Ásgeir Guðmundsson fjallar um „Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar“ í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983, en mörk bæjarfélagsins hafa vaxið ört frá því að það fékk kaupstaðaréttindi 1. júní 1908:
„Í 1. grein laga um bæjarstjórn í Hafnarfirði 22. nóv. 1907 voru takmörk kaupstaðarins ákveðin þannig:
„Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunholtstúns, Þaðan beina stefnu yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“
Mikið skorti á, að Hafnarfjarðarbær ætti árið 1908 það land, sem var innan bæjarmarkanna.
Í árslok 1908 var að frumkvæði Jóns Hermannssonar þáverandi bæjarstjóra rætt um það á bæjarstjórnarfundi utan dagskrár, hvort eða að hve miklu leyti kaupstaðurinn ætti að gera ráðstafanir í þá átt að eignast eitthvað af því landi, sem hann var byggður á og að honum lá. Síðla árs 1910 stóð Hafnarfjarðarbæ til boða að kaupa allar fasteignir Brydeverslunar í bænum ásamt fleira á 37.500 kr., þ.e. Akurgerðislóð ásamt öllum húsum og mannvirkjum, sem voru á lóðinni. M.a. var um að ræða fyrsta fiskþurrkunarreitinn, sem gerður var í hrauninu fyrir norðan Hafnarfjörð. Verslunarhús og önnur mannvirki á Akurgerðislóð voru ekki lengi í eigu Hafnarfjarðarbæjar, því að bæjarstjórn seldi Magnúsi Th. S. Blöndahl kaupmanni þau árið 1911.
Ári seinna gaf prófasturinn á Görðum, Jens Pálsson, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi, sem bærinn stóð á og Garðar áttu, og einnig nokkurt beitiland fyrir samtals 52.000 kr. Við það voru landamörkin miðuð við „beina línu úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins, þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum, úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól, sem er gamalt miðaftansmark, miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við Urriðakotsland; þá Setbergsland, allt til Lækjarbotna; og loks Selvogsmanna- eða Grindarskarðsvegur.“
Innifalið í þessum kaupum var Hamarskot, en undanskilið var Hamarkotstún innan girðingar og Undirhamarstúnblettur.
Í desember 1912 keypti Hafnarfjarðarbær hálfa jörðina Hvaleyri, þ.e. Hjörtskot, Halldórskot, Sveinskot, Tjarnarkot, Vesturkot og Egilsonsgerði. Kaupverðið var 7.000 kr.
Árið 1915 keypu bærin Hamarsland á kr. 10.500 kr. Undanskyldar voru nokkrar lóðir, s.s. lóð Íshúss Hafnarfjarðar. Hamar var upphaflega í landi Jófríðarstaða, og þar eða eigendur Jófríðarstaða töldu sig eiga tilkall til ítaka í Hamarslandi, mótaks og skipsuppsátur, ákvað bæjarstjórn árið 1919 að greiða þeim í eitt skipti fyrir öll 600 kr. gegn því, að þeir slepptu öllu tilkalli til þessara ítaka.
Eins og áður hefur komið fram, voru Hamarskots- og Umdirhamarstún undanskilin, þegar aðrar eignir Garðakirkju í Hafnarfirði voru seldar bæjarfélaginu 1912. Þá var gert ráð fyrir að presturinn hefði þar grasnytjar, ef hann flyttist til Hafnarfjarðar. Í desember 1927 var byrjað að sverma fyrir landinu og árið 1930 keypti bærinn það fyrir 12.000 kr. Sú kvöð hvíldi á Hamarkotstúni, að einungis mátti reisa þar byggingar til almenningsþarfa, en að öðru leyti átti túnið að vera skemmtistaður handa Hafnfirðingum, og var það notað til þeirra hluta um skeið. Undirhamarstún mátti kaupstaðurinn ekki selja, heldur aðeins leigja það út til byggingarlóða.
Árið 1924 reis ágreiningur milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Jóhannesar J. Reykdals um landamerki Hafnarfjarðar og Setbergs. Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu 1925, og féll hann Jóhannesi Reykdal í vil.
Árið 1932 keypti Hafnarsjóður Hafnarfjarðar jörðina Óseyri ásamt húsum af Böðvari Böðvarssyni bakara fyrir 39.000 kr. Óseyri var elsta nýbýlið í hinu forna Jófríðarstaðalandi.
Sumarið 1935 keypti Hafnarfjarðarbær af kaþólska trúboðinu (Compagnie de marie) hluta úr landi Jófríðarstaða.
Að loknum landakaupum þeim, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, átti Hafnarfjarðarbær mestan hluta þess lands, sem hann náði yfir. Að undanskildum hluta af landi Jófríðarstaða, sem bar í eigu Campagnie de Marie, og heimajörðinni á Hvaleyri, sem var í eigu Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar, voru aðeins tvær lóðir inni í sjálfum kaupstaðnum í einkaeign. Önnur var lóðin Vesturgata 2, þar sem Hótel Björninn stóð, og var hún í eigu erfingja Augusts Flygenrings, en hin var lóð Íshúss Hafnarfjarðar.
Árið 1936 fékk ríkið f.h. Hafnarfjarðarbæjar heimild til að taka eignarnámi lönd til að stækka lögsagnarumdæmið. Tilgangurinn var að bæta úr þeim mikla skorti á ræktunarlandi, sem var í Hafnarfirði um þessar mundir.
Samkvæmt því var ríkinu heimilt að taka eignarnámi afnotarétt af öllu óræktuðu landi jarðarinnar Áss í Garðahreppi, þann hluta af óræktuðu landi jarðarinnar Hvaleyri í Hafnarfirði, sem ekki var þegar eign Hafnarfjarðarbæjar, afnotarétt þess landssvæðis, sem takmarkaðist þannig: Að austan af veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, að norðan af Arnarneslæk og Arnarnesvogi, að vestan af beinni línu úr suðvesturhorni Arnarnesvogar að vesturhorni Engildals, þaðan með fram Álftanesveginu að aðalveginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Undanskilið var þó land nýbýlisins Langholts og land milli Arnarnes- og Hraunsholtslækja, sem þegar hafði verið skipt á milli bænda í Garðahreppi, og jarðarinnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.
Árið 1941 var gengið endanlega frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ, og var afsal fyrir þessum jörðum gefið út 20. febr. 1941.
Árið 1947 gafst Hafnarfjarðarbæ kostur á að kaupa landsvæði úr landi Straums, sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni og Skógræktar ríkisins.
Ári síðar samþykkti bæjarstjórn að kaupa eftirfarandi landsvæði; landsvæði úr Straumslandi, sem var austan Krýsuvíkurvegar, þ.e. á vinstri hönd, þegar farið er til Krýsuvíkur, þar með taldir vikurhólarnir neðan Vatnskarðs, sem vafi lék á, hvort tilheyrðu Hafnarfirði eða Straumi, landsvæðið frá mörkum Hafnarfjarðar (Hvaleyrar), sem lá milli Keflavíkurvegar og sjávarins, þ.e. á hægri hönd þegar farið var til Keflavíkur. Þetta svæði var norðvestanendinn á Kapelluhrauni, Ofaníburðarhóll, sem var u.þ.b. 2 km. suður frá Straumi. Ofangreind landsvæði fengust keypt fyrir 50.000 kr., að viðbættum helmingi af sjóði þeim, sem myndast hafði vegna sölu á vikri úr Vatnsskarði að upphæð 18.000 kr. Auk þess var landsvæði sunnan Keflavíkurvegar og vestan Krýsuvíkurvegar um 2 km á hvern veg, sem Skógrækt ríkisins seldi Hafnarfjarðarbæ gegn því, að bærinn reisti á sinn kostnað girðingu á mörkum landsvæðisins, sem yrði um leið varnargirðing fyrir land það, sem Skógræktin hafði eignast úr Straumslandi. Kostnaður við kaup á landsvæði Skógræktarinnar nam um 30.000 kr.
Haustið 1955 hafði Hafnarfjarðarbær makaskipti á landsvæðum við Skógrækt ríkisins, og voru þau fólgin í því, að Hafnarfjarðarbær lét af hendi hluta af undirhlíðum frá skógræktargirðingu, sem þar var, suður að vikurhólunum við Vatnsskarð. Bærinn fékk á móti frá Skógræktinni landsvæði úr Straumslandi milli krýsuvíkruvegar og Óttarsstaða og fylgdu því ofaníburðarhólar þeir, sem voru á svæðinu, ásamt öðrum landgæðum.
Árið 1956 tók Hafnarfjarðarbær eignarnámi eign Gjafasjóðs Þórarins Böðvarssonar á Hvaleyri, auk Flensborgartúns, og greiddi fyrir það 1.380.000 kr.
Sumarið 1956 féllst hreppsnefnd Garðahrepps á að verða við beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um innlimun landspildu úr landi Setbergs í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Landsvæði þetta var í Kinnunum vestan Hamarkotslækjar og norðan við nýja Suðurnesjaveginn.
Árið 1959 var með lögum frá Alþingi ákveðin ný umdæmismörk fyrir Hafnarfjörð, enda hafði bærinn þá þegar þanist úr fyrir núverandi mörk.
Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum. Í hlut Hafnarfjarðar kom sá hluti Garðahrepps, sem lá sunnan við Hafnarfjörð. Þar var um að ræða svokallaðar hraunjarðir. Nánara tiltekið var þetta landsvæði vestan Krýsuvíkurvegar, og náði það suður að Vatnsleysustrandarhreppi. Á móti féll Hafnarfjarðarbær frá leigurétti sínum á ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnes samkvæmt leigusamningi dags. 14. nóv. 1940, með þeirri undantekningu, að leigusamningar við einstaklinga, sem áttu stoð í greindum samningi Hafnarfjarðarbæjar við jarðeignadeildina, skyldu áfram vera í gildi.
Vorið 1964 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um sölu jarðarinnar Áss í Hafnarfirði (hún var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959), sem bærinn nýtti sér í framhaldinu. Sama ár voru lögð fram lög á Alþingi um útfærð umdæmismörk Hafnarfjarðar. Í framhaldi nýtti Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt að öllum lóðum og fasteigum vestan Krýsuvíkurvegar, þ.e. Lónakot, Óttarsstaði, þar með talið gamla býlið Óttarsstaði II, Óttarsstaðagerði, Blikalón I, Glaumbæ, Straum og Straumsbúið, Jónsbúð, Þýskubúð, sumarbústaði, Litla-Lambhaga, Stóra-Lambhaga og einstakar aðrar landspildur.
Enn voru gerðar breytingar á lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar vorið 1971. Við féll hluti af landi Dysja undir Hafnarfjörð, en þá var fyrirhugað að byggja í Norðurbænum.
Í nóvember 1977 gerðu Hafnarfjarðarbær og Garðbær með sér samning um breytingu á lögsagnarumdæmum sveitarfélaganna. Samkomulagið var í aðalatriðum fólgið í því, að spilda úr landi Þórsbergs og Setbergs, aðlallega landið ofan Reykjanesbrautar frá FH-svæðinu suður á móts við Flóttamannaveg, var lögð undir lögsagnarumbæmi Hafnarfjarðar, en Garðabær fékk á móti land Hafnarfjarðar ofan við Reykjanesbraut. Breytingarnar tóku gildi árið 1978.
Nú á Hafnarfjarðarbær mestallt landið innan kaupstaðamarkanna. Helstu landspildurnar, sem bærinn á ekki, eru hluti Jófríðarstaðalands, hluti Straumslands, Óttarsstaði og Lónakot. Þá eru nokkrar byggingarlóðir í einkaeign. Lönd jarðanna Þórsbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnaumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.“
Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 101-122.