Tag Archive for: stekkir

Hnúkasel

Ísland er skv. skriflegum heimildum sagt hafa verið numið af norrænum mönnum árið 874. Segjum svo hafa verið. En á 1.150 árum hlýtur margt að hafa breyst í gegnum tíðina, bæði hvað varðar búskaparhætti og landnýtingu.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Tökum dæmi: Seljabúskapur fluttist hingað með landnámsfólkinu. Sá búskapaháttur var stundaður nánast óbreyttur í u.þ.b. 996 ár. Að honum loknum tóku við miklar breytingar í aðdraganda mikilla þjóðfélagsbreytinga. Fólk var að flytjast úr sveitum í nýmynduð þorpin allt umleikis landið. Fiskveiðar, sem reyndar höfðu verið stundaðar í útverum á síðustu árum selsbúkaparins, tóku mið af þróuninni.
Útvegsbændur á Reykjanesskaganum þráuðust við þegar vinnufólkinu tók að fækka; færðu „selstöður“ sínar nær bænum, enda tilgangur þeirra ekki lengur eins mikilvægur og fyrrum, þ.e. að tryggja með tilvist þeirra vitund annarra á eignarrétti landsins.
Helsta breytingin og þar með viðbrögð bænda í lok 18. aldar var að selstöðurnar fyrrum urðu að stekkjum, mun nær bæjunum. Stekkirnir, sem oft voru nefndir eftir þjónustum sínum, höfðu nánast sama tilgang og selin fyrrum, en til að þjónusta þá þurfti bæði minni mannskap og nánast engan húsakost því þangað var bæði hægt að ganga fram og til baka á skömmum tíma, án þess að þurfa að gista. Í selin fyrrum hafði meðalstalsselsstígurinn verið ca. 6 km., eða um þriggja klukkustunda gangur aðra leiðina, en í stekkina var gangurinn ekki nema ca. 20 mínútur.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Síðustu leifar seljabúskaparins má finna næst bæjunum, stekkina nánast við túngarðinn og fjárréttirnar í framjhaldinu.
Í byrjun 19. aldar byrjuðu bændur að byggja hús yfir fénað sinn, bæði heima við bæ og í beitarhúsum upp frá þeim, í göngufæri. Áður höfðu þeir nýtt fyrirhlaðin hraunsskjól og upphlaðnar fjárborgir til bjargar fénu yfir vetrarmánuðina.
Þegar lesnar eru opinberar fornleifaskráningar virðast nánast aldrei vera gerður munur á minjum eftir þróun búskaparhátta í tíma. Í þeim hefur því engin samfelld saga myndast í fræðigreininni, sem verður að þykja miður….

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

 

Mundastekkur

Fornir stekkir, flestir nánast jarðlægir, virðast yfirleitt ekki vera áhugaverðar mannvistarleifar. En við nánari skoðun kemur annað í ljós. Þeir voru jú fyrrum órjúfanlegur hluti af búskaparsögunni.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi, eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt.

Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900. Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt. Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þannig má segja að vegghleðslurnar hafi þjónað tvenns konar hlutverki, fyrst að halda fénu innan og síðar utan þeirra.

Fornistekkur

Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Bæði ummerki benda til og vitað er að stekkurinn var jafnan tvennskonar bygging. Rétt eða innrekstrar byrgi og kró eða lítið hús með þaki. Þar sem lömbin voru byrgð inni, þegar þeim var stíað frá ánum. Stekkurinn hefur jafnan verið valinn staður í skjólsælum hvömmum eða undir hólum, þó jafnan snertispöl frá bæ. Sælst var til að stutt væri í vatn frá stekknum, lækur eða árspræna.

Í seljunum var stekkurinn oftast tvískiptur, en í nærstekkir voru ýmist tví- eða þrískiptir.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ástæðan fyrir þriðja hólfinu er sennilega stækkun á lambakrónni á einhverjum tímapunkti, enda fjölgaði fé eftir því sem leið á. Þessi hólf eru jafnan hliðsett. Í sumum stekkjum er leiðigarður og jafnvel lítil „rétt“.

Tæplega kemur til mála að lambakróin hafi verið notuð sem fjárhús til þess var hún of langt í burt og of lítil. Þar sem svo hagaði til hefur vafalaust einhver ræktun myndast kringum stekkinn, og þá slegið þar, en um aðra ræktun hefur varla verið að ræða.
Dæmi eru um að stekkir ekki fjarri bæ hafi um stund verið notaðir sem „heimasel“, einkum eftir að selstöðurnar í heiðinni lögðust af og fólki fækkaði til sveita. Við þá stekki má gjarnan sjá hliðstæða tóft þar sem afurðirnar voru geymdar tímabundið milli flutninga. Þá eru og dæmi um að fjárborgum hafi um tíma verið breytt í stekki.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stekkjatíð var lömbunum stíað frá mæðrum sínum í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum.

Færikvíar

Færikvíar.

Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en sjaldnast smalanum.

FERLIRsfélagar skoðuðu 22 þekkta stekki frá bæjum á Vatnsleysuströnd, milli strandar og Reykjanesbrautar.

Litlistekkur

Litlistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eru mislangt frá bæ, en þó aldrei lengra en svo að í þá væri ca. tuttugu mínútna gangur – stekkjargangur.

Stekkirnir eru misjafnir að gerð og lögun og hefur hvorutveggja væntanlega bæði markast af byggingaefni og aðstæðum á vettvangi. Stærð þeirra gefur til kynna fjölda mögulegs fjár frá viðkomandi bæ. Staðsetningin er nánast ávallt innan landareignar eða á mörkum.

Mannvirkin bera glögg merki fyrri búskaparhátta og eru því merkilegar fornleifar, ekki síst í heildar búskaparlandslagi hlutaðeigandi bæjar sem og alls sveitarfélagsins.

Miðmundarstekkur

Miðmundarstekkur.

Selvogsheiði

Í „Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fórnu og nýju„, er kafli eftir Finn Jónsson undir yfirskriftinni „Bæjarnöfn á Íslandi“. Þar fjallar hann m.a. um hugtökin „sel“ og „stekk„:

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

sel
merkir sumardvalarstað, helst á heiðum eða við fjöll uppi, þar sem ær og kýr eru hafðar á beit og með málnytuna farið, eins og lög gera ráð fyrir; húsakynnin voru ætíð lítil og órífleg, ekki nema 2 herbergi eða svo, enda ekki margt manna að jafnaði. Almennt var »haft í seli« á Íslandi lángt fram eftir öldum, uns það hætti, bæði vegna ódugnaðar og eins hins, að þörfin á að hafa í seli var aldrei eins mikil á Íslandi eins og t. d. í Noregi, nema þá rjett á stöku stöðum.
En nöfnin eru [þó] mjög þýðingarmikil, einmitt fyrir búskap Íslendinga á fyrri öldum. Sel urðu að bæjum (kotum) líkt og fjós o.s.frv.

Ottarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

stekkr
er samskonar nafn og Fjós og uppruninn víst hinn sami, bær eða kot byggt upp úr stekk eða við gamlan stekk.
Nöfnin eru tiltölulega ekki svo fá: Eint. Stekkr V. VI. IX. XII. XIII. XV (-inn). Flt. Stekkar V (3; 3) -ir, AM).“

Í „Hinni fornu lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás„, 2.b., er kafli um „afrétt“ þar sem hugtakið sel kemur við sögu, sbr. „Of afrettu„, XXXVI. Capituli, bls. 302 (illlæsilegur nútímafólki):

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

„Eigi scal sel göra i afrett. 2) Ef gört er pa er sel oheilact, oc eigo þeir at briota sel er afrett eigo, enda verdr sa utlagr er sel gördi, eda göra let, vid þa alla er afrett eigo, oc sinni utlegp vid hvern þeirra.
Engi madr scal beita afrett þær vicor II er a midil ero pess er YI vicor ero af sumri oc YIII vicor ero af sumri. Þeir menn er næstir bua afrett eigo at beita avalt afrett hufe sino, nema fra þvi er VI vicor ero af sumri, oc til þess annars dags vico er IY vicor lifa sumars, þvatdaginn apr. Ef menn heita afrett þær vicor 3) er fra ero scildar, þat vardar oc utlegd vid hvern þeirra manna er þann afrett a. Þat vardar oc utlegd, ef menn heita afrett or seliom, 4) [vid hvern] þeirra manna er þann afrett eigo.“
Hér að framan kemur fram að byggi maður sel í afrétt annars skal hann útlægur verða, sýnist þeim svo.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hlutaðeigandi ákvæði styrkir verulega þá tilgátu Ómars Smára Ármannssonar, fornleifafræðings, að bændur byggðu oftlega selstöður sínar í jaðri jarða þeirra m.a. til að undirstrika eignarhald þeirra. Ómar birti þessa kenningu sína að undangenginni viðarmikilli skoðun á „Seljum vestan Esju“ og birtist í samnefndri BA-ritgerð hans við Háskóla Íslands. Frá því að ritgerðin var gerð árið 2004 hefur hann uppgötvað enn fleirri sel á svæðinu er staðfesta enn frekar þessa kenningu hans.

Í „Skýringum yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast„, Landslb 12, bls. 635, er fjallað um sel og selfarir:

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

„4) er það víst, að ekki skyldi þá ætla kúm fóður, er skyldugt var í sel að færa úr húshaga, því þá væri ómögulegt að vænta; selhagar skydlu þá grónir á fjöllum uppi, er kúm þyrfti fóður í bygð að ætla; og einn ómögulegra, að verða flytja hey til sels, og mega ei gefa þau í vetrarhús sín, ef ei væru grónir selhagar. Nú er þafi ljóst af Llb. 24.3, hafi skylt er í sel að færa, þegar 2 mánuðir eru af sumri, það er í 9. viku sumar, því alt mánaðatal skal vera þrítugnætt éptir tilætlun lögbókarinnar, eins og áður hefi eg sýnt með rökum um erfitt „tvímánuður“, og þar má lesa, af hverju öllu hugleiddu það eptir fylgir, að þíng þetta, sem Llb. cap. 12. talar um, skuli vera fyrr á vorin, en skyldugt er í sel að fara. Á þess hér að gæta, að þegar lögbókin kom hingað anno 1280, voru liðin ein 17 ár frá því, er Grágás gekk hér fyrir lög, og þess vegna öllum í fersku minni, hafi sein eptir hennar bofiorfium hafið verið lángvarandi venja.“

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Bent skal á að víða á vefsíðunni er fjallað um sel og seljabúskap á Reykjanesskaganum, allt þangað til hann var aflagður í lok 19. aldar.

Heimildir:
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fórnu og nýju, „Bæjarnöfn á Íslandi“ – Finnur Jónsson, 4. bindi, bls. 474-475.
-Hin forna lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás, 2.b., „Of afrettu“, XXXVI. Capituli, bls. 302.
-Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast, Landslb 12, bls. 635.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.