Tag Archive for: stekkjarvegur

Garðahverfi

Í Archaeologia Islandica 1998 spyr Orri Vésteinsson m.a. um „Hvað er stekkjarvegur langur?„:

Arc 1998

Archaeologina Islandica 1998 – forsíða.

„Allt frá því fyrir 1980 hefur töluverð umræða verið um það meðal fornleifafræðinga og safnamanna að nauðsynlegt sé að gera gangskör að því að skrá fornleifar á Íslandi. Skráningin snýst fyrst og fremst um að þær upplýsingar sem safnað er hafi eitthvert áþreifanlegt gildi fyrir stærri hóp en þann sem hefur atvinnu af því að láta sér annt um menningarminjar. Í þessari grein verður fjallað um hvernig fornleifaskráning getur komið að gagni við rannsóknir á menningarsögu, en einnig verður gerð grein fyrir helstu markmiðum fornleifaskráningar og fjallað um hvernig skráningunni þarf að vera háttað til að þær upplýsingar sem safnað er nýtist til fulls.
Tryggja þarf að skráningargögnin komi að sem mestu gagni. Í því sambandi verður að hafa í huga hverjir munu nota gögnin og í hvaða tilgangi — en þar fyrir utan er fyrirsjáanlegt að stórt gagnasafn um minjastaði verður mjög fljótlega frábært rannsóknargagn fyrir byggða- og menningarsögu.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur.

Það eru ekki bara fornleifafræðingar sem geta þurft að kynna sér gögn um staðsetningu, gerð og ástand minjastaða. Skráningargögn þurfa að vera aðgengileg og skiljanleg öllum sem hafa áhuga á menningarsögu, bæði fræðimönnum úr öðrum vísindagreinum og fróðleiksfúsum almenningi.
Allir sem koma nálægt skipulagsgerð eða annarri áætlanagerð um framkvæmdir sem og þeir sem að framkvæmdum standa þurfa einnig að geta fengið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu minjastaða. Þetta þýðir að skráningarmenn geta ekki látið eftir sér að skrá eingöngu eftir sínu eigin höfði og áhugamálum ef þeir vilja að upplýsingarnar sem þeir safna komi að fullum notum fyrir verndun minjastaða.

Gamlasel

Gamlasel frá Villingavatni efst í Gamlaselsgili – stekkurinn t.h. Við sérhverja fjarlæga selstöðu bæja var óhjákvæmilega stekkur. Auk hans má í sérhverju seli á Reykjanesskaganum (þrjú rými; baðstofu, búr og eldhús) finna vatnsstæði (á eða læk), selsvörðu og/eða kví, auk nátthaga og oftlega smalaskjóls.

Það er list að lýsa landslagi og leiðum á svo skýran hátt að ókunnugir sjái fyrir sér staðhætti og geti ratað á þá staði sem verið er að fjalla um. Slíku listfengi er hins vegar sóað á hinn ört vaxandi hóp hönnuða og annars tæknimenntaðs fólks sem mestu ræður núorðið um mannvirkjagerð og jarðrask í landinu. Slíkt fólk kýs yfirleitt frekar að nálgast upplýsingar af þessu tagi á stafrænu eða myndrænu formi og það er því mikilvægt að gögnum um staðsetningu minjastaða sé einnig safnað á þann hátt. Þar á ég bæði við kort með nákvæmum tilvísunum og eins hnit sem auðvelt er að varpa yfir í staðbundin hnitakerfi.
Samkvæmt 18. gr. þjóðminjalaga er skylt að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Skráning fornleifa er því liður í að framfylgja þjóðminjalögum. Það er ekki skýrt í lögunum hversvegna löggjafinn vill að til sé skrá um fornleifar, en það er hins vegar augljóst að þekking á staðsetningu, gerð og ástandi minjastaða er forsenda þess að hægt sé að vernda fornleifar í landinu.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Skilvirk minjavarsla hlýtur að vera meginmarkmið fornleifaskráningar. Það er ekki hægt að vernda minjastaði nema við vitum að þeir séu til og hvar þeir eru. Það er heldur ekki hægt að gera áætlanir um minjavörslu nema fyrir liggi þekking á fjölda, ástandi og gerð minjastaða. Þegar þekkingin liggur ekki fyrir eru slíkar ákvarðanir skot út í loftið og ávallt tekin sú áhætta að verið sé að eyðileggja minjastaði sem hafa varðveislugildi. Taka má sem dæmi að standi til að leggja veg yfir stekkjartóft þá væri auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri stór skaði skeður þó hún viki. Nóg sé af stekkjunum um land allt og langt þangað til þeir verði allir upp urnir.
Það er alveg rétt og við mætti bæta að stekkir hafi tæplega mikið rannsóknargildi – við vitum vel til hvers þeir voru notaðir og erfitt að sjá hvernig hægt er að flækja það mál að ráði. Það hefur hins vegar komið í ljós við fornleifaskráningar að þar sem stekkir eru mjög fjölbreytilegir að gerð, bæði er lögun þeirra með ýmsu móti og stærðin mismunandi. Það er ekki skýrt af hverju þessi munur stafar og bændur þeir sem rætt hefur verið við hafa yfirleitt lýst yfir undrun sinni á að stekkir skuli ekki allir vera eins og stekkurinn þeirra.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Þangað til við komumst að því af hverju hin fjölbreytilega gerðfræði stekkja stafar og þangað til við vitum hversu margir fulltrúar eru til fyrir hverja gerð tökum við þá áhættu að mikilsverðar heimildir um menningarsögu okkar glatist í hvert skipti sem við leyfum stekkjartóft að hverfa undir veg eða sumarbústað.
Það kann einhverjum að finnast hálfhlægilegt að hafa áhyggjur af málum sem þessu þar sem minjavarsla á Íslandi er langt frá því að vera í stakk búin til að vernda einstaka stekki hvað þá meira. Kerfið er svo ófullkomið að það kemur einfaldlega ekki til þess að taka þurfi illa ígrundaðar ákvarðanir — eftirlitið er ekkert og eyðilegging fornleifa heldur áfram eftir sem áður. Ef
eitthvað hefur dregið úr eyðileggingu minjastaða síðustu árin er það vegna samdráttar í landbúnaði en ekki efldrar minjavörslu.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Við hljótum hins vegar að stefna að markvissari verndun fornleifa á Íslandi og við skráningu fornleifa er því nauðsynlegt að taka mið af hugsanlegum þörfum skilvirkari minjavörslu jafnvel þó að langt sé í að hún verði að veruleika. Það má einnig færa rök fyrir því að fornleifaskráning sé ekki einungis forsenda minjavörslu, með því að safna upplýsingum um fornleifar og vera þannig tæki í höndum þeirra sem vernda vilja minjastaði, heldur sé hún bein minjavernd.
Bændur eru auðvitað sú þjóðfélagsstétt sem stendur fyrir hvað stórfelldastri eyðileggingu menningarminja, en það er yfirleitt ekki af illgirni eða fautaskap, heldur einfaldlega af því að þeim hefur ekki verið leitt fyrir sjónir að öðru fólki finnist tóftabrot og rústabungur í landi þeirra merkilegar. Þegar það hefur einu sinni verið gert eru þeir langoftast reiðubúnir til að taka tillit til minjanna og verða oft á tíðum mjög áhugasamir um varðveislu þeirra.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á þennan hátt eflir fornleifaskráning meðvitund um fornleifar en það er auðvitað langódýrast og einfaldast ef hægt er að byggja minjavörslu á áhuga heimamanna. Það er jafnframt eðlilegast því minjarnar hafa eða ættu að hafa mest gildi fyrir þá sem næst þeim búa.
Við höfum ekki hugmynd um hversu mikið af fornleifum verður uppblæstri að bráð á ári hverju, né höfum við forsendur til að meta hversu skaðvænleg áhrif stóraukin skógrækt í landinu hefur á fornleifar. Ef við ætlum einhvern tíma að geta spornað gegn eyðileggingu fornleifa hvort heldur sem er af völdum náttúruafla eða af mannavöldum verðum við að hafa aðgang að upplýsingum um umfang eyðileggingarinnar.

Fossárrétt

Fossárrétt 2011 (friðuð). Fornleifarnar hafa hins vegar verið klæddar skógi.

Það er hæpinn málstaður á Íslandi í dag að berjast gegn skógrækt en ef við hefðum í höndum tölulegar upplýsingar um hversu margir minjastaðir væru í hættu vegna trjáræktar þá ættum við mun auðveldara með að fá skógræktarfólk til taka mark á sjónarmiðum minjavörslu.
Ekki er hægt að rannsaka minjastað eða kynna hann fyrir ferðamönnum eftir að búið er að setja jarðýtur á hann. Það hjálpast hins vegar allt að í þessu máli, því að efld meðvitund um fornleifar, hvort heldur sem er með heimsóknum fornleifaskrásetjara, markvissri kynningu eða rannsóknum, mun skila sér í bættri varðveislu minjastaða.

Baðsvellir

Baðsvallasel í miðjum Selskógi.

Kynning á fornleifum er siðferðileg skylda okkar sem erum svo lánsöm að mega hlaupa um holt og móa í leit að minjastöðum; okkur ber að gera þau gögn sem við söfnum aðgengileg fyrir almenning og það stendur einnig upp á okkur að setja skráningarupplýsingarnar í menningarsögulegt samhengi svo að þær komi að sem mestum notum fyrir sem flesta. Sem mögulegir áningarstaðir ferðamanna hafa minja staðir einnig efnahagslegt gildi en skipuleg og yfirgripsmikil skráningarvinna er forsenda þess að hægt sé að velja úr heppilega minjastaði sem eru bæði áhugaverðir og þola ágang.

Húshólmi

Húshólmi – forn skáli.

Saga landsins og menningararfur er í síauknum mæli notuð sem söluvara fyrir erlenda ferðamenn og oft á tíðum er sú markaðssetning meira af vilja en mætti og stundum afar óvönduð. Ferðamálafrömuðum er tæplega neinn akkur í að kynna fortíð landsins eða ákveðinna staða á þann ófullkomna hátt sem oft er raunin, en þeir munu halda áfram á þeirri braut uns vandaðri upplýsingar eru gerðar aðgengilegar. Léleg og óvönduð landkynning er á góðri leið með að verða vandamál sem dregið gæti úr tekjum Íslendinga af erlendum ferðamönnum, en ein af leiðunum til að hamla gegn slíkri þróun er að auka upplýsingasöfnun og þar með talið fornleifaskráningu.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu.

Skipuleg gagnasöfnun eins og fornleifaskráning er auðvitað forsenda þess að hægt verði að stunda ýmiskonar rannsóknir. Heildstætt gagnasafn um minjastaði auðveldar mjög starf fornleifafræðinga þegar kemur að því að finna staði sem áhugaverðir væru til að rannsaka nánar. t.d. með uppgrefti.
Mikilvægt er að skipuleggja fornleifaskráningu þannig að gögnin nýtist öllum sem best og komi að fullum notum hvort sem er við verndun, kynningu eða rannsóknir. Engin fornleifaskráning er fullkomin en ef stefnumörkun er skýr og aðferðafræðin liggur ljós fyrir á skráningarvinnan að verða markvissari og leiðréttingar auðveldari.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Hefðbundin fornleifaskráning hefur fyrst og fremst miðað að því að skrá minjastaði sem sýnilegir eru á yfirborði. Þar hefur líklega ráðið mestu um að það er auðvitað nærtækast og jafnframt að sýnilegir minjastaðir eru augljóslega meira spennandi við fyrstu sýn en minjastaðir sem búið er að slétta yfir eða byggja á.

Það er hins vegar ljóst að mannvirkjaleifar sem sýnilegar eru á yfirborði eru aðeins brot af öllum þeim fornleifum sem til eru í landinu og jafnframt að slíkir staðir eru næsta tilviljanakennt úrtak af öllum minjastöðum. Á þessari öld hafa átt sér stað gríðarlegar framkvæmdir í landbúnaði og stór hluti láglendis hefur verið ræstur fram og sléttaður undir tún.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda.

Á milli 1940 og 1980 voru svo til öll tún á Íslandi gerð véltæk og stór landflæmi sem áður höfðu verið móar og mýrar brotin undir tún, en á milli 1917 og 1990 hafa tún að jafnaði meira en tífaldast að stærð. Þessar miklu framkvæmdir og breytingar á landslagi hafa haft í för með sér að stór hluti fornra mannvirkja hefur annað hvort farið forgörðum eða spillst. Þær fornleifar sem verst hafa orðið úti eru einmitt þær sem mest var til af áður — það er bæjarhólar og útihús innantúns. Það leiðir af þessu að flestar þær fornleifar, sem enn eru sýnilegar, eru leifar mannvirkja sem voru í jaðri atvinnu- og efnahagslífs í gamla landbúnaðarsamfélaginu.

Leynir

Byrgi í Leyni. Nú horfið undir framkvæmdir.

Allar mannvistarleifar njóta lagaverndar og gildir þar einu hvort þær eru sýnilegar á yfirborði eða ekki og því er jafnmikilvægt að skrá þær sem ósýnilegar eru og hinar sem enn sjást á yfirborði. Á það má einnig benda að minjar sem huldar eru sjónum eru jafnvel í meiri hættu en þær sem sýnilegar eru því að líklegra er að þær verði fyrir raski af ógáti eða vanþekkingu. Frá sjónarmiði framkvæmdaaðila sem komast vilja hjá því að rekast á fornminjar við jarðrask er því brýnt að til séu upplýsingar um staðsetningu minja sem ekki eru sýnilegar á yfirborði.

Það eru auðvitað ýmis vandkvæði á því að skrá minjar sem ekki eru sýnilegar og vonlítið að hægt verði að komast að staðsetningu allra slíkra staða.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með skipulegri heimildaöflun er hins vegar hægt að komast nærri um staðsetningu allmargra slíkra staða og einnig má styðjast við óbeinar vísbendingar eins og landslag og gróðurfar til að meta almennar líkur á að mannvistarleifar finnist á tilteknum landsvæðum. Við getum aðeins fengið heildarmynd af mannvirkjagerð og efnahagslífi á hverri jörð ef við reynum að skrá allar mannvistarleifar sem þar eru, hvort sem þær eru sýnilegar eða ekki.
Langflestar fornminjar á Íslandi tengjast búsetu og hefðbundnum búskaparháttum og bendir flest til að mannvirkjagerð því tengd hafi verið í nokkuð föstum skorðum lengst af þeim tíma sem landið hefur verið byggt. Búseta hefur – eftir því sem við best vitum — verið stöðug og ekki er sýnilegt að stórfelldar breytingar hafi orðið í skiptingu landsins í jarðir a.m.k. frá því á hámiðöldum þegar ritheimildir koma til sögunnar. Flestar fornleifar hafa því orðið til í mjög fastmótuðu samhengi og það er nauðsynlegt að skrá upplýsingar um þetta samhengi jafnhliða hinni eiginlegu fornleifaskráningu.

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með samhengi fornleifanna er átt við byggðamynstur, skiptingu byggðarlaga í jarðir og skiptingu jarða í býli; einnig hagræn og náttúrufarsleg atriði eins og staðsetningu og gæði bithaga eða engja. Aðeins með því að gera okkur grein fyrir eignarhaldi og landnotkun höfum við forsendur til að skilja af hverju hús stóðu þar sem þau stóðu, af hverju byggð hélst á sumum stöðum en öðrum ekki og af hverju byggð var reynd á sumum stöðum en öðrum ekki — en slíkar spurningar eru liður í að skilja hvernig Íslendingar lifðu af þessu landi allar þessar aldir. Sjálfsævisögur hafa reynst mikilsverðar heimildir í þessu samhengi — það er nánast regla að á þriðju eða fjórðu síðu í sjálfsævisögum fólks sem fætt er um eða fyrir síðustu aldamót er sagt frá hvar höfundur sat yfir ám, hvernig háttað var fráfærum og upplýsingar um kúahaga og grasatekju fljóta einnig oft með. Þegar slíkar upplýsingar hafa verið færðar inn á kort fara strax að skýrast staðsetningar mannvirkja sem áður virtist óskiljanlega dritað niður um holt og móa. Á grunni slíkra upplýsinga má jafnvel gera ýmsar áhugaverðar athuganir og verður hér í lokin gerð grein fyrir lítilli tölfræðilegri úttekt sem gerð var á lengd stekkjarvegar.

Smali

Smali og mjaltarstúlka við færikvíar.

Ég er fæddur svo seint á 20. öld að hið litla sem ég veit um sveitalíf og gamla búskaparhætti hef ég þurft að læra af öðrum, og mest af bókum, eftir að ég komst á fullorðinsár. Það er ekki óskaplega langt síðan ég gerði mér grein fyrir til hvers stekkir voru hafðir eða hver væri munurinn á þeim og kvíum. Þó mér hafi nú loksins skilist hlutverk þessara mannvirkja hefur lengdareiningin stekkjarvegur valdið mér heilabrotum. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort tilvist þessa hugtaks væri vísbending um eitthvert aðdáunarvert samræmi í mannvirkjagerð eða hvort það væri einhver einföld og augljós ástæða fyrir því að vegalengdin milli bæjar og stekkjar væri yfirleitt svipuð.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Af fjölda þekktra stekkja í tiltekinni sveit er u.þ.b. þriðjungur þeirra enn sýnilegir. Auðvelt er að reikna út vegalengdina á milli þessara staða. Yfirleitt er augljóst hvaða bæ stekkur tilheyrði eða til eru góðar heimildir um það. Stekkjarvegir eru mjög mislangir, stystur var hann 213 metrar en lengstur 1276 metrar. Meðaltalið var 575 metrar en tíðustu gildin voru í kringum 400 metrana og virðist það sennilegasta nálgunin á þeirri vegalengd sem hugtakið stekkjarvegur felur í sér. Líklegast er auðvitað að hugtakið hafi verið eins og mörg önnur vegalengdarhugtök í gamla landbúnaðarsamfélaginu verulega teygjanlegt og ekki átt að vera mikið nákvæmara en að vera lengra en fjósvegur en styttra en bæjarleið.
Þetta teljast varla menningarsöguleg stórtíðindi en þetta minnir okkur á að fornleifaskráning getur hjálpað okkur til að skilja betur ýmsa ólíka þætti í menningu Íslendinga.

Stakkavíkursel

Selstígurinn í Stakkavíkursel – Hlíðarvatn fjær.

Þó að gaman sé að hafa hugmynd um lengd stekkjarvegar þá má hugsa sér fleiri samhengi þar sem sú vegalengd getur verið nytsamleg. Það er t.d. áberandi að lengstu stekkjarvegirnir voru á þeim jörðum sem dýrast voru metnar og er þar um allgóða fylgni að ræða. Ef þessi athugun prófast á stærri gagnasöfnum þá er hér komin sjálfstæð vísbending um gæði jarða. Samhengið er líklega það að jarðir sem dýrar voru metnar gátu fóðrað fleira sauðfé, og fleira sauðfé hefur þurft stærri bithaga sem hafa þar með teygt sig lengra frá bæ en á jörðum með færra sauðfé og minni dýrleika. Næsta skrefið í þessum rannsóknum verður að mæla stærð stekkjanna og bera saman við tölur um fjölda sauðfjár á jörðum á 18. og 19. öld. Ef fylgni er milli allra þessara talna þá verður hægt að nota þau hlutföll sem líkön á aðrar jarðir þar sem sambærilegar upplýsingar eru ekki þekktar og líka á eldri tímaskeið, og með því reynt að endurgera búfjárfjölda og stærð bithaga á fornbýlum.

Eldvörp

Eldvörp – minjar (geymslubyrgi) sem ekkert hafa verið sannsakaðar.

Rannsóknir í menningarsögu eru ekki langt á veg komnar á Íslandi og hafa til skamms tíma einskorðast við ritheimildir og munnlegar heimildir og hafa rannsóknarspurningarnar verið mótaðar af fólki sem sjálft stóð með annan fótinn í gamla landbúnaðarsamfélaginu og hafði þar með ekki forsendur til að skilja hvað við sem yngri erum skiljum ótrúlega lítið. Markviss og kerfisbundin fornleifaskráning er augljós leið til draga fram nýjar heimildir og þróa nýjar rannsóknarspurningar sem eru skiljanlegar og áhugaverðar fyrir hinn sístækkandi hóp malbiksbúa. Þær kynslóðir sem höfðu persónulega reynslu af hefðbundnum búskaparháttum eru óðum að hverfa og að þeim gengnum höfum við ekki aðrar heimildir en það sem tókst að skrifa niður eftir þeim og þær leifar sem þær skildu eftir í jörðinni.

Kaldársel

Kaldársel (nú horfið síðan 1925) – tilgáta ÓSÁ.

Fornleifarnar eru að hverfa næstum því jafn hratt og örugglega og fólkið og því er brýnt að sporna gegn eyðileggingunni með fornleifaskráningu sem bæði forðar upplýsingum frá glötun og er forsenda skilvirkrar minjaverndar.“

Frá því að hin framangreindu ágætis áhríningarskrif voru sett á prent árið 1998 hefur a.m.k. tvennt gerts; annars vegar hefur fornleifaskráningum fjölgað til muna og þær gerðar aðgengilegri, settar fram t.d. í þeim tilgangi að minnka líkur á eyðileggingu þekktra fornleifa, og hins vegar hefur þeim embættismönnum og verkfæðingum fjölgað, sem ekkert mark taka á slíkum fyrirliggjandi gögnum.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Þá ber einnig þess að geta, í ljósi af framangreindum skrifum, að stekkir voru ekki bara stekkir, þ.e. óumbreytanlegir, frá einum tíma til annars, s.s. frá upphafi landnáms til byrjun 20. aldar er þeir að lokum lögðust af – sjá HÉR. Máli skiptir um hvaða einstaka tímatal er um að ræða. Þegar seljabúskapurinn stóð sem hæst voru stekkirnir jafnan í selstæðum fjarri bæjum, en þegar fjaraði undan selsbúskapnum færðust stekkirnir nær bæjunum og jafnvel heim að túnmörkum undir hið síðasta. Þar með styttist stekkjarvegurinn úr nokkrum kílómetrum í nokkuð hundruð eða jafnvel tugi metra. Máli skiptir því við hvaða tímabil er miðað þegar fjallað er um mælingar á „stekkjarveginum“…
Annars skiptir lengd „stekkjarvegarins“ minnsta máli í framangreindri umfjöllun.  Hins vegar ánægjulegt til þess að vita selsstígunum sé gefinn séstakur gaumur því lengst af í fyrrum fornleifaskráningu var þeirra jafnan hvergi getið. Þá ber að taka skrifin um gildi fornleifanna, skráningu og varðveislu þeirra þess alvarlegar!

Heimild:
-Archaeologia Islandica, 1. tbl. 01.01.1998, Hvað er stekkjarvegur langur? – Orri Vésteinsson, bls. 47-57.

Garðastekkur

Garðastekkur, heimasel sem varð að rétt. Stekkurinn (gróinn) er neðst t.v. á myndinni.