Á Íslandi eru nú þekktir um 2000 tegundir af sveppum. Þá eru ekki taldir með rúmlega 700 tegundir sveppa sem eru fléttumyndandi, þ.e. hafa þörunga í þjónustu sinni.
Sveppir skiptast í marga flokka, en stærstir eru kólfsveppir og asksveppir. Til kólfsveppa teljast meðal annarra allir svokallaðir hattsveppir. Einnig teljst ryð- og sótsveppir sem lifa á blómplöntum og síkja þær, til kólfsveppa. Einkennandi fyrir kólfsveppi er kólfbeðurinn sem klæðir þá að einhverju leyti að utan, á hattsveppum þekur hann blaðkenndar fanir sem eru neðan á hattinum. Hver kólfur myndar 4 kólfgró á toppnum.
Til asksveppa teljast bæði disksveppir og skjóðusveppir, og einkennandi fyrir þá er askbeðurinn, sem er þéttsettur grósekkjum sem nefnast askar, og eru þeir venjulega hver með 8 gróum sem þeir skjóta upp í loftið þegar þeir eru fullþroska.
Margir asksveppir sníkja á lifandi plöntum, en margir eru rotverur sem lifa á dauðum lífrænum efnum. Þeir stærstu mynda oft skrautlega diska eða skálar, og þekur asklagið efra borð þeirra. Aðrir asksveppir eru aðeins sýnilegir sem myglulag utan á því undirlagi sem þeir vaxa á.
Af öðrum minni flokkum sveppa má nefna oksveppi, eggsveppi, kitrusveppi og slímsveppi. Margir oksveppir lifa aðallega á myglustigi, en aðrir sníkja á skordýrum og sýkja þau.
Eggsveppir valda sumir sjúkdómum á plöntum, en aðrir mynda eins konar myglu á lífrænum efnum í vatni, eða valda sjúkdómum á vatnaplöntum eða fiskum. Kitrusveppir lifa nær eingöngu í vatni. Slímsveppir er sjálfstæður hópur lífvera sem líklega eru óskyldir sveppum. Slímkórallinn er t.d. af flokki slímsveppa.
Sveppir eru því mjög margvíslegir og fjölbreyttir að allri gerð, og ef þú vilt kynnast þeim betur, skaltu velja Flóra Íslands hér til hliðar.
Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur varð fyrstur Íslendinga til að rannsaka og greina íslenzka sveppi af alvöru.
Heimild m.a.:
-http://www.floraislands.is/sveppir.htm