Í Skátablaðiðinu í febrúar 1939 er fjallað um húsbyggingarmál skáta, m.a. „Byggingu skátaskála við Nátthagavatn ofan Reykjavíkur„.
„Flest skátafélög á landinu, sem nokkrum aldri og þroska hafa náð, hafa ráðist í húsbyggingar af einhverri gerð.
Sum hafa byggt sumarskála, önnur funda og samkomuhús o. s. frv. Öllum hefir verið það ljóst, að með einhverjum samastað, hefir skapast festa í félögunum, og framtak og starfsþrek einstaklinga þeirra notið sín við byggingarnar, og fjáröflun til þeirra. Nægir að geta um í þessu sambandi byggingar skátafél. Væringja og Arna við Lækjarbotna og Elliðakot, skátafél Einherja á Ísafirði, skátafél. Fálkar á Akureyri og samskonarfundarhús skátafél. Væringjar á Akranesi, sem að mínum dómi hefir bezt náð tilgangi sínum, enda þótt jeg viðurkenni fyllilega þörf sumar- og skíðaskála.
Hér í Reykjavík er nú vaknaður meðal skáta mikill áhugi fyrir húsbyggingu til afnota fyrir skátafélögin, enda mjög mikilsvert fyrir allan félagsskap skáta að ráða yfir heppilegu húsnæði til æfinga og fundarhalda.
Allir eldri skátar finna mjög til þess, hve ábótavant er í þessum efnum hér í bænum, og munu nú einhuga um að hrinda í framkvæmd hið allra fyrsta húsbyggingu, er orðið getur samastaður skáta og félagsskapar þeirra, auk þess ættu félagar utan af landi að geta átt þar örugt athvarf er þeir koma til Reykjavíkur.
Þegar velja á stað undir slíka hyggingu verður að taka tillit til tvenns, að staðurinn sé sem næst því í miðbænum, vegna fundarsókna og æfinga, og liggi vel við umferð, t.d. vegna verzlunar. Verði þessa gætt við ákvörðun staðar undir væntanlega húsbyggingu, er vel fyrir öllu séð, því ýmsar ráðagerðir eru uppi í sambandi við bygginguna og ákornast þá mjög sennilega í framkvæmd skátahreyfingunni til eflingar og þroska.
Þann 10. nóv. síðastl. samþykkti stjórn B. í. S. að skipa bygginganefnd í samráði við skátafélögin í Reykjavík. Tók nefndin strax til starfa, við undirbúning fjáröflunar til lóðarkaupa, sem hraða ber, vegna þess að lóðunum fækkar óðum, sem nothæfar eru.
Byggingarnefndin hefir nú fengið leyfi dómsmálaráðuneytisins til þess að hafa happdrætti um sumarbústað „Arna“ við Nátthagavatn, sem að fasteignamati er, með stórri eignarlóð, metin á kr. 9500.00.
Er sumarbústaðurinn byggður á svo skemmtilegum stað og sjálfur svo eigulegur, að nefndin vonar að auðvelt verði að selja happdrættismiðana, þegar um svo stóran og glæsilegan vinning er að ræða og í annan stað stuðningur við félagsskap skáta, sem á almennum vinsældum að fagna.
Í Reykjavík eru nú starfandi um 8—900 skátar, að kvenskátunum meðtöldum. Ef allur sá hópur sameinar sig um, að koma sem fyrst upp veglegri húsbyggingu hér í bænuin, er vissa fengin um góðan árangur. Skátar, piltar og slúlkur, hugleiðið það, að væntanleg skátabygging á að vera ykkar annað heimkynni, æfingar og samkomustaður, kynningastaður við skáta utan af landi, sem og aðsetur stjórnar skátamálanna og félaganna í bænum. Um þetta mál mætti margt segja fleira, en svo treysti ég á dómgreind og framtakssemi allra skáta, og er þess fullviss, að byggingarnefndin á í hverjum einstakling vissan stuðningsmann, enda er þá helzt von um fljótan og góðan árangur.
Byggingarnefndarmaður.“
Í dag má skálinn sá muna fífil sinn fegurri. Og svo virðist sem eignarlóðin verðmæta á svo frábærum stað ofan Nátthagavatns nýtist í dag skátastarfi reykvískra skáta í engu.
Heimild:
-Skátablaðið V. árgangur 1. tölublað febrúar 1939, – Húsbyggingarmál skáta, bls. 1.