Tag Archive for: Steðji

Hálsnesbúðir

Stefnan var tekin á Hálsnes norðvestan við Neðri-Háls í Kjós. Langflestir, sem ekið hafa um Hvalfjörðinn, hafa gefið nesinu auga, en langfæstir hafa ekið út af þjóðveginum og gaumgæft það. Full ástæða er þó til þess því svæðið endurspeglar merkilega sögu. Þrátt fyrir það eru engar merkingar eða vísbendingar um hvar það gæti verið að finna. Þokkalegur malarvegur er niður á Búðasand, en þangað var ferðinni heitið að þessu sinni. Auk búðaminjanna við Búðasand var ætlunin að skoða Maríuhöfnina skammt utar sem og svæðið umhverfis svonefnda Hálshóla á sunnanverðu nesinu.
Laxárvogur, Hálsnes og HvalfjörðurMaríuhöfn mun hafa verið mesti kaupstaður landsins á miðöldum, fram á 15. öld. „Rústir staðarins eru ofan við Búðasand og er Maríuhöfn við suðausturenda sandsins. Skip sem þangað komu voru dregin inn á poll inn af sandinum. Þarna er talið að haffær skip hafi verið smíðuð á landnámsöld, enda viður tiltækur. Árið 1402 kom skip (Hvala-) Einars Herjólfssonar í Maríuhöfn og flutti með sér svartadauða.
Akvegurinn liggur alveg niður á sandinn og hægt er að komast nánast að Maríuhöfn. Þarna er einstaklega fallegt og vel þess virði að gefa sér góðan tíma til að skoða sig um.
Maríuhöfn er við Lax[ár]vog. Þar eru
“víðáttumiklar leirur og grunnsævi með fjölbreyttu lífríki, svo sem kræklingi og gróðri. Laxvogur er eitt frjósamasta grunnsævi við sunnanverðan Faxaflóa. Á Hvalfjarðareyri handan vogarins er fundarstaður baggalúta. Þarna má sjá setmyndunar- og rofferli án mikilla áhrifa mannsins.”
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um svæðið segir m.a.: “Svæðið hýsir sjaldgæfar tegundir og er viðkvæmt fyrir röskun; svæðið er mikilvægt vegna viðhalds sterkra stofna og hefur alþjóðlegt verndargildi; svæðið hefur jafnframt verulegt vísindalegt gildi.”
Hálsnes - loftmyndLaxá hafnar að lokum í Lax[ár]vogi. Vogur þessi hefur reyndar gengið undir ýmsum nöfnum. Sr. Sigurður Sigurðsson nefnir hann Laxavog (1840), Jón O. Hjaltalín kallar hann Hálsvík (1746) en Björn Bjarnarson segir Laxárvogur (1937). Í daglegu tali er hann nefndur Laxvogur. Þar er útfiri mikið og lífríki fjölskrúðugt og mikil náttúrufegurð. Fyrr á tímum áttu margir erindi að þessum vogi. Neðst í ánni er Sjávarfoss eða Sjóarfoss eins og hann hét áður fyrr. Skammt ofan við hann rennur Bollastaðalækur í ána, þar er og Bollastaðavað og ítið eitt neðar er annað vað, er Höklavað nefnist.
Rétt við Sjávarfoss norðan megin er klettur (Klöppin), sem bátar lögðust upp að fyrr á árum áður en bílfært varð fyrir Hvalfjörð. Á bátum þessum var fluttur varningur, fólk og á sumrin hey úr Kjósinni á vegum fólks úr Reykjavík, sem hafði slægjulönd á leigu í sveitinni.
Annar lendingarstaður var Harðbali, sem er sunnan við voginn um miðbik hans. Austan vogsins er Laxárnesland og bærinn Laxárnes í suðausturhorninu, norður af honum er Laxárnestangi en vestur af bænum er Suðurnes og síðan enn vestar Skorárvík, þar sem Skorá rennur til sjávar en hún kemur upp í Eyrarfjalli. Fyrir miðjum voginum blasir við félagsheimilið Félagsgarður undir Laxárnesásnum, það var tekið í notkun árið 1945.

Búðartóft á Búðasandi - í Hálsbúðum

Fyrr á þessari öld og raunar miklu lengur sóttu sjómenn af Suðurnesjum og víðar að krækling til beitu upp í Hvalfjörð. Einn staðanna er Laxvogur. „Þótti hvergi betra að taka krækling en þar“, segir Erlendur Björnsson í endurminningum sínum (Sjósókn, Rvík 1945). Þótti kræklingur þar feitur og skeljarnar hreinar að utan. Aðrir staðir voru Stampar, sem eru norðan við Hálsbæinn, þar var kræklingurinn hins vegar seinteknari og þurfti ætið að kafa eftir honum. Næsti staður var svo í Hvammsvík, þá Hvítanes, Fossá, Brynjudalsvogur og Botnsvogur. Nú tína menn helst krækling sér til matar við Fossá. (Sjá meira undir Beitufjara).
Utan til í Laxvogi, rétt sunnan við miðju, er Maríusker, sem tilheyrt hefur Reynivöllum frá alda öðli. Norðan til í voginum innanverðum er Hálshólmi neðan við Hálsbæina. Utan og norðan við þá er svo Búðasandurinn.

Hálsnesið blasir við, þegar litið er út Hvalfjörðinn. Þarna er einn merkasti sögustaður Kjósarinnar, Hálsbúðir. Búðasandur er fagur frá náttúrunnar hendi og einhver fegursti staðurinn í sveitinni. Upp af honum er fjörukambur og handan hans lón, sem talið er hafa grynnst og minnkað í tímans rás. Milli lónsins og fjörukambsins eru leifar gömlu búðatóftanna og hafa fornleifarannsóknir farið fram á þessu svæði undanfarið en ekki liggur ljóst fyrir um niðurstöður þeirra. Að öllum líkindum hafa búðirnar verið hlaðnir uppveggir, sem tjaldað hefur verið yfir.
Nyrsti hluti HálsbúðaFrá fornu fari var höfn á Búðasandi samkvæmt heimildum. Aðrar hafnir voru á Hvalfjarðareyri vestan við Laxvoginn, í Laxvogi (Hálshólaskipalægi, sem Skúli fógeti nefnir svo, það er fyrrnefnt vestur undir Hálshólum) og loks var höfn í Hvammsvík. Höfnin á Búðasandi hét frá fornu fari Maríuhöfn. Hún er þó ekki eina örnefnið í Kjósinni, sem minnir á Maríu, en kirkjan á Reynivöllum var helguð Maríu guðsmóður og af þeirri ástæðu m.a. er þessu svo farið.
Þegar gengið var um norðanverðan Búðasand sáust tóftir Hálsbúða greinilega. Þær hafa legið nokkuð þétt saman í einni samfellu. Byggður hefur verið sumarbústaður í nyrsta hluta tóftanna og trjám plantað utan og ofan í þær. Búðirnar virðast hafa verið margar, en erfitt er að greina fjölda þeirra af nákvæmni. Veggir standa víða grónir og dyr hafa gjarnan vísað að hafi. Tveir aumingjalegir tréstaurar standa í tóftunum með afmáðum áletrunum. Vísast hefur þar áður staðið „Friðlýstar fornleifar“.

 

Tóftir Hálsabúða

Sunnarlega í röðinni hefur farið fram fornleifauppgröftur. Í rauninni er/var hann dæmigerður fyrir slíka framkvæmd hér á landi; allt skilið eftir ófrágengið og öðrum einskis nýt. Auðvitað á ekki að leifa fornleifauppgröft nema gera ráð fyrir frágangi svæðisins að honum loknum, þ.e. með viðhlítandi minjaskiljum, merkingum og upplýsingaskiltum. Sumir segja, grafendum til vorkunnar, að uppgröfturinn hafi verið stöðvaður í miðjum klíðum af ótta við þarna kynnu að hafa verið grafin lík frá tímum svartadauða.
Á Búðasandi var samkvæmt rannsóknum dr. Björns Þorsteinssonar stærsti kaupstaður landsins á 14. öld. Þangað komu skip frá útlöndum og gátu haft vetursetu vegna lónsins, þangað sem þau voru dregin upp á haustin. Það var ekki hvað síst biskupsstóllinn í Skálholti, sem var mjög mannmargur, sem naut góðs af þessari höfn og hafði skip í förum, sem lögðu þarna upp. En að auki var þessi höfn, sem var hin besta frá náttúrunnar hendi, ákjósanlega í sveit sett til þess að koma varningi á eftirsóknarverðustu kaupstefnu þjóðarinnar, Þingvelli og Öxará um þingtímann, þegar mannfjöldinn safnaðist þar saman í stórum stíl. Telur dr. Björn, að þessi höfn hafi verið Skálholtsstól öllu hentugri en t.d. höfnin á Eyrarbakka fyrir þær sakir, að leiðin til Skálholts var auðfarnari úr Kjósinni en af Eyrarbakka. Þegar blaðað er í fornum annálum kemur í ljós, að biskupar koma til og frá Hvalfirði, þegar þeir fara utan.
Í BúðafjöruLeiðir af Búðasandi austur á bóginn til Þingvalla og Skálholts voru einkum tvær. Hin fyrri var inn Kjósardalinn og um Kjósarskarð og Kjósarheiði austur til Þingvalla. Þessi leið er auðfarin þótt ekki megi gleyma því, sem gamlar lýsingar gera úr mýrum og þvílíkum farartálmum. Hin leiðin var inn Hvalfjörð og upp úr Brynjudal – eða Botnsdal – yfir Leggjarbrjót til Þingvalla vestan við Ármannsfell. Þarna hefur verið stærsti kaupstaður landsins? Eða svo telja menn nú, þar til annað réttara kemur í ljós. Álitið er að sigling hafskipa í Hvalfjörð hafi aukist mjög á síðari hluta 14. aldar og þar hafi aðalhöfn landsins verið í lok hennar. Heimildir greina frá því, að þar hafi oft verið mörg skip samtímis og ýmsir kaupsamningar, sem dagsettir eru í Hvalfirði, eru til frá þessum tímum. Höfn þar virðist hafa legið vel við, hvað varðar samgöngur, sem fyrr sagði. Á þessum tímum voru hafskipin lítil og grunnskeið svo auðvelt var að draga þau á land og búa þar um þau fyrir veturinn.
Innan við kambinn (Búðasand) er Búðasandurgrunnt lón og fellur smálækur úr því til sjávar syðst á honum. Á flóði gengur sjór upp í lónið. Áður sagði að „Höfnin á Búðasandi hét frá fornu fari Maríuhöfn“. Fljótt á litið virðist bæði aðstaða og lending hin ákjósanlegasta utan við Búðafjöruna, sem er sendi, aflíðandi og löng. Staðsetning búðanna gefa sterklega til kynna að höfnin (legan) hafi verið utan við sandinn. Fjölmörg rök önnur mætti tína til, en skv. sumum fyrirliggajndi upplýsingum á höfnin sjálf, Maríuhöfn, að hafa verið sunnan við Búðasand. Höfði skilur höfnina frá sandinum.
Í örnefnalýsingu fyrir Neðri-Háls eftir Ara Gíslason segir m.a. um Búðasand og tóftirnar þar: „Fallegur hvammur er nyrzt í Búðarsandi, þar sem búðirnar stóðu. Hálsbúðir eru stakkstæði grasi gróið, mjög gamalt. Orðmyndin Búðasandur er rétt að áliti G. (rangt Búðarsandur í stafrófsskrá og í skrá Einars Jónssonar). Á Búðasandi eru miklar tóftir, sem á þessu ári voru friðlýstar. [Skjal undirritað af ÞM 30.09.1975, þinglýst 02.10.1975].
Hálsbúðir eru framangreindar tóftir, sem nú hafa verið friðlýstar.
Hlein er klettasker, sem alltaf er upp úr. Hlein á að vera svo (ekki Hleinar eins og í stafrófsskrá). Allt svæðið fyrir norðan Búðasand er kallað Hlein.“
HálshólarEinnig segir: „
Vestan við Ullarhól er gömul rétt við sjó. Þar er smámelur, sem heitir Réttarmelur, rétt innanvert við hólmann. Rétt fyrir innan Hálshóla, fyrir neðan bæinn á Hálsi er hóll, er heitir Ullarhóll.“
Gengið var yfir affallið úr lóninu næst ströndinni og yfir Búðahöfðann, vestast í Hálshólum. Ástæða er þó til að gefa honum gaum, ekki síst bergummyndunum, hrúðukörlum og öðrum náttúruverðmætum, sem þarna ber fyrir augu.

„Við Maríuhöfn í Laxárvogi var einn stærsti kaupstaður landsins fram á 15. öld. Þangað gengu skip Skálholtsstóls enda var höfnin vel í sveit sett gagnvart samgönguleiðum til Þingvalla og uppsveita Árnessýslu. Þangað barst svarti dauði til landsins árið 1402 en talið er að um þriðjungur íbúanna hafi látist af farsóttinni.
Annálar greina frá því að hún hafi komið með skipi í Hvalfjörð. þá var Maríuhöfn á Búðasandi við Laxárvog ein aðalhöfn landsins. Samkvæmt sömu heimildum tók Áli Svarhöfðason veikina og „deyði fyrstur af kennimönnum um haustið“ í Botnsdal ásamt sjö sveinum sínum. Síðan breiddist pestin um landið og er talið að látist hafi um 40 þúsund manns úr henni, eða nærri helmingur landsmanna.
Á upplýsingaskilti ofan við Maríuhöfn stendur eftirfarandi: „Maríuhöfn er forn verslunarstaður frá þjóðveldisöld og ein aðalsiglingarhöfn landsmanna á miðöldum. Í annálum er oft getið um að skip kæmu út í Hvalfirði og mun átt við þennan stað. Héðan er talið að drepsóttin svartidauði hafi borist til landsins 1402 og smitið borist með klæðum Einars Herjólfssonar. Hann andaðist úr sóttinni á skipi sínu í hafi en klæði hans voru afhent ættingjunum. Maríuhöfn er austan Búðasands en ofanvert við lónið milli sands og sjávar má sjá að Maríuhöfn hafi lagst af á 15. öld með breyttum skipakosti er skip urðu djúpskreiðari og þurftu því dýpri hafnir.“ Blómaskeið verslunar í Maríhöfn var fram yfir 1400.

Varða í Hálshólum

Hlaðinn bryggja hefur verið í Maríuhöfn og sjást leifar hennar enn mjög vel. Sennilega hefur staðsetning þessi, þ.e. á Maríuhöfninni, komið til vegna mannvirkisins. Slíkt mannvirki er ekki að finna á Búðasandi. Fjarlægð búðatóftnanna frá þessum stað þarf þó ekki að útiloka að þarna hafi fyrrum verið hafnaraðstaða, enda bendir bryggjan til þess að svo hafi verið. Þá liggur gata ofan hafnarinnar, sem enn sést greinilega þar sem hún liggur vestast yfir Hálshólana.
Miðað við aðstæður á svæðinu verður að telja líklegra að skip frá þjóðveldistímabilinu hafi flatlent á Búðasandi og varningurinn borinn þar í land, stystu leið til búða. Síðar, þegar flytja þurfti varning frá hinum stærri skipum með smábátum, er líklegra að þau hafi legið utan við eða á svonefndi Maríuhöfn og varningnum verið færður að hinni hlöðnu bryggju í „Maríuhöfn“ innanverðri, sem hér hefur verið tilgreind, a.m.k. einhver hluti eða tilteknir hlutar hans. Með tilkomu bryggjunnar hefur verið hægt að koma varningnum strax fyrir á vögnum, sem ekki var hægt í malarfjörunni. Sjá meira um rannsóknir og heimildir um búðirnar á Búðasandi í meistararitgerð Magnúsar Þorkelssonar 2004.
Gengið var inn með voginum, en hann er þar sendinn og auðveldur yfirferðar. Fallin varða, sem einhverju sinni hefur verið stór, er uppi í Hálshólunum sunnanverðum, líklega markavarða.Maríuhöfn

Þá var stefnan tekin að ofanverðri Hvammsvík með það fyrir augum að berja augum jarðfræðifyrirbærið Steðja. Steðji og næsta umhverfi er eina svæðið sem friðlýst hefur verið í hreppnum; svæðið er friðlýst sem “náttúruvætti”. Ákveðnar reglur gilda um umgengni við Steðja og næsta umhverfi og tilgreindar voru í auglýsingu um friðlýsinguna: Steðji: “Steðji (Staupasteinn) á Skeiðhóli, Kjósarhreppi, Kjósarsýslu. Friðlýstur sem náttúruvætti með auglýsingu í Stjórnartíðindum B, nr. 218/1974. Stærð 7 ha. Sérkennilegur klettur á mjóum stöpli eins og staup í laginu. Ber mörg nöfn en er af flestum nefndur Staupasteinn. Skeiðhóll hefur verið vinsæll áningarstaður ferðamanna. Friðlýstur 1974.”

Steðji

Skeiðhóll er undir miðju Hvammsfjalli í Hvalfirði. Milli hólsins og fjallsins er grunnt skarð þar sem ekið var um uns þjóðvegurinn var færður niður fyrir hólinn, nær sjónum. Sunnan í Skeiðhól stendur afar sérstæður klettur, líkastur glasi á mjóum stöpli. Á honum eru þekkt að minnsta kosti fjögur nöfn: Prestur, Steðji, Karlinn í Skeiðhól og Staupasteinn. Flestir kannast trúlega við klettinn sem Staupastein en á vegvísi við þjóðveginn, nálægt Hvammsvík, er hann nefndur Steðji. Kletturinn og næsta nágrenni er friðlýst sem náttúruvætti. Einbúinn okkar býr í klettinum sjálfum og í brekkunni þar hjá. Erla Stefánsdóttir sjáandi veit einungis um 8 einbúa sömu ættar á Íslandi. Auk okkar manns á Skeiðhóli, er slíkur einbúi við Brynjudalsá í Hvalfirði, tveir eru í Kópavogi og einn nálægt þjóðveginum við Blönduós, svo nokkrir séu nefndir.
Til eru nokkrar sagnir af íbúum í Steðja, en þær verða ekki raktar hér. Hafa ber í huga að staðurinn var vinsæll áningarstaður ferðalanga, svo vinsæll að Staupasteinsnafnið mun ekki hafa komið af engu. Eflaust hafa þá orðið til ýmsar sagnir, sem hver verður að hafa fyrir sig.
Í rauninni er miður að þjóðvegurinn skuli ekki liggja lengur framhjá Steðja, svo mikinn svip hefur hann sett á ferðalög og hugi ferðalanga í gegnum tíðina.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Mbl. 30. ágúst 1981.
-kjos.is
Erlendur Björnsson, endurminningar,  Sjósókn, Rvík 1945.

Búðasandur - Hleinin fjærst