, en sá bær var löngu kominn í eyði 1703. Stærstu tjarnirnar eru í gömlum heimildum nefndar Vatnsgjár, enda frýs aldrei í þeim næst hrauninu. Í leysingum á vorin og í vætutíð eru tjarnirnar fimm að tölu. Á öðrum árstímum eru þrjár þeirra mest áberandi. Ef gengið er eftir göngustíg að fyrstu tjörninni er komið að þrem grónum tóftum af seli alveg við vatnsbakkann. Það gæti hafa verið kúasel frá Vogabændum (kúaselin voru jafnan nær byggð en sel fyrir fráfærufé).
Mikill og fallegur gróður er í tjörninni, einkum nær hrauninu. Þar blómstrar m.a. engjarós á bakkanum og horblaðka eða reiðingsgras úti í tjörninni. Á vorin má stundum sjá myndarlegar reiðingstorfur úr reiðingsgrasi reknar á land.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir.

Sunnan við tjarnirnar er nútímahraun sem ýmist er nefnt Arnarseturshraun eða Skógfellahraun. Það er 22 km2 að stærð og rann líklega á 13. öld allar götur ofan í suðurenda tjarnanna. Arnarklettur skagar upp úr hrauninu þar skammt frá, en þar var áður Arnarhreiður. Vatn streymir sífellt undan hrauninu og gegnum tjarnirnar enda er syðsti hluti þeirra yfir leitt íslaus. Silungur mun vera í tjörnunum og sögur um að honum hafi verið sleppt þar um 1950.

Háibjalli

Háibjalli – grillaðstaða.

Skátar í Keflavík (Heiðabúar) hafa lengi haft dálæti á Snorrastaðatjörnum. Þeir Emil Birnir Sigurbjörnsson, Guðbrandur Sörenson, Guðleifur Sigurjónsson (síðar garðyrkjumaður og landgræðslufrömuður í Keflavík) og Júlíus P. Guðjónsson voru hópur stráka sem voru oft í tjaldútilegu við Snorrastaða tjarnir árin 1948–1949. Faðir Guðbrandar var seglasaumari og fengu þeir seglaafganga frá honum til að klæða á grind og smíða sér báta. Seglin voru svo tjörguð og sigldu þeir á þessum heimasmíðuðu bátum á tjörnunum og geymdu svo í hraungjótum. Þetta voru mikil ævintýri fyrir stráka um fermingu.

Jakob Árnason

Jakob Árnason (1926-2020), félagsforingi Heiðabúa. 13 skátadrengir mættu á laugardagsmorgnum í  að
smíða og reisa skála á skáta-
lóðinni við Hringbraut.
Skálinn var svo fluttur 27. feb. 1993.

Hvernig tengist þessi skátasaga skógræktinni í Háabjalla? Jú, á þessum tíma var þar fleira ævintýrafólk á ferð – komið til vits og ára. Það voru þeir sem hlustuðu ekki á úrtöluraddir og hófust handa við að rækta skóg undir Háabjallanum, en það þótti klikkun á þeim tíma. Skátarnir slógust stundum í hóp skógræktarfólksins og voru nýttir til að gróður setja eins og einn þeirra komst að orði.
Á 9. áratugnum komu Heiðarbúar með skála og settu inn á milli tveggja vestustu tjarnanna. Var hann töluvert áberandi kennileiti, en gekk síðan úr sér og hrundi 2010.
Skógfellavegurinn, gamla þjóðleiðin milli Voga og Grindavíkur, liggur skammt austan við tjarnirnar. Hann hefur nú verið stikaður og er oft genginn. Þar sem þjóðleið þessi sker Reykjanesbraut var gerður undirgangur sem nýtist Vogabúum vel þegar þeir fara á útivistarsvæði sitt við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir.“

Skátaskálinn Heiðaból

Í Skátablaðinu 1994 er fjallað um Heiðaból – nýjan skáli Keflavíkurskáta við Snorrastaðatjarnir:

„Þann 28. nóvember sl. vígðu Heiðabúar í Keflavík nýjan skátaskála sem staðsettur er við Snorrastaðatjarnir á Reykjanesi.

Snorrastaðatjarnir

Skátaskáli Heiðabúa við Snorrastaðatjarnir eftir að hafa fokið um koll 2010.

Skálinn hafði verið byggður á lóðinni við skátaheimilið og síðan var honum ekið á leiðarenda.
Félag Suðurnesjamanna afhenti skátafélaginu landskikann til eignar árið 1985 og hófust byggingarframkvæmdir um haustið 1989 undir stjórn Jakobs Árnasonar. Öll vinna við skálann fór fram í sjálfboðavinnu og komu margir við sögu. Það var svo í febrúar á síðasta ári sem skálanum var lyft af lóðinni og hann settur á flutningabíl sem flutti skálann á áfangastað.
Keypt hefur verið innbú í skálann og er hann allur hinn hentugasti fyrir skátastarfsemi og það uppgræðslustarf sem sunnanmenn
hyggjast ráðast í við skálann.

Við vígslu skálans flutti skátahöfðingi Gunnar Eyjólfsson ávarp, en eins og allir vita var Gunnar skáti í Keflavík.

Snorrastaðatjarnir

Heiðabúar fjarlægja leifar skátaskálans.

Gunnar Sveinsson og Fjóla Sigurbjörnsdóttir gáfu myndarlega peningagjöf í minningarsjóð sem þau stofnuðu til minningar um son sinn Magnús Gunnarsson, fv. félagsforingja sem féll frá langt fyrir aldur fram.
St. Georgsgildið í Keflavík afhenti fánastöng og íslenskan fána og Sigurður Guðleifsson fv. félagsforingi gaf áletrað skinn með byggingarsögu skálans.
Skátablaðið óskar Fleiðabúum til hamingju með skálann og vonar að hann eigi eftir að veita húsasjól mörgum skátanum í leit að ævintýrum og þekkingu í fjölbreyttu starfi.“

Skátaskálinn fauk um koll árið 2010. Skátarnir fjarlægðu síðan brakið. Síðan hefur ekkert hús verið við Snorrastaðatjarnir, en Keflvíkingar hafa löngum sóst eftir því að fá byggja sumarhús sín við tjarnirnar.

Sprengjur – leifar heræfinga Bandaríkjahers

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

„Í tvígang a.m.k. hafa fundist sprengjur við Háabjalla. Síðast árið 2003 fundu börn að leik virka sprengju. Líklega hefur hún fundist áður á gömlu æfingasvæði hersins þar skammt frá og verið borin að bjall anum. Landhelgisgæslan sprengdi hana á staðnum og myndaðist lítill gígur í moldina. Þá var enn og aftur farið og leitað með tækjum en ekki fundust fleiri sprengjur á Háabjallasvæðinu, en margar nær Skógfellaveginum.
Adrian J. King, sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar, upplýsti 2003 að á árunum 1952–1959 hefðu átt sér stað miklar heræfingar á 15 ferkílómetra svæði í Vogaheiði og þar hafi rignt hundruðum þúsunda sprengna af ýmsum stærðum og gerðum. Mesti þéttleikinn væri rétt austan við Snorrastaðatjarnir. Slík æfingarsvæði væru víðar á Suðurnesjum, svo sem við Stapafell, Sandgerði, Krýsuvík og Kleifarvatn, en 1985 hefði herinn hætt að nota virkar sprengjur í æfingum. Útilokað er að hreinsa svæði sem þetta þannig að það verði öruggt, en hægt er að hreinsa litla bletti með nokkru öryggi.

Snorrastaðatjarnir

Sprengjur eftir leit við og ofan Snorrastaðatjarna.

Bandaríkjaher gat ekki afhent almennilegt kort af svæðinu en Landhelgisgæslumenn fundu loks útlínur skotæfingasvæðisins á korti sem Landmælingar gerðu 1951. Svo virðist sem aðallega hafi verið skotið frá einum stað nálægt Háabjalla rétt við Reykjanesbraut. Fullvíst má telja að einhverjar sprengjuhleðslur hafi lent utan hins afmarkaða æfingasvæðis. Skothríðin dundi þaðan til suðausturs og sést víða hvernig molnað hefur úr klettabeltum marga kílómetra þaðan. Einnig voru búin til skotmörk austan við tjarnirnar úr ýmsu járnadrasli, m.a. vörubílsflaki, og er mest hætta á ósprungnum sprengjum þar í kring. Eitt slíkt svæði er nálægt Skógfellaveginum og ekki fjarri þar sem skátaskálinn var. Draslinu var síðan ýtt ofan í gjár og sprengt eða mokað jarðvegi yfir.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir – viðvörunarskilti.

Síðan hefur hluti af því komið upp úr jarðveginum vegna frostlyftingar. Gera má ráð fyrir að stærstu sprengjuhleðslurnar hafi borist um 7 km inn á heiðina.
Landhelgisgæslumenn hafa teiknað kort af svæðinu þar sem því er skipt í belti eftir því hvar líklegast er að finna hleðslur af hverri stærð. Þeir hafa einnig gert leitaráætlun og leggja mesta áherslu á að leita með Skógfellaveginum. Þeir töldu mikilvægt að sem flestir þekktu hættuna og þess vegna fær þetta mál nokkurt rými í þessari grein þó svo að æfingasvæðið sé utan við sjálfan skógræktarreitinn.
Á heræfingu sumarið 1955 kviknaði í mosanum í hrauninu austan tjarnanna og er það svæði ennþá dekkra yfirlitum. Menn reyndu árangurslaust að slökkva í 3 vikur uns skaparinn tók til sinna ráða og lét rigna.

Upphaf skógræktar við Háabjalla

Háibjalli

Háibjalli.

Árið 1948 fékk Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík 15 ha land gefins frá Vogabændum. Í afsali dags. 28. ágúst það ár segir m.a.: „Þar sem Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík hefir í hyggju að hefja skógrækt og aðrar framkvæmdir á landsvæði suður af svonefndum Háa-Bjalla við Vogastapa, þá afsölum vér undirrituð endurgjaldslaust til Félags Suðurnesjamanna í Reykjavík þeim hluta úr þessu landsvæði sem tilheyrir jörðum okkar.“ Undir bréfið rita eigendur Vogajarða.
Landið var girt strax 1948 og hófst gróðursetning árið eftir. Land þetta nær frá Háabjalla og að enda Arnarseturshrauns (tunga af því lendir innan girðingar) og lenda 1–2 af Snorrastaðatjörnunum innan hennar. Þetta er ákaflega fallegt og fjölbreytt land og hefur eflaust verið hugsað sem útivistarparadís með fjölbreyttum trjágróðri til viðbótar því sem náttúran hafði að bjóða. Undir klettaveggnum (bjallanum) er gott skjól í flestum vindáttum og góð skilyrði fyrir skógrækt. Þar nýtur þó ekki sólar á kvöldin.
HáibjalliUndir Háabjalla voru gróðursettar 27.500 plöntur á árunum 1949–1961. Meirihlutinn drapst, en sitkagrenið í skjóli við bjallann lifði vel og er orðið allt að 17 m hátt. Athygli vekur að ekki virðist hafa verið reynt að gróðursetja reynivið.
Sigurður Blöndal og fleiri skógræktarmenn könnuðu trjágróður á Suðurnesjum árið 1985 vegna ályktunar Alþingis það ár um könnun á möguleikum á skóg- og trjárækt á Suðurnesjum og var árið eftir tekin saman skýrsla fyrir forgöngu nefndar sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum kaus til þess að vinna að átaki í skóg- og trjárækt á svæðinu. Niðurstöður um Háabjallareitinn voru m.a.
þessar: „Af allri þessari gróðursetningu sést nú lítið af trjám nema á 15–20 m belti út frá hamrinum …

Háibjalli

Háibjalli – Fjallafinka.

Sitkagrenið er eina trjátegundin sem hefur spjarað sig vel í Háabjalla, auk nokkurra trjáa af rauðgreni. Nokkur ljómandi falleg sitkagrenitré eru þarna núna, sum um 10–12 m há.“ Sigurður gefur jafnframt út dánarvottorð fyrir trjátegundirnar þar sem hann getur til um hvað gæti hafa orðið plöntunum að fjörtjóni, svo sem furulús, vorhretið 1983, sauðfjárbeit eftir að hætt var að hugsa um girðinguna (fé er einkar sólgið í lauftré og lerkið) og sinubruna þar sem mikið af trjám brunnu.
Stopular heimildir eru tiltækar um gróðursetningaraðferðir, áburðargjöf og umhirðu skógarins framanaf. Lengi vel var mjög erfitt að koma ökutæki að og kann það að hafa dregið úr að menn notuðu húsdýraáburð við gróðursetninguna. Guðbrandur Sörenson mundi eftir að einhverju sinni hafi verið sturtað loðnu inn í skóginn í Háabjalla á nokkrum stöðum upp úr 1970 og var ólíft þar það sumar að hans sögn.

Frumherjar

Háibjalli

Háibjalli – tóft (Snorrastaðir?).

Félag Suðurnesjamanna átti Háabjallareitinn þar til honum var afsalað til Skógræktarfélags Suðurnesja þann 20. mars 1970,30 en félagið var stofnað 1950 að frumkvæði Félags Suðurnesjamanna. Í afsalinu er tekið fram að Skógræktarfélagið skuli endurbyggja girðingu utan um landið, sem gæti þýtt að hún hafi verið orðin léleg og fénaður gengið út og inn og átt þátt í því hve margar af plöntunum drápust. Árið 1985 er girðingin dæmd ónýt. Starf Skógræktarfélagsins var öflugt fyrst en svo dró úr því. Í skýrslu Skógræktar ríkisins frá 1986 segir um félagið: „Þarna var starfað af nokkrum krafti og áhuga fyrstu árin, en úr því lognaðist starfið útaf svo að í 20–25 ár hefir það legið niðri að mestu og skógræktarfélagið að heita má óvirkt nema í Grindavík.“

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Af einstökum frumkvöðlum ber fyrst að nefna Egil Hallgrímsson, kennara og kortagerðarmann, frá Austurkoti í Vogum (f. 1890). Hann bjó og starfaði í Reykjavík og kom mörgu til leiðar. Hann hafði frumkvæði að skógræktinni við Háabjalla og einnig í Aragerði í Vogum. Hann var frumkvöðull að stofnun Skógræktarfélags Suðurnesja 1950 og gaf 1000 kr. við stofnun þess og urðu þeir peningar síðan að Skógræktarsjóði Suðurnesja. Hann var kjörinn fyrsti heiðursfélagi Skógræktarfélagsins á aðalfundi þess 1955. Yngri bróðir Egils, Árni Klemens Hallgrímsson hreppstjóri í Vogum, kemur einnig mikið við sögu skógræktar á Suðurnesjum. Svo virðist sem landgræðsluskógaátak hafi þegar verið hafið á 6. áratugnum því í frétt frá aðalfundi félagsins 1958 segir m.a.: „Grasfræssáning hefur farið fram í girðingunum með góðum árangri og er unnið að því að græða þar upp öll flög, jafnhliða trjáræktinni.“

Háibjalli

Háibjalli um haust.

Næstur er nefndur til sögunnar Siguringi E. Hjörleifsson, kennari við Austurbæjarskóla og tónskáld, kjörinn heiðursfélagi í Tónskáldafélagi Íslands 1963.17 Þeir Egill voru vinir og stóðu saman í frumkvöðlastarfi ásamt fleirum. Hann kom á Willis-jeppa úr Reykjavík með plöntur á toppnum til að gróðursetja upp úr 1960 að sögn Særúnar Jónsdóttur í Vogum. Siguringi var kunnugur Árna Klemens í Austurkoti sem aðstoðaði hann við að fylla bílinn af unglingum úr Vogum til að aðstoða hann við skógræktina. Þar á meðal voru 3 dætur Árna, þær Ása, Helga Sigríður og Halla. Magnús Ágústsson man eftir Siguringa að stinga út úr fjárhúsum í Halakoti á Vatnsleysuströnd, setja taðið í poka og upp á bílinn og flytja í Sólbrekkur, einn af reitum Skógræktarfélags Suðurnesja, þar sem hann vann mikið að gróðursetningu.

Skógrækt og umhirða nú

Háibjalli

Háibjalli.

Skógræktar- og landgræðslufélagið Skógfell hefur starfað af krafti síðan það var stofnað 1998. Nafn félagsins er dregið af nafni Litla-Skógfells sem er í Vogalandi í átt að Grindavík. Það er nú skóglaust að mestu en hefur eflaust verið klætt skógi áður fyrr. Félagið hefur gróðursett hátt í 1000 trjáplöntur árlega og auk þess hirt um eldri reiti og grætt upp moldarflög.
Haldin eru vinnukvöld á vorin auk fleiri tilfallandi verkefna og lögð áhersla á þægilegt andrúmsloft og notalega kaffipásu auk þess að vinna. Að jafnaði mæta 10–15 manns.
Skógfell hefur til afnota 10 ha landgræðsluskógasvæði í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og hefur gróðursett þar, sáð og borið á frá því að félagið var stofnað. Einnig hefur félagið annast um fleiri skógarreiti í Sveitarfélaginu Vogum.

Háibjalli

Háibjalli – sveppir.

Landgræðslu- og skógræktarfélagið Skógfell eignaðist skógræktarlandið við Háabjalla 1. október 2002 með afsali eftirlifandi félaga í Félagi Suðurnesjamanna í Reykjavík. Skógfell hafði þá þegar tekið reitinn að sér og hafist handa við að bæta við trjágróðri, hlú að og bera á eldri tré og bæta aðgengi, ásamt því að hreinsa og fegra svæðið. Gróðursett hefur verið í móa á bersvæði, nokkru fjær hamrinum, aðallega birki, sitkagreni, alaskavíði (Hríma), jörfavíði og furu.
Borinn hefur verið skítur með flestum gróðursettu plöntunum auk tilbúins áburðar og borinn tilbúinn áburður á þau af eldri trjánum sem ekki var góð rækt í. Stærstu trén hefur ekkert verið gert fyrir en þau vaxa mjög vel og eru árssprotar tugir cm á lengd.

Háibjalli

Háibjalli.

Borð með bekkjum og hlaðið grill er til staðar fyrir gesti og gangandi og talsvert notað á sumrin. Umferð á eflaust eftir að aukast þegar lokið verður við gerð stíga frá Vogum undir Reykjanesbraut. Umgengni er góð með undantekningum þó.

Síðustu ár hafa bæði elstu börn Heilsuleikskólans Suðurvalla og miðstig Stóru-Vogaskóla gróðursett á sérstökum svæðum nálægt Háabjalla. Skógfell hefur aðstoðað starfsfólk skólanna við þá vinnu og lagt leikskólanum til 2–3 ára plöntur en grunnskólinn fær plöntur frá Yrkju. Þarna er mjög spennandi leiksvæði fyrir börn, samspil trjáa og hárra kletta, en betra er að fara varlega. Skógurinn er hæfilega þéttur og skjólgóður en þyldi vissulega snyrtingu.

Háibjalli

Háibjalli.

Stefnt er að því að koma upp skógi í móanum milli bjallans og tjarnanna en þó með góðum rjóðrum og ekki alla leið að tjörnunum svo útsýnið við þær haldist. Ákveðið hefur verið að ekki verði um frekari gróðursetningu trjáa að ræða við klettabeltið til að það fái að njóta sín líkt og trjágróðurinn. Einnig má geta þess, að björgunarsveitarmenn hafa notað klettana til æfinga, en það kemur samfélaginu til góða á sinn hátt.
Það sannast á Háabjalla að maður gróðursetur fyrir næstu kynslóðir. Nú eru þeir sem gróðursettu þessi háu, skjólgefandi tré flestir fallnir frá en næstu kynslóðir njóta verka þeirra og fyrirhyggju. Um leið leitast Skógfell við að tryggja að núlifandi kynslóðir hafi sem mest að gefa komandi kynslóðum.“

Heimildir:
-Skógræktarritið, 1. tbl. 15.o5.2011, Þorvaldur Örn Árnason, Háibjalli í Vogum, bls. 66-73.
-Skátablaðið, 1. tbl. 01.04.1994, Heiðaból – nýr skátaskáli, bls. 8.

Háibjalli

Undir Háabjalla.