Bát er róið út í skipið og leggjast að hlið þess. Forvitin augu beinast að bátsverjunum úr landi. Hún er þögul, en hann er ræðinn og léttur í máli.
Áður en lent er í fjörunni hafði hann sagt nokkur deili á þeim báðum, sér og konunni. Hann hét Hallgrímur Pétursson, ættaður að norðan, hafði verið í Lukkustað og Kaupenhöfn, vegið kol, stundað járnsmíði og lesið latínu. Konan hét Guðríður Símonardóttir, kynjuð frá Vestmannaeyjum.
Ekki fara sögur af því hvar þau áttu náttstað fyrstu nóttina á Íslandi eftir langa og að mörgu leyti stranga útlegð.
Hallgrímur var stórættaður maður, þótt hann ætti til smárra að telja hið næsta sér. Afabróðir hans hafði t.d. verið prestur á Útskálum og hans sonur síðan. Afabróðir hans annar var síra Þorlákur á Staðarbakka í Miðfirði, faðir Guðbrands biskups. Föðursystir hans átti Jón prófast Sveinsson í Holti, hálfbróður Brynjólfs biskups. Sakir ætternis hafi Hallgrímur flust til Hóla nýfæddur, – sé hann þá ekki fæddir þar á staðnum, – en Pétur, faðir hans, var, eins og kunnugt er, hringjari eða kirkjuvörður við dómkirkjuna á Hólum og hafði Guðbrandur biskup látið hann njóta frændsemi í þessu.
Ekkert er vitað með vissu um það, af hvaða orsökum Hallgrímur fer frá Hólum og til útlanda. Munnmæli herma ýmist að hann hafi hlaupist á brott með kaupmönnum eða, að hann hafi komist í óvingan fyrir kvenfólk á staðnum sökum kveðlinga.
Þjóðsagan segir, að þegar Hallgrímur löngu síðar kom í Skálholt og gerði boð fyrir biskupinn og kvað Hallgrím Pétursson vilja tala við hann, hafi biskup svarað: “Fari hann ofan í smiðju og reki járn, það kann hann”.
Ungi maðurinn yfirbragðsmikli, sem varð landfastur í Keflavík einhvern maídag 1637, átti þá mikla sögu að baki, þótt ungur væri að aldri, aðeins 23 ára.
Guðríður hafði verið hertekin ambátt hjá Hundtyrkjum. Hún hefur eflaust fljótlega eftir komu sína hingað þegið þá nafnbót af Suðurnesjamönnum, sem hún hefur síðan borið, Tyrkja-Gudda. Ástir þeirra höfðu brotið blað í lífssögu beggja, einkum hans.
Maður Guðríðar reyndist látinn. En eigi að síður var aðstaða þeirra gagnvart almenningsálitinu í meira lagi örðug, og sek voru þau að þeirra aldar lögum, þótt brotið teldist ekki eins alvarlegt og þau hafa, e.tv. haft ástæðu til að vænta. En Guðríður gekk upprétt sína ævibraut. Hún og Hallgrímur hittu fyrir góða menn hér syðra, sem reyndust þeim hjálplegir í erfiðleikum þeirra. Hann var að sönnu þurfamaður á Suðurnesjum að ýmsu leyti.
Hallgrímur hefur orðið að leita sér atvinnu hér og fyrsta sumarið var hann púlsmaður danskra Í keflavík. En Guðríður fékk athvarf í Ytri-Njarðvík hjá Grími nokkurm Bergssyni, sem var þeim óvandabundinn með öllu. Barn þeirra Hallgríms ól hún hjá Grími nýlega á land komin og nefndi Eyjólf eftir fyrra manni sínum.
Mér sýnist sem minning Gríms í Njarðvík, og þess, sem hann gerði fyrir Hallgrím, sé fullnóg hinum megin á vogina, til þess að rétta hlut Suðurnesjamanna. Fleiri reyndust Hallgrími góðir drengir. Hann bjó á Bolafæti í Njarðvík ytri, en dvaldist öðrum þræði í Hvalsneshverfi í skjóli bóndans þar, Þorleifs Jónssonar. Þorleifur mun hafa hvatt Hallgrím á biskupsfund, til þess að sækja um Hvalsnesþing og að það hafi verið hann, sem tók að sér “forsorga hans hyski”, meðan hann var í burtu. Hallgrímur dvaldist um sjö ár hér á Suðurnesjum, en er Brynjólfur Sveinsson, sem þá var orðinn biskup í Skálholti, skerst öðru sinni í leikinn, skiptir þáttum í ævisögu Hallgríms.
Hvalsnesþing voru prestlaus og höfðu verið um skeið. Reyndist torvelt að fá menn til þessa embættis og er Torfa sýslumanni einkum kennt. Einhvern tíma á vertíðinni 1644 fær Hallgrímur sig lausan úr skipsrúmi sínu, til þess að takast brýna ferð á hendur – að hitta Brynjólf biskup. Munnmælin segja, að Hallgrímur hafi farið fótgangandi í Skálholt og illa búinn og viðtökur staðarmanna hafi verið heldur kaldranalegar. En hljóðið hafi breyst í þeim, þegar hann hafði prédikað í dómkirkjunni. Þegar hann hélt úr hlaði í Skálholti, hafi hann hlotið vígslu í Hvalsneskirkju af Brynjólfi biskupi. Þá var hann sæmilega búinn, því að biskup gaf honum alklæðnað góðan, reiðhest með öllum reiðtygum og hempu.
Aðkoman að Hvalsnesi var að sönnu ekki glæsileg, staður og kirkja í niðurníðslu og embættistekjurnar næsta rýrar. En þetta skipti ekki meginmáli, heldur hitt, að veitingin var sú uppreisn, sem Hallgrímur þurfti að fá. Hann hafði borið upp á Suðurnes af skipreika og í mörgu tilliti verið eins og sjórekið flak. En hann var kjörviður andlegra yfirburða. Hér á Hvalsnesi komst Hallgrímur upp úr flæðamálinu, hér náði hann að skjóta rótum í jarðvegi íslenskrar kristni. Á þessum stað tók meiður að bruma, sem átti eftir að lyfta laufkrónu sinni svo hátt, að hún blasir við augum allra kynslóða á Íslandi.
Hallgrímur var prestur að Hvalsnesi í 7 ár. Hann var 37 ára (1651) er hann fluttist á brott, að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Helsti minnisvarði Hallgríms að Hvalsnesi er legsteinn Steinunnar, dóttur hans. Hann reisti henni, þriggja og hálfs árs, bautarstein og lagði hann á legstaðinn. Steinn þessi fannst er verið var að lagfæra stéttina við kirkjuna. Hann er nú í kirkjunni á Hvalsnesi.”
-Sigurbjörn Einarsson
-Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960