Tag Archive for: Skeggjastaðasel

Stardalur

Þegar FERLIR var á ferð um Stardal rákust augun í fornar tóftir syðst í dalnum, skammt ofan við Stardalsánna áður en hún fellur niður í gildrögin ofan við núverandi bæjarstæði. Svo virtist vera um að ræða forna kúaselsstöðu, jafnvel allt frá landnámstíð; fjós, baðstofu og vinnslurými á millum. Tóftirnar eru vel grónar þótt vel megi sjá móta fyrir veggjum, en erfitt er að koma auga á þær úr fjarlægð, hvoru megin árinnar sem staðið er. Norðar er djúp skál, manngerð, að því er virðist. Mögulega gæti þar verið um kolagröf að ræða, en skálin var hálffull af snjó þegar horft var á  hana í fyrri hluta aprílmánaðar. Þessarra fornleifa virðist hvergi hafa verið getið í skráðum heimildum – hingað til a.m.k. Að vísu er getið í heimildum um „skála Ingólfs í Skálafelli“ og „bæ Halls hins goðlausa (Helgasonar)“, en þær skýra ekki þessar fornleifar.
Stardalur-332Framangreindur Stardalur er sunnan Skálafells og Múla – austan og ofan við bæjarhúsin í „Stardal“. Um Stardalinn sjálfan rennur Stardalsáin ofan úr Botnum og sameinast Leirvogsánni neðan bæjarins. Efst í grónum dalnum eru Akurvellir. Örnefnið bendir til akra þar fyrrum. Ofar, utan í sunnanverðu Skálafelli eru nokkur grunn gildrög, talin frá vestri;Kimagil, Fláagil, Bolagil, Beinagil og Grensgil og er þá komið að Ytribotnum (neðar) og Innribotnum innan við dalinn.
Í Jarðabók ÁM og PV 1703 segir m.a. um Stardal: „Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram, sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið“. Í sömu bók segir um Skeggjastaði: „Forn jörð bygð úr auðn fyrir 16 árum“. Ekkert er minnst á selstöðu jarðarinnar árið 1703.
Í Jarðabókinni eru þó tilgreindar fimm selstöður frá eftirfarandi bæjum, án þess að hægt hafi, hingað til a.m.k., að ákvarða staðsetningu þeirra af nákvæmni:
1) Gufunessel?
2) Korpúlfsstaðasel?
3) Lágafellssel?
4) Helgafellssel?
5) Blikastaðasel?
Stardalur-333Árið 1220 átti, skv. heimildum, kirkjan í Þerney helming selfara í Stardal. Brautarholtskirkja eignaðist hana þegar kirkjan í Þerney lagðist af.
Í Landnámabók segir frá landnámi hið nyrðra í Mosfellssveitinni, alt frá Leiruvogi og norðr undir Esjuna, bls. 40:..Hallr goðlauss hét maðr; hann var son Helga goðlauss; þeir feðgar vildu eigi blóta ok trúðu á mátt sinn. Hallr fór til Íslands, ok nam land með ráði Ingólfs frá Leiruvági til  Mógilsár. Son Halls var Helgi, er átti Þuríði Ketilbjarnardóttur. Þeirra son var Þórðr í Álfsnesi“. Mógilsá rennr í Kollafjörð, sem liggr inn með Esjunni að sunnanverðu; Mógilsá heitir og bær, er stendr sunnan undir Esjunni. Álfsnes heitir og enn bær í þessu landnámi.
Landnámubók segir og á bls. 257: „Þórðr skeggi son Hrapps, Bjarnarsonar bunu, hann átti Vilborgu Ósvaldsdóttur ok Úlfrúnar Játmundardóttur; Þórðr fór til Íslands ok nam land í Lóni fyrir norðan Jökulsá milli ok Lónsheiðar, ok bjó í Bæ tvo vetr eða lengr; þá frá hann til öndvegissúlna sinna fyrir neðan heiði í Leiruvági; þá réðst hann vestr þannig, ok bjó á Skeggjastöðum, sem fyrr er ritat; hann seldi þá Lónlönd Úlfljóti, er flutti lög út hingat“. Áðr segir um Þórð, bls. 40: „ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leirurágs, (Leiruvágsar réttara, neðanm.). Hann bjó á Skeggjastöðum.
Stardalur-334Skeggjastaðir standa langt uppi í hálendinu, sem gengr austr af fellinu Mosfelli. Þeir eru hér efsti bær annar enn Stardalr. Það er auðvitað, að lönd hafa verið orðin numin hið neðra, því að annars hefði Þórðr ekki tekið sér land svo langt upp til fjalla, heldr fengið sér bústað nær vogunum, þar sem súlurnar komu á land; það er og eðlilegt, að snemma hafi bygzt nálægt Ingólfi, og einkannlega það, sem var nær sjónum.
Þórðr skeggi hefir ekki komið hingað suðr fyrr enn eftir 900; enn kominn var hann, þegar Ketilbjörn gamli kom út, því að hann var með honum hinn fyrsta vetr. Hið nyrðra takmark á landnámi Þórðar skeggja er Leirvogsá; hún kemr úr Leirvogsvatni, sem er skamt fyrir ofan Stardal. Það er norðvestan til við Mosfellsheiði; er það stærsta vatnið þar; síðan rennr áin niðr hjá bænum Stardal, og svo beint vestr milli Skeggjastaða og Hrafnhóla, og þá fyrir norðan Mosfell, niðr hjá Varmadal og Fitjakoti, og svo norðanhalt ofan í Leirvogana.“
Af framangreindu að ráða, sem og útliti og varðveislugildi tóftanna í Stardal, virðist þar um að ræða eitt hinna elstu selja hér á landi – og þá líklega frá Skeggjastöðum.

Heimildir:
-Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, 1857, bls. 411-413.
-Landnámubók; Hauksbók og Sturlubók.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 4. árg. 1884-1885, bls. 75.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, árg. 1884-1885- bls. 74-75.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, bls. 322-323.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, bls. 336-337.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.