Tag Archive for: Sogn

Hellulofinn

Í Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008 má m.a. lesa eftirfarandi:

Ölkelduháls

Á Ölkelduhálsi.

Í norðvestri liggur Hengilssvæðið nokkuð vestur fyrir Marardal. Þaðan í suður um Bolavelli, vestan Húsmúla. Suður fyrir Húsmúla í átt að Sleggjubeinsdal. Þá suður með StóraReykjafelli að vestanverðu og milli Stakahnjúks og Lakahnjúka. Áfram í suður um StóraMeitil, Eldborg og Litla-Meitil og að norðurhlíðum Krossfjalla. Þaðan til vesturs að Lönguhlíð. Sveigir síðan aftur til norðurs um Sanddalahlíð, Stóra-Sandfell og Lakakróka. Þá til austurs um Hverahlíð í átt að Kambabrún. Frá Kambabrún í suðaustur milli Hveragerðisbæjar og bæjarhúsanna í Vorsabæ. Um land jarðanna Sogns og Gljúfurs að Kaga í Ingólfsfjalli norðaustanverðu. Mörk sveitarfélaganna Ölfus og Grímsnes- og Grafningshrepps liggja um Kaga. Rannsóknarsvæðið fylgir sveitarfélagamörkunum til norðvesturs sunnan Stórahálsfjalls, um Efjumýri, Klóarfjall og á Tröllháls. Þá til vesturs norðan Ölkelduhálshnúks og loks í norðvestur að Hengli og í Marardal.
Svæðið tilheyrir þremur sveitarfélögum, Sveitarfélaginu Ölfusi, Hveragerðisbæ og Grímsnes- og Grafningshreppi. Landfræðilega er það tvískipt, Hellisheiðin og fjalllendið norðan og norðvestan við Hveragerði og láglendið þar sem Hveragerðisbær og bújarðirnar austur af Hveragerði liggja. Jörðin Reykir í Hveragerðisbæ er innan svæðisins. Stórir hlutar jarðarinnar Sogns og nyrsti hluti Gljúfurjarðarinnar í Sveitarfélaginu Ölfusi eru einnig innan svæðisins.

Marardalur (afrétt)

Marardalur

Marardalur.

Marardalur er vestan í Henglinum. Dalurinn hefur einnig verið nefndur Maradalur eða Marárdalur. Talið hefur verið að annað hvort væri nafnið skylt orðinu marflatur, þ.e. flatur eins og sjórinn, eða þá að átt sé við mar = hestur.
Réttir þessar voru í dal, er Marardalur heitir. Hann er vestan undir Henglinum, þar sem hann er hæstur. Dalur þessi er einkennilegur: hömrum girtur á alla vegu og aðeins eitt einstigi eða öllu heldur þröngt hlið inn í hann, sem fært er stórgripum. Í botni dalsins er slétt harðvellisgrund, algróin fíngerðum vallargróðri, á að giska 5-6 hektarar að stærð. Þarna er því að mestu leyti sjálfgerð girðing. Aðeins hefir þurft að hlaða upp í nokkur smáskörð, til að tryggt væri, að engin skepna slyppi út, sem inn var komin. Víða sér glöggt fyrir þessum hleðslum enn, þó að það hafi aldrei verið mikið mannvirki. Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttarmönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði. Í dalnum hefir ekki verið tiltök að tjalda, þegar þar voru margir tugir nauta eða jafnvel hundruð, þegar flest var. Norðast í dalnum er lækur, ekki alllítill, og rennur hann suður eftir dalnum nokkurn spöl og hverfur svo niður smátt og smátt. Lækur þessi kemur út úr berginu, að mestu leyti í helli nyrst í dalnum austan megin. Í læknum er tært bergvatn, og þrýtur hann aldrei og frýs ekki, því að þetta er kaldavermsl.
Talið er að hætt hafi verið að hafa naut í Marardal laust fyrir 1860. Ásttæður þeirrar ákvörðunar eru ekki þekktar og ekki vitað um annan stað sem tók við af dalnum í þessum tilgangi.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Fornleifarnar sem skráðar voru í Marardal eru þær sem nefndar eru í tilvitnunni hér að ofan, fyrirhleðslur þar sem skepnur gátu komist út úr dalnum og hellisskútar þar sem sjá mátti mannaverk. Í textanum er talað um helli skammt frá götu og fyrir framan hann hlaðinn garð til skjóls. Þessi hellir fannst ekki. Hellirinn er sagður vera austanmegin í Marardal, um 200 m norðan við einu verulega greiðfæru leiðina upp úr dalnum, austanmegin fyrir miðjum dal. Hellirinn fannst þá um 30 m frá merktri gönguleið og um 3 m uppi í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (vörslugarður)

Marardalur

Marardalur – vörslugarður.

Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (hellir/útilegumannaminjar)

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Neðan við hellinn er aflíðandi móbergsklöpp. Auðvelt er að komast að hellinum. Hellirinn er um 3 m að dýpt, um 2 m á breidd þar sem hann er breiðastur og um 1,2 m á hæð þar sem hann er hæstur. Fyrir honum er hleðsla sem talsvert hefur hrunið úr og liggur grjótið framan við hellinn. Eftir standa einungis tvær steinaraðir.

Innstidalur (hellir/útilegumannaminjar)

Lýður Björnsson segir frá helli í Innstadal í ársriti Útivistar 1986. Segir hann hellsimunnan blasa við ef gengið er yfir Sleggjubeinsskarð frá skálanum innan við Kolviðarhól og í dalinn. Hellirinn er allhátt í klettunum rétt hjá stórum gufuhver. Leifar af hleðslu eru fyrir hellsimunnanum sem þó er nær alveg hruninn. Lýður fann talsvert af beinum undir hellum í hellinum. Hann dregur þá ályktun að líklegast sé um útilegumannahelli að ræða. Því til staðfestingar bendir hann m.a. á að klettarnir neðan hellismunnans séu verulega torfærir og ræður óvönum klettamönnum frá að freista uppgöngu nema þeir séu vel búnir og í fylgd með sæmilegum klifurmönnum.

Innstidalur

Innstidalur – skúti.

Í Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939 skrifaði Þórður Sigurðsson frá Tannastöðum grein um útilegumenn í Henglinum. Frásögnin hefur verið tengd við hellinn í Innstadal. Segir þar frá skipshöfn, 6 eða 7 mönnum, sem dvöldu í hellinum ásamt tveimur huldukonum eftir að hafa framið eitthvert níðingsverk sem ekki er þó vitað hvað var. Stálu þeir sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna sér til matar. Söfnuðu sveitamenn 50 til 60 manna liði og sátu fyrir hellismönnum eitt sinn er þeir komu úr ránsferð. Hellismenn flúðu en voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði.
Í Innstadal er hellir upp í bergi. Mjög bratt er upp í hellinn og illkleift upp í hann. Sögur eru til um að útilegumenn hafi hafst við í hellinum um tíma. Sögur þessar eru frá 18. öld og jafnvel fyrr. Ólafur Briem lýsir hellinum í bók sinni Útilegumenn og auðar tóftir og hefur lýsinguna að hluta eftir frásögn Lýðs Björnssonar á hellinum. Hellirinn er tveggja til þriggja metra djúpur og manngengur að framanverðu. Breiddin er rúmlega tveir metrar. Hleðslur eru fyrir munnann beggja vegna dyra. Þykkar hellur sem kunna að vera úr hleðslunum eru á gólfi og undir þeim hafa fundist bein, mest af stórgripum. Í öðrum dyraveggnum er sögð vera hella sem rís upp á rönd og á henni rista sem líkist galdrastaf. Við vegg hellisins, innan við munnann, er ferstrend hola sem vatn stendur í. Ekki lítur út fyrir að hún hafi verið löguð af mönnum. Engar leifar af eldstæði eða ösku eru í hellinum. Ólafur telur að hellisbúar hafi soðið mat sinn í hvernum neðan við hellinn áður en þeir drógu hann upp til sín. Hellirinn var ekki skráður að þessu sinni.

Draugatjörn (sæluhús)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Sæluhús var á leiðinni milli Ölfuss og Mosfellssveitar við Draugatjörn sunnan Húsmúla.
Varðveitt er heimild um þetta sæluhús frá 1703 í lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum. Þegar líður fram á 19. öldina er sæluhúsið við Draugatjörn orðið hrörlegt auk þess sem reimt þótti í því svo að margir veigruðu sér við að gista þar. Sæluhúsið var flutt upp á Kolviðarhól árið 1844 eða 1845. Á svæðinu eru nú leifar eftir sæluhúsið, rétt og túngarður. Í nágrenninu eru vörður og þar markar einnig fyrir gömlum götum.
Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla… Þarna fundust merkar minjar við fornleifauppgröft 1958, járnvar af reku til að moka snjó, járnfleygur til að gera vök í tjarnarísinn, flatstein til að kveikja á eldspýtu og bóluglas undir brjóstbirtu, varðveitt í Byggðasafninu á Eyrarbakka.
Það mun hafa verið Skúli Helgason sem gróf í rústir sæluhússins árið 1958. Hann greinir frá uppgreftrinum í bók sinni Saga Kolvirðarhóls. Segir þar að haustið 1958 hafi verið grafið í rústirnar og tóftin hreinsuð. Voru þá liðin 114 ár frá því húsið hafiði verið í notkun. Auk þess sem áður er upptalið af því sem fannst við uppgröftin telur Skúli upp tvo bindinga úr blaði reku; járnfleyga ferkantaða, 9 cm langa; hnapp úr látúni, skreyttan fjögra blaða rós og brot úr brúnu leirkeri, með fagurlega gerðum upphleyptum rósum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhús.

Í bókinni Gráskinna hin meiri er frásögn, sem Skúli Skúlason ritstjóri skráði, um draugagang í sæluhúsinu. Segir þar af Grími bónda á Nesjavöllum í Grafningi. Grímurbjó á Nesjavöllum eftir aldamótin 1800. Hann var skytta góð og stundaði rjúpnaveiðar. Fyrir jólin var hann vanur að fara til Reykjavíkur til að selja rjúpur og draga ýmislegt smávegis að heimilinu fyrir hátíðarnar. Fór hann oftast einn í slíkar ferðir og gisti ekki á leiðinni. Í einni slíkri ferð var orðið áliðið þegar Grímur lagði af stað úr Reykjavík. Þegar upp á Hellisheiði kom lenti hann í aftaka veðri og varð því að gista í sæluhúsinu. Honum var þetta þvert um geð því aðbúnaður var slæmur í húsinu og svo var hitt að Grímur var myrkfælinn en reimt þótti í sæluhúsinu. Höfðu þrír menn orðið úti þar skammt frá nokkrum árum áður og sóttu þeir að mönnum sem leituðu þar húsa svo illfært þótti að gista þar nema þá margir saman. Grímur gekk frá hesti sínum og fór inn í húsið. Lokaði hann hurðinni og lagði trédrumb að henni. Hundur hans lagðist fram á lappir sér innan við hurðina. Grímur lagðist síðan í bálka í suðurenda kofans með byssu sína sér við hlið.Um síðir tókst honum að sofna en hrökk svo upp við mannamál sem heyrðist utan úr ofviðrinu. Hélt hann fyrst að þar væru komnir ferðamenn og varð félagsskapnum feginn. En þegar raddirnar færðust nær sæluhúsinu kannaðist Grímur við málróm þeirra. Heyrði hann að þar voru komnir mennirnir, sem höfðu orðið úti. Grímur hafði þekkt þá alla. Grímur þeif til byssu sinnar og tók fingrum um gikkinn. Var þá hurðinni hrundið upp svo að hundurinn sem við hana lá flaug vælandi í vegginn andspænis henni. Grímur sá engan koma inn úr dyrunum en áður en varði fannst honum samt sem fullt væri orðið af fólki í kofanum. Virtist Grími sem fólkið væri komið til að sækja gleðskap því mikið var talað og dátt hlegið. Grímur sá þó engan og fann ekkert. Eftir að hafa starað í myrkrið langa stund sá Grímur tvo lýsandi depla í einu kofahorninu, líkasta glóðarkögglum. Urðu þeir brátt sem mannsaugu sem færðust nær Grími og störðu á hann mjög illkvitnislega. Þegar augun voru komin að bjálkabrúninni hjá Grími hleypti hann af byssu sinn og miðaði á augun. Hvarf þá sýnin og var eins og kofinn tæmdist. Grímur reis á fætur og fór að dyrunum. Hurðin var óbrotin en hundurinn lá steinrotaður inn við vegg. Varð nú allt kyrrt um sinn en ekki gat Grímur sofnað. Eftir alllanga stund heyrði Grímur mannamál í fjarska sem fyrr og sama atburðarás endurtekur sig. Nú var Grími nóg boðið. Eftir að hafa aftur skotið af byssu sinni náði hann til hests síns í flýti og reið á brott. Hann komst við illan leik Tóft sæluhússins er uppá hól. Hún er 7,4 m á lengd og 6 m á breidd, op (dyr) snýr í suðvestur. Tóftin er úr torfi og grjóti og er grasi- og mosavaxin. Nokkuð hefur hrunið úr hleðslum inn í tóftina. Upp við tóftina, norðaustan við hana, er ógreinileg dæld nokkur sem hugsanlega er gerð af manna völdum, og gæti jafnvel verið leifar lítillrar byggingar, geymslu eða eitthvað þess háttar. Um 60 m vestan við sæluhúsið hefur legið vörðuð leið NV-SA og voru mældar upp sex vörður á þessari leið.

Draugatjörn (rétt)

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Um 140 m í NNV frá sæluhúsinu er grjóthlaðin rétt, utan í hraunhól. Mosi og skófir er á steinum í hleðslunum. Réttin er ferhyrnd, 21 m á lengd og 16 m á breidd. Í suðaustur horni réttarinnar er lítið hólf, 7 x 7 m. Op á rétt og hólfi snýr í norðvestur. Um 8 m langur veggur liggur frá NV-horni réttarinnar. Upp á hraunhólnum er grjóthlaðin varða, um 0,7 m á hæð, nokkuð hrunin. Varðan er nokkuð úr hinni vörðuðu leið sem liggur við sæluhúsið og því sú ályktun dregin að hún eigi fremur að leiða menn að réttinni.
Á milli sæluhússins og réttarinnar liggur um 60 m grjóthlaðið garðlag í N-S. Garðlagið er ógreinilegra en réttin en líklegt verður að teljast að þessar minjar tengist á einhvern hátt.
Annar grjóthlaðinn garður, um 430 á lengd liggur vestan og norðan með Draugatjörninni. Þessi garður er öllu greinilegri enda fer hæð hans upp í 1,2 m á hæð á köflum. Réttin og stóri garðurinn virðast yngri en sæluhúsið og því sett hér upp sem önnur minjaheild en auðvitað gætu ábúendur á Kolviðarhóli hafa viðhaldið réttinni og garðlögum í kring eftir að sæluhúsið leið undir lok.

Kolviðarhóll  (býli/sæluhús)

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á 19. öld var gert átak í því að bæta samgöngur á Hellisheiði. Fyrsta skrefið var að flytja sæluhúsið úr Svínahrauni og upp á Kolviðarhól. Er talið að þetta hafi verið gert á árunum 1844-1845. Þessi flutningur var gerður til þess að menn ættu auðveldara með að finna sæluhúsið og þar með fækkaði slysum á mönnum. Spýtur voru nýttar úr gamla kofanum við mismikinn fögnuð manna því sumir trúðu því að þeim fylgdi eitthvað óhreint enda talið mjög reimt í gamla sæluhúsinu. Húsið var timburhús á hlöðnum sökkli. Í því mun hafa verið svefnpláss fyrir 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta sæluhús á Kolviðarhóli var í notkun í um 30 ár.
Árið 1877 hófst bygging á nýju sæluhúsi á Kolviðarhóli. Nokkuð hafði verið kvartað yfir því að eldra húsið væri orðið lélegt. Ferðamenn töluðu um að slæmt væri að vera þar í vondum vetrarveðrum “því hríðargusurnar geyfi inn um gátt og rjáfur.” Hugmyndin með nýja húsinu var einnig að bæta þjónustuna við ferðamenn, þ.e. að reka gistiaðstöðu og greiðasölu og skyldi gestgjafi búa á staðnum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Húsið var að mestu fullgert um haustið 1877. Stærð þess var 10×11 álnir að utanmáli. Veggir voru tvíhlaðnir (utan og innan) úr höggnu grjóti, er lagt var í steinlím, sem þá var reyndar kalk. Á því var port um eina alin á hæð og gott ris. Herbergjaskipan var þannig: Fyrst var komið inn í rúmgóða forstofu, og úr henni lá stiginn upp á loftið. Þá voru 2 herbergi og eldhús með eldavél; ofn var í öðru herbergi. Uppi á lofti voru 2 herbergi, annað fyrir ferðamenn, en hitt notað fyrir geymslu. Húsið var að innan klætt timbri í hólf og gólf. Á því voru 6 gluggar, 4 á veggjum og 2 á lofti; voru þeir allir í 6 rúðu fagi. Mjög var til byggingarinnar vandað á allan hátt, eftir því sem föng voru á á þeirri tíð.
Búskapur var tekin upp á Kolviðarhóli jafnframt því sem þar var rekin gistiaðstaða og greiðasala. Skepnum fjölgaði og útihús voru reist. Um árabil var rekið myndarlegt bú á Kolviðarhóli. Jón nokkur Jónsson bjó á Kolviðarhóli á árunum 1883-1895. Hann hóf að rækta tún á Kolviðarhóli og girti með hlöðnum grjótgarði. Guðni Þorbergsson, tengdasonur Jóns, tók við búskapnum og bjó á Kolviðarhóli til ársins 1906. Guðni stóð í töluverðum framkvæmdum á staðnum, hann stækkaði og sléttaði túnin og viðhélt túngarðinum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhús 1844.

Með betri vegum og hraðskreiðari farartækjum minnkaði þörfin á slíkri ferðaþjónustu á þessum stað. Veitingarekstur á Kolviðarhóli lognaðist út af fyrir 1950 og árið 1977 lét Reykjavíkurborg jafna húsin á Kolviðarhóli við jörðu. Bæjarstæði Kolviðarhóls stendur norðan Reykjafells, neðan við Hellisskarð. Leifar síðustu húsanna á Kolviðarhóli eru enn sýnilegar, nokkuð sérstakar að gerð en þar ægir ýmsu byggingarefni saman; torfi og grjóti, tilhöggnu hleðslugrjóti og steinsteypu. Veggir minna norðvestur-hólfsins eru steinsteyptir en einnig má finna steinsteypu milli gangsins og miðjuhólfsins í suðaustur-hlutanum. Efri hluti hússins (SA-hlutinn) er 22,5 m x 16 m að stærð og liggur NA-SV. Neðri hlutinn (NV-hlutinn) er um 19 m x 10 m og liggur NV-SA. Að öllum líkindum er sá hluti yngri viðbygging.
Um 4,5 m SA af húsarústunum er að finna leifar ferkantaðar byggingar, um 7 m x 7 m að stærð. Minjarnar eru mjög ógreinilegar en það mótar fyrir hlöðnu, tilhöggnu grjóti. Vegghæð er lítil, einungis um 10 cm. Spurning hvort hér séu ekki leifar sæluhússins frá 1844. Fast upp við þessar húsaleifar, suðvestan megin, eru tvær dældir sem hugsanlega eru leifar einhverra mannvirkja sem tengjast húsaleifunum. Þetta eru grunnar, grónar dældir um 10 cm á dýpt. Um 12,5 m SA af húsarústunum er illgreinanleg, gróin tóft, um 4,5 m x 3,5 m að stærð og liggur NV-SA. Þetta hefur verið einhvers konar kofi, kannski geymsla eða eitthvað þess háttar. Vegghæð er lítil, einungis um 20 cm. Um 19 m ANA frá þessari tóft er leifar steinsteyptrar byggingar. Veggir og þak hafa hrunið og því erfitt að gera sér grein fyrir lögun hússins, sérstaklega innra formi. Stærð hússins hefur verið um 6 m x 7 m og liggur NV-SA. Um 50 m suður af megin húsarústum er heimagrafreitur með steinsteyptum garði í kring. Garðurinn er um 5 m x 5 m að stærð og veggir um 30 cm að þykkt. Grafreitur þessi er 20. aldar mannvirki. Grjóthlaðinn túngarður liggur frá NV-hluta húsarústa, niður með götu og myndar þannig heimtröð að hluta. Svo liggur garðurinn utan um túnin. Engan garð var þó hægt að greina norðan megin, þ.e. austan við götuna. Garðurinn er í ágætu ástandi og vegghæð fer upp í 1,2 m á kafla. Þó er greinilegt að farið hefur verið í gegnum garðinn með einhverja lögn á suðaustur hlið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Útihúsin frá Kolviðarhóli liggja um 220 m NA frá bæjarstæðinu, norðan við bílveginn. Nyrðst er garðlag um 23 m á lengd sem liggur A-V. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1,3 m á hæð þar sem hann er hæstur og um 0,7 m á breidd. Mosi og skófir eru á steinum.
Austarlega á garðinum er lítil tóft utan í (norðan við) garðlaginu. Tóftin er um 4,5 m x 4,5 m að stærð, ferhyrnt með op í vestur. Hún er að mestu grjóthlaðin ogmosi og skófir á steinum. Vegghæð er mest um 0,4 m. Beint suður (um 40 m) af þessri tóft er önnur nokkuð stærri. Tóftin er um 14 m x 9,5 m að stærð og liggur NNV-SSA, op snýr í SSA. Hún er að mestu grjóthlaðin en nýlegt hrun má sjá úr veggjum. Um 30 m vestar er tveggja hólfa tóft. Tóftin er að mestu úr torfi og grjóti en nyðra hólfið er með steinsteypta innri veggi. Hún er um 7 m x 5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op snýr í SA.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

Um 16 m sunnar er lítil tóft, um 4 m x 3,5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op í SSV. Tóftin er úr torfi og grjóti með 30 cm breiða steinsteypta innri veggi.
Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell. Norðan í því er Dauðidalur; í honum er fjárrétt. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal. Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kringum hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við dældina og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Búasteinn (sögustaður)

Búasteinn

Búasteinn.

Búasteinn er um 500 m austnorðaustur af bæjarstæði Kolviðarhóls. Hér átti Kolviður frá Elliðavatni að hafa fallið ásamt 11 öðrum fyrir Búa frá Esjubergi. Segir frá þessum atburðum í Kjalnesinga sögu. Hér er um að ræða stóran stein, norðan megin í Hellisskarði, upp í hlíðinni. Engin eiginleg mannvirki er þarna finna með tilvísun í söguna. En um 20 m norðar eru leifar palls sem tengist skíðaiðkun á staðnum á 20. öld.

Hellurnar (sæluhús/vörður)

Hin forni vegur milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá að Kambabrún, austan við Hurðarásinn, sjónhending á skarðið við norðaustur enda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með húsmúla, niður með norðurbrún Svínahrauns, hjá Lyklafelli og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti (Helliskoti) og Vilborgarkoti (nú eyðijörð) í Mosfellssveit.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi. Að þeirri framkvæmd stóð Gísli hreppstjóri Eyjólfsson á Vötnum í Ölvesi, d. 1866. En kofann reisti Þórður Erlendsson, síðast bóndi á Tannastöðum, d. 1872. Bygging þessi var með nokkuð sérstæðum hætti, enda unnin af manni, sem var orðlagður byggingamaður og snillingur í öllum handtökum. Kofinn er að innanverðu niður við gólf ferhyrndur og jafn á allar hliðar, 1,85 m. Á hvern veg og 2 m undir loft, mælt af miðju gólfi. Þegar veggir taka að hækka, hringmyndast hleðslan og gengur að mestu saman í þakinu, en því er lokað með geysistórri hraunhellu. Þakið er mosagróið mjög, og hafa vaxið upp úr því puntustrá á víð og dreif. Dyrnar eru 60 cm. Breiðar og 1 m á hæð. Þröskuldurinn er hár, því upp á hann að innanverðu eru 40 cm. Veggir eru svo þykkir, að kofinn er hringmyndaður séður að utan, og að norðanverðu er hann sem hraunhóll, enda hlaðinn allur úr fallegu hellugrjóti. Engin spýta er í byggingu þessari, og má hún heita einstæð í sinni röð. Kofinn var byggður á áratugnum 1830 -1840 og hefur nú staðið óhaggaður á aðra öld. Hann stendur á bungumyndaðri hraunklöpp, á hægri hönd, örskammt frá hinum forna vegi, þegar farið er suður, við fertugustu og fimmtu vörðu, talið austan að.
Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiðina eru friðlýstar fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti þessar minjar.
Gatan er víða sýnileg á heiðinni, bæði norðan núverandi þjóðvegar en einnig sunnan hans þegar austar dregur. Hún þverar þjóðveginn nærri þeim stað þar sem háspennulínur fara yfir hann. Þar sem rásin er greinanleg í klöppinni er hún víðast um 30 – 40 cm breið og 5 – 10 cm djúp. Sumsstaðar má sjá tvær og jafnvel þrjár samsíða rásir í klöppinni. Sunnanvert á miðri heiðinni var á árunum 1830 – 1840 byggður steinhlaðinn kofi til skjóls fyrir þá sem leið áttu um heiðina í vondum veðrum. Kofin fékk nafnið Hellukofinn. Vörður eru við götuna frá Hellukofanum og í austur. Þær fylgja götunni í fyrstu en víkja frá hinni sýnilegur rás til norðurs þegar austar dregur. Ástæður þessa munu vera þær að fyrir nokkrum áratugum voru vörður meðfram leiðinni enduhlaðnar og nýjum bætt við en svo virðist sem menn hafi ekki vitað hvar gamla gatan lá þegar austar dró.

Eiríksbrú (vegagerð)

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur).

Árið 1875 voru sett lög um vegi á alþingi. Landssjóður átti að sjá um og annast útgjöld af vegum sem lágu milli byggða og sýslna. Vegur var lagður um Svínahraun á árunum 1877 og 1888. Í reglugerð var sagt að að vegurinn skyldi vera 10 feta breiður (3,13 m), upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Lestir áttu að geta mæst á veginum en hestvagnaumferð var ekki höfð í huga við hönnun hans. Eiríkur Ásmundsson frá Grjótá sá um vegagerðina. Hann tók einnig að sér að leggja veg um Kamba árið 1879.
Vegurinn um Kamba þótti of brattur og því lítið notaður. 15 árum síðar var lagður annar vegur um Kambana. Árið 1880 hélt Eiríkur áfram vegagerð og lagði þá veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar. Þessi vegur var um 4-5 km, beinn og vel gerður. Vegurinn var kenndur við hann og kallaður Eiríksbrú.
Samkvæmt heimildarmanni, Birni Pálssyni, má finna leifar hestaskjóls suðaustan undir þjóðvegi 1 og sunnan Eiríksbrúar og gömlu þjóðgötunnar. Hestaskjól þetta var notað þegar Eiríksbrú var gerð árið 1879. Vegurinn var víða upphlaðinn og púkkaður með grjóti, um 2-3 m breiður. Leifar hans eru sýnilegar á nokkurm stöðum á heiðinni og í Kömbum.
Grjóthlaðin tóft er um 50 m suðaustan undir núverandi þjóðvegi ofan við Hamarinn og er hér líklega um hestaskjólið eða aðhaldið sem Björn Pálsson nefnir. Það er byggt úr hraungrýti ofan á litlum hraunhól, um 19,8m x 9,3 m að stærð og liggur sem næst A-V. Inngangur hefur verið við vesturenda tóftarinnar. Mosavaxin að mestu að austanverðu en hleðslan er sýnileg að vestanverðu. Lyngvaxnir móar í kring.

Þjóðleið frá lokum 19. aldar

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Nýr vagnfær vegur var lagður niður Kamba árið 1894 og sama ár hófst lagning vegar fyrir Hellisheiðina. Þeirri vegagerð lauk árið 1895. Komst nú talsverður skriður á vegagerð, einkum á flutningabraut nr. 1, austur í Rangárvallasýslu. Fór og að gæta áhrifa landsverkfræðings, Sigurðar Thoroddsen. Hann hafði, að loknu námi í Kaupmannahöfn 1891, fengið ferðastyrk frá alþingi til þess að fara til Noregs og kynna sér vega- og brúargerðir, og dvaldist hann þar til vors 1893.
Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjarfell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu, leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar.
Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð úr að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. Þótti ýmsum sem vegur þessi væri undur mikið. Brautin frá Reykjavík og austur í Svínahraun hafði verið lögð á árunum 1886-1892, og vegurinn um Ölfusið að mestu lagður 1892, sem áður segir. Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir. Árið 1895 var því kominn að kalla óslitinn vagnfær vegur úr Reykjavík austur yfir Ölfusárbrú. Vegurinn er hvergi sýnilegur í upprunalegri mynd enda notaður til 1972 og því marg endurbættur. Leifar vegar í þessari sömu legu má þó sjá, bæði uppi á heiðinni og eins austan við hana. Hlykkjóttar beygjur í Kömbunum sem eiga uppruna sinn í þessum vegi voru færðar inn á loftmynd.

Þrengslavegur

Þrengslasevegur

Þrengslavegur.

Þrengslavegur lá frá Neðri Hveradalabrekku suður með Gráuhnúkum að vestan, vestan Meitla og suður að Meitiltagli syðst í Litla-Meitli. Leiðin hefur verið greið og ekki hætt við að menn villtust á henni enda fylgir hún fjallshlíðunum.
Þrengslavegurinn gamli lá út af þjóðveginum neðan við Neðri-Hveradalabrekku og áfram suður með Gráuhnúkum að vestan. Er Þrengslahnúkur á vinstri hönd, þegar sú leið er farin austur í Ölfus. Skarðið milli Gráuhnúka og Lambafells heitir Þrengsli þar sem þar er þrengst.
Í desember árið 1921 varð Guðbjartur Gestsson frá Hamri á Múlanesi úti á þessari leið. Hans var leitað um veturinn og einnig sumarið eftir en fannst ekki. Sextán árum síðar fann Valdimar Jóhannsson líkamsleifar Guðbjarts ásamt smíðatólum hans og peningum við bjarg undir Gráhnúk. Vegurinn er sýnilegur á grónum grundum í nágrenni Þorlákshafnarsels og eins í kverkinni milli Svínahrauns og Gráuhnúka þar sem hann er troðin slóð í mosavöxnu hrauninu. Leiðin var rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni.

Lágaskarðsvegur (Sanddalaleið)

Lakastígur

Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur lá frá Hveradalaflöt um Lágaskarð og Sanddali til Þorlákshafnar og í Selvog. Annað afbrigði þessa vegar lá um Lakadal norðan Stóra-Sandfells. Leiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði allt þar til akvegur var gerður yfir heiðina.
Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágaskarði. Eftir skarðinu liggur Lága-skarðsvegur. Vestan við veginn er Stóri-Meitill, hjá honum er Meitilflöt.
Lágaskarðsvegur liggur austan við Stóradal, um Hellur og Lágaskarð, skarðið milli StóraSandfells og Stóra-Meitils. Það er sennilega sama leiðin sem Hálfdan Jónsson [1703] nefnir Sanddalaveg. Meðfram Lágaskarðsvegi. Þar sem hann liggur norður frá Hellum, er klettabrík eða „gangur“ sem kallast Lákastígur, nýlegt nafn. Svo virðist sem svokölluð Sanddalaleið hafi greinst frá Lágaskarðsvegi suðaustan við Lágaskarð og legið til suðausturs í átt að Hjalla.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd og skoðuð á korti. Hún er merkt inn á loftmyndina í samræmi við legu hennar á korti frá dönsku kortastofnunni sem gert var af dönskum landmælingamönnum á fyrstu áratugum 20. aldar. Leiðin var vandlega skoðuð af Birnu Lárusdóttur starfsmanni Fornleifastofnunar Íslands árið 2007 og grein gerð fyrir þeirri athugun í skýrslu um fornleifakönnun vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana við Litla-Meitil og Gráuhnúka. Í skýrslunni kemur fram að lítið sjáist til götunnar fyrr en norðan Lágaskarðs. Eftir að komið er fram hjá Þrengsla- og Lágaskarðshnúkum fundust merki um tvær leiðir að Lágaskarði. Önnur lá upp að rótum Stóra-Meitils að norðvestanverðu, um djúpan dal sem þar er. Þar vottar fyrir götuslóða og eins er greinilegur troðningur í malarbakka upp úr dal sem Birna telur sennilegast að sé syðsti hluti Stóradals. Hin leiðin lá austar. Slóð sést austan í malarhrygg sem liggur út frá Stóra-Meitli. Þessi slóði liggur beint að slóðinni í Hellunum svonefndu í Lágaskarði.
Leiðirnar sameinast í Lágaskraði. Þar er leiðin skýr og í skarðinu eru fimm vörður. Norðan við nyrstu vörðuna er rás í klapparhelluna sem bendir til að þarna hafi verið farið um í langan tíma. Slóðin er einföld, 10 – 15 cm breið og mest um 5 cm djúp. Slóðin er ekki samfelld en sést hér og þar á löngum kafla. Þar sem ekki eru rásir er leiðin engu að síður greinileg því þar er enginn mosi né annar gróður sem þó þekur hraunið allt í kring.
Leiðin er gott dæmi um veg sem væntanlega hefur verið notaður í nokkrar aldir. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna. Leiðin er á kafla mótuð í klöpp. Slíkar götur sýna svo ekki verður um villst að um þær hafa hestar og menn farið um aldir og hafa því í mörgum tilfellum meira upplifunargildi en troðningar sem myndast hafa í grónu landi. Mikilvægt er að varðveita þá hluta leiðarinnar sem enn eru sýnilegir.
Leiðin Milli Hrauns og hlíðar lá um Hellisskarð, austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli að sunnanverðu, um Hengladali og áfram austur í Grafning.
Austur frá Hellunum er Orrustuhólshraun og Orrustuhóll. Hraunið er sunnan undir StóraSkarðsmýrarfjalli. Austur með fjallinu er vegurinn milli hrauns og hlíðar. Leiðin virðist hafa verið notuð fram á 20. öld. Vitað er er Hagavíkurmenn í Grafningi létu bílsenda vörur að Kolviðarhóli um 1940 og báru þær þaðan á sjálfum sér milli hrauns og hlíða til Hagavíkur sem mun vera um 17 km leið.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni. Í skýrslu Fornleifastofnunar Íslands er leiðinni vel lýst. Þar segir að gatan sjáist enn nokkuð víða en yfirleitt ekki nema sem einfaldur stígur, nú kindatroðningur. Gatan virðist víðast hvar horfin undir yngri veg. Hún sést norðan við Skarðsmýri þar sem hún liggur yfir hálsa sem eru samfastir Litla-Skarðsmýrarfjalli. Hún er óglögg í mýrunum norðan Hengladalaár en sést glöggt í Svínahlíð austast í Fremstadal. Þaðn má svo rekja hana næstum alla leið á Brúnkollublett nyrðri.

Vörðuð leið

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leið.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, til suðausturs að þeim stað þar sem neyðarskýli stóð áður við þjóðveg 1. Þar kemur leiðin inn á hina fornu leið, Hellurnar, sem gengur yfir heiðina frá vestri til austurs. Vörðurnar, sem liggja með leiðinni, voru hlaðnar árið 1983 af skátum úr Reykjavík. Eftir að þjóðvegurinn var færður norðar á heiðinni um 1970 varð þetta gönguleið þvert yfir heiðina.
Leiðin er slóði sem markast hefur í mosavaxið hraunið undan fótum manna. Vörður eru með um 50 m millibili meðfram leiðinni. Þær eru flestar um 1,5 m í þvermál og um 1-1,5 m á hæð.

Skógarmannavegur (leið)

Hellisheiði

Hellisheiði – götur.

Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910. Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar. Leiðinni var ekki fylgt á vettvangi en lega hennar skoðuð á loftmynd.

Orrustuhóll (rétt)

Orrustuhóll

Orrustuhóll – minjar.

Í bókinni Göngur og réttir er fjallað um réttir við Orustuhól. Þar segir að gömul munnmæli hermi að Mosfellssveitarmenn og Ölfusingar hafi haft sameiginlega rétt á Helluheiði eins og hún er kölluð. Þegar Mosfellingar vildu ekki lengur sækja réttir í land Ölfusinga kviknaði fyrst rígur en síðan fullur fjandskapur milli manna í sveitarfélögunum sem endaði með því að þeir börðust í réttunum. Heitir þar Orustuhóll og Orustuhólshraun frá þessum tímum og voru réttirnar kallaðar Orustuhólsréttir upp frá því. Í bókinni segir jafnframt að rústir réttanna sjáist ekki lengur enda hafi Hengladalaáin gegnum aldir borið sand og möl upp á bakka sína og þannig flýtt fyrir því að leifar af réttum þessum hyrfu í jörðu. Svo er þó að sjá sem réttirnar hafi verið sýnilegar árið 1878. Þórður Sigurðsson, sem ritar um Orustuhólsrétt í Göngur og réttir, segir í frásögn sinni frá því að það ár hafi honum verið sýndar rústir réttanna. Hafi þá séð vel fyrir þeim þó skröð væru komin í vegghleðslur. Bæði mátti greina almenning og dilka, suma allstóra. Almenningsdyr snéru í átt að Hengli.
Suðvestan við Orrustuhól er hraungjá. Þar er ætlað að meint rétt hafi verið. Í gjánni er grjóthrúga, 10,6m x 3,2m, liggur NNV-SSA. Líklega er þetta veggur sá sem talin er hafa myndað aðhald í gjánni en erfitt er, ef ekki ómögulegt, að segja um hvort mannaverk sé þar á, þetta gæti allt eins verið hrun.

Áveita

Áveita

Áveituskurður.

Í örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar fyrir Hellisheiðina segir að um margra ára bil eða áratuga skeið, í kringum aldamótin 1900, hafi Hengladalaá verið veitt vestur í hraun um sláttinn til að koma í veg fyrir heyskaða af völdum flóða úr ánni. Stífla var gerð í ána sunnan við Smjörþýfi og Orustuhólshraun og henni veitt vestur á Hellisheiði. Brú var gerð yfir farveginn sem kölluð var Loft.
Um 480 m austur af Orustuhól eru áveituskurðir sem liggja austur í Hengladalaá. Hér er um 20. aldar mannvirki að ræða. Stóri skurðurinn sem er um 278 m á lengd, 12 m á breidd og 0,5m á dýpt er án vafa vélgrafinn. Einn skurður sem er 82m á lengd og 6m á breidd liggur norður úr þeim stóra. Annar minni skurður, 36m á lengd og 2m á breidd, liggur suður úr þeim stóra. Líklega eru þessi minni skurðir eldri og gætu verið handgrafnir.

Innbruni (byrgi)

Innbruni

Innbruni – byrgi.

Engar heimildir hafa fundist um þessi byrgi.
Milli Litla-Meitils og Sanddalahlíðar liggur hraunbreiða sem nefnist Innbruni. Í hrauninu, nær Sanddalahlíðinni eru tvö byrgi. Syðra byrgið er grjóthlaðið, 3m x 2,7m að stærð og liggur NV-SA með op í NV. Breidd veggja er um 0,8m. Um 38 m NV af fyrrnefndu byrgi er önnur álíka grjóthlaðin tóft. Hún er um 3m x 2,1m, skeifulaga með op í vestur.
Þessi staður verður að teljast undarleg staðsetning fyrir fjárskýli, smalakofa og þess háttar. Ekki er að finna stingandi strá né vatn við þennan stað. Mögulega gæti því veriðum einhvers konar skotbyrgi að ræða fyrir t.d. refaskyttur en nánari heimildir vantar til að skera úr um það.

Litli-Meitli (rétt/aðhald)

Litli-Meitill

Litli-Meitill – aðhald.

Eiríkur Einarsson skrifaði grein í 1. tbl. Farfuglsins árið 1975 sem hann nefndi Örnefni á afrétti Hjallasóknar í Ölfusi. Þar segir hann frá fjárrétt í svoköllðum Kvíum sem notuð var við vorsmalanir. Kvíar eru hvilft í hrauninu austan Meitilflatar sem er stór grasflöt suðaustan undir Syðra-Meitli sem væntanlega er sama fjall og Litli-Meitill.
Þór Vigfússon skrifar um Árnesþing vestanvert í Árbók Ferðafélags Íslands 2003. Þar talar hann um grjóthleðslurnar í Kvíum og að mannvirkið hafi verið notað til rúnings í vorsmalamennsku.
Vestan við hraunbreiðuna Innbruna, og austan við Litla-Meitil er stór náttúruleg skál eða sprunga með grasi grónum botni. Myndar afar hentugt aðhald og hefur verið góður áfangastaður. Suðvestan í sprungunni, utan í klettavegg er lítill, L-laga veggur sem myndar aðhald eða litla rétt. Veggurinn er 4,2m x 6 m með op í suður. Breidd veggja er um 1m. Mannvirkið er ekki fornlegt að sjá og hefur augljóslega verið viðhaldið á síðari tímum. Meira að segja má sjá að sums staðar hefur froðueinangrun verið sprautað á milli steinanna.
Um 82 m SSV er hringlaga eldstæði, úr einfaldri steinaröð sem Fornleifastofnun Íslands hefur skráð sem fornleifar. Hér er dregið í efa að eldstæðið sé það gamalt að það flokkist til fornleifa, enda megi sjá nýlega brenndar spýtur þar.

Þorlákshafnarsel (sel)

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel undir Votabergi.

Sagt er að frá fornu fari hafi jörðin Þorlákshöfn átt selstöðu á jörðinni Breiðabólstað sem á móti hafði skipsuppsátur í Þorlákshöfn í vertíðum. Ekki er ljóst hversu gamalt selið er en minnst er á það í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem tekin var saman í byrjun 18. aldar. Í Sögu Þorlákshafnar sem kom út 1988 er selinu lýst svo: Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd. Fyrir sunnan aðalhúsið er sérstakt hús, um 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi.
Rústirnar voru friðlýstar af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni, 21. janúar 1976. Friðlýsingunni var þinglýst 16. júní árið eftir.
Vestan undir Votakletti, austan við akveg, eru friðlýstu fornleifarnar. Syðst er grjóthlaðinn veggur sem liggur utan í móbergskletti (austan í honum). Veggurinn er um 8,5m x 2,9 m að stærð, liggur N-S með op í suður, breidd veggja um 1,5 m. Eflaust er hér um einhvers konar aðhald fyrir skepnur að ræða.
Um 65 m NA af þessu aðhaldi eru megin-seltóftirnar. Þær liggja vestan undir Votakletti.
Um 570 m NNV af seltóftunum, við Hrafnaklett, er lítil steinhleðsla um 1,5 m x 1,4 m að stærð. Líklega er um vörðubrot að ræða, hlaðin úr sandsteini. Smá mosi er á steinum en hleðslan virðist yngri en seltóftirnar.

Ölkelduhálsrétt (rétt)

Ölkelduháls

Ölkelduháls – rétt.

Á skilti sem sett hefur verið upp við réttina eru upplýsingar um hana. Ölkelduhálsrétt var byggð vorið 1908 og var í notkun eitthvað fram yfir 1930. Hún mun hafa verið notuð til vorsmölunar. Þrisvar var smalað í réttina á hverju vori. Fyrst var geldfé smalað, þá var smalað til mörkunar og síðast til rúnings.
Ölkelduhálsrétt liggur vestarlega í lægð á milli Ölkelduhálss og Ölkelduhnúks, svolítið vestar en Ölkelduhnúk sleppir. Um 100 ma austan við réttina er stór leirhver og í honum ljósgrár bullandi leir. Akfær vegur liggur upp í skarðið milli Ölkelduháls og Ölkelduhnúks. Hann sveigir til suðurs þegar niður úr skarðinu kemur. Réttin er um 100 m sunnan og austan við veginn þar sem hann hlykkjast niður hlíðina. Á veginum í hlíðinni er hlið sem myndað er af tveimur járnstólpum. Réttin er um 100 m austur af hliðinu. Réttin stendur á grýttum bala sem hallar til vesturs. Gras og mosi er á milli steina. Hún er 25,8 m x 18,4 m að stærð og liggur NV-SA. Réttin skiptist í þrjú hólf. Eitt hólfanna er lang stærst. Minni hólfin eru byggð utan í stóra hólfið, annað við suðaustur horn stóra hólfsins en hitt norður af stóra hólfinu. Réttin er hlaðin úr grágrýtissteinum sem eru 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslan er að mestu hrunin og víðast standa aðeins 1 – 3 hleðsluraðir. Inni í minni hólfunum er gras og mosi en stóra hólfið er að mestu moldar eða leirflekkur. Veggir aðalhólfisns og austurhólfsins eru 40 – 80 cm háir en veggir norðurhólfsins nokkru lægri eða 10 – 30 cm. Ekki er opið milli hólfanna og engin sýnilegur inngangur er í litlu hólfin. Inngangur hefur verið í norðvestur-hlið stóra hólfsins.

Öxnalækjarsel (sel)

Öxnalækjarsel

Öxnalækjarsel.

Öxnalækjar-Seldalur liggur austan i Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum u-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla. Dalurinn er ofan við veginn á þessum kafla. Dalurinn, eða gilið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 50 m breiður. Neðarlega í honum liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.
Austur af Þjóðveginum niður Kamba, suðvestan svokallaðra Árhólma eru örnefnin Neðrasnið og Efrasnið. Þar mun hafa legið gata sem tengdist ferðum til Öxnalækjarsels og ferðum að Hengladalaá.

Öxnarlækjarsel

Öxnalækjarsel.

Dalurinn liggur í austur-vestur, tvær tóftir liggja utan í norðurhlíð dalsins og tvær í suðurhlíðinni. Nyrst og vestast er lítil tóft, um 5,3m x 4,7m að stærð, grasi gróin og mosavaxin. Tóftin liggur utan í mosavaxinni hraunbrún sem myndar eitt vegg mannvirkisins. Op í austur. Glittir í hleðslusteina i veggjum. Um 4m austar er önnur tóft, 7,4m x 5,6m að stærð. Hún liggur NA-SV með op á NV-langhlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin. Það glittir í stöku steina í veggjum. Vegghæð er um 50 cm. Um 27 m í NNA, hinum megin í þessum litla dal er þriðja tóftin og sú stærsta. Hún er 9,5 m x 6,5 m að stærð, liggur sem næst A-V, með inngangi á suðurhlið. Greina má þrjú hólf. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin.
Vestan við dalinn má greina götubút, um 58m á lengd sem liggur A-V og hefur vísast legið að selinu. Ekki er ólíklegt að finna megi fleiri vísbendingar um þessa götu.

Lambabyrgi (fjárskjól)

Lambabyrgi

Lambabyrgi.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar eru leifar lambabyrgis á Hraunbrúninni, “norðaustan við Nikulásar-tóft.” 46 Lambabyrgi er byggt í ofanverðri hraunbrún sem er um 3 – 4 m há. Niður undan byrginu er grasi gróin brekka.
Tóftin er staðsett um 80 – 100 m suður af malarvegi sem liggur inn að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Hún er rúma 100 m SA við Nikulásartóft. Tóftin er 10 m x 6 m, liggur V-S. Vegghæð er um 1 m og inngangur í A-enda. Nokkrum trjáhríslum hefur verið plantað í mólendið neðan við hraunbrúnina. Hlaðið úr hraungrjóti sem er 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslurnar standa vel.

Nikulásartóft (fjárskjól)

Nikulásartóft

Nikulásartóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar er Nikulásartóft leifar af sauðahúsi Nikulásar Gíslasonar, bónda í Vorsabæ. Tóftin stendur upp á Hraunbrúninni en svo var brúnin á hrauninu vestan Vallarins kölluð.
Nikulás Gíslason var fæddur á Kröggólfsstöðum árið 1833. Hann giftist Ragnheiði Diðriksdóttur árið 1872. Þau bjuggu á Krossi frá 1874 til 1881 og í Vorsabæ 1883 til 1900. Nikulás dó 1. ágúst 1905.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt – tóft.

Nikulásartóft stendur ofan á hraunkanti, nærri brún hans, um 100 m suðvestan við malarvegi sem, liggur að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Umhverfis tóftina er hraun vaxið mosa og lyngi. Furutrjám hefur verið plantað í nágrenni tóftarinnar. Tóftin er hlaðin úr hraungrýti. Inngangur hefur verið á SA-gafli. Vegghæð er um 60 cm. Botn tóftarinnar er grasi vaxin en veggir vaxnir mosa og lyngi.

Hofmannaflöt (fjárskýli)

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Hofmannaflöt slétt flöt sem var slegin en þar voru fjárhús í seinni tíð.
Hofmannaflöt er norðan við Hengladalaá skammt vestur þar af sem Grændalsá rennur í hana. Flötin er nokkuð stór, rennislétt og hallar svolítið til suðurs. Á henni miðri er ferhyrnd grjóthlaðin tóft sem minnir meira á gerði en fjárhús. Tóftin er 10,4 m x 8,8 m að stærð og snýr NA-SV. Ekki er mikið eftir af grjóthleðslunni. Inngangur er austan megin á suðvesturgafli. Í suðurenda tóftarinnar, til hliðar við innganginn er hrúga af steinum og gamall gaddavír.

Stekkatún (fjárskýli)

Stekkatún

Stekkatún – tóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Stekkatún grónar brekkur austan í litlu gili. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar.

Stekkatún

Stekkatún – tóftir.

Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft, ferhyrnt, 6,8 m x 5,1 m að stærð og liggur NA-SV. Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin.
Um 2 m NV er þriðja tóftin. Hún er 6,8 m x 6,8 m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu.

Vesturmúli

Vesturmúli – tóft.

Um 28,6 m í NA er fjórða tóftin, 13,6 m x 7,6 m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1 m. Um 10,6 m SAA er fimmta tóftin. Hún er 11,4 m x 7,5 m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1 m.

Vesturmúli (fjárskýli)

Engar heimildir hafa fundist um þessar tóftir.
Undir Vesturmúla sem er vestan í Tindum eru tvær tóftir sem byggðar hafa verið inn í grasbrekkuna. Nyrðri tóftin er um 80 m suðaustur af Grændalsá en sú syðri um 300 m NNA af hesthúsahverfi Hvergerðinga. Um 340 m eru á milli tóftanna.
Tóft sem er norðar liggur í graslendi neðst í brekkufætinum undir múlanum. Hún er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurlanghliðina. Þar ofan á liggur reiðvegur. Tóftin er 11 x 7 m að utanmáli. Veggir hennar eru útflattir, um 3 – 4 m á breidd. Um 4 m breitt op snýr í vestsuðvestur. Um 340 m SSA er önnur tóft. Hún liggur líkt og hin í brekkufætinum og er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurhlið hennar. Tóftin er beint undir kletti sem er sá neðsti í þessari hlíð múlans. Rafmagnsgirðing liggur vestan við rústina, meðfram hlíðinni og alveg við tóftina. Tóftin er á kafi í grasi. Tóftinni er skipt í tvö hólf. Eitt aðalhólf en út frá því liggur langt og mjótt hólf til suðurs. Hún er um 12 m x 7,4 m að stærð og inngangur í suðurenda.

Reykjafjall (fjárskýli)

Reykjafjall

Reykjafjall – tóftir.

Undir vesturhlíð Reykjafjalls eru nokkrar tóftir útihúsa sem ekki virðast mjög gamlar. Engar beinar heimildir hafa fundist um þessar tóftir en þær tengjast örugglega búskap á svæðinu á 19. og jafnvel 20. öld. Nyrsta tóftin er í grasi gróinni brekku undir hlíðum Reykjafjalls, um 100 m fyrir ofan skólahús garðyrkjuskólans. Kringum tóftina eru timburraftar og bárujárn. Tóftin er 14,3 m x 5 m, liggur SV-NA og er með tvö hólf. Inngangur er á SV-skammhlið en einnig á langhlið. Hún er grasi gróin en hreinsað hefur verið utan af steinhleðslum að innanverðu. Nýleg klömbruhleðsla er í vesturenda tóftarinnar og virðist hún notuð við kennslu eða æfinga í hleðslutækni.

Stórkonugil (fjárskýli)

Stórkonugil

Stórkonugil – tóftir.

Neðst í fjallshlíðinni, við Stórkonugil, sem liggur upp frá húsum Náttúrulækningafélags Íslands eru þrjár tóftir. Syðsta tóftin (nr. 780) er á milli reiðstígs og göngustígs. Tvö afhýsi eða hólf eru byggð utan í þessa tóft. Tóftin er 11,7 m x 10,4 m að stærð og vegghæð um 1,4 m. Sérinngangur eru inn í öll hólfin, sem sagt tveir inngangar að SV og einn á NV-hlið.
Um 40m NV, vestan gilsins, stendur tvíhólfa tóft. Hún er 10,3 m x 7.9 m að stærð og vegghæð um 1 m. Göngustígur liggur við hana að austanverðu. Gengið er inn í bæði hólfin að suðvestanverðu. Syðri langveggurinn á syðra hólfinu er byggður úr tveimur stórum steinum, um 1 m í þvermál. Þriðja tóftin liggur um 10 m norðar og ofar í brekkunni. Hún er 11 m x 6,8 m og liggur NA-SV. Inngangur er á SV-hlið, vegghæð um 1m. Göngustígurinn liggur milli tóftanna. Ofan við þriðju tóftina og til hliðanna vaxa grenitré. Greinar þeirra eru vaxnar yfir veggi tóftarinnar. Allar eru tóftirnar hlaðnar úr grágrýti og grasi vaxnar þó vel sjáist í steinhleðslurnar.

Leið og minjar í kringum Stekkjarhól austan Hveragerðis

Stekkjarhóll

Stekkjarhóll – tóftir.

Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði á Hérðasskjalasafni Árnesinga. Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.

Eystri-Múli

Eystri-Múli – fjárhústóft.

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Leiðin er mælanleg frá veginum að Ölfusborgum, skammt norðan vegamóta hans og þjóðvegar nr. 1. Leiðin er austan við vegin að Ölfusborgum. Hún var mæld frá þessum stað og upp að götunni milli Sogns og Reykja. Nokkur hluti þeirrar leiðar, í átt að Sogni, var einnig mældur inn. Sú leið liggur meðfram nýlegum reiðstíg undir Mið-Múla og Eystri-Múla en hverfur undir reiðstíginn þegar kemur nær Sogni. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili eru þústir sem hugsanleg gætu verið leifar mannvirkja.

Eystri-Múli (fjárskýli)

Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Krossstekkjatún. Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag (nr. 740) gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.
Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3 m x 5,7 m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.

Sogn i Ölfusi (býli)

Sogn

Sogn – fornleifar.

Ekki er vitað hvenær Sogn byggðist en til eru heimildir um jörðin frá 1542. Þann 11. janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að árið 1708 var jarðardýrleiki Sogns tuttugu hundruð. Eigandi jarðarinnar var þá Andrés Finnbogason lögréttumaður en ábúandi Hávarður Þórðarson. Landskuld var 100 álnir og greiddist í gildum landaurum til landsdrottins. Leigukúgildi voru 5 og voru greidd í smjöri til Kröggólfsstaða þar sem eigandi jarðarinnar bjó. Búfénaður var nokkur þar á meðal 7 kýr, 30 ær, 26 sauðir og 28 lömb. Þá átti bóndi 4 hesta og eitt folald.
Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni.55 Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn.
Samkvæmt örnefnaskrá og Kristjáni Einarssyni starfsmanni á Réttargeðdeildinni á Sogni, sem ólst upp á Gljúfri, eru eftirfarandi minjar að finna á rannsóknarsvæðinu innan landamerkja Sogns: Stóri-Hellir er hellir fyrir ofan Hellisbrekku sem var notaður sem fjárhús og rétt. Gat tekið um 100 kindur í innrekstri. Litli-Hellir var lítill hellir undir stóru bjargi sem notaður var sem fjárhús. Á austurbakka Trippalækjar var kofi sem kallaður var Trippakofi.

Sogn

Sogn – Stóri-Hellir.

Hesthús stóðu á gilbarmi, norðvestur af Hesthúsflöt. Stekkatún er lítill hóll austan við götuna á syðri gilbarminum en þar eiga að vera leifar stekks. Stóri-Einbúi eða Einbúinn er klettahóll í Einbúamýri. Þar var gott skjól fyrir skepnur en þar bjó einnig huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er þessi frásögn: Einhverju sinni gekk maður frá Hjalla í Ölfusi upp að Gljúfri. Gekk hann hjá steini þeim enum háa er stendur fyrir vestan Sogn. Heyrir hann þá söng í steininum og er þar sunginn sálmur úr Grallaranum „Á guð alleina“. Heyrir hann sálminn sunginn til enda og eigi meira og fer hann þá leiðar sinnar. Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni.
Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 4 5 m í þvermál.
Um 33 m vestur af bæjarhólnum eru leifar hesthúss, um 5,8 m x 3,9 m að stærð og vegghæð um 1,3 m. Rústin snýr NV-SA með op í SA-horni, á langhlið. Hesthúsið hefur verið byggt inn í gilbarminn vestan við Trippalæk. Tóft þess sést enn. Hún er nokkurn vegin á móts við veg sem liggur niður að læknum frá heimreiðinni að húsi Réttargeðdeildarinnar. Veggirnir eru hlaðnir úr gjóti og má víða sjá steinsteypu á milli steinanna.
Um 68 m NNV af hesthússrústunum er lítil kofatóft, um 3,2 m x 2,5 m að stærð, liggur NV-SA, skeifulaga með op í SA. Líklega er hér um Trippakofann að ræða sem nefndur er í örnefnalýsingunni. Tóftin stendur á smá grasbala í gili sem Trippalækur fellur um. Kofinn stendur alveg við lækinn. Hún er grasi vaxin og lækurinn er farinn að naga svolítið af henni.
Um 95m ofar (NV) í brekkunni er leifar nýlegrar byggingar. Um er að ræða mosavaxna dæld með helðslu í kring úr vikursteini. Rústin er um 10,7 m x 5,3m að stærð og liggur ANA-VSV.

Sogn

Sogn – Litli-Hellir.

73,5 m SV af þessari byggingarrúst og um 95,5 m vestur af Trippakofanum er tóft upp í grasi gróinni brekku, vestan við Trippalæk. Lýsingin passar við ærhúsið. Mosa- og grasivaxin tóft. Greina má stalla meðfram veggjum sem líklega eru garðar. Veggir hafa verið úr torfi og grjóti og greina má vel um sex raðir hleðslusteina í veggjum. Tóftin er 11,2 m x 11,3 m að stærð og liggur NV-SA og vegghæð mest um 1,2 m. Tvö hólf eru á tóftinni með sitthvorum innganginum sem snúa báðir í SA. Ekki fundust leifar lamhúsanna sem getið er um í örnefnalýsingu að hafi átt að vera fyrir neðan þessa tóft.
Litli-Hellir er um 80 sunnan við þessa þyrpingu. Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4 m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli. Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð. Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.
Um 140m SV (í loftlínu), við enda múlans/fjallsins er tóft. Hér er, miðað við lýsingu, um stekk að ræða en gæti allt eins verið um skepnuhús ef horft er á lögun tóftarinnar. Hún er grasi gróin, á litlum hól norðan við lítinn læk. Vegur eða reiðstígur hefur verið lagður utan í hólinn. Tóftin er 11,4m x 10,8m að stærð, tvö hólf og inngangur á NA-hlið. Vegghæð um 1m. Svo virðist sem veðrast hafi af austurenda tóftarinnar.
Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn. Hann er um 70 m x 50 m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið.

Kot í landi Sogns (býli)

Sogn

Sogn – kot.

Bærinn Kot stóð undir fjallshlíðinni um 170 m vestan við bæjarhól Sogns. Þar bjó Eyjólfur Símonarson. Vitað er að bærinn var í byggð árið 1896. Þar má sjá leifar heyhlöðu. Í brekkunni, norðan við Kot stóðu ærhús en neðar, við brekkufótinn, voru lambhús.
Greinilegustu fornleifarnar er lítil tóft, 6,6m x 6,4m að stærð, eitt hólf og inngangur á SA-hlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin en greina má enn hleðslugrjót í veggjum. Vegghæð er mest 0,8 m. Fast upp við tóftina, rétt fyrir ofan hana er ógreinileg, grasi gróin, þúst með smá hvilft í miðju. Hugsanlega náttúrulegt fyrirbæri. Engir steinar greinanlegir. Þústin er um 5,8 m x 5,2 m að stærð. Um 10 m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7 m x 9 m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.

Bakkárholtssel (sel)

Bakkárholtssel

Bakkárholtssel.

Samkvæmt örnefnaskrá fyrir Sogn er selstaða frá Bakkárholti, norðvestan við Sogna, í Seldal. Selstöðu höfðu ábúendur Bakkárholt í skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur þessi virðist vera fallin niður í byrjun 18. aldar vegna “vannota” ábúenda Bakkárholts.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að jörðin Sogn eigi engjaítak í Bakkárholtslandi, austan og vestan við gamla farveg árinnar Varmár. Ekki er minnst á selstöðu Bakkarárholts í landi Sogns.
Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina. Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa. Syðri tóftin er 7,2 m x 5 m að stærð, liggur NV-SA, með einu hólfi og inngangi á NV-hlið. Við SA-horn tóftarinnar er lítil þúst, 3,6 m x 2 m að stærð, sem annað hvort er lítið útskot eða hólf.
Um 2-3m NV er önnur tóft. Tengt henni er hólf eða garður sem gengur í boga út frá suðurenda rústarinnar. Við norðurenda rústarinnar er bil milli garðisns og hennar og gæti þar hafa verið inngangur í hólfið. Inngangur hefur verið í rústina sjálfa í norðurendanum.

Sognsel (sel)

Sognsel

Sognsel.

Samkvæmt örnefnaskrá er gróið dalverpi, suðaustur af Selás og suður af ármótum Gljúfurár og Selár. Heitir dalverpið Sognsseldalur vestan Gljúfurár en Gljúfursseldalur að austanverðu. Sogn átti þarna selstöðu en einnig eru frásagnir til af því að heyjað hafi verið þar upp frá.
Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá flöt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin er 8,5 m x 4,1 m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2 m í NV er önnur tóft á litlum grasi vöxnum hól. Hún er 9,2 m x 7,3 m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8 m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6 m x 6 m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.
Milli bæjarins Gljúfar og selsins, nánar til tekið um 600 m SA af selinu, er lítil grjóthlaðin varða upp á móbergshæð. Hún er um 0,8 m á hæð. Greina má mosa og skófir á steinum. Ekki er gott að segja hvort varðan sé í tengslum við ferðir upp í selið en ekki er ólíklegt að hún tengist fremur ferðum ábúenda á Gljúfri upp á afréttinn.

Heimild:
-Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Ölfus

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla III“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Alviðru, Tannastaði, Laugarbakka, Fjall, Árbæ, Þórustaði, Hvoll, Kirkjuferju, Kotströnd, Gljúfur og Sogn, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:

Alviðra (býli)

Ölfus

Alviðra.

“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 389.
1847: 12 hdr, bændaeign.
1487: Árið 1487 selur Hálfdan Nikulásarson Guðmundi Einarssyni jörðina Alviðru í Ölfusi fyrir jörðina Egilsstaði í Flóa. DI VI, 589.
“Alviðra er austasti bær í Ölfusi, nær land að hreppamörkum, við land Torfastaða í Grafningi […] Landamerki: Norðan, úr Prestatanga við Sogið, bein lína í Hádegisholt, þaðan í Hádegisholtseggjar,
þaðan lína í Inghól. Sunnan: úr Miðmarkasteini á Hrútasteinatanga við Sogið, bein lína til fjalls, yfir Tannastaðadali í Inghólshæðir uppi á Ingólfsfjalli. Austan: Sogið.” Jörðin er sameiginleg eign Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga frá 1. febrúar 1973. Íbúðarhúsið er í útleigu en jörðin er ekki nýtt að öðru leyti.
1912: Tún 6.6 ha, þar af c.9/10 slétt. Garðar 1545 m2.

Ölfus

Alviðra.

“Bærinn stendur á sama stað og hefir staðið í manna minnum,” segir í örnefnaskrá. Bærinn í Alviðru er sýndur á túnakorti frá 1920, nánast í miðju túninu. Öll mannvirki sem eru sýnd á túnakortinu eru horfin.
Bæjarhóllinn er mikið raskaður vegna bygginga, samt er enn hægt að greina hluta hans á yfirborði til suðurs. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs, heygarður var þar í brekku niður af holtinu sem bærinn er á. Allt umhverfis bæjarhólinn eru gróin tún. Þau eru komin í órækt og ekki slegin síðustu ár. Fyrir sunnan núverandi útihús er kálgarður, þar er enn rabarbari að hluta. Fyrir austan hólinn er bakgarður núverandi íbúðarhúss. Þar er mikið af trjám. Bæjarhóllinn er um 40×30 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur. Núverandi íbúðarhús er í austurhluta bæjarhólsins. Fyrir sunnan bæinn var kál- og heygarður samkvæmt túnakorti. Vesturhluti bæjarhólsins er undir úthúsum sem byggð voru um miðja 20. öld. Fyrir sunnan útihúsin sést móta fyrir kanti en mikill gróður var á svæðinu þegar skrásetjari var á ferðinni og hann illgreinilegur. Kanturinn og fjarar svo út til norðurs. Þar er malarplan og núverandi heimreið að bænum. Kálgarðurinn er sunnan við kantinn og ekki sýndur á túnakortinu. Hann er 29×9 m að stærð, L-laga og veggirnir eru 2 m á breidd. Þeir mjókka upp og eru algrónir. Aðrar hliðar kálgarðsins eru horfnar. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð. Það glittir í 1-2 umför af grjóti í botninum. Ekki er langt síðan ræktun var hætt í kálgarðinum.

Inghóll (legstaður)

Ölfus

Inghóll.

Í mörkum á milli Hvamms og Alviðru er hóll sem Inghóll heitir, hár hóll, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hans. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hann upp nema að litlu leyti,» segir í örnefnalýsingu.
1641-42: “Kveðið ex tempore yfi r haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfi r haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfi r leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir.” Stefán Ólafsson: Kvæði I, Kaupmannahöfn 1885, s. 73.
1703: “Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.” Halfdan Jónsson, Lýsing Ölfushrepps, SSÁ, 245.
Um 1750: “Udi Arness-Syssel imod Sydost paa Ingolfsfjeld ligger Ingolf den forste Landnamsmand begraven. Hans Hoj og Gravsted er hojt og stort, som klarligen kan sees af omrejsende Folk, so færdes om Olveset, eller og osterlig i Flooen.” Jón Ólafsson frá Grunnavík, Antiqvariske Annaler II, 185-86.
1821: “Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfi alli; og er þess hærsti toppur. Vic: lógmadur E. Olafsson, hefr i hans R[ejse]besk[rivelse] sídara parti p:849 skrifad umm þessa Holls stærd. Líkur eru a því; eptir þvi sem su annars mistriggilega Ármans Saga ummgietur; ad Jngolfur Arnarson, sem bio a Reikium i Ólvesi; gamall og blindur þegar Armann kom ut hingad – hafi utvalid sér Legstad i þessum efsta toppi Jngolfsfi alls sem Sionar holi; hvadann hann gat yferlitid allt Olvesid og miklu fl eiri Hieród; umm Jngolf Singur Egiert i Mánamali – “nemur hatt vid Ský haugnuandi – … Sógusógn almuga umm Jngolf er su ad hann hafi latid þræla sina tvo sem nefndust Kagi og Kallbakur og þionustu Stulku sem nefndist Ýma bera giersemar sínar og fi armuni skómmu fyrir sitt andlat uppi Jnghól og grafa þær þar inni. – hafi sidann drepid óll þessi hiu so þau ecki giætu fra sagt ecki er ad óllu olíkleg sagann; þvi Órnefni ber Jngolfsfi all eptir þessumm Hiuumm, þarsem Jngolfur Hefdi att ad fyrirkoma þeim t d Jmu Skard, Kaga Gil og Kallbakur.“ FF I, 223-24.
1840: “Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór ummáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.” SSÁ, 195.

Ölfus

Inghóll.

1873: “Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu (45) um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”
1898: “Inghóll, eða eiginlega Ingólfshóll, heitir hóll sá á Ingólfsfjalli, sem almennt hefir verið álitinn haugur Ingólfs. Á hann að hafa sagt fyrir að jarða sig þar … bað eg Kolbein bónda Guðmundsson í Hlíð í Grafningi, sem eg vissi að hafði skoðað hólinn, að láta mig fá lýsingu á honum, og gjörði hann það góðfúlsega. Svo segir í bréfi hans: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. Hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum. Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðan í honum stórgrýti nokkuð. Aðeins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfi s hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.” Nú hefir mér sjálfum auðnast að koma upp á fjallið og sjá hólinn. Heg eg mjög litlu við lýsingu Kolbeins að bæta. Það er víst að hóllinn er verk náttúrunnar. … En varðan á hólnum er mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni.
Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt. Um vörðu þessa mun séra Stefán Ólafsson hafa kveðið vísuna: “Stóð af steindu smíði”, og hefir hann þá álitið hana leiði Ingólfs. Nú er hún landamerkjavarða.” Brynjúlfur Jónsson 1899, 14-15. Varða er rúmum 5,8 km norðaustan við bæ, á Ingólfsfjalli og 3,5 km norðan við Þórustaðanámu, nálægt norður enda fjallsins. Varðan er upp á Inghól og rafmagnsgirðing liggur meðfram hólnum austanverðum.
Útsýni er til allra átta. “Styrmir fróði, sem var uppi á 12. öld, segir, að sumir menn segi, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Brynjólfur biskup í Skálholti fór upp á Inghól með menn með sér. Þar með Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi. Hann orti vísu uppi á hólnum, sem er svona:
Stóðu að steindu smíði,
staður fornmanns hlaðinn,
hlóðu að herrans boði
heiða teikn yfir leiði.
Haugur var hár og fagur
hrundin saman á grundu.
Draugur dimmur og magur
drundi í björgum undir.
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi , allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi veirðum annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.” Einnig skráður í landi Hvamms. Hóllinn er líklega hæsti punkturinn á Ingólfsfjalli. Hann er að miklu leiti ógróinn og steinarnir í honum eru mjög stórir. Inn á milli steinanna vex gráleitur mosi. Varðan er 1,5×1,5 m að stærð og fremur hringlaga. Hún er 0,7 m á hæð og sjást 4-5 umför af grjóti. Varðan er ekki vandlega hlaðin og virðist grjótið vera að lagt þar að handahófi í hrúgu en ekki hlaðið upp. Steinarnir í vörðunni eru ekki mosagrónir og greinilegt er að eintthvað hefur verið bætt í hana á seinni tímum. Það þarf því ekki að vera að hún sé gömul.

Tannastaðir (býli)

Ölfus

Tannastaðir.

“Jarðardýrleiki x og so tíundast á fjórum tíundum.” JÁM II, 390. 1847: 10 hdr, bændaeign. JJ, 74.
1520: „Andrés Andrésson selr Sæmundi Eiríkssyni jörðina Tannastaði í Ölvesi fyrir tiu hundruð i lausafé.“ DI VIII, 548.
“Landamerki: Úr Hrútasteinstanga við Sogið, til vesturs í Miðmarkastein, þaðan bein lína til fjalls yfir Tannastaðadali í Ingólfshæðir. Sogið og Ölfusá að austan. Vestan (sunnan): Úr Einbúa við Ölfusá bein lína um Grákollu upp í Sandhæð, uppi á Ingólfsfjalli. Þaðan í Alviðruland í Ingólfshæðum.” Ö-Tannastaðir, 1. Ekki er föst ábúð á Tannastöðum lengur og jörðin í eigu nokkurra aðila, íbúðarhúsið er leigt út og landið er nýtt til beitar að hluta.
1917: Tún 4.6 ha, allt slétt. Garðar 905 m2. “Kaldakinn. Snögglend brún, sunnan við Dimmutó og náði túnið ekki lengra 1836.” Ö-Tannastaðir, 2.

Ölfus

Tannastaðir 1930.

“Bærinn hefur staðið á sama stað og nú er,” segir í örnefnaskrá Tannastaða. Samkvæmt túnakorti frá 1920 var bærinn í miðju túninu og auk bæjarhúsanna var þar martjurtagarður og heyhlaða. Hluti af gamla bænum er enn varðveittur og enn er búið í íbúðarhúsinu. Enn eru uppistandandi sex hús. Syðsta húsið er skemma sem byggð var árið 1924. Við hliðina á skemmunni er íbúðarhús með tveimur burstum og var það byggt árið 1939. Norðan við íbúðarhúsið og sambyggt því er stór hlaða sem byggð var árið 1927. Nyrst eru svo fjós og annað geymsluhús. Fast sunnan við bæjarhúsin eru tóftir af eldri útihúsum og kálgarði sem eru 80 m frá þjóðveginum. Þétt austan við bæjartóftirnar og kálgarðana er braggi og geymsluhús, þar liggur heimreið til vesturs frá Biskupstungnabraut og beygir svo til norðurs í átt að bænum. Lítill olíutankur liggur nyrst í útihúsatóftunum, nálægt geymslunni.

Ártalssteinn (áletrun)

Ölfus

Letursteinn – 1893.

Í örnefnalýsingu segir: «Ártalssteinn. Stór steinn í túngarðinum ofan (vestan) Gerðisins. Á hann er letrað 3/10 1893. Mun vera með stærstu hleðslusteinum, sem sjást.” Steinninn er tæpum 130 m suðvestan við bæ og rúmlega 15 m austan við háspennulínu, sem liggur vestan við heimatúnið. Steininn er hluti af suðvesturhluta túngarðs.
Ártalssteinninn er í óræktuðu túni, sem hallar aflíðandi til austurs. Ártalssteinninn er 1 m á hæð og 2 m á lengd. Sjálfur steinninn er áberandi stærri en aðrir hleðslusteinar túngarðs á svæðinu. Áletrunin 3/10 1898 er meitluð fyrir miðju steinsins og er hún 0,3 m á hæð og 0,4 m á lengd. Hún ristir djúpt og sést vel úr fjarska. Að sögn Jóns H. Gíslasonar, heimildamanns, meitlaði bróðir Þórðar Sigurðssonar áletrunina á síðari hluta 19. aldar.

Réttarbjarg (rétt)

Ölfus

Réttarbjarg.

Í örnefnaskrá Tannastaða segir: «Réttarbjarg. Stór steinn í túngarðinum vestur af bænum, þar er fjárrétt. «Þar var áður hrútakofi Jóns Guðmundssonar.”” Rúmum 100 metrum vestan við bæ og upp við túngarð er fjárrétt. Skammt austan við réttina í túninu liggja rafmangslínur frá suðri til norðurs yfir túnið. Stór steinn er innan réttarinnar.
Á þessum slóðum er grasivaxið og óslegið tún sem liggur við rætur fjallsins. Réttin er 14×9,5 m að stærð og snýr norður-suður. Opið er til suðurs, í suðausturhorni. Hún er einföld og 12×7,5 m að innanmáli. Hleðsluhæð veggja er 1-1,2 m. Réttin er grjóthlaðin og það sjást 4-5 umför af steinum í veggjum hennar. Steinn með áletruninni 1888 er í suðvesturhorni réttarinnar, í henni innanverðri. Réttin er nokkuð vel varðveitt og stendur enn að mestu leyti. Smávegis hrun hefur fallið inn í réttina úr austurvegg, alveg við opið. Innan í réttinni er nú geymd gömul rakstrarvél. Vesturveggurinn, sá sem liggur upp í fjallshlíðina, gengur lengur til suðurs en hinir veggir og virðist vera hlaðinn upp í grjótskriðu. Túngarðurinn stendur svo 2 metrum vestar, hærra uppi en réttin og virðist því sem túngarðurinn sé tvöfaldur á þessu svæði.

Gvendarbrunnur (þjóðsaga/vatnsból)

Ölfus

Gvendarbrunnur.

“Gvendarbrunnur: Er lítil lækjarsytra, sem kemur upp við gamla veginn fyrir norðan Ytri-Hákon.
Munnmæli herma, að Guðmundur Arason góði hafi vígt þennan læk, þegar hann var á ferðum sínum,” segir í örnefnaskrá. Gvendarbrunnur er 400 m sunnan við Grænutóftir og tæpum 820 m sunnan við bæ. Lækurinn rennur undan brekkurótum Ingólfsfjalls, skammt vestan við Biskupstungnabraut. Lækurinn er kominn í vélgrafinn skurð vestan þjóðvegarins.
Skriða er í fjallinu, Gvendarbrunnur kemur upp undan henni. Lækurinn rennur til austurs, á milli stórra, stakstæðra bjarga í mýrlendi. Hann er 1 m á breidd og vatnslítill.

Laugarbakkar (býli)

Ölfus

Laugarbakkar.

“Annað býli af sömu jörðu [og Fjall]. Dýrleiki þess er kallað vi lxxx álnior og sotíundast.” JÁM II, 392.
1847: 10 hdr, bændaeign. JJ, 74. “Landamerki I: Gagnvart Tannastöðum úr þúfuá Einbúa, er stendur niður við Ölfusá, sem hann er hæstur, beina línu í stein sem nefnist Grákollur neðri, og beina línu á Ingólfsfjallsbrún; úr vörðunni beina línu í vörðu, sem er á melhrygg á miðju Ingólfsfjalli, sem er hornmark. II: Gagnvart Helli úr áðurnefndri vörðu á melhrygg, beina línu í vörðu, sem stendur á vesturgilklofningsbrún á Brennu[dals]gili; þaðan niður Brennidalsgil í vörðu á Fjallstóttum beina línu í Mígandaþúfu; úr Mígandaþúfu til Ölfusár.”
“Bærinn var færður norður á syðri bakka Laugalækjar um og eftir 1930. […] Bæjarhóll. Hóll í túninu fyrir sunnan bæinn. Þar stóðu lambhúsin, mjólkurkofinn og smiðjan,” segir í örnefnaskrá. Bæjarhóllinn er rúmum 350 m sunnan við núverandi bæjarstæði og 50-60 m vestan við Ölfusá. Lítill tangi eða nes skagar út í ánna fyrir austan bæjarhólinn og ekki hætta á að áin fl æði hér yfi r. Sandhóll er fast vestan við bæjarhólinn, á milli bæjarins og árinnar. Smá lægð er á milli hólanna. Ekki er ljóst hvernig stafnar bæjarins snéru en traðir/leið 025 lá fast vestan við heimatúnið sem bendir til þess að stafnar hafi mögulega snúið til suðurs. Við plægingu hafa komið upp hellur, hleðslugrjót og fleiri mannvistarleifar. Slétt, ræktað tún er allt umhverfi s hólinn. Það er slegið og nýtt til beitar.
Bæjarhóllinn er 75×30 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er grasivaxinn, sléttur og þar eru ekki mannvirki að sjá á yfirborði. Bærinn sjálfur var á suðurhluta hólsins þegar túnakortið var gert árið 1920 og útihús á nyrðri hlutanum. Traðir 025 lágu að bænum að suðvestan en þær sjást ekki. Bæjarhóllinn er ekki reglulegur í laginu og helst líkist hann tölustafnum átta, tveir hólar með lágu hafti í miðjunni.
Uppi á hólunum eru lautir án þess að hægt sé að gera sér grein fyrir nákvæmu lagi mannvirkja. Hóllinn er 0,3-1 m á hæð, hæstur til vesturs og norðurs. Sléttun hefur raskað hólnum mikið og erfi tt að greina uppsöfnuð mannvistarlög frá náttúrulegum hólum.

Fjall (býli)

Ölfus

Fjall.

„Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnst að tíðir hafi hjer verið fluttar. Jarðardýrleiki XXX hdr og svo tíundast fjórum tíunudm. (…) NB. Þessi jörð er afdeild í fjögur býli, sem eru sundurgreindir fjórir bæir. Þeir heita so: Fjall. Þetta býli stendur í aðalstæði jarðarinnar og heldur því forna nafninu. Dýrleiki þessa partsins er talinn og tíundaður 6 hdr.“ JÁM II, 391.
Landnáma: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.” ÍF, 45.
Þuríður Grímkelsdóttir “fæddist upp með þeim manni, er Sigurður múli hét; hann bjó undir Felli” Harðar saga, ÍF XIII, 4 sbr. 5 (Fjalli) og 35.
1397: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.“ DI IV,101. 1524: „selur Ögmundur biskup Snæbirni Gíslasyni hálft Fjall“. DI IX, 258.
Erlingur Gíslason átti Fjall í Ölfusi, Þorsteinn yngri son hans bjó þar og átti Halldóru Pálsdóttur, Eyjólfssonar frá Hjalla og Ásdísar Pálsdóttur, systur Ögmundar biskups – Bsk II, 298.

Ölfus

Fjall – minjar.

1604: Eydís Helgadóttir, móðursystir Odds biskups, var í Fjalli 1604 og átti Jón Ásgrímsson er þar bjó fyrst en varð eftir það bryti í Skálholti – Bsk II, 661. Á öðrum stað er þó sagt að Jón Ásgrímsson hafi fyrst verið bryti í Skálholti en síðar verið ráðsmaður fyrir Fjalls búi – Bsk II, 675.
“Bærinn hefi r staðið fram á átjándu öld. Eftir að hann lagðist í eyði, lagðist landið til Hellis og Laugarbakka, svo að nú eru landamerki þeirra jarða um Fjallstún. Af JÁM sést að þá hefir heimajörðin Fjall verið komin í niðurlægingu, er jarðabókin var samin. Munu því mest hafa valdið skriðurennsli á túnið. Túnstæðið hefir upphafl ega verið uppgróin skriðubunga, mynduð af gili, sem þar er uppundan í fjallinu. Það heitir Branddalsgil, og hefir nafn af lítilli dalkvos er Branddalur heitir, sem þar er uppi í gilinu, en sjest ekki fyrr en að er komið. Branddalur er enn grasi vaxinn; annars er gilið, og hlíðin öll, nú eintóm skriða. Er líklegt að nafnið sé dregið af kolabröndum og að þar hafi verið kol brennd meðan fjallshlíðin var skógi vaxin … enn heldur [gilið] áfram að hækka bunguna smátt og smátt; enda er hún nú að miklu leyti grjóti þakin, nema austan til. Þar er grasflöt, sem enn heitir Fjallstún. Á henni eru rústir bæjarins. … Hefir hjer verið gott til heyafla og tún eigi alllítið meðan bungan var í friði fyrir skriðum.

Ölfus

Fjall – tóftir.

Líklegra er, að þær hafi valdið eyðileggingunni smátt og smátt heldur en allt í einu; en auðvitað er, að loksins hefir eitt skriðuhlaup riðið baggamuninn.” Brynjúlfur Jónsson. 1897, bls. 18-19.
„Fjallstún. Skriðurunnin hæð; leifar af túni bæjarins Fjalls. Fjallstóftir. Gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður,” segir í örnefnaskrá Laugarbakka. Í örnefnalýsingu Hellis og Fossness segir: „Austur merki Hellis eru við Fjall og segir í örnefnaskrá: “Landamerki: Að austanverðu er varða á Fjallstóftum.”
Varðan er horfin.
Brynjúlfur Jónsson, fræðimaður frá Minna-Núpi, kannaði rústirnar og ritaði um niðurstöður sínar í Árbók fornleifafélagsins 1897. Þar segir hann að á grasflöt þeirri, sem heitir Fjallstún, séu rústir bæjarins, og sjái allvel fyrir bæjarrústinni. Bærinn hafi snúið framhliðinni móti suðaustri. Þó virðist hún í fljótu áliti, þegar litið sé á rústina alla, að hún snúi á móti suðri. Það komi til að því, að byggingar hafi verið fram á hlaðinu, sem að austan til gangi lengst fram og myndist þar eins og lítil hólbrekka af gamalli hleðslu. Jafnframt segir Brynjúlfur: “Bæjartóftin snýr hliðinni fram, og er framhúsið nálægt 10 faðma langt frá norðaustri til suðvesturs. Dyr eru á framhliðinni vestan til miðri. Beint inn af þeim er inngangur í bakhús, er liggur samhliða hinu, og eru dyrnar á miðri framhlið þess. Það er rúmlega 3 faðma langt. Er sýnilegt að það hafi upp á síðkastið verið baðstofan en hitt framhýsi.” Við hvorn enda bæjartóftarinnar var sín hvor tóftin og snéru dyrum fram á hlaðið, og taldi hann það geta hafa verið skemma og smiðja.
Vegurinn hefur legið um hlaðið og hefur svo haldizt eftir að bærinn lagðist í eyði, og voru þar uppgrónar götur. En nú sagði hann veginn liggja bak við rústirnar. Brynjúlfur hafði sagnir af því, að bænhús hafi verið í Fjalli og hafði eftir Jóni bónda Árnasyni í Alviðru, sem var “fróður maður og vel að sér”. Taldi hann það hafa staðið frammi á hlaðinu fyrir framan veginn, en “hafi það verið austast og fremst, sem mér þykir liggja næst að ætla, þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.” Við báða enda bakhússins virðist Brynjúlfi vera autt svæði, sem svara myndi rými fyrir dálítið hús. Var þetta svæði innlokað að garði fyrir allri bakhlið bæjarins og myndaði þar “húsagarð”. Þar sem Fjall stóð forðum, eru nú vallgrónar rústir fast við þjóðveginn ofanverðan, og voru þær friðlýstar 1927. Hefur þeim þó verið raskað, þegar nýi vegurinn var lagður með fjallinu.” Brynjúlfur teiknaði minjarnar sem hann sá og birti aftast í Árbókinni.

Ölfus

Fjall – minjar.

Í bókinni Saga Selfoss er fjallað um Fjall. Þar segir: „Austurmörk Hellis eru um Fjallstóftir, sem síðar voru nefnd Fjallstún. Þar eru rústir eyðibýlisins Fjalls, alveg við þjóðveginn. […] Meðan stórbýli var í Fjalli fyrrum hefur þar verið gott undir bú og tún eigi alllítil. En skriðurennsli úr Brennudalsgili spillti túnum smám saman og síðast er líklegt, að eitt skriðuhlaup hafi riðið baggamuninn og gert túnið að grjóturð og brotið bæinn. Hann stóð þó fram á 18. öld. Þórður hinn fróði Sigurðsson, sem er fæddur á næsta bæ, Tannastöðum, árið 1864 , og bjó þar langa æfi, lýsti rústum bæjarins 1931: “Ein tóft sést ennþá greinilega fyrir neðan veginn, en uppi á hátúninu sá ég glöggt fyrir fimm húsatóftum, hverjum við aðra, þegar ég var unglingur, en nú eru þær allar komnar undir skriðu fyrir nokkru. Líka tók ég þá eftir niðursignu túngarðsbroti vestur við mýrarvikið, sem nær lengst upp að fjallinu.”” Minjarnar eru friðlýstar. Í skránni segir: “1. Leifar eyðibýlisins Fjalls, sunnan undir suðausturhorni Ingólfsfjalls.
Sbr. Árb. 1897: 18-19. […] . Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.” Friðlýsingarskilti er á bæjarhólnum en er mjög máð. Bæjarhóllinn sést ennþá en honum var raskað ennfrekar við vegagerð á 20. öld. Ekið er um hlað bæjarins eftir Biskupstungabraut og tóftin sem var „neðan“ vegarins þar undir að öllum líkindum. Vegurinn liggur þvert yfi r bæjarhólinn og vírgirðing þvert vestan hans.
Hægt er að greina hólinn sem allháa þúst í landinu en erfitt er að greina mismunandi byggingarþætti.
Skriður úr Brennudalsgili fara austan og vestan við gamla heimatúnið og nærri bænum. Bæjarhóllinn er greinilegur en tóftir hlaupnar í þúfur svo ekki hægt að greina nákvæmt lag þeirra.
Bæjarhóllinn er 63×28 m að stærð, 0,3-0,8 m á hæð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er grasivaxinn og vegstæðið hefur raskað austastahluta hólsins. Eins og fyrr segir þá liggur núverandi þjóðvegur um bæjarhlaðið og minjum sem Brynjúlfur lýsir „fyrir neðan veginn“ eru horfnar.

Fjallskirkja (kirkja)
“Fjallstóftir. Gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður. Þar var kirkja, og liggur vegurinn um kirkjugarðinn,” segir í örnefnalýsingu Laugarbakka. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1706 segir: “Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnist að tíðir hafi hjer verið fluttar.” Eina ritheimildin sem gæti bent til kirkju á Fjalli er máldagi Strandarkirkju í Selvogi frá 1397 en þar segir: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.” Í grein sinni um Fjall í Ölfusi í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1897 segir Brynjúlfur Jónsson: “Sögn er, að bænahús hafi verið í Fjalli; svo sagði mjer Jón bóndi Árnason í Alviðru, fróður maður og vel að sjer. Hefi r þá bænahúsið án efa verið fram á hlaðinu, en hafi það verið austast og fremst, – sem mjer þykir liggja næst að ætla, – þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.” Friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927 (sem kvöð á landi Hellis) samkvæmt friðlýsingarskrá. Þar segir: “1. Leifar eyðibýlisins Fjalls, sunnan undir suðausturhorni Ingólfsfjalls. Sbr. Árb. 1897: 18-19.
”Ekki er vitað með vissu hvar kirkjan var staðsett, en líklega var hún á bæjarhólnum, austan við bæ. Brynjólfur gerði uppdrátt af minjum í Fjalli og birti í grein sinni árið 1897. Allt eins er líklegt að kirkjan hafi farið undir Biskupstungnabraut 35, skammt suðaustar en hnit var tekið. Þar voru minjar samkvæmt teikningunni. Kirkjan er rúmlega 50 m austan við bæ og um 75 m suðvestan við útihús.
Minjastaðurinn er í aflíðandi brekku. Sé horft til austurs er mýrlendi allsráðandi en til norðvesturs, við rætur Ingólfsfjalls, er yfirgefin malarnáma.
Ekki er vitað hvar kirkjan var staðsett. Af lýsingum ritheimilda að dæma þá hefur kirkjan að öllum líkindum staðið þar sem nú (2016) er Biskupstungnabraut. Ummerki kirkjunnar hafa líklega farið undir veginn við vegagerð á 20. öld. Þó er ekki loku fyrir það skotið að mannvistaleifar séu undir jörðu.

Saumakonuhellir (þjóðsaga)

Ölfus

Saumakonuhellir.

“Saumakonuhellir. Hellir í Fjallsklettum, ofan við þar sem Fjallslækur kemur upp. Sagt er, að kona sú, sem barnið ól hjá Sængurkonusteini, hafi hitt þar tvær stúlkur í hellinum, sem voru að sauma. Þær leyfðu henni ekki að koma í bæinn, en allt annað Fjallsfólk var við kirkju í Arnarbæli,” segir í örnefnalýsingu Laugarbakka. Saumakonuhellir var rúma 270 m norðaustan við bæ 001 og 100 m VNV við sumarbústað sem er við Biskupstungnabraut. Hellirinn er staðsettur í skriðunni, ofan við Fjallslæk. Í skýrslunni Fornleifaskráning í Áborg I segir; “Þetta er ekki hellir í þeim skilningi heldur meira skjól myndað úr þremur vel grónum klettu. Sá sem er í miðjunni er stærstu og hvílir á hinum. Nokkup stórt bjarg hjálpar til við skjólmyndunina og er beint á móti hinum. Vel gróin dæld er á milli.”
Fjallsklettar eru skriða, aðallega stór björg og steinar, sem féllu hér niður Ingólfsfjall. Sumir steinarnir eru 3-4 m á hæð. Skriðan er nokkuð gróin og þetta svæði er nýtt til beitar.
Eini staðurinn sem kemur til greina sem Saumakonuhellir er smá gjóta sem þrír, stórir steinar mynda. Gjótan er opin í báða enda og ekki hægt að fara þar inn með góðu. Þessi steinar eru nánast í miðju Fjallskletta, ofarlega. Skútinn er mest 2 m á hæð og 4×2 m að stærð.

Árbær (býli)
“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 393. „34 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1397: LXXX. Arbær. Kirkia ad Arbæ a .iiij. kyr. Jnnan sig kluckur .iiij. Mariuskriptter tuær. krossar .ij. kiertistika med kopar. paxspialld. Sacrarium. mvnnlaug. portio Ecclesiæ vmm næstu .x. är .xvij. aurar oc iij. Alnar.” DI IV, 92
1502: Stefán Skálholtsbiskup selur Þorvarði Erlendssyni lögmanni Árbæ. DI VII, 622-23.
1546: Erlendur lögmaður Þorvarðarson seldi Gizuri biskupi jarðir og þar á meðal Árbæ. DI XI, 479-480. “Landamerki. Ölfusá að sunnan. Vestan: úr Svörtubökkum við Ölfusá og til Ingólfsfjalls. Austan: úr Markakletti við Ölfusána og til Ingólfsfjalls. (Meiri upplýsingar gáfu heimildarmenn ekki).” Ö-Árbær, 1.
1917: ´Tun 8.3 ha, þar af c. 3/4 slétt. Garðar 2176 m2.

Þórustaðir (býli)

Ölfus

Þórustaðir – kort.

“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 394. „30 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1546: „Erlendr lögmadr Þorvarðsson gefr í vald Gizurar biskups jarðirnar Árbæ, Þórisstaði og Fossnes í Ölvisi, svo og rekann á Skeiði fyrir Hraunslandi. Af bréfi Gissurar til Erlends 6. desember 1547 kemur fram að um er að ræða Þórisstaði í Hjallasókn“ DI XI, 472. Það bendir til þess að þessi bær hafi þegar verið til þá.
“Landamerki: Úr Graflækjum (Giljum, Flugugili og Engjagili) við Ölfusá stutt fyrir austan ferjustaðinn á Kotferju. […] Úr þessum giljum bein lína í stórann múla austan við Þunnubrekkur. Þessi eru mörk á milli Hvols og Þórustaða, fleiri upplýsingar voru ekki fyrir hendi.” Ö-Þórustaðir, 1.
Þórustaðir skiptast a.m.k. tvö lögbýli í dag. Eitt er Garðyrkjustöðin Kjarr ásamt hrossarækt en á hinum hlutanum er rekið svínabú. Einnig er starfrækt kjúklingabú á syðsta hluta jarðarinnar.
1917: Tún 3 ha, þar af c. 5/6 slétt. Garðar 1456 m2.
“Bærinn stóð í miðju túni og sneri þiljum til suðurs,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sýndur er á túnakorti frá 1920 var, ekki fannst heimildamaður fyrir jörðina nema að hluta.
Sé tekið mið af fyrirliggjandi gögnum var bærinn líklega vestan og norðvestur af núverandi íbúðarhúsi eða nánast á sama stað. Íbúðarhúsið er því á bæjarhólnum enn í dag. Bæjarhóllinn er mikið raskaður, á honum eru hús til suðurs, núverandi íbúðarhús til suðausturs og byggingar tilheyrandi svínabúi til suðvesturs og vesturs. Á milli mannvirkja á bæjarhólnum eru malbikuð plön, steyptir grunnar frá húsum sem hafa verið rifin og bakgarðar.
Engin ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög sjást á yfirborði. Algjört þekkingarrof hefur orðið á Þórustöðum enda langt um liðið síðan föst ábúð var hér. Áður en jörðin var nýtt undir svínarækt og skipt upp í minni einingar voru ábúendaskipti tíð og fólk stoppaði stutt við. Síðustu áratugi hafa ábúendur
verið bústjórar svínabúsins.

Hvoll (býli)

Ölfus

Hvoll.

“Jarðardýrleiki er xx og tíundast þó jörðin öngvum.” JÁM II, 396. 1847, 20 hdr. JJ, 74. „Gömul jörð, 20 hundruð að fornu mati. […] Hvolshjáleiga er nefnd í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1706.“ Sunnlenskar byggðir III, 393.
Ekki er til túnakort af heimatúninu.
“Bæjarhóll. Lítill, gróinn hóll. Þar stóð bærinn áður,” segir í örnefnalýsingu Hvols a. “[…]. Bæjarhóll var þar sem Hvoll I er núna. Honum var rutt þegar nýja íbúðarhúsið var byggt, fyrir um það bil 35 árum,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn var líklega fast vestan við íbúðarhús sem var reist árið 1963 á Hvoli þar sem bílastæði er nú (2016) og heimreið kemur að bænum. Ekki er til túnakort af jörðinni og þekkingarrof mikið. Það er því ekki hægt að staðsetja bæinn nánar en hér er gert. Einungis er hægt að geta þess að skv. herforingjaráðskorti frá 1908 lágu þjóðleiðir að bænum úr vestri og líklegt er að stafnar hafi snúið í þá átt. Á ljósmynd af bænum sem tekin er um 1980 og birt í Sunnlenskum byggðum III sést upphækkun fyrir norðan 20. aldar útihús. Þetta er suðvestan við íbúðarhúsið, ekki er ólíklegt að þetta sé uppmokstur vegna framkvæmda eða hluti af bæjarhólnum. Þessi hóll sést ekki lengur.
Á þessum slóðum er bílaplan, fjós og hestagerði núverandi íbúðarhúss jarðarinnar. Þessu til viðbótar er bakgarður umhverfi s húsið og greina má hávaxinn og ósamfelldan trjágróður á því svæði.
Samkvæmt Ólafi H. Einarssyni, heimildamanni, komu mannvistarleifar í ljós þegar bygging áföst íbúðarhúsinu var reist á fyrsta áratugi 21. aldar. Ekki er ólíklegt að það hafi verið hluti af bæjarhólnum.
Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins né hæð vegna jarðrasks.

Ámundarétt (rétt)

Ölfus

Ámundarétt.

“Ámundarétt. Stór klettur og hleðsla hjá skammt fyrir ofan veginn,” segir í örnefnaskrá. Ámundarétt er rúmum 1,6 km fyrir norðaustan bæ og rúmum 700 m suðaustan við stekk. Réttin er byggð upp við stakstætt bjarg, milli tveggja þjóðvega. Þjóðvegur sem gerður var 1908 er fast norðan við tóftina en vegur frá 20. öld er 20-30 m sunnar. Réttin sést lítið fyrr en að henni er komið. Í skýrslunni Skráning menningarminja í Ölfusi sem var gerð um 1980 segir: “Ámundarétt. Gömul hleðsla við stóran klett. Sagnir herma, að Ámundi þessi hafi verið veinn þar. Erlendur á Strönd í Selvogi hafi verið þar að verki.”
Réttin er í suðaustarlega, inn á milli kletta sem hafa fallið niður hlíðar Ingólfsfjalls. Ámundamúli er fast austan við réttina, á merkjum milli Hvols og Þórustaða. Brekkan er gróin.
Þjóðvegur er fast við réttina og raskar henni nokkuð. Kletturinn myndar suðurvegg réttarinnar, en að öðru leyti eru þeir grjóthlaðnir. Réttin er 21×14 m að stærð, einföld og snýr austur-vestur. Ekkert op sést inn í hana á yfirborði. Norðausturhluti hennar er raskaður, líklega vegna þjóðvegarins. Veggirnir eru gerðir úr stórum steinum og sést enn eitt umfar. Grjótið er tekið úr Klettabrekku. Veggirnir eru 0,2-0,3 m á hæð. Kletturinn er 3 m á hár og snarbrattur inni í réttinni, hann lækkar til suðurs.

Kögunarhóll/Knarrarhól (þjóðsaga/legstaður)

Ölfus

Kögunarhóll – Collingvood 1896.

Í bókinni Frásögur um fornaldarleifar frá 1821 segir: «… hier nærst ma teliast Knarar eda Kogunarholl, ad mestu allt umm kring grasivaxinn mikid stór holl sem stendur framann undir landsudurs horni a firrnefndu Jngolfs fi alli, inn i þennan hól er sagt ad Ingolfur hafi att ad lata Skip sitt.» Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu frá 1840 segir: «Í útsuður fyrir neðan fjallið stendur upphár, ávalur, graslaus hóll, aðeins laus við það, en nú nefnist Kögunarhóll, en að fornu var kallaður Knörhóll, og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt.» Í bókinni Íslenskir sögustaðir frá 1873 segir: «keilu- eða toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.“
«Kögunarhóll. Strýtumyndaður hóll, sunnan vegar, lítið gróinn nema að vestan. Af hólnum er mjög gott útsýni til flestra átta. Sérstaklega hefur vel sézt til mannaferða um Ölfusið, eins og leiðir lágu, áður en gerðir vegir komu […] Þjóðsögur herma, að Ingólfs landnámsmanns sé heygður í hólnum og heiti hann Knarrarhóll. Engan hef ég heyrt bera sér það í munn sem lifandi örnefni.»
Kögunarhóll stendur suðvestan við Þjóðveg 1, ekki langt frá rótum Ingólfsfjalls og rúmum 940 m frá bæ. Hóllinn er áberandi og Þjóðvegur 1 liggur fast norðan hans. Hóllinn er stór og ekki mjög gróðursæll. Þar vex þó nokkurt gras en mikið er af berum malarsvæðum á honum, þá sérstaklega á toppi hólsins, þar sem gróðurþekja er mjög slitin.
Hóllinn er frekar hringlaga og mjög stór. Á toppi hans sést mjög vel til allra átta.

Hvolshjáleiga (býli)
“Hjáleiga hefur verið með jörðinni, en nú í auðn yfir 20 ár en bygðist þó fyrri ei lengur en um 10 ára tíma og var kölluð Hvolshiáleiga.” segir í örnefnalýsingu. Óvíst er hvar hjáleigan stóð og frekari þarf upplýsingar svo að hægt sé að staðsetja hana með innan við 50 m nákvæmni.

Kirkjuferja (býli)

Ölfus

Kirkjuferja.

“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum og hefur ei tíundast so lángt menn minnast” JÁM II 395. „42 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1397: „LXXXI. Kirkiuferia. Ad Kirkiuferiu fylger fylger kyr oc ein ær. Hun a jnnan sig krossa .ij. crucifi xum j hvsi med vnderstodumm. paxspialld. kluckur .ij. alltarizklædi oc dvkur. nportio Ecclesiæ vmm .x. är næstu .ijc. fellur nidr .ij. merkur af portione firir vppgiord a kirkiunni“. DI IV, 92.
1544: „skylldi [sr. Jón Bjarnason] suara halfkyrkiunni a Kyrkiuferiu þeim iiij kugilldum sem eg atti ad suara.“ DI XI, 295.
1545: segir Gissur biskup í minnisgrein að ráð sé fyrir gert að Arnór Eyjólfsson skuli taka 4 kúgildi “sem nu uoru radstafalaus og fylgt hafa kirkiuferiu enn ec skal sialfur j suari uid kirkiuna vm þau kugilldi.” DI XI, 450.
1569: „16.9.1569 selur Vigfús Jónsson með samþykki Ólafs bróður síns Skálholtsdómkirkju Kirkjuferju, og var kaupahlutinn 30 hdr að dýrleika en kirkjuhlutinn 10 hdr og fylgdu jörðinni 8 málnytukúgildi.“ DI XV, 313.
“Landamerki: Úr Mókeldukjafti við Ölfusá lína til norðurs í Árnadys (sjá Auðsholt). Þaðan í hol norðan við Hvolsskyggni (Hvolsborg/[Ferjuborg?]). Þaðan lína til austurs í hornmark Hvols og Þórustaða. Þaðan lína til suðurs í Ölfusá, milli Kirkjuferju og Þórustaða. Þessi mörk eru ekki gildandi nú. Bræðrabýli hefur fengið drjúga landspildu af Hvolslandi.” Ö-Kirkjuferja, 1.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 1/4 slétt. Garðar 960 m2.
“Tvíbýli var lengi á Kirkjuferju […] Bærinn á Kirkjuferju hefur staðið á sama stað og hann er nú,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn er einnig sýndur á túnakorti frá 1920, nyrst í túninu. Komið er að bænum úr austurátt, ekið er framhjá Kirkjuhól, þá hesthúsum og svo að gamla íbúðarhúsinu. Yngra íbúðarhús er um 80 m vestar. Samkvæmt Guðmundi Baldurssyni, heimildamanni, hefur bærinn og útihúsin alltaf verið á þessu svæði, og þá um leið á bæjarhólnum.
Gamla íbúðarhúsið er á miðjum bæjarhólnum, í smá halla. Það ber meira á kjallara þess sunnan til, þar er bakgarður hússins. Norðan við húsið er bílastæði.
Bæjarhóllinn er um 60×30 m að stærð og snýr austur – vestur. Íbúðarhúsið er byggt 1956, er með niðurgröfnum kjallara og er í beinni línu við Kirkjuhól 002. Hesthúsin eru á austurhluta
bæjarhólsins en ekki er ljóst hvernig afmörkunin er til norðurs og vesturs. Þar eru bílaplön og gróin tún. Mikið af hríslum er við hesthúsið og upphækkun á landi eins og á bæjarhólnum. Eldri bærinn var nærri
íbúðarhúsinu og snéri stöfnum til suðurs. Ekki er hægt að áætla hæð bæjarhólsins vegna jarðrasks en hann er 1-2 m á hæð að sunnan.

Kirkjuferjukirkja (kirkja)

Ölfus

Kirkjuferjukirkja.

1397: LXXXI. Kirkiuferia. Ad Kirkiuferiu fylger fylger kyr oc ein ær. Hun a jnnan sig krossa .ij. crucifi xum j hvsi med vnderstodumm. paxspialld. kluckur .ij. alltarizklædi oc dvkur.nportio Ecclesiæ vmm .x. är næstu .ijc. fellur nidr .ij. merkur af portione fi rir vppgiord a kirkiunni; DI IV, 92. 1544 skylldi [sr. Jón Bjarnason] suara halfkyrkiunni a Kyrkiuferiu þeim iiij kugilldum sem eg atti ad suara – DI XI, 295. [1545] segir Gissur biskup í minnisgrein að ráð sé fyrir gert að Arnór Eyjólfsson skuli taka 4 kúgildi “sem nu uoru radstafalaus og fylgt hafa kirkiuferiu enn ec skal sialfur j suari uid kirkiuna vm þau kugilldi.” DI XI, 450. 16.9.1569 selur Vigfús Jónsson með samþykki Ólafs bróður síns Skálholtsdómkirkju Kirkjuferju, og var kaupahlutinn 30 hdr að dýrleika en kirkjuhlutinn 10 hdr og fylgdu jörðinni 8 málnytukúgildi – DI XV, 313. “So segja menn hjer jafi að fornu kirkja verið; sjást enn nú merki kirkjugarðs, og er þar nú tóftarstæði eftir, sem kirkjan skyldi staðið hafa. Enginn minnist hjer hafi tíðir verið fl uttar,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Í örnefnaskrá segir: “Kirkjuhóll. Hóll austur á túninu, sunnan vegar. Álagablettu: Blettur við hólinn, sem ekki mátti slá (sennilega tún huldufólksins, sem í hólnum bjó).” Kirkjuhóll er um 75 m norðaustan við bæ, austan við hesthús og gamla íbúðarhúsið. Hóllinn er sunnan megin við núverandi heimtröð sem liggur meðfram honum.
Svæðið er í mikilli notkun og áberandi ummerki eftir yfi rferð stórra vinnuvéla. Svæðið er afgirt og notað sem bithagi fyrir hesta. Fyrst var komið að Kirkjuferju árið 2004 í tengslum við skráningu á bænhúsum á Íslandi. Miklar breytingar hafa átt sér stað síðan, nú er Kirkjuhóll innan svæðis sem ekki er nýtt og þar er mikill gróður. Nýtt hús var byggt norðvestan við hesthúsið en raskaði ekki Kirkjuhól.
Það litla sem ennþá sést er líklega skemmt af umferð og gæti orsakað skrítið lag tóftarinnar. Það má sjá að eitthvað mannvirki var þarna er það er tiltölulega mikill ágangur svo erfitt reyndist að áætla skörp skil. Tóftin er 8×7 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggirnir eru 0,15 m á hæð og algrónir.

Álagablettur (álagablettur)

Ölfus

Kirkjuhóll.

“Álagablettur. Blettur við hólinn [Kirkjuhól], sem ekki mátti slá (sennilega tún huldufólksins, sem í hólnum bjó,” segir í örnefnalýsingu. Álagablettur er ekki við Kirkjuhóll að sögn Guðmundar Baldurssonar, heimildamanns, og það er villa í örnefnalýsingunni. Álagabletturinn er rúmum 90 m norðvestan við bæ og 50 m vestan við útihús. Þar er strýtumyndaður hóll og stuðlaberg syðst í honum. Ekki eru frekari sagnir tengdar þessum hól eða huldufólkinu sem í honum bjó. Hóllinn er 2-3 m á hæð og klettar syðst í honum. Þeir eru 2,5 m á hæð en aðrar hliðar eru grónar. Umhverfis hólinn er gróin brekka og hér og þar smá hólar og mishæðir. Vegslóði er fast norðaustan við hólinn.

Hjáleigutóft (býli)
“Hjáleigutóft. Tóftarbrot austan Kinnar,” segir í örnefnalýsingu. Hjáleigutóft var líklega nýtt frá Kirkjuferjuhjáleigu smbr. örnefnið. Tóftin var uppi á hæð, rúmum 260 m norðan við bæ. Þar er lítill hryggur og þar var Hjáleigutóft. Hólinn er nú beittur hestum og þar er tún. Þar er grasivaxið, óræktað svæði. Það er í aflíðandi halla til suðvesturs, niður holtið sem bæirnir eru á.
Engin ummerki um minjar sjást á yfi rborði.

Völukirkja/Kirkjuhóll (þjóðsaga/huldufólkssaga)

Ölfus

Völukirkja.

“Völukirkja. Strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kunn úr þjóðsögum sem álfakirkja. Guðjón hafði þá sögn eftir Birni bóndi, samkvæmt heimildum móður hans, Ingigerðar, að kona frá Kirkjuferju var á leið til kirkju að Arnarbæli. Átti hún leið fram hjá Völukirkju. Settist hún þar niður til að fara í sokkana. Hún hafði gengið berfætt yfi r mýrina og Rauðukeldu. Heyrði hún þá sungið inni í Völukirkjunni. Sálmaversið nam hún, og var það ekki í sálmabók hinnar íslenzku þjóðkirkju. „Hjá Völukirkju gengu menn ávallt með mestu virðingu við huldufólkið.” (Halldóra Jónsdóttir),” segir í örnefnaskrá. Völukirkja er tæpum 1,5 km vestan við bæ, rétt austan við landamerki við Auðsholts. Þetta land tilheyrir í dag Kirkjuferjuhjáleigu.
Völukirkja er syðst í holtaröð sem er á merkjum Kirkjuferju og Auðsholts. Þarna raðast nokkur stuðlabergsholt frá norðri til suðurs, Völukirkja er syðst og minnst. Hóllinn er um 30×15 m að stærð, brattur og áberandi. Austurhlið holtsins er með stuðlabergi en til vesturs er hún lægri og grónari. Hóllinn er 3-5 m á hæð.

Móra (þjóðsaga/draugur)

Ölfus

Móruhóll.

“Móra (Móruhóll). Hóll austur í Móru. Þar var draugur, og sumir veiktust, sem voru þar á ferð í myrkri,” segir í örnefnalýsingu. Móra er um 980 m norðvestan við bæ og tæpum 400 m norðan við rétt. Hóllinn er í norðvesturhorni jarðarinnar, milli Ferjukots (nýbýli) og Kirkjuferjuhjáleigu. Umhverfis Móru er mýrlendi og óræktuð tún. Hóllinn er á víðfeðmu svæði og sést víða að.
Móra er 4×2 m að stærð og 1,5 m á hæð. Hólinn snýr svo að segja austur-vestur og er strýtulaga, svo og heildargróðurþekja mikil. Gróður er fremur lágvaxinn og á vissum stöðum glittir í mosagróið bjarg og klappir. Einnig eru smáir moldarflagsblettir sjáanlegir á víð og dreif á hólnum.

Gilsbakki (býli)

Ölfus

Gilsbakki.

“Þurrabúð, sem stóð austan við Rásina, suðaustur af núverandi Hjáleigu. Í byggð í skamman tíma eftir síðustu aldamót,” segir í örnefnalýsingu. Býlið stóð um 440 m norðan við bæ, austan við núverandi heimreið. Þar er nokkur dæld í landslaginu þar sem girðingin liggur samsíða þjóðveginum og mætir honum. Þarna er nú óræktað grasivaxið svæði sem hallar til austurs. Það er nokkuð blautt og deiglent undir.
Minjarnar eru mjög grónar og vex þar hátt og mikið gras. Þar sést óljós veggur sem liggur austur-vestur.
Hann er um 4 m langur og beygir til suðurs þar sem örlítill og óljós veggur er varðveittur. Veggurinn er um 0,4 m á hæð. Dæld er í landslaginu þar sem býlið hefur staðið.

Kirkjuferjuhjáleiga (býli)

Ölfus

Kirkjuferjuhjáleiga.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir, líklega um Kirkjuferjuhjáleigu sé tekið mið af lýsingum af staðsetningu: „Önnur hjáleiga efst menn að hjer hafi verið til forna: líkindi eru þar til fornar tóftaleifar og garða, og er ómögulegt að hjer eftir að byggjast kunni nema til meins heimajörðinni. Liggur þetta byggingarlag utangarðs og má ei byggjast ábúendanum án skaða.“ JÁM II; 396.
Hjáleiga frá Kirkjuferju. “Þessi jörð hefur yfirleitt verið jafnstór aðaljörðinni, Kirkjuferju, og eru landkostir jarðanna svipaðir.” SB III, 391.
1917: Tún 2.9 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 352 m2.
Bærinn er merktur í norðvesturhluta heimatúnsins á túnakorti frá 1920. Þar er einnig sýndur kálgarður fast sunnan við bæinn. Í Sunnlenskum byggðum III segir: “[b]ærinn stóð áður sunnan í holtinu, en var færður upp á holtið 1940.” Í örnefnaskrá segir: “Gamla-Hjáleiga. Sýnilegar leifar af gamla bænum, áður en byggðin var færð norður fyrir túnið.” Bær 001 er tæpum 120 m sunnan við yngra bæjarstæðið og tæpum 20 m vestan við akveg að Kirkjuferju. Bæjarhóllinn sést vel þegar ekið að Kirkjuferju, uppi í holtinu. Bærinn er á sama holti og Kirkjuferja, um 270 m eru á milli bæjanna.
Bæjarhóllinn er ofarlega á náttúrulegum hól sem er hluti af ósléttuðu túni. Landið er algróið og smáþýft.
Til norðurs og vesturs er sléttað tún og það nýtt til hrossabeitar. Bæjarhóllinn er 32×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er nær óraskaður ef frá er talinn norðvesturhlutinn, hann er sléttaður vegna túnagerðar.

Kotströnd (býli)

Ölfus

Kotströnd.

“Jarðdýrleiki er óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 404. „22 hdr, 1847.“ JJ, 75.
1917: Tún 3.8 ha, þar af c. 4/5 slétt. Garðar 1221 m2.
Bærinn stóð í miðju heimatúninu, uppi á lágu holti sem þar er. Það er víðsýnt til allra átta. Stafnar bæjarins snéru til suðurs en ekki virðist hafa verið sambyggður kálgarður þar. Það er mikið rask á þessu svæði og erfi tt að greina bæjarhólinn á holtinu. Miklar breytingar hafa einnig átt sér stað í túninu og allt landlagið breytt frá því áður var.
Þar sem bærinn stóð eru steinsteypt útihús frá 20. öld til norðurs, malarplan til suðurs frá þeim og vegslóði.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn. Hluti 20. aldar útihúsanna eyðilagðist í jarðskjálfta 2008 og voru rifin.
Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins vegna allra þeirra framkvæmda sem þarna hafa verið á síðustu öld. Núverandi íbúðarhús er grafið inn í suðvesturhorn holtsins, líklega rétt utan við bæjarhólinn. Sagnir eru þó um að þar hafi komið upp mannvist. Ekki er vitað hvort að mannvistarlög komu upp þegar útihúsin norðan við bæinn voru byggð á 20. öld og um leið líklega á bæjarhólnum. Uppmokstur úr þeim framkvæmdum var settur í tjörn sem var austarlega í heimatúninu, fast sunnan við kirkjugarðinn. Það er að öllum líkindum búið að grafa stóran hluta bæjarhólsins í burtu og þá um leið mannvistarlög þrátt fyrir að þekkingin um þau hafi ekki varðveist. Fyrir sunnan bæjarhólinn er gróið svæði sem nýtt er til beitar. Heimildamaðurinn var ekki viss hvar nákvæmlega á bæjarhólnum bærinn stóð, hann gæti hafa verið skammt austar en þar er mun minna jarðrask.

Kotstrandarkirkja (kirkja)

Ölfus

Kotstrandarkirkja.

“Kirkjutún, sléttur túnblettur sunnan undir kirkjugarðinum, sem nú er orðinn grafreitur,” segir í örefnalýsingu.
Í Sunnlenskum byggðum III segir: “Kirkjan var byggð sumarið 1909 og vígð 14. nóv. Um haustið. […] Yfi rsmiður var Samúel Jónsson frá Hunkubökkum á Síðu (faðir Guðjóns húsameistara). Kirkjuhúsið úr timbri, járnklætt, 85 m2 að fl atarmáli. […] Gtafreiturinn var tekinn í notkun um sama leyti og kirkjan. Nokkru síðar var hann afgirtur með grjótgarði. Efnis í þá girðingu var hægt að afla með vinnu sem kostaði þá ekki beina peninga. Grjótið var flutt á vögnum um 3 kmm leið og prýðilega byggt úr því. Sá garður stóð óhaggaður þar til kirkjugarðurinn var stækkaður. Efnis dugði þá aðeins á tvo vegu um kirkjugarðinn.” Kirkjan er um 120 m NNA við bæ, líklega rétt utan heimatúnsins. Hún er ekki sýnd á túnakorti frá 1920 sem bendir einna helst til þess að hún hafi verið utan þess. Kirkjan er reist 1909, þegar kirkjur á Arnarbæli og Reykjum voru lagðar niður, fyrir þann tíma var ekki kirkja á Kotströnd. Kirkjan er ennþá í notkun og tilheyrir Hveragerðisprestakalli.

Steinvararhús (býli)
“Bær var í túninu, kallað Steinvararhús. Kona að nafni Steinvör hafði búið þar,” segir í örnefnalýsingu.
“Steinvararhús er ekki lengur til. Búið er að slétta allt út. Sigmar man eftir húsinu; það var síðast haft fyrir fé,” segir í athugasemdum við örnefnalýsingu. Ekki er vitað hvar Steinvararhús var staðsett, ekki fannst heimildamaður fyrir jörðina nema að hluta. Þekkingin um staðsetninguna hvarf að öllum líkindum með Sigmari. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja býlið en það var innan heimatúnsins líkt og segir í örnefnaská.

Bali (býli)
“Upp með ánni var kallaður Bali. Þar var gamalt býli, og var þar tekinn mór,” segir í örnefnalýsingu. Í örnefnalýsingu Sigmars Sigurðssonar segir: „Bali: Þurrlendur, kúptur mýrarfláki; er norður við Gljúfursmörk.“ Í skýrslunni Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi segir að engin ummerki um býlið sjáist á yfi rborði. Hnitið í skýrslunni lendir hins vegar skammt sunnan við beitarhús 012 og það er nokkuð langt frá staðsetningu þess í örnefnaskrám. Bali var líklega vestan við mógrafir, þar er holt en engin mannvist sést þar. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja staðinn með betri nákvæmni en hann var rúmum 1,7 km norðan við bæ.
Þetta svæði er mýrlent, framræst og mjög gróið. Það er nýtt til hrossabeitar.

Klettar (þjóðsaga/huldufólksbústaður)
“Í klettunum (?) var sögð vera kirkja; þar mátti ekki hreyfa stein,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað í hvaða klettum þessi kirkja var. Líklega eru það þó klettarnir norðan við heimatúnið sem átt er við, innan nýbýlisins Mæri. Frekari heimildir þarf til þess að staðfesta það.
Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, heimildamanns, var álagablettur í hlaðinu á Kotströnd. Hann er um 20 m sunnan við bæ og 30 m norðan við Kotstrandarbrunn. Álagabletturinn er fast við núverandi heimreið að bænum. Heimreiðin er malbikuð og skjólbelti er fast austan blettsins. Hóllinn er 7×5 m að stærð og snýr norðvestursuðaustur. Beinn bakki er til suðvesturs í hólnum, mögulega vegna vegagerðar þegar heimreiðin var malbikuð. Í hólnum glittir víða í grjót án þess að um greinileg umför sé að ræða. Hóllinn er 0,3-0,5 m á hæð og algróinn.

Gljúfur (býli)

Ölfus

Gljúfur.

“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 397. 30 hdr. 1847. JJ, 75.
“Landamerki: Úr Sauðaklöpp, til austurs í Langanef. Þaðan til norðurs í Orustuhól, þaðan lína í Sandfell. Þaðan, til norðvesturs stefna í Efjumýrarvörðu (sjá Sogn), í miðgilið í Klyftartungum, síðan Gljúfurá og Gljúfursá móts við Sauðaklöpp.” Ö-Gljúfur, 1.
1917: Tún 5.9 ha, þar af c. 7/8 slétt. Garðar 1584 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1920 og Stefáni Jónssyni, heimildamanni, var bær vestan við núverandi íbúðarhús, nánast í miðju heimatúninu. Nú er þar skemma, önnur útihús frá 20. öld og heimahagi.
Nýtt íbúðarhús var byggt árið 1964, um 40 m austan við bæjarhólinn, en eldra íbúðarhús sem byggt á fyrrihluta 20. aldar sést á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Það hús eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2000 en það var á vesturhluta bæjarhólsins. Bærinn á túnakortinu var undir útihúsunum, fast austan við staðsetningu eldra íbúðarhússins. Bærinn snéri stöfnum til suðurs og kálgarður var þar framan við, niður holtið sem bærinn er á.
Tún í órækt er sunnan við hólinn, í vesturhluta hans eru tré sem áður voru í bakgarði íbúðarhússins sem var rifið. Til annarra átta eru grasivaxin ræktuð tún.
Bæjarhóllinn er 50×35 metrar að stærð og snýr í austur-vestur. Hann er 0,2-0,4 m á hæð og fjarar út til suðurs. Bæjarhóllinn er horfi n til norðurs, þar eru 20. aldar útihús og malarplan. Ekki mótar fyrir upphækkun þar í landslaginu. Til vesturs sést bakki, um 0,2 metra hár. Þar var eldra íbúðarhúsið og sunnan megin við það hefur verið kálgarður til suðurs og austurs. Engin merki um tóftir sjást á honum og skemman hefur efl aust raskað honum þar sem hún
stendur. Það er greinilegt að mannvist er enn hér undir sverði, þrátt fyrir mikið jarðrask.

Gljúfurshellir (hellir/fjárhús)

Ölfus

Gljúfurhellir.

“Gljúfurshellir: (Hellirinn) Sandsteinshellir ofanvert (norðaustur) í Neðragilinu vestanverðu. Notaður lengi sem fjárhús,” segir í örnefnaskrá. “Gljúfurshellir er í lækjargili austan bæjar um 100 m neðan þjóðvegar. Nýleg fjárhús standa við læk nokkru ofan við hellinn.” segir í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi. Hellirinn er tæplega 550 m suðaustan við bæ og rúmlega 170 m vestan við nýleg fjárhús sem nefnd eru í Manngerðum hellum. Hellirinn sést ekki frá fjárhúsunum og ekki fyrr en komið er nær honum, hann er í gilinu norðanmegin.
Uppspretta er í gólfi nú innan við hellismunnann, en hún sést ekki lengur þar sem byggt hefur verið yfir hana. Hún rennur í lækinn sem er 3 metrum frá hellismunnanum. Litlir kindastígar liggja að hellinum beggja vegna við hann að norðan. Gilbotninn er grasigróinn, smáþýfður með villiblómum. Hellismunninn er tveim metrum ofan við lækinn.
Í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi er hellinum lýst. Þar segir: «Hann er grafi nn í sandsteinsvöluberg, lárétt lagskipt með víxillaga linsum. Hellirinn er allur á breiddina sem er 10-11 m en dýpt hans inn í bergið er 6 m fyrir miðju en 5 m til endanna. Lofthæðin er 2,0-2,5 m. Muninn er jafnvíður hellinum sjálfum 10 x 2,5 m en honum hefur verið lokað með hlöðnum vegg sem á eru dyr fyrir miðju. Lítið uppsprettuauga er í gólfi nu innan við munnann og smáspræna rennur út um hann í aðallækinn. Leifar af jötum sjást með veggjum […] Hellirinn var hafður undir fé, en aflagður fyrir 20 árum. 70 ær voru við hellinn segir Gljúfursbóndi.» Litlu er við þessa lýsingu að bæta. Steypt hefur verið utan með hleðslunum og sést aðeins í þær fyrir ofan steypuna. «Örfáar unglegar áletranir eru á veggjum. Þar er m.a. hakakross.» segir einnig í Manngerðir Hellar á Íslandi. Áletranirnar eru mjög ógreinilegar en tveir hakakrossar eru enn sjáanlegir. Steypustyrktarjárn og bárujárn eru í hellismunnanum, ekki sést lengur móta fyrir jötum. Veggirnir eru mosavaxnir og gólfið er moldargólf með smásteinum. Hæð veggjar er fyrir dyrunum er 1,2 metrar en veggir hellisins eru aflíðandi.

Gljúfurseldalur (sel)

Ölfus

Gljúfursel.

“Suður frá [Stórkonugilsbotnum] er Sognseldalur og Gljúfurseldalur,” segir í örnefnalýsingu Hengils. Á heimasíðu Ferlis segir: „Í Seldalnum eiga skv. framangreindu að vera tvær selstöður í tvískiptum Seldal, annarsvegar í Gljúfurseldal og hins vegar í Sognsseldal, ofan Sogns. Sognasel er í gróinni tungu norðan áa er koma úr Sognabotnalæk og gili norðanvert í dalnum. Vel sést móta fyrir tóftum.
Gljúfursel er austan við ána í Seldal, þar í gróinni kvos. Vatnsstæði er í kvosinni og í henni rétt sést móta fyrir tóftum. Um er að ræða mjög gamalt sel frá Gljúfrum. […] Skv. lýsingu Björns átti selstaðan að hafa verið austanvert í dalnum. Einungis tók skamman tíma að fi nna tóftina. Hún hefur verið felld inn í gróinn bakka og sjá má móta fyrir rýmum vestan við hana. Kaldavermsl eru sunnan við tóftina, sem án efa hefur verið hin ágætasta uppspretta.“ Ekki er hægt að sjá tóftir í Gljúfurseldal, dalurinn er lítill og vel afmarkaður. Sé tekið mið af lýsingum Ómars Smára Ármannssonar á heimasíðu Ferlis er einungis einn staður sem passar við lýsingar hans á staðnum. Selið var rúma 200 m norðaustan við Sognsel og rúmum 1,8 km norðan við bæ.
Austurhluti Gljúfurselsdals er gróinn og brattar brekkur afmarka þann hluta til austurs. Landið fer lækkandi til vesturs, að ánni, og rakt undirlendi er þar á kafla. Lækur rennur til vesturs, syðst í dalnum, og sameinast ánni. Selið var að öllum líkindum þar, á bakkanum sé tekið mið af lýsingum Ómars Smára. Ekki er hægt að greina mannvist á þessu svæði. Þegar skrásetjari var á ferðinni var mikill gróður þarna, allt að mittishár. Þarna eru þýfðir bakkar en ekki hæft að greina neina lögun eða tóftir í þeim.

Sogn (býli)

Ölfus

Sogn.

“Jarðdýrleiki xx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 398. 20 hdr. 1847. JJ, 75“.
1542: Þann 11.janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni. DI X, 698 – 699.
Landamerki: Skráð eftir minni úr landamerkjabréfi , afriti úr embættisbókum sýslumanns, sem var í eigu foreldra minna, en látið af hendi þegar þau fóru frá Sogni (1935)… Gljúfurá… er markaá milli Sogns og Gljúfurs, austan Sognslands, allt þar til Gljúfurholtslands tekur við. Mörkin eru úr steini (merktum) efst við Haukamýragljúfur, þvert vestur í Stórumýri í “stefnu á Varghól” (svo í bréfi nu) í hlaðna vörðu (Markavörðu) vestur undir Múla (sjá Reykjatorfu). Nú er girðing á þessum mörkum… Frá áðurnefndri vörðu bein lína um Fögrubrekku (miðja) til norðurs í vörðu, sem er austan á Álút (hana hef ég ekki séð), þaðan í Efjumýrarvörðu. Þaðan á sveitarmörkum Grafnings og Ölfus stefna til suðausturs í Sandfell (Gljúfur), skammt ofan við Klyftartungur. Þar eru 3 gil og mörkin talin um miðgilið, sem rennur í Gljúfurá, svo er það hún og Gljúfursáin.” Ö-Sogn, 1.

Ölfus

Sogn – túnakort 1918.

Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni. Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn. Nú er rekið fangelsi á jörðinni og hún nýtt til beitar.
1917: Heimatún 4.9. Fjárhústún 1.0 ha, alls 5.9 ha, allt slétt. Garðar 1250 m2.
“Bæjarnafninu Sogn hafa ýmsir velt fyrir sér og sett það í samband við norsku merkinguna Sogn (fjörður). Afi minn Ögmundur Ögmundsson bar það ævinlega fram Sodn eða Sotn. Í tilvitnun í handrit í Þjóðsögum Jóns Árnasonar III, bls. 48 er sagt að í handriti standi Soðn. Kannske er þarna á ferðinni eldri mynd af nafninu,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslunni Hengill og umhverfi eftir Kristinn Magnússon segir: “Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni. Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 45m í þvermál. […] Gamla bæjarstæðið á Sogni hefur verið sléttað. Enn stendur þó eftir áberandi hóll sem eflaust geymir leifar bygginga og mannvistarlaga frá þeim tíma er bærinn stóð á þessum stað..” Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920, suðvestarlega í heimatúninu. Hann er um 130 m vestan við núverandi byggingar á Sogni.
Bærinn brann en ekki er vitað hvenær, í kjölfarið var hann fl uttur. Stafnar eldri bæjarins snéru til suðurs og þaðan víðsýnt yfir Ölfusforir.
Sléttað var yfir bæjarhólinn en þar eru ekki byggingar á yfirborði. Hóllinn er sléttur, grasivaxinn og sést sem hæð í túninu. Hann er 50×30 m að stærð, 0,2-1 m
á hæð og snýr austur-vestur. Vírgirðing liggur yfir vesturhluta hans, meðfram Bæjargilinu.

Stóri-Hellir (fjárskýli)

Ölfus

Stóri-Hellir.

“Stóri-Hellir: Hellisgjögur í bergið ofan Hellisbrekku, sunnarlega í fjallinu, var notaður sem fjárhús áður. Notaður sem rétt þegar ég þekki til. Tók 100 kindur í innrekstri,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð.

Ölfus

Stóri-Hellir.

Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.” Hellirinn er um 300 m suðvestan við bæ og 100 m sunnan við Litla-helli 010. Hann er enn uppistandandi en ekki nýttur.
Hellirinn er í Hellisbrekku, þar á mörkum kletta og gróinnar brekku. Efst í brekkunni eru háir hamrar en gróin brekka neðan þeirra, niður að Hellismýri. Hellirinn er náttúrulegur og mesta lofthæð er 1,5 m. Hann er opin til austurs og þaðan er víðsýnt. Innst í hellinum eru tvö lítil gjögur, mögulega var hægt að skipta honum í fleiri hólf. Það eru þó ekki berghöld eða aðrar ristur í veggjum hellisins sem styðja þá tilgátu. Hleðslan fyrir framan hellinn sést enn, hún
er afar sigin. Hún er líkust öngli í laginu, og snýr norðaustur-suðvestur. Það er gróið yfir alla steina í veggnum. Réttin var opin til suðurs.

Litli-Hellir (fjárskýli)

Ölfus

Litli-Hellir.

“Litli-Hellir: Lítið gjögur undir stóru bjargi, sem fallið hefur úr fjallinu. Þar voru í mínu minni, hlaðnir kampar og einhvern tíman notað sem fjárhús,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristin Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli.” Litli-hellir er tæpum 230 m vestan við bæ og um 80 m sunnan við Trippakofa.
Litli-hellir er í gróinni brekku, neðarlega. Allt umhverfis er gróið svæði sem nýtt er til beitar. Litli-hellir er lítill og þegar skásetjari var á ferðinni var mikið gras á svæðinu sem gerði minjarnar óskýrar. Hellirinn er um 0,8-1 m á hæð, skrásetjari komst ekki inn í hellinn. Tóftin er fyrir austan hellinn. Hún er 4×2 m að stærð og snýr austur-vestur. Tóftin er opin til austurs en hvergi sést glitta í grjót í veggjum.

Kot (býli)
“Kot: (upp í Kot, uppi í Kot) Þar var bær ( í byggð 1896). Mun hafa verið stutt í byggð og bjó þar Eyjólfur Símonarson. Þar stóð heyhlaða, sér enn fyrir,” segir í örnefnaskrá. Bæjarstæði Kots sést enn, á túnakorti frá 1920 er útihús á sama stað. Tóftir bæjarins voru því notaðar áfram eftir að hann féll úr ábúð. Kot var rúmum 210 m vestan við bæ og 50 m sunnan við Ærhús.
Gróið tún, fast austan við Hellisfjall. Svæðið er í halla til suðausturs, niður að Hellismýri. Kristinn Magnússon lýsir minjunum svohljóðandi: “Um 10m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7m x 9m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.” Bæjarstæðið er 14×14 m að stærð og 0,2 m á hæð. Tóftin er sigin og sést illa. Hún er skeifulaga og þúst er til suðvesturs, mögulega veggur. Tóftin er opin til suðausturs. Það er líklega tóft hlöðunnar sem enn sést hér. Þeir eru 0,2 m á hæð og algrónir. Til suðausturs sést kantur, mögulega hluti af bæjahúsunum.

Stóri-Einbúi (þjóðsaga/huldufólksbústaður)

Ölfus

Stóri-Einbúi.

“Stóri-Einbúi: (Einbúinn, afbæjamenn kölluðu Sognseinbúa). Klettahóll í Einbúamýri, klofinn í kollinn. Í honum var gott skjól fyrir búfé. Þar bjó huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Jafnvel álfakirkja,” segir í örnefnaskrá. Í skýrslu Kristin Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn.” Stóri-Einbúi er um 720 SSV við bæ og rúmlega 160 m ASA við áfangastað. Hóllinn sker sig úr út úr landinu og er auðgreinanlegur úr mikilli fjarlægð úr öllum áttum.
Umhverfis Stóra-Einbúa er mýrlendi og þekur mýrastör og annar votlendisgróður stóran hluta af gróðurþekjunni.
Stóri-Einbúi er 60×40 m að stærð og snýr svo að segja austur-vestur. Hann er rúmlega 60 m hár. Einbúinn er grösugur til norðurs og suðurs, en gróðursnauður og erfi ður yfirfærðar til austurs og vesturs. Í skýrslu Kristin Magnússonar er Stóra-Einbúa lýst svo: “Hann er um 70m x 50m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið […]. Hann er stór og áberandi klettur sem rís upp úr flatlendinu í kring. Það er því ekki skrítið að frásagnir um Álfakirkju hafi tengst klettinum.»

Bakkárholtssel (sel)
“Sel: Þýft móbarð og melar norðvestan Sogna. Vatn frá því fellur í litlu gili í Selá í Seldalnum.
Þarna var selstaða frá Bakkárholti í Skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur fallinn niður vegna vannota Bakkárholts, 1703 (Jarðab. A.M.). Sér enn fyrir tóftum,” segir í örnefnalýsingu. Selið er rúman 1,7 km NNV við bæ og rúma 880 m vestan við Seldal. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina.”
Selið er á grónu svæði, skammt norðan við vírgirðingu sem afmarkar land Sogns. Mosi, gras og elfting er áberandi. Tvær tóftir eru á svæði sem er 18×16 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Í skýrslu Kristins segir: Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa.

Seldalur/ Sognsel (sel)
“Seldalur. Gróið dalverpi suðaustur af Selásnum, suður að ármótum Gljúfurár og Selár. Sognseldalur vestan Gljúfurár, Gljúfursseldalur austan. Þar var sel frá Sogni, sér enn tóftarbrot.
Stundum var heyjað þar, aldrei í mínu minni,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá fl öt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin (nr. 786) er 8,5m x 4,1m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2m í NV er önnur tóft á litlum grasivöxnum hól. Hún er 9,2mx7,3m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6mx6m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.” Selið er rúmum 880 m austan við sel og tæpum 1,7 km norðan við bæ. Selið er líkt og segir í örnefnalýsingu, vestan við Gljúfurá, þarna eru tær tóftir auk tveggja óljósari mannvirkja.
Rafmagnsgirðing á merkjum Sogns og Gljúfurs er 50 m austan við selið. Selið er á gróinni tungu, þarna er mosi, lyng og elfting áberandi. Landið lækkar til suðvesturs, að ánum. Mýrarvik, að Selá, er sunnan við tóftirnar. Svæðið er 50×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Gljúfurholt (býli)

“Jarðdýrleiki óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 404. 30 hdr. 1847. JJ, 75.
1522: Jörðin er nefnd í fjárskiptabréfi milli Hólmfríðar Erlendsdóttur og Eyjólfs Einarssonar, sonar hennar og systkina hans. DI IX, 87. “Mörk fyrir engjum Gljúfurholts voru mjög sérkennileg. Gömul árför í mörgum krókum á báða vegu. Austan gamall farvegur Gljúfurholtsár. Vestan gamall farvegur Varmár.” Ö-Gljúfurholt, 3.
1920: Tún 3.8 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 1025 m2.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2020.

Ölfus

Gljúfursel.

Ingunnarstaðasel

Eftirfarandi upplýsingar má lesa í „Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot.

Reynivellir
Reynivellir
Beneficial. 30 hdr. 1847. „Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.“ JJ, 100 (nmgr.) Staður, dýrleiki ekki gefin upp 1705 vegna þess að þá var jörðin í eyði eftir snjóflóð sem féll um 1699. Þá var henni skipt upp í 3 býli, Nýjabæ, Austurkot og Vesturkot sem öll voru í byggð.
Kirkjunnar á Reynivöllum er fyrst getið í máldaga Ingunnarstaðakirkju og kirkjunnar í Eyjum: [1180]: „ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,“ DI I, 266.
[1180]: „Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reynevollom;“ DI I, 267. c. 1200: „veisla ger mót Páli bp á yfirreið,“ Biskupasögur I, 340.
1200: Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls biksups. DI XII, 9. Í máldaga kirkjunnar frá 1352 segir: „a kirkian. allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. kiosar sker. fiogara tiga sauda beit j mula lannd. lamba hofnn j eilyfsdal. ellefu tigum. ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. er annar kastar skurdur j eyiarlannd. þridie til valldastada. xij rossa beit j þufu lannd. vj j eyrar lannd.“ DI III, 70-71. Næsti máldagi kirkjunnar sem varðveist hefur er frá um 1367: „xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann.“ DI III, 219. Í Vilcinsbók frá því um 1397 segir: „a heimaland allt. Sornsland. þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnada.“ DI IV, 116-117. Í mádlaga Eyjakirkju frá 1397 segir: „[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. paskadag oc kyndilmessv.“ DI IV, 116. Í máldaga Ingunnarstaðakrikju frá því 1397 segir: „ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia,“ DI IV 118. Í máldaga kirkjunnar frá því um 1478 segir: „Mariukirkia a reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. þridiunng j laxfosse. siofarfoss allann. kiosarsker. bollstædijnngahyl. ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. kastar skurd j vinndas lannd. annan j þorlaksstada lannd. þ[ridia] j ualldastada lannd. tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. xij hrossa beit a veturinn j þufu land. vj hrossa beit [j] eyrar lannd.“ DI VI, 178-79. 1486: Bréf um kirkjuna. DI VI, 586-87. 1575: Máldagi kirkjunnar. DI XV, 632-633. 1847: „Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.“ JJ, 100 (nmgr.). Einnig var um tíma búið á Reynivallaseli og á Gerði en þar var byggt timburhús yfir vinnumann um 1930.
1705: „Túnin eru stórlega fordjörfuð, þau eru sjálum heimastaðnum fylgdu, og mikinn part eyðilögð, og er jafnan voði fyrir meiri skaða, so að ekki dirfast menn bygð að setja í hinu forna bæjarstæi síðan snjóflóð 1699 yfirfjell staðinn, braut hús, deyddi prestinn og 6 manneskjur aðrar, en beinbraut og limlesti þá, sem þó urðu með stórerfiði úr snjóflóðarústunum með mannsöfnuð upp mokaðir og náðust lífs, en þó að bana komnir. Engið, sem þó er bæði gott og mikið, skemmir stundum Laxá með grjóti og aur, þar með eru foruð á engjavegi, so að ekki verður tilsókt nema brúkað sje. Landþröngt er, so að ábúendur verða engið að beita, því að heimahagar eru mikinn part fordjarfaðir af skriðum.“ JÁM III, 425. 1847: „Hve mikinn fénað prestsetrið Reynivellir framfæri, skýrir prestur eigi frá, en segir, að 5 kúg. fylgi heimajörðunni, og að túnið sé undirorpið skemmdum af snjóflóðum og aurskriðum, ef eigi árlega er við gjört með mannafla og kostnaði. Staðurinn á rétt til móskurðar og skóg til kola á Vindási, svo og skógarreit í Reynivallatúngum í Skoradal, en óvist var (1839) hvort hann á laxveiði í Laxá, sem eigi heldur í mörg undanfarin ár hefir verið notuð.“ JJ,

Reynivellir (eldri bær)

Reynivellir

Reynivellir.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir m.a.: „Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldreiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar ríðir fluttar. Er í staðinu þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja, gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.“ Elsti bærinn á Reynivöllum var nálega 30 m ofan við gömlu kirkjuna fast norðaustan við kirkjugarðsvegginn. Snjóflóð féll á bæinn 1699 og eftir það var hann fluttur um 200 m til SSA um 50 m neðan og VSV við núverandi íbúðarhús. Bærinn var á lágum, grasigrónum og grýttum hæðarrana norðaustan við kirkjugarðinn sem hallar um 5° í suðvestur. Lækur rennur rétt norðvestan við hólinn og kirkjugarðinn. Ofan við hæðina tekur við grasigróin brött brekka svo að bærinn hefur verið efst í heimatúni. Í Kjósarmenn segir m.a.:“… segir Fitjaannáll þannig frá þeim atburði [snjóflóði 1699], og getur jafnframt síra Odds: „Þann 15. janúar (1699), sem var sunnudagskvöldið fyrsta í þorra, eftir húslestur, skeði það voveiflega og hryggilega tilfelli á Reynivöllum í Kjós, að snjóflóð hljóp á staðinn og tók öll hús nema kirkjuna, smiðjuna og fjósið.[…] Síðan hefur sjálfur heimastaðurinn ekki verið uppbyggður, heldur lítið nýbýli [Nýibær] skammt frá.“ Þar sem bærinn stóð er mjög þýft og grýtt en engar tóftir sjást. Greina má lága hæð norðaustan við kirkjugarðinn sem er um 40×40 m að flatarmáli en innan við 1 m á hæð.

Kirkjugarður (kirkja)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldeiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar tíðir fluttar. Er í staðinn þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.“ Kirkjan á Reynivöllum stóð áður inni í kirkjugarði, um 190 m NNV við nýja bæinn 003 en rétt suðvestan við elsta þekkta bæjarstæðið á Reynivöllum. Kirkjan, sem byggð var 1859 (004), var færð úr garðinum (fyrir 1917), í um 100 m til suðausturs þar sem hún stendur nú. Garðurinn og kirkjan snúa bæði VNV-ASA eða samsíða dalnum. Garðurinn er í aflíðandi halla til suðurs. Hann er stór og í honum fjöldamargar grafir. Garðurinn hefur greinilega verið stækkaður til suðurs og líklega til vesturs líka. Vírgirðing er umhverfis garðinn. Að norðan (norðaustan) er steinsteyptur kirkjugarðsveggur en að austan (suðaustan) þar sem aðkoman er að garðinum er grjóthlaðinn garður sem greinilega hefur nýverið verið endurhlaðinn. Garðurinn er nú (2003) um 55 X 60 m að stærð. Merki fjölmargra grafa sjást þó garðurinn hafi verið sléttaður að hluta. Elstu merktu leiðin eru frá því snemma á 19. öld en örfá ómerkt leiði sjást. Mikið hefur verið gróðursett í garðinn af ösp, birki og greni. Ekki er mjög greinilegt hvar kirkjan stóð en auður blettur er þó í garðinum, nálega í miðjum gamla garðinum. Er líklegast að kirkjan hafi verið þar. Bletturinn er um 15 m sunnan við við norðurhlið en 20-30 m vestan við austurhlið. Snemma á 20. öld lá leiðin heim að bænum fast neðan við kirkjugarð og kirkju en rétt ofan við bæ. Vegurinn lá áður um Kirkjustíg. Kirkjustígur byrjaði „vestur við Kipp á Hjallholti [sem er holtið upp af kirkjunni] heldur smáhækkandi, rétt austur að Þinghúsgili, er síðar getur. Síðan aftur til baka og áfram í
krókum,“ segir í örnefnaskrá. REYNIVELLIR Í KJÓS (K) -Maríu [1180]: „ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,“ Máld DI I 266 [Ingunnarstaða]. [1180]: „Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reyne vollom,“ Máld DI I 267 [Eyja]. C. 1200: „veisla ger mót Páli bp á yfirreið,“ Jarteinabók 1200, Bsk I, 340. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 9. 1352: „Anno domini M°. Ccc°. L°. Secundo a þridia are biskups doms virduligs herra gyrdiz med gudz näd biskups j skalhollte so sem hann kom a[t] reynevollum j sinni visitacione reiknadist suo mikid gotz þad er kirkian ätte. Jnn primis vij manna klædi med hoklum. Iij kalekar. Þriar kanntara kapur. Ein med pell. Avnnur ed lynvef. Þridia med salun. Vj. Anntependia til vtalltara. Fimm anntependia til haalltaris. Vj. Alltarisdukar. Iiij. Sloppar. Tabulum fyrir alltare oc brijk medur. Smelltur kross oc skrijn. Glodarker. Baksturjarn. Glodaker elldbere. Vijgdz vatz ketill. Iij kerttistikur. Ein ampulla. Ein sacrarij munnlog. Tiolld vmhuerfi kirkiu. Og ad auk steintialld oc hrijnnga refil. Eitt fonntklædi oc skirnarsär. Mariu skript oc nicholas skript og gRadulae cum sequencijs. Iij lesbækur j are per anne circulum de sanctis oc de tempore. Songbokur per anni circulum tuær Euanngeliorum. Martyrjlogium. Capituliarius oc enn nockrar fornar bækur þær sem litit skolu. Fiorar samhrijngiur. Ij smaklockur oc ein vtiklocka. A kirkian. Allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. Þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. Kiosar sker. Fiogara tiga sauda beit j mula lannd. Lamba hofnn j eilyfsdal. Ellefu tigum. Ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. Er annar kastar skurdur j eyiarlannd. Þridie til valldastada. Xij rossa beit j þufu lannd. Vj j eyrar lannd. Seautian kyr. Xij ær. Viij ross. Ij hundrat j metfie. Ij hunndrad j vidum. Fiordung vax. Ij presta skylld og diakns.“ Máld DI III, 70-71.
[1367]: „xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. Þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann les Vilchinzbok þui þetta ber samann,“ Hítardalsbók, DI III, 219.
1397: „a heimaland allt. Sornsland. Þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. Tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnadal [+kastarskurði, beit, sauðahöfn, skjól í helli, lambarekstur, hrossabeit] er aa Þessu fie tveggia presta skylld og diakns. Portio medann sira Finnur hiellt halftt atta hundrad. Enn medann sira Vigfus hiellt ccc. Oc xiiij aurar. Jtem hefur sira Finnur lagtt til kirkiunnar halft Þridia hundrad,“ Máld DI IV, 116-117.
1397: „[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. Paskadag oc kyndilmessv. Þar skal lvkast c presti,“. Máld DI IV, 116 [Eyja]. 1397: „ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef Þeir vilia.“ Máld DI IV, 118 [2 merkur, Ingunnarstaða]. [1478]: „Reyniveller j kios. Mariukirkia a
reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. Þridiunng j laxfosse. Siofarfoss allann. Kiosarsker. Bollstædijnngahyl. Ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. Kastar skurd j vinndas lannd. Annan j þorlaksstada lannd. Þ[ridia] j ualldastada lannd. Tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. Xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. Lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. Xij hrossa beit a veturinn j þufu land. Vj hrossa beit [j] eyrar lannd. Jtem þetta a hun jnnan sig et cetera. Jtem fiorar merkur vax. Jtem vij kyr oc eina kuijgu tuæuetra. Ix ær oc hrut tuæuetrann. Ij hesta er uoru metnir fyrir iij merkur bäder samann. Ij sænngur lettar. Halfa þridiu vod. Einn pott heilann oc annan brotinn. Eina munnlog sterka. Viij fiordunnga ketil oc annann vonndann. Eitt tinfat. Iij trefot.“ Máld., DI VI, 178-79 [Þjsks Bps A II, 1, bl. 121a-b – vitnað er í þannan máld. Í virðingargerð frá 2.11.1486 og mun hann því vera frá seinni hl. 15 aldar]. 2.11.1486: „Bref wm kirkiugiord aa Reyneuollum. Þath giorer ek arne prestr snæbiarnarson officialis heilagrar skalholltzkirkiu j mille huitar j borgarfirde ok helkunduheidar skalholltzbiskupsdæmis godum monnum viturligt med þessu minu opnv brefi at þa er ek reid j mitt profastdæme nidri wm gullbringu kom fyrir mik sira nikulas arnason sem þa hellt Reynevallar stad j kios. Beiddj hann mic ok krafdj vpp aa laganna vegna at sia ar at kirkiunne ok stadnum er hann villdj standa
sinne kirkiu reikninigsskp. Kalladj ek til med mier sex skælega menn presta ok leikmenn. Hafdj hann latid giora kirkiuna ok stadinn þa hann tok med. Var þa kirkia giord fyrir þriu hundrut. Enn stadurinn fyrir fimm hundrut. Jtem giordum vjer þa kirkiuna fyrir tuttugu hundrut enn stadinn fyrir fimtan hundrut. Atti kirkian at vera med golfi ok beckium. Ok aull vnder hellu. Fell þa aptur seytian hundrut fyrir kirkiubota. Enn tiu hundrut fyrir stadarbota. Hier med lagdj adrgreindur sira nikulas kirkiunne. Tiu hundrut j bokum ok messuklædum. Jtem stod þa epter j porcio ok mortuaria tuttugu hundrut. Var fyrgreindr sira nikulas hier med aullungis kvittur wm allan fornan reikningsskap kirkiunnar aa Reyneuollum fra þui er hann tok stadinn ok framan til þess sem þa war komet. Skylldj þesse fyrr greind tuttugu hundrut leggiazt kirkiunne til jnnstædu æfinlega hier epter þui hun var litil adr. Skylldj þesse tuttugu hundrut lukazt j suo uordnum peningvm. Tiu malnytu kugilldi ok tiu hundrut j aullvm þarfligvm peningum fridvirtvm. Jtem var adr gomul jnnstæda vij kyr ok tuæutur kuiga milk. Ix ær tuæuetur hrutur ok .ij. Hestar firir iij. Merkr bader ok þath at auk sem skrifath stendr jnnan gatta. Ok til sannennda hier vm settj ek officialatus jnscigle fyrir þetta bref skrifath aa Reyneuollum j kios fimtudaginn næsta epter festum sanctorum omnium anno dominj. M°. Cd° lxxx° sexto.“ Virðing DI VI, 586-87 [Þjsks Bps Fasc. XII, 1, frumrit á skinni; AM Apogr. 2442]. 1575: Máld DI XV, 632-633. 26.2.1880:
Saurbæjarsókn lögð undir Reynivelli; (PP, 112) [lög].

Gíslagata (leið)

Gíslagata

Gíslagata.

„Deplhálsar eru hæðir neðst í brekkunum. Þar vestur af er dalur, sem heitir Borgardalur, og austur við þann dal er klapparholt, sem heitir Gíslholt. Það holt er alveg á merkjum. Upp af holtinu er Gíslagata, og Gíslalækjardrög eru þar uppi á hálsi ofan við brúnir. Þaðan kemur Gíslalækurinn, sem er á merkjum,“ segir í örnefnaskrá. Í Árbók ferðafélagsins frá árinu 1985 í grein eftir séra Gunnar Kristjánsson segir: „Önnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til
norðurs yfir Hálsinn.“ Gíslagata lá upp á Reynivallaháls í norðaustur upp með Gíslholti og meðfram Gíslalæk á landamerkjum milli Reynivalla og Vindáss GK-347 um 2,2 km suðaustan við bæ 003. Gatan er ennþá mjög greinileg á hálsinum. Á þessu svæði niðri á jafnsléttu er skógræktargirðing og malarvegur. Hlíðar Reynivallaháls eru þarna lítt grónar og grýttar. Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg 356:026 ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt.

Seljadalur/Reynivallasel

Reynivallasel

Reynivallasel.

„[Björn Erlendsson] … Byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921. Kjósarmenn, 195-196. „Neðan við Brattafell eru Selflatir. Þar var sel áður fyrr og sá enn fyrir tóftum, þar til aurskriða lagði þær undir fyrir nokkrum árum. Sel þetta er rúmlega 2 km. Frá bænum. Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel.“ Ö-Hækingsdalur, 9. „Þar var byggður lítill bær og fjenaðarhús … Er á Seljadal ágætt sauðfjárland, mýraflói og lyng og furðu hagsælt. Lítið tún var ræktað umhverfis þetta býli.“

Reynivallasel (sel)

Reynivallasel

Reynivallassel í Seljadal – uppdráttur ÓSÁ.

„Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,“ segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í bókinni Kjósarmenn segir svo: „[Björn Erlendsson] … byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og
nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921.“ Bærinn Reynivallasel er í Seljadal um 4,7 km ASA við Reynivelli og um 2,8 km SSA við Fossá, í litlu dalverpi um 1 km SSA við mynni Seljadals og um 400 m austan við Seljadalsá við suðvesturrætur Hornafells.
Seljadalur er um 2 km langur, 0,5-1 km breiður og snýr norður-suður. Gengið er inn í dalinn að norðanverðu úr Fossárdal upp nokkuð brattar grasigrónar brekkur sem halla í 10-45° til norður. Seljadalur er vel grasigróinn og þýfður en á köflum er dalurinn nokkuð deigur á bökkum Seljadalsár, sérstaklega í dalnum vestanverðum. Seljadalsá liggur norður-suður um miðjan dalinn. Umfangsmiklar hálfgrónar skriður eru í dalnum austanverðum undir Hornafelli um 400 m sunnan við bæjarstæðið í Seljadal. Einnig var hægt að ganga yfir í dalinn miðjan að vestanverðu frá syðri landamerkjum Reynivalla um Gíslagötu. Umhverfis Reynivallaselsbæ er vel grasigróin þýfð brekka sem hallar í 5-20° til vesturs í norðvesturhlíð/rótum Hornafells.
Þegar gengið er inn í Seljadalinn að norðanverðu sést ekki til bæjarins fyrr en komið er 300-350 m inn í dalinn. Seljadalur er mjög grösugur en trúlega hefur ekki mikið verið gert af því að slétta tún á þeim tíma sem búið var í dalnum. Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar segir: „Seljadalur dregur nafn sitt af seli sem var þar frá prestsetrinu á Reynivöllum. Tóft sem er alveg að hverfa er það eina sem minnir á selið. … Selið í Seljadal var byggt upp aftur að einhverju leyti því að í því var búið í nokkur ár, líklega frá því um 1870. Föðurbróðir Hannesar [Guðbrandssonar í Hækingsdal f.1897] bjó þar síðastur manna til ársins 1921.“ Í Innsveitum Hvalfjarðar segir Kristján Jóhannsson um Reynivallasel: „Rústirnar eru allmiklar og ekki auðvelt að ráða í hvernig húsaskipan hefur verið … Útihúsarústir eru skammt frá bænum, ögn ofar. Rétt norðan við bæjarhólinn er réttin og er hún mjög fallin.“ Eins og áður var sagt er bæjarstæðið í litlu grasigrónu dalverpi á milli tveggja lækjargilja að norðan og sunnan sem eru 1-2 m djúp og 0,5-4 m á breidd. Svæðið sem flestar tóftirnar á er um 100 x 80 m að stærð, snýr austur-vestur og hallar í 5-20° til vesturs. Tóftirnar eru vel grasigrónar en hleðslur standa að mestu nokkuð hátt þó þær séu sannarlega víða mjög signar. Þrjár tóftir og tvær þústir voru skráðar á svæðinu. Norðan við nyrðra lækjargil eru svo tvær tóftir til viðbótar utan svæðis.

Sel

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel.

„Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,“ segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir um Vindás: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal.“ Falleg seltóft er innst í suðausturenda Seljadals á austurbakka Seljadalsár, um 1 km sunnan við Reynivallasel. Tóftin er um 3,3 km NNV við Hækingsdalsbæinn en aðeins um 900 m NNV við mót landamerkja milli Hækingsdals, Vindáss og Seljadals. Á þessu svæði er grasigróinn árbakki Seljadalsár. Tóftin er vestan undir 2-3 m háum hól, 2-4 m í austur frá ánni þar sem hún rennur niður í Seljadal að SSAverðu. Tóftin er þrískipt, um 15×5-10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggir tóftarinnar eru um 2 m á breidd, 0,4-1 m á hæð og mjög grasigrónir. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar.

Vesturkot
Hjáleiga Reynivalla, í byggð 1705: „Vesturkot, þriðja býli, gömul hjáleiga.
Dýrleikinn óviss, telst með heimastaðnum.“ JÁM III, 424. Byggð lögð niður árið 1877 samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Péturson (bls. 194). Á túnakorti Reynivalla frá 1917 stendur um Vesturkot: „Túnblettur, grýttur sumstaðar og raklendur, ekki notaður.“
„Skammt fyrir utan bæinn að Reynivöllum er gil á merkjum móti Sogni. Það heitir Kotagil. Þar inn af heitir Vesturkot. Þar var býli austur frá gilinu,“ segir í örnefnaskrá. „Kotin voru tvö, Vesturkot og Austurkot. Austurkot var nokkru austan við Reynivelli. Það fór úr byggð fyrir aldamót. Vesturkot var fyrst nefnt Sólbrekka,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Í bókinni Kjósarmenn segir um kotið: „Arnór Björnsson og fyrri kona hans Lilja Jónsdóttir tóku við búi í Vesturkoti af móður Lilju, og bjuggu þar 1857-1877, voru þau síðustu húsráðendur í Vesturkoti, við brottför þeirra var kotið lagt undir heimajörðina Reynivelli.“ Þar segir einnig: „Þessi bær var nefndur Sólbrekka 1753, en ekki hélzt það.“ Tóftir Vesturkots eru um 270 m NNV við Reynivelli, um 460 m NNV við Nýjabæ og um 95 m suðaustan við landamerkjagarð. Á þessu svæði er grasigróin, grýtt brekka sem hallar í 5-20° til suðvesturs, fast suðaustan við landamerki Sogns og Reynivalla. Í bókinni Ljósmyndir IIa eftir Halldór Jónsson kemur fram að um 1900 voru í Vesturkoti aðeins rústir af bæjarhúsum og léleg fjárhús ásamt heykumli. Túnbletturinn var sleginn af prestsetrinu en síðar notaður sem kúahagi. Svæðið sem Vesturkotstóftir ná yfir er um 35×25 m stórt og snýr norðaustursuðvestur. Bæjarstæðið er mjög sigið og illa farið vegna ágangs búpenings en þó grasigróið. Bæjartóftin er um 22×17 m stór og snýr norðaustur-suðvestur. Veggir eru grjót- og torfhlaðnir, 0,4-1,5 m á hæð og 2-5 m á breidd. Grjóthleðslur eru signar en greinilegar.

Sogn
Sogn
1705: 12 hdr. 1705, Reynivallakirkjueign. JÁM III, 426. 1352, [1367] 1397 [1478]: Jörðin eign Reynivallakirkju. DI III, 70-71, DI III, 219, DI IV, 116-117, DI VI, 178-79.
Árið 1705 er jörðin nefnd Sofn eða Sogn, 1840 Sorn en 1847 Sogn. Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255. 1705: „Tún eru lítil og fordjarfast mjög af skriðum. Engið er gott en ærið votlent mikinn part og forað yfir að sækja, sem brúka þarf.“ JÁM III, 426. 1840: „… heflir lítið tún og veitiland, en engi mikið á Laxárbökkum, vantar mótak …“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255.
Bærinn Sogn er við rætur Reynivallaháls, um 400 m ASA við Valdastaði og um 1,4 km VNV við Reynivelli. Á þessu svæði er núverandi íbúðarhús byggt 1946, sléttað malarplan, gamalt steinsteypt fjós og stór barrtrjáreitur við norðvesturhorn fjóssins. Fast framan og SSV við malarplanið er brekka með lauf- og barrtrjálundi og malbikaðri heimreið heim að bænum. Brekkunni hallar í 5-10° til SSV. Bæjarlækurinn er enn á sínum stað og rennur hann til SSV vestan við bæ en ábúendur hafa þó breytt rennsli hans neðan við gamla bæjarstæðið en þar rennur hann nú áfram í SSV í stað þess að beygja í SSA eins og sést á túnakorti frá 1917. Samkvæmt Snorra Ö. Hilmarssyni bónda á Sogni voru öll þau tré sem nú standa á bæjarstæðinu gróðursett árið 1991. Á heimasíðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands er að finna almennar upplýsingar um Sogn í Kjós og ljósmynd af bænum frá því um 1918.

Heimildamaður er Ingunn Þormar f.21.11.1921 en hún var í sveit að Sogni á sumrin frá 1926-1931. Þá var tvíbýli að Sogni. Þar segir m.a.: „Ekki er vitað hvenær bærinn var byggður en hann var rifinn um 1935 og steinhús byggt í staðinn. … [Torfbær á ljósmynd frá 1918 og á túnakorti frá 1917:] Frá hægri: 1. Geymsla fyrir reiðtygi, ljái og allar þurrar vörur en áður fyrr bjuggu þarna foreldrar Gróu [Guðlaugsdóttur] og Jakobs [Guðlaugssonar]. 2. Inngangur. Ef farið var strax til hægri var gengið inn í geymsluna þar sem foreldrar Gróu [Ragnhildur Guðmundsdóttir og Guðlaugur Jakobsson] bjuggu áður. Innar voru hins vegar 3 tröppur og þar til hægri var herbergið þar sem Ragnhildur [Guðmundsdóttir], móðir Gróu, bjó nú en til vinstri var gengið inn í baðstofuna. 3. Þarna var búr og inn af því eldhús. Innar var síðan baðstofan þar sem heimilisfólkið bjó gisti [svo]. Í baðstofunni voru 4 rúm, 2 sitt hvoru megin. Oft var því tví- og þrímennt [svo] í hverju rúmi. 4. Smiðjan. Þar vann Jakob, se [svo] var járnsmiður, við að búa til skeifur og brýna ljái. 5. Geymslur fyrir Jakob, svipaðar þeim er Gróa og Sigurjón [Ingvarsson f. 29.10.1889] höfðu í húsinu lengst til hægri. 6. Steinhús [trúlega vestan við Bæjarlæk] þar sem Jakob bjó með fjölskyldu sinni. [Það sem ekki sést á ljósmynd:] Hægra megin við bæinn var fjósið [í bæjarröðinni samkvæmt túnakorti frá 1917], fjárhúsin [hugsanlega 008] voru vinstra megin en myndin er tekin fyrir framan hlöðuna [sjá 002]. … Segir Ingunn að allur fatnaður hafi verið skolaður úti við læk eftir að hafa verið þveginn inni í eldhúsi. Til að ná sem mestu vatni úr hverri flík voru þær lagðar á stein og spýtum slegið í fötin. Það var útikamar við bæinn [nákvæm staðsetning óþekkt] … Trégólf í baðstofunni en moldargólf annars staðar. Trégólfið var þvegið upp úr sandi. Vatn og sandur notað til að þvo gólfið, strigapoki notaður sem tuska. Bærinn var kyntur með taði og mó, … Sérstök kynding kom ekki í baðstofuna fyrr en 1928 þegar fyrsti ofninn kom þangað.“ Samkvæmt túnakorti hefur bæjarstæðið verið a.m.k um 50×50 m að stærði. Á þessu svæði var m.a. sjálf bæjarröðin sem virðist hafa verið um 30×15 m að flatarmáli og snéri VNV-ASA, hlaða, þrjú útihús (002-004) og kálgarður 021. Gengið var inn í bæ að sunnanverðu. Engin greinileg merki um gamla bæinn eða bæjarhól.

Sognssel (sel)

Sognsel

Sognsel.

„Úr Sandfellstjörn rennur Fossá. Vestan við hana, nokkru eftir að hún fellur úr tjörninni er Sognssel og eru rústir þess enn mjög greinilegar. Frá Sandfellstjörn gengur kvos til norðurs inn í Hryggi og heitir Hryggjardalur,“ segir í örnefnaskrá Bjarna Ólafssonar frá Króki. „Austan við tjörnina er Sandfellsflói, blautur og víðáttumikill, austan við tjörnina, en líklega heitir hitt öðru nafni. Þar var sel, sem heitir Sognssel. Það er nokkuð eftir að Fossá fellur úr Sandfellstjörn, og eru þar gamlar rústir,“ segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar. Sognsselstóft er um 1,6 km ANA við bæ 001, um 4,9 km suðaustan við Sogn 350:001 og um 250 m norðvestan við Sandfellstjörn. Seltóftin er fast utan í 2-4 m háu holti að suðvestan. Holtið er aflangt, um 250 m á lengd, um 150 m á breidd og snýr NNA-SSV. Hlíðar holtsins eru þýfðar og mosa-, grasi- og lyngigrónar en holtið er þó ógróið í toppinn. Sognsselstóft er fjórskipt, ferköntuð og grjóthlaðin. Hún er um 8 x 7 m stór og snýr NNA-SSV. Veggir tóftarinnar eru 1-2 m á breidd og 0,5-1,2 m á hæð en hleðslur eru víða nokkuð signar og grasi- og mosagrónar. Gengið var inn í tóftina á VNV-hlið gróflega fyrir miðju eða um 4 m frá
norðvesturhorni tóftar.

Hvítanes
Hvítanes
20 hdr. 1705. JÁM III, 435. 1585: Jörðin gefin í arf. Metin á 20 hdr. Jarðabréf, 18. Í eyði frá um 1942, í Hvítanesi byggði herinn mikið af byggingum, herskálahverfi o.fl. og lagðist jörðin því í eyði. Vígdrekar og Vopnagnýr, 69-76. Í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson segir: „Jón Helgason og síðari kona hans Lára Þórhannesdóttir bjuggu í Hvítanesi 1933-1941, en hrökkluðust þaðan er jörðin var hernumin. Þar hefur ekki verið búið síðan.“ Kjósarmenn, 81. 1705: „Túnum og úthögum spillir fjallsskriða. Engjar eru nær öngvar, því skriður hafa mestan part eyðilagt þær litlar sem voru.“ JÁM III, 435. 1840: „… þar er stór tún, rammþýft. Engi lítið grasgott og lítið land til veitar – ekki óhult fyrir aurskriðum á túnið.“ SSGK, 255. Túnakort 1917: „Mest alt túnið sléttað, smáblettir og jaðrar þýfðir. Tún telst 5,9 t. (Mikil útgræðsla). Kálgarðar m2.“
„Kálgarður var austan við bæinn, en þegar byggt var, 1914, var gamli bærinn jafnaður við jörðu og gerður kálgarður þar; hann var þá vestan við bæinn. Snúrur voru framan við bæinn. Talið var vita á þurrk, þegar lét hátt í Glym í Botnsdal,“ segir í örnefnaskrá.
Í bókinni Ljósmyndir segir um Hvítanes: „Bætti Sveinbjörn [Einarsson, kemur 1907, fer 1921] mikið túnið í Hvítanesi, byggði þar lítinn steinbæ í stað baðstofunnar gömlu og stendur hann enn að mestu. … Var jörðin Hvítanes mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fénaðarhús. Allt þetta mátti heita í góðu lagi, er herstjórnin tók jörðina til sinna umráða [árið 1941].“ Bæjarhóllinn á Hvítanesi er suðvestarlega á nesinu um 200 m norðan við Hvalfjarðarveg, um 3 km NNA við Reynivelli og um 2,5 km VNV við Fossá.
Hvítanes hefur verið í eyði síðan herinn yfirgaf Ísland eftir seinni heimstyrjöldina fyrir utan lítinn sumarbústað norðaustarlega á nesinu. Hvítanes er vel grasigróið, sérstaklega bæjarhóllinn, en brenninetlur eru búnar að breiða úr sér, sérstaklega á gömlum steingrunnum herskálanna. Landið hallar í um 5-20° til NNA. Á austan- og norðaustanverðu nesinu er láglent við sjóinn en að norðvestan og vestan hækkar landið mjög til suðvesturs. Þverhnípt er niður í sjó um 180 m vestan við bæinn.
Bæjarhóllinn á Hvítanesi virðist alveg óraskaður af hernum, a.m.k. í kring um bæinn sjálfan. Hóllinn er ekki mjög skýr en hægt er að greina óljósa 0,5-1,5 m háa hæð í landinu þar sem bæjarhúsin standa, á svæði sem er um 70 x 50 m stórt og snýr ASAVNV. Steinveggir yngsta íbúðarhúss 001B sem byggt var 1914 standa ennþá uppi illa farnir en þakið er horfið. Steypuklumpar sem liggja á víð og dreif inni og utan við íbúðarhúsið og gömlu útihúsin sýna að veggirnir eru smám saman að hrynja. Leifar skorsteins liggja í grasinu um 4 m norðvestan við rústir íbúðarhússins. Lítil op í hleðslu íbúðarhússins, neðst við jörðu gefa vísbendinu um að hugsanlega hafi verið kjallari undir húsinu. Útlínur kálgarðs 008 sjást ennþá en engin greinileg ummerki eru sjáanleg um gamla bæinn sem þar stóð áður. Steypan sem notuð var í að reisa yngsta húsið er mjög gróf og samsett úr fjörumöl, sandi og sementi. Veggirnir eru um 20 cm á breidd og 1,5-3 m hæð. Yngstu útihúsin voru einnig steinsteypt. Grunnur íbúðarhúss er 8×8 m að stærð. Gengið hefur verið inn bæinn að norðvestan. Fast norðvestan við húsið norðaustan við innganginn glittir í lágar grjóthleðslur sem eru trúlega leifar lítils timburskúrs, 4×4 m að stærð, sem sýndur er á túnakorti. Yngstu útihúsin eru um 2 m ANA við íbúðarhúsið, þau eru þrískipt og um 12×12 m að stærð. Þau hafa verið byggð eftir 1917 því þau eru ekki sýnd á túnakorti Hvítaness. Útihúsin voru steypt upp að norðvestanverðri útihústóft 004 sem búið var að hlaða 1917 því hún er sýnd á túnakorti. Hægt var að ganga inn í útihúsin bæði að norðaustan og suðvestan.

Þrándarstaðir
Þrándarstaðir
20 hdr. 1705. Bænhús var á jörðunni. JÁM III, 437-438. 1705 er nefnd nafnlaus eyðihjáleiga, í byggð um 1675-1700. Talin vera sama jörð og Þorbjarnarstaðir nefndir í Harðarsögu sem talin er rituð á fyrir hluta 13. aldar. ÍF XIII, xlix. Jörðin nefnd í dómabréfi 1509 vegna úrskurðar um eignarétt á henni. DI VIII, 284. Bændaeign. 20 hdr. 1847. „Prestur einn nefnir Þrándarstaði „neðri“ og „efri“. Skálholtsstóls hjálendan er talin í jarðabóks stólsins 13 2/3 h. að dýrleika.“ JJ, 101 (nmgr.). 1840: „… heyskapur er ekki mikill, en beitarland betra og útigangur nokkur.“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu, 254-255. Túnakort 1917: Tún 6,4 teigar, meira en 1/2 sléttað, garðar 1100 m2.
Bæjarhóllinn á Þrándarstöðum er að mestu óhreyfður. Hann er tæpum 200 m neðan (norðan) við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum. Grösugur hóll í sléttu túni. Hóllinn er stæðilegur. Síðustu leifar á honum voru nokkurra kálgarða en úr þeim hefur verið sléttað. Ryðja átti úr hólnum á síðari hluta 20. aldar en hætt var við það vegna þeirra minja sem þar kynnu að leynast. Þó var aðeins rutt úr austurhlið hans og jafnvel örlítið að sunnan. Norður- og austurhlið eru mun brattari heldur en aðrar hliðar. Samtals er bæjarhóllinn 40×30 m stór og er 2-3 m á hæð þar sem hann er hæstur. Dældir eru í hólnum en ekki sér móta fyrir neinum tóftum. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og allur húsakostur illa þekkt.

Bænhús
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Þrandarstader. Hjer hefur til forna bænhús verið, og heitir þar enn nú Bænhústóft í túninu. Enginn minnist sá, sem nú er á lífi, nær það hafi eyðilagst.“ Ekkert er nú (2006) vitað um staðsetningu bænhúss á Þrándarstöðum en líklega hefur það verið nálægt gamla bænum á bæjarhólnum. Bæjarhóllinn er um 200 m norðan við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum.

Efri-Þrándarstaðir
Nálega mitt á milli núverandi íbúðarhúss á Þrándarstöðum og bæjarhólsins var bærinn á EfriÞrándarstöðum þegar tvíbýlt var á jörðinni. Bæjarstæðið er um 80 m sunnan við bæjarhól 001 og um 110 m norðan við núverandi íbúðarhús.
Bæjarstæði Efri-Þrándarstaða er sýnt á túnakorti frá 1917.
Bærinn var í aflíðandi túni sem hallar 5-10° til NNA. Hann var byggður norðan í lágri hæð. Búið er að slétta yfir bæjarrústir Efri-Þrándarstaða. Þar sem bærinn stóð er þó enn óljós þúst sem er um 16 x 10 m stór, 0,2-0,5 m á hæð og snýr austur-vestur. Tvær um 0,4 m djúpar dældir eru í þústinni og snúa þær norður suður. Dæld A er vestar og er hún um 2×2,5 m að innanmáli á meðan dæld B er um 1 m austar og um 4×2 m að innanmáli. Lúther Ástvaldsson heimildamaður kannaðist ekki við öskuhaug á svæðinu en samkvæmt honum var gengið inn í gamla bæinn að norðvestanverðu og sést þar ennþá óljós tota í vestari dældinni. Lúther kannaðist ekki við neina brunna á svæðinu en hann telur að vatn hafi yfirleitt verið sótt í árnar. Bærinn hefur líklega verið byggður úr steinsteypu, timbri og bárujárni. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og húsakostur illa þekkt.

Íngunnarstaðir
Ingunnarstaðir
20 hdr 1705, Skálholtsdómkirkjueign, talið að hún hafi til forna verið 30 hdr. Bændaeign. 27 1/3 hdr. 1847. Kirkju á Ingunnarstöðum er fyrst getið í máldaga frá um 1180: „Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande.“ (DI I 266). Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls frá um 1200 (DI XII 10). Í máldaga frá því um 1367 segir: „Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande.“ (DI III 219) Í Vilcinsbók frá um 1397 segir: „a heimaland allt oc settung j Eyalanndi.“ (DI IV 118) 1575: Máldagi kirkjunnar (DI XV 632). „Jarðabækurnar (hinar eldri, nema stólsjarðabókin) telja jörð þessa með Hrísakoti (A. M.), aðeins 20 hdr. Að dýrleika, og leggur sýslumaður 5 h. Þaraf á Hrísakot.“ Jarðabók Johnsens, 101 (nm.gr.) Hrísakot var hjáleiga 1705 en er orðin bændaeign 1847. Tvö eyðibýli eru nefnd 1705, Gullhlaðsvellir og Þórunnarsel. Hálfkirkja var á jörðinni. JÁM III, 339-441.
1705: „Túnum og engjum grandar skriða til stórmeina og kostar oft stórerfiði af að moka. Hætt er fyrir snjólfóðum bæði á bæ og tún.“ JÁM III, 440.
1840: „… sæmileg heyskapar og útigangsjörð; á hún hrístak og fjárbeit fram í dalnum, ekki frí fyrir skiðuáföllum og hefir lítið mótak eður ekki.“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og
Kjósarsýslu, 254.
Gamli bærinn á Ingunnarstöðum stóð á svipuðum stað og nú (2003) stendur steinsteypt íbúðarhús. Íbúðarhúsið var byggt á árunum 1914-20 en þar á undan stóð timburhús á jörðinni um skeið. Búið var að rífa síðasta torfbæinn um aldamótin 1900. Ógreinilegur bæjarhóll er á þessum stað. Hann má merkja að sunnan og vestan en fjarar hins vegar út til norðurs (inn í brekkuna ofan við) og austurs. Erfitt er að áætla stærð bæjarhólsins þar sem erfitt er að greina mörk hans til norðurs og austurs. Hann er þó nálægt því að vera 50-60×40 m og er mest 1,5 m á hæð. Þegar afi Guðrúnar Björnsdóttur heimildamanns kom að Ingunnarstöðum 1912 hafði síðasti torfbærinn verið rifinn. Hann hafði verið á svipuðum slóðum og steinsteypta íbúðarhúsið er í nú. Þegar það var byggt var komið ofan á nokkuð af grjóthleðslum og ösku og voru grjóthleðslurnar að hluta endurnýttar til að byggja lítinn garð vestan við íbúðarhúsið. Íbúðarhúsið sem nú er á bæjarhólnum er steinsteypt með kjallara. Íbúðarhúsið á Ingunnarstöðum var fyrsta timburhúsið í sveitinni.

Hálfkirkja
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 er getið um hálfkirkju á jörðinni: „Hjer er hálfkirkja og embætti flutt þá er heimafólk er til sacramentis.“ Bænhús var á Ingunnarstöðum en ekki er vitað nákvæmlega hvar það var. Samkvæmt heimildamanni fór tveimur sögum af staðsetningu bænhússins. Annars vegar var talað um að það hefði verið heima við bæinn en hins vegar að það hefði verið í nokkurri fjarlægð suðvestan við bæ. Lengi mátti sjá glitta í hleðslu við suðausturhorn íbúðarhússins á Ingunnarstöðum, milli þess og fjárhúss og voru uppi getgátur um að sú hleðsla gæti staðið í samhengið við bænhúsið. Lágur bæjarhóll þar sem steinsteypt íbúðarhús með kjallara og fjárhús standa. Vegur liggur að bænum og annar spotti fram hjá honum.
Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande. kyr .vi. oc .xxx. a. fiogur kugillde j gelldfe. halft annat hundrat j busgognom oc j husbuninge. hestr gelldr lastalauss. xij manaþa tiþa bæcr oc messo fot. silfr kalec. roþo cross. alltara klæþe ij oc blæia. bricar clæþe gloþa ker oc gloþa jarn [alltara steinn. kirkiu stoll. bakstr jarn* oc linslopp. kerta stika. munnlogar .ij. oc lyse steinn. biollur .v. Su er afvinna skylld a þeso fe. at þar scal vera seto prestr ef sa vill er þar byr. meþ biscops raþe. Joan prestr scal vera þar meþan hann vill oc fylgia þessu fe at allda eyþle. Heima manna tiund alla a circia þar er scylldoct at syngia annan hvarn dag oc inn .iiij. hvern otto song oc kaupa at preste .ij. morcom oc ef enginn fæsc prestr. þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til þessa kaup[s] ef þeir vilia. Biscops handsol ero a þessum circio fiam ollom. oc hann a valld oc forræþe einn at kavpa þessom kirkio fiam sva sem hann vill oc þa er hann vill til þurþar oc til miclonar vm fe eþa afvinno; Máld DI I 266 [* bætt við utanmáls í hdr. C. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 10. [1367]: xlix. Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande. vij kyr og xxx asaudar. les Vilchinsbok þui þetta er eins; Hítardalsbók DI III 219. 1397: a heimaland allt oc settung j Eyalanndi. Sia er skylld af fie þessu ad þar skal vera setuprestur ef sa vill er þar byr med biskups rade. heimamanna tiund allra a kirkiann. Þar er skyllt ad syngia annann hvern dag oc fiorda hvern ottusong. lvka presti ij merkur. og ef ei fæst prestur. þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef þeir vilia. biskups handsol eru aa Þessum kirkiufiam ollumm Þar til Þurdar oc miklanar sem hann vill; Máld DI IV 118. 1575: Máld DI XV 632 {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 64}.

Sel

Ingunnarstaðir

Ingunnarstaðir – sel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir:“Selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi víðara en í einum stað.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir: „Næst eru Selflatir. Í botni [Brynju]dalsins og þar næst er hjalli sem heitir Langihjalli.“ Í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar segir einnig um selið: „Austur af bakkanum er flatlendi, sem kallað var Eyrar einu nafni.
Þá taka við ónafngreindir hjallar og austur af [þeim] þeim Selflatir [svo], sem eru beint á móti gömlu beitarhúsunum frá Ingunnarstöðum. Þorlákur álítur, að þeir sem höfðu þar í seli, hafi haldið til í beitarhúsunum. Þorlákur sat þar yfir ám í kvíum, sem Kjósarmenn höfðu þar sameiginlega. Fært var frá í Hrísakoti til 1907.“ Selið á Selflötum er um 2,5 km suðaustan við Ingunnarstaði, um 300 m sunnan við beitarhús og um 50 m sunnan við Brynjudalsá. Á Selflötum er grasigróið og víðáttumikið þýft graslendi sem hallar í 2-10° til norðausturs, að Brynjudalsá. Á Selflötum eru þrír áberandi hólar í hnapp á svæði sem er um 60×60 m stórt. Á stærsta hólnum er greinileg tvískipt tóft A sem er um 10 x 6 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.

Gullhladsveller (býli)

Stykkisvellir

Stykkisvellir – tóft.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Gullhladsveller heita í Ingunnarstaða landi. Þar ætla sumir að hafi bygð í gamla daga, og sjást þar enn nú nokkrar tóftaleifar. Ekki verður þar bygð þett, nema með stórskaða heimajarðarinnar, og enginn veit nær það hafi í eyði fallið, meina þó að landþröng hafi til þess verið orðsök.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir um þetta svæði: „Þegar kemur fram úr Bótinni, taka við Gulllandsvellir, grasivaxin hæð, sem hallar niður af á smámýri. Þar út af er Gulllandsvallarmýri. Á ásnum eru gamlar tættur. Talið er, að þarna hafi verið býli.“
Stykkisvellir eru ofan og sunnan við suðurbakka Brynjudalsár um 850 m ASA við bæ 001 og um 600 m suðvestan við Hrísakot 360:001.

Gullvallsvellir

Gullvallsvellir – uppdráttur.

Rústirnar eru friðlýstar og í Friðlýsingaskrá segir: „Ingunnarstaðir. Forn rúst, er nefnist Gulllandsvellir, að sunnanverðu við Brynjudalsá, fyrir innan Þrándarstaði. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938.“ Stykkisvellir eru þýft graslendi á eyri lækjar sem rennur úr Gjáargili norðan undir Suðurfjalli. Svæðinu hallar í um 2-5° til norðurs niður að Brynjudalsánni. Stykkisvellir eru svæði sem er um 250×120 m stórt og snýr norðvestur-suðaustur úr fjallshlíðinni niður á eyri Brynjudalsár. Vestan við Stykkisvelli er brött brekka sem hallar í 30-40° niður í mýri. Brúnin er 3-4 m há á þessu svæði. „Austur af Bótinni taka við sléttir vellir, Gullásvellir, sem líka voru nefndir Stykkisvellir. Á þeim eru gamlar tættur, sem báru merki um að þar hefði verið byggð til forna. Framan vallanna er hár bakki, Gullásvalla-bakki. Norðan hans, að ánni, liggur lítil mýri, Gullásvallamýri (Gull-Þórir).“ segir í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar. Í Árbók fornleifafélagsins frá árinu 1904 fjallar Brynjúlfur Jónsson um vellina: „Af stöðum sem nú eru óbygðir í Brynjudal eru Gulllandssvellir langlíklegastir til að vera Stykkisvöllur. Þar er slétt og fögur grund innan til á móts við Ingunnarstaði, sunnanmegin við ána. Auðséð er á bakkanum, sem afmarkar grundina að innan að gil sem þar kemur ofan hefir á sínum tíma brotið mikið af henni. Annars væri þar líklega bær hann. Hann hefir verið þar fyrrum. Það sýnir forn bæjarrúst skamt frá bakkanum. Hún er svo niðursokkin að fólk vissi ekki af henni fyr en eg kom austan á hana. Þó sér svo vel fyrir henni að ég gat gjört uppdrátt af henni. … Tóftirnar eru 3. hver af enda annarar, miðgaflar þó eigi vel glöggir. Dyr á miðjum suðurhliðvegg og vesturendi opinn. Lengda allrar rústarinnar nál. 16 fðm., meðalbreidd hennar 31/2 fðm. Fjós rúst sést eigi, mun vera afbrotin.“ Við skráningu fundust þrjár þústir á þessu svæði sem er um 60 x 40 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.
Svæðið er þýft og líklegt að fleiri mannvirki geti leynst í þúfunum á svæðinu þó ekkert sjáist á yfirborði.

Hrísakot
Hrísakot
Árið 1705 er Hrísakot afgömul hjáleiga eða afbýli Ingunnarstaða GK-359:001. JÁM III, 439-440. Samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson fór kotið í eyði árið 1919 en var nytjað frá Ingunnarstöðum fram til ársins 1953. Það ár byggðist kotið upp aftur fólki frá Ingunnarstöðum. Kjósarmenn, 43. Samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttiur, heimildamanni, fór Hrísakot endanlega í eyði um 1964. 1840: „… Heyskaparlítið; á skógarland og allgóða útbeit við hagahús [GK-360:013]; þar er ekki mótar …“
„Hrísakot stendur innarlega í dalnum innan við Ingunnarstaði og sömu megin í dalnum,“ segir í örnefnaskrá. Bæjarhóll Hrísakots er sunnan undir Múlafjalli og norðan við Brynjudalsá, um 1,1 km austan við Ingunnarstaði 359:001. Hrísakot er nú (2011) skógræktarjörð en hætt var búskap á jörðinni að mestu um 1964. Á bæjarhólnum stendur tvískipt timbur- og bárujárnsfjárhús sem, samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttur heimildamanni, var byggt einhvern tíman milli 1925-30 þá trúlega frá Ingunnarstöðum. Suðvestan við bæjarhólinn og fjárhúsin er sléttað tún og suðaustan
við fjárhúsin er sumarbústaður og skógræktarreitur. Greinilegar mannvistarleifar eru á bæjarhólnum norðvestan, norðan og norðaustan við fjárhúsin. Á hjalla norðaustan og ofan við bæjarhólinn er barrskógur en norðvestan við hólinn er graslendi og stór ræsiskurður 5-10 m í burtu. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Í Hrísakoti bjó Pjetur Ottesen til ársins 1902, … Í Hrísakoti var, er hjer kemur sögu, fremur ljelegur bær, en túnið fremur greiðslægt. … Eftir að Pjetur Ottesen fór frá Hrísakoti, tekur jörðina bróðursonur hans, Oddur Pjetur Jónsson frá Ingunnarstöðum, … og býr hann þar til ársins 1919. … Oddur Pjetur byggði nýja baðstofu í Hrísakoti, bjarta og allvistalega og fleiri bæjarhús. … Er þessi baðstofa fyrir löngu horfin [árið 1953] og hin gömlu hús önnur.“ Bæjarhólnum hefur verið raskað þó nokkuð á 20. öld en hefur hann trúlega verið um 50×50 m stór og 1-2 m á hæð. Fjárhúsin standa á miðjum hólnum. Lítið er greinanlegt af gamla bæ Odds Pjeturs sem stóð árið 1917 annað en 2-3 grasigrónir og þýfðir hólar sem eru 1-1,5 m á hæð og er 1-2 m norðvestan við timburfjárhúsin. Grjót má er víða í hólunum. Hólarnir mynda saman aflanga þúst sem er um 25×15 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í gegn um þústina er dæld sem er 5 x 1-3 m stór og snýr NNV-SSA. Dældin er 0,5-1,5 m djúp og sker þústina næstum í tvennt. Hér er líklega um að ræða rof vegna ágangs búpenings.
Engar aðrar dældir eru í þústinni. Ekki er ljóst hvort þessi þúst er leifar af gömlu húsunum sem hugsanlega hefur verið ýtt eitthvað til eða hvort þarna voru aðeins gamlir taðhaugar.

Heimild:
-„Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Reynivellir

Reynivellir.