Tag Archive for: Stekkjartúnsrétt

Urriðakot

Gengið var um Urriðakot, minjarnar í kringum bæinn skoðaðar og síðan haldið upp á Urriðakotskamp (Camp Russel) og stríðsminjarnar skoðaðar.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Þaðan var gengið með vestanverðu Urriðakotshrauni að Markasteini og til norðurs yfir í Selgjá. Skoðaðar voru selsminjarnar í gjánni sem og fjárskjólin norðvestan hennar.
Við Urriðakot var m.a. kíkt á leturstein í túninu. Á hann er klappað ártalið 1846 auk upphafsstafa. Það mun hafa verið ábúandinn á bænum er þetta hannaði á sínum tíma. Ofan við hlaðinn túngarðinn er Grjótréttin. Gengið var til austurs með garðinum, að vatnsleiðslu þeirri er hernámsliðið gerði og lá frá steyptum brunni neðst í brekkunni og upp á steyptan vatnsgeymi ofarlega í holtinu. Bækistöð hersins á holtinu nefndist Camp Russel. Þar má enn sjá minjar, t.d. grunna þeirra fjölmörgu húsa og bragga,s em þar voru. Steyptur skorsteinn stendur skammt frá veginum (Flóttamannaveginum), en hann er leifar aðalstöðvanna, sem þarna voru. Þá má sjá vatnsgeyminn í holtinu sem og göturnar, sem lágu á milli húsanna. Til er gamall uppdráttur af kampinum og var hann hafður til hliðsjónar í göngunni.

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn.

Gengið var með vesturjarðri Urriðakotshrauns, framhjá hlaðinni Stekkjartúnréttinni og inn með Fremstahöfða. Við hann austanverðan er stórt og fallegt bjarg, Markasteinn. Steinninn stendur utan í holti og segir til um landamerki Urriðakots og Setbergs. Sagan segir að er Urriðakotsbóndi hafi eitt sinn verið að ganga framhjá steininum hafi hann heyrt rokkhljóð koma innan úr honum. Taldi hann þá að þar byggi huldufólk. Sagnir eru um að allan mátt dragi úr fólki er nálgast steininn.

Selgjá

Rjúpur í Selgjá.

Frá steininum var gengið beina leið í Selgjá og komið þar sem stærsti fjárhellirinn og greinilegustu selsrústirnar eru í sunnanverðir gjánni, en sagnir eru um að 11 sel hafi verið í gjánni þegar mest var um haft þar. Litið var á leturstein með merkinu B í norðanverðir gjánni, komið við í Selgjárhelli, Sauðahellinum syðri (Þorsteinshelli) og síðan litið ogfan í Sauðahellinn nyrðri. Staðnæmst var við op Skátahellis sem og op Norðurhellis áður en haldið var eftir Kúastíg að hlöðnu fjárskjóli norðan undir háum hraunkletti og síðan stígurinn genginn áfram með vestanverðum hraunkanti Urriðakotshrauns, framhjá Stekkjartúnsrétt og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.