Ragnheiður Traustadóttir og Ómar Smári Ármannsson unnu skýrsluna „Fornleifaskráning í Eldvörpum og milli Prestastígs og Skipsstígs“ árið 2013.
Í efnisyfirlitinu er m.a. lýst fyrri rannsóknum, tilgangi fornleifaskráningar, fornleifaskráningunni og aðferðarfræði, jarðarnúmeri, tegund og heiti fornleifa, staðsetningu þeirra, staðháttum lýst, hættumat ákvaðað, einstökum fornleifum á svæðinu, s.s. fornum leiðum, götum, vörðum, brúm, skjólum, refagildrum, herminjum, aðhaldi. byrgjum, görðum og hellum.
„Inngangur
Að beiðni Ásbjörns Blöndal, forstöðumanns þróunarsviðs HS Orku, tóku skýrsluhöfundar, Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, saman fornleifaskrá um Eldvörp annars vegar og svæðisins milli Prestastígs og Skipsstígs hins vegar.
Skráningin og samantektin fól m.a. í sér athugun á fyrri skráningum, heimildasöfnun, vettvangsskráningu og úrvinnslu, mat á minjum innan skipulagssvæðisins, s.s. hættumat, og skýrslu- og kortagerð.
Ómar Smári sá um vettvangsvinnu, enda hefur hann um árabil gengið svæðið í þeim tilgangi að leita að minjum og skrá þær. Ragnheiður sá um úrvinnslu gagna, Margrét Valmundsdóttir fornleifafræðingur vann kort, Lísabet Guðmundsdóttir sá um innslátt á hnitum og Anna Rut Guðmundsdóttir annaðist uppsetningu á skýrslunni.
Á umræddu svæði er m.a. að finna fornar leiðir, byrgi (Tyrkjabyrgin), hlaðin skjól, vörður, refagildru, garðs auk minja úr seinni heimsstyrjöld. Herminjar eru ekki verndaðar í lögum eins og þjóðminjar/fornleifar en vegna þess hve einstakar þær eru þykir rétt að skrá þær svo að framkvæmdaraðilar geti tekið tillit til þeirra við skipulagningu og framkvæmdir.
Skráningargögnin eru vistuð í landfræðilegum gagnagrunni og er öllum gögnum skilað rafrænt.
Fyrri rannsóknir
Í neðangreindum ritum er að finna fornleifaskráningar á afmörkuðum hlutum svæðisins.
• Agnes Stefánsdóttir, 2008. Svartsengi – Eldvörp. Fornleifaskráning. Fornleifavernd ríkisins, 2008. (Rit Fornleifaverndar ríkisins 2008:7).
• Katrín Gunnarsdóttir, 2012. Grindavík. Fornleifaskráning í Eldvörpum í landi Húsatófta vegna rannsóknaborana HS Orku.
• Þóra Pétursdóttir, 2002. Fornleifaskráning í Grindavík. 2. áfangi. Fornleifastofnun Íslands ses., Reykjavík.
Auk þess skráðu Brynjúlfur Jónsson minjar á svæðinu sumarið 1902 og Ólafur Briem 1959 Tyrkjabyrgi sem Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um í Ferðabók árið 1883. Ómar Smári Ármannsson skráði Grindarvíkurvegi í ritinu Grindavíkurvegir, saga og minjar árið 2012. Loks rannsakaði Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur rannsakaði útilegumannahelli við Eldvörp árið 2008.
Heildarskrá um svæðið er nú í fyrsta sinn tekin saman. Hefur allt svæðið verið gengið að nýju í þeim tilgangi. Hnitsetningar eru allar á ábyrgð skýrsluhöfunda.
Niðurstöður
Þrjár meginleiðir hafa verið skráðar á hinu afmarkaða svæði í þeim tilgangi að gera heilstætt yfirlit um og greina minjar sem kunna að vera í hættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda.
Skráðar voru 206 vörður; fimm brýr; níu hella, skjól og aðhald; greni, refabyrgi og refagildrur voru níu; einn garður; og herminjar á einum stað.
Hinar fornu leiðir hafa verið troðnar á mörgum öldum, byrgin eru afar áhugaverð og mörg friðlýst og útilegumannahellarnir merkileg heimild um mannlífið til forna, svo að sumt það helsta sé nefnt. Herminjarnar eru vissulega ekki fornleifar eða þjóðminjar í skilningi laganna en engu að síður merkilegar minjar um hlut Íslands í heimsstyrjöldinni síðari sem er almennt séð sjálfsagt að reyna að varðveita ef kostur er.
Á svæðinu virðast ekki vera margar minjar í hættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda HS Orku, sbr. meðfylgjandi kort, en með því að hér er merkilegt minjasvæði í húfi er rétt að minna á þá almennu varúðarreglu að fara ávallt gætilega fram með vinnuvélar þar sem von er á fornleifum og varast allt óþarfa rask sem gæti stofnað minjum í hættu.
Ekki er víst að allar minjar á svæðinu sjáist á yfirborðinu eða hafi verið skráðar. Ef áður óþekktar fornleifar koma í ljós á framkvæmdasvæðinu ber að stöðva framkvæmdir, varast frekara rask og tilkynna þegar í stað um fundinn til Minjastofnunar Íslands, sbr. 38. gr. mml. Minjastofnun Íslands metur eðli þeirra og umfang og hvort frekari rannsókna sé þörf áður en framkvæmdir geta haldið áfram.“
Sjá Fornleifaskráninguna HÉR.