Tag Archive for: stapar

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er margbrotið fjall norðaustan Grindavíkur, stærsti stapinn á svæðinu. Örnefni í Fagradalsfjalli má t.d. nefna Langhól, efstu bungu fjallsins í norðri. Auðveldasta uppgangan á hann er upp af Görninni í suðvestanverðu fjallinu. Þaðan er þægilegu aflíðandi gangur á hólinn.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

Fagurt útsýni er af Langhól yfir allt til höfuðborgarsvæðisins. Þá má nefna Geldingadal þar sem „dys“ Ísólfs er að finna. Stóri-hrútur er í austanverðu fjallinu, keilulagaður stapi, og Borgarfjall er í því sunnanverðu. Kastið vestan í Fagradalsfjalli er sögustaður flugvélaflaks úr Seinni Heimstyrjöldinni, líkt og Langihryggur autan í því sem og Langóllinn fyrrnefndi. Fagridalur, sem fjallið tekur nafn sitt af er undir því norðvestanverðu. Þar hvílir Dalsselið, selstaða frá Þórkötlustöðum. Skammt ofar og austar er mikilfenglegur, þverskorinn, gígur fjallsins í Kálffelli. Samnefnt fell er einnig skammt norðvestar.

Í Náttúrufræðingnum árið 2011 er fjallað um jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall í maí 2009.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Árið 2009 var rólegt á skjálftasviðinu. Mestu skjálftar ársins urðu í allsnarpri skjálftahrinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Forskjálftavirkni hófst um kl. 17 þann 29. maí, en meginskjálftinn, 4,7 stig, varð kl. 21:33 sama kvöld.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Upptök hans voru við vestanvert Fagradalsfjall. Hann fannst víða um suðvestanvert landið, vestur í Búðardal og austur að Hvolsvelli og olli meira aðsegja grjóthruni í Esju, eins og nefnt er í kaflanum um skriðuföll. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti kl. 13:35 daginn eftir með upptök við norðanvert fjallið. Hann var 4,3 stig og fannst einnig víða. Alls mældust um 2000 skjálftar í hrinunni sem gengin var um garð fyrir mánaðamótin.

Í Náttúrufræðingnum 1966 fjallar Guðmundur Kjartansson um „Stapakenninguna og Surtsey„. Fagradalsfjall er vestastur stapa landsins.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Á þremur stórum svæðum Íslands er berggrunnurinn að mjög miklu leyti úr móbergi og allur myndaður af eldgosum seint á ísöld, einkum síðasta jökulskeiðinu. Þetta eru móbergssvæði Norðurlands, Miðsuðurlands og Suðvesturlands. Þau eru öll fjöllótt, og fjöllin, sem eru úr móbergi með mismiklu ívafi af bólstrabergi, eru tvenns konar að gerð: flest hryggir, en sum stapar.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Svo er um þessa fjallgerð, stapana, sem aðrar „gerðir“, að hún bendir til sameiginlegs uppruna einstaklinganna, sem til hennar teljast. Uppruni stapanna hefur verið skýrður á þrjá allólíka vegu:

Fjallið eina

Fjallið eina – stapi.

1. Rofkenningin: Fjöllin hafa meitlazt fram við gröft vatna, jökla eða jafnvel sjávar úr víðáttumiklu hálendi, sem var h. u. b. jafnhátt og brúnir fjallanna eru nú.
2. Misgengis- eða höggunarkenningin: Fjöllin eru ris (horstar), þ.e. misgengnar jarðskorpuspildur, og fylgja misgengissprungurnar hlíðum þeirra allt í kring.
3. Upphleðslukenningin: Fjöllin hafa hlaðizt upp í eldgosum og fremur lítið breytzt síðan að stærð eða lögun.
Fyrstu áratugi þessarar aldar voru mjög skiptar skoðanir meðal jarðfræðinga um það, hver þessara kenninga ætti helzt við ummyndun íslenzku stapanna. — Þeir Þorvaldur Thoroddsen og Helgi Pjeturss létu þetta deilumál lítið til sín taka, enda var viðhorf þeirra fremur hlutlaust. Báðir lýsa stöpunum sem eldfjallarústum, þeir hafi hlaðizt upp í eldgosum, en síðan bæði haggazt og rofizt, svo að hin upphaflega eldfjallslögun er nú farin út um þúfur (Þorv. Thoroddsen 1906 og Helgi Pjeturss 1910).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Í Faxa árið 1984 er fjallað um fjöllin ofan Grindavíkur, þ.á.m. Fagradalsfjall.

Jón Jónsson, jarðfræðingur hefur varið mörgum árum til rannsókna á Reykjanesskaga. En furðu hljótt hefur þó verið um þær rannsóknir hans og lítt verið minnst á þær hér í Faxa.
1978 gaf Jón út fjölritað rit um rannsóknir sínar. Trúlega er það nú í fárra höndum. En mjög er æskilegt að hann gefi það síðar út á prenti, svo að flestir eigi aðgang að þeim upplýsingum, sem þar eru. Hér verða birtir örstuttir kaflar úr riti Jóns, sem fjalla um fjöllin á skaganum næst okkur: Þorbjarnarfell, Lágafell, Hagafell, Sýlingafell, Skógfellin, Fagradalsfjall og Keili.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Misgengi gengur í gegnum fellið.

Þorbjarnarfell (243 m) vekur athygli fyrst og fremst af því hvað það er mikið brotið og verður að því nánar vikið síðar. Fellið er úr bólstrabergi og móbergsþursa með bólstrum á víð og dreif, en lítið er um blágrýtisæðar í því það séð verður og hraun eru þar engin. Bergið í fellinu hefur ekki verið athugað nánar. Að norðaustan er það mjög ummyndað af jarðhita. Þorbjarnarfell hefur án efa myndast við gos undir ís meðan jöklar huldu landið. Vestur úr Þorbjarnarfelli gengur hæðarbunga, sem Lágafell heitir. Það er forn eldstöð, líklega frá því seint á síðasta jökulskeiði. Ennþá sér fyrir hrauni og nokkrum gígum kringum hann ásamt gjalli, en engin merki sjást til þess að jökull hafi gengið þar yfir.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Lágafell virðist vera yngra en Þorbjarnarfell. Norðaustur af Þorbjarnarfelli liggur Selás og tengir það við Hagafell og Svartsengisfell. Þessi fell eru að langmestu leyti úr bólstrabergi og kemur það sérstaklega vel fram í Gálgaklettum í Hagafelli, en þeir eru misgengi, sem brýtur fellið um þvert. Stór björg hafa losnað og hrapað ofan á hraunið. Er þar þægilegt að grannskoða bólstraberg.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan undir Gálgaklettum er svæðið þakið hraunum upp að Svartsengisfelli (206 m), sem svo er nefnt af Grindvíkingum, en á kortinu er það nefnt Sýlingafell og mun það hafa verið málvenja í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Hið neðra Svartsengisfell að mestu úr bólstrabergi og þursa en efst á því er gígur allstór eða raunar öllu heldur tveir samhangandi gígir og grágrýtishraun kringum þá.

Sýlingarfell

Sýlingarfell. Svartsengi t.h. og Þorbjörn t.v.

Fjallið er sennilega byggt sem stapi og mjög unglegt, hefur sennilega verið virkt seint á síðasta jökulskeiði. Vestan í fjallinu eru gosmyndanir, sem samanstanda af ösku og vikri, og hefur það efni verið unnið um árabil, og er svo enn. Sú myndun hverfur inn undir fellið sjálft. Misgengissprunga liggur um fellið þvert með stefnu norðaustur-suðvestur og ummyndun eftir jarðhita er þar mikil enda er virkur jarðhiti (háhiti) við rætur fjallsins. Ummyndunina má rekja um norðanverðan Selháls yfir í Þorbjarnarfell eins og áður var drepið á. Tengist þessi ummyndun jarðhitasvæðinu Svartsengi. (Bls. 31-32).

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Stóra-Skógfell (188m) er um 1,5 km austur af Svartsengisfelli. Það er algjörlega úr bólstrabergi. Litla-Skógfell er um 3 km austar og einnig það er úr bólstrabergi, en ólíkt er það berginu í Stóra-Skógfelli. (Bls. 32).

Fagradalsfjall

Flugvélaflak í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjall (385 m) er byggt upp sem stapi, hið neðra úr bólstrabergi, brotabergi og túffi, en með hettur úr grágrýti. Líta verður á f jallið sem dyngju og er gígurinn nyrst í fjallinu.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir 2020.

Fagradalsfjall hefur að mestu leyti byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti. Mætti ætla að jökull hafi legið umhverfis það, þegar grágrýtishraun, sem þekja það, runnu, en þau eru frá áðurnefndum gíg komin og hafa runnið til suðurs og suðvesturs en ekki norðurs. Norðurendi fjallsins er úr móbergsbrotabergi allt frá toppgígnum og niður úr svo langt sem sér. Í gíg Fagradalsfjalls er ennþá grágrýtishraun. (Bls. 34-35).
Til skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Fagradalsfjall, skal þess getið, að það er aflangt, ekki ólíkt hval í laginu, séð frá Keflavík. Er gígurinn í þeim hluta fjallsins sem fjær veit bænum. Skógfellin eru á vinstri hönd úti í hrauninu þegar ekið er til Grindvíkur.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin ofan Soga. Keilir fjær, Spákonuvatn t.h.

Keilir (379 m) er frægastur fjalla á Reykjanesskaga. Norðaustan við hann eru þrír hnúkar, sem nefndir eru Keilisbörn. Þeir eru úr lagaskiptu móbergstúffi og raunar er það sumsstaðar í Keili sjálfum að neðanverðu. Í þessu túffi má víða finna báruför, sem sýna að efni þetta hefur sest til í vatni. Útlit þeirra bendir til að um grunnt vatn hafi verið að ræða.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Milli Keilis og Keilisbarna er hringlaga dalur. Víða má sjá að túfflögum hallar inn að þessum dal. Grágrýti er í toppum á Keili og sums staðar utan í honum virðist það koma fram og gæti það verið berggangur. Sennilega er þetta hraun í gosrás fjallsins því ekki er að efa að Keilir er eldstöð frá jökultíma.“

Sjá meira um jarðfræði Fagradalsfjalls HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Náttúrfarsallnáll 2009, 3.-4. tbl. 2011, bls. 166.
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1966, Stapakenningin oog Surtsey, Guðmundur Kjartansson, bls. 2-4.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Úr flæðamálinu, bls. 88.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.