Tag Archive for: Sogarsteinn

Auðsholt

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi, Áfangaskýrslu II“ frá árinu 2017 segir m.a. um „Auðsholt, Sogarstein og Auðsholtshelli„:
„30 hdr, 1708. JÁM II, 408. 42 2/3 hdr. 1844. JJ, 74. 1397: LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ DI IV, 92. 1708: Jarðdýrleiki xxx eftir munnmælum, en engi geldst hjer tíund af. Inn til næstliðinna 14 eður 12 ára var af þessari jörðu goldið til sveitarinnar það sem menn kölluðu jarðareyrir, að fátækir fengu 12 fiska. “ JÁM II, 408. „Gömul jörð og stór, 42 hundruð að fornu mati. Austast skiptast á mýrar og holt; þar var góð vetrarbeit og skjólsælt. Bærinn stendur á grónu holti. Vestast og norðan þess eru blautar engjar og grasgefnar sem Ölfusá flæðir yfir í stórflóðum. SB III, 388. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er nýtt til beitar og þar er alifuglabú.
1917: Tún 8 ha, þar af c. 1/3 slétt. Garðar 1824 m2.

Auðsholt

Auðsholt.

„…Auðsholt … standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918 og stafnar snéru líklega til suðurs. Árið 2004 var fyrst komið að Auðsholti í tengslum við skráningu á kirkjum og bænhúsum á landinu. Auðsholti var lýst svohljóðandi þá: „Bæjarhóllinn er frekar háreistur hóll og er núverandi íbúðarhús ennþá þar og hefur fengið nokkra upplyftingu. Heimtröðin er nokkuð löng og komið að húsunum að vestan. Garður er í kringum húsið með sundlaug og nokkuð af trjám. Unnið hefur verið að endurbótum bæði á húsi og garði.“ Árið 2014 var aftur komið að Auðsholti vegna aðalskráningu minjastaða í sveitarfélaginu Ölfusi. Strax var ljóst að miklar breytingar höfðu átt sér stað á bæjarstæðinu. Íbúðarhúsið eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2008 og var rifið árið 2009. Í gegnum tíðina hafði verið byggt við það nokkrum sinnum og húsið stækkað. Það var ókostur og húsið eyðilagðist, að hluta til vegna þessa.

Auðsholt

Auðsholt – álfhóll.

Nú er ekkert hús á bæjarhólnum fyrir utan 20. aldar hlöðu sem er í norðvesturhorni bæjahólsins. Öll önnur útihús hafa verið rifin en sundlaugin sést enn innan bakgarðsins. Fyrir sunnan bæinn var sambyggður kálgarður samkvæmt túnakorti frá 1918, sundlaugin er innan hans. Suðurhlið kálgarðsins sést ennþá, þar er 1-1,5 m hár og brattur kantur. Óljóst mótar fyrir hluta af austur- og vesturhliðinni í túni. Þær byggingar sem tilheyra kjúklingabúinu eru nýlegar.
Bærinn var á náttúrulegu holti, syðst á því. Þar eru ræktuð tún til allra átta.
Bæjarhóllinn sést ennþá enn er mikið raskaður. Hann er um 80 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Það er búið að grafa mikið í hólinn og miklar framkvæmdir átt sér stað á honum. Elsti hluti íbúðarhússins var byggður 1926 en annað sambyggt íbúðarhús var byggt 1965. Húsið var að hluta mikið endurnýjað og sundlaug grafin í suðurhluta bæjahólsins með handafli og dráttarvél. Samkvæmt Runólfi Gíslasyni, heimildarmanni, varð hann í flestum tilfellum var við hleðslur og mannvist við framkvæmdir næst bænum. Nú (2015) er slétt, gróið svæði þar sem íbúðarhúsið var en bakgarðurinn sést ennþá. Það er erfitt að átta sig á hæð uppsafnaðra mannvistarlaga vegna rasksins en hann er 1,5 m á hæð syðst.

Sorgarsteinn – þjóðsaga 63°57.013N 21°09.827V:

Ölfus

Sorgarsteinn.

„Sorgarsteinn: Blágrýtissteinn á Bæjarholtinu. Nafnið er þannig til komið að sögn er um að kona hafi alið barn sitt undir steininum og fannst þar dáin,“ segir í örnefnaskrá. Sorgarsteinn er rúma 450 m norðaustan við bæ og 350 m vestan við helli 020. Þetta er eini blágrýtissteinninn á þessum slóðum og hann sker sig vel úr umhverfinu.
Sorgarsteinn er innan beitarhólfs fyrir hross. Þar eru óræktuð tún og á einhverjum tímapunkti voru þau ræktuð. Steinninn er nyrst á Bæjarholtinu og þar norðar tekur mýrin Sakka við. Umhverfis Sorgarstein eru lægri klettar úr móbergi. Steinninn sjálfur en nánast ferkantaður, 1 – 2 m á hæð og umhverfis hann er gras. Greinilegt er að hross híma gjarnan þarna við.“

Auðsholtshellir – hellir (fjárskýli) 63°56.991N 21°09.409V:

Ölfus

Auðsholtshellir.

„Hellir vestan í Skyggnisholti. Þar var hýst fé, sauðir,“ segir í örnefnaskrá.
Auðsholtshellir er um 650 m norðaustan við bæ. Hellirinn er náttúrulegur en hleðsla er framan við op hans.
Vesturhlíðar Skyggnisholts eru brattar og víða eru klettar. Neðri hluti þeirra eru grónar en klettar efst. Hellirinn er í einu klettabeltinu og brekkan nær upp að honum.
Hellisopið er 7 m langt og 2,5 – 3 m á hæð. Hellirinn snýr norðvestur – suðaustur og lofthæðin er minnst 1 m. Hellirinn er nokkuð reglulegur og myndar snotra hvelfingu. Engin mannaverk sjást þar inni. Nýlegt eldstæði er innst í hellinum svo hann er eitthvað notaður til skemmtana. Hleðsla er framan við opið. Hún er 8 m að lengd, 0,5 m á hæð og 3 m á breidd. Það er bratt til vesturs frá henni, niður brekkuna. Hleðslan lokar hellinum ekki að ofan og líklega var hann alltaf opinn þar. Op inn í hellinn er í suðvesturhorni.“

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.

Auðsholt

Auðsholt.