Tag Archive for: Skorhagasel

Múlasel

Í jarðabókinni 1703 segir m.a. um Skorhaga í Brynjudal: „Var hinn forni bær kallaður Múli, og er þar nú auðn, en í staðinn komin þessi jörð, Skorhagi, fyrir meir en hundrað árum. Aldrei hafði þar verið bær sem nú stendur hann“.
Brynjudalur-22Vísa, sem Sveinbjörn Beinteinsson afhenti Þórhalli Vilmundarsyni í desember 1992.  Höfundur er ókunnur.

Bær hét Múli í Brynjudal,
berst það víða um sveitir.
Skriðan gerði skemmdarpal,
Skorhagi síðan heitir.

Ekki er minnst á selstöður frá þessum bæjum í Jarðabókinni 1703.
Brynjudalur-23Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Skorhaga. Þar segir m.a.: „Árið 1705 segir jarðabókin frá því, að fyrir meira en 100 árum hafi bærinn verið fluttur hingað vegna skriðu og gamli bærinn hafi heitið Múli. Má og geta þess, að var kvöð  á bónda í Múla að gæta fjár, sem Reynivallaklerkur átti í Maríuhelli við Brynjudalsá. Brynjudalsá liggur í sveig austan og sunnan við bæinn og túnið. Láglendið, sem tilheyrir jörðinni, er mest holt og hæðir, svo og Múlafjall, sem gengur hér fram milli Brynjudalsvogs og Botnsvogs.
Inn á merkjum móti Ingunnarstöðum var býlið Múli, er fór í skriðu fyrir löngu síðan. Svo er hér mýri,sem heitir Skorhagamýri. Upp undan mýrinni uppi í klettum er sléttur vellisblettur, sem heitir Jónsblettur. Urð er allt í kringum hann og hlýtur að hafa sigið að honum. Klettar eru fyrir ofan þessa brekku, og heita þeir Sneiðarklettar. Þeir eru eins og sneið, sem hækkar vestur eftir og endar út á móts við Stórahjalla, sem er í miðri hlíð. Ofan við Stórahjalla er Lambaskarð í klettana, en neðan við Stórahjalla var tjörn, sem synt var í. Eyri milli tjarnarinnar og árinnar er Stórahjallaeyri.
Brynjudalur-24Niður undan vesturenda Stórahjalla er Ás, sem liggur upp og niður, og við ána er nefnt Svartibakki. Upp með honum að vestanverðu er væn vellisbrekka, sem vantar nafn á. Ofan hennar er lítið gróið land vestur að aðalklettunum. Í brún á Múla eru klettabelti; í þeim eru skörð. Lambaskarð hefur fyrr verið nefnt; svo eru þrjú önnur. Þau heita Austastaskarð, Miðskarð og Seldalsskarð, sem var utast. Upp þessi skörð fóru kvíaærnar. En þegar Einar Jónsson var að smala, gat hann sent tík eftir þeim, og allt kom þetta  niður um Seldalsskarð og aldrei neitt af geldfé, þó nóg væri af því uppi á fjalli.

Brynjudalur-25

Klettar neðan skriðu eru nafnlausir, og þar vestan Svartabakka er nokkuð breið nafnlaus eyri. Þar utar koma börð, sem heita Klifbörð. Efst við Skorhagamýri var farið yfir Klifholt), og börðin voru ofan við Klifið, en það var þar sem gatan lá yfir holtið. Vestan við Klifholt var Réttarholt; undir því var fjárrétt. Réttarholtið er rétt fyrir ofan bæinn. 

Vestan við Réttarholt eru börð sundurskorin. Þau heita Blettir; þetta er heldur vestur af túninu. Réttarholt er norður af mýrinni, upp af túni. Vestur af klettum er Seldalsholt, og þar vestur af er Seldalur.

Brynjudalur-26

Múlasel – uppdráttur ÓSÁ.

Áin tekur á sig allmikinn sveig kringum túnið. Þess má og geta, að einhver sagði, að nafnið hafi upphaflega verið Skyrhagi, vegna þess hve landið er gott hér. Um þetta er ekki annað að segja en það, að þetta nafn finnst hvergi. Niður að túni frá Seldal niður að á eru grjótholt niður með túni, nefnd einu nafni Holt. Þó eru á þeim ýmis nöfn. Mýri er fyrst vestur af bæ, sem heitir ekki neitt.“
Páll Bjarnason skráði upplýsingar um Skorhaga eftir Halldóru Guðmundsdóttur, Brávallagötu 48, fædd í Skorhaga 13. jan. 1903, átti þar heima til 16 ára aldurs. Hún hafði samráð við eldri systkin sín, einkum Snæbjörn, sem átti þar heima til 1921, og Þorkel.
„Hinn forni bær Múli var undir Múlafjalli mitt á milli Ingunnarstaða og Skorhaga eins og nú er, vestan og ofan til við Skorhagamýri. Þar er gróin skriða og hólar, sem bærinn er talinn hafa staðið.“ Ekkert er minnst á sel, selstöður eða „selja“örnefni í lýsingunni.
Við leit á svæðinu norðan Skorhaga komu m.a. í ljós meint dys/kuml, forn gata, tvær fjárhústóftir, stöðull og/eða rétt og selið, sem leitað hafði verið að og tilheyrt höfðu bæjunum Múla og Skorhaga. Um eru að ræða tvær selstöður frá mismunandi tímum, líkt og sjá má á meðfylgjandi uppdrætti.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir:
-Jarðabókin 1703.
-Örnefnalýsing fyrir Skorhaga, Ari Gíslason skráði.
-Páll Bjarnason, örnefnalýsing fyrir Skorhaga, Reykjavík 9. febrúar 1977.

Brynjudalur

Brynjudalur.