Færslur

Brunnastaðir
Hús var tekið á Símoni Kristjánssyni á Neðri-Brunnastöðum. Símon er fæddur árið 1916, en ennþá ern og kann glögg skil á örnefnum og kennileitum í Brunnastaðalandi. Hann er fæddur á Grund og hefur alið mestan sinn aldur á svæðinu.
BænhúshóllUm Brunnastaði er m.a. fjallað í Jarðabókinni 1703. Þar segir um jörðina: “Jarðadýrleiki óviss, konungseign.” Hennar er þó einnig getið í eldri heimildum. Árið 1395 er Brunnastaða t.a.m. getið í eignaskrá Viðeyjarklausturs. Þá eru hálfir Brunnastaðir metnir á 30 hdr. Á árunum 1547-’48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. 1584 segir að “Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 1 hdr í fríðu og 2 vættir fiska. Árið 1703 eru eftirfarandi hjáleigur í byggð; Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð og Skjaldarkot. Í eyði voru Traðakot, Vesturhús, Naustakot, Austurhús og Suðurhús. Hjáleigur í byggð árið 1847 voru Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldakot og Traðarkot. Á Bieringstanga voru nokkrir bæir, sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. Þeir voru þessir: Grund eða Trumba, Vorhúsabæirnir, Austurbær eða Bjarnabær og Vesturbær eða Guðjónsbær, Hausthús og Hvammur. Frá þessu segir Gunnar Ingimundarson í örnefnalýsingu um Brunnastaðahverfi. Tvíbýli var á jörðinni um tíma; Efri- og Neðri-Brunnastaðir.
Um Neðri-Brunnastaði segir að þeir séu “allnærri sjávarkampinum, en Efri-Brunnastaðir eru talsvert fjær og standa á allháum hól. Ekki ber hverfisingum saman um hvort býlanna séu hinir upphaflegu Brunnastaðir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1923-1924, er getið Brunnastaða og SuðurkotsbrunnurBrunnastaðakots, en hvort kotið sé annað vort núverandi býla skal ósagt látið. Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti telur Neðri-Brunnastaði upphaflega býlið, án þess þó að slá neinu föstu um það. Ályktun sína dregur hann af því, að ýmis býli á Vatnsleysuströnd hafi fyrrum verið byggð alveg niðri við sjávarkampinn, en síðan verið færð fjær sjó, eftir því sem landbrot jókst,” segir í örnefnaskrá.
“Neðri-Brunnastaðir, gömlu, var oft nefnt Húsið í daglegu tali, vegna þess, að það þótti stórglæsilegt timburhús á sinni tíð, er þar var reist, skömmu eftir síðustu aldamót (1907-8). Stendur þetta hús enn ásamt áföstum útihúsum, hvorttveggja hrörlegt mjög. … Núverandi íbúðarhús á Neðri-Brunnastöðum var reist 1957, töluvert fjær sjó en hið gamla.” “Bæjarhóll heitir sá sem Efri-Brunnastaðir standa á. Hlaðið, eða Brunnstaðahlað er hluti af Bæjarhól.”
Heimild er um bænhús á “Bænhúshól eða Kirkjuhól, en hóllin heitir svo því þar á að hafa verið bænhús í kaþólskri tíð,” segir í örnefnaskrá (GI).
Símon var spurður um hvar Bænhúshólinn væri að finna. Hann benti á aflíðandi hól í túninu suður af íbúðarhúsinu. Hann sagðist hafa afsléttað hólinn. Þá hafi komið þar upp ferkantaður steinn, ekki stór. Í honum hafi verið ferköntuð hola. Steininn hefði hann sett í sunnanverðan kálgarðinn sunnan við túnið. Garðurinn er þarna Halakotsbrunnurenn, en vel gróið í kringum hann. Hér er að öllum líkindum um stoðholustein að ræða.
Heimild er um brunn neðan við Neðri-Brunnastaði, fast við Brunnastaðabrunngötuna. “Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. í Halakoti, Efri-Brunnastöðum, Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum. … Í (Neðri-) Brunnastaðabrunni gamla, sem af Hverfisingum er talinn elsti brunnurinn, voru steintröppur, og sömuleiðis í gamla Halakotsbrunni,” segir í örnefnaskrá (GI).
Símon sagði Neðri-Brunnastaðabrunninn vera kominn undir kampinn. Svæðið hafi verið fyllt upp og varnargarður settur utar, en áður hafði hleðslur í brunninum verið fallnar að mestu. Gamli Halakotsbrunnurinn væri þó enn sýnilegur.
Brunnurinn nýrri við Halakot sést enn norðvestan við húsið. Einnig brunnarnir við Efri-Brunnastaði, Skjaldarkot og Suðurkot. Brunnurinn við Suðurkot er norðaustan við núverandi íbúðarhús, sunnan gamla bæjarhólsins. Brunnarnir við Grund og Vorhús sem og við Hvamm sjást einnig enn. Þeim er m.a. lýst í ferð FERLIRs  um Bieringstanga í fylgd Magnúsar Ágústssonar og Hauks Aðalsteinssonar.
Magnús Ágústsson í Halakoti sagði Gamla Halakotsbrunninn vera í tjarnarjaðri norðan við húsið. Affallið fráhúsinu væri leitt í brunninn og því hafi myndast tjörn við hann. Til stæði að breyta því og þá myndi brunnurinn koma í ljós að nýju. Í honum væru hleðslur og tilhöggvin þrep.
Ragnar bróðir hans staðfesti þetta. Hann sagði þó einn fallegasta brunninn í hverfinu hafa verið Skólabrunninn skammt ofan við Halakot, upp undir vegi. Hann hafi verið alveg heill þangað til nýi afleggjarinn að Skólatúni var lagður frá aðalveginum [sjá má gömlu hliðstólpana vestan vegarins] – og yfir brunninn.
SG sagði brunninn hafa verið neðan við skólahúsið. Hans væri ekki getið í örnefnalýsingum. Svæðinu hefur verið raskað og brunnurinn væntanlega horfinn.

Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Símon Kristjánsson – Neðri-Brunnastöðum – f: 1916.
-Magnús Ágústsson.
-Ragnar Ágústsson.