Færslur

Tjarnarhnúkur

Gengið var á Ölkelduhálsi frá stað skammt austan við Kýrgil að miklum gjall- og klepragíg efst á Tjarnahnúk. Þaðan var haldið til norðausturs niður með Álftatjörn og Kattartjörnum að Súlufelli og síðan til vesturs um dalina inn að Ölfusvatnslaugum áður en gengið var til baka að upphafsstað.
Tjarnahnuksgigur-2ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) hafa gefið úr Jarfræðikort af Suðvestur-landi. Kortið byggist á fjölmörgum eldri jarðfræðikortum. Kortin hafa verið einfölduð, endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við. Elstu jarðlögin á kortinu eru rúmlega 4 milljóna ára gömul og þau yngstu eru hraun frá Reykjaneseldum 1211-1240. Alls eru á kortinu um 160 mismunandi hraun. Á kortinu er bent á 40 áhugaverða staði, m.a. þá sem nú var ætlunin að skoða.
Tjarnarhnúkur (520 m) er stakur gjallgígur. Hann situr efst á Ölkelduhálsi og er yngstur í röð fjallshryggja sem annars eru úr móbergi með Hrómundartind hæstan. Hraunið á hálsinum sunnan hans er afar veðrað og frostsprungið. Norðan við gíginn heita Lakaskörð. Þar eru hverir og leirskellur. Hraun hefur runnið þar niður en skriður síðan fallið. Þær ná ofan frá gíg, sú efsta, og hafa ýmist bunkast upp í brekkunum eða náð niður á dalgrundina með leirrennsli í Ölfusvatnsá. Hraunið hefur runnið norður með ánni og endar á vatnshjalla í um 160 m hæð.
FeldspatEftir að hraunið rann hefur Ölfusvatnsá grafið 1500 m langt gljúfur meðfram því ofan í jökulurð, móberg og aðallega bólstraberg. Jarðveg er ekki að sjá á milli. Hraunið hefur líkast til komið upp skömmu eftir að ísöld lauk. Neðsti hluti gljúfursins er í bólstrabergi úr Mælifelli. Bergið í því er pikrít, afar ólivínríkt. Í bólstrunum má sjá að ólivínkristallarnir hafa sokkið og langmest er af þeim neðst. Í feldspatdílóttu bólstrabergi, sem einnig kemur fram í gljúfrinu, má sjá að feldspat (bytownít) í bólstrum þess hefur sokkið og mun minna er af því efst í bólstrunum en neðan til. Hraunið úr Tjarnarhnúk er mjög dílótt, aðallega af feldspati. Óvenju mikið er í því af hnyðlingum. Mest er af þeim neðst í hrauninu við gljúfrið. Hnyðlingarnir eru úr grófkristölluðu bergi, gabbrói, mismundandi að gerð eftir því hvaða steind er ríkjandi. Hnyðlinga má einnig finna í bombum utan í gígnum. 

Sulufell

Steindir í gabbróhnyðlingunum eru þær sömu og finnast sem dílar í hrauninu sjálfu. Því er líkast að hér hafi kvikumassi verið að storkna í gabbró þegar nýtt kvikuinnskot blandaðist honum og braust upp til yfirborðs.”
Álftavatn er stórt vestan Kyllisfells. Kattartjarnarhrygg var fylgt áleiðis að Súlufelli austan Kattartjarna.
Súlufell (446 m) er norðarlega í Grafningshálsum, strýtulaga móbergsfjall, núið af jökli og þakið jökulruðningi hið neðra. Suðvestan í því er feiknamikill gígur, Smjördalur, gróinn í botninn og þverhnípt, sveiglaga hamraþil upp af að austan.
Olfusvatnslaugar-1Vestan megin er lægra upp úr dalnum og þar sem lægst er rennur dalbotninn saman við yfirborð ássins sem fjallið rís upp af, framhald Katlatjarnahryggjar til norðurs. Gígurinn er um 500 m yfir barminn á langveginn en um 400 m þvert á. Í hömrunum að austan sést innri gerð Súlufells, bólstraberg upp fyrir miðju, og móberg þar ofan á. Gígurinn skerst upp í gegnum berglög fjallsins og það hefur verið fullmyndað er hann braust upp. Norðan megin hefur svo bólstrabergshryggur komið upp utan í háfjallinu og nær með suðurendann nokkuð ofan í gíginn. Úrkast er ekki þekkt sem tengst gæti myndun hans. Ætla verður að hann hafi myndast á ísöld og það lent á jöklinum. Basaltkvika veldur ekki sprengigosi nema vatn komist að henni og hvellsjóði. Koldíoxíð þenst einnig við fasabreytingu og þekkt er að það eykur á gjóskumyndun í basaltgosum.

Olfusvatnslaugar-2

Nærtækt dæmi um það eru Seyðishólar í Grímsnesi. Þá er þriðji möguleikinn að súr kvika hafi komið þarna upp en hún er gasrík og henni fylgja sprengigos. Hins vegar kemur venjulega hraun eða gúll á eftir en slíks sér hér ekki merki, nema ef hryggurinn norðan í honum sé af þeim toga og þá basaltfasi í blönduðu gosi þar sem súri fasinn fór á undan. Fráleitt er þetta kannski ekki því að ísúrt berg kemur þarna fyrir, þ.e. í Stapafelli norðan við Hrómundartind. Sunnar á Katlatjarnahrygg er röð sams konar sprengigíga, Katlatjarnir, eða Kattartjarnir. Sá syðsti hefur sprungið upp úr Kyllisfelli.”

Olfusvatnsa

Gengið var til vesturs ofan og framhjá Djáknapolli um neðsta hluta Tindagils, inn eftir Þverárdal og Ölfusvatnsá síðan fylgt upp að laugunum.
Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala. Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.”
KyrgilKristján Sæmundsson, jarðfræðingur, segir að
Ölfusvatnslaugar heiti svo en ekki Hagavíkurlaugar sem stundum sést. Þegar Hagavík (jörðinni) var skipt úr Ölfusvatni (jörðinni) fékk Hagavík vesturhlutann með laugunum. Þá fór að sjást skrifað “Hagavíkurlaugar”. Ölfusvatnslaugar eru sérstakar fyrir hrúðrið, bungulaga með gosstrokk niður úr, gos þó löngu hætt.
Iillfært er upp úr Kýrgili nema fremst. Hár hnúkur fast sunnan við Kýrgil næst Hengli, en skarð á milli, heitir Kýrgilshnúkur. Hann er gamall gígur. Þar er grágrýtisflákinn (ísaldarhraun) upprunninn sem myndar Bitru og endar í Hamrinum ofan við Hveragerði.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir:
http://isor.is/ -Jarðfræðikort af Suðvesturlandi.
-Kristján Sæmundsson, 2010.

Ölfusvatnslaugar

Ölfusvatnslaugar.