Hólmsá er í og ofan við Reykjavík. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur og áin rennur í Elliðavatn og heitir þá Bugða. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá á þjóðveginum austur fyrir fjall. Sú brú sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur.
Hólmsá rennur fyrir norðan við bæinnn Gunnarshólma undir Hólmsábrú suður um Heiðartagl. Þar fellur kvíslin Ármótakvísl úr Hólmsá í Suðurá en Hólmsá norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá þangað til hún er til móts við Baldurshaga en þá heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða. Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá árið 1926 og lagði veg frá Suðurlandsvegi í Rauðhóla. Fyrrum lá leiðin upp frá Árbæ, með Selási og sunnan Hólms þar sem hún greindist í tvennt skammt austar; annars vegar í Austurleiðir upp frá Elliðakoti að Lyklafelli norðan og sunnan þess og áfram um Hellisskarð og hins vegar um Lækjarbotna upp í Öldur þar sem sú leið greindist annars vegar inn með Svínahraunsbruna að Hellisskarði þar sem hún sameinaðist Austurleiðunum og hins vegar inn á Ólafsskarðsveg. Þessar götur sjást enn greinilega, einkum sporið á hellunni suðaustan Hólms.
Vagnvegur var lagður frá Öldum um Klifheiði og suður fyrir Rauðavatn árið 1887. Þá var brú sett á vað yfir Hólmsá, en hún entist stutt. Vestan og ofan við vaðið er klappað í klöpp ártal (18?7) og nafn (Ágúst), líklega frá þeim tíma er vagnvegurinn var lagður þar árið 1887.
Brúin yfir Hólmsá var byggð samhliða veglagningu 1887. Hún var strax nefnd Rauða brúin vegna litarins. Árið 1888 tók brúna af í miklum vetrarflóðum. Hún var síðan endurnýjuð 1926. Gamla brúin var 18 álnir á lengd og voru 4 álnir upp í hana venjulega. Stöplarnir voru steinhlaðnir og skemmdust þegar brúna tók af í flóðunum. Brúin var brotin niður en hluta af stöplum hennar er að finna um 45 m vestan ár.
Suðurlandsvegur var lagður að grunni til (vagnvegurinn) árið 1886, í landi Geitháls. Grunnur gamla vegarins er enn sjáanlegur, þ.e.a.s. frá bæjarstæði Geitháls að Hólmsá. Vegurinn var upphaflega lagður 10 fet á breidd (3,13 m). Snemma á 20. öld var vegurinn breikkaður og aðlagaður að bílaumferð.
Í Ísafold 1888 er fjallað um „Veginn nýja“, sem Norðmennirnir hafa verið við 2 sumur undanfarin, frá Fóelluvötnum niður í Reykjavík, og kominð var í haust nærri niður undir Hólm, með 18 álna brú yfir Hólmsá, hefir skemmzt stórkostlega í leysingunum vikuna sem leið, og brúna tekið af ánni aðfaranótt hins ll. Skemmdirnar eru mestar á hólmunum upp frá brúarstæðinu, og sömuleiðis mjög miklar upp á Sandskeiði : stórt haf brotið í brúna yfir það og klofinn frá annar jaðarinn vegarins þar á löngu bili. Nánari skýrsla um þetta ljóta áfall, sem líklega nemur 7—8000 kr. skaða, verður að bíða næsta blaðs.
Þá segir undir fyrirsögninni „Skemmdir af vatnavöxtum“: Skemmdirnar á norska veginum*, milli Svínahrauns og Hólmsár, hafa þó ekki orðið eins miklar og fyrst var látið, þótt ærnar sjeu. Fyrst eru nokkrar skemmdir á Öldunum fyrir ofan Sandskeiðið. Svo er á Sandskeiðinu grafið skarð í veginn við efstu brúna og austurkampurinn undir henni fallinn, en brúin á því miðju öll á burt og vegurinn þar horfinn á 18 föðmum; enn fremur grafið djúpt ker ofan í gegnum hann neðst á skeiðinu, og loks jetin skörð inn í hann hingað og þangað að ofanverðu, til þriðjunga eða helminga inn í hann. Þá eru litlar skemmdir þaðan ofan að Lækjarbotnum. Hjá Lækjarbotnum hefir áin meðal annars numið burta vegiun á 20 faðma bili og brotið vesturkampinn undir brúnni þar.
Fyrir neðan brúna er vegurinn gjörsamlega sópaður burtu ofan í klappir á löngu færi; við Hraunsnefið efra 3 faðma skarð í veginn; brotinn annar kampurinn af brúnni þar, en hinn hangir; og að öðru leyti talsverðar skemmdir á veginn um allt niður að aðalbrúarstæðinu á Hólmsá, en brúin yfir hana, 18 álna löng og 4 álna hátt yfir vatnið venjulega, öll á burtu, og kamparnir (rammgjörvir) skemmdir til muna: efsta lagið raskað á vesturstöplinum og hornsteinar í öðru, en 2 steinalögin efstu í þeim eystri mjög skemmd, og nokkuð neðar. Brúin sjálf í tvennu lagi: þriðjungur af henni rjett fyrir neðan brúarstæðið, en hitt langar leiðir niðar betur. Guðm. bóndi Magnússon í Elliðakoti, er þetta er haft mest eptir, samkvæmt skýrslu hans til amtmanns, með hliðsjón á skýrslu annara skoðunarmanna, fullyrðir, að 1871 hafi komið fullt eins mikið flóð í á þessa, og 1885 annað nokkuð minna.
— Í Ölvesá kom líka feiknaflóð í sömu leysingunni; hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fjenaðarbús og bæi; allt fjeð á einum bænum, Lambastöðum, drukknaði í fjárhúsinu (30 kindur).
Heimildir:
Morgunblaðið, 143. tölublað (29.06.1967), bls. 4.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson. „Elliðavatnsheiði og Hólmar“, 208.
-Ísafold 18. og 23. janúar 1888, 11, 15 og 16.
-Ísafold 24. ágúst 1926.
-Magnús Grímsson. „Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi“, 93.