Í B.A.-ritgerð Guðrúnar Jónu Þráinsdóttur, „Steinar í íslenskri fornleifafræði„, er fjallað um, eins og nafnið bendir til, steina tengdum fræðigreininni, Þar segir m.a.:
Gripir úr íslenskum steini
Basalt er algengasta bergtegundin á Íslandi. Basaltið er ýmist dulkornótt og dökkt eða jafnvel svart á lit og nefnist þá blágrýti, eða smákornótt og grátt að lit og nefnist þá grágrýti. Blágrýti er miklum mun algengara hér á landi en grágrýti. Ísland er eitt stærsta basaltsvæði jarðar, enda er 80–90% af öllu storkubergi hérlendis úr basalti.
Við gos undir jöklum verður til basaltaska. Askan þjappast og límist saman og verður að föstu bergi. Nefnist það móberg. Í upphafi hefur askan verið svartleit en hún breytist með tímanum í brúnt.
Steingripir finnast nær eingöngu á bæjarstæðum, enda eru þeir oftast áhöld til daglegs brúks.
Kolur
Hvernig sáu menn til við vinnu sína fyrr á öldum? Ljósfæri landsmanna héldust trúlega óbreytt í um þúsund ár. Á söguöld hafa menn líklegast setið við langelda, sem þá var helsti ljósgjafinn, ásamt ljórum og gluggaopum. Einnig hafa kerti ábyggilega verið notuð allt frá fyrstu tíð.
Elstu ljósfæri sem fundist hafa hérlendis við fornleifarannsóknir eru kolur úr steini, einnig nefndar lýsiskolur, en kolur eru skálar sem ljósmeti var sett í ásamt kveik.
Allt fram á 19. öld urðu tiltölulega litlar breytingar á ljósfærum hérlendis, notast var við kolur, kerti og lýsislampa. Af heimildum er ekki alltaf ljós munurinn á kolu og lampa. Algengast mun þó hafa verið að kalla einfaldan lampa kolu, en lampa ef hann var tvöfaldur. Kolur gátu verið úr ýmsum efniviði, einkum steini, en lampar voru nær alltaf úr málmi.
Flestar steinkolur eru afar einfaldar að gerð. Oft eru þær úr venjulegu grágrýti, en stundum úr öðrum steini sem auðveldara var að móta, svo sem móbergi eða tálgusteini, sem var innfluttur. Hvilft eða bolli er klappaður í steininn og stundum er höggvin lítil rás í barminn fyrir kveikinn.
Stundum voru öðuskeljar notaðar sem kolur. Þá var lýsi og fífukveikur látið í skelina. Lýsislamparnir gáfu furðu góða birtu ef ljósmetið var gott. Eflaust hafa ýmsir hlutir nýst sem kolur, svo lengi sem í þeim var hvilft til að setja í lýsi. Dæmi eru um að pottbrot, blekbyttur og tvinnakefli hafi verið notuð sem kolur. Höfuðskel af fullorðnu fé hefur verið notuð sem kola. Og meira að segja eru til sagnir um að höfuðkúpa af manni hafi verið notuð sem kola.
Sleggjur
Sleggjur hafa margar verið gerðar úr grjóti í gegnum tíðina. Efniviðurinn í þær er misjafn, ýmist þétt berg eða holótt hraungrjót, sem mun auðveldara er að höggva til og bora í gat fyrir skaftið. Lábarðir steinar voru oft notaðir í sleggjur.
Sleggjur voru notaðar til ýmissa hluta. Með veggjasleggjum eða veggjahnyðjum var mold þjappað í veggjum við byggingu torfbæja. Með þökuhnöllum voru sléttuð tún eftir að hreinsað hafði verið undir grassverðinum og mold jöfnuð, þá voru þökurnar þjappaðar niður með þökuhnalli. Voru þær sleggjur stórar og varla á færi eins manns að meðhöndla. Með fiskisleggjum var harðfiskur barinn þar sem hann lá á fiskasteini.
Fiskasteinar voru hafðir utan dyra, einnig í bæjardyrum og í búri.
Sleggjurnar eru oft stórar og þó nokkuð þungar svo að þurft hefur vel sterkan mann (eða fílefldan kvenmann) til að beita þeim.
Fiskasleggja og fiskasteinn voru nauðsyn á hverju heimili. Þrátt fyrir það eru þær ekki svo algengur fundur í uppgröftum frá fyrstu tíð, en eru algengari í rústum seinni alda. Að öllum líkindum voru þær ekki notaðar fyrr en á miðöldum. Fiskasleggjur virðast hafa verið miklu algengari úr steini en járni, að minnsta kosti á seinni öldum. Telja má að flestar sleggjur hér á landi séu úr blágrýti, en nokkrar úr móbergi.
Sleggjurnar eru gegnumboraðar og víkkar gatið inn. Skaft var rekið í gatið og stundum fest með fleyg sem settur var í sleggjuaugað á undan og gekk inn í skaftið er það var síðan rekið í.
Ekki er mikið um sleggjur í rituðum heimildum. Elsta skriflega heimild um fiskasleggjur úr steini eru sennilega í Íslandslýsingu frá um 1590 og er talin vera eftir Odd Einarsson. Þar stendur: „Er hann [venjulegur fiskur] fyrst hertur nægilega í vindi og sól, þá barinn með lurkum eða fremur steinsleggjum, þar til hann er orðinn meyr“…
Gatið í sleggjurnar hefur mögulega verið gert með ýmsum hætti. En við uppgröft á Búðarárbakka í Árnessýslu á árunum 2005-2009 fundust fjórstrendir meitlar úr járni, alls 21 talsins, ásamt oddabrotum af meitlunum.
Af ummerkjum er ljóst að bóndinn á Búðarárbakka framleiddi sleggjur í stórum stíl, enda fundust fjölmargar sleggjur og sleggjukjarnar ásamt meitlunum á verkstæði við bæinn.
Oftast eru sleggjurnar brotnar þegar þær koma í ljós við uppgrefti. Sumar finnast í eldstæðum og bera þess merki að hafa verið notaðar áfram, til dæmis sem soðsteinar, eða nýttar sem byggingarefni. Telja má að fólk hafi útvegað sér steina í sleggjur eða lóð á tiltölulega auðveldan hátt.
Lóð
Við marga uppgrefti koma í ljós flatir steinar með gati á. Slíkir steinar hafa nokkuð víst verið notaðir sem einhvers konar lóð, svo sem sökkur fyrir net eða færi, kljásteinar til að strekkja vef, eða draglóð eða lokusteinar til að halda hurðum að stöfum. Draglóðið hékk í bandi utan á dyrakarminum en var fest við hurðina í gegnum gat á karminum. Lóðið lokaði dyrunum því sjálfkrafa með þunga sínum. Lokusteinn hékk í spotta í hurðinni og var dyrunum lokað þannig að snærið var sett upp á nagla í hurðarkarminum.
Steinar hafa einnig verið notaðir sem vigt, til dæmis með mörk sem einingu, en ein mörk samsvarar 250 grömmum.
Kljásteinar
Ull hefur í gegnum tíðina verið mikilvægasta hráefnið sem notað var í fatnað og allan annan textíl. Ekki síst á það við hér á landi því að ekki er af mörgu öðru textílefni að taka, þó að hör hafi mögulega verið ræktaður í einhverjum mæli, eins og örnefni tengd líni benda til. Eins var nýtt bæði roð og skinn og hár af öðru en sauðfé, svo sem hestum, geitum og jafnvel nautgripum, en betra þótti að spinna dýrahárin saman við ull af sauðfé svo að af yrði grófara og sterkara band.
Merking orðsins kljár er „steinn í vefstól.“ Kljásteinar eru lóð úr steini er notuð voru til að hengja neðan í uppistöðu í vef og halda henni strengdri. Kljáir voru einnig notaðir sem sakka á neti.89 Kljásteinar geta verið með ýmsu lagi, enda eru þeir oftast teknir beint úr náttúrunni, gjarnan fjöru eða árfarvegi.
Gat var borað til að binda þráð í, en stundum er gatið af náttúrunnar hendi eða náttúrulegt gat sem var lagað til.
Kljásteinar finnast stundum margir saman í uppgröftum og er það yfirleitt talin vísbending um að þar hafi staðið vefstaður.
Uppréttur vefstaður hefur verið í notkun allt frá því í árdaga og fram á okkar daga í einhverri mynd. Vefstaðurinn hefur að öllum líkindum tekið litlum breytingum í gegnum tíðina.
En hvernig er hægt að þekkja kljásteinana úr? Eins og áður segir er jafnan talið nokkuð víst að um kljásteina sé að ræða þegar nokkrir lóðsteinar finnast saman í hrúgu, sem væntanlega hafa verið skildir eftir þegar vefurinn hefur verið tekinn. Best er að nota nokkuð flata og ávala steina sem flækjast ekki saman við vefnað.
Ágætt er að bera nýfundna steina saman við aðra sem fallið hafa til í uppgröftum og eru taldir nokkuð örugglega vera kljásteinar. Staðsetning steinanna í rústum gæti einnig gefið notkun þeirra til kynna, einkum í brunarústum, því að þá er líklegra að steinarnir séu á þeim stað sem þeir voru notaðir á.
Flestir kljásteinar hérlendis eru úr basalti, sem er mjög hart efni. Forvitnilegt væri samt að athuga hvort sjá megi merki um að reynt hafi verið að merkja steinana á einhvern hátt.
Kljásteinar úr klébergi geta verið mismunandi að lögun. Þeir geta verið nánast hringlaga með gati í miðju. Margir eru perulaga, rétthyrndir, sporöskju- og egglaga og einstaka jafnvel þríhyrndur, oftast með gat við annan endann, yfirleitt þann mjórri.
Flestir kljásteinar eiga það sameiginlegt að vera nokkuð flatir svo að þeir flækist síður saman þegar ofið er.
Við rannsókn á kljásteinum hefur komið í ljós að steinar úr sama vef eru nokkuð áþekkir að þyngd, en þyngdin getur verið mismunandi eftir vef. Í fínni vef þarf léttari steina. Þar sem ofið var með grófara bandi voru stundum notaðir tveir steinar saman, eða jafnvel fleiri. Kljásteinar úr vefstað frá seinni tímum eru yfirleitt þyngri, kannski vegna þess að ívafið í seinni tíma vefnaði er látið hylja uppistöðuþræðina svo að oft sést ekki í uppistöðuna.
Vaðsteinar
Vaðsteinn er notaður sem lóð eða sakka á færi, en vaður merkir færi. Oft voru vaðsteinar lábarðir, flestir kúptir, oftast ögn flatir og sporöskjulaga. Slíkir steinar eru ýmist með gati á öðrum enda fyrir netið eða með djúpum skorum klöppuðum langsum hringinn í kring til þess að vefja í reipi utan um steininn. Stöku sinnum var einnig skora um þá miðja. Stundum, a.m.k. í seinni tíð, var stutt leðurræma lögð undir bandið í báða enda og var færið og öngullinn svo fest þar í.
Við sjóinn eru nokkrir staðir kenndir við vaðsteina, þar sem þeir hafa verið teknir. Sem dæmi um það má nefna Vaðsteinaberg í Hergilsey, Vaðsteinatanga og Vaðsteinavík
í Grímsey á Steingrímsfirði og á Flatey í Skjálfanda er Vaðsteinanes.
Vaðsteinar voru misþungir, oft 1-2½ kg og fór það líklega eftir því til hvers þeir voru notaðir. Sumir vildu hafa þá létta svo að færið gæti borist með straumnum sem lengst. Oft voru vaðsteinar og sökkur á hákarlavaði 8 – 12 pund.
Til eru varðveittir steinar með ýmsum merkjum klöppuðum í, svo sem krossi eða upphafsstöfum eiganda og jafnvel ártali eða ýmsum öðrum táknum.
Síðar var farið að nota sökkur úr járni eða blýi og um þarsíðustu aldamót voru vaðsteinar víðast hvar úr sögunni.
Svo virðist sem vaðsteinar hafi tekið litlum breytingum í gegnum tíðina. Árið 1908 rannsakaði O. Nordgaard í Noregi 400 sökkur sem voru aldursgreindar allt frá steinöld og til hans samtíma. Í ljós kom að erfitt var að ákvarða aldur sakkanna eftir útlitinu einu saman.
Flokka má vaðsteina eftir útliti, rétt eins og kljásteina. Lögun steinanna virðast fara eftir því hversu mikið stýra þarf steinunum niður í sjó eða vatn.
Ýmis veiðarfæri eru talin með í eignaskrám kirkna og klaustra víða um land frá 16. öld.
Snældusnúðar
Til þess að hægt sé að spinna og prjóna úr ull þarf að snúa ullina saman í þráð. Flestir þræðir eru af takmarkaðri lengd og þarf því að spinna þá saman í langan þráð.
Halasnældur voru gerðar úr þremur hlutum, snúð, hala og hnokka. Snældusnúðurinn var ýmist úr steini, blýi, beini, leir eða tré. Hann er kringlóttur í laginu, oft kúptur að ofan en flatur að neðan og gat á honum miðjum. Í gatið á snúðnum var rekið tré, langt og mjótt, svo nefndur snælduhali, sem yfirleitt mjókkaði niður frá snúðnum. Í efri halaendann, sem stóð upp úr snældusnúðnum, var festur krókur úr málmi, oftast járni, er hann nefndur hnokki. Þetta sést a. m. k. á snældusnúðum frá síðari tímum.
Spunnið var á halasnældu í tveimur áföngum. Lopi, eða lyppa, var fest í hnokkann (þ.e. krókinn ofan á), snældunni var þá snúið og spunnin ein löng færa úr lopanum. Síðan var þráðurinn undinn upp á snælduhalann með því að snúa honum hratt í hendi sér. Var ýmist staðið eða setið við snælduspuna.
Þyngd snældusnúðsins er notuð bæði til þess að vinda upp þráðinn og til þess að fá snúð á bandið. Snældusnúðarnir eru misþungir eftir því hvers lags þráður var spunninn. Þykkari þráður krefst þyngri snúðs. En léttari snúðar snúast hraðar og vinda þéttar upp á þráðinn svo að hann verður sterkari.
Keilulaga snældusnúðar snúast hraðar en kringlulaga. Af þessu má sjá að lögun og þykkt snældusnúðs skiptir máli fyrir spunann, en einnig lengd og þykkt halans.
Snældusnúðar eru hringlaga, eða því sem næst, og eru með holu í gegnum miðjuna. Lögun þeirra er breytileg að nokkru marki. Sumir eru kúlulaga að ofan en flatir að neðan, aðrir eru eilítið keilulaga, sumir líkjast stundaglasi en aðrir eru flatir. Norsk rannsókn leiddi í ljós að þeir eru sjaldnast meira en 50g að þyngd, flestir á milli 20 og 35 grömm. Snældusnúðar þyngri en það eru sjaldfundnir, þeir hafa þá frekar verið notaðir til annarra verka, annars konar spuna eða til borunar, svo eitthvað sé nefnt.
Venjan er að flokka snúðana fyrst eftir efni, svo lögun og þá stærð, þyngd og skreyti, ef um það er að ræða. Snældusnúðar úr steini eru yfirleitt stærstir.
Kléberg (e. steatite) er þrisvar sinnum algengari í snældusnúðum en önnur efni. Aðrir snældusnúðar þar eru úr steini sem kallast á ensku greenstone, gabbró, flögubergi og kalksteini. Ekki virðist vera neitt sérstakt samhengi á milli þyngdar steinanna og úr hvaða efni þeir eru.
Holan í miðju snældusnúðsins verður að vera sem beinust og eins nálægt miðju og hægt er til að snúningur snúðsins sé jafn. Svo virðist sem léttari snældusnúðar séu fremur skreyttir en hinir.
Oft finnast ófullkláraðir snældusnúðar við uppgrefti.
Síðar meir tók fólk að nota rokk í staðinn fyrir halasnældu og margfaldaði afköst sín, en spunarokkar hafa fylgt vefstólunum. Elstu heimildir um rokka hér á landi eru í ritgerð frá um 1736-1737 eftir norskan mann, Mathis Iochimsson Vagel. Segir hann þar að þorri Íslendinga, bæði konur og karlar, spinni enn á halasnældu.
Snældusnúðar hafa fundist við uppgrefti hérlendis. Þegar þeir eru úr steini finnast þeir yfirleitt án halans, hann er þá eyddur og farinn veg allrar veraldar. Fáeinir snældusnúðar úr steini hafa fundist hér á landi með áklöppuðu rúnaletri og meira að segja tveir núna nýlega.
Stærsti gripaflokkurinn hér úr klébergi er snældusnúðar.
Kvarnarsteinn
Handkvarnir til kornmölunar voru til á heimilum manna hér áður fyrr, allt frá landnámi. Í Þjórsárdal fundust samtals fimm kvarnarsteinar og eru þeir allir úr hraungrýti. Í Suðurgötu í Reykjavík fundust einnig fimm kvarnarsteinar og voru þeir einnig allir unnir úr hrauni.1 Elín Bjarnadóttir segir í BA-ritgerð sinni að best hafi þótt að nota hraungrýti í kvarnir. Vegna þess hversu holótt það er slitnuðu kvarnirnar síður og misstu mölunareiginleika sína. Flestar kvarnir á Íslandi eru enda úr hraungrjóti, eða tæp 72% greindra kvarna, líkast til úr hérlendu grjóti. Hér hafa kvarnir einnig verið úr sandsteini og flögusteini (skifer). 16 kvarnir reyndust vera af erlendum uppruna, þar af 14 úr flögubergi, einn úr sandsteini og einn skráður sem „erlent berg“. Erlendu steinarnir fundust á stórbýlum, flestum frá miðöldum, og því má tengja þá við yfirstétt.
Kvarnarsteinarnir voru gerðir úr gropnu hraungrjóti voru höggnir til sívalir kvarnarsteinar. Steinarnir voru tveir, efri og neðri steinn. Kornið var látið í gatið á efri kvarnarsteininum og var síðan malað á milli flatra steinanna, var þá efri steininum snúið með handfangi. Stundum var stokkur smíðaður utan um kvörnina, annars stóð kvörnin á fjölum sem lögð var á milli t.d. tveggja kistna. Mjölið var m. a. haft í grauta, kökur, lummur og pönnukökur.
Á einokunartímanum var mest flutt inn malað korn og var kornið oftar en ekki lélegt og skemmt er á leiðarenda var komið, enda geymist korn mun betur ómalað. Í lok 18. aldar var farið að flytja inn ómalað korn og handkvarnir og bændur fóru að búa til vatnsknúnar kornmyllur. Víðast var hætt að nota þær um 1920.
Kvarnarsteinar hafa verið afar lengi í notkun. Ekki er hlaupið að því að aldursgreina kvarnir út frá gerð og útliti, því að kvarnarsteinar hafa tekið litlum breytingum í gegnum tíðina. Þess vegna verður að aldursgreina út frá undasamhengi.
Rúnnaðir steinar
Þegar búið var að vefa ull eða hör þurfti yfirleitt að meðhöndla voðina. Ull var gjarnan burstuð og þæfð, flos var klippt, dúkar litaðir og afurðin þvegin og mýkt. Ýmiss konar áhöld hefur þurft til þessara verka. Til dæmis hefur ull verið þvegin úr keytu og þæfð í stórum kerum frá örófi alda. Voðin var barin með stöfum eða klöppum (banketre á norsku) til að fá betri flóka, var hengd upp til þerris og nudduð með burstum og kömbum svo hún þæfðist enn betur. Hör var líka meðhöndlaður með barsmíðum til að mýkja hann og gera þjálli. Því miður eru ekki mörg merki eftir um þessi áhöld. Flest voru þau úr tré, en varðveisla á viði í jörðu er oft bágborin.
Talið er að hör hafi verið mýktur og pressaður með kúlulaga steinum eða gleri, oft sléttari á annarri hlið og stundum eins og eilítið hvolflaga á hinni hlið, sem fer vel í lófa. Ofinn hördúkur var nuddaður með slíkum áhöldum, saumar á flíkum úr hör voru sömu leiðis mýktir og pressaðir um leið til að fá fram stíft og glansandi útlit.
Og sjálfsagt hefur verið tilvalið að nota rúnnaða steina til að merja með og mala, til dæmis korn eða jurtir. Ýmislegt þarf að steyta, svo sem krydd og korn og litunarefni og þá trúlega í mortélskál.
Einnig hafa sést svonefndir pottasteinar. Þeir eru flatir og sléttir og voru notaðir til að hreinsa hlóðarpotta að innan. Þeir gátu verið úr ýmiss konar steini. Dæmi er um pottastein úr vikri (frá Berjanesi í Landeyjum) og til er annar úr holóttu hraungrjóti (frá Hvallátrum norðan við Látrabjarg).
Þess má og geta að vikursteinn var notaður til að verka kálfskinn. Eftir að skinnið var afhárað, skafið og þurrkað var það gjarnan fægt með vikursteini svo yfirborðið gljáði til þess að hægara væri að skrifa á það, skinnið var oftast annars of hrjúft. Vikursteinn var einnig notaður til þess að fægja járn og halda því gljáandi, til dæmis hnífa.
Vikur finnst oft við uppgrefti. Oft er hann í ómótuðum molum, en stundum er greinilegt að hann hafi verið notaður. Eins og áður segir var hann notaður til að fægja með, einnig til að pússa tré. Til eru einstöku gripir úr vikri. Líklegt má telja að vikursteinninn sé fenginn hérlendis. Það er þó ekki hægt að vita með fullri vissu nema með efnagreiningum.
Heimild:
-Steinar í íslenskri fornleifafræði, ritgerð til B.A.-prófs – Guðrún Jóna Þráinsdóttir, 2011, bls. 15-16.