Færslur

Selalda

Gengið var frá Krýsuvíkurréttinni eftir vegslóðanum niður að Selöldu. Um er að ræða greiðfæra og ákjósanlega leið fyrir alla aldurshópa. Framundan horfið Selaldan við, móbergshryggur sem vatn og vindar hafa sorfið til að ofanverðu og myndað þar alls kyns fígúrur. Rjúpa situr efst á steini, steinrunnin, fálki steypir sér niður og tröll horfa hreyfingarlaus á.

Selalda

Selalda – berggangur.

Vestarilækur rennur þarna niður með vestanverðri Selöldu, liðast um tún bæjarins Fitja og steypist síðan fram af Krýsuvíkurbergi vestan Heiðnabergs. Vestan við túnkantinn, yfir lækinn, er gömul hlaðin brú. Garðar eru með túnunum að norðanverðu og tóftir bæjarins eru bæði miklar og heillagar. Saga Fitja er rakin í annarri FERLIRslýsingu.
Gengið var upp að Strákum, stórum klettum á vestanverðri Selöldu. Undir þeim er fallega hlaðið og heillegt fjárhús. Frá því er ágætt útsýni eftir Selöldunni til austurs og neðanmóa. Haldið var á ný niður á slóðann og hann rakin niður á bjargbrúnina. Heiðnabergið gefur Vestfjarðarbjörgunum lítið eftir í góðu veðri. Í því austanverðu sést enn hluti Ræningastígsins, en stutt er síðan að sjórinn braut af neðsta hluta hans.

Selalda

Selalda – Strákar.

Áður var hægt að ganga þarna niður og undir bjargið. Líklegt er að stígnum hafi að nokkru verið haldið við þegar búið var ofan við bjargið svo hægt væri að komast niður og sækja reka, sem þar lendir, og önnur hlunnindi.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Annars dregur stígurinn nafn sitt af Tyrkjunum, sem eiga að hafa komið að bjarginu, haldið upp stíginn og komið að selsmatsstúlkum í Krýsuvíkurseli þar fyrir ofan. Smali sá til þeirra og flúðu heim að Krýsuvíkurkirkju þar sem séra Eiríkur í Vogsósum á að hafa verið við messugjörð. Hann afgreiddi síðan ræningjana er þá bar að garði og eiga þeir að hafa verið dysjaðir í Ræningjadys í Ræningjahól vestan við kirkjuna.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp að tóftum bæjarins Eyri, þær skoðaðar sem og fjárborgirnar tvær sunnan þeirra og loks haldið upp að tóftum Krýsuvíkursels austast í Selöldunni, áður en gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Fitjar

Fitjar.