Gengið var í þoku upp girðingaveg á mótum Árnessýslu og Gullbringusýslu við Sýslustein.
Veður var að öðru leyti milt og hlýtt. Í miðri hraunhlíð var litið ofan í hraunketil, sem nefndur hefur verið Slóðaketill. Ofan í honum er um 6 metra gat virðist hraunrás liggja þar inn undir. Rás þessa þarf að skoða betur síðar. Slóðanum var fylgt upp á hraunbrúnina og áfram upp grónar hlíðar melhóla uns komið var á efstu brún. Inni í þokunni í austur eru Sandfjöllin og fjær Vesturás og Austurás. Í suðaustur er Herdísarvíkurfjallið og í góðu skyggni sést þaðan inn yfir Svörtubjörg og alveg að Hnúkum. Í suðvestri eru Æsubúðir á Geitahlíð. Í vestri er Sveifluhálsinn, en nær má sjá gíga, bæði austan í Geitahlíð og eins ofan við Kálfadalahraunið, sem rann þarna til vesturs ofan í Kálfadalina. Þar liggur slóðinn til norðurs inn á hraunbreiðu, en beygir fljótlega til vesturs. Vinstra megin er fallegur hraungígur.
Áð var þegar komið var út úr hrauninu eftir tæplega klukkustundar gang. Þar í austur á að vera hægt að sjá Vörðufell og inn að Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Austan við Vörðufell er Eldborgin, röð fallegra hraungíga og mikilla hraunrása. Þar vestan við rann Hvammadalshraun niður í Hvammadal austan Kleifavatns. Í suðurjaðri þess er m.a. Gullbringuhellir.
Hraunkantinum var fylgt til suðurs. Austan við hraungíga Kálfadalshrauns var haldið til suðsuðausturs inn á mosahraunið og þar fylgt háum hraunkanti á hægri hönd. Þegar komið var út úr hrauninu var komið í gróið hraun úr eldborgunum austan Geitahlíðar. Þeim kanti var fylgt til suðausturs þangað til hann mætti eysti hluta Geitarhlíðar. Þar rann hluti gróna hraunsins niður svonefndan Sláttudal, á milli hlíða. Hallar þar undan til suðurs. Hlíðin er nokkuð brött efst, en jafnar sig fljótlega. Neðar er hraunið mjög gróið. Hamrar eru á vinstri hönd og mikil hraunrás á þá hægri.
Þegar komið er niður á þjóðveginn er hlaðið hrossaskjól undir hraunkantinum handan hans. Þar var áð uns haldið var að bílunum. Eða eins og einn þátttakenda sagði þegar niður var komið:
“Flestum þykir eigi miður,
komin niður,
um gil,
sem reyndar virtist ekki til
og að hafa sloppið heil,
um geil,
í fjalli
úr margra alda gömlu gjalli.
Þokan reyndist óvenjuþétt,
en gangan létt,
enda vanir menn,
sem þekkja og rata þetta enn.
Förum síðar aftur sömu leið,
gatan er greið.”
Gangan var um 7.7 km og tók um 3 klst. Ætlunin er að fara aftur upp girðingaslóðann, yfir hraunið ofan melhólanna og fylgja síðan hraunkantinum til austurs, í stað vesturs eins og nú var gert, og koma niður við suðaustanvert Kleifarvatn, þar sem bílar munu bíða göngufólks. Sú ganga mun líklega taka um 4 klst, en á þessu svæði er hægt að líta eitt mikilfengslegasta eldgosasvæði landsins.
Frábært veður.