Tag Archive for: Skógarkot

Þingvellir

Það var grenjandi lárétt rigning í bænum þegar lagt var af stað. Þegar komið var á Þingvelli skein sólin á Þingvallahraunið og nálæg fjöll. Frábært veður. Ætlunin var að ganga í Hrauntún og Skógarkot frá þjónustumiðstöðinni að Skógarkoti og rifja upp búsetusögu og mannlíf á svæðinu fyrr á öldum sem og náttúrufarið. Í Skógarkoti eru ríkulegar minjar í fallegu umhverfi. Um tímamóta FERLIRsferð er að ræða því ekki hefur fyrr verið farið svo langt út fyrir kjörlendið. Svo gæti farið að þetta yrði upphafið að „útrás“ FERLIRs um aðra merkisstaði utan skagans og þar með formleg „útskrift“ af æfingasvæðinu.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Í tilefni af ferðinni var sett inn ný krækja á vefsíðuna, www.thingvellir.is. Á honum er bæði kort og ýmiss fróðleikur um Þingvelli, einn helgasta stað þjóðarinnar frá árinu 930.

Þingvallahraun er 9000 ára um þessar mundir, en Sandey út í Þingvallavatni er einungis um 2000 ára gömul svo ýmislegt hefur gengið þarna á um langan tíma. Fyrir um 9000 árum, þegar hraunin runnu frá Skjalbreið og gígunum ofan við Hrafnabjörg er mynduðu Þingvallahraunið hefur svæðið verið nokkurn veginn sléttlent með hraunhólum og –hæðum. Síðan hefur landið sigið að hluta á misgengissprungu, sem liggur um landið frá SV til NA. Mið-Atlantshafshryggurinn liggur um Þingvallasvæðið og Þingvallasigdældin er líkust því sem sjá má á Atlantshafshryggnum neðansjávar. Landið hefur gliðnað í sigdældinni, en reikna má með að um hálf milljón ár séu liðin frá því að Almannagjá að vestanverðu og Hrafnagjá að austanverðu lágu hlið við hlið. Þegar litið er glögglega á umhverfið má vel sjá þau frumöfl, sem skópu Ísland í upphafi, þ.e. sprungukerfið, jarðeldarnir og jökulrofið. Áhrif ísaldarjökulsins má t.d. sjá á Henglinum, Hrafnabjörgum, Ármannsfelli og Súlunum.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Götur, vegir og slóðar liggja svo til um allt hraunið, bæði þvert yfir það og á milli bæja og vatnsins. Þarna er kirkjugata, veiðigata og konungsvegur. Orðið stígur á “Þingvallamáli” er einungis ruðningur eða brú yfir gjá. Skógarkotsgatan og Gjábakkavegur annars vegar voru fyrstu akvegirnir í gegnu hraunið til austurs og Nýja Hrauntúnsgatan og Réttargata hins vegar voru leiðin noður á land um Uxahryggi. Þannig lágu “allir vegir um Skógarkot” hér á landi líkt og allir vegir lágu til Rómar enn fyrrum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Þingvellir hétu áður Bláskógar. Sennilega hafa þeir dregið nafn sitt af blágresinu, sem enn er víða áberandi innan um kjarr og lyng í hrauninu. Þingvallavatn hét þá Ölfusvatn (Ölfisvatn), sbr. Ölfusá, en eftir að þinghald varð á Völlunum breyttist nafnið og nú eru þau gömlu að mestu gleymd, líkt og flest gömlu örnefnin á svæðinu. Reyndar eru til miklar örnefnalýsingar, en fáir vita nú hvar þau örnefni eru. Örnefnin höfðu annan tilgang hér áður fyrr en fólk ímyndar sér nú á dögum. En samt er hann ekki svo frábrugðin þegar grannt er skoðað. Maður, sem talar við annan í farsíma, getur þurft að staðsetja sig til að gefa til kynna hvar hann er staddur. Á sama hátt þurfti bóndinn t.d. að geta staðsett kýr eða kindur við eða nálægt tilteknum stað þegar á þurfi að halda, öðrum til glöggvunar.
Utan þingstaðarins forna tengjast þær flestar gömlu eyðibýlunum, Hrauntúni, Skógarkoti og Vatnskoti þar sem enn má sjá ummerki mannvistar fyrir tíma vélvæðingar.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Byrjað var á því að ganga frá þjónustumiðstöðinni (sem nú er ekki nema tóftirnar) að Leiragötu (1.5 km) um Leiragjá. Gjáin er bæði breið og falleg á kafla, en annars er hún eins og aðrar gjár á Þingvöllum, djúpar. Leiragata liggur frá Leirum sunnan við miðstöðina og liðast í gegnum hraunið. Smjörgras var áberandi við götuna. Hún er vel greinileg og hefur verið gerð greinilegri á síðustu árum eftir að byrjað var á því að greina aftur gömlu göturnar og vegina í hrauninu. Sumar göturnar eru ekki varðaðar, enda einungis farnar í ákveðnum tilgangi, s.s. með fé eða til að sækja vatn. Aðrar eru greinilegri og hafa jafnvel verið lagfærðar. Þær eru varðaðar, enda oft um þjóðleiðir að ræða. Þannig var Prestastígur með austanverðu og ofanverðu hrauninu notaður þegar Skálholtssbiskupar voru á leið vestur á land og Skógarkotsgata og Gjábakkavegur voru sýsluvegir, sem notaðir voru til að greiða t.d. götu vermanna á leið þeirra yfir hraunið.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Gengið var í gegnum Þrívarðaskóg og yfir á Nýju Hrauntúnsgötu, sem hefur verið endurgerð sem reiðvegur. Hún liggur bæði til norðurs og til suðurs vestan við Skógarkot. Frá gatnamótunum er stutt eftir að Hrauntúni. Þegar stutt er eftir að bænum sést fallega hlaðin varða á hraunhól á vinstri hönd, Litlavarða. Einfaldir háir garðar umlykja túnin. Blæs vel í gegnum þá sumsstaðar. Hrauntún er sunnan Sleðaáss. Halldór Jónsson reisti þar bú 1830 á rústum kots, sem talið er hafa farið í eyði í fyrri plágunni. Þarna bjuggu þrjár kynslóðir til 1934. Óglöggt sést til rústa Litla-Hrauntúns austur af Víðivöllum og Stóragili í Ármannsfelli.

Skógarkot

Skógarkot 1913.

Sagt er að Halldór bóndi í Hrauntúni, sem hlóð garðana, hafi verið ættaður norðan af landi og taki hleðslulagið mið af því, sem hann var vanur og þekkti. Hann er m.a. þekktur fyrir að hafa varðað hinn gamla Kjalveg. Garðarnir umhverfis Skógarkotið eru hins vegar mun breiðari og taka mið af lagi sveitarinnar. Hrauntúnsgata liggur þarna sunnan garða. Réttargatan er norðan við bæinn. Fallega hlaðin heimtröðin liggur að henni frá bæjarstæðinu. Austan bæjarins eru tóftir útihúsa. Sunnan bæjarins er hlaðin hlaða og brunnurinn er greinilegur í kvos vestan hennar. Ofan og norðan við hann er flórað gólf undan timburhúsi. Fallegri fjallasýn frá bæ er vandfundin, nema ef vera skyldi frá Skógarkoti.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.                               

Þá bættist Páll Kolka í hópinn. Hann er starfsmaður Þjóðgarðsins, en garðurinn gengst fyrir gönguferðum með leiðsögn um Þingvallasvæðið á laugardögum í sumar. Ætlunin er m.a. að fara síðar í slíka ferð að Þórhallsstöðum skv. auglýstri dagskrá.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Gengið var áleiðis í Skógarkot um Sandhólaveg og Sandhólastíg yfir Sandhólagjá. Ljósberi var áberandi við götuna. Sandhólavegur er ekki varðaður og er líkt farið með honum og Leiragötu. Á leiðinni upplýsti Páll að árið 1789 hafi hækkað í vatninu og Vatnskot, á norðurbaka Þingvallavatns, hafi þá að hluta farið undir vatn, en enn má sjá garð í vatninu á um 2 metra dýpi. Vatnskot stóð utan við Vellankötlu á vatnsbakkanum í landþrengslum. Ábúendur lifðu aðallega af veiði í vatninu. Símon D. Pétursson, smiður, og Jónína Sveinsdóttir settust þar að 1912 og bjuggu lengst allra í þjóðgarðinu, til 1966. Símon þótt mikill hagleiksmaður.
Árið 1930 hafi Þingvellir verið gerðir að þjóðgarði og þar með hafi búskapur og flestir bæir skömmu síðar þar lagst af. Bóndinn í Skógarkoti hafi reyndar flutt sig niður að Hallsvík, reist þar hús og ætlað að lifa af vatnabúskap, en það hafi orðið skammlíft. Reyndar hafi Þingvallavatn lítið verið nýtt á öldum áður. þrátt fyrir nægan fisk.
Blágresi var víða með götunni. Páll sagði að túnin við bæina hefðu verið ræktuð með því að mokað var út úr útihúsum og skítnum dreift um mosavaxna hraunhóla og –lægðir. Þannig hefðu þau verið stækkuð smám saman. Reyndar væru þau hvergi mjög stór, en skógurinn hefði bætt upp beitina. Þarna hafi jafnan verið snjólétt og féð geta gengið í skóginn. Fjármargt hafi verið í kotunum. Um 1703 hafi t.d. verið um150 ær í Skógarkoti, en undir það síðasta hefur fjöldinn eflaust verið mun meiri, líkt og á öðrum bæjum í Þingvallasveit. Í Skógarkoti hafi verið strjál búseta og oft á tíðum hafi það verið sel frá Þingavallabænum.
Þegar komið var í Krókhóla var staðnæmst og Páll útskýrði örnefnið; krókóttir hraunhólar að ofanverðu. Lyng og kjarr var í hraunhólunum á móti suðri, en við norðrinu gapti mosinn.
Beygt var til hægri þegar komið var inn á Nýju Hrauntúnsgötu og síðan austur Skógarkotsveg. Af honum var gengið inn á heimtröðina í Skógarkoti. Veggirnir voru veglegir og hafa staðið nokkuð vel því þeir hafa ekki verið endurhlaðnir eftir að búskap lauk þar. Heimtröðin liggur í beygju upp að bæjarhólnum. Margt er líkt með heimtröðinni að Skógarkoti og Stóra-Gerði í Staðarhverfi í Grindavík, báðar tilkomumiklar og fallega formaðar.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Í Skógarkoti eru greinilegar rústir þessa býlis, undir Sjónarhóli. Vatn þraut oft í brunninum í túninu. Þarna var búið til 1936.
Páll dró upp teikningu af útliti bæjarins, eins og hann leit út undir það síðasta, og sýndi þátttakendum. Með því var auðveldara að glöggva sig á hvernig umhorfs hafi verið í Skógarkoti á þeim tíma miðað við aðstæður. Blágrsi hafði náð að “fótfesta” sig í túninu við heimtröðina. Suðvestan við heimtröðina að Skógarkoti liggur Vatnskotsgata og Veiðistígur til suðurs, að vatninu, annars vegar að Vatnskoti og hins vegar að Öfugsnáða, en þaðan náði veiðiréttur Skógarkots að Hallvík í austri.
Bæjarhúsin hafa staðið uppi á grónum hól. Suðvestan við þau sést enn verklega hlaðin hlaða. Tóftir útihúss eru ofar. Vel hlaðnir garðar eru allt í kringum heimatúnin. Austan við túngarðana eru Þórhallastaðir við Ölkofrahól og enn ofar í norðraustur er Hellishæð. Þar er fjárhellir.
Áhrifamikil saga tengist einum ábúandanum á Þórhallsstöðum og brugggerð hans. Á Þórhallastöðum eru rústir bæjar eru undir Ölkofrahóli. Þar er brunnur og smátún. Ölkofradalur er djúp hraunkvos vestan hólsins. Þar er vatnsstæði, sem þornar í þurrkum. Ölkofri, sem seldi þingheimi bjór á sínum tíma og brenndi Goðaskóg, bjó þar. Talið er, að stóraplága hafi lagt Þórhallastaði í eyði og Skógarkot hafi byggst eftir hana. Að sögn Páls hafa margar minjar á þessu svæði verið upgötvaðar á liðnum árum, en eflaust eru margar enn ófundnar, sem þar kunna að leynast…

Þingvellir

Fjallfífill.

Gengið var til baka um Skógarkotsstíg, greiðfæra götu, enda einu sinni fyrsti bílvegur þá leiðina yfir hraunið, og að Flosagjá. Þar var staðnæmst við brú yfir gjána. Skammt sunnan hennar má sjá enn eldri brú fyrir fótgangandi. Páll sagði að Flosagjá hafi einnig verið nefnd Peningagjá. Á því væru tvær skýringar. Annars vegar sú að í henni hafi verið komið fyrir sjóði falsaðra peninga, en hinsvegar að konungur Dana, sem hafi átt leið um “Konungsveginn” hafi fyrstur staðnæmst þar og kastað í hana pening honum og öðrum til heilla.

Götunni var fylgt upp að gatamótum Langastígs og Þingmannastígs við Vallagjá. Langistígur liggur upp um haft, sem sprengt var niður í Stekkjargjá og mun m.a. vera gömul póstleið. Þingmannastígur liggur norður með Fögrubrekkum, en það var leið Norðlendinga af þingi fyrr á öldum. Þeirri götu var fylgt áleiðis að þjónustumiðstöðinni þar sem gangan endaði. Við götuna mátti bæði berja augum brönugras og fjalldalafífil.
Til frekari upplýsinga má geta þess að Arnarfell var hjáleiga frá Þingvöllum, sem hafði afnot af fellinu og spildu norðan þess við vatnið og var góð veiðijörð. Enn þá sést móta fyrir grjótgarði, sem var hlaðinn til að girða fellið af. Líklega hefur Fornasel verið sel frá Þingvallabænum. Hjáleigan var ekki stöðugt í ábúð. Árið 1934 fékk Matthías Einarsson, læknir, erfðafestuábúð þar og flutti til sín hreindýr frá Austurlandi en þau drápust öll.
Hér á eftir eru tiltekin prestssetur á Þingvöllum með því sem þeim fylgir, með framsettum fyrirvara, sem þjóðkirkjan hefur ekki afsalað sér eða ekki hafa verið seld með lögmætum hætti: Þingvöllur með hjáleigunum í umsjá f.r.: Svartagili, Vatnskoti og Arnarfelli. Hjáleigurnar Skógarkot og Hrauntún hafa verið lögð til Þingvalla.
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá vefsjá Þingvalla  HÉR.

Skógarkot - loftmynd

Skógarkot-loftmynd.

Hrauntún

Stefnan var tekin á Þingvallahraunið. Athyglinni var einkum beint að þingvallabæjunum og gömlu vegum.
Hinar gömlu Hrauntún-loftmyndgötur eru fjölmargar í hrauninu, liggja svo að segja til allra átta, en auk Þingvallabæjarins voru nokkrir aðrir bæir við Þingvelli, s.s. Skógarkot, Hrauntún, Litla-Hrauntún, Vatnskot, Arnarfell, Gjábakki, Þórhallsstaðir, Bolabás og Svartagil. sem vert er að gefa, a.m.k. svolítinn, gaum.
Í Skógarkoti var byggð fyrr á öldum stopul en telja má líklegt að það hafi verið notað til selstöðu frá Þingvöllum. Í Skógarkoti var beitiland ágætt en frekar erfitt var um heyskap og vatnsöflun. Í dag má allt um kring í Skógarkoti sjá handbragð liðinna kynslóða í hlöðnum veggjum og rústum. Í bókinni Hraunfólkið eftir Björn Th. Björnsson er rakin saga Skógarkots og fólksins sem þar bjó á 19. öld.
Í Hrauntúni má sjá rústir af koti sem var reist um 1830. Hrauntún var í eyði um aldir og árið 1711 var það einungis þekkt sem örnefni í skóginum. Erfitt var um alla aðdrætti í Hrauntúni og þótti það afskekkt. Árið 1828 flutti Halldór Jónsson í Hrauntún og eftir það var samfelld byggð í Hrauntúni í um 100 ár. Í dag bera veggjarbrot og tún enn merki um búskaparhætti þar.
Austur af Víðivöllum og Stóragili í Ármannsfelli má finna örnefnið Litla-Hrauntún. Þar eru óglöggar rústir.
Talið er að Vatnskot á norður bakka Þingvallavatns hafi verið hjáleiga frá Þingvallastað. Þar hefur sennilega verið búið um aldir þrátt fyrir að á 19. öld hafi Vatnskot lagst í eyði en þó var þar þurrabúð með veiðirétti.
Gjábakki er eyðibýli skammt austan við Hrafnagjá. Á Gjábakka Skógarkot - loftmynder talið að kirkja hafi staðið á fyrri tímum. Ekki er nánar vitað um staðsetningu hennar. Íbúðarhúsið á Gjábakka eyðilagðist í eldi haustið 2001.
Arnarfell er rúmlega 200 metra hár móbergshryggur við norðaustanvert Þingvallavatn. Útsýni af Arnarfelli er gott, ef veður leyfir sést þaðan allt vestur til Esju, norður í Þórisjökul og niður á Suðurlandsundirlendið. Jörðin Arnarfell var ávallt í eigu Þingvallakirkju en byggð var þar stopul. Talið er að þar hafi verið sel frá Þingvallabæ en Arnarfell er með betri veiðijörðum við vatnið. Á 20. öldinni var reynt að rækta hreindýr á fjallinu og um tíma lifðu þar nokkur dýr. Síðan 1998 hefur jörðin verið í eigu og umsjón þjóðgarðsins á Þingvöllum.
Ef gengið er í austur frá Skógarkoti er komið að hinu forna eyðibýli Þórhallastöðum með túngarði um kring að hluta. Samkvæmt Ölkofraþætti bjó Þórhallur nokkur á Þórhallastöðum eða á Ölkofrastað en hann var uppnefndur Ölkofri eftir húfu sem hann bar jafnan á þingum.  Hann bruggaði öl í þingheim en sagan segir að hann hafi sofnað við kolagerð og brennt skóg nokkurra goða sem þeir höfðu keypt til nytja á þingi. Ölkofra þáttur rekur þrautagöngu Ölkofra við að leita sátta við goðana.
Leifar af eyðibýli eru við Bolabás. Þá eru tóftir Svartagils við samnefnt gil og var búið þar fram yfir 1970.
Á Þingvöllum eru fjölmargar götur og leiðir. Ofan við Hallinn lá t.a.m. ein þeirra. Þar hjá er lítil grjótvarða, sem er til merkis um merkan stað. Þarna er skarð í gjárvegginn, og um hann Minjar í Hrauntúniliggur stígur niður í gjána. Stígurinn er lagður grjóti því um hann lá aðal leiðin að vestan og sunnan niður á Vellina. Frá fornu fari lá aðalleiðin meðfram vatninu að vestanverðu, en árið 1789 urðu jarðskjálftar á Þingvöllum, svo miklir, að vatnsbakkinn seig um alin (rúml. 60 cm) samkvæmt frásögn Sveins Pálssonar læknis. Þá fór þessi gata undir vatn og var ófær. Var þá reynt að komast með hesta niður Kárastaðarstaðastíginn, en hann var svo þröngur, að baggahestar komust ekki þar niður. Urðu menn þá að ríða hingað að skarðinu og var það lagað og gert hestfært. Stígurinn heitir Langistígur.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1928 og gengu þau í gildi tveimur árum síðar. Þá voru þrjú býli í byggð á svæðinu; Hrauntún, Skógarkot og Vatnskot. Búskapur lagðist strax af á tveimur þeirra fyrrnefndu en lengur var búið í Vatnskoti.
Gengið var að Hrauntúni eftir Hrauntúnsgötu (ekki Nýju Hrauntúnsgötu. Gatan er ómerkt, en tiltölulega auðvelt er að fylgja henni upp að bæjarstæðinu. Þegar komið er að Efstubrún sést heim að Hrauntúni. Þar er varða, reyndar ein af landamerkjavörðum bæjarins og Skógarkots, sem þarna liggur til austurs og vesturs. Vörðurnar á mörkunum eru enn heilar og eru stórar og myndarlegar.
Fyrrum var þar allt fullt af lífi í Hrauntúni, búið myndarbúi og margt að sýsla. En nú er þetta allt horfið og túnið og Garður í Hrautúnirústirnar einar tala sínu máli. Túngarðarnir eru allir hlaðnir úr hraungrýti og sama er að segja um rústir íbúðar- og gripahúsa. Gaman er að skoða vatnsbólið í Hrauntúni, sem er í djúpri holu suðvestanvert við bæjarrústirnar.
Eftir hæfilega dvöl í Hrauntúni var Gaphæðaslóða fylgt til austurs. Slóðinn er ómerktur, en greinilegur á köflum. Skyggnisvarða er austan við túngarðinn. Þar sést stígurinn t.a.m. mjög vel. Áður en komið er upp í Gaphæðir er farið yfir a.m.k. þrjár gamlar götur er liggja frá Ármannsfelli með stefnu í Stóragil og áfram að brú á Gaphæðargjá.. Sú vestasta er greinilegust og sjáanlega nýlegust. Hinar eru reiðleiðir með sömu stefnu.
Gengið var til baka með stefnu á Skógarkot. Landamerkjavörðurnar gefa stefnuna til kynna. Þegar komið var að þeirri næstu kom í ljós hið ágætasta útsýni niður að Skógarkoti.
Þegar komið var að Gjábakkavegi var gengið svo til beint inn á Hrauntungugötuna. Gatan, þótt ómerkt sé, er greinileg alla leið að Skógarkoti. Nokkru áður en komið er að Skógarkoti er farið við yfir veg, sem lagður var þvert yfir hraunið frá Hrafnagjá að Völlunum í tilefni 11 alda afmælis byggðar á Íslandi. Þessi nútíma hraðbraut ætti að vekja til nokkurrar umhugsunar um þær gífurlegu breytingar á samgöngum, sem hafa urðu á landinu á 20. öldinni.
Skyggnisvarða austan HrauntúnsRétt við túngarðinn er akvegur. Í upphafi bílaaldarinnar skömmu fyrir 1930 var eina akfæra leiðin milli Suðurlands og Borgarfjarðar um Kaldadal að Húsafelli. Þá fóru bílarnir þennan veg, þótt ótrúlegt sé.
Sunnan við túngarðinn liggja Veiðigata (austar) og Vatnskotsgata í áttina að Þingvallavatni. Sú fyrrnefnda er stikuð, en ekki sú síðarnefnda, enda óþarfi vegna þess hversu greinileg hún er.
Í Skógarkoti eru ummerkin mjög áþekk og í Hrauntúni, en þó hefrur steinsteypan verið notuð við byggingu íbúðarhússins. Frá þessum stað blasir við hinn fagri fjallahringur sem umlykur Þingvallasveitina.
Fyrrum lá þjóðleiðin að sunnan frá Vatnsviki (Vellankötlu) til Þingvalla fyrir neðan túnið í Skógarkoti. Um þessa fornu götu hefur margt stórmenni lagt leið sína í aldanna rás, en þekktastir og voldugastir voru feðgarnir og konungarnir Kristján 9. og Friðrik 8. Kristján kom sumarið 1874 og Friðrik sumarið 1907. Þeir fóru ríðandi austur að
Gullfossi og Geysi og komu við á Þingvöllum í leiðinni. Þá var mikið um að vera við Almannagjá, þann 6. ágúst það ár. Um 1000 manns höfðu safnast þar saman til að halda þjóðhátíð. Bjuggu þeir í tjöldum. Síðdegis þennan dag var von á konungi að austan og fylgdi Gaphæðaslóðihonum hópur tiginna manna. Þegar konungsfylgdin nálgaðist var hraðboði sendur á undan til að fylgja fundarmönnum fréttirnar. Stigu þá 12 mektarbændur á bak hestum sínum og riðu til móts við konung undir forystu Tryggva Gunnarssonar, síðar bankastjóra. Þeir mættu konungi fyrir neðan túnið í Skógarkoti og fluttu honum hollustukveðjur frá hátíðargestunum. Síðan riðu þeir fyrir konungsfylkingunni til baka á Þingvöll. Þá var ekkert gistihús til staðar, svo konungur var búinn næturstaður í Þingvallakirkju, sem þá var veglegasta húsið á staðnum.
Ekki kemur fram í Landnámu hver hafi numið landið norðan og austan við Þingvallavatn en í Íslendingabók skýrir Ari fróði frá Þóri kroppinskegg, sem átt hafi land í Bláskógum, sem lagt hafi verið til neyslu Alþingis. Fræðimenn hafi greint á um hvar umrætt land sé og hvaða þýðingu það hafi að Íslendingabók greini að landið hafi verið lagt til Alþingis neyslu.
Björn Þorsteinsson telur í riti sínu Þingvellir, að Þórir kroppinskeggur hafi átt það land, sem lá undir jörðina Þingvelli og hjáleigur hennar. Einnig telur Björn að landamerki Þingvalla, eins og þeim sé lýst í landamerkjaskránni frá 1896, hafi að mestu leyti verið þau sömu og í upphafi. Greind ummæli Íslendingabókar telur Björn að feli í sér að ábúandi hafi þurft að þola tilteknar kvaðir og Alþingishald bótalaust en jörðin Þingvellir hafi að öðru leyti verið venjuleg eignarjörð.
Vitað er að um 1200 hafi verið prestsskyld kirkja á Þingvöllum og þá er vitað með vissu að Brandur Þórsson hafi búið á Þingvöllum um 1200 og heimildir geti einnig um að á seinni hluta 12. aldar hafi búið þar Guðmundur Ámundason gríss.
Í Vilchinsmáldaga frá 1397 sé ekki minnst á land jarðarinnar, hins vegar er ljóst samkvæmt Gíslamáldaga frá 1575 að jörðin hafi verið komin í eigu kirkjunnar á ofanverðri 16. öld, þar segi orðrétt: „Kirkian a Thijingvelle. a heimaland alltt med gögnum og giædum. Skjalldbreid.“
Í Vísitasíubók Jóns biskups Árnasonar frá 1726 sé að finna sömu tilgreiningu auk þess sem þar sé getið jarðanna Vatnskots, Skógarkots og Svartagils, sem sagðar eru Bæjarhóllinn í Skógarkotibyggðar í heimalandi jarðarinnar.
Í lögfestu Markúsar Snæbjörnssonar frá 1740 sé lýst landamerkjum jarðarinnar og sé þar að finna fyrstu lýsinguna á landamerkjum Þingvalla. Lögfestan sé í samræmi við landamerkjaskrána frá 1886 og allt land innan merkja lýst eignarland kirkjunnar. Hér veki það athygli að ekki sé greint á milli heimalands og afréttarlands auk þess sem landamerkin, sem byggt er á, séu mjög skýr.
Í landamerkjaskrá prestssetursins Þingvalla frá 1. september 1886 sé land jarðarinnar án nokkurrar aðgreiningar í heimaland og afréttarland en hjáleigurnar Arnarfell, Skógarkot, Hrauntún og Svartagil, séu taldar liggja innan marka jarðarinnar. Landamerkjabréfið hafi verið þinglesið 7. júní 1890 og innfært í landamerkjabók sýslumanns. Lýsing á merkjum Þingvallatorfunnar sé í góðu samræmi við eldri heimildir um landamerki hennar, sbr. lýsingu í lögfestunni frá 1740 varðandi umrætt svæði.
Í fyrrgreindum heimildum hafi því verið gerð grein fyrir hjáleigum í landi Þingvalla. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og sóknarlýsingu Björns Pálssonar fyrir Þingvallasókn frá 1840 sé að auki getið töluverðs fjölda hjáleigna og eyðibýla, sem eigi að hafa legið í landi Þingvalla.
VatnskotsgataÍ kjölfar þess að landamerkjalögin tóku gildi 1882 var gert landamerkjabréf fyrir Þingvallakirkjuland. Loks geta heimildir einnig um að bændur í Þingvallasveit og í Grímsneshreppi hafi rekið fé til beitar á landsvæði, sem talist hafi til Þingvallalands, sbr. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og sóknarlýsingu Þingvallasóknar.
Hjáleigur hafa ekki verið stofnaðar í afréttarlandi heldur hafi þær átt óskipt beitiland með aðaljörðinni. Hjáleiguformið hefur síðan horfið um og upp úr aldamótum 1900 með sölu þjóðjarða og kirkjujarða til ábúenda. Algengt er að til séu sameiginleg landamerki fyrir svonefndar torfur, þ.e. sameiginleg ytri landamerki. Sú staðreynd að hjáleigur hafi verið byggðar út úr landi Þingvallajarðarinnar og þær ekki stofnaðar í afréttarlandi bendi til þess að allt land Þingvalla hafi legið innan eiginlegs heimalands.
Í þeim heimildum, sem getið hefur verið um, sé gerð grein fyrir hjáleigum í landi Þingvalla, eins og t.d. Vatnskoti, Hrauntúni, Skógarkoti og Svartagili. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, sem samin hafi verið á árunum 1706-1711, segi um hjáleigurnar að þær séu byggðar úr landi Þingvalla og að afréttur hafi til forna verið brúkaður í Skjaldbreiðarhrauni. Af öðrum ummælum í jarðabókinni kemur fram um hjáleiguna Vatnskot: „Haga á jörðin í betra lagi mikla og góða. Útigangur á vetur er hjer góður og er hverki sauðfje nje hestum fóður ætlað.“ Um hinar hjáleigurnar sé vísað til þess sem ritað var um Vatnskot. Í jarðabókinni segi jafnframt að Þingvellir hafi átt afrétt á „ … Skjaldbreiðarhrauni en hefur ekki verið brúkaður yfir 40 ár, lætur nú presturinn brúka fyrir afrétt
Ármannsfell, Kvíindisfell og Gagnheiði“. Í jarðabókinni og sóknarlýsingu Þingvallasóknar sé að auki getið um fjölda annarra hjáleigna og eyðibýla, sbr. t.d. Fíflavelli, landsuður undir Skjaldbreið, Ölkofra, Þórallarstaði, Múlakot eða Mosastaði, Grímastaði, Bárukot og Þverspirnu.
Samkvæmt jarðabókinni hefur afrétturinn á Skjaldbreiðarhrauni ekki verið brúkaður yfir 40 ár, m.a. vegna snjóþyngsla fram á sumar og uppblásturs. Þingvellir Heimtröðin að Skógarkotiásamt hjáleigum sem og jarðir í einkaeigu hafa verið sagðar eiga umræddan afrétt. Þegar hætt hafi verið að nýta Skjaldbreiðarhraunið sé líklegt að beitt hafi verið í landi Þingvalla og það verið notað til beitar, ekki einungis fyrir Þingvallatorfuna ásamt hjáleigum, heldur einnig aðrar jarðir.
Sturlubók 9. kap. og Þórðarbók 60. kap. segi, að Ingólfur hafi numið land „milli Ölfussár ok Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá milli ok Öxarár ok öll nes út“. Í Hauksbók 9. kap. sé landnámsmörkunum lýst svo, að Ingólfur hafi numið land „milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá milli ok Hranna Gjollnes“. Hranna Gjollnes standi sjálfsagt fyrir „Hrannagjá ok öll nes“. Allar þrjár Landnámugerðirnar telji landnámsmörkin að austan að neðanverðri Ölfusá, hvort sem átt sé eingöngu við Sogið, eða þann hluta Hvítár sem nú er kallaður Ölfusá ( þ.e. Hvítá eftir að Sogið fellur í hana og til sjávar) eða ef til vill bæði Ölfusá og Sogið. Þingvallavatn hafi verið kallað Ölfossvatn í fornöld og sunnan við vatnið standi enn bærinn Ölfusvatn. Vatnsfall það, sem nú sé kallað Sogið hafi líklega verið nefnt Alfossá eða Ölfossá í öndverðu. Hvernig sem öllu þessu hafi verið varið sé langlíklegast að austurmörk landnáms Ingólfs hafi verið að Langistígurneðanverðu austan megin núverandi Ölfusár og síðan Sogið upp í núverandi Þingvallavatn. FERLIR er því þarna enn innan upphaflegs markmiðs, þ.e. að skoða fyrrum landnám Ingólfs heitins.
Um austurmörkin að ofanverðu skilji heimildarritin nokkuð á. Eftir Sturlu- og Þórðarbók mætti ætla, að Ingólfur hefði helgað sér landið sunnan og vestan vert við Þingvallavatn og norðan við það allt til Öxarár. Hafi Öxará þá runnið í forna farveginum í Þingvallavatn, þá hafi landnám Ingólfs eftir Sturlu- og Þórðarbók aðeins náð austur fyrir Kárastaði og Brúsastaði, en hafi hún þá runnið svo sem hún renni nú, þá hafi Ingólfur helgað sér land upp að ánni frá Brúsastöðum og að Almannagjá og síðan að ánni um gjána og niður til vatnsins að vestanverðu árinnar. Ekki verður séð, að landið norðanvert við Þingvallavatn, austur frá Öxará, samkvæmt forna eða nýja farveginum, og að Lyngdalsheiði og Kálfstindum hafi verið numið sérstaklega, að minnsta kosti ekki í öndverðu.
Hauksbók telur mörkin nokkru austar. Eftir því að dæma hafi Ingólfur helgað sér landspilduna allt frá Öxará til Hrafnagjár sem gangi upp frá vatninu rétt fyrir vestan bæinn Gjábakka. Eftir Sturlu- og Þórðarbók hafi Þingvöllur og umhverfi hans hið næsta alls ekki verið í landnámi Ingólfs, en eftir Hauksbók taki landnám hans einnig yfir Þingvöll. „Hrannagjá“ gæti þó verið misritun fyrir Hvannagjá sem sé einn hluti Almannagjár, er þá væri landnámsmörk. Verði ekki úr því skorið, hvor sögnin sé rétt.
Bent hefur verið á að hvort sem Ingólfur hafi helgað sér landið milli Öxarár og Hrafnagjár eða einungis land til Öxarár, þá virðist ritarar landnámabóka ekki hafa vitað til þess að nokkur hafi helgað sér land austan Öxarár, hvort sem hún hefur þá runnið í forna eða nýja farveginum og allt til Lyngdalsheiðar. Land þetta hafi þó ekki lengi verið óbyggt með öllu, eftir því sem Ari fróði segi. Frásögn hans sé á þá leið, er hann lýsi setningu Alþingis, að maður nokkur að nafni Þórir kroppinskeggi er land átti í Bláskógum hafi orðið sekur um þrælsmorð eða leysings og hafi land hans síðan orðið allsherjarfé. Land Þóris þessa Rústir á Þórhallastöðumhafi að sögn Ara verið lagt til Alþingisneyslu. Ekki sé vitað hversu vítt land Þóris hafi verið, en getum hafi verið leitt að því að það hafi að minnsta kosti verið milli Almannagjár og Hrafnagjár.
Það skiptir miklu máli að átta sig á nýtingu lands, þegar greina eigi á milli eignarlanda og þjóðlendna. Því þurfi að skoða hvernig nýtingu þrætulandsins sé háttað. Allt frá lokum landnámsaldar og fram að 21. öldinni hafi löggjafarvaldið sett ýmsar reglur um nýtingu þeirra landsvæða sem nú heiti þjóðlendur. Um nýtingu eignarlanda hafi hins vegar ekki verið settar nýtingareglur, nema þær sem teljist til grenndarréttar. Eitt meginatriði skilji á milli eignarlanda og þjóðlendna, en það sé að allt frá Jónsbókartíma hafi eigandi átt að smala eignarland sitt, en þjóðlendan sem svo heiti nú, hafi verið smöluð sameiginlega af fjallskilastjórn.
Í umfjöllun um landnámsheimildir í Þingvallasveit kemur glöggt fram að litlar líkur séu á að nám lands þar hafi náð til þrætulandsins í vestri og sé þá ljóst að grundvöllinn undir eignaréttarkröfu stefnanda, landnámið sjálft, vanti.
Merkjavarða í ÞingvallahrauniKirkja var reist á Þingvöllum eftir kristnitökuna og var hún verið gjöf Ólafs Haraldssonar Noregskonungs. Þetta hefur verið almenningskirkja. Þannig hefur hún verið allsherjarfé eins og talið sé að jörðin sjálf hafi verið. Til þess að hægt væri að reisa kirkju og efna til kirkjuhalds þá hafi orðið að vera bær á staðnum. Engin dæmi séu þess að kirkjur hafi verið reistar á eyðistað þar sem enginn maður hafi verið til að sjá um hana að staðaldri. Eins og aðrar slíkar stofnanir hafi kirkjan orðið að geta staðið undir sér. Því liggi fyrir að kirkjunni hafi verið lagðar til einhverjar eignir, hvort sem um hafi verið að ræða beitilönd, búsmala eða einhver réttindi sem verðmæt hafi getað talist. Í upphafi muni öll þessi réttindi hafa verið óskráð.
Elstu heimildir um máldaga Þingvallakirkju sé að finna í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397. Þar sé ekki minnst á að kirkjan eigi afrétt og þar séu heldur ekki neinar upplýsingar um að kirkjan eigi hlut í heimalandi. Næstur komi máldagi 20 Gísla Jónssonar biskups í Skálholti frá 1575 og þar komi fram að kirkjan eigi heimaland allt með gögnum og gæðum og einnig Skjaldbreið og ýmsar jarðir. Árið 1746 komi síðan erindisbréf konungs handa biskupum. Samkvæmt 16. gr. erindisbréfsins séu Vilchins- og Gíslamáldagar taldir áreiðanlegir og löggiltir og skuli allar þrætur um eignir kirkna, Varða á Gaphæðréttindi og kúgildi, er standi á jörðum léns- og bændakirkna dæmd og útkljáð eftir þeim.
Á þessum tíma hafi Þingvallakirkja verið lénskirkja og hafi ofangreint erindisbréf konungs, sem gert var á einveldistíma, lagagildi um eignarhald að heimajörð og eignum þar. Hafi á þessum tíma verið einhver vafi um eignarrétt kirkjunnar á jörðinni sjálfri, þar sem landið hefði verið gert að allsherjarfé og lagt til allsherjarneyslu, þá séu öll tvímæli tekin af með erindisbréfinu því samkvæmt konungsboði eigi Þingvallakirkja beinan eignarrétt að heimalendunni, að minnsta kosti. Eignarrétturinn sé því óvefengjanlegur en eftir standi spurningin, hversu langt þetta land hafi náð sem eignarland. Ennfremur standi eftir ýmis álitamál varðandi það útlendi, eða afrétti, sem á síðari tímum hafi verið tileinkað Þingvallakirkju.
Nær samhljóða Gíslamáldaga sé lýsing Þingvallakirkju í vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar frá 25. apríl 1644. Tveimur áratugum síðar hafi sami máldagi verið færður óbreyttur inn í vísitasíubók Þórðar biskups Þorlákssonar, nema hvað þá hafi fleiri jarðir verið eignaðar Þingvallakirkju.
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segi að kirkjustaðurinn á Þingvöllum hafi átt afrétt á Skjaldbreiðarhrauni, Merking við Skógarkotsem hafi ekki verið brúkaður yfir 40 ár. Þar standi: “Lætur prestur brúka fyrir afrétt Ármannsfell, Kvíindisfell og Gagnheiði.“ Í jarðabókinni komi líka fram, að fleiri jarðir hafi átt afrétt í Skjaldbreiðarhrauni. Þetta hafi ekki aðeins verið hjáleigur Þingvallakirkju, heldur einnig jarðir í einkaeign í Grímsnesi og víðar sem einnig hafi átt þennan upprekstur í Skjaldbreiðarhrauni og virðist svo hafa verið frá fornu fari. Á þessum tíma hafi gróðurfari eitthvað verið farið að fara aftur þannig að not hafi verið minni en áður var, ef þau hafi þá nokkur verið.
Björn Pálsson, prestur á Þingvöllum, hefur þurft að gera grein fyrir mörkum sóknar sinnar árið 1840. Hann hefur fylgt lýsingu bóndans í Oddgeirshólum, en bætt þó aðeins við með því að færa merkin úr skurði norðaustur í Fanntófell áður en þau sveigðu í Eiríksnípu.
Þegar fyrstu lögin um landamerki voru sett 1882 hefur þurft að semja landamerkjabréf fyrir Þingvelli. Sú skrá hafi verið gerð 1. september 1886 en sumarið áður hafi presturinn helgað landamörk Þingvallakirkjulands í austri og norðri með merkjareið, „allt frá því að Gjábakkaland þrýtur og alla leið inn fyrir Skjaldbreið“, eftir að hafa látið boð út ganga til eigenda tiltekinna jarða í Laugardal.
HrauntúnEkki er vitað hvernig Þingvallakirkja hafi eignast sína afrétti í öndverðu. Við samanburð máldaga megi ætla að afrétturinn hafi komist undir eignarráð kirkjunnar á 15. öld eða í byrjun 16. Þó geti verið um það vafi. Benda megi á að eigi síðar en á 14. öld hafi skipting landsins í afrétti verið komin nokkurn veginn í fast horf og fyrir siðaskipti hafi flestar kirkjur fengið þær eignir og hlunnindi sem þær bjuggu að síðar, jafnvel öldum saman. Það sé nokkuð sennilegt að kirkjan hafi frekar eignast afrétt eða beitarítök, þó þess sé ekki getið í Vilchinsmáldaga, og það hafi kannski ekki alltaf verið þörf á að skrásetja allt sem hafi verið á allra vitorði. Þegar frá leið aftur hafi þótt tryggara að færa það allt í letur sem kirkjunni var eignað.
Almennt hefur landnám verið frumstofn eignarréttar á landi. Byggir hann á því, að mörk eignarlanda og þjóðlendu séu þau sömu og landnámsmörk. Í úrskurði óbyggðanefndar eru raktar heimildir um landnám landsvæðisins sem liggur að Þingvöllum eða getgátur um landnám þar. Kemst stefndi að þeirri niðurstöðu að ekki sé að finna heimildir um að land hafi í öndverðu verið numið norðan Lyngdalsheiðar. Þá verði ekki séð að land Í Hrauntúniaustan Öxarár að Lyngdalsheiði og Kálfstindum hafi verið numið sérstaklega, en þetta svæði í vestri telur hann afmarkast af landnámi Ingólfs. Þó er einnig vísað til frásagnar Íslendingabókar um land Þóris kroppinskeggja, og getum að því leitt að það hafi að minnsta kosti náð yfir svæðið á milli Almannagjár og Hrafnagjár.
Af lýsingum þessum er ljóst að óvissa er um nám hins umdeilda landsvæðis í upphafi byggðar á Íslandi. Verður ekki framhjá því litið að tilvitnaðar sagnir eru ekki samtímaheimildir. Sögnin um Þóri kroppinskeggja í Bláskógum virðist hins vegar benda til landnáms á Þingvöllum, en að engu er getið hversu langt inn til landsins það kann að hafa náð.
Allt gerðist þetta áður en fjöllin fæddust. Skrásetjarnir vissu á ekki væri endilega mark takandi á þeim er töluðu mikið, því þeir vissu jafnan lítið. Þeir hlustuðu á þá fáorðu – og skráðu hvert orð.
Ætlunin er að ganga fljótlega um stíg til norðurs frá minjum við Klukkuhólsstíg við Gjábakkaveg, milli Gildruholtsgjáar og Hrafnagjáar, um þriggja km leið að Gaphæðum. Útsýni og landslag á þeirri leið tekur fáu fram.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Mbl. 9. ágúst 1979.
-Landnáma.
-Óbyggðanefnd – úrskurðarorð.

Þingvellir

Þingvallarétt.

Sigurðarsel

Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Örnefni í Þingvallahrauni
Fyrsti kafli
„Það, sem venjulega er nefnt Þingvallahraun, takmarkast að austan af Hrafnagjá, að norðaustan af Mjóafellshraunum og Ármannsfelli, að norðvestan af Almannagjá og að suðvestan
af Þingvallavatni.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Hallstígur er syðst á Hrafnagjá, skammt fyrir norðan Arnarfellsenda. Þaðan og inn í Hallvík nær vatnið alveg að hallanum á vestari gjárbarminum, og er sá kafli nefndur Hallur, og eiginlega alla leið inn að Klukkustíg, meðan gjábarmarnir eru hærri en hraunið.
Frá Gjábakkastíg sunnan vegarins að Vellankötlu (eða Vatnsviki), er að mestu flatt hraun, sem heitir Gjáendar; það er allt sundur tætt af gjám, fullum af vatni.
Frá Gjábakkastíg vestur að Tjörnum hækkar hraunið norður eftir, norður fyrir Þingvallahelli; er svo að mestu leyti flatt norður af Sigurðarseli og Hellishæð og vestur að Hábrún, en hallar þaðan vestur að Mosalág og Lágbrún. Þetta heitir einu nafni Brún. Þetta var þrautastaður, að því er sauðbeit snerti á vetrum, bæði fyrir hraunbúa og aðra; jafnvel var fje rekið þangað til beitar austan úr Laugardal.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Hallviki er Veiðistígur á Hrafnagjá. Veiðin undir Halli frá Fornaseli (sem er grashvammur stór við vatnið, norðan við Arnarfellsenda) tilheyrði Þingvöllum, og heitir pláss það Ólafsdráttur. Það var að mestu ljeð Gjábakkabónda, og galt hann fyrir það veturgamla gimbur á vori hverju, og voru það víst góð skifti fyrir hann.

Hrafnagjá

Hrafnagjá – reiðgatan um Gjábakkastíg.

Eftir Gjábakkastíg liggur alfaravegur frá Biskupstungum og Laugardal, og hann var einnig mikið notaður af Grímsnesingum, áður en brú var sett á Sogið. Vegurinn lá þjett við Vellankötlu, þaðan (Kenndur við Ólaf konung helga; kirkjan á Þingvöllum var helguð honum. M.Þ.) norður hraunið að túngarði í Skógarkoti og þaðan vestur eða út á Þingvelli. Skammt austur frá Vellankötlu er stór grjóthóll, sem heitir Böðvarshóll. Þar hjá er fjárhústóft, sem Þorleifur Ólafsson í Vatnskoti hlóð, en varð aldrei notuð. Norðaustur af honum er Þingvallahellir. Var hann um langt skeið notaður til fjárgeymslu á vetrum frá Þingvöllum; var hann þó að öllu leyti illur til þeirrar notkunar, eins og f lestir hraunhellar eru, einkum ef þeir eru lágir, því að fjeð reitir ullina af hryggnum í berginu, og blautir verða þeir, þegar gólfið er orðið þjett af áburðinum; og alltaf er í þeim bergleki. Sunnan í hallanum upp af Vellankötlu heita Fjárhúsbrekkur, en þar sem brúnin er fullhækkuð við Litlugjá, er hóll einn, sem heitir Litlugjáarhóll.

Nýi-Þingvallahellir

Nýi-Þingvallahellir.

Skammt fyrir vestan Vellankötlu, vestan-við gamla veginn, en norðan við hinn nýja, eru Tjarnir. Norðaustan við þær eru Ámundahólar, að mestu grasi og skógi vaxnir. Austur af þeim er Nýi-stekkur; hvaðan hann hefir verið notaður, er mjer ókunnugt um, en líklega hefir það verið frá Skógarkoti. Þar norðaustur af er Nýi-Þingvallahellir; fann Pjetur Jónsson, smali á Þingvöllum, hann skömmu fyrir aldamót 1900; var hlaðinn fram af honum forskáli, eins og venja var til, og hann var tekinn í notkun í stað hins gamla, sem áður var getið, en hann var síðan lítið eitt notaður frá Arnarfelli.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Suður frá honum er brekka með vörðubroti; heitir Skúti. Þar norður frá, vestan í hallanum, eru Klukkuhólar; þeir eru tveir stórir grjóthólar með lautum og skógi; standa þeir andspænis hvor öðrum, með slakka á milli. Norður frá þeim, einnig vestan í hallanum, er Viðarklettsskógur, með kletti þeim, er skógurinn ber nafn af, norðast og austast sunnan undir svonefndum Höfðum; nær skógur þessi austur á fulla hæð Brúnar og niður að Eyðum, sem eru skógarlausar mosaflesjur. Austur frá Klukkuhólum, uppi á Brúninni, þar sem hún er hæst, er Hábrúnarklettur; er það einnig grjóthóll og ekki stór. Sunnan og vestan í Brún er skógur þjettur og hraunið grösugt, svo að þar sjest valla á stein eða flag, nema þar, sem einstakir stórir grjóthólar eru, þrátt fyrir, að þar var allt af mest áníðslan með fjárbeit og skógarhöggi. Frá Hábrúnarkletti liggur gjá, sem víða er að eins smáholur, suður hjá Litlugjáarhól og niður að Vellankötlu; heitir hún Litlagjá og var hinn mesti háski fjenaði á vetrum, er snjóar voru, og unglömbum á vorin.

Þingvallahellir

Í Þingvallahelli.

Eins og áður er sagt, heitir Klukkustígur þar, sem hverfur hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. Alla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel.

Sigurðarsel

Í Sigurðarseli.

Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður frá eru fornar tóftir, sem má ske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan hríðum. Við norðvesturhorn Sigurðarsels er Hellishæð. Það er há hæð, sem snýr h. u. b. í austur og vestur, með skógivaxna grasbrekku að sunnanverðu. Uppi á henni er hellir, ei all-lítill, sem notaður var frá Skógarkoti til fjárgeymslu. Hann var mörgum hellum betri að því leyti, að hann var talsvert hár, en blautur var hann þar, sem gólfið var lægst. Lægð lítil er við vesturenda Hellishæðar; fyrir vestan hana er Litla-Hellishæð, dálítill hóll með vörðubroti; sunnan undir henni, niður á Brún, er klettahóll, sem heitir Þorkelsklettur. Norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Frá Litlu-Hellishæð hallar suðvestur að Viðarklettsskógi og vestur að Höfðum, sem eru skógi og grasi vaxnar hæðir og lautir, og ná þær norður að Mosalág, norður að Ketilhöfða.
Vestan í hallanum, niður að Mosalág, heita Sláttubrekkur. Mosalág er laut stór eða dalur norðan-undir Höfðum, vestan undir Sláttubrekkum.

Hellishæð

Hellishæðarhellir.

Norðan við hana heitir Magnúsarklettsskógur. Vestan við hana er Mosalágarhæð, stór grjótbali, sem snýr h.u.b. í norður og suður.
Austan-frá Sláttubrekkum, norður af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smáhólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðingi á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þraut-beittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Norðaustur-af Bruna eru Selhólar tveir, annar með vörðubroti. Þeir eru rjett norður frá Flekkhól. Norðaustur af þeim er Syðri-Gapahæð; snýr hún í suðaustur og norðvestur; er hún skógi vaxin að suðaustan, en skógarlítill að norðaustan. Vestan í henni er sjerstakur klapparhóll; hann heitir Grenhóll.
Austur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sjerstakir hólar með litlu millibili. Þeir heita Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sje hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.

Þingvellir

Skógarkot – örnefni.

Nokkurn spöl suðaustur af Svínhólum eru Gildruholt. Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls. Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum.
ÞingvellirÞau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár, sem byrjar í Gjábakkahrauni, skammt austur af Hallstíg, og heitir Bæjargjá þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður fyrir Gildruholt. Þar hverfur hún á dálitlum kafla, og heita þar Hlíðarflár. Bilið milli Hrafnagjár og Gildruholtsgjár heitir einu nafni Torfa. Gildruholtsgjá er að því leyti frábrugðin Hrafnagjá og Almannagjá, að vestri barmur hennar hefur sigið rjett niður með þeim eystri án þess að gjáin opnaðist nokkuð að ráði, svo að þar getur fremur kallazt berg en gjá. Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan í Hrafnabjargahálsi. Norður af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá, sjest fyrir henni alla leið inn í Skjaldbreið, og heitir Söðulhólagjá fyrir norðan Prestastíg. Vesturbarmur hennar er að mestu eins og áðurnefndur Hallur, hann er hærri en hraunið að vestanverðu, og heitir Raftahlíð allt að Prestastíg.

Skógarkot

Skógarkot – heimtröðin.

Norður af Svínhólum hallar hrauninu talsvert til norðurs og norðvesturs. Þar eru Gapahæðir, syðri og innri; á milli þeirra er skógarlítið svæði. Þar er hóll einn sjerstakur, holur að innan, sem hæðirnar bera nafn af; ofan-í hann er op stórt og heitir því Gapi. Rjett hjá honum er annar hellir í flötum bala, sem hafður var til fjárgeymslu frá Hrauntúni, þó illur væri. Innri-Gapahæð snýr meira til norðurs og suðurs en sú syðri og er skógarlítil. Að vestan og norðan við Gapahæðir eru flatir hellubalar, mosavaxnir, með lautum og slökkum, og skógarrunnum og hríslum í brúnunum, nema á litlu svæði norður-með Raftahlíð eða Hlíðargjá, sem getur fremur heitið heiði eða móar allt norður að Prestahrauni. Það er nokkuð stór brunahraunsblettur með skörpum brúnum.

Prestastígur

Varða við Prestastíg sunnan Hrafnabjarga.

Vestur af Prestastíg, sem er á h.u.b. miðri Hlíðargjá, er Hlíðarstígur. Norður af Gapahæðum, fyrir norðan áðurnefnda mosabala, eru lítið áberandi hæðir, sem snúa h. u. b. í austur og vestur. Þær heita Einiberjahæðir. Þar fyrir norðan, og vestan Prestahraun, heitir Höfðaskógur; hallar honum lítið eitt mót suðri. Takmarkast hann að norðan af stórum grjótbala, sem snýr austur og vestur; hann heitir Brúnkolluhöfði, og eru þar takmörk þess virkilega Þingvallahrauns. Þaðan heita Mjóafellshraun alla leið að Skjaldbreið, frá Söðulhólagjá að Mjóufjöllum (-fellum).
Sunnan-á Mjóafellshrauni eru auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur. Það heitir Litla-Hrauntún, og hefur þar líklega bær verið. Vestur frá Brúnkolluhöfða og vestur að Hrauntúnsbæ heita einu nafni Skygnirnar, eru það hæðir, lautir og hólar, grasi og skógi vaxið. Þar, sem hæst er, heita Háskygnirahólar. Góðan kipp þar norður frá er Mjóafellsvarða á grjóthól einum. Þar norður frá er skógi vaxið hraun allt að Ármannsfelli og upp að Syðra-Mjóafelli. Austur úr Ármannsfelli gengur lág öxl með grasbrekku sunnan í, sem heitir Sláttubrekka og er þjett við veginn inn á Hofmannaflöt. Litlu fyrir sunnan Sláttubrekku eru sandflatir, sem ganga niður í hraunið, dálítið vaxnar skógi og eru auðsjáanlega myndaðar af vatnsrensli úr fjallinu. Þær heita Víðivellir. Þar er fyrst getið um, að Glámur sálugi hafi sjest; var þar að reiða hrís á einum hesti, eftir því sem Grettissaga segir.“

Annar kafli

Þingvellir

Þingvellir – Vellankatla.

„Vestan Vellankötlu ganga tangar nokkrir út í vatnið; lengst skaga þar fram Grunnhólar. Fyrir austan þá eru Nautatangar. Grunnhólar eru talsvert hærri en hraunið þar í kring, sem er að mestu lágt og flatt.

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

Upp undan Nautatöngum er Jórunnarvarða; þar varð úti 1884 kona frá Skálabrekku, er Jórunn hjet. Nokkru þar fyrir vestan gengur langur og krókóttur tangi út í vatnið; heitir hann Öfugsnáði, og veit jeg ekkert hvernig á nafninu stendur. Var hann oft notaður til aðrekstrar á vorin frá Skógarkoti. Vestan við hann er löng og hringbogin vík, sem oft er notuð til lendingarstaðar, þegar veiðin er bezt þar framundan. Hún heitir Öfugsnáðavík. Þar úti í vatninu er hólmi, sem heitir Langitangi; verpa þar bæði andir og kríur. Litlu vestar er Vatnskot. Þar voru víst fyrst hús fyrir ær og lömb frá Þingvöllum og síðar var þar það, sem kallað er þurabúðar- eða húsfólk. Það er, að það hafði ekki kýr eða bjó ekki við málnytu; þó mun það hafa haft einhvern sauðfjenað. Þess voru dæmi, að þar bjuggu tvær fjölskyldur.
Vestan við öfugsnáða er Vörðuvík, og vestan við hana Dagmálavík; er hún austan við Vatnskotstún. Þá er sker, sem heitir Murtutangi. Stutt fyrir ofan Vatnskot heita Hryggir; er það hólaröð, sem snýr austur og vestur. Austan-við þá er Þuríðarvarða; stendur hún á smáhól upp af Vörðuvík. Skammt austar og norðar er Fuglstapaþúfa. Þar austur frá, allt að Mel, eru mosaflesjur skóglausar, sem heita Eyður, upp að svonefndum Sauðasteinum, sem eru háir hellubalar með grasbrekkum að sunnan; snúa þeir austur og vestur. Austan við þá og Hellisvörðu var götuslóði frá Skógarkoti að Öfugsnáða, kallaður Veiðigata.

Þórhallsstaðir

Fjárhústóft í Ölkofra – Þórhallsstöðum.

Upp af Grunnhólum, vestan-við Tjarnir, eru stórir hólar með djúpum lautum á milli, sem heita Klifhólar. Skammt norður frá Tjörnum liggur vegurinn yfir bratta klapparhæð; heitir hún Melur. Þaðan gengur lægð til norðausturs, vestan undir Brúnarhallanum. Það heitir Lágbrún; nær hún allt að stórum grjóthól, sem lokar fyrir norðurenda hennar.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Á hól þessum er varða, sem heitir Stórastekkjarvarða, og er hún beint niður frá áðurnefndum Nyrðri-Klukkuhól. Þaðan eru óreglulegir hólar og balar til norðvesturs heim undir Gamla-stekk; heita þeir Stekkjarvörðubalar.
Að norðvestan við Lágbrún er ávalur jafn halli að henni, sljettur að ofan, sem heitir Leiti; nær það frá Stekkjarvörðubölum með Lágbrún að Hrútabrekkum, sem eru vestan í löngum grjóthól frá norðri til suðurs, austan vegarins. Leiti nær einnig alla leið heim að Gamla-stekk; hann er norðvestast á Leitinu og var notaður frá Skógarkoti. Stekkurinn er þar, sem líkur eru fyrir, að ölkofrastaðir hafi verið. Þar bjó Ölkofri eða Þórhallur sá, er ölið bruggaði fyrir alþingisgesti og brenndi Goðaskóg. Þar var haldið við litlum túnbletti fram undir 1900, og þar var brunnur fram yfr þann tíma, sem var þrauta-vatnsból frá Skógarkoti; hann þraut ekki, nema þegar þurkar og frost hjeldust vikum samam Ölkofrastaðir eða Gamli-Stekkur eru suðaustan undir hárri hæð, sem heitir nú Stekkjarhæð, og er þar skjól talsvert í norðanveðrum. Vestan í hæðinni er mjög djúpur dalur með bröttum brekkum og klapparbrúnum, sem einnig er kenndur við ölkofra, og vestan við dalinn er Ölkofrahóll.

Hallshellir

Í Hallshelli.

Vestur að Hrútabrekkum, að Sauðasteinum, heitir Hrútabrekkuskógur. Skammt fyrir ofan Sauðasteina, vestan-við Veiðigötu, þar sem fyrst sjezt heim að Skógarkoti, þegar gatan er farin, er lítill hóll með smá vörðubroti; hún heitir Hellisvarða. Þar undir er hinn frægi Hallshellir, sem um nokkur ár dró að sjer athygli fjölda fólks, og skal nú skýrt frá, hvernig hann fjekk frægð sína.
Sumarið 1902 var sá, er þetta ritar, vinnumaður í Skógarkoti hjá Hannesi bónda Guðmundssyni. Þá var þar einnig drengur, sem heitir Kristján Schram og nú hefur í mörg ár verið starfsmaður hjá Gasstöðinni í Reykjavík. Eitt sinn, er við komum úr veiðiför neðan af vatni, hvíldum við okkur í laut þeirri, sem er norðan við hólinn; fundum við þar litla holu, sem var að mestu lokuð af jarðvegi og lyngi. Þegar við rifum þar til, komum við niður í helli, auðvitað „fullan af myrkri“. Síðar fórum við þangað með ljós og sáum, að hellirinn var talsvert stór, og garður hlaðinn um hann þveran; fyrir innan garðinn er hann svo lágur, að skríða verður á fjórum fótum.

Þingvellir

Þingvellir – Hallshellir.

Næsta sumar, 1903, var á ferð á Þingvöllum enski rithöfundurinn Hall Caine. Hann hafði heyrt talað um helli þennan, skoðar hann og þykist finna eitthvað merkilegt við hann, sem hvorki hann sjálfur eða aðrir vissu hvað var. (Dr. Björn M. Ólsen og dr. Jón Stefánsson rannsökuðu hellinn með
Hall Caine í september 1903, og dr. B.M.Ó. skírði hann. Sjá grein eftir dr. J. St. í Ísafold, XXX., bls. 239. M.Þ.). Svo var hellinum gefið nafn hans, og hann kallaður Hallshellir, og verður nú frægur mjög. Þyrpist þangað múgur og margmenni, sem allt verður vonsvikið á merkilegheitunum, sem von var, en gaf bóndanum í Skógarkoti góðan skilding, því að allir þurftu á fylgd að halda, og kostaði hún krónu í hvert skipti. Dýrð þessi mun hafa staðið eitt eða tvö sumur; svo fjaraði þessi heimska út, eins og fleiri, og er Hallshellir nú fyrir löngu fallinn í þá fyrri gleymsku.
Rjett fyrir ofan Hrútabrekkur er brött klöpp í veginum, sem heitir Pelahella. Vestur af henni, austan Veiðigötu, eru smáhólar, sem heita Gráuklettar. Traðirnar í túninu liggja til suðvesturs; fram af þeim er stór, sljettur hellubali, sem heitir Vaðmálsbali; munu þar hafa verið breidd vaðmál til þerris; þar var einnig þurkuð ull, meðan það var í tízku. Yfir Vaðmálsbala liggur vegurinn við túngarðinn og frá honum, einnig Vatnskotsgata og Veiðigata.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Jón Kristjánsson, er bjó í Skógarkoti 1840—84, stækkaði þar túnið talsvert til suðurs; sú stækkun er kölluð Gerði; þar voru kvíaær bældar á nóttum, þegar búið var að hirða af því heyið. Þangað voru einnig kvíarnar fluttar; var ánum hleypt út eftir kvöldmjaltir, og lágu þær hreyf ingarlausar, þar til birta tók.

Þingvellir

Þingvellir – Skógarkot.

Í túninu suðaustur af bænum er djúp laut, er Möngudalur heitir. Beint austur af bænum er bali dálítill, sem heitir Harðhaus. Þar var ætíð hafður hrísköstur, sem notaður var til eldsneytis á vetrum. Bærinn stendur sunnan í hæð, sem nefndur var Balinn; uppi á honum voru fjárhús og heyhlöður. Þar, sem hann er hæstur, er sundurklofinn hóll, sem heitir Rjettarhóll. Austan við hann, norðan-við túngarðinn, var fjárrjett, og austanvið túnið tvö lambhús; nú er allt þetta óþarft orðið. Austast í túninu var brunnhola, sem fljótt þraut vatn í; var þá eins og í gamla daga leitað til gamla Ölkofra með drykk, og ef hann þraut, sem sjaldan var, meðan brunnurinn var hirtur og haldið við, varð að sækja vatn á hestum niður í Tjarnir, h.u.b. hálfrar stundar ferð.
Milli túnsins í Skógarkoti, norðan við götu, sem liggur að Ölkofra, er dálítill klapparbali, sem heitir Þverhóll. Austan við túngarðinn eru litlir klapparhólar; þeir heita Brunnklettar. Austur af lambhúsum, fyrir austan túnið, er stór hóll sundurklofinn; sem heitir Skygnir; er þaðan gott til yfirsýnar austur í Brúnarhallann og yfir hraunið þar á milli. Hjeðan hallar hrauninu lítið eitt austur að Höfðum og Mosalágarhæð; er á þessu svæði skógarlítið, og þar eru Eyður þær, sem áður voru nefndar.

Skógarkot

Skógarkot – rétt.

Góðan kipp austur frá Skygni er hæð lítil, sem snýr frá norðri til suðurs, með brekku vestan í, sem heitir Sand-„Gíslahæð“. Í brekkunni er lítið gildrag með sandflagi, og gæti hugsazt, að hæðin hefði nafn af gilinu og rjetta nafnið væri Sandgilshæð; stutt fyrir austan hana eru strýtumyndaðir smáhólar, sem heita Strýtuhólar. Þar fyrir austan tekur við áðurnefndur Magnúsarklettsskógur með Mangúsarkletti h.u.b. í miðju; er það nokkuð hár, sjerstakur hraunklettur; nær skógur þessi í austur að smáhólum, sem heita Músarhólar; eru þeir rjett fyrir norðan .áður-nefndan neðri eða vesturenda á Bruna; norður frá þeim ganga lágir og sljettir mosabalar með gras- og skógarlautum, allt austur að Syðri-Gapahæð.

Þingvellir

Þingvellir – Gaphæðaskjól.

Rjett fyrir norðvestan túnið í Skógarkoti er brekkumynd vestan í hæð, sem heitir Rjettarhæð; skammt norðvestur þaðan eru vörðubrot á þremur smáhólum; þær heita Jafningjar. Austan við þær liggur hin nýja gata upp að Hrauntúni, sem rudd var um 1910 til 1912; áður var gatan upp svonefndar Brúnir.
Austur frá Jafningjum, skammt norðaustur frá túninu, heita Djúpudalir; eru þeir tveir. Þar austan við er hin gamla Hrauntúnsgata; á milli Djúpudala og Skygnis er hóll með vörðubroti, sem heitir Gráa-varða. Þaðan frá Djúpudölum, hækkar hraunið norður eftir, og er það kallað einu nafni Brúnir. Er fyrst Neðsta-brún; austast á henni er Smalavarða; er það dálítil grjóthrúga, norður og upp frá Strýtuhólum; brúnin er einnig kölluð Smalavörðubrún. Vestur frá henni, norður frá Djúpudölum, eru hólar nokkrir, er heita Hrútaklettar. Dálítið ofar en Neðsta-brún er Mið-brún, þá Efsta-brún.

Þingvellir

Hrauntún – örnefni.

Þar sjezt fyrst heim að Hrauntúni, þegar þessi gamla gata er farin. Austur af Miðbrún eru Stórhólar tveir, þar sem hækkar hraunið til norðausturs frá Mosalág, þar til nokkuð fyrir norðan Músarhóla og upp undir Tvívörður. Þær eru í stórum bala, bar sem hraunið hættir að hækka, og heita þær nú Þorsteinsvarða. Því að rjett fyrir 1900 var vinnumaður í Skógarkoti, sem Þorsteinn hjet Þorbergsson, og hlóð hann eina vörðu úr tveimur. Frá Efstu brún er mishæðalítið, gras- og skógarlautir með smáhólum, heim að Hrauntúni. Stutt vestur af Efstubrún er vörðubrot lítið, sem heitir Markavarða. Í Þingvallalandi var engum afnotum skipt milli hjáleignanna, nema skógarhöggi.
Norður af Jafningjum er stór hæð, og norður af henni Miðhólar, smáhólar nokkrir; á milli þeirra og Markavörðu er alleinkennilegur hóll, klofinn mjög og grasi gróinn að neðan; hann heitir Eyvindarhóll. Hjá honum liggur hin nýja gata milli Hrauntúns og Skógarkots.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Frá Markavörðu, fyrir norðan Eyvindarhól, gengur lægð talsverð til vesturs; sunnan við lægðina er óglögg skógarrönd niður að Miðhólum, en norðan-við hana eru hæðir, vaxnar þjettum skógi og grasi, svo að varla sjezt á stein; þær heita Kolgrafarhólshæðir; hæst á þeim er vörðubrot, sem heitir Litla-Grímsvarða (Manni kemur til hugar hvort hún kunni að vera kennd við Grím litla eða hlaðin í öndverðu af honum. Hann mun hafa búið á Grím(s)stöðum (nú Grímastöðum); sbr. Árb. 1905, bls. 44—46. M.Þ.), sem nú hefir lengi verið kölluð í daglegu tali Grímsvarða.

Þingvellir

Kolgrafarhóll.

Við vesturenda hæða þessara er Kolgrafarhóll. Þaðan gengur lægð til norðausturs alla leið að Stóruvörðu. Hallinn austan við lægðina heitir Þrívarðnaskógur, sem hefur nafn af þremur vörðum á austurbarmi Þrívarðnagjár, norðan við götu þá, sem er frá Hrauntúni út á Leira. Gjáin er að mestu gjárholur á hraunbrúninni, þar sem lægðin byrjar að myndast frá Kolgrafarhæðum norður-fyrir Þrívörður. Vestanvið slakkann hækkar hraunið á dálitlum kafla vestur að Leiragjá (Hún mun vera Kolsgjá sú, er Ari fróði getur um í Íslendingabók; sjá Árb. Fornlf. 1880—81, bls. 38, nrn, M.Þ.),.. Í miðjum slakkanum er Birkihóll, talsvert stór um sig, klofinn mjög og skógi vaxinn.
Frá Þrívörðum austur að Hrauntúni er hraunið fremur sljett, grösugt og skógi vaxið. Ejett fyrir vestan túnið er Litlavarða og þjett við túngarðinn að vestan Hellishóll. Hrauntún var fyrst sel frá Þingvöllum, en 1830 byggði Halldór Jónsson þar, og bjó þar í mörg ár. Árið 1935 var það lagt algjört í eyði, eins og aðrar jarðir í Þingvallahrauni. Stutt fyrir austan túnið er Skygnisvarða; þar byrja Skygnirnar þeir, er fyr voru nefndir. Að sunnan við þá gengur slakki austur að Klofhól, sem er suður af Háskygnirahólum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Stutt austur af Skygnisvörðu er Hálfavarða, og er hún sízt meira en hálf. Á móti henni, sunnan við slakkann, eru litlir grjóthólar, sem heita Gráuklettar, norðan við Gaphæðaslóða, sem að mestu voru fjárslóðar og lágu austur að Gapa; góðan kipp þar suður af er áðurnefnd Þorsteinsvarða. Dálítið austur af Hálfuvörðu er Gamli-stekkur; í djúpum hólkrók sjest þar glöggt til tófta. Nokkuð í hásuður þaðan er Þorsteinshóll og suður af honum Kolgerðir, mishæðótt svæði í skóginum.

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar.

Norðaustur frá Hrauntúnsbæ gengur annar slakki norðan Skygnira, norðaustur að Brúnavörðu. Eftir slakka þessum liggur Víðivallagata, sem notuð var til heyflutninga af Hofmannaflöt í mörg ár. Norður af Gamla-stekk, sunnan götunnar, eru Stórhólar tveir; vestan hennar er Lamabgjárhraun alla leið frá Hrauntúni að Ármannsfelli, austur að Víðivöllum og vestur að Sandskeiðum. Austast í því, norður af Stórhólum, er Jarpmerarhóll. Þaðan norð-aústur frá eru Brúnir með samnefndri vörðu á hæsta hólnum austan götu; er hún góðan kipp suður frá Víðivöllum og suðvestur frá Mjóafellsvörðu, sem áður hefur verið getið. Norðausturaf Brúnavörðu er laut, sem oft stendur í vatn; þar heitir Grýlupollur.

Sleðaás

Réttin undir Sleðaási.

Frá Sláttubrekku eru ekki örnefni í sjálfu Ármannsfelli á þessu svæði, en Stóragil er upp af Lambagjárhrauni og Litlagil upp af Sandskeiðum, og Kriki þar, sem Sleðaás gengur fram úr fjallinu.
Rjett fyrir norðan túnið í Hrauntúni er hóll, stór og djúpt klofinn, og hefur verið notaður til að geyma í kindur yfir stuttan tíma, með því að hlaða fyrir sprunguna, og er hún grasi vaxin í botninn. Hóllinn heitir Lambagjá. Stutt þar norður frá ber hæst á litlum, skörpum hól, sem heitir Nibba). Norður þaðan er Kerjavarða; ber hún nafn af kerjum nokkrum, sem þar eru. En ker eru hellar, sem þakið hefur fallið niður í og engin útgangur er úr, nema beint upp. Þau voru oft hættuleg fje, sem hljóp þar niður, en komst ekki upp aftur. Þau eru venjulegast í sljettum bölum. Efst í Lambagjárhrauní, niðurundan Stóragili, er stekkur, sem notaður var frá Hrauntúni, þar til, að ekki þurfti meir á að halda.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabás-/Sleðaásrétt.

Í norðvestur frá Hrauntúni gengur smáhólaröð með skógar og graslautum. Þar er Gráavarða stutt frá túninu; lengra þaðan vestur er Stóra-varða; hún stendur á stórum bala, sem lokar áðurnefndum slakka að norðaustan. Stutt austur frá Stóruvörðu er djúp laut, sem snýr frá austri til vesturs og heitir Langalág. Þar norður af byrja Sandskeið, sem eru sandflög, runnin niður úr Ármannsfelli í leysingum.
Vestan Krika gengur Sleðaás suðvestur úr fjallinu. Kriki er allur þjettum skógi vaxinn og er einn með fegurstu blettum í Ármannsfelli. Við suðurenda Sleðaáss eru gamlar fjárrjettir, hlaðnar úr hraungrjóti 1876. Þær var hætt að nota 1910. Frá þeim liggur Rjettargata heim að Hrauntúni, og kemur vegurinn frá Ármannsfelli saman við hana neðst á Sandskeiðum, liggur þaðan austan Löngu-lágar og vestan Lambagjár heim í traðir í Hrauntúni.“

Þriðji kafli – (Þessi kafli er að miklu leyti saminn eftir upplýsingum frá Símoni Pjeturssyni í Vatnskoti.)

Þingvellir

Þingvellir – Vatnskot.

„Við Vatnskotsbæ er vík ein, sem heitir Grýla; er í henni uppsprettuvatn og er hún notuð sem vatnsból frá Vatnskoti. Þá er Naustavík. Þá Vatnsvík, og þar suður af Vatnskotshólmar. Skammt vestur af Vatnsvík er Breiðitangi, og samnefnd vík er inn með honum að vestan. Þá er Grjótnes, með Grjótnesvík að vestan. Þá Garðsendavík, og er þá komið að Lambhaga, en svo heitir tangi, sem skagar langt fram í vatnið suðaustur frá Þingvöllum. Fyrir sunnan Garðsendavík er Olnbogi; Litlu sunnar er Tvítóla eystri; þar suður af er Prestshólmi og vestur af honum er Tvítóla vestri. Þar skammt suður af er Lambhagatá. Nokkru norðar að vestan er allstór vík, sem heitir Óhemja. Tanginn, sem skagar lengst í vestur, heitir Leirutá. Vatnið þar fyrir innan til Þingvalla er kallað Leira. Örnefni eru engin í Lambhaga, nema hólabelti, sem liggur þvert yfir hann þar, sem tanginn byrjar, og heita þeir Lambhagahólar, og á þeim er grjótgarður gamall.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Vestur frá Vatnskoti liggur götuslóði til Þingvalla, sem kallaður var Vatnskotsvegur; lagðist hann af að mestu 1907, er hinn nýi vegur var lagður litlu ofar. Með gamla veginum vestur frá Vatnskoti eru óreglulegir balar, sem nefnast Hrossbeinar. Litlu vestar er Katthóll, einstakur hóll með hundaþúfu. Þá nokkru vestar er Kolgrafarhóll.

Þingvellir

Í Gaphelli.

Þar upp af er Kolgrafarhólshæð, og ber hana hæst milli Vatnskots og Þingvalla. Þar liggja gjásprungur til norðausturs og heita Kolgrafarhólsgjár. Þaðan skammt vestur er Hellugjá. Þá er Háagjá. Þar suðvesturaf er Silfruhæð, allstór bali frammi við vatnið; vestan undir henni er Silfra, gjá, sem svo heitir, sennilega vegna hins silfurtæra vants, sem í henni er, og liggur hún að Fjósaklifi þar, sem gamli vegurinn liggur heim að Þingvöllum. Vestan við Silfru er allstór klapparhóll, mjög sundurrifinn, sem heitir Silfruhóll. Rjett fyrir norðan hann er annar hóll, allmikið sundurtættur, sem heitir Dagmálahóll, og norðan undir honum dalur samnefndur. Norðaustur af hól þessum heitir Stöðull; er það hvammur, nokkuð sljettur; þar var fjárrjett og kvíastæði frá Þingvöllum. Vestan við Dagmálahól er Fjósagjá, full af vatni; er nú komin brú á hana á nýja veginum. Vestan við hana er hóll í Þingvallatúni, sem heitir Svelghóll. Suður af honum er Fjóshóll. Norðvestur af honum er dæld, sem Skeggi heitir; hana fyllti sjera Guðmundur Einarsson upp með grjóti. Þar vestur af er Miðmundatún. Norðast á því er Danski-dalur. Þá eru Biskupshólar, norðan við Þingvallabæ, vestan traðanna; austan þeirra er Klukkuhóll (247). Þar austur af er Kirkjutún að Kattargjá, sem liggur um Skötutjörn. Þar fyrir austan eru Seiglur; um þær liggja Seiglugjár. Norðan við Þingvallatún rennur lind ein úr gjáarsprungu, sem klakhús var byggt yfir um 1880 af sjera Jens Pálssyni; var það eitthvað notað stuttan tíma frá Þingvöllum.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Skammt fyrir austan Þingvallastöðul er Háagjá; yfir hana liggur Gönguvegurinn frá Skógarkoti á svonefndum Steinboga. Litlu suðvestar er stígur, sem heitir Brúnstígur. Þar fyrir austan Háugjá er Hellugjá og Hellugjárbalar, fyrir sunnan Gönguveg. Skammt austur af þeim liggur Gönguvegur um allstóran, lágan bala; hann heitir Svuntubali.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Nokkuð austur-af honum heitir Nónhæð. Suðaustur af henni eru þrír hólar, sera heita Nónhólar, og mun það vera nónsmerki frá Skógarkoti. Nokkru sunnar er varða á hól, sem Digravarða heitir, rjett vestan-við götu, er liggur frá Skógarkoti að Vatnskoti. Suður af Svuntubala er hóll einn með þúfu upp á, sem heitir Nautaþúfa. Suður af henni er allstór bali; þar, sem byrjar að halla suður af honum, er vörðubrot, er Biskupsvarða, heitir, og svæðið umhverfis hana Biskupsvörðuskógur; takmarkast hann að vestan af Kolgrafarhólsgjá, en að austan af Fjárhúshólshrygg; er það klapparbali, sem snýr norður og suður rjett niður að hinum nýja vegi. Suður af honum er allstór hóll, nokkuð sprunginn, sem heitir Fjárhúshóll, og er hann aðalsjónarhæð frá Vatnskoti.
Frá áðurnefndum hryggjum fyrir ofan Vatnskot er örnefnalaust að Vatnsdalshæð. Hjá henni er Vatnsdalur, austan Vatnskotsgötu. Þar norður frá er lítill, klofinn hóll, sem heitir Gjáhóll. Í suðvestur af túninu í Skógarkoti, stutt sunnan við veginn, gengur sljettur klapparbali, og djúp laut í kring að sunnan og vestan. Hann heitir Helluhholt. Þar skammt vestur af er Lýtingsvarða; stendur hún á bala með alldjúpum lautum; heita þeir Lýtingsvörðubalar. Suður af Helluholti er áðurnefndur Gjáhóll. Gönguvegur liggur yfir Helluholt hjá Lýtingsvörðu.

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.

Skammt fyrir vestan Skógarkot er dálítil hólaþyrping; eru hólarnir vaxnir þjettum skógi og grasi, og hallar bæði suður og vestur af þeim. Þeir heita Skógarhólar. Sunnan við þá er lægð, sem hækkar aftur suður að Nónhólum; er þar skógarlítið pláss, allt vestur að Þingvöllum. Góðan kipp norðaustur frá Skógarhólum eru Krókhólar; einn þeirra, sá norðasti, er alveg sjerstakur, en allir eru þeir stórir og með djúpum lautum. Mitt á milli þeirra og Eyvindarhóls eru Miðhólar norðan í skógarröndinni. Frá Krókhólum að Kolgrafarhól, og vestur að Sandhólum og Leiragjá, eru að mestu skógarlausir mosabalar.

Þingvellir

Þingvellir – Konungsvegurinn.

Sunnan í Skógarhólum liggur vegurinn út á Þingvelli; skammt vestur frá þeim er Háagjá; hún stefnir eins og allar aðrar gjár í nánd við Þingvelli í norðaustur og suðvestur; er á henni stígur, sem vegurinn liggur yfir. Næsta gjá þar stutt fyrir vestan er Vallagjá, sem vegurinn liggur einnig yfir. Vallagjá er framhald af Flosagjá og Nikulásargjá. Vallastígur heitir þar, sem vegurinn liggur yfir Vallagjá, og er þá komið á Þingvöll. Kippkorn norður frá Vallastíg eru tveir nokkuð stórir hraunhólar, sem Skyrklifshólar heita; þar norður frá eru Sandhólar, sunnan og suðaustan við Leira; þeir eru víst að mestu til orðnir úr foksandi af Leirum. Þeir eru nokkuð vaxnir skógi og víði. Í gegnum þá liggur Háagjá, sem þá heitir Sandhólagjá, að Sandhólastíg, sem er við suðausturhorn á Leirum. Þá heitir hún Leiragjá, að Jónsstíg, sem er stutt vestur frá Stóruvörðu. Leirustígur er á henni norðarlega, við Leira; um hann liggur Leiragata heim að Hrauntúni. Á milli Leirastígs og Jónsstígs hefur hún klofið stóra hæð vestur af Birkihól; hæð sú var nefnd Köst („á Köstunum“). Frá Jónsstíg heitir hún Sleðássgjá og hverfur loks undir Sleðaás.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Norður frá Þingvöllum heitir hallinn á eystra barmi Almannagjár Fagrarbekka allt að Leirum; þar kemur lækur í gegnum gjána, og hefur hann flutt efnið í Leira eins og Öxará í Þingvelli.
Norður frá Leirum, milli gjánna, upp að Bolabás, heitir Sleðáshraun. Það er talsvert stór blettur, dálítið skógi vaxinn, sunnan í móti, eins og með gjánum beggja vegna, en að mestu grjót og mosi. Bolabás er hvammur stór í Ármannsfelli, á milli Sleðaáss að austan og Fjárhússmúla að vestan.
Frá Langa-stíg, sem er upp frá norðurenda Vallanna efri, er dýpsti kafli Almannagjár, við Fögrubrekku, og heitir hún þar Snóka; þar verpir á vorin alls konar illþýði: hrafnar, smyrlar og jafnvel fálkar. 1 botni hennar var stundum heyjað frá Þingvöllum. Fyrir norðan Sóknu rennur Leiralækur; litlu norðar er Tæpistígur á Almannagjá; fyrir norðan hann heitir gjáin Hvannagjá; á henni er Leynistígur, þar, sem vegurinn liggur yfir hana; svo hverfur hún undir Ármannsfell vestast í Bolabás.“ – Ásgeir Jónasson.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Sigurðarsel - Þingvöllum

Sigurðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þingvellir

Í Dagblaðinu Vísir 1986 segir frá Skógarkoti og „Haustferð til Þingvalla„:

„Sérlega fögur gönguleið á Þingvöllum að hausti er leiðin að Skógarkoti. Við bílastæðin fyrir neðan Öxarárfoss er skilti sem vísar leiðina. Á Skógarkoti var myndarlegur búskapur allt frá fornöld til ársins 1936 er bærinn fór í eyði. Það er minnst á Skógarkot í Íslendingasögunum, nánar tiltekið í Landnámabók.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti,

Leiðin að Skógarkoti er stutt, það tekur um 10-15 mínútur að komast þangað. Menn hverfa inn í háan kjarrskóg, þar sem ægir saman öllum haustlitunum, án þess að rekast utan í trén. Gengið er yfir margar gjár sem eru brúaðar frá fornu fari þannig að enginn ætti að eiga í vandræðum með að komast á leiðarenda.“

Í Skýrslur um landshagi á Íslandi 1861 er fjallað um „Þingvelli“:

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Þingvellir.
Tekjur.
1. Tekjur af jörðum, sem prestakallinu fylgja og sem eru:
a) Prestssetrið Þingvellir. Dýrl. óviss. Kúgildi heima engin.
Jörðin hefir tún lítið og harðlent, en að mestu slett. Utantúns slægjur bæði litlar og langt frá. Sumarhaga góða og vetrarbeit fyrir fé, en enga fyrir hesta. Skógur er víðlendur og góður, til kolgjörðar og meðfram til eldiviðar. Silungsveiði á vissum tímum góð. Hættur eru einstaklega miklar af gjám. Jörðin framfærir í meðalári 2 kýr, 00 ær, 70 sauði, 40 lömb, 1 eldishest og 2 púlshesta.
Eptir álitsgjörð virðingarmanna er jörðin sanngjarnlega leigð með 1 hdr. landskuld, sem borgist þannig: rd. sk. rd. sk.
40 ál. í peningum (1 spesía á 15 ál.) . . 5 32 – Í fríðu 14 16 kúgildi 3; leigur þar af 60 pd. smjörs . . 11 84
b) Hjáleigur heimajarðarinnar; dýrl. á þeim ókunnur:

Skógarkot

Skógarkot.

1. Skógarkot; landskuld 45 ál. geldst þannig: 45 ál. í fríðu. . . 7 93. kúgildi 1; leigur þar af 20 pd. smjörs . . 3 92
2. Hrauntún, »nýbýli upptekið fyrir 20 árum«:
Landskuld 30 ál., sem borgast með peningum 4 » kúgildi ekkert.
3. Svartagil; landskuld 40 ál. í peningum 5 32
kúgildi 1; leigur þar af 20 pd. smjörs. . 3 92
4. Vatnskot; landskuld 30 ál., geldst í fríðu 5 30
kúgildi 1 ; leigur þar af 20 pd. smjörs. . 3 92
5. Arnarfell, »nýbýli, upptekið fyrir 9 árum«.
Landskuld 30 ál., geldst með peningum . 4 » kúgildi ekkert.

Skógarkot

Skógarkot.

Í Pressunni 1992 er fjallað um „Suðurland-Þingvelli“:
„Þingvellir voru gerðir að þjóðgarði árið 1928 þegar Hrauntún, Skógarkot, Vatnskot og Þingvellir voru friðlýst.
Þjóðgarðurinn er um fimm þúsund hektarar að stærð. Þingvellir eru þekktir fyrir náttúru sína og sögu. Þar var Alþingi stofnað árið 930 og starfaði óslitið til loka átjándu aldar. Kristni var lögtekin árið þúsund á Þingvöllum og var kirkja reist þar snemma á elleftu öld. Sú sem nú stendur var vígð árið 1859. Um Þingvelli gengur Atlantshafshryggurinn í norðaustur þar sem austur og vestur rekur hvort frá öðru hægt og sígandi.
Þingvallavatn er stærsta vatn Íslands frá náttúrunnar hendi, 83,7 ferkflómetrar.“

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Í „Umhverfið“ 2013 segir af „Gönguleiðum á Þingvöllum“ eftir Guðrúnu St. Kristinsdóttur:

„Allt frá fyrstu byggð og fram á okkar daga hafa fætur manna og dýra markað þær leiðir sem liggja um Þingvallahraun. Leiðirnar bera glöggt vitni umbúsetu, tækni og ekki síst erindifólks á hverjum tíma. Gamlar götur, vegir og stígar eru hluti menningarminja sem þjóðgarðinum á Þingvöllum er ætlað að vernda ásamt vistkerfi svæðisins, jafnframtþví að stuðla að ánægjulegri dvöl þeirra sem heimsækja staðinn.

Sleðaás

Þingvallaréttin við Sleðaás.

Sögusvið Þingvalla er ekki bara þingið og þeir atburðir í sögu íslensku þjóðarinnar sem þar eiga sér rætur. Saga fólksins sem háði lífsbaráttu sína í Þingvallahrauni er óskrifuð en hefur markað sín spor í landið. Sú saga er einnig sögð í örnefnum sem enn lifa og ekki síst er hún sjáanleg í tóftarbrotum og gömlum hleðslum víðsvegar um hraunið.
Utan þingstaðarins þar sem nýjir stígar hafa verið lagðir í þágu hins mikla fjölda ferðamanna sem sækja staðinn heim, mynda fornar aðkomuleiðir á þing, gamlar þjóðleiðir, og leiðir milli bæja, þær göngu- og reiðleiðir sem nú eru farnar um Þingvallahraun.
Það er málvenja á Þingvöllum að kalla aðeins þann hluta leiðar sem liggur yfir gjá eða sprungu stíg. Leiðin að og frá er síðan ýmist kölluð vegur eða gata. Höft eða hliðrun á gjám sem gerir þær færar yfrum ráða einnig miklu um legu leiðar.
Þjóðvegurinn frá Reykjavík liggur t.d. um Tæpastíg, þar sem Hvannagjá og Snóka hliðrast. Gömul póstleið lá á sínum tíma um Langastíg í Stekkjargjá, eftir Skógarkotsvegi í Skógarkot og síðan Gjábakkavegi um Gjábakkastíg á Hrafnagjá.

Þingvellir

Þingvellir – gjá.

Þegar byggð lagðist af í Þingvallahrauni um 1930, gréri fljótt yfirþær götur sem eingöngu voru troðnar fótum. Vegir sem lagfærðir voru fyrirvagna og síðarbifreiðar héldu sér hinsvegar betur eins og nærri má geta. Seint á síðustu öld, þegar fólk fór að ganga um landið svo að segja erindisleysu eða einungis sér til skemmtunar og heilsubótar rifjuðust þessar leiðir aftur upp.
Á vegum þjóðgarðsins hafa helstu leiðir verið lagfærðar, ofaníburður styrktur í gömlu þjóðleiðunum sem hafa haldið sér í gegnum þjóðgarðinn og gróður klipptur úr stekkgötum og skotvegum á milli eyðibýlanna gömlu.
„Svo sem allir vegir lágu til Rómar suður í álfu, þannig liggja allar leiðir í austanverðu Þingvallahrauni í Skógarkot,“ sagði Björn Th. Björnsson í bók sinni Þingvellir, staðir og leiðir sem út kom árið 1984. Enn þann dag í dag eru gömlu eyðibýlin áfangastaðir flestra, Skógarkot í miðri sigdældinni, Hrauntún „langt norður í Hrauni“ eins og sagt er og Vatnskot á bökkum Þingvallavatns.“

Skógarkot

Skógarkot – fjárhús.

Í Sögu 1985 er fjallað um „Öxar við ána“:
„Á hrauninu norðaustur af Þingvallabæ eru nú tvö eyðibýli, Skógarkot er nær Þingvöllum en ekki fer einni sögu af nafni þess serri er norðar og fjær. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns nefnir hjáleiguna Ölkofra, eyðibýli í landi Þingvalla, og greinir einnig Þórallastaði sem lagzt hafi í auðn um stóru pláguna, en byggzt aftur og kallað síðan Skógarkot „því Þórallastaðir meinast verið hafi í sama stað sem nú er Skógarkot“, segir þar.19
í sóknarlýsingu sinni 1840 segir séra Björn Pálsson að eyðibýlið Þórhalls- eða Ölkofrastaðir sé fyrir austan Skógarkot og stekkur þaðan.

Þórhallsstaðir

Fjárhústóft í Ölkofra – Þórhallsstöðum.

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir að skammt suður frá bænum Skógarkoti sé stekkur og þar „vanalega kallað Ölkofrustaðir“. Þennan stekk kallar Kr. Kalund Þórhallsstaði og segir að Þórhallur ölkofri eigi að hafa búið þar.

Ölkofri

Ölkofri – Gamlistekkur.

Ásgeir Jónasson segir frá Gamla-Stekk, stekk frá Skógarkoti, í grein sinni og segir líkur á að þar hafi Ölkofrastaðir verið. Af þessu má sjá að engan veginn er víst hvar fornbýlið á Þórhallastöðum í Bláskógum var, þar sem ölgerðarmaðurinn Þórhallur ölkofri bjó og Ölkofra þáttur segir frá; óvíst er hvort Þórhallastaðir sem þátturinn nefnir voru þar sem nú heitir Skógarkot eða hvort þeir voru á rústunum í leitinu fyrir sunnan Skógarkot eða einhvers staðar annars staðar í Bláskógum. Á bls. 148 er höfundur þó ekki í vafa um að bær Þórhalls Ölkofra stóð þar sem séra Björn Pálsson nefndi Þórhalls- eða Ölkofrastaði, Kalund Þórhallsstaði, Brynjúlfur frá Minna-Núpi Ölkofrustaði og Ásgeir Jónasson Ölkofrastaði eða Gamla-Stekk. Virðist höfundur velja heimildir fyrir þessari nafngift sem bezt falla að sannfæringu hans sjálfs um hvar Ölkorfi bjó en leiðir hjá sér óljósa meiningu heimildarmanna Jarðabókar þeirra Árna og Páls um að Þórallastaðir sé eldra heiti á Skógarkoti, en Ölkofra nafn á eyðibýli í skóginum á hrauninu.“

Í Lögréttu 1919 er grein um „Þingvelli við Öxará“:

Þingvellir

Þingvellir 1866.

„Þingvallasveit er með einkennilegustu og fegurstu sveitum hjer á landi. Í fornöld mun hún líka hafa verið með bestu búsældarsveitunum, sem marka má af þjettbýlinu, sem þar hefur verið. Nú er hún ekki nema skuggi einn hjá því sem áður var, hvað búsældina snertir, — á þeim tíma er hún öll var gróðri vafin og skógi skrýdd. Í sveitinni er nú skógurinn takmarkaður á litlu svæði, á hrauninu norður af Þingvallavatni milli Almannagjár og Hrafnagjár. Og allstaðar bera þessar skógarleifar vott um, að þeim er ofþjakað af fjárbeit. Hraunylurinn, jarðvegurinn og veðursældin hafa haldið skóginum við — þar sem hann er, annars væri hann fyrir löngu upprættur, og bæirnir komnir í eyði, sem mest nota hann. En allar líkur eru til að samt reki af því, fyr eða síðar, a hann hverfi með öllu, ef ekki verður tekið bráðlega í taumana.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Engar brigður er hægt að bera á það, að Þingvallasveit hefur öll verið skógivaxin í fornöld, og það jafnvel alla leið norður undir Skjaldbreið. Það sannar bæði landslagið jarðvegurinn og loftslagið. Sveitin liggu langt frá sjó, en þó ekki hærra en 100—200 metra yfir sævarflöt. Saltir sævarvindar hafa ekki náð að blása inn á þetta svæði, er skapað hafi skóginum aldur. Ekki stafar skógeyðingin heldur af eldgosum eða skriðum. Hún á eingöngu rót sína að rekja til óskynsamlegrar aðferðar mannanna sjálfra, sem búið hafa við skóginn. Þeir hafa rifið hann upp með rótum, höggið hann takmarkalaust og ofboðið honum með fjárbeit.
Mörgum hefur verið illa við skóginn, þótt hann tefja fyrig smalamensku og rýra ullina á sauðfjenu á vorin, og óskað honum því norður og niður. Þess eru dæmi enn í dag, að bændur á skógjörðunum hafa haft það á orði, og þeir væru búnir að kveikja í skóginum og brenna hann til kaldra kola, ef þeir vissu það ekki fyrirfram, að landið mundi blása upp á eftir og breytast í gróðurlausa auðn. Hræðslan við þetta hefur hlíft skóginum á einstaka stað á landinu. En menn hafa þó ekki alstaðar verið svo skynsamir að sjá þetta — fyr en eftir á, — þess vegna hefur verið herjað á skóginn með fjárbeit, eldi og járni, — gengdarlaust og fyrirhyggjulaust, hann upprættur á stórum svæðum og landinu breytt í eyðimörk.

Þingvellir

Skógarkot – fjárhús og hlaða.

Í Þingvallasveit hlaut skógurinn fyrst að hverfa af bersvæði, hálsum, hæðum og halllendi, þar sem ekkert skjól var í neinni átt, og minst var mótstöðuaflið gegn eyðingunni. Jafnskjótt og skógurinn hvarf breyttust skilyrðin fyrir hann að vaxa upp aftur, enda hafði hann ekkert næði til þess vegna sauðfjárbeitar. Og þegar skógurinn var horfinn allstaðar í sveitinni, nema á litlum bletti í Þingvallahrauni, fengu allir bændur í sveitinni samt undantekningarlaust aðgang að skóginum til fjárbeitar, kolagerðar, eldiviðar og raftviðar.

Sigurðarsel

Sigurðarsel á Þingvöllum.

Vegna þess hve mikið orð fór af skógargæðunum í Þingvallahrauni, náðu bændur úr öðrum hjeruðum ítaki í honum, gerðu þar til kola, og sóttu þangað óspart eldsneyti. Í eina tíð átti Skálholtskirkja ítak í Þingvallaskógi. Þá var og sóttur viður í Þingvallaskóg neðan úr Grafningi, hjeðan af Suðurnesjum og vestan úr Kjós. Engan þarf því að furða þótt skógarleifarnar í Þingvallahrauni sjeu nú rýrar, eftir alt sem á undan er gengið.
Jarðabók Árna Magnússonar telur 30 jarðir í Þingvallasveit árið 1711; af þeim voru 14 í eyði. Ennfremur hafði Á. M. það eftir munnmælum, að 50 bæir hefðu verið í sveitinni fyrir pláguna miklu (Svartadauða) 1402, og að Hrafnabjargir hafi staðið í miðri sveit. Sá bær stóð langt norð-austur í hrauninu niður undan Hrafnarbjargarklettum. Umhverfis þann stað er nú gróðurlaust og berblásið hraun að kalla má.
Byggðabýli í Þingvallasveit eru nú 16 að tölu og eyðibýlin 15, sem menn vita fyrir víst að voru í ábúð fyrr á tímum. Flestöll eru þau nefnd í jarðabók Á. M. Og eru þau þessi:

Þingvellir

Vatnskot – fjárhús.

1. Bárukot fyrir ofan Almannagjá, en norðan Öxarár. Var af sumum mönnum bær þessi kallaður Þverspyrna eða Fótakefli. Kotið var fyrst byggt árið 1684, og var í ábúð aðeins 8 ár og lagðist svo í eyði.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg.

2. Grímastaðir eða Grímakot var skammt fyrir norðan Bárukot. Árið 1711 sást þar votta fyrir garðhleðslu og mun að líkindum sjást fyrir henni enn. Bær þessi mun áður hafa heitið Grímsstaðir og kenndur við Grím hinn litla, sem getið er um í Harðarsögu og Hólmverja, og byggði hann þar fyrstur og hafði stórt bú.
3. Múlakot, af sumum nefnt Mosastaðir, var sunnan undir Sleðási norður við Ármannsfell. Um 1680 var sá bær byggður upp úr fjárhúsum frá Svartagili. Ekki hafði það verið í ábúð nema eitt eða tvö ár.
4. Litla-Hrauntún stóð langt norðri á Þingvallahrauni hjer um bil miðja vegu milli Ármannsfells og Hlíðargjár. Liggur sú gjá norður af Hrafnagjá.
5. Hrafnabjörg. Sá bær stóð fyrir ofan Hlíðargjá upp undan svokölluðum Prestastíg. Er sögn manna, að þar hafi verið hálfkirkja til forna.
Þar sjest enn fyrir mannvirkjum.
6. Bövarshóll er örnefni í skóginum skammt frá Vellankötlu. Býli þetta var komið í eyði löngu fyrir 1700. — Sagt er að bylið hafi tekið nafn af Böðvari nokkrum, sem kvað hafa byggt það fyrstur. Um 1680 er sagt, að maður nokkur að nafni Sæfinnur nafi búið þar rúmlega hálft ár eða svo, og hafi þar dáið.

Þingvellir

Þórhallsstaðir – fjárhús.

7. Ölkofra var bær norðaustur í hrauninu frá Þingvöllum. Fyrir austan Skógarkot er enn þá örnefni, sem heitir Ölkofrastaðir og Ölhóll. Mun bá bær hafa dregið nafn af Þórhali. Ölkofra, sem Ölkofra-þáttur er af. Gerði Ölkofra öl á alþingi. Hann kveikti í Goðaskógi í Þingvallahrauni. Þá var bær hans kallaður Þórhallastaðir í Bláskógum. Bær þessi var í ábúð um 1700, en þar áður ýmist byggður eða í eyði.

Ölkofra

Ölkofra – Þórhallsstaðir – loftmynd.

8. Þórhallastaðir. Sá bær lagðist í eyði í Svartadauða, en löngu seinnra er sagt, að bærinn hafi verið byggður upp aftur þar sem Skógarkot er nú, og að þar hafi þeir staðið áður. Hjer virðist eitthvað blandað málum með eyðibýlin. Að líkindum hafa Þórhallastaðir og Ölkofra verið sami bærinn, og ýmist verið kenndur við Þórhall eða Ölkofra, og færður þangað, sem Skógarkot er nú. Þó ei ekki loku fyrir það skotið, að hjer geti verið um tvo bæi að ræða.
9. Eiríksstaðir eru sagðir að hafa staðið fyrir norðan Mjóafell, milli þess og Skjaldbreiðar. Bæjar þessa er getið í Bárðarsögu Snæfellsáss og Ármannssögu. Eiríkur frá Eiríksstöðum var einn þeirra manna sem glímdu á Hofmannafleti.
10. Fíflavellir áttu aS hafa verið landsuður frá Skjaldbreið. Getið er um þenna bæ í Ármannssögu.
11. Rótólfsstaðir voru norðan undir Miðfellsfjalli.
12. Kárastaðakot var bygt úr Kárastaðalandi um 1685. Þar var búið í 6 ár, svo lagðist það í eyði.
13. Neðridalur var bær í dalnum norður af Stíflisdal. Hann lagðist í eyði í Svartadauða. Um 1700 sást þar votta fyrir giringum og tóttum.
14. Hólkot var í landsuður frá Síflisdal. Þar var byggð fyrir Svartadauða. Sagt er, að þar hafi sjest fyrir tóftum og garðhleðslu. 15. Móakot var byggt á 19. öld, milli Skálabrekku og Heiðabæjar. Það var í ábúð að eins sárfá ár.

Hrafnabjörg

Prestastígur og Hrafnabjörg.

Hvort nokkuð er hæft í því, að 50 bæir hafi verið í Þingvallasveit á 13. og 14. öld og þar áður, og að Hrafnabjargir, sem áður eru nefndar, hafi staðið í miðri sveit, er ekki hægt að fullyrða; hefur það ekki verið rannsakað. En ekki er ósennilegt að svo hafi verið, því að Skógarsveitir voru yfirleitt mjög þjettbýlar til forna. Til þess að ganga úr skugga með það, þarf að rannsaka alt það svæði, sem líkindi eru til að byggðin hafi náð yfir í Bláskógum. Sagt er, að enn sjáist leifar af tóftum norður undir Skjaldbreið. En hvort það eru fornar bæjarrústir, vita menn ekki. Svo gæti víðar fundist, ef vel væri leitað.

Nýi-Þingvallahellir

Nýi-Þingvallahellir.

Hafi byggð verið áður í Þingvallahrauni, á skóglendi, þar sem nú er algerlega berblásin jörð, hafa bæirnir lagst í eyði af öðrum orsökum en þeim, að menn fengjust ekki til að búa á jörðunum, ef það hefði verið nokkur leið. Jarðirnar lögðust í eyði sökum þess, að skógurinn var rifinn og upprættur með öllu, en landið bljes upp og varð óbyggilegt.
Að líkindum hefur alt svæðið fyrir norðan og austan Þingvallavatn heitið Bláskógar til forna. Hefur það verið mjög víðáttumikið land, og allt skógi vaxið. Í útjöðrum skógarins, þar sem byggðin náði lengst til fjalla, var jarðvegurinn, að líkindum, mjög þunnur ofan á hrauninu, þar var hættan mest fyrir uppblæstri. Enda byrjaði uppblásturinn þar. Vindurinn skóf jarðveginn alveg ofan á hraun, þar sem skógurinn var upprættur, og jafnt í kringum býlin sem annarstaðar. Skógarkjörrin sem stóðu eftir hjer og hvar í afdrepi hjeldust ekki við til lengdar. Þegar alt var berblásið í kring um þau. Vindur og vatn svarf að utan, þangað til allur gróður var upprættur. Túnkragarnir kringum kotin stóðu lengst, því að þar var ofurlítil rækt í jarðveginum og gróðurmoldin þjettari fyrir, en urðu þó að lokum vindi og vatni að bráð, svo ekki sást örmull eftir af þeim heldur.

Skógarkot

Skógarkot – fjárhús.

Skógeyðingin og uppblástur landsins færðist smám saman suður eftir Þingvallahrauni og tók með sjer hvert býlið á fætur öðru og jafnaði þau að jörðu. Það er því ekki að undra, þótt litlar eða engar menjar sjáist eftir horfnu býlin í Þingvallasveit.

Þingvallahraun

Þingvallahraun.

Nú eru að eins eftir 4 býli í Þingvallahrauni; verður ekki annað sjeð, en að þau eigi fyrir höndum sömu útreið og horfnu býlin.
Skóginum er spillt enn í dag á þessu svæði, og landið blæs árlega upp. Og upp koma snoðnir, gráhvítir og berlásnir hraunkollar, sem áður báru grænan og þjettvaxinn skóg og litfögur blóm.
Þegar hraunið er orðið bert og nakið, verður það smámsaman mosavaxið. Með tímanum fúnar mosinn og myndar nýjan jarðveg, — nýja gróðurmold. — Jurtafræ berst á ný yfir á jarSveginn og festir þar rætur, og hraunið klæðist aftur grösum og skógi. Náttúran ræktar sig sjálf á þennan hátt, ef hún má vera sjálfráð; en til þess þarf hún að njóta algerrar friðunar um langan aldur.
Skógurinn hefur hingað til verið lífæð býlanna á Þingvallahrauni. Jafnskjótt og hann hvarf, hurfu býlin líka. Og þessir 4 bæir: Þingvellir, Skógarkot, Hrauntún og Vatnskot, sem telja má að sjeu leifar af heilli sveit í Þingvallahrauni, standa og falla með skóginum. Þeir hverfa úr sögunni fyr eða síðar, af sjálfsdáðum, þegar skógurinn er horfinn. Ef ekki tekst að halda í skóginn, verður fornhelgi þingstaðurinn — hjarta landsins, sem kallað er — svo útleikinn í framtíðinni, að þar sjást engar minjar fornra mannvirkja, og umhverfi hans eintóm gróðurlaus eyðimörk.

Þingvellir

Vatnskot.

Það var níðingshönd, sem breytti skóglendinu í gróðurlausa auðn og öræfi. Og það þarf volduga verndarhönd til að hjálpa náttúrunni að græða og bæta aftur það, sem spilt hefur verið. Verður það ekki gert með öðru mót, en að afgirða svo vítt svæði, sem skógur vex í Þingvallahrauni, eða svæðið frá Ármannsfelli, milli Almannagjár og Hrafnagjár, suður að Þingvallavatni. Gera síðan Þingvelli að friðlýstum þjóðskemmtigarði til gagns og gleði fyrir þjóðina, og hafa þar griðastað öllum íslenskum jurtategundum, sem þar geta þrifist og aukið kyn sitt, óáreitt um aldur og æfi.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg undir Hrafnabjörgum.

Þetta getur ekki komist í framkvæmd, nema því að eins að búpeningsrækt sje útrýmt á þessu svæði. Og þá verður að taka ábúð af 4 býlum, sem eru á Þingvallahrauni, og
áður eru nefnd. Þeim verður að fórna undir þjóðgarðinn. Þau hljóta að fara í eyði, hvort sem er, þegar skógurinn er upprættur. Og að því ræðst fyr eða síðar, ef búskapur á þeim verður rekinn hjer eftir sem hingað til, og með sama fyrirkomulagi.
Meðan landið var gróðursælt og skógurinn blómlegur, voru stórbú á jörðunum. En búskapnum hefur alt af farið hnignandi öld eftir öld á jörðum þessum. Því til sönnunar má geta þess, að árið 1397 voru 14 kýr á Þingvöllum, en 1711 voru þær ekki orðnar fleiri en 7. Nú mun ekki hægt að hafa þær fleiri en 3. Hrauntún var 1711 selstöð frá Þingvöllum. Þar var ekki sjálfstæð ábú fyr en á 19. öld. Má þar nú hafa 1—2 nautgripi.

Þingvellir

Skógarkot.

Á Skógarkoti voru árið 1711 9 nautgripir. Nú munu þar vera 2—3.
Á Vatnskoti voru þá 4 kýr og 3 geldneyti. Túnkraginn gefur nú ekki af sjer hálft kýrfóður, hvað þá meira. Enda hefur kotið lengi verið í eyði. En fyrir nokkrum árum síðan var það tekið í ábúð. Á þessum 4 jörðum eru engar útheysslægjur, eða hafa verið, aðrar en þær, sem sækja verður langt út fyrir Þingvallahraun, víðsvegar út um fjallahaga.
Af þessu má sjá, að búskapnum hefur farið hnignandi að sama skapi og skóginum. Jarðirnar gefa nú ekki af sjer meira ræktað fóður en ein lítilfjörleg jörð annarstaðar á landinu.“

Þingvellir

Skógarkot – rétt.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1937 er fjallað um „Örnefni í Þingvallahrauni“:
„Að norðvestan við Lágbrún er ávalur jafn halli að henni, sljettur að ofan, sem heitir Leiti; nær það frá Stekkjarvörðubölum með Lágbrún að Hrútabrekkum, sem eru vestan í löngum grjóthól frá norðri til suðurs, austan vegarins. Leiti nær einnig alla leið heim að Gamla-stekk; hann er norðvestast á Leitinu og var notaður frá Skógarkoti. Stekkurinn er þar, sem líkur eru fyrir, að ölkofrastaðir hafi verið. Þar bjó Ölkofri eða Þórhallur sá, er ölið bruggaði fyrir alþingisgesti og brenndi Goðaskóg.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Þar var haldið við litlum túnbletti fram undir 1900, og þar var brunnur fram yfir þann tíma, sem var þrauta-vatnsból frá Skógarkoti; hann þraut ekki, nema þegar þurkar og frost hjeldust vikum samam Ölkofrastaðir eða Gamli-Stekkur eru suðaustan-undir hárri hæð, sem heitir nú Stekkjarhæð, og er þar skjól talsvert í norðanveðrum. Vestan í hæðinni er mjög djúpur dalur með bröttum brekkum og klapparbrúnum, sem einnig er kenndur við ölkofra, og vestan við dalinn er Ölkofrahóll.
Vestur-að Hrútabrekkum, að Sauðasteinum, heitir Hrútabrekkuskógur. Skammt fyrir ofan Sauðasteina, vestan-við Veiðigötu, þar sem fyrst sjezt heim að Skógarkoti, þegar gatan er farin, er lítill hóll með smá-vörðubroti; hún heitir Hellisvarða. Þar undir er hinn frægi Hallshellir, sem um nokkur ár dró að sjer athygli fjölda fólks, og skal nú skýrt frá, hvernig hann fjekk frægð sína.
Sumarið 1902 var sá, er þetta ritar, vinnumaður í Skógarkoti hjá Hannesi bónda Guðmundssyni. Þá var þar einnig drengur, sem heitir Kristján Schram og nú hefur í mörg ár verið starfsmaður hjá Gasstöðinni í Reykjavík. Eitt sinn, er við komum úr veiðiför neðan af vatni, hvíldum við okkur í laut þeirri, sem er norðan við hólinn; fundum við þar litla holu, sem var að mestu lokuð af jarðvegi
og lyngi. Þegar við rifum þar til, komum við niður í helli, auðvitað „fullan af myrkri“. Síðar fórum við þangað með ljós og sáum, að hellirinn var talsvert stór, og garður hlaðinn um hann þveran; fyrir innan garðinn er hann svo lágur, að skríða verður á fjórum fótum.

Þingvellir

Í Hallshelli.

Næsta sumar, 1903, var á ferð á Þingvöllum enski rithöfundurinn Hall Caine. Hann hafði heyrt talað um helli þennan, skoðar hann og þykist finna eitthvað merkilegt við hann, sem hvorki hann sjálfur eða aðrir vissu hvað var. Svo var hellinum gefið nafn hans, og hann kallaður Hallshellir, og verður nú frægur mjög. Þyrpist þangað múgur og margmenni, sem allt verður vonsvikið á merkilegheitunum, sem von var, en gaf bóndanum í Skógarkoti góðan skilding, því að allir þurftu á fylgd að halda, og kostaði hún krónu í hvert skipti. Dýrð þessi mun hafa staðið eitt eða tvö sumur; svo fjaraði þessi heimska út, eins og fleiri, og er Hallshellir nú fyrir löngu fallinn í þá fyrri gleymsku.

Þingvellir

Þingvellir – Pelahella.

Rjett fyrir ofan Hrútabrekkur er brött klöpp í veginum, sem heitir Pelahella. Vestur af henni, austan Veiðigötu, eru smáhólar, sem heita Gráuklettar. Traðirnar í túninu liggja til suðvesturs; fram af þeim er stór, sljettur hellubali, sem heitir Vaðmálsbali; munu þar hafa verið breidd vaðmál til þerris; þar var einnig þurkuð ull, meðan það var í tízku. Yfir Vaðmálsbala liggur vegurinn við túngarðinn og frá honum, einnig Vatnskotsgata og Veiðigata.
Jón Kristjánsson, er bjó í Skógarkoti 1840—84, stækkaði þar túnið talsvert til suðurs; sú stækkun er kölluð Gerði; þar voru kvíaær bældar á nóttum, þegar búið var að hirða af því heyið. Þangað voru einnig kvíarnar fluttar; var ánum hleypt út eftir kvöldmjaltir, og lágu þær hreyf ingarlausar, þar til birta tók. í túninu suðaustur af bænum er djúp laut, er Möngudalur heitir. Beint austur af bænum er bali dálítill, sem heitir Harðhaus. Þar var ætíð hafður hrísköstur, sem notaður var til eldsneytis á vetrum. Bærinn stendur sunnan í hæð, sem nefndur var Balinn; uppi á honum voru fjárhús og heyhlöður. Þar, sem hann er hæstur, er sundurklofinn hóll, sem heitir Rjettarhóll. Austan-við hann, norðan-við túngarðinn, var fjárrjett, og austan við túnið tvö lambhús; nú er allt þetta óþarft orðið. Austast í túninu var brunnhola, sem fljótt þraut vatn í; var þá eins og í gamla daga leitað til gamla Ölkofra með drykk, og ef hann þraut, sem sjaldan var, meðan brunnurinn var hirtur og haldið við, varð ,að sækja vatn á hestum niður í Tjarnir, h.u.b. hálfrar stundar ferð.

Þingvellir

Þingvellir – minningarsteinn um Jón H. Jóhannsson frá Skógarkoti við Ölkofra í Jónslundi.

Milli túnsins í Skógarkoti, norðan við götu, sem liggur að Ölkofra, er dálítill klapparbali, sem heitir Þverhóll. Austan-við túngarðinn eru litlir klapparhólar; þeir heita Brunnklettar. Austur-af lambhúsum, fyrir austan túnið, er stór hóll sundurklofinn, sem heitir Skygnir; er þaðan gott til yfirsýnar austur í Brúnarhallann og yfir hraunið þar á milli. Hjeðan hallar hrauninu lítið eitt austur að Höfðum og Mosalágarhæð; er á þessu svæði skógarlítið, og þar eru Eyður þær, sem áður voru nefndar.

Þingvellir

Þingvellir – brunnur Ölkofra.

Góðan kipp austur frá Skyggni er hæð lítil, sem snýr frá norðri til suðurs, með brekku vestan í, sem heitir Sand-„Gíslahæð“. Í brekkunni er lítið gildrag með sandflagi, og gæti hugsazt, að hæðin hefði nafn af gilinu og rjetta nafnið væri Sandgilshæð; stutt fyrir austan hana eru strýtumyndaðir smáhólar, sem heita Strýtuhólar. Þar fyrir austan tekur við áður-nefndur Magnúsarklettsskógur með Mangúsarkletti h.u.b. í miðju; er það nokkuð hár, sjerstakur hraunklettur; nær skógur þessi í austur að smáhólum, sem heita Músarhólar; eru þeir rjett fyrir norðan áðurnefndan neðri eða vesturenda á Bruna; norður frá þeim ganga lágir og sljettir mosabalar með gras- og skógarlautum, allt austur að Syðri-Gapahæð.
Rjett fyrir norðvestan túnið í Skógarkoti er brekkumynd vestan í hæð, sem heitir Rjettarhæð; skammt norðvestur þaðan eru vörðubrot á þremur smáhólum; þær heita Jafningjar. Austan við þær liggur hin nýja gata upp að Hrauntúni, sem rudd var um 1910 til 1912; áður var gatan upp svonefndar Brúnir.

Þingvellir

Þingvellir – Vellankatla.

Vestan Vellankötlu ganga tangar nokkrir út í vatnið; lengst skaga þar fram Grunnhólar. Fyrir austan þá eru Nautatangar. Grunnhólar eru talsvert hærri en hraunið þar í kring, sem er að mestu lágt og flatt. Uppundan Nautatöngum er Jórunnarvarða; þar varð úti 1884 kona frá Skálabrekku, er Jórunn hjet. Nokkru þar fyrir vestan gengur langur og krókóttur tangi út í vatnið; heitir hann öfugsnáði, og veit jeg ekkert hvernig á nafninu stendur. Var hann oft notaður til aðrekstrar á vorin frá Skógarkoti. Vestan-við hann er löng og hringbogin vík, sem oft er notuð til lendingarstaðar, þegar veiðin er bezt þar framundan. Hún heitir Öfugsnáðavík. Þar úti í vatninu er hólmi, sem heitir Langitangi; verpa þar bæði andir og kríur. Litlu vestar er Vatnskot. Þar voru víst fyrst hús fyrir ær og lömb frá Þingvöllum og síðar var þar það, sem kallað er þurrabúðar- eða hús-fólk. Það er, að það hafði ekki kýr eða bjó ekki við málnytu; þó mun það hafa haft einhvern sauðf jenað. Þess voru dæmi, að þar bjuggu tvær fjölskyldur.“

Í Vísindavefnum segir um sama umfjöllunarefni:

Þingvellir

Þórhallsstaðir.

„Í Ölkofra sögu, sem oftar er kölluð Ölkofra þáttur, vegna þess hve sagan er stutt er í upphafi lýsing á Þórhalli nokkrum á Þórhallsstöðum í Bláskógum. Hann var sagður lítill og ljótur. Ein helsta iðja hans var að selja öl á þingum. Hann hafði oft kofra á höfði en kofri var kollótt húfa sem bæði var borin af körlum og konum. Af húfunni og ölsölunni fékk hann viðurnefni sitt.
Í fornu máli var lýsingarorðið þungeygur notað um sjóndapra. Merkingin í „honum voru augu þung“ er sú sama.
Sagan segir einnig að „honum voru augu þung“. Merkingin er hin sama og í lýsingarorðinu þungeygur sem þekktist í fornu máli í merkingunni ‘sjóndapur’ en er ekki notað lengur. Í Íslenskri orðabók frá 2002 er orðið merkt með krossi en skýringin á krossinum er „fornt eða úrelt mál“.

Í B.A. ritgerð Gunnars Grímssonar segir m.a.:

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

„Þetta verkefni hefði líklega aldrei náð svona langt ef ekki væri fyrir ómælda hjálp frá þjóðgarðinum á Þingvöllum og þá sérstaklega frá Einari Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsverði, sem hefur stutt mig mikið í þessari vinnu frá upphafi, hvatt mig áfram og boðið mér að taka virkan þátt í fornleifarannsóknum innan þjóðgarðsins. Auk þess hefur Torfi St. Jónsson, verkefnastjóri á Þingvöllum, bent mér á ýmsar afar gagnlegar ritheimildir og lesið yfir ritgerðina. Ég þakka þeim kærlega fyrir þeirra stuðning. Einnig vil ég þakka Margréti H. Hallmundsdóttur innilega fyrir alla samvinnuna og fyrir ráðgjöf tengda hvers kyns vinnu við fornleifaskráningu auk borkjarnarannsóknar sem við framkvæmdum í Þingvallahrauni undir hennar stjórn í september 2019. Guðrúnu St. Kristinsdóttur í Stíflisdal og Jóhannesi Sveinbjörnssyni á Heiðarbæ þakka ég fyrir samtöl um fornleifar, yfirlestur og ýmsar ábendingar, sem hjálpuðu við að bæta heildarmynd eyðibyggðarinnar á Þingvöllum. Síðast en ekki síst vil ég þakka félaginu Ferlir, með Ómar Smára Ármannsson í fararbroddi, fyrir að hafa deilt með mér hnitum frá ferðum sínum til Þingvalla árin 2007–2012, sem urðu mikill hvati að þessari vinnu.

Prestastígur

Skuggasteinn við Prestastíg.

Þingvellir eru einn merkasti sögustaður Íslands. Þar var alþingi háð frá um 930 til 1798 eða í hartnær átta aldir. Fyrsti þjóðgarður landsins var stofnaður á Þingvöllum. Voru lögin um þjóðgarðsstofnun samþykkt 1928 og tóku þau gildi 1930 þegar haldið var upp á þúsund ára afmæli alþingis. Íslenska lýðveldið var formlega stofnsett á Þingvöllum 17. júní 1944 (Björn Þorsteinsson, 1986). Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 vegna sögu og fornleifa staðarins auk gildis þeirra sem „helgistaðar þjóðarinnar“ (UNESCO, 2004).

Þingvellir

Vatnskot.

Þingvellir eru nú einn fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands. Þrátt fyrir langa sögu og miklar minjar hafa fornleifarannsóknir innan þjóðgarðsins á Þingvöllum verið færri en ætla mætti.

Þingvellir

Þingvellir.

Fjölmargar minjar hafa verið skráðar innan þinghelginnar (Sigurður Guðmundsson, 1878; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Guðmundur Ólafsson, 1986; Margrét H. Hallmundsdóttir, óútgefið) en lítið hefur verið um eiginlega fornleifauppgrefti, sem hafa flestir verið tiltölulega smáir í sniðum (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Adolf Friðriksson o.fl., 2006; Orri Vésteinsson, 2004; Margrét H. Hallmundsdóttir og Hansen, 2012). Rannsóknirnar hafa þá mestmegnis beinst að minjum innan þinghelginnar en ekki hefur verið fjallað eins mikið um minjar utan hennar, sem eru leifar eyðibyggðarinnar á Þingvöllum. Eyðibyggðarinnar er helst getið sem eins konar viðauka við umfjöllun um alþingisstaðinn (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1945) en hún er sjaldan í aðalhlutverki (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og heildstæða samantekt vantar. Aðeins hefur verið grafið á einum stað í þjóðgarðinum utan þinghelginnar, svo vitað sé (Brynjúlfur Jónsson, 1895). Hugmyndir um eðli og umfang eyðibyggðarinnar á Þingvöllum eru því langt frá því að vera fullmótaðar.

Þórhallsstaðir

Þingvellir

Súlur – séðar frá Þingvöllum.

Um 600 metrum austan Skógarkots eru Þórhallsstaðir (mynd 12) eða Þórhallastaðir. Nafnið tengist Ölkofra þætti, sem fjallar um Þórhall „ölkofra“ sem býr á Þórhallsstöðum í Bláskógum en ekki er sagt nánar frá staðsetningu bæjarins í sögunni. Það er alls ekki sjálfgefið að Þórhallur, ef hann var í raun og veru til, hafi búið á þessum stað en ekki annars staðar, eins og í Skógarkoti eða lengra uppi í hrauninu, þar sem hann vann til kolagerðar (Íslenzk fornrit XI, bls. 83–85). Í Jarðabókinni er sagt frá munnmælum um að hinir fornu Þórhallsstaðir hafi verið þar sem Skógarkot er nú. Samkvæmt Jarðabókinni var búið á þessum stað 1695–1704 og bærinn kallaður Ölkofrastaðir eða Ölkofra (JÁM II, bls. 364) en síðar varð staðurinn að Stekkjartúni frá Skógarkoti og var kallaður Gamli-Stekkur (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 152).

Þingvellir

Þingvellir – í Skógarkoti.

Sjáanlegar minjar á yfirborðinu tengjast flestar búskap Skógarkotsmanna á 19. og 20. öld. Þar hefur verið ræktað tún sem helst enn og á því er nokkuð heillegt fjárhús. Brunnur er á miðju túninu og einnig er annar náttúrulegur brunnur í dæld, Ölkofradal, vestan túnsins. Lítill túngarður hefur verið hlaðinn umhverfis túnið en hann er víða horfinn undir gróður. Norðan fjárhússins sést móta fyrir leifum ferhyrnds mannvirkis. Gæti það annaðhvort verið kálgarður, sem Skógarkotsbóndi hlóð úr veggjarústum Ölkofrastaða um aldamótin 1900 (Brynjúlfur Jónsson, 1905, bls. 46) eða Gamli-Stekkur (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 152). Athygli vekur þó að mannvirkjaleifarnar standa ofan á yfir metra hárri upphækkun, mögulega manngerðum bæjarhól, með tilheyrandi rannsóknarmöguleikum.“

Heimildir:
-Dagblaðið Vísir, 220. tbl. 27.09.1986, Haustferð til Þingvalla, bls. 8.
-Skýrslur um landshagi á Íslandi, 2. bindi. 01.01.1861, Þingvellir, bls. 613-614.
-Pressan, 26. tbl. 02.07.1992, Suðurland – Þingvellir, bls. 22.
-Umhverfið, 1. tbl. 01.07.2013, Gönguleiðir á Þingvöllum, Guðrún St. Kristinsdóttir, bls. 4.
-Saga, 1. tbl. 1985, Öxar við ána, Guðrún Ása Grímsdóttir, Helgi Þorláksson, Sverrir Tómasson, bls. 254.
-Lögrétta, 19. tbl. 07.05.1919, Þingvellir við Öxará, bls. 1.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1937, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 151-154.
-Vísindavefurinn – https://www.visindavefur.is/svar.php?id=72803
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél, B.A.-ritgerð, Gunnar Grímsson, HÍ – 2020.

Þingvellir