Stutt var síðan Kirkjugatan milli Reynivalla og Fossár var rakin. Nú var ætlunin að fara um Gíslagötu austar á Reynivallahálsi, upp á Selgötuna (Sandfellsleið), fylgja þeim niður í Fossárdal og ganga síðan til baka eftir Svínaskarðsvegi, hinni fornu þjóðleið, að Vindáshlíð.
Á hálsinum eru Dauðsmanns-brekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna, þar sem hún kemur inn á og yfir Sandfellsveg, er dys.
Guðbrandur Hannesson í Hækingsdal lýsti Gíslagötunni þannig áður en lagt var af stað: „Gíslagatan sést þegar komið er upp úr lúpínubreiðu neðan við Gíslalæk og ofan við Gíslalækjardrög. Gatan er skágengin upp hlíðina vestan við gilið, sem lækurinn rennur um. Fyrst fer hún frá gilinu, en síðan aftur nær því. Kemur hún upp á hamrana um skarð, sem þar er nokkru frá gilinu. Þegar upp er komið er upp á brúnir er varða. Við hana liggur gatan til norðurs, en beygir síðan aftur til austurs uns hún kemur inn á Sandfellsveg í Dauðsmanns-brekkum. Gengið til austurs inn á Sandfellsveg. Hann liggur þar til norðurs. Þegar veginum er fylgt beygir hann fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þá eru Dauðsmannsbrekkur á hægri hönd en ekki vinstri eins og sýnt er á landakortum. Í þessum beygjum, við gatnamótin, er Dysin.
Gíslagata á að vera greinileg þegar upp úr drögunum er komið ofan við gilið. Þá er Sandfellsvegurinn vel greinilegur. Ekki eiga að vera vörður við hann utan þeirrar er ég nefndi. Þá er Svínaskarðsvegurinn vel greinilegur. Hafa ber í huga að Gíslagata hefur ekkert með Sandfellsveginn að gera. Hún var leið á milli Gíslholts og Seljadals, en gatan heitir eftir Gísla Einarssyni, bónda á báðum stöðum, síðar í Seljadal þar sem hann bjó á árunum 1897 til 1921. Þetta er leiðin sem Gísli og hans fólk fór á millum bæjanna. Gísli var afabróðir minn. Afi minn hét Guðbrandur Einarsson frá Hækingsdal. Þar er skyldleikinn kominn milli ábúandans í Seljadals og ábúenda í Hækingsdals.“
Ábendingar Guðbrands komu sér vel því bæði er búið að sá lúpínu þar sem gatan liggur af fyrrum kirkjugötunni frá nálægum bæjum að Reynivöllum og auk þess hefur gatan verið lítið farin í seinni tíð af öðrum en hestamönnum. Fyrir þá, sem vanir eru að rekja gamlar götur, er gatan augljós upp fyrir brúnirnar. Þar taka við gróningar, en ofan þeirra má sjá hvar gatan liggur á ská til austurs, yfir Gíslalæk ofan gilsins og upp á brún, sem þar er vörðuð. Við vörðuna beygir gatan til norðurs, en hins vegar er auðvelt að villast af henni áfram til austurs því kindagata liggur þar af henni áleiðis að Sandfellstjörnum og nágrennisgróningum.
Ef götunni er rétt fylgt héðan í frá verður hún auðlesin allt yfir Dauðsmannsbrekkur og að dysinni, sem þar er við Sandfellsveginn. Við götuna eru þrjár vörður og auk þess tvö vörðubrot. Gatan virðist af umsögninni ekki mjög gömul, en er samt sem áður orðin af fornleif skv. skilgreiningu þjóðminjalaga.
Séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum lýsir leiðunum þannig:
„Gíslagata
Önnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Síðan liggur vegurinn eftir vel merkjanlegri slóð upp á Hálsinn. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til norðurs yfir Hálsinn.
Austan götunnar eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við götuna er dys. Í örnefnaskrá segir: „Dauðsmannsbrekkur, talið var að einhvern tíma hefði fundizt þar látinn ferðamaður“. Þegar upp á Hálsinn er komið blasir Sandfell við í suðaustri og vestan við það er Sandfellstjörn.“
Í örnefnaskrá fyrir Reynivelli segir að ”í Seljadal var kotið Seljadalur, sem fyrrum var kallað Reynivallasel. Sá bær stóð í óbyggð 1880-1897. Þá fór þangað Gísli Einarsson frá Hækingsdal og bjó þar til 1921.”
Séra Gunnar lýsir einnig Svínaskarðsvegi:
„Svínaskarðsvegur dregur nafn sitt af Svínaskarði milli Skálafells og Móskarðshnúka í Esju og segir frá syðri hluta leiðarinnar annars staðar í þessari bók. Vegurinn liggur út Svínadal, yfir Laxá og upp með Vindáshlíð austan Sandfells og er leiðin auðfundin enda oft farin á sumrin, einkum af hestamönnum en einnig göngumönnum.
Leiðin sameinast af Gíslagötu norðan til í Hálsinum. Svínaskarðsleið liggur norður af sunnan við svonefnda Hryggi, síðan beygir leiðin til norðurs með fram Dauðsmanns-brekkum, sem eru þá á hægri hönd og sér þaðan niður í Seljadal. Það er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni; þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Þar er gott sauðfjárland. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur, í honum rennur Hjaltadalsá. Í ánni er Folaldafoss. Eftir Seljadal rennur Seljadalsá, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur.
Leiðin liggur sem fyrr segir ekki niðri í dalnum heldur vestan til í honum, uns hún fer niður í lítið dalverpi er Sperribrekkugil heitir og er ársprænan Mígandi í því gili. Við dys eina, sem er rétt ofan við Míganda, sameinast Svínaskarðsleið Gíslagötu.
Þegar komið er niður í Fossárdalinn liggur leiðin eftir vesturhlíð Þrándarstaðafjalls, eftir svonefndum Reiðhjalla og beygir síðan til austurs inn á við í átt til Brynjudals. Önnur leið liggur svo til vesturs.
Í Fossárdal er forvitnilegt að svipast ofurlítið um og skoða gömlu fjárréttina niðri við ána, um það bil 250 metra frá steypta veginum. Niðri við veginn er svo önnur hlaðin rétt í Kálfadal, hún er allmiklu yngri en hin. Fossinn neðst í ánni nefnist Sjávarfoss.
Loks mætti nefna eina leið enn upp á Hálsinn að sunnanverðu, milli Gíslagötu og Svínaskarðsvegar, suðvestan til í Sandfelli, skammt austan Vindáss. Þetta er allbrött leið, sem liggur upp á Hálsinn vestan við Sandfell inn á Gíslagötu. Selstígur, en svo heitir þessi leið, lá upp að Vindásseli í Seljadal framanverðum.“
Gíslagatan er vel greinileg yfir hálsinn. Á Dauðsmannsbrekkum verður hún ógreinileg á melum, en auðvelt er að sjá hvernig hún hefur legið á ská niður malarbrekkuna.
Þá var Sandfellsvegi fylgt upp að Sandfelli. Um er að ræða unnin veg, en sjá má gömlu götuna á stuttum köflum beggja vegna hans. Veginum er auðvelt að fylgja. Tvær vörður eru á brúnum austan hans. Sandfellstjörn verður á hægri hönd sem og Sandfellið. Utan í því austanverðu eru gatnamót Svínaskarðsvegar. Neðar hverfur gatan undir veginn, en beygir síðan til hægri ofan við Vindássel. Þaðan í frá er auðvelt að fylgja henni niður á kirkjugötuna gömlu.
Á næstunni er fyrirhuguð ferð upp frá Fossá inn á Sandfellsveg. Ætlunin er að fylgja honum upp að dysinni, rekja síðan Gíslagötu áfram yfir í Seljadal og ganga Svínaskarðsveginn upp að Sandfelli og niður að Vindáshlíð (sjá væntanlega lýsingu HÉR).
Þegar komið var niður að Vindáshlíð blasti húsakostur KFUMogK við. Einn þátttakenda, fyrrum félagsmaður og síðar starfsmaður, lýsti kirkjunni með eftirfarandi hætti: „Hallgrímskirkja í Vindáshlíð er kirkja sem staðsett er í Vindáshlíð í Kjós og er hluti af starfstöð KFUM og KFUK þar. Sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ afhenti sumarstarfi KFUK í Reykjavík sína gömlu kirkjubyggingu til eignar án endurgjalds sumarið 1957 er ný kirkja hafði verið byggð og vígð í Saurbæ það sama sumar, en byggingin hafði verið guðshús Saurbæjarsóknar frá árinu 1878. Hugmyndin um að flytja kirkjuna frá Saurbæ upp í Vindáshlíð hafði vaknað hjá velgjörðarmanni sumarstarfs KFUK í Reykjavík, Guðlaugi Þorlákssyni, meðan á byggingu nýju kirkjunnar í Saurbæ stóð, en draumur um kirkju í Vindáshlíð hafði lengi verið í huga hans og annarra sem tengdir voru starfinu.
Tveimur árum áður en ný kirkja í Saurbæ var vígð leitaði Guðlaugur Þorláksson á fund prófastsins og sóknarprestsins í Saurbæ, séra Sigurjóns Guðjónssonar og kom hugmyndinni og beiðni um gömlu kirkjuna á framfæri. Tók hann henni vel og kom þessari málaleitan til skila við sóknarnefndina, sem samþykkti beiðnina. Í miklu hvassviðri í febrúar 1957 færðist kirkjan til á grunni sínum. Þá hringdi sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur í Saurbæ, í Guðlaug Þorláksson og sagði við hann: „Nú er kirkjan lögð af stað í Vindáshlíð“.
Kirkjan var svo flutt á flutningavagni upp í Vindáshlíð mánudaginn 23. september 1957 og kom þann 24. september um kvöldið þangað eftir einstaka ferð sem í dag er talið mikið verkfræðilegt afrek miðað við tækni þess tíma. Kirkjunni var valinn staður uppi á flötinni þar sem hæst ber í Vindáshlíð og ekkert skyggir á hana. Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður, var fenginn til að annast endurbætur á kirkjunni ásamt félögum sínum, Magnúsi Jónssyni og Ægi Vigfússyni húsgagnasmiðum. Kirkjan var stækkuð með viðbyggingu við kórgafl, en hélst að öðru leyti óbreytt að utan. Að innan var hún öll einangruð og þiljuð.
Inni í kirkjunni tók vígslubiskup við kirkjugripunum, sem gefnir höfðu verið í tilefni endurvígslunar, og setti á altarið. Vígslan hófst með því að Gústaf Jóhannesson lék á orgelið. Blandaður kór KFUM og KFUK annaðist söng. Séra Bjarni hélt vígsluræðu og ritningarlestra lásu þeir séra Friðrik Friðriksson, séra Kristján Bjarnason, þáverandi sóknarprestur að Reynivöllum í Kjós, séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík og séra Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Að því loknu vígði séra Bjarni Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og afhenti hana sumarstarfi KFUK. Þá prédikaði séra Sigurjón Guðjónsson prófastur og athöfnin endaði á því að séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í Reykjavík, tónaði bæn og blessunarorð. Hlíðarstjórn samþykkti á stjórnarfundi 18. apríl 1959, að áletrunin á kirkjuklukkuna skyldi vera svohljóðandi: Hallgrímskirkja í Vindáshlíð 24. september 1957, þann dag sem kirkjan kom upp í Vindáshlíð.
Sjá einnig Kirkjugötuna yfir Reynivallahálsinn HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild:
-Gunnar Kristjánsson – Í Kjósinni.
-Örnefnalýsing fyrir Vindás.
-Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, bls. 87-92 í bókinni: Hér andar Guðs blær – Saga sumarstarfs KFUK, Reykjavík 1997, útgefandi: Vindáshlíð, ritstjóri: Gyða Karlsdóttir.