Tag Archive for: Súlur

Gígur

Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.

Sandfell

Sandfell.

Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Arnarbælisgjá

MBÞ hafði samband við FERLIR og benti á áhugaverðar hleðslur í Arnarbælisgjá í Hafnaheiði. Taldi hún að hleðslurnar gætu verið að einhverju leyti merkilegar.
Hleðsla í ArnarbælisgjáÍ Hafnaheiði eru nokkrar langar og djúpar gjár, s.s. Arnarbælisgjá, Mönguselsgjá og Súlnagjá, auk Hrafnargjár sunnan Súlna. Í og hjá gjám þessum eru minjar á allnokkrum stöðum. Margar eru nýlegri eftir ameríska varnarliðsmenn, en heiðin var æfingarsvæði þeirra yfir hálfrar aldar skeið, og eldri eftir heimamenn og þá miklu mun eldri. Sumar tengjast augljóslega selstöðum í heiðinni, s.s. Kirkjuvogsseli, Mönguseli, Merkinesseli og Miðseli, aðrar eru vegvísar fyrir ferðalanga á brýr yfir gjárnar og enn aðrar skjól refaskyttna.
Hleðslur og aðrar leifar eftir hermenn eru bæði með gjánni og ofan við hana, sennilega eftir herinn við æfingar. T.d. eru leifar af timburskúrum ofan og neðan við gjána, sem grjóti hefur verið hróflað að. Eftir standa gólf og grjóthrófið. Þá virðist sem hermenn hafi verið að nota gjána til æfinga í skotgrafahernaði. Hleðslur sem skjól eru víða og drasl hefur sest að í skjóli við gjárvegginn. Leifar blyshylkja o.fl. liggja í gjánum, sem á köflum er bæði djúp og víð, sumstaðar gróin í botninn.
Vestari veggirnirEitt grjótskjólið í grunnum gjáarhluta er áhugaverðara en önnur. Norðan við það er fallin mosavaxin varða. Veggirnir eru þrír og skarast þeir vestari líkt og þar hefði verið hlið. Vestan við skjólið er gjáin djúp, en greiðfær. Hrunið hafði lítillega úr bergveggjunum eftir nýjustu jarðskjálftana Suðvestanlands. Við hinn endann er einnig hlaðið byrgi, skeifulaga og óvandaðra. Enn annað byrgi er skammt vestar, en með vandaðri hleðslum. Ef gengið er áfram með gjánni má sjá fleiri hleðslur, en óvandaðar. Beggja vegna hennar eru hlaðnir stuttir og lágir „veggir“ fyrir skyttur.
Fyrstnefnda hleðslan er þó líklega ekki upprunalega frá hernum, heldur virðist hann hafa notað þarna eldra mannvirki. Norðan við hleðslurnar, á brúninni, eru leifar af vörðu er fyrr sagði, sem hermenn hlóðu ógjarnan, enda leifarnar augsjáanlegar eldri. Þá virðast hleðslurnar þannig að herinn hafi ekki gert þær því hermennirnir hlóðu ekki slíka vandaða veggi, heldur hrúguðu grjótinu upp. Þarna gæti því hafa verið rúningsrétt eða nátthagi fyrir fé, líklega frá Merkinesseli. Brú er yfir gjána austan við hleðslurnar. Austurveggurinn er fallinn að nokkru, sennilega vegna ágangs, en vesturveggirnir eru heillegir, um 80 cm háir.

Hleðslur undir Arnarbælisgjá

Sunnar eru Stapafell og Súlur. Bæði fellin er að hverfa vegna gegndarlausrar og óhóflegrar efnistöku. Síðarnefnda fellið virðist heillegt í fjarlægð, en þegar nær er komið má sjá að þar eru nú einungis „leiktjöld“, þ.e. að efsti hlutinn hefur verið látinn halda sér á meðan nagað hefur verið utan af fellinu allt um kring.
Stapafell og Súlur mynduðust undir ís og í sjó. Þar er mikið bólstraberg með ólívínkristöllum neðst í bólstrunum. Ástæður fyrir myndun bólstrabergs eru lítt kannaðar en talið er, að mismunur hitastigs hrauns og vatns og þrýstingur í vatninu hafi áhrif á myndun þess. Í bólstrunum er ólívín (meira neðst vegna sökks), plagíóklas og ágít (svart). Svört lög í Stapafelli eru aska (bendir til blandaðs goss), sem hefur setzt til í vatni (mjög reglulega lagskipt). Sprungur liggja víða í gegnum Stapafell. Í Súlum er bólstraberg í kjarnanum og má nú sjá bera bergganga í því er liggja upp undir topp. Ofan á er móbergshetta, sem bendir til þess að gosið hafi haldið áfram undir íshellunni eftir að undirstaðan hafði náð að „fóta sig“ ofan sjávarmarka.

Hleðslur undir Arnarbælisgjá

Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni. Mikið er um misgengi um gjárnar í Hafnaheiði. Heiðin hefur mikið breyst á tiltölulega stuttum jarðfræðilegum mælikvarða.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands.
Í Hafnaheiðinni eru mörg misgengisþrep sem eiga smám saman eftir að liggja hvert upp af öðru líkt og Hjallamisgengið, sem er um 5 kílómetra langt og hæst er það um 65 metra hátt. Hreyfingar eru stöðugt á þessu svæði og því lítið um harða jarðskjálftakippi.
Hrófl um horfinn kofa í heiðinni - Súlur fjærMisgengi eru af ýmsu tagi en megingerðirnar eru þrjár. 1. Siggengi vegna gliðnunar (til dæmis Arnarbælisgjá). 2. Ris- eða þrýstigengi vegna samþjöppunar (engin dæmi hér á landi, en fræg í fellingamyndunum). 3. Sniðgengi vegna hliðrunar (til dæmis Suðurlandsbrotabelti).
„Þverbrotabelti“ er notað um sniðgengi eða kerfi sniðgengja sem tengja ása rekhryggja. Hér á landi eru tvö slík brotabelti, Tjörnesbrotabeltið sem tengir suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við Norðurgosbeltið, og Suðurlandsbrotabeltið sem tengir Reykjanes og Austurgosbeltið.
Helstu „hnikþættir“ á Íslandi eru Reykjaneshryggur og Kolbeinseyjarhryggur, sem hliðrast til austurs um Suðurlands- og Tjörnesbrotabeltin. Hreyfingar Ameríku- og Evrasíuflekanna, sem þarna mætast, reka frá hvorum öðrum að jafnaði um 1 cm á ári til hvorrar áttar.
Tilurð þessara íslensku brotabelta er vel þekkt. Hryggjakerfi Norður-Atlantshafs rekur til vest-norðvesturs tæpan sentimetra á ári miðað við heita reitinn undir austlægri miðju landsins og með því að flæði möttulefnis undir Íslandi út frá þessari miðju er helsti drifkraftur flekahreyfinga, þá „leitast“ rekbeltin við að vera yfir heita reitnum.
Súlur að vestanverðuÍ 15 milljón ára jarðsögu Íslands hefur slíkur gosbeltaflutningur orðið að minnsta kosti þrisvar.
Þverbrotabelti einkenna allt rekhryggjakerfi jarðar, sem er um 60.000 km langt, og skiptist í búta sem hnikað er til hverjum miðað við annan. Almennt tengjast þverbrotabeltin ekki heitum reitum, heldur virðast þau hafa myndast um leið og rekhryggurinn sjálfur og haldast síðan nokkuð stöðug. Myndun þeirra er því sennilega háð spennusviðinu sem ríkti þegar hryggurinn var að myndast.

Rekbeltið á flekamótum

Frekari lesningu um misgengi er til dæmis að finna í greinum Páls Einarssonar í Náttúru Íslands og Náttúrufræðingnum, svo og í Jörðinni (JPV útgáfa, Rvk. 2005).
Reykjanesrekbeltið er einkennandi fyrir Reykjanesskaga og þar er að finna fjölmargar sprungur, misgengi og mjóa sigdali sem stefna í norðaustur-suðvestur átt (Jón Jónsson, 1967). Á Reykjanesskaganum beygja plötuskilin til austurs en það eru fjögur eldsstöðvarkerfi sem liggja skálægt á plötuskilunum. Þekkt eru tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Hvert gosskeið stóð í allt að fjórar aldir með um þúsund ára hléi á milli. Í ljósi þeirrar vitneskju og rannsóknum á eldri gosum, er líklegt að eldvirkni hafi verið svipuð, á fyrri hluta nútíma. Þessi eldstöðvarkerfi eru Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteinsfjallakerfið og Hengilskerfið. Reykjaneseldstöðvarkerfið liggur í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt. Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum.
Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega Rauðu örvarnar yfir Arnarbælifyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr merki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess. Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári.
Meðan gengið var um svæðið flugu 11 breskir rauðir örvafuglar (listflugsveitin Rauðu örvarnar) yfir með látum. Hún hafði verið pöntuð sérstaklega í tilefni dagsins. Elton John hvað?
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-María Berglind Þráinsdóttir.
-flensborg.is
-visindavefur.is
-Málfríður Ómarsdóttir, Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp.

Súlur að sunnanverðu