Tag Archive for: Staðarborg

Staðarborg

Í Morgunblaðið 19. ágúst 2021 skrifar Sigurður Bogi Sævarsson um „Rölt að rústum á Reykjanesskaga„:

„Minjar! Hrundar borgir og veröld sem var. Yfirgefnir staðir við Straumsvík og víðar segja miklar sögur.

Kapella við Straumsvík, Staðarborg á Vatnsleysuströnd og Selatangar vestan við Grindavík. Þrír staðir suður með sjó eru hér til frásagnar, minjar frá fyrri tíð sem greinarhöfundur hefur gert sér erindi til að skoða að undanförnu.

Grúsk í gömlum ritum leiðir í framhaldinu oft til ferðalaga þar sem svör við einu leiða af sér spurningar um annað. Svipur landsins er fjölbreyttur; náttúran og minjar um menningu, sögu og lífsbaráttu.

Barbara við Straumsvík

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Á hraunruðningi sunnan við álverið í Straumsvík er hlaðið byrgi; friðlýstar rústir kapellu sem láta lítið yfir sér. Vegur liggur frá Reykjanesbraut að hólnum þar sem kapellan blasir við. Veggir þessa húss voru endurhlaðnir fyrir margt löngu; en þekjan sem hvíldi á veggjunum er löngu fallin. Alfaraleiðin til byggða og verstöðva á Suðurnesjum lá forum daga nærri kapellunni. Við hana var kennt hraunið sem hér rann seint á 12. öld, segir Jónatan Garðarsson útvarpsmaður í pisli á vefnum hraunavinir.is.
Sjálf húsatóftin er rúmir tveir metrar á hvern kant og dyr snúa til vesturs. Á ví herrans ári 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands, rústir kapellunnar og fann þá brot úr líkneski heilagrar Barböru.

Kapella

Stytta af heilagri Barböru í kapellunni.

„Líkneskið sýnir þá að húsarúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti… Það hefur að líkindum verið kapella þar sem vegfarendur gætu staðnæmst til að gera bæn sína,“ segir Kristján Eldján í grein í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1955. Kristján tók fram að líkneski Barböru sanni ekki fullkomlega að þarna hafi verið kapella „…en hún bendir þó til þess að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur,“ eins og þar stendur.
Á degi heilagrar Barböru þótti gott að heita í háska af eldi, sprengingum og slíku, jafnframt því að vera verndarvættur hermanna. Í dag er í kapellurústinni eftirgerð líkneskis Barböru, en stundum kemur fólk kaþólskrar trúar til bænagjörðar og annars slíks á þessum stað, sem stendur við þjóðbraut þvera.

Hringur á heiði

Staðarborg

Staðarborg.

Á Reykjanesbraut, rétt eftir að komið er suður fyrir Kúagerði og að afleggjaranum á Vatnsleysuströnd, sést Staðarborg, sem er á heiðinni norðan við veginn. Að borginni er best að ganga afleggjarann að Kálfatjarnarkirkju, hvar er skilti og skýrir merkingar sem koma fólki á sporið. Leiðin er um. 1.5 kílómetrar og þegar komið er inn á heiðina sést borgin brátt; hringur sem að utanverðu er umm 35 metrar í ummáli. Tveggja metra háir veggirnir eru hlaðnir úr grjóti og ummál hringsins er um 8 metrar.
Staðarborg var friðlýst árið 1951, en ekki er vitað hvenær hún var hlaðin. Um tilurð hennar er aðeins til munnmælasaga; sú að Guðmundur nokkur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest, sem hafi þótt nóg um þegar honum varð ljóst að fullhlaðið með þekju myndi mannvirkið gnæfa yfir turn kirkjunnar á Kálfatjörn. Hafi prestur þá bannað að haldið yrði áfram, svo Guðmundur hljóp frá verkinu sem síðan hefur staðið óhreyft um aldir.

Verstöð við suðurströnd

Selatangar

Fiskbyrgi á Selatöngum.

Selatangar eru gömul verstöð austan við Grindavík, um þrjá kílómetra vestan við minni Geldingadals þar sem hraunelfur úr Geldingadölum hefur runnið fram í átt að Suðurstrandarvegi. Frá Selatöngum var um aldir og alveg fram til ársins 1880 róið til fiskjar á vegum Krýsuvíkurbónda og Skálholtsbiskups og þarna standa enn minjar um verbúðir, fiskbyrgi og fiskigarða.
Alls eru þarna rústir um 20 húsa og nokkurra annarra mannvirkja. Þarna tíðkaðist til dæmis að þurrka fiskinn; sem síðan var geymdur til vertíðarloka.
„Fiskverkunin fólst fyrst og fremst í því að þurrka fiskinn. Fiskurinn var breiddur á garða eða möl og roðið ætíð látið snúa niður á daginn en upp að næturlagi. Sums staðar var fiskur þurrkaður í grjótbyrgjum eins og þeim sem eru á Selatöngum. Birgin voru einnig notuð til að geyma fullharðnaðan fisk,“ segir í umfjöllun á vef Minjastofnunar Íslands.

Heimild:
-Morgunblaðið 19. ágúst 2021, Rölt að rústum á Reykjanesskaga – Sigurður Bogi Sævarsson, bls. 12.

ísólfs

Gengið um Selatanga.

Tag Archive for: Staðarborg