Færslur

Hvalsnes
“Einhvern tíma snemma vors árið 1637 kemur skip sem oftar fyrir Reykjanes og stefnir til Keflavíkur.
Bát er róið út í skipið og leggjast að hlið þess. Forvitin augu beinast að bátsverjunum úr landi. Hún er þögul, en hann er ræðinn og léttur í máli.

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson.

Áður en lent er í fjörunni hafði hann sagt nokkur deili á þeim báðum, sér og konunni. Hann hét Hallgrímur Pétursson, ættaður að norðan, hafði verið í Lukkustað og Kaupenhöfn, vegið kol, stundað járnsmíði og lesið latínu. Konan hét Guðríður Símonardóttir, kynjuð frá Vestmannaeyjum.
Ekki fara sögur af því hvar þau áttu náttstað fyrstu nóttina á Íslandi eftir langa og að mörgu leyti stranga útlegð.
Hallgrímur var stórættaður maður, þótt hann ætti til smárra að telja hið næsta sér. Afabróðir hans hafði t.d. verið prestur á Útskálum og hans sonur síðan. Afabróðir hans annar var síra Þorlákur á Staðarbakka í Miðfirði, faðir Guðbrands biskups. Föðursystir hans átti Jón prófast Sveinsson í Holti, hálfbróður Brynjólfs biskups. Sakir ætternis hafi Hallgrímur flust til Hóla nýfæddur, – sé hann þá ekki fæddir þar á staðnum, – en Pétur, faðir hans, var, eins og kunnugt er, hringjari eða kirkjuvörður við dómkirkjuna á Hólum og hafði Guðbrandur biskup látið hann njóta frændsemi í þessu.

Hvalsneskirkja

Minnismerki um Hallgrím Pétursson við Hvalsneskirkju.

Ekkert er vitað með vissu um það, af hvaða orsökum Hallgrímur fer frá Hólum og til útlanda. Munnmæli herma ýmist að hann hafi hlaupist á brott með kaupmönnum eða, að hann hafi komist í óvingan fyrir kvenfólk á staðnum sökum kveðlinga.
Þjóðsagan segir, að þegar Hallgrímur löngu síðar kom í Skálholt og gerði boð fyrir biskupinn og kvað Hallgrím Pétursson vilja tala við hann, hafi biskup svarað: “Fari hann ofan í smiðju og reki járn, það kann hann”.
Ungi maðurinn yfirbragðsmikli, sem varð landfastur í Keflavík einhvern maídag 1637, átti þá mikla sögu að baki, þótt ungur væri að aldri, aðeins 23 ára.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.

Guðríður hafði verið hertekin ambátt hjá Hundtyrkjum. Hún hefur eflaust fljótlega eftir komu sína hingað þegið þá nafnbót af Suðurnesjamönnum, sem hún hefur síðan borið, Tyrkja-Gudda. Ástir þeirra höfðu brotið blað í lífssögu beggja, einkum hans.
Maður Guðríðar reyndist látinn. En eigi að síður var aðstaða þeirra gagnvart almenningsálitinu í meira lagi örðug, og sek voru þau að þeirra aldar lögum, þótt brotið teldist ekki eins alvarlegt og þau hafa, e.tv. haft ástæðu til að vænta. En Guðríður gekk upprétt sína ævibraut. Hún og Hallgrímur hittu fyrir góða menn hér syðra, sem reyndust þeim hjálplegir í erfiðleikum þeirra. Hann var að sönnu þurfamaður á Suðurnesjum að ýmsu leyti.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímur hefur orðið að leita sér atvinnu hér og fyrsta sumarið var hann púlsmaður danskra Í keflavík. En Guðríður fékk athvarf í Ytri-Njarðvík hjá Grími nokkurm Bergssyni, sem var þeim óvandabundinn með öllu. Barn þeirra Hallgríms ól hún hjá Grími nýlega á land komin og nefndi Eyjólf eftir fyrra manni sínum.

Mér sýnist sem minning Gríms í Njarðvík, og þess, sem hann gerði fyrir Hallgrím, sé fullnóg hinum megin á vogina, til þess að rétta hlut Suðurnesjamanna. Fleiri reyndust Hallgrími góðir drengir. Hann bjó á Bolafæti í Njarðvík ytri, en dvaldist öðrum þræði í Hvalsneshverfi í skjóli bóndans þar, Þorleifs Jónssonar. Þorleifur mun hafa hvatt Hallgrím á biskupsfund, til þess að sækja um Hvalsnesþing og að það hafi verið hann, sem tók að sér “forsorga hans hyski”, meðan hann var í burtu. Hallgrímur dvaldist um sjö ár hér á Suðurnesjum, en er Brynjólfur Sveinsson, sem þá var orðinn biskup í Skálholti, skerst öðru sinni í leikinn, skiptir þáttum í ævisögu Hallgríms.

Hvalsneskirkja

Stærri klukkan frá 1875.

Hvalsnesþing voru prestlaus og höfðu verið um skeið. Reyndist torvelt að fá menn til þessa embættis og er Torfa sýslumanni einkum kennt. Einhvern tíma á vertíðinni 1644 fær Hallgrímur sig lausan úr skipsrúmi sínu, til þess að takast brýna ferð á hendur – að hitta Brynjólf biskup. Munnmælin segja, að Hallgrímur hafi farið fótgangandi í Skálholt og illa búinn og viðtökur staðarmanna hafi verið heldur kaldranalegar. En hljóðið hafi breyst í þeim, þegar hann hafði prédikað í dómkirkjunni. Þegar hann hélt úr hlaði í Skálholti, hafi hann hlotið vígslu í Hvalsneskirkju af Brynjólfi biskupi. Þá var hann sæmilega búinn, því að biskup gaf honum alklæðnað góðan, reiðhest með öllum reiðtygum og hempu.

Hvalsneskirkja

Minni klukkan – áletyrun I CH GAMST KHVN 1819 Tionsen Hvalsness.

Aðkoman að Hvalsnesi var að sönnu ekki glæsileg, staður og kirkja í niðurníðslu og embættistekjurnar næsta rýrar. En þetta skipti ekki meginmáli, heldur hitt, að veitingin var sú uppreisn, sem Hallgrímur þurfti að fá. Hann hafði borið upp á Suðurnes af skipreika og í mörgu tilliti verið eins og sjórekið flak. En hann var kjörviður andlegra yfirburða. Hér á Hvalsnesi komst Hallgrímur upp úr flæðamálinu, hér náði hann að skjóta rótum í jarðvegi íslenskrar kristni. Á þessum stað tók meiður að bruma, sem átti eftir að lyfta laufkrónu sinni svo hátt, að hún blasir við augum allra kynslóða á Íslandi.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hallgrímur var prestur að Hvalsnesi í 7 ár. Hann var 37 ára (1651) er hann fluttist á brott, að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Helsti minnisvarði Hallgríms að Hvalsnesi er legsteinn Steinunnar, dóttur hans. Hann reisti henni, þriggja og hálfs árs, bautarstein og lagði hann á legstaðinn. Steinn þessi fannst er verið var að lagfæra stéttina við kirkjuna. Hann er nú í kirkjunni á Hvalsnesi.”

-Sigurbjörn Einarsson
-Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Stóri-Hólmur

Árið 1965 eða 1966 fór Halldór Þorsteinsson frá Meiðastöðum í Garði með barnabörnin sín í gönguferð um Leiruna. Faðir hans, Þorsteinn Gíslason, var frá Melbæ í Leiru. Í hópnum var Kristjana Vilhjálmsdóttir, eitt barnabarna Halldórs. Hún man enn vel eftir þessari ferð. Áður en að frásögn hennar kemur er rétt að rifja upp atburði er urðu þar á 9. öld, eða fyrir u.þ.b. 1080 árum (skrifað 2009).
KristjanaÍ 101. kafla Landnámu (Sturlubók) er sagt frá Steinuði (Steinunni) er síðar nam land á Rosmhvalanesi; “Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum”. Þá segir jafnframt að “Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík”.
En hvar bjó Steinunn eftir að hún settist að á Rosmhvalanesi og hvar var hún grafin, heygð eða dysjuð?
DysÁður en þeirri spurningu verður svarað er rétt að segja frá ástæðu þeirri er varð til þess að langafi Kristjönu flutti frá Melbæ í Leiru að Meiðastöðum í Garði. Syðst í Leiru, norður af Bergvík, var Grænigarður eystri og vestari og þá Lindarbær. Vatnsbrunnurinn, fallega hlaðinn, er í Dalnum. Í leysingum fór Línlækur þar niður um. Í Dalnum var stundum þveginn þvottur. Af því dregur Línlækur nafn sitt og eftir vatnsbólinu heitir Lindarbær. Norðar með sjónum var Melbæjarbakki og norðar Melbær, steinsnar frá Bakka. Upp úr torfbænum að Melbæ var byggt timburhús, portbyggt með íbúðarlofti. Í þetta nýja hús var sett eldavél, niðurmúruð eins og þær tíðkuðust fyrst eftir að þær tóku að flytjast hingað til lands. Þóttu þær all nýstárlegar og hinir mestu kjörgripir, enda var þá strax farið að baka í þeim brauð og “bakkelsi”.
FornmannagröfMun þetta hafa verið fyrsta “Maskínan”, sem kom í Leiruna, að sögn Þorbjargar Sigmundsdóttur, sem ólst upp frá fjögurra aldri að Efra-Hrúðurnesi í Leiru (fædd 15. okt. 1878). “Myndi þetta þó þykja þröngur kostur nú til dags og ófýsileg lífskjör, en samt er gagnlegt og lærdómsríkt fyrir nútímafólk, sem flestir hlutir eru lagðir upp í hendurnar á, að hyggja að þeim stórstígu breytingum til bættra lífskjara, sem orðið hafa á síðar aldarhelmingi (20. aldar).”
Það mikla og raunalega atvik skeði milli jóla og nýárs aldamótaárið, að eldur kom upp í Melbæ að í ofsaroki að næturlagi og brann þar allt sem brunnið gat og þar á meðal 2 kýr í fjósinu. Mannskaði varð þó ekki og bjargðist fólkið allt, fyrst og fremst fyrir dugnað húsbóndans og áræði, en við björgunarstarfið skaðbrenndist hann bæði á höndum og andliti. Dóttir hjónanna brenndist einnig mjög mikið.”
Allt framangreint rifjaðist upp í framangreindi ferð um Leiruna fyrir 43 árum. Nefndur Halldór sýndi barnabörnunum varirnar, gömlu bæjarstæðin og sagði þeim frá því hversu margir hefðu búið í Leirunni fyrrum. Þótt breyting hefði orðið á bjuggu þar t.a.m. mun fleiri en í Garðinum í þá daga. Þegar komið var upp að Stóra-Hólmi staðnæmdist Halldór á aflöngum hól vestan við íbúðarhúsið, fast norðan við heimreiðina, og benti niður fyrir sig. “Hér er Steinunn gamla dysjuð”, sagði hann. “Það minni hefur lifað löngum meðal íbúanna í Leirunni”, bætti hann við.
FornmannagröfÍ þessari ferð gekk Kristjana hiklaust að aflöngum lágum hól í túninu og staðnæmdist þar. Heimreiðin lá um hrygginn. Norðan hans er hóllinn (hryggurinn) hæstur. Austan í honum er lítil dæld, líkt og einhver hafi gert tilraun til að grafa í hólinn. Kristjana sagði að afi hennar hafi verið ákveðinn í að þarna væri dys Steinunnar gömlu. Þá hefði hóllinn verið meiri um sig í túninu, en eftir að golfvöllurinn kom þarna hefði hóllinn verið aflagaður og sleginn, sem ekki hefði mátt gera fyrrum.
Kristjana sagði að almannarómur hefði verið að þarna hefði dys þeirrar gömlu verið. Vildi hún koma því á framfæri því enginn virtist hafa haft áhuga á að varðveita tilvist hennar síðustu árin.
Til fróðleiks má geta þess að í annarri FERLIRsferð er gengið var um Leiruna var komið að meintri fornmannagröf norðan við íbúðarhúsið að Stóra-Hólmi. Þar eru bátlaga hleðslur, sem lengi vel voru umgirtar og ekki mátti hrófla við. Sjá meira um Leiruna HÉR og Hér.
Sjá einnig meira um Steinunni gömlu HÉR.

Heimildir:
-Landnáma – 101. kafli.
-Kristjana Vilhjálmsdóttir, 03.06.1941.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.