Tag Archive for: Suðurfaraleið

Hlíðarborg
Lengi hefur verið leitað að Selhellum í Selvogi. Ekki hefur verið vitað um staðsetningu þeirra, en í örnefnalýsingu fyrir Hlíð í Selvogi segir m.a.: „Hlíðarsel – heimild um sel – …suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. Við Selbrekkur eru Stekkjardældir.“
Sel er undir suðausturhorni Svörtubjarga, sennilega Strandarsel [Staðarsel]. Enn sunnar eru týndar seltóftir og fjárborg. Neðan þessa eru Selbrekkur. Framundan þeim er stór hraunhóll, einn af nokkrum. Við hann eru Selhellar, að sögn heimildarmanns, sem telur sig hafa séð þá af tilviljun er hann var þar á ferð eitt sinn í leit að fé. Hellarnir eru vandfundnir, en við þá má greina mannvistarleifar ef vel er að gáð. Selhellar eru einnig nefndir hellarnir ofan við Stakkavíkursel, en við þá eru hleðslur.
Einnig var ætlunin að skoða óþekktar mannvistarleifar undir Strandardal, hugsanlega hluti tófta bæjar Erlends lögmanns Jónssonar frá 17. öld.
Gengið var austur Hlíðargötu frá Hlíð, áleiðis austur vestanverða Selvogsheiðina undir Hlíðarfjalli. Heimildarmaðurinn, Snorri Þórarinsson frá Vogsósum, var með í för.
Hin gamla Hlíðargata liggur upp á Selvogsgötu (Suðurfararveg) með Kötlubrekkur á vinstri hönd, þar sem Kötluhraun kemur niður hlíð fjallsins.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um þetta svæði austur með Hlíðarfjalli:
„Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni. Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stórgrýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri (fyrir vegagerð).
Sprungnaflöt lá milli rústa og Hvolpatjarnar ofan Malarinnar. Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.
Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Hlíðargata er enn greinileg skammt austan þjóðvegarins. Skömmu eftir að lagt var stað var komið að tvískiptu heykumli vinstra megin götunnar. Hlaðnar eru tvær tóftir utan í stóran stein, önnur til vesturs og hin til suðurs. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið sauðakofar eða -kofi, en þegar fjárskjólið Áni, sem er þarna skammt suðsuðaustar, er skoðað liggur beinast við að tengja rústirnar því. Um opið á Ána er hlaðið á alla vegu. Ef grannt er skoðað í kring má sjá hluta af leiðigarði norðan opsins og sunnan þess. Hleðslan vestan við opið er nýlegri og ein við endann að norðanverðu. Líklegt má því telja að grjótveggurinn að austanverðu við opið hafi verið hafi verið hluti leiðigarðsins og fé þá runnið auðveldlega niður í fjárskjólið. Seinna, eftir að hætt var að nýta skjólið fyrir fé, hefur grjót verið tekið úr leiðigarðinum og hlaðið í vegginn að vestan- og norðanverðu svo fé færi ekki niður í hellinn, enda fyrrum hlaðinn stígur niður í hellinn þá verið farinn að láta á sjá. Leifar þessa stígs eða stéttar sjást vel þegar komið er niður í Ána.
Hleðslan hefur hrunið fremst, en sjá má grjót úr honum neðan við opið. Veruleg grjóthleðsla er niðri og vestan við opið, til að varna fé að fara innfyrir og norður með innganginum. Annars liggur meginrásin til suðausturs. Undarlegt þykir að ekki skuli vera fyrirhleðsla þar innar í hellinum, en líklegt má telja að þar hafi rásin verið lokað fyrir með trégrind til að varna því að fé færi innar í hana. Sjá má leifar af tré í hellinum. Í vesturveggnum er lítið gat og rás þar fyrir innan, lág. Áni hefur verið gott fjárskjól og það tiltölulega nálægt bænum.
Næst var komið að fjárborginni undir Borgarskörðum. Skörðin eru tvö (Háhamar, skilur þau að) og er borgin neðan þeirra, í Stekkatúnsbrekkum. Borgin er vel gróin og ferköntuð hlaðin rúst, heilleg, inni í henni. Í framangreindri örnefnalýsingu segir að þarna hafi verið stekkur og Stekkatún. Ekki er ólíklegt að borginni hafi verið breytt í stekk. Hún er sjálf hringlaga, en ferköntuð rústin inni í henni er svipuð og í Hlíðarborginni, en minni.
Hlíðarborgin er hægra megin götunnar, hlaðin vestan undir hraunhól líkt og borgin undir Borgarskörðum. Hún hefur verið allstór, tvíhlaðin, en síðan verið breytt í stekk með hús eða kró á milli, inni í borginni. Hlíðarborgin er enn eitt dæmið um breytta nýtingu á mannvirkjum í vestanverðri Selvogsheiði.
Suðaustan við Hlíðarborg, sunnan girðingar er umlykur beitarhólf þeirra Selvogsmanna, er Valgarðsborg. Hún er minni en hinar fyrrnefndu. Norðvestan við borgina, í lægð undir grónum hól, má vel greina mjög gamlar tóftir a.m.k. tveggja húsa. Allt bendir til að þarna hafi fyrrum verið selstaða og Hlíðarborgin þó nýtt sem hluti af því, Valgarðsborgin mun líklega hafa þjónað sem aðhald eða skjól því líklegt má telja að hún hafi verið yfirbyggð. Marka má það af því hversu lítil hún er og auk þess hafa veggir hennar verið nokkuð háir.
Þá var stefnan tekin upp heiðina, áleiðis að Strandarseli suðaustan undir Svörtubjörgum. Framundan þeim eru nefndar Selbrekkur. Bæði ofan þeirra og neðan má sjá minjar nokkurra selja, sem flest hafa gleymst mönnum. Þau virðast hafa týnst líkt og svo margt annað í Selvogsheiðinni, en ef vel er að gáð má varla þverfóta fyrir óskráðum minjum í henni, enda verið drjúgum nýtt fyrr á öldum frá bæjunum í Selvogi.
Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar.
Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann.
Þegar gengið hafði verið yfir Hraunhóla var skömmu síðar komið á svæðið undir Selbrekkum og sáust þegar tóftir húsa. Þær eru reyndar ógreinilegar og að öllum líkindum mjög gamlar. Svæðið er að öllu jöfnu utan göngu- og alfaraleiða. Tvær rústir eru vestast. Norðaustan við þær er hlaðinn gangur, fallinn. Hann hefur áður verið reftur og sennilega legið í tvær áttir, suðurog norður, eftir að inn var komið. Þegar gangurinn féll saman opnaðist niður í syðri hluta hellisins, sem þarna er undir. Hellirinn er stór, ca. 100m2, gólfið slétt og hátt til lofts. Fyrirhleðsla er austan við niðurganginn, stór. Hægt er að komast yfir hana til norðurs og er þá farið framhjá miklum hleðslum á vinstri hönd, sem hafa verið hluti gangsins. Þar liggur hellirinn til norðausturs, en er miklu mun lægri en suðurhlutinn. Vegna þess hversu hreint gólfið er í suðurhlutanum virðist sá hluti hans annað hvort verið notaður sem búr og geymsla eða einungis verið notaður í skamman tíma. Norðurhlutinn gæti hins vegar hafa verið notaður undir fé. Ofan á suðurhlutanum er hlaðin kví. Skammt norðaustan við hellisopið er annað op, langt og ílangt.
Norðan við skjólið er tóft. Austan hennar er annað fjárskjól, slétt í botninn og rúmgott (ca. 60m2). Opið er í gegnum skjólið, en inngangurinn hefur verið að sunnanverðu því hlaðið er þvert fyrir nyrðra opið.
Tóftir eru norðan við síðarnefnda fjárskjólið og hlaðin kví norðan þeirra. Svo virðist sem þær hafi verið hlaðnar fyrir op á enn einum hraunssalnum, en fallið saman og lokað opinu. Þó má sjá að rými er þar fyrir innan.
Fjárskjól er í hattslaga hraunhól nálægt minjunum. Einnig í litlum hraunhól norðan þeirra (varða ofanb á) og auk þess er enn eitt fjárskjólið skammt norðaustan við tóftirnar. Það er rúmgott rými með sléttu gólfi og fyrirhleðslu svo fé kæmist ekki nema takmarka inn í hraunsrásina, sem það er í.
FERLIR hefur áður skoðað þetta svæði, s.s. með Guðmundi Þorsteinssyni, hellamanni frá Þorlákshöfn, en þá var fyrstnefnda fjárskjólið nefnt Bólið til aðgreiningar. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna sé komið hið eiginlega Vogsósasel, enda í landi Vogsósa.
Ljóst er að þetta svæði hefur að geyma miklu mun fleiri minjar og væri ástæða til að gaumgæfa það betur. Ferðin var notuð til að rissa upp þær minjar, sem bornar voru augum.
Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ekki er með öllu útilokað að tengja óljósar hleðslur uppi á hraunhól vestan Svörtubjarga veru manna í dölunum (Strandardal og Hlíðardal) fyrrum. Þó gæti þarna hafa verið um aðstöðu til að ná fé að ræða. Þá er og mjög sennilegt að grónar hlíðar og sléttur undir björgunum hafi verið slegnar til að afla viðbótartöðu þegar þannig áraði. Grjót virðist hafa verið tekið úr mannvirkinu í undirhleðslu girðingar, sem legið hefur niður með vestanverðum Björgunum.
Gengið var til baka vestur með og undir hlíðunum, um Suðurfaraleiðarhliðið á Suðurfaraleið og vestur Hlíðargötu. Þokan sveipaði umhverfið dulúðlegu yfirbragði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.