Tag Archive for: Sögunarkór

Selatangar

Gengið var um Katlahraun, að fjárskjóli Vigdísarvallamanna, síðar Skála, Smíðahellinum, Sögurnarkórnum, Vestari lestargötunni, Nótahellinum og refagildrunum fremst á brúninni.

Selatangar

Fjárskjól við Selatanga.

Síðan var haldið austur um Tangana, staðnæmst við brunninn og þá gengið að vestustu búðinni í verstöðinni, litið á óninn, síðan verkhúsið og staðnæsmt við Dágon. Jón Guðmundsson frá Skála taldi Dágon merkja djöfull upp á dönsku, en aðrir hafa viljað halda því fram að um geti verið að ræða hljóðbreytingu úr dragon eða dreki. Alls ekki svo ólíklegt heldur.
Þegar fiskur var verkaður á Selatöngum voru sum byrgin, líkt og þau stærstu, notuð til að verka fiskinn í. Þess var vandlega gætt að “kjötið” kæmi hvergi saman og vel var pakkað svo loft kæmist ekki að. Þá var jafnan reynt að halda þessum verkhúsum köldum.

Selatangar

Selatangar – þurrkgarðar.

Í þurrki, eftir að fiskurinn hafði tekið sig, var hann færður á þurrkgarðana, sem eru þarna um alla tangana. Þess á milli var fiskurinn geymdur í minni byrgjunum, sem víðar eru og sum bara nokkuð heilleg, en í þeim loftaði vel um hann.
Gengið var um svæðið og skoðuð mismunandi byrgi. Staldrað var við Smiðjuna og austustu sjóbúðina áður en haldið var upp með Eystri-Látrum, kíkt á skjólin undir austurbakkanum og áð við helli þann er oftast hefur verið vart við Tanga-Tómas við. Rifjuð var upp sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda á sínum tíma.
Farið var yfir uppdráttinn af Selatangasvæðinu og gerðar lítilsháttar lagfæringar á honum. Nú er komin nokkuð heilleg mynd af þessu merkilega útveri.
Frábært vorveður. Gangan tók 1 klst. og 1. mín.

Á Töngunum

Á Selatöngum.