Tag Archive for: Þinhvellir

Örn

Arnarörnefnin hér á landi eru fjölmörg. Þótt fuglinn hafi hörfað frá flestum fyrrum óðulum sínum á suður- og suðvesturlandi standa örnefnin eftir. Þá eru arnarörnefndin oft tengd landa- og hornmerkjum.
Svavar Sigmundsson, fyrrum forstöðumaður Örnefnastofnunar, fjallar m.a. um örninn á Vísindavef HÍ þar sem hann fjallar um framangrein auk örnefnisins Arnarhóls (Arnarhváls):

Svavar Sigmundsson

Svavar Sigmundsson.

„Í Landnámabók segir að öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar hafi fundist „… við Arnarhvál fyrir neðan heiði“ (Landnámabók, Íslensk fornrit I, 45) og er þá átt við Mosfellsheiði að talið er. Spurningin er hvort Arnarhváll er núverandi Arnarhóll eða hvort hann hefur verið nær sjónum, þar sem nú er Arnarhólsklettur sem svo er nefndur. Líklegt er að Arnarhóll sé kenndur við fuglinn þó að mannsnafnið hafi vissulega verið þekkt á landnámstíma, og faðir Ingólfs heitið Örn. Engar heimildir er að finna um að mannsnafnið hafi haft áhrif á staðarnafnið. [Engar heimildir eru heldur til um að svo hafi ekki verið (Ó.)] Þórhallur Vilmundarson segir í grein sinni, „Örnefni landsins, sem fór undir vatn í Stíflu“, í Grímni 2 (44):
Arnarhóll við Stífluá í landi Hvamms er trúlega eitt hinna fjölmörgu örnefna, sem geyma minningu um, að ernir hafa vakað yfir veiði í vatnsföllum og stöðuvötnum víðs vegar um land, áður en þeim fækkaði svo mjög, að við liggur, að þeim hafi verið gereytt.

Arnarhóll

Arnarhóll – kort.

Nafnið Arnarhóll er til á nokkrum stöðum annars staðar á landinu. Bær í Neshreppi innan Ennis á Snæfellsnesi er nefndur Arnarhváll í Eyrbyggja sögu, nú Arnarhóll í Snæfellsbæ (Íslensk fornrit IV). Skammt frá Öxnafelli í Eyjafirði var Arnarhváll (Landnámabók, 253, 268), nú Arnarhóll, sem var á landamerkjum í landnámi Helga magra. Auk þess eru sex bæir að minnsta kosti nefndir Arnarhóll: 1) í Gaulverjabæjarhreppi í Árnessýslu, 2) í Sandgerði, 3) í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, 4) í Presthólahreppi í Norður-Þingeyjarsýslu, 5) á Jökuldal á Norður-Héraði og 6) í Vestur-Landeyjum í Rangárvallasýslu.

Arnarhóll

Arnarhóll, handan Stjórnaráðshússins, 1874.

Örnefnið Arnarhóll kemur víða fyrir, til dæmis eru Arnarhólar nærri 20 talsins á Suðurlandi eingöngu. Sums staðar má finna Arnarhól nærri landamerkjum, stundum sem klappar- eða klettahól. Það leiðir hugann að því hlutverki sem tákn arnarins hafði ef til vill við setningu landamerkja, eins og þekkt er með öxina. Í Árnessýslu eru átta Arnar-örnefni á landamerkjum, þar af tvö hornmörk, Arnarhreysi og Arnardys. Á Þingvöllum er Arnarklettur á barmi Almannagjár og kann að hafa gegnt hlutverki sem landamerki. (Um þetta má lesa nánar í grein Helga Þorlákssonar, „Örn og öxi“, í tímaritinu Níu nóttum frá árinu 1993.)

Arnarhóll

Arnarhóll og tukthúsið (Stjórnarráðshúsið) um 1820.

Ekki er vitað hvenær Arnarhváll í Reykjavík varð sérstök jörð, en hún er nefnd Arnarhóll (einnig skrifað Annarhóll) 1534 (skráð um 1570, Íslenskt fornbréfasafn IX, 693-694). Bærinn Arnarhóll stóð nokkurn veginn þar sem nú er stytta Ingólfs. Land hans náði frá ósi Arnarhólslækjarins að Bankastræti á þá hlið og hefur Arnarhóll þá verið nærri mörkum móti Vík. Núverandi Skólavörðuholt var áður kennt við Arnarhól, nefnt Arnarhólsholt (Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaður við Sund, 1. bindi. Sjá Kort 5 í 5. bindi sem Einar S. Arnalds og Guðlaugur R. Guðmundsson sáu um).
Upphaflega nafnmyndin Arnarhváll hefur breyst í Arnarhvoll, samanber hljóðbreytinguna svá > svo, en víxlmyndin Arnarhóll er að minnsta kosti komin til sögu um 1570.“

Á vefsíðu Náttúruminjasafns Íslands er fjallað um örninn og m.a. getið um Arnarklett á Þingvöllum, sem fáir þekkja, en er þó áberandi kennileiti ofan Lögbergs.

Örn við Öxará

Þingvellir

Örn yfir Þingvöllum. Arnarklettur v.m. við flaggstöngina á Lögbergi.

Örn á öðru ári gerði sig heimakominn við Öxará 30. október s.l. en ernir (1 til 4 ára) sjást reglulega við Sog, Þingvallavatn og í Ölfusi. Á þessu svæði eru þekkt 5 gömul arnarsetur sem fóru öll í eyði á fyrri hluta 20. aldar. Fullorðnir ernir hafa heimsótt þau reglulega á síðustu árum og orpið einu sinni, en varpið misfórst. Í ljósi útbreiðsluaukningar á Vestur- og Norðurlandi á síðustu árum og áratugum, má gera ráð fyrir ernir hefji varp að á þessu slóðum innan skamms.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Örninn sveimaði yfir og reyndi fyrir sér á grynningunum þangað sem urriðinn leitar til hrygningar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Örninn sást ekki taka fisk en skorti þó ekki áhugann eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Torfi Stefán Jónsson og Snorri Þór Tryggvason tóku. Haförn getur náð allt að 5 kg þyngd og vænghafið verið 2–2,4 metrar. Þrátt fyrir það gætu stórvaxnir þingvallaurriðarnir reynst honum erfiðir viðfangs en þeir stærstu verða jafnvel yfir einn metri á lengd og 10–13 kg á þyngd. Meira um haförn hér.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg (sjá má Arnarklett á brún Almanngjár v.m. við miðju.

Í Almannagjá eru a.m.k. tveir hrafnslaupar og lét krummi sig ekki muna um að hjóla í þennan óvelkomna og óvænta gest sem er miklu öflugri en krummi verður þyngstur rúmt kíló og vænghafið mest 1,5 m.

Haförn (Haliaeetus albicilla)
Haförninn er af ættbálki haukfugla (Accipitriformes) og af haukaætt (Accipitridae). Hann er eini fulltrúi ættbálksins hér á landi.

Útlit og atferli
Haförn er stærsti og

Örn

Arnarpar.

sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. Aðallitur er brúnn. Fullorðinn örn er gulur eða ljósbrúnn á höfði, aftur á bak og niður á bringu en fjaðrajaðrar ljósir á baki og yfirvæng (hann er „hreistraður“). Fleyglaga stélið er hvítt. Ungfugl er allur dekkri, mógul- og rauðbrúnflikróttur að ofan, ljósari að neðan, sérstaklega á bringu. Hann lýsist smám saman með aldrinum, stél á undan höfði, og verður fulltíða sex ára. Kvenfuglinn, assan, er töluvert stærri en karlfuglinn, arinn. Goggurinn er stór, krókboginn og gulur en dökkur á ungfugli. Fætur eru gulir og klærnar dökkar. Augu eru rauðgul á fullorðnum erni, dökkgrá á ungfugli.

Örn

Örn.

Örninn er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjunum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar (fingraðar). Svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki. Oft má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar að bráð, eða hvar hann situr langtímum saman kyrr á sama útsýnisstaðnum. Venjulega er hann styggur og friðsamur en getur verið ágengur við hreiður. Ernir eru oftast stakir, í pörum eða smáhópum (ungfuglar).

Hljóð arnarins eru hrjúft gelt eða hlakk, assan er dimmraddaðri.

Lífshættir

Örn

Örn.

Örninn veiðir sér til matar og er aðalbráðin fýll sem hann tekur á flugi, en æðarfugl tekur hann á sjó og fisk (hrognkelsi, laxfiskar) grípur hann við yfirborð. Lundi og máfar eru einnig teknir. Hann etur gjarnan hræ og rænir stundum æti frá öðrum fuglum.

Kjörlendi hafarnar er strendur með miklu útfiri, einnig fiskauðugar ár og vötn. Hann verpur í hólmum, á klettasyllum, stöpum í bröttum hlíðum eða hraunum. Hreiðrið er stundum allmikill birkilaupur en oftast lauslega samsett dyngja úr þangi, hvannnjólum og grasi. Eggin eru 1-3, en þrír ungar komast sjaldan á legg. Útungunartíminn er 5-6 vikur og ungarnir verða fleygir á 10-11 vikum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Örn

Örn við Faxaflóa.

Haförninn er staðfugl. Hann var áður dreifður um land allt en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum. Árið 1963 var Fuglaverndarfélag Íslands stofnað til verndar erninum. Síðan þá hefur stofninn er rækilega vaktaður í samstarfi Fuglaverndar og Náttúrufræðistofnunnar.

Á síðustu áratugum hefur erninum fjölgað hægt en örugglega og var stofninn 75 pör, 200-250 fuglar, árið 2016. Þar af verpa 63% við Breiðafjörð, en afgangurinn við Faxaflóa, á Vestfjörðum og við Húnaflóa. Sennilega á örninn eftir að nema land í öðrum landshlutum að nýju. Hann hefur reynt varp á Suðurlandi á síðustu árum, en ekki komið upp ungum. Þeir leita aftur á gamla varpstaði, sem hafa ekki verið notaðir í áratugi. Á veturna má búast við þeim hvar sem er. Annars staðar verpa hafernir frá Vestur-Grænlandi austur um Evrópu og Asíu að Kyrrahafi.
Ekki má nálgast hreiður arna á varptíma, nema með sérstöku leyfi frá Umhverfisstofnun. Allar hreiðurmyndir sem fylgja pistlinum eru teknar með leyfi stofnunarinnar.

Þjóðtrú og sagnir

Örn

Örn í Ölfusi.

Eins og eðlilegt má teljast, fylgja ófár sagnir og mikil þjóðtrú erninum. Það er alþekkt þjóðtrú, að ernir taki börn. En börn urðu minnug af að drekka mjólk gegnum arnarfjöðurstaf. Til að sjá hulda hluti skal maður bera á sér arnarauga eða maka því í kringum augu sér. Ef gull er látið í arnarhreiður, skapast óskasteinn og úr ófrjóu eggi brýst sá mikli ránfugl, sem flugdreki nefnist.

Kveðskapur
Örninn flýgur fugla hæst um forsal vinda.
Hinir það sér láta lynda,
leika, kvaka, fljúga og synda. – Þjóðvísa.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3209
-https://nmsi.is/frettir/orn-vid-oxara/

Örn

Örn.