Tag Archive for: Skógfell

Eldgos

Eldgos hófst af miklum krafti við Sundhnúk ofan Grindavíkur um klukkan 22.00 þann 22. ágúst 2024.

Eldgos

Eldgos við Grindavík 2. ágúst 2024.

Gosmökkurinn var mikill í upphafi goss. Sást hann greinilega í kvöldskímunni. Gosið virðist stærst gosanna í undanförnum hrinum. Umfangs hraunsins gæti orðið um 6 ferkílómetrar. Væntanlega mun draga úr gosinu fljótlega. Nú þegar er kominn upp tæplega helmingur þeirrar kviku sem hafði safnast upp á svæðinu.

Þetta er níunda hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021. Þrjú hinna áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Eða eru þetta bara eitt og sama gosið – með hléum?

Eldgos

Eldgos ofan Grindavík 22. ágúst 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024 og það fjórða 16. mars 2024. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 22. ágúst 2024.

Líklegt er að þessi hrina verði svolítið langlífari í tíma talið, þótt skammvinn verði, að mati sérfræðinga. Eitt er þó víst – við getum átt von á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Fyrstu klukkustundirnar munu þó skera úr um það. Ný sprunga opnaðist norðan þeirrar eldri, þ.e. á milli Skógfellanna.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavík 22. ágúst 2024.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, forgengilegir áður en á hólminn er komið.
Náttúruöflin eru ólíkindatól. Þótt þetta eldgos, líkt og hin fyrri, hafi virst óálitlegt tilsýndar, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og óvænta möguleika. Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður…

Sjá Myndir úr eldgosunum sex við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Eldgos

Eldgos við Grindavík 22. ágúst 2024.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er margbrotið fjall norðaustan Grindavíkur, stærsti stapinn á svæðinu. Örnefni í Fagradalsfjalli má t.d. nefna Langhól, efstu bungu fjallsins í norðri. Auðveldasta uppgangan á hann er upp af Görninni í suðvestanverðu fjallinu. Þaðan er þægilegu aflíðandi gangur á hólinn.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

Fagurt útsýni er af Langhól yfir allt til höfuðborgarsvæðisins. Þá má nefna Geldingadal þar sem „dys“ Ísólfs er að finna. Stóri-hrútur er í austanverðu fjallinu, keilulagaður stapi, og Borgarfjall er í því sunnanverðu. Kastið vestan í Fagradalsfjalli er sögustaður flugvélaflaks úr Seinni Heimstyrjöldinni, líkt og Langihryggur autan í því sem og Langóllinn fyrrnefndi. Fagridalur, sem fjallið tekur nafn sitt af er undir því norðvestanverðu. Þar hvílir Dalsselið, selstaða frá Þórkötlustöðum. Skammt ofar og austar er mikilfenglegur, þverskorinn, gígur fjallsins í Kálffelli. Samnefnt fell er einnig skammt norðvestar.

Í Náttúrufræðingnum árið 2011 er fjallað um jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall í maí 2009.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Árið 2009 var rólegt á skjálftasviðinu. Mestu skjálftar ársins urðu í allsnarpri skjálftahrinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Forskjálftavirkni hófst um kl. 17 þann 29. maí, en meginskjálftinn, 4,7 stig, varð kl. 21:33 sama kvöld.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Upptök hans voru við vestanvert Fagradalsfjall. Hann fannst víða um suðvestanvert landið, vestur í Búðardal og austur að Hvolsvelli og olli meira aðsegja grjóthruni í Esju, eins og nefnt er í kaflanum um skriðuföll. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti kl. 13:35 daginn eftir með upptök við norðanvert fjallið. Hann var 4,3 stig og fannst einnig víða. Alls mældust um 2000 skjálftar í hrinunni sem gengin var um garð fyrir mánaðamótin.

Í Náttúrufræðingnum 1966 fjallar Guðmundur Kjartansson um „Stapakenninguna og Surtsey„. Fagradalsfjall er vestastur stapa landsins.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Á þremur stórum svæðum Íslands er berggrunnurinn að mjög miklu leyti úr móbergi og allur myndaður af eldgosum seint á ísöld, einkum síðasta jökulskeiðinu. Þetta eru móbergssvæði Norðurlands, Miðsuðurlands og Suðvesturlands. Þau eru öll fjöllótt, og fjöllin, sem eru úr móbergi með mismiklu ívafi af bólstrabergi, eru tvenns konar að gerð: flest hryggir, en sum stapar.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Svo er um þessa fjallgerð, stapana, sem aðrar „gerðir“, að hún bendir til sameiginlegs uppruna einstaklinganna, sem til hennar teljast. Uppruni stapanna hefur verið skýrður á þrjá allólíka vegu:

Fjallið eina

Fjallið eina – stapi.

1. Rofkenningin: Fjöllin hafa meitlazt fram við gröft vatna, jökla eða jafnvel sjávar úr víðáttumiklu hálendi, sem var h. u. b. jafnhátt og brúnir fjallanna eru nú.
2. Misgengis- eða höggunarkenningin: Fjöllin eru ris (horstar), þ.e. misgengnar jarðskorpuspildur, og fylgja misgengissprungurnar hlíðum þeirra allt í kring.
3. Upphleðslukenningin: Fjöllin hafa hlaðizt upp í eldgosum og fremur lítið breytzt síðan að stærð eða lögun.
Fyrstu áratugi þessarar aldar voru mjög skiptar skoðanir meðal jarðfræðinga um það, hver þessara kenninga ætti helzt við ummyndun íslenzku stapanna. — Þeir Þorvaldur Thoroddsen og Helgi Pjeturss létu þetta deilumál lítið til sín taka, enda var viðhorf þeirra fremur hlutlaust. Báðir lýsa stöpunum sem eldfjallarústum, þeir hafi hlaðizt upp í eldgosum, en síðan bæði haggazt og rofizt, svo að hin upphaflega eldfjallslögun er nú farin út um þúfur (Þorv. Thoroddsen 1906 og Helgi Pjeturss 1910).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Í Faxa árið 1984 er fjallað um fjöllin ofan Grindavíkur, þ.á.m. Fagradalsfjall.

Jón Jónsson, jarðfræðingur hefur varið mörgum árum til rannsókna á Reykjanesskaga. En furðu hljótt hefur þó verið um þær rannsóknir hans og lítt verið minnst á þær hér í Faxa.
1978 gaf Jón út fjölritað rit um rannsóknir sínar. Trúlega er það nú í fárra höndum. En mjög er æskilegt að hann gefi það síðar út á prenti, svo að flestir eigi aðgang að þeim upplýsingum, sem þar eru. Hér verða birtir örstuttir kaflar úr riti Jóns, sem fjalla um fjöllin á skaganum næst okkur: Þorbjarnarfell, Lágafell, Hagafell, Sýlingafell, Skógfellin, Fagradalsfjall og Keili.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Misgengi gengur í gegnum fellið.

Þorbjarnarfell (243 m) vekur athygli fyrst og fremst af því hvað það er mikið brotið og verður að því nánar vikið síðar. Fellið er úr bólstrabergi og móbergsþursa með bólstrum á víð og dreif, en lítið er um blágrýtisæðar í því það séð verður og hraun eru þar engin. Bergið í fellinu hefur ekki verið athugað nánar. Að norðaustan er það mjög ummyndað af jarðhita. Þorbjarnarfell hefur án efa myndast við gos undir ís meðan jöklar huldu landið. Vestur úr Þorbjarnarfelli gengur hæðarbunga, sem Lágafell heitir. Það er forn eldstöð, líklega frá því seint á síðasta jökulskeiði. Ennþá sér fyrir hrauni og nokkrum gígum kringum hann ásamt gjalli, en engin merki sjást til þess að jökull hafi gengið þar yfir.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Lágafell virðist vera yngra en Þorbjarnarfell. Norðaustur af Þorbjarnarfelli liggur Selás og tengir það við Hagafell og Svartsengisfell. Þessi fell eru að langmestu leyti úr bólstrabergi og kemur það sérstaklega vel fram í Gálgaklettum í Hagafelli, en þeir eru misgengi, sem brýtur fellið um þvert. Stór björg hafa losnað og hrapað ofan á hraunið. Er þar þægilegt að grannskoða bólstraberg.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan undir Gálgaklettum er svæðið þakið hraunum upp að Svartsengisfelli (206 m), sem svo er nefnt af Grindvíkingum, en á kortinu er það nefnt Sýlingafell og mun það hafa verið málvenja í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Hið neðra Svartsengisfell að mestu úr bólstrabergi og þursa en efst á því er gígur allstór eða raunar öllu heldur tveir samhangandi gígir og grágrýtishraun kringum þá.

Sýlingarfell

Sýlingarfell. Svartsengi t.h. og Þorbjörn t.v.

Fjallið er sennilega byggt sem stapi og mjög unglegt, hefur sennilega verið virkt seint á síðasta jökulskeiði. Vestan í fjallinu eru gosmyndanir, sem samanstanda af ösku og vikri, og hefur það efni verið unnið um árabil, og er svo enn. Sú myndun hverfur inn undir fellið sjálft. Misgengissprunga liggur um fellið þvert með stefnu norðaustur-suðvestur og ummyndun eftir jarðhita er þar mikil enda er virkur jarðhiti (háhiti) við rætur fjallsins. Ummyndunina má rekja um norðanverðan Selháls yfir í Þorbjarnarfell eins og áður var drepið á. Tengist þessi ummyndun jarðhitasvæðinu Svartsengi. (Bls. 31-32).

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Stóra-Skógfell (188m) er um 1,5 km austur af Svartsengisfelli. Það er algjörlega úr bólstrabergi. Litla-Skógfell er um 3 km austar og einnig það er úr bólstrabergi, en ólíkt er það berginu í Stóra-Skógfelli. (Bls. 32).

Fagradalsfjall

Flugvélaflak í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjall (385 m) er byggt upp sem stapi, hið neðra úr bólstrabergi, brotabergi og túffi, en með hettur úr grágrýti. Líta verður á f jallið sem dyngju og er gígurinn nyrst í fjallinu.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir 2020.

Fagradalsfjall hefur að mestu leyti byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti. Mætti ætla að jökull hafi legið umhverfis það, þegar grágrýtishraun, sem þekja það, runnu, en þau eru frá áðurnefndum gíg komin og hafa runnið til suðurs og suðvesturs en ekki norðurs. Norðurendi fjallsins er úr móbergsbrotabergi allt frá toppgígnum og niður úr svo langt sem sér. Í gíg Fagradalsfjalls er ennþá grágrýtishraun. (Bls. 34-35).
Til skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Fagradalsfjall, skal þess getið, að það er aflangt, ekki ólíkt hval í laginu, séð frá Keflavík. Er gígurinn í þeim hluta fjallsins sem fjær veit bænum. Skógfellin eru á vinstri hönd úti í hrauninu þegar ekið er til Grindvíkur.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin ofan Soga. Keilir fjær, Spákonuvatn t.h.

Keilir (379 m) er frægastur fjalla á Reykjanesskaga. Norðaustan við hann eru þrír hnúkar, sem nefndir eru Keilisbörn. Þeir eru úr lagaskiptu móbergstúffi og raunar er það sumsstaðar í Keili sjálfum að neðanverðu. Í þessu túffi má víða finna báruför, sem sýna að efni þetta hefur sest til í vatni. Útlit þeirra bendir til að um grunnt vatn hafi verið að ræða.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Milli Keilis og Keilisbarna er hringlaga dalur. Víða má sjá að túfflögum hallar inn að þessum dal. Grágrýti er í toppum á Keili og sums staðar utan í honum virðist það koma fram og gæti það verið berggangur. Sennilega er þetta hraun í gosrás fjallsins því ekki er að efa að Keilir er eldstöð frá jökultíma.“

Sjá meira um jarðfræði Fagradalsfjalls HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Náttúrfarsallnáll 2009, 3.-4. tbl. 2011, bls. 166.
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1966, Stapakenningin oog Surtsey, Guðmundur Kjartansson, bls. 2-4.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Úr flæðamálinu, bls. 88.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Sundhnúkahraun

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Sundhnúkahraun við Grindavík“ í Náttúrufræðinginn árið 1974.

Inngangur

Grindavík

Grindavík – flugmynd. Hagafell t.v., Sundhnúkagígaröðin ofar og Húsfell og Fiskidalsfjall t.h. Fagradalsfjall enn ofar.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um.

Hagafell

Gígur sunnan Hagafells.

Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð. Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

Gígaröðin

Sundhnúkur

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Ur ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Sundhnúkar

Gígur í Sundhnúkum.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).
SundhnúkarFrá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum(P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan áannan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.
SundhnúkarTil suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

Sundhnúkur

Í Sundhnúkagígaröðinni.

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð
SundhnúkahraunHraunið er venjulegt feldspat-pyroxen basalthraun. Í því er mjög lítið um ólívín en allmikið um tiltölulega stóra feldspatkristalla (xenokrist.).
Samsetning hraunsins er þessi:
Plagioklas 43,59%
Pyroxen 44,98%
Olívín 0,68%
Málmur 10,75%
Plagioklas-dílar eru innan við 1% og sömuleiðis pyroxen-dílar. Þeir síðarnefndu eru oft með svonefndri „stundaglaslögun’, en það einkennir titanágit. Hnyðlingar koma fyrir í þessu hrauni, og hafa fundizt í vestasta gígnum sjálfum. Ekki hefur tekizt að ná sýni af þeim, en ljóst er, að þeir eru af svipaðri gerð og þeir, er finnast víða annars staðar á Reykjanesskaga. Hér virðast þeir vera úr olívíngabbrói. Aðeins einstaka olívín-dílar koma fyrir í hrauninu og þá allstórir.

Eldri gígaröð

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun.

Sundhnúkur

Eldri gígur í Sundhnúkahrauni.

Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.

Hvenœr rann hraunið?

Sundhnúkahraun

Hraunrás í Sundhnúkahrauni.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð.

Hagafell

Hraunfossin (-tröðin) vestan Hagafells.

Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Sundhnúkahraun

Sprungur í Sundhnúkahrauni.

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi (4. mynd).

Ummyndun og jarðhiti

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.
Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mikil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða.
Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Sundhnúkahraun

Ein af gersemum Sundhnúkahrauns.

Arnarseturshraun

FERLIR fór í sína árlegu jólagönguferð s.l. laugardag, 11. desember. Eins og kunnugt er hefur hópurinn verið duglegur að leita uppi fornar minjar á Reykjanesskagagnum og staði, sem flestum eru gleymdir. Þessi ferð var engin undantekning, nema nú var ætlunin að finna þann stað, sem jólasveinarnir halda sig jafan á milli jólahátíða.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

Hvar búa jólasveinarnir? Sagnir hafa verið um að þeir, móðir og faðir ásamt jólakettinum, búi í einhverju fjallinu á milli hátíða?
Fremstu, og jafnframt hæfustu, rannsakarar sem til eru, voru settir í það verkefni að reyna að staðsetja dvalarstað jólasveinanna. Þeir skoðuðu öll hugsanleg fjöll, sem til greina komu, en niðurstaðan voru vonbrigði. Fullyrt var að hvorki jólasveinar né önnur sambærileg fyrirbæri gætu búið í fjöllum, hvað þá á fjöllum. En hvar þá?
Rannsakararnir komust að því að undirheimarnir væru einna líklegastir. Jólasveinarnir virtust alltaf eiga nóg af gjafadóti, þeir voru hvergi á launaskrá, virtust ekki hafa neinar tekjur, sáust aldrei milli 6. janúar og 12. dag desembermánaðar og notuðu ekki síma, en þurftu að búa við tiltölulegar mildar aðstæður og auðvelt væri um aðdrætti. Auðvitað þyrftu jólasveinar ýmislegt smálegt af og til allt árið auk þess þeir þurftu að geta dregið sér allt efni í gjafir og því var alveg nauðsynlegt að nærliggandi íbúar væru sammála sem einn maður að þegja um dvalarstaðinn. En hvar voru íbúar, sem gátu þagað yfir leyndarmáli?

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hvar lá fiskur undir steini? Þægilegir undirheimar, milt svæði, láglendi, auðvelt með aðdrætti, hreindýramosi og traustsins verðir nágrannar? Rifjað var upp Stóra heimaslátrunarmálið!!! Einungis einn staður gat komið til greina. En svæðið var stórt. En undirheimar þess voru þó á takmarkaðir.
Lagt var af stað inn í norðanvert Skógfellahraun og gegnið áleiðis að Litla-Skógfelli. Fetaður var stígur í gegnum hraunið upp að fellinu. Á því er lítil varða.
Gamla þjóðleiðin um Skógfellaveg liggur sunnan við fellið frá Vogum og áfram áleiðis til G

Jól

Jólasveinn.

rindavíkur. Hún er mikið klöppuð í hraunhelluna. Gæti það m.a. hafa verið eftir hreindýr jólasveinanna til langs tíma?
Gatan var rakin framhjá gatnamótum Sandakravegar og síðan beygt til hægri að Stóra-Skógfelli. Framundan var Arnarseturshraunið, sem er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum um 1226. Líklegt er að jólasveinarnir hafi flust á milli svæða, en þetta svæði er enn volgt – undir niðri – og því kjörlendi þeirra, sem vilja dyljast svo til allt árið.
Ef jólasveinarnir væru þarna einhvers staðar væri best að koma þeim á óvart með því að koma úr þeirri átt, sem síst væri von mannaferða á þessum tíma. Gengið var hljóðlega inn á hraunkantinn og áleiðis að mikill hrauntröð austan við eldgígana. Þegar stutt var eftir í tröðina sást hvar rauð húfa stóð upp úr skjannahvítum snjónum. Þegar þátttakendur nálguðust reis skyndilega upp jólasveinn undir húfunni og virtist hann hálf ringlaður og undrandi. Hann, sem er vanur að finna fók, átti greinilega ekki átt von á að fólk finndi hann.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hikandi gekk hann á móti FERLIRsfélögum, staðnæmdist í hæfilegri fjarlægð og kastaði kveðju á liðið. Það var ekki síður undrandi þótt búast megi nú við hverju sem er í FERLIRsferðum, eins og dæmin sanna.
Eftir svolitla stund hvarf feimnin af honum og hann bauðst til að fylgja FERLIR í hellinn, en einungis inn í anddyrið því annars yrði Grýla alveg brjáluð, eins og hann orðaði það. Auk þess væru hinir bræður hans enn sofandi, en sjálfur ætti hann að leggja af stað til byggða um kvöldið. Þau vildu ekki fá of marga gesti því þá væri hætta á að ekki yrði ráðið við strauminn og því enginn friður lengur.
Í ljós kom m.a., í annars dimmum hellinum, að jólakötturinn var ekki köttur,

Arnarsetur

Jólasveinn í Arnarseturshellum.

heldur hundur. Það er greinilega ekki allt satt sem sagt er.
Stekkjastaur, en það sagðist jólasveinnin heita, bauð upp á góðgæti að hætti jólasveina, sagði sögu, flutti gamanmál og vildi síðan heyra fólkið syngja jólasöngva. Þegar sungið var “Jólasveinar ganga um gólf” þurfti hann að leiðrétta texta mannanna, sem notaður var, því auðvitað er farið upp á hól en engin kanna sett upp á stól. Af hólnum var litið til manna, eins og hann sagðist sjálfur oftast gera.
Þegar sveinki var spurður af því hvers vegna sungið væri: „Jólasveinar einn og átta, ofan koma af fjöllunum…“, svaraði hann því til að auðvitað væri með þetta eins og annað; hreppstjórinn í Grindavík hafi fyrir nokkrum mílárum handtekið fjóra ræningja, sem haldið höfðu til í gjá uppi á Þorbirni og hengt þá í Gálgaklettum þarna rétt hjá. Einhver fjölmiðill hafi síðar talið þá vera „jólasveina“ og sett þá vitleysu á prent fyrir langalöngu, en hún enn ekki fengist leiðrétt. Þess vegna vissi fólk ekki betur og tryði vitleysunni, eins og svo oft vill verða. „En ekki láta þetta rugla ykkur“, sagði hann, „við erum níu og reyndar fjórum betur. Og auðvitað komum við af fjöllum á leið okkar um og yfir þau með gjafirnar. Hjá því verður ekki komist, a.m.k. ekki hérna á Íslandi.“
„En áttu ekki að vera í íslenskri lopapeysu eða rollukápu?“, spurði snáðinn í hópnum.
„Ekki á jólunum. Þá klæðumst við sparifötunum, þessum hérna“, svaraði jólasveinninn og togaði með annarri hendinni í rauðu treyjuna. „Allshvunndags erum við nú bara í lopanum og skinninu“, lambið mitt. Það hefur reynst okkur best hér á þessum slóðum.“

Arnarseturshellir

Í Arnarseturshelli.

„En segið mér eitt“, bætti jólasveinninn við og lækkaði róminn. „Hafið þið heyrt nokkurn tala um rýrnunina á skreiðinni í trönunum hérna rétt hjá?“ Hann benti í suður. Allir komu af fjöllum. Ekkert svar.
„Nú, það er svo. Þá þarf ekki fleiri orð um það – ekki meira um það“, sagði sveinki og leit flóttalega í kringum sig.
Fljótlega þurfti Stekkjastaur að hverfa til skyldustarfa, greip með sér langan lista og stóran hvítan poka, snaraði honum á bak sér, kvaddi þátttakendur og hvarf út í miðhúmið.
Einn úr hópnum, sem virtist nú fyrst vera að átta sig, leit á hina og spurði með undrunarsvip: „Hver var þetta, hver lék jólasveininn?“.
Hinir litu á hann, brostu síðan og svörðuðu einum rómi. „Þetta var sjálfur jólasveinninn, ekta jólasveinn, sástu það ekki, maður“.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – kort.

Einhverjir eltu jólasveininn út úr hellinum til að sjá hvers konar farartæki hann notaði, en allt kom fyrir ekki. Hann var horfinn með það sama. Jólasveinar virðast öðlast einhvern yfirnáttúrlegan mátt þegar að þeirra tíma kemur. FERLIR virðist því hafa verið á réttum stað á réttum tíma, rétt áður en máttur Stekkjastaurs varð virkur – ef ekki ofvirkur.

Auðvitað eiga Grindvíkingar jólasveinana, eins og svo margt annað á Reykjanesskaganum. Þeir eiga líka flest hraunin og svo til öll fjöllin og ef Hafnfirðingar hefðu ekki beitt brögðum til að ná til sín Krýsuvík á sínum tíma, ættu þeir nær allt, sem merkilegt getur þótt á skaganum – eða það segja Grindvíkingar a.m.k. Var ekki alþingismaðurinn kra(f)tlegi sem flutti tillögu um að afhenda Hafnfirðingum Krýsuvík jafnframt bæjarfulltrúi Hafnfirðinga? Hvað gátu hinir hógværu og kurteisu Grindvíkingar gert í þeirri pólitísku refskák á þeim tíma? „Pólitíkin er rúin allri kurteisi“ – eða það viðurkennir Gunnar Birgisson a.m.k. núna.

Kjöthvarfið

„Kjöthvarfið mikla“- myndin er úr eftirlitsmyndavél.

Áður en Stekkjastaur kvaddi var hann beðinn um góðar gjafir þátttakendum og öðrum til handa, einkum þó gnægð kærleika, hamingju, góðar heilsu og nægan tíma, ef hann gæti eða mætti miðla einhverju af því sem hann ætti af slíku. Veraldlegar gjafir voru afþakkaðar (þótt góðir gönguskór komi sér nú alltaf vel).

Til fróðleiks má upplýsa hér að Stóra heimaslátrunarmálið snérist um haldlagningu á miklu magni af heimaslátruðu kindakjöti hjá Grindavíkurbændum. Því var síðan stolið úr fórum yfirvalda og virtist hafa horfið af yfirborði jarðar. Íbúarnir þögðu allir sem einn. Utanaðkomandi sögðu þó að eigendurnir hefðu einungis fært það tímabundið á milli frystigáma og læst á eftir því til að tryggja betur geymslu þess, en aðrir vildu halda því fram að „einhverjir jólasveinar“ hefðu tekið það ófrjálsri hendi. En engin trúði hinum síðarnefndu að sjálfsögðu. Að einu má þó ganga sem vísu; það er löngu búið að eta öll sönnunargögnin.
Frábært veður – stilla og logn. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Arnarseturshellir

Arnarseturshellir.