Gengið var spölkorn eftir Selvogsgötunni áleiði supp í Kerlingarskarð. Áður en síga tók í var vent til hægri, niður slóða til vesturs undir Lönguhlíðum. Komið var m.a. við hjá Stórkonusteinum, gengið um Stórahvamm, framhjá Leirhöfðaatnsstæðinu, upp á Móskarðshnúka norðan Háuhnúka, niður Markrakagil og síðan til norðurs með Undirhlíðum, um Stóra-Skógarhvamm og að Gígbrekkum við Bláfjallaveg.
Selvogsgatan var þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún var farin í einum áfanga. Eftir að komið var upp úr Mosunum í Þríhnúkahrauni ofan við Strandatorfur greindist leiðin, annars vegar upp Kerlingarskarð og hins vegar upp Grindarskörð. Ef haldið var um Kerlingarskarð var staðnæmst við vatnsstæði skammt ofan við skarðið. Svolítið vatn var þó einnig fáanlegt í drykkjarsteinum efst í skarðinu. Við vatnsstæðið er hlaðið í götuna. skammt frá því greinist gatan í tvennt; annars vegar niður Hlíðarveg, vel varðaða áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Hlíðarvatn, og hins vegar til austurs yfir á Selvogsgötuna, sem kom þar ofan frá Grindarskörðum. Skammt austar var svo Heiðarvegurinn um Heiðina há niður í austanverðan Selvog. Selvogsgatan lá með gjám (m.a. Stórkonugjá) gígum og hlíðum niður að Hvalsskarði. Neðan þess tóku við Strandardalur og Hlíðardalur þar sem Sælubuna var kærkomin áningarstaður. Þaðan lá gatan áfram niður heiðina, um Strandarhæð og niður í Selvog. Vörðurnar við gömlu Selvogsgötuna, eru flestar fallnar. Þar sem gatan liggur um Þríhnúkahraun hafa vörður þó verið endurhlaðnar.
Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðarkróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingagili. Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana.
Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið er úr Bollunum í Skörðunum fyrrnefndu. Stóribolli er einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður. Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna eru einnig háir móbergsveggir.
Lönguhlíðarhorn skagar út úr hlíðinni líkt og Vatnshlíðarhornið norðan Lambhagatjarnar, Í því sunnanverðu er Kerlingagil, ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar.
Haldið var um Leirdali. Dalirnir eru í lægðarslakka, sem fyllast af vatni á veturna, með gróðurtorfum á milli. Álftanesskógar voru á þessum slóðum til forna, en nú finnast eingöngu stakir víði- og birkirunnar og einibrúskar hér og þar. Tvö vatnsstæði eru í Leirdölum, það syðra líkara vatni. Líklega hefur það verið ástæðan fyrir tóftunum í Fagradal, skammt sunnan þess.
Sunnan Leirdalshöfðavatnsstæðis liggur forn þjóðleið, Leirdalshöfðaleið.
Leirdalshöfðaleið liggur eins og Dalaleið frá Kaldárseli að Leirhöfða. Hún þræðir sig suður með höfðanum og fylgir suðurhlíðum hans að Leirhöfðavatnsstæði. Þar er stefnan tekin á Fagradalsmúla og Fagradal, eða um Breiðdal að Blesaflöt og fylgir síðan Vatnaleiðinni til Krýsuvíkur. Rjúpnaveiðimenn héldu gjarnan inn í Fagradal og fylgdu bröttum slóða, sem liggur frá dalbotni upp á brún Lönguhlíðarfjalls. Þegar upp er komið er hægt að velja ýmsar leiðir, en gömul þjóðleið liggur í áttina að Hvannahrauni (Hvammahrauni) og Gullbringu, hjá Geithöfða, um Hvamma og fram með Lambafellum að Krýsuvík.
Gengið var á Móskarðshnúka um ás milli Breiðhdals og Slysadala.
Háuhnúkar eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markagils (Markrakagils) og skammt frá Vatnsskarði, vestan (sunnan) við Móskarðshnúka. Þeir eru allt að 263 m. háir. Á milli hnúkanna eru grónir hvammar og víða standa móbergskollar upp úr ásunum sem vatn og vindar hafa sorfið og mótað í aldanna rás. Þessi syðsti hluti Undirhlíðanna hefur af sumum verið nefndur Undurhlíðaendi því í Vatnsskarðinu (sem aðrir telja reyndar að hafi verið skarðið vestan Vatnshlíðarenda þar sem menn sjá fyrst niður að Kleifarvatni ofan Blesaflatar) tekur Sveifluhálsinn við. Móskarðshnúkarnir eru hins vegar heimur út af fyrir sig. Hæstur er syðsti hnúkurinn. Þegar horft er á hann úr vestri má sjá andlit horfa efst úr honum til norðurs. Norðan hans er hnúkaþyrping. Norðvestast í henni er falleg lítill móbergsskál, sem vindar og vatn hafa leikið sér að móta svo um munar. Skálin er bæði skjólsæl og einstaklega falleg. Skessukatlar eru við hana vestanverða. Á Undirhlíðum, skammt norðan við Móskarðshnúka, virðist vera gerð tilraun til melræktunar með neti, sem lagt hefurverið á jörðina, þ.e. að láta netið mynda skjól fyrir lággróðurinn.
Móskarðsgil, á milli Móskarðshnúka og Stóraskógarhvamms, þykir fremur torfarið og svo er reyndar um öll gilin fjögur á vestanverðum Undirhlíðum milli Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, nema Markagil (Markrakagil). Mörk Hafnarfjarðar liggja um gilið og þar mætast og mörk Garðabæjar og Grindavíkur í sneiðing með Lönguhlíðarhorninu.
Markagil virðist torvelt uppgöngu, en ofan frá séð er engum torfærum fyrir að vara. Neðst í gilinu eru fallegur smágerður stuðlabergshamar. Ystagil er skammt sunnar og Sneiðingur nyrst þessarra gilja.
Norðan Móskarðsgils er gróskumikill furuskógur, sem unglingspiltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík plöntuðu út 1959 til 1964, m.a. sá sem þetta skrifar, í samstarfi við félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Sumir hafa viljað Markagil þar sem nú er Vatnsskarð. Aðrir hafa fært það að næsta gili að norðan, en á kortum er gilið á fyrrnefndum stað. Á milli þess og Stóra-Skógarhvamms er Höfðinn, stundum nefndur Út-Höfði til aðgreiningar frá Inn-Höfða, sem er sunnan þess.
Brunahryggur nefnist hraunbrún í Nýjabruna norðvestan Undirhlíða. Í skjólsælum hvammi sunnan hraunbrúnarinnar hafa birkitré fest rætur og fengið frið til að vaxa. Þessi sérkennilegi blettur í mosagrónu hrauni er utan alfaraleiðar og fáir venja þangað komu sínar.
Undirhlíðaleið hófst við Kaldársel og lá norðan Undirhlíða yfir núverandi Bláfjallaveg að Vatnsskarði. Þar var haldið áfram yfir núverandi Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Þar tók Ketilsstígur við og lá yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni, að Seltúni þar sem heimalönd Krýsuvíkur tóku við.
Nú er búið að stika Undirhlíðaleiðina. Á a.m.k. einum stað á þessum kafla má vel sjá móta fyrir hinni gömlu götu, þar sem hún er mörkuð í slétta hraunhelluna, en annars hefur slóði verið lagður yfir hana að hluta.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður – skin og skúrir.
Heimildir m.a.:
-Raleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Þorkell Árnason.