Sólarupprás eða sólris telst þegar efri rönd sólar nemur við sjóndeildarhring (sjónbaug).
Sólarlag eða sólsetur telst þegar sólin hverfur niður fyrir sjóndeildarhring.
Sólargangur á við hreyfingu sólar á himninum. Sólarupprás eða sólris telst þegar efri rönd sólar nemur við sjóndeildarhring (sjónbaug) á uppleið, en sólarlag eða sólsetur þegar sólin hverfur niður fyrir sjóndeildarhring. Lengd sólargangs er tíminn frá sólarupprás til sólseturs. Í almanaki telst dögun þegar sólmiðjan er 18° undir sjónbaug og á uppleið, og svo birting þegar hún er 6° undir sjónbaug. Samsvarandi telst myrkur þegar sólmiðjan er 6° undir sjónbaug og á niðurleið, og svo dagsetur þegar hún er 18° undir sjónbaug. Hádegi er þegar sólmiðjan er í hásuðri, en miðnætti hálfum sólarhring síðar.
Hvernig má fá upplýsingar um sólargang og slíkt eftir árstímum og stöðum á Íslandi?
Á vefsetri Almanaks Háskóla Íslands er að finna fróðlega töflu um sólarhæð og sólarátt (stefnu til sólar) í Reykjavík á tíu daga fresti yfir árið. Taflan sýnir umsvifalaust á hvaða klukkutíma sólin kemur upp en til að fá meiri nákvæmni þarf að beita svokallaðri brúun (interpolation). Í töflunni kemur glöggt fram að tímasetning sólaruppkomu breytist mikið yfir árið hér á norðurslóð, en einn spyrjandinn spyr meðal annars um það.
Í hinni prentuðu útgáfu Almanaksins eru sýnd birting, sólris, hádegi, sólarlag og myrkur í Reykjavík fyrir hvern dag ársins. Þar sést að sól kemur upp kl. 3:22 og sest kl. 23:31 þann 1. júní í ár sem einn af spyrjendum ber fyrir brjósti. Báðar þessar tímasetningar færast um um það bil 2-3 mínútur á dag á þessum árstíma.
Sérstakar töflur í Almanakinu sýna einnig dögun, birtingu, sólris, hádegi, sólarlag, myrkur og dagsetur á sjö daga fresti fyrir Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri, Grímsey, Norðfjörð og Vestmannaeyjar. Þar kemur fram að tíminn frá sólaruppkomu til sólarlags í Reykjavík er 21 klst. og 11 mínútur á sumarsólstöðum (21. júní) og 4 klst. og 8 mínútur á vetrarsólhvörfum (21. desember). Samsvarandi tölur fyrir Ísafjörð eru 24 klst. annars vegar og hins vegar 2 klst. og 45 mínútur.
Samkvæmt töflum Almanaksins voru vorjafndægur í ár þann 20. mars kl. 13:31. Það merkir að þá var sólin í vorpunkti á festingunni. Þessi tímasetning færist fram á við um tæpar 6 klukkustundir árið 2002 og aftur árið 2003 og fellur því þá á 21. mars. Árið 2004 er hins vegar hlaupár og þá færist tímasetningin tæpan sólarhring aftur á bak. Þetta endurtekur sig síðan á fjögurra ára fresti. Haustjafndægur, sumarsólstöður og vetrarsólstöður færast til á sama hátt milli ára. Haustjafndægur eru í ár 22. september kl. 23:04 og falla því á 23. september næstu tvö ár, 2002 og 2003, en verða aftur 22. september árin 2004 og 2005, og síðan áfram á víxl.
Gerpir er sem kunnugt er austasti tangi landsins og þar kemur sólin fyrst upp. Vestlæg lengd hans er 13°29,6′ en Reykjavík er á 21°55,8′. Þarna munar 8°26,2′ en hver gráða samsvarar 4 mínútna mun á sólartíma. Tímamunurinn er því 33 mínútur. Sólin kom upp á vorjafndægrum í Reykjavík í ár klukkan 7:28 en á Gerpi klukkan 6:55. Vestasti tangi landsins, Bjargtangar, er hins vegar 2°36,3′ vestar en Reykjavík og sólin kom því upp þar 10 mínútum seinna en í Reykjavík eða klukkan 7:38. Heildarmunurinn á sólristímanum yfir landið er því 43 mínútur og sami munur á við um tímasetningu sólseturs á jafndægrum. Munur á tímasetningu hádegis er einnig sama tala og það á við allt árið.
Athugið að munurinn á landfræðilegri lengd segir að vísu alltaf til um muninn á sólartíma á þennan einfalda hátt en það á ekki almennt við um muninn á tímasetningum sólaruppkomu eða sólarlags. Til þess að hann sé í beinu hlutfalli við lengdarmuninn þurfa staðirnir annaðhvort að hafa sömu breidd eða við þurfum að vera á jafndægrum eins og hér á undan.
Í Almanakinu kemur einnig fram hvenær tungl kemur upp og sest og hvenær það er í suðri, og sömuleiðis hvenær er flóð og fjara; allt fyrir hvern dag ársins.
Margvíslegar aðrar upplýsingar af þessu tagi er að finna í Almanakinu og eru lesendur eindregið hvattir til að kynna sér þær.
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/S%C3%B3largangur
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1625