Ætlunin var að ganga á Undirhlíðum til suðvesturs, framhjá Stóra-Skógarhvammi, um Móskarðshnúka, framhjá Markrakagili (Melrakkagili), upp á Háuhnúka (262 m.y.s.) og að Vatnsskarði þar sem gengið verður til baka um Breiðdal og Slysadali að upphafsstað.
Þegar gengið er frá Bláfjallavegi (sunnan við námuna) er fyrst farið um lága melhæð og lágum hæðum síðan fylgt á ásnum. Gil eru í hlíðinni og verður Stóra-Skógarhvammsgil fyrst áberandi. Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg neðan og skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Þá var komið að svonefndum Móskarðshúkum. Örnefnið hefur valdið ágreiningi í gegnum tíðina, en hvað sem því líður er þarna um að ræða bæði fallegar og tignarlegar móbergskletta-myndanir, sem verð er að gefa góðan gaum. Myndræn skál er í „Hnúkunum“ og ef gengið er umleikis þá má bæði sjá fallegar myndanir og góð skjól.
Áður en komið var upp á Háuhnúka; efstu hæðir Hlíðarinnar, má sjá steina á stökum móbergsstandi. Þar mun vera um að ræða landamerki Hafnarfjarðar (?) og Krýsuvíkur. Loks var komið á efsta Háahnúkinn. Þar er varða. Staðsetninguna má ráða af hinu fallegasta útsýni í allar áttir; einkum til suðurs og suðvesturs.
Markrakagil er síðan á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.
Þá var komið í Vatnsskarð. Ofan við það er varða; líklega hin fornu landamerki, en þarna munu landamerkin hafa legið fyrir aldarmótin 1900 (sjá herforingjakort frá 1919).
Ofan í Melkrakagili (Vatnsskarðsgili?) er fallegur berggangur, einn sá fallegasti og aðgengilegasti á Reykjanesskaganum. Hann var barinn augum. Loks var Dalaleiðinni fylgt um Breiðdal og Slysadölum að upphafsstað.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1945 lýsir Ólafur Þorvaldsson svonefndri Dalaleið, þ.e. um fyrrnefnda dali að norðanverðu Kleifarvatni: „Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.
Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.“
Þegar komið var að endamörkum var rifjuð upp fyrr ferð um svæðið, líkt og sjá má á eftirfarandi texta: Gengið var frá Krýsuvíkurvegi ofan við Vatnsskarð um Breiðdal, Leirdal og Slysadali, haldið yfir á Skúlatún í Skúlatúnshrauni og síðan niður í Kaldársel framhjá Gvendarselshæðargíga og Kaldárhnúka.
Gengið var niður í sunnanverðan Breiðdalinn og áfram til norðausturs vestan Breiðdalshnúks. Norðan hans var beygt upp á holtin og haldið áfram á þeim til norðausturs, yfir í Leirdal. Þar er Leirdalsvatnsstæðið, annað af tveimur. Beygt var frá því og gengið að Leirdalshöfða og með honum niður í Slysadali. Dalirnir eru vel grónir. Í þeim norðanverðum er nokkuð er líkist tóftum, en gæti verið hvað sem er. Dalirnir virðast vera einn, en Bláfjallavegurinn sker nú dalina. Landið þarna er að mestu innan hinna fornu Almenningsskóga Álptaneshrepps, en Slysadalir eru innan lögsögu Hafnarfjarðar. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuvík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.
Áður en komið var upp á þjóðveginn var beygt til austurs, yfir nokkrar klettasprungur. Í þeim óx fallegur burkni. Nokkur jarðföll eru þarna á svæðinu og í nokkrum þeirra litlir og lágir skútar.
Skúlatúnið blasti við í austri. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarssonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúalstaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps.
Gengið var í átt að Skúlatúni. Að sumra áliti gæti þar hafa verið landnámsbær, en þó er það talið ólíklegt. Skúlatún er þúfótt graseyja í Tvíbollahrauni (Skúlatúnshrauni). Ekki skyldi þó efast fullkomlega eða útiloka með öllu að þar undir kynnu að leynast einhverjar minjar. Skúlatúnshraun (stundum einnig nefnt Hellnahraun eldra) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum.
Tvíbollahraun eða Hellnahraun yngra eru frá því um 950. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.
Gengið var norður hraunið, yfir Gullkistugjá og í beina stefnu að nyrsta hluta Gvendarselshæðargíga. Gígarnir eru tilkomumiklir og er hægt á gönguleiðinni norður með þeim austanverðum að lesa jarðfræði gíganna sem og svæðisins, auk tilkomu hraunsins, nokkuð vel, allt nema kannski aldurinn.
Gengið var niður með Kaldárhnúkum og niður að Kaldá, þar sem gangan endaði.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.