Tag Archive for: Stapafell

Gígur

Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.

Sandfell

Sandfell.

Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn“). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum“.

Gíslhellir

Gíslhellir – fyrirhleðsla.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
GíslhellirGengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.
Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918. A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.

Hraunkarl