Færslur

Stúlknavarða
Á Njarðvíkurheiði er varða. Undir vörðunni eru klappaðir stafirnir AGH og að því er virðist ártalið 1773. Í Faxa árið 1955 segir svo um þessa vörðu:
“Steinninn í heiðinni”.

Stúlknavarða

Stúlknavarðan.

Kjartan Sæmundsson, Ásgarði í Njarðvíkum, hefir sent blaðinu nokkrar línur varðandi stein, sem er þar í heiðinni rétt fyrir ofan. Segir hann að á stein þennan séu grafnir stafirnir AGH 1773. – Sýnilega hafi verið grafið eitthvað meira á steininn en sé nú máð og illlæsilegt. Hann segir að steinn þessi sé kallaður Stúlkusteinn og fylgi honum sú saga, að þar hafi orðið úti ung stúlka, kaupmannsdóttir úr Keflavík, sem dag nokkurn í góðu veðri hafi farið á rjúpnaveiðar með föðrur sínum.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Síðar um daginn hafi gert suðvestan fárviðri með snjókomu. Hafi stúlkan þá orðið viðskila við förður sinn og síðar fundist þarna undir steininum látin. Telur Kjartan líklegt, að þetta sé eina stúlkan, sem orðið hafi úti í snjóbyl frá Keflavík. Vill Kjartan að minningu þessarar stúlku sé viðhaldið með því að skýra letrið á steininum og í því sambandi óskar hann þess, að ef einhver kann gleggri skil á sögunni um Stúlkustein, t.d. hvað stúlkan hafi heitið og hversu gömul hún hafi verið, þegar hún varð úti, þá sé hann látinn vita, eða því sé komið á framfæri í Faxa. Einnig býðst hann til að sýna steininn, hverjum sem þess óska”.

Áletrunin, einkum bókstafirnir, sést enn vel á steininum, sem varðan stendur á. Þá sést varðan og vel frá Reykjanesbrautinni (sunnan vegarins). Þarna skammt frá til suðausturs er hlaðin tóft ofan við klapparhæð, ekki langt fyrir ofan rústir frá hernum, sem þarna standa enn.

Úr tímaritinu Faxa, 17. júní 1955, bls. 67 (Í flæðamálinu) – SG endurritaði 2002.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Másbúðir

Kíkt var á svæðið norðan Helguvíkur, Selvík og Hellisnípu. Áð var við vitann á nípunni og síðan haldið áfram suður með Stakksnípu að Helguvík. Ofan af Stakksnípu blasti kletturinn Stakkur við, skörfum þakinn. Hinn víðfeðmi Stakksfjörður dregur nafn sitt af klettinum. Tengist nafngiftin sögunni af Rauðhöfða (Melabergsmanninum) er brá svo við orð hinnar ókunnugu konu í

Hólmsbergsviti

Hólmsbergsviti.

Hvalsneskirkju eftir nokkra forsögu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Þá var haldið að nesjum á Romshvalanesi og gengið í Másbúðarhólma. Í honum má enn sjá hleðslur gamla bæjarins, garðana og hornrétta grjótgarða, sem notaðir voru til að hlífa bátum þegar gert var út frá Hólmanum alveg fram á byrjun 20. aldar.
Á leiðinni út í Hólmann var gengið um gamla steinbrú, sem liggur í sveig frá landi, milli klappa og út í hann. Sigurbjörn Stefánsson, ábúandi í Nesjum, sem var með í för, sýndi hópnum áletranir á klöpp í Hólmanum, en þar er m.a. klappað á einum stað ANN°1696 og á öðrum stað JJM.
Þá sýndi Sigurbjörn hópnum Kóngsvörina og gekk síðan með honum að Másbúðarvörðu.

Másbúðir

Hústóft í Másbúðarhólma.

Lýsti hann staðháttum og fyrrum bæjarstæðum á leiðinni. Nesjaréttin, sem getið er í örnefnaskrám, ofan við Réttarvik er horfin. Sjórinn hefur náð að krækja í hana. Þá lýsti Sigurbjörn staðháttum við Landavörðuna, sem er vestan við bæinn, og hvernig hún var notuð sem mið við Keili á Landasundinu.
Sagt er að Másbúðir hafi verið landnámsjörð og borið nafn af landnámsmanninum er Már hét. Síðan braut sjórinn landið umhverfis og hann varð aðskilinn landi, nema í fjöru. Þá lagðist verstaðan af, en býli hélst þó fram að aldamótum 1900. Þá flúði kotbóndinn undan sjógangi. “Er þar nú eyðihólmi; sjást aðeins rústir kotsins og dálítill túnblettur í kring uppi á hólnum” – BJ/1902.

Másbúðarhólmi

Tóft í Másbúðarhólma.

Magnús Þórarinsson skrifar um Másbúðarhólma í bókina “Frá Suðurnesjum”, sem gefin var út árið 1960. Þar segir hann m.a.:

“Þar er Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni… innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti á sjó á flóði. Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik…. Másbúðir, sýnist mér, hafa verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um langa tíð… Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð.

Másbúðarhólmi

Kóngsvörin.

Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80-100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara….
Á 17. öld hefir Másbúðarhólmi hlutast frá fastalandinu, en þangað til var samgróið tún á öllu því fjörusvæði, sem nú er milli lands og Hólma…

Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson, frá 1884 til 1895…. Í Hólmanum má finna Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót, en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar – 16 hundruð og eitthvað -. Um 1890 var rótað upp gömlum öskuhaug, sem var þar í númunda við bæinn og fannst þá heilmikið af brotnum krítarpípum… Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Þar var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.

Másbúðarhólmi

Steinbrúin í Másbúðarhólma.

Útgerð lauk í Másbúðarhólma fyrir 50 árum. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt…En Másbúðarhólmi er harður haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.
Ætlunin er að Sigurbjörn gangi með FERLIR næsta vor um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla-Kirkjuvog.
Farið var að Fuglavík og hús tekin á Magnúsi og Jónínu. Þar var Fuglavíkursteinninn barinn augum öðru sinni (Sjá FERLIR-202).

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Haldið var að Bræðrum og Smala norðvestan Melabergs, en þjóðsagan segir að þar hafi Melabergsbræður orðið að steini sem og allt fé þeirra. Sjá má steinalíkin norðan vegarins skammt vestan við bæinn.
Í bakaleiðinni var stöðvað við Stúlkuvörðuna vestan Reykjanesbrautar á Njarðvíkurheiði. Á klöpp undir vörðunni er klappað ártalið 1773 sem og bókstafir ofan þess (AGH). Talið er að nafngiftin á vörðunni og áletranirnir undir henni séu komin til vegna þess að ung stúlka, sem föður sínum á rjúpnaveiðum, hafi orðið þarna úti í vondu veðri.
Veður var nú bjart og stillt.

-Úrdrátturinn úr sögunni af Rauðhöfða er fenginn af vefsíðu Bókasafns Reykjanesbæjar.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi – letursteinn.