Færslur

Camp Russel

Ofarlega á Urriðaholti hefur verið komið skilti um herkampinn “Russel”. Campurinn sá er hluti af mörgum slíkum á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu frá heimstyrjaldarárunum síðari. Í texta á skiltinu stendur eftirfarandi:

Urriðaholt

Urriðaholt – stríðssöguskiltið.

“Í landi Urriðakots og Vífilsstaða er víða að finna minjar um hernaðarumsvif í seinni heimstyrjöld.

Stórar herbúðir stóðu sunnan megin á Urriðaholti og voru varðstöðvar víða í hlíðunum. Búðirnar voru um skeið aðsetur símalagningarmanna bandríska seturliðsins og nefndust Camp Russel eftir Edgari A. Russel hershöfðingja sem farið hafði fyrir fjarskiptasveitum Bandarríkjahers í Frakklandi í fyrri heimstyrjöld.

Urriðaholt

Urriðaholt -skilti.

Búðirnar samanstóði af íbúðarskálum (bröggum) og birgðaskemmum auk allmargra steinhúsa fyrir eldhús og salerni. Bandarískir braggar voru af svonefndri Quonsetgerð sem var almennt vandaðri smíð en Nissen-braggar sem Bretar byggðu. Má ætla að 80 braggar hafi staðið í búðunum en vorið 1943 bjuggu þar alls um 500 hermenn.

Við lok heimsstyrjaldarinnar glötuðu hernaðarmannvirki upphaflegu hlutverki sínu og voru nýtt til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð. Stærstur hluti Camp Russel er horfinn undir byggð. Þó má ská leifar hér og þar, til dæmis steinsteyptan vatnsgeymi, arinhleðslu og húsgrunna rétt norðan við Flóttamannaveginn (Setuliðsveg). Veginn lögðu Bandaríkjamenn á stríðsárunum til að tengja saman Suðurlandsveg og Hafnarfjörð ef senda þyrfti þangaðherlið frá Mosfellssveit og Hólmsheiði til að mæta þýskum innrásaher, en Íslendingar tóku að nefna hann flóttamannveg löngu síðar.

Grjóthleðslur og Hádegisvarða

Camp Russel

Kamp Russel – kort.

Flóðahjalli

Flóð'ahjalli

Flóðahjalli – uppdráttur.

Á klöppum á Flóðahjalla hlóðu hermenn miklar grjóthleðslur utan um 800 m2 svæði þar sem búist var til varna. Innan þeirra eru leifar af byrgjum.

Þar stendur einnig Hádegisvarða sem var eyktarmark fyrir Urriðakot.
Til að treysta varnir í Hafnarfirði og á Álftanesi voru í upphafi um 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sendir þangað. Áttu manvirki á Flóðahjalla og víðar að styrkja vígstöðu þeirra og varnir gegn mögulegri árás Þjóðverja. Syðst á klöppinni innan við hleðslurnar hafa verið höggnir nokkrir stafir og virðist þar að minnsta kosti mega greina áletrunina JE Bolan ásamt stöfunum DS og hernámsárið 1940.

Skotbyrgi

Braggi

Braggi í byggingu.

Steypt skotbyrgi er að finna á þremur stöðum í Garðabæ, á Hnoðraholti, í Vífilsstaðahlíð og tvö í Garðaholti. Gott útsýni er ú byrgjunum en þau eru hálfniðurgrafin með skotrauf á tveimur hliðum.

Hernámið

Camp Russel

Camp Russel – arinn…

Að morgni föstudagsins 10. maí árið 1940 gekk breskur her á land í Reykjavík og stóð þá Ísland ekki lengur utan styrjaldarátaka stórveldanna. Hernámið, sem hlaut dulnefnið “forkur”, kostaði þó ekki blóðsúthellingar. Þýskir herir höfðu náð Noregi og Danmörku á sitt vald en Íslendingar haldið fast við hlutleysisstefnu sína þrátt fyrir það og ekki viljað ganga til liðs við bandamenn.

Winston Churhill

Winston Churchill Reykjavík.

Winston Churchill, sem verið hafði flotamálaráðherra en varð þennan dag forsætisráðherra Bretands, gerði að sínum hin fleygu orð að sá sem réði yfir Íslandi beindi byssu að Englandi, Ameríku og Kanada. Til að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja í Ísland ákvað hann að verða fyrri til og tryggja með því siglingaleiðir um Norður-Atlantshaf. Íslendingar mátu sjálfstæði sitt mikils og mótmæltu stjórnvöld hernáminu formlega. Fer þó ekki á milli mála að flestir voru fegnir að njóta verndar fyrir nasistastjórn Þýskalands.
Í stuttri heimsókn Churchills til Íslands árið 1941 sagði hann Hermanni Jónassyni forsætisráðherra að Bretar hefðu neyðst til að hertaka Íslands og hefðu gert það jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu orðið á undan þeim.
Herverndarsamningur var undirritaður í júlí árið 1941 milli Bandarríkjanna, Bretlands og Íslands og fól í sér að bandarískar hersveitir myndu aðstoða og síðar leysa breska hernámsliðið að hólmi.”

Þrátt fyrir alla viðleitni um að varðveita söguna í formi skiltis ber að geta þess að allir hlutaðeigandi höfðu alla möguleika á að halda til haga minjum svæðisins áður en óðagot verktaka tók það yfir – með tilheyrandi eyðileggingu.

Urriðaholt

Urriðaholt – vatnsgeymir.