Tag Archive for: Sýslusteinn

Snorri

Gengið var í þoku upp girðingaveg á mótum Árnessýslu og Gullbringusýslu við Sýslustein.

Slóðaketill

Við Slóðaketil.

Veður var að öðru leyti milt og hlýtt. Í miðri hraunhlíð var litið ofan í hraunketil, sem nefndur hefur verið Slóðaketill. Ofan í honum er um 6 metra gat virðist hraunrás liggja þar inn undir. Rás þessa þarf að skoða betur síðar. Slóðanum var fylgt upp á hraunbrúnina og áfram upp grónar hlíðar melhóla uns komið var á efstu brún. Inni í þokunni í austur eru Sandfjöllin og fjær Vesturás og Austurás. Í suðaustur er Herdísarvíkurfjallið og í góðu skyggni sést þaðan inn yfir Svörtubjörg og alveg að Hnúkum. Í suðvestri eru Æsubúðir á Geitahlíð. Í vestri er Sveifluhálsinn, en nær má sjá gíga, bæði austan í Geitahlíð og eins ofan við Kálfadalahraunið, sem rann þarna til vesturs ofan í Kálfadalina. Þar liggur slóðinn til norðurs inn á hraunbreiðu, en beygir fljótlega til vesturs. Vinstra megin er fallegur hraungígur.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufell framundan.

Áð var þegar komið var út úr hrauninu eftir tæplega klukkustundar gang. Þar í austur á að vera hægt að sjá Vörðufell og inn að Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Austan við Vörðufell er Eldborgin, röð fallegra hraungíga og mikilla hraunrása. Þar vestan við rann Hvammadalshraun niður í Hvammadal austan Kleifavatns. Í suðurjaðri þess er m.a. Gullbringuhellir.
Hraunkantinum var fylgt til suðurs. Austan við hraungíga Kálfadalshrauns var haldið til suðsuðausturs inn á mosahraunið og þar fylgt háum hraunkanti á hægri hönd. Þegar komið var út úr hrauninu var komið í gróið hraun úr eldborgunum austan Geitahlíðar. Þeim kanti var fylgt til suðausturs þangað til hann mætti eysti hluta Geitarhlíðar. Þar rann hluti gróna hraunsins niður svonefndan Sláttudal, á milli hlíða. Hallar þar undan til suðurs. Hlíðin er nokkuð brött efst, en jafnar sig fljótlega. Neðar er hraunið mjög gróið. Hamrar eru á vinstri hönd og mikil hraunrás á þá hægri.

Slóðaketill

Slóðaketill.

Þegar komið er niður á þjóðveginn er hlaðið hrossaskjól undir hraunkantinum handan hans. Þar var áð uns haldið var að bílunum. Eða eins og einn þátttakenda sagði þegar niður var komið:
“Flestum þykir eigi miður,
komin niður,
um gil,
sem reyndar virtist ekki til
og að hafa sloppið heil,
um geil,
í fjalli
úr margra alda gömlu gjalli.
Þokan reyndist óvenjuþétt,
en gangan létt,
enda vanir menn,
sem þekkja og rata þetta enn.
Förum síðar aftur sömu leið,
gatan er greið.”

Gangan var um 7.7 km og tók um 3 klst. Ætlunin er að fara aftur upp girðingaslóðann, yfir hraunið ofan melhólanna og fylgja síðan hraunkantinum til austurs, í stað vesturs eins og nú var gert, og koma niður við suðaustanvert Kleifarvatn, þar sem bílar munu bíða göngufólks. Sú ganga mun líklega taka um 4 klst, en á þessu svæði er hægt að líta eitt mikilfengslegasta eldgosasvæði landsins.
Frábært veður.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Sýslusteinn

Gengið var framhjá bæ Einars Benediktssonar, skálds, og Hlínar Johnson í Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Dyttað hafði verið að húsinu daginn áður og lítur það bara nokkuð vel út núna. Þegar farið var eftir heimtröðinni að gamla bænum mátti sjá gamla netasteina, steinum með mörkum í sem og gamla myllusteina. Framan við gamla bæinn er sjórinn að brjóta bakka og undan honum er smám saman að koma ýmislegt, sem einhvern tímann hefur tilheyrt smiðjunni við bæinn. Sjá má gólfborð undan bakkanum og einstaka málmhlut, s.s. fötuhald, nagla, stangir o.fl. Sjá má móta fyrir útlínum hússins á klöppunum framan við bakann.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Gengið var suður með Herdísarvíkurtjörninni. Sunnan hennar eru góðir beitihagar auk þess sem vatnsbollar eru þar á víð og dreif. Lítið sést þar af minjum.
Haldið var vestur með ströndinni, sem hækkaði smám saman. Gróið er ofan við bakkann, en þar fyrir ofan tekur við lyng og kjarrivaxið Herdísarvíkurhraunið. Gengið var framhjá sandlóuhreiðri með þremur eggjum í, skammt vestar var stelkshreiður auk hreiðra nokkurra annarra fugla. Tófuspor sáust í sandinum ofan við bergið. Á nokkurum stöðum mátti sjá greni og voru sumhver merkt með hefðbundnum hætti; tveir steinar, annar ofan á hinum. Kjói flaug lágt yfir mosahrauninu, greinilega í leit að eggjum eða öðru ætilegu. Kríur sáust svo að sjálfsögðu ýmsar mávategundir. Gata liggur ofan við bergið, en hún er ógreinileg á köflum. Sjá má einstaka heila vörðu á leiðinni ef vel er að gáð, en einnig má sjá vörðurnar á leiðinni að Herdísarvík austan við selið, þá er liggur upp á og sameinast gömlu þjóðleiðinni skammt austan við Sláttudal.

Herdísarvík

Herdísarvík- hnyðja.

Víða var mikill reki ofan rekamarka og mátti innan um sjá fallegar hnyðjur og hnoðja, kúlur og keilur.
Gullkollur hafði skotið upp kollinum á nokkrum stöðum, en hann er eitt af einkennisblómum Reykjanessins. Hrafnaklukka, brjóstagras og smjörgras sáust einnig á stangli. Hluti hrossaleggjar lá í götunni, hauskúpa af selskóp, sakka og sérkennilegir steinar, sem sjórinn hafði kastað hátt á land.

Sjórinn var tiltölulega ládauður og virtist ekki abbast mikið upp á bergið. Gott tóm gafst því til að skoða bergsylluraðirnar, en þær voru sumstaðar allt að sex talsins, hver ofan á annarri. Skiptist á grágrýti og gjall.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg – brotgangur.

Á einum stað hafði sjórinn í einhverju reiðiskastinu brotið gat upp í gegnum bergið, en nú mátti sjá hann leika ljúft við það undir niðri. Á öðrum stað mátti sjá bergþursa ræðast við fyrir opinni vík. Litadýrð bergsins á kafla var einstök. Sjá mátti rautt innan um svart og grátt sem og gula og bleika steina, sem sjórinn hafði brotið úr berginu fyrir neðan og kastað upp á bakkann.

Skammt austan Seljabótar eru leifar af hlöðnum refagildrum. Hafa þær mjög látið á sjá. Einungis ein er nú með einhverju lagi og má vel sjá hlaðinn ganginn og hleðsluna utan um hana.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Haldið var að Herdísarvíkurseli. Ró hvíldi yfir tóftunum undir hraunkantinum. Upp úr einni þeirra stakk sér svartur hyrndur haus. Reyndist það vera rolla með lamb. Hafði hún leitað næðis í stærstu tóftinni. Þegar komið var nær sást þar önnur ær, þríhyrnd, með golsótt lamb. Þriðja hornið stóð svo til beint upp úr höfði kindarinnar og var það kindarlegt á að líta, líkara einhyrningi. Greyin voru ekki það styggar að ekki væri hægt að virða þær fyrir sér nokkra stund. Þá gengu þær í hægðum sínum út með hraunkantinum og fylgdu lömbin á eftir. Ær og lömb í seli tilheyra víst liðinni tíð.

Herdísarvíkurvegir

Herdísarvegir – ÓSÁ.

 Vatnsstæði selsins reyndust tóm, enda varla komið dropi úr lofti í marga daga. Megintóftin er undir hraunbrúninni, einn skammt sunnar, önnur austar og tvær sunnan hennar. Gerði eða kví er í hraunkantinum vestan megintóftarinnar. Herdísarvíkursel hefur verið myndarlegt sel á meðan var.
Gengið var upp með Seljabótagirðingunni að Sýslusteini. Í bakaleiðinni bauð fótgangandi álftapar ferðalöngum að virða fyrir sér tvo unga þess. Mátti varla á milli sjá hvort faðirinn eða móðirin væru stoltara af afkvæmunum sínum.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn var óvenjugrænt og Krýsuvíkurhverirnir skörtuðu sérkennilegri skerpu undir sólstöfunum; rautt, blátt, grænt, grátt, hvítt og svart. Svæðið allt, sem reyndar allt tilheyrir Hafnarfirði nú af einhverjum óskiljanlegum nútímaástæðum (var reyndar ekki heldur skiljanlegar í þá daga er koma átti rauðum kúm þar til mjalta), en ætti með réttu að tilheyra Grindavík, enda í lögsagnarumdæmi þess, býður upp á mikla útivistarmöguleika, enda landslagið bæði fjölbreytt og fagurt. Hafnfirðingar hafa sýnt þessu sagnaríka og mikilfenglega svæði tilsýndaráhuga um nokkurt skeið. Á meðan hefur það slegið í eðlislægum takti við hjarta Grindvíkinga. Nafnið Krýsuvík (Deiluvík) er ekki komið af engu.
Veður var frábært – sólstafir og sætukoppar, en rigning í bænum.
Gangan tók 2 klst og 53 mín.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Sýslusteinn

Farið var að Sýslusteini á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu. Þaðan var haldið niður í Seljabót með viðkomu við brunn Herdísarvíkursels. Ætlunin var að leita að helli “framan í berginu”, sem getið er um í landamerkjalýsingu jarðanna Herdísarvíkur og Krýsuvíkur (eða sýslumarkanna). Mörk jarðanna eru/voru önnur en sýslumörkin eða u.þ.b. einum kílómetra vestar, sbr. dysjar Herdísar og Krýsu í neðst í Kerlingardal.

Herdísarvíkurvegir

Eftir að hafa skoðað selið og greni ofan við Seljabótina var gengið áleiðis niður með berginu. Mann gróinn hóll er þar á hraunhól. Austan undir henni er hellisop, en sjálfur hellirinn er nú nær fullur af sandi. Í gömlum sögnum er hans á einum stað getið sem „Krýsuvíkurshellis“, en á öðrum stað sem 

Seljabótahellis. Í hraunkrika þarna fyrir innan er hlaðin rétt eða gerði, sennilega frá Herdísarvíkurseli.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.

Gengið var að Torfu. Undir því er stór hellir í berginu og ofan og vestan við opið er “steinn í sjónhendingu við Sýslusteini“. Skammt vestar á berginu er gat líkt og Dyrhólaey og enn vestar er annað stórt gat inn í bergið. Innan þess er stór og djúpur ketill, sem sjórinn hefur sprengt upp. All þetta svæði er hið fallegasta, en jafnframt hið hrikalegasta, á að líta. Ofan ketilsins er Skyggnisþúfa og á henni Skilaboðavarða. Ofan og vestan þúfunnar er Fjárskjólshraunið, en ofarlega í því er m.a. Bálkahellir og Arngrímshellir (Gvendarhellir), sá sem segir frá í þjóðsögunni. Í bakaleiðinni var gengið skáhallt til norðausturs upp hraunið. Þar fannst m.a. greni , auk þess sem sást hvar gamall stígur liggur með hraunkanti upp á Seljaleiðina, skammt vestan við Gamla veg.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Sýslusteinn

Gengið var frá Sýslusteini í Seljabót, um 20 mínútna gang eftir greiðfærri götu í gegnum Herdísarvíkurhraun, niður með sýslugirðingunni. Hún er á mörkum Gullbringusýslu og Árnessýslu í línu úr Seljabót um Sýslustein og áfram upp að Kóngsfelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í Bótinni var gamla réttin skoðuð og síðan gengið upp í Herdísarvíkursel, sem liggur undir hraunkantinum u.þ.b. 5 mínútum ofan við ströndina í austnorðaustur. Selið er þrjú hús og lambastekkur framar. Hreyfing var á logninu, en þegar komið var undir hraunkantinn varð hreyfingin að engu.
Í örnefnalýsingunni segir að „Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.“ Gamlavegi var fylgt upp hraunið að upphafsstað.

Herdísarvík

Herdísarvíkurvegir – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið upp Selstíg ofan við Hlíðarvatn. Haldið var upp í Selbrekkur, en þar má enn sjá tóttir Stakkavíkurselsins.

Til að nota góða veðrið var ákveðið að halda áfram upp Stakkavíkurveginn, yfir Dýjabrekkur, að Vestur-Ásum og að Hvalskarði þar sem hann og Selvogsgatan koma saman. Þá var haldið niður Stakkavíkurveginn til baka og komið við í tóftum fjárhúss í Stakkavíkurhrauni skammt fyrir neðan þjóðveginn.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurhellir

Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.

Krýsuvíkurhellir

Krýsuvíkurhellir.

Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.

Keflavík

Keflavík.

Hellisheiðarvegur

Ætlunin var að rekja gamla Hellisheiðarveginn (elstu göngu- og reiðgötuna) frá Lyklafelli upp í Hellisskarð. Áður hafa tvær götur verið raktar frá Elliðakoti upp fyrir Lyklafell og auk þess Dyravegurinn frá Lyklafelli að Nesjavöllum.
HellisheiðarvegurGatnamót Hellisheiðarvegar og Dyravegar eru skammt ofan við Lyklafell. Þar er vegurinn greinilegur þar sem hann liggur upp brekku til austurs og síðan liðast hann austur Norðurvelli, upp að Bolavöllum og beygir til suðurs undir Húsmúla. Vörðuð leið er vestar. Þar mun hafa verið um vetrarveg að ræða, sem sennilega hefur verið varðaður 1878. Sú leið er styttri frá Draugatjörn að Lyklafelli, en torfarnari þegar jörð er auð.
Skammt sunnar á heiðinni er svonefndur Sýslusteinn. Kíkt var á hann í leiðinni.
Þegar skoðaðar eru fornleifaskráningar af svæðinu kemur glögglega í ljós að Hellisheiðarvegur hinn forni er ekki talinn til fornleifa því hans er ekki getið – þrátt fyrir að vera auðrakinn svo til alla leiðina.
KortSem fyrr sagði liggur
Hellisheiðarvegur upp á Norðurvelli og áfram um Bolavelli norðanverða. Við suðvestanverðan Húsmúla liðast gatan um grasgrónina og er víðast mjög greinileg. Þó hefur vatn grafið hana umtalsvert niður í seinni tíð. Afleggjari (sennilega svonefndur Nautastígur) liggur síðan svolítið upp í Múlann gegnt Draugatjörn og um Mógil. Austan þess beygir gatan áleiðis að Kolviðarhól sunnan Sleggjubeinsdals, áleiðis að Hellisskarði. Varða er efst í skarðinu.
Skv. lýsingu mun Hellisheiðarvegur hafa legið upp að sunnanverðri Draugatjörn og síðan áfram áleiðis að Kolviðarhóli og áfram upp Hellisskarð. Á þeim kafla hefur nánast alveg gróið yfir veginn.
Sýslusteinn„Hellisheiðarvegur hefur verið fjölfarinn fjallvegur um aldaraðir, í dag þegar við ferðumst um í heitum, öruggum bílum okkar er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar hafa þurft að leggja á sig til að komast á milli staða. Á þessum fjallvegum var oft háð barátta upp á líf og dauða, enda voru mannskaðar á Hellisheiði tíðir. Ekki er hægt að segja með vissu hversu margir hafa dáið á ferð sinni um Hellisheiði. Engar heimildir eru til um mannskaða fyrir lok 18. aldar. Ónákvæmar ritaðar heimildir og frásagnir af mannsköðum eru að finna í annálum. En oft var staðsetning þessara mannskaða ekki nákvæmari en svo að í heimildum var skráð, að þetta margir menn hefðu orðið úti á Suðurlandsfjórðungi, svo dæmi séu tekin. Hér er ein stutt dæmisaga um ferðalög um Hellisheiði.

Hellisheiðarvegur

Um miðja 19. öld fóru þrjár manneskjur úr Ölvesi á grasafjall vestur á Hellisheiði og í Hengladali. Fólk þetta var bóndinn á Hvoli, unglingspiltur og kerling ein við aldur, er um fjölda ára hafði farið til grasa á þessar stöðvar. Þau voru þrjá sólarhringa í ferðinni og lágu við tjald. Kvöld eitt, er þau komu í tjaldstað, hafði bóndinn með sér gamlan göngustaf um tveggja álna langan, snjáðan mjög og feyskinn. Kvaðst hann hafa fundið stafinn, reistan upp við hraunskúta þar allfjarri. Kerling spurði bónda, hvort hann treysti sér að finna staðinn, þar sem stafurinn hefði verið. Hann kvaðst mundu geta það. Fýsti kerlingu mjög að fara þangað, og varð það úr, að þau fóru öll og fundu staðinn. Er þau litu inn í hraunskútann, sáu þau aflanga mosahrúgu. Þau hrófluðu við henni; kom þá í ljós, að undir henni var mannsbeinagrind, en mosahrúgan hafði með tíma og árum myndast ofan á þeim. Voru nú beinin tínd upp í poka og flutt fram í Ölves og nokkru síðar grafin í Arnarbæliskirkjugarði á messudegi.

Hellisheiðarvegur

Nóttina eftir að beinin voru grafin, dreymdi bóndann á Hvoli, sem fann þau, að maður kæmi til hans. Kvaðst hann vera sá, er beinin átti, þakkaði bónda fyrir að hafa flutt þau í vígða mold. En um leið otaði hann fram öðrum fætinum og kvartaði um, að þar vantaði fremsta köggulinn á stóru tána. Í þrjár nætur dreymdi bóndann sama drauminn, og bar draumamaður sig mjög illa. Sagði þá bóndi drauminn kerlingunni, er með honum var, þegar beinin fundust. Kerling ráðlagði honum að fara vestur á heiðina, þar sem beinagrindin hafði legið, og leita köggulsins, og það gerði bóndi. Eftir nokkra leit fann hann beinið og hafði heim með sér. Þegar næst var messað í Arnarbæli, hafði bóndinn köggulinn með sér í vestisvasa sínum. 

Varða

Þegar messan var úti, laumaði hann köggulinum svo lítið bar á ofan í nýorpið leiði. Eftir það gerði sá dauði ekki vart við sig.
Var nú spurn haldið fyrir um, hver sá hefði verið, er þarna hafði beinin borið. Var það hald flestra, að þau væru af manni, er úti varð á heiðinni fyrir 36 árum og var úr Biskupstungunum. Samkvæmt því hefur það gerst á áratugunum 1820 til 1830.“

Elsti akvegur Hellisheiðarvegar er skammt suður af gömlu götunni gegnt Húsmúla. Hann er að stofni til frá 1894-57 og upphlaðinn á köflum. 

„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar
á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“ segir í örnefnaskrá.
„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður (061), og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum.“ segir í Austantórum.

Varða

„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. . Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksvegur

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í
Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ segir í Landnámi Ingólfs 2.
HellisheiðarvegurSamkvæmt Birni Pálssyni var aðhald fyrir hesta sérstaklega hlaðið upp við Eiríksveg fyrir þá sem hlóðu veginn.
Eiríksvegur sést greinilega víða, t.d. í Hrauntungu þar sem ný íbúðabyggð á að rísa. Vegurinn sést koma undan núverandi þjóðvegi og liggur, þráðbeinn til ASA yfir allt hið væntanlega íbúðahverfi. Girðing afmarkar nú svæðið í Hrauntungu en Eiríksvegur liggur áfram ASA við suðurhlið hennar í um 200 m áður en hann fjarar út skammt norðan við. Vegurinn liggur um mosavaxið hraunlendi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og Hellisheiðarveguróvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“ segir í Landnámi Ingólfs.
Í Lýsingu Ölvershrepps frá 1703 [í Sýslu- og sóknarlýsingum] segir m.a.: „Fyrir austan … SæluhúsiðBæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellisheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis.“  Þar segir ennfremur í lýsingu frá 1840: „Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“ „Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, Hveragerði og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Húsmúlarétt

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“ segir í Sögu Kolviðarhóls.

Á skilti við Húsmúlarétt stendur eftirfarandi:
„Rétt þessi var notuð langt fram á 20. öld en ekki er vitað hvað hún er gömul. Réttin var notuð til rúnings á vorin og sem aðhald í haustleitum en ekki hefur hún rúmað stórt fjársafn. Af afrétti Ölfushrepps, sem þetta svæði tilheyrir, gekk fé úr fleiri hreppum.
Í gömlum Hellisskarðmunnmælum segir að Mosfellingar og Ölfusingar hafi haft sameiginlegan afrétt en þeirri samvinnu lokið er deilur komu upp og lauk með orrustu sem Orrustuhóll uppi á Hellisheiði dregur nafn sitt af. Ekki er þó víst hvort atburðurinn átti sér stað í raun og veru.“

Á skilti við sæluhúsið við Draugatjörn stendur eftirfarandi m.a.:
„Við Draugatjörn hefur staðið sæluhús frá fornu fari. Það er frægt, bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um hér á landi, en ekki síður fyrir magnaða reimleika sem að lokum urðu til þess að húsið var fært upp á Kolviðarhól 1844.
Sveinn Pálsson lýsir húsinu í ferðabók sinni 1793 og Laskaður garðursegir m.a.: „Margir hafa dáið í þessum kofa því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. „Gamla þjóðleiðin lá hér um og var fjölfarin en nýr vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878. Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður í hrauninu vestan Draugatjarnar. Enn fremur sjást greinilegir götuslóðar á Hvannavöllum um miðja vegu milli tjarnarinnar og Kolviðarhóls.“

Þegar FERLIR var á ferð við Húsmúlaréttina mátti sjá hvar hlöðnum garði, almenningi, vestan við hana hafði verið raskað – og það verulega, sennilega með vélskóflu.

Norðurvellir heita grasvellirnir nyrst og næst Lyklafelli og Bolavelli austast norðvestan Húsmúla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Kolviðarhóls eftir Skúla Helgason, Myndir AÞE; Júlí 2006.
-centrum.is
-Fornleifaskráning v/Hellisheiðarvirkjunnar, Fornleifastofnun Íslands.
-Fornleifaskráning í Hveragerði – Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands 2002.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.