Tag Archive for: þjóðleið

Gerði

„Skammt sunnan við álverið í Straumsvík stendur lítið bárujárnshús sem nefnist Gerði, fyrrum hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Húsið er nú í eigu starfsmannafélags álversins í Straumsvík en var áður sumarhús Ragnars Péturssonar kaupfélagsstjóra í Hafnarfirði og fjölskyldu hans.

Gerði

Gerði var í byggð frá 1900-1930.

Meðan Gerði var enn bújörð bjuggu þar m.a. Guðjón Jónsson frá Setbergi og Stefanía kona hans, ásamt tveimur sonum sínum og fóstursyni. Gerði fór í eyði líkt og fleiri jarðir í Hraunum um 1930. Milli Gerðis og Þorbjarnarstaða eru merkar ferskvatnstjarnir sem bera nöfn eins Þorbjarnarstaðavatnagarðar, Gerðistjörn, Brunntjörn og Stakatjörn.

Gerði

Gerði – túnakort 1919.

Árið 1901 bjuggu 7 manns í (Hraun) Gerði. „Gerði og Péturskot voru hjáleigur frá Þorbjarnastöðum. Guðjón Jónsson frá Setbergi reisti Gerði skömmu fyrir aldarmótin 1900.
Bárujárnshúsið í Gerði (starfsmannafélagshúsið) stendur nú þar sem bærinn var. Um var að ræða þrætu[sumar]bústað. Eigandinn lenti í þeirri aðstöðu að fá, án þess að fá nokkru um það ráðið,
heilt álver ofan í náttúrudýrðina. Álfélagið gerði samkomulag við eigandann og fékk bústaðinn í því ástandi sem hann var og færði starfsmannafélaginu til endurbóta. Þá var þar einungis
norðvesturhorn núverandi húss, en síðar var bætt við það litlu húsi við suðausturhlutann. Starfsmannafélag Álfélagsins endurgerði húsið af fórnfýsi um 1990 og bætti þá við forstofu og salerni að austanverðu.

GerðiGamlar þjóðleiðir liggja suður í Almenning frá Hraunabæjunum og hér verður greint frá einni þeirra sem nefnist Gerðisstígur. Upptök hans eru í heimatúni Gerðis. Leiðin liggur upp með Brunanum, sem margir kalla Kapelluhraun. Hann fer í suðaustur í áttina að Efri hellum og seljunum Gjáseli og Fornaseli. Þegar þangað er komið ar er hægt að halda áfram og fylgja Hrauntungustíg og Ketilstíg alla leið til Krýsuvíkur. Þar er líka hægt að taka stefnuna í vestur að Straumsseli, upp og suður í hæðina fyrir ofan sem nefnist Hafurbjarnarholt eða í hina, norður að Ásfjalli og Hafnarfirði.

Upphaf Gerðisstígs er á Litla-bala neðan bæjarhólsins, við tóft gömlu gripahúsanna. Leiðin liggur í gegnum hlaðið gerði, sem var varnargarður heimatúnsins.

Gerðisstígur

Gerðisstígur – varða við Hólaskarð.

Einnig er hægt að nálgast stíginn frá Þorbjarnarstöðum, sem er vestan við tjarnirnar. Þá er gengið suðaustur fyrir tjarnirnar og inn á stíginn við Hólana. Þar sem stígurinn liggur utan heimatúnsins á móts við Alfarleiðina gekk hann undir heitinu Kirkjustígur. Þegar Hraunafólk sótti messur í sóknarkirkju sinni að Görðum á Álftanesi var sveigt til norðurs inn á Alfaraleiðina á þessum stað og henni fylgt yfir Brunann framhjá Kapellunni sem Kappelluhraun er nefnt eftir. Þaðan lá leiðin að Hvaleyri, um Hafnarfjörð og út í Garðahverfi.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Það er ekki ætlunin að halda til kirkju í þetta sinn. Stígnum er fylgt þvert yfir Alfaraleiðina þar sem hún liggur frá Kapelluhrauni um Brunaskarð vestra. Þegar komið er framhjá Alfaraleiðinni liggur Gerðisstígur á hraunhrygg austanvert við Hólana, sem eru áberandi hraunhæðir á hægri hönd. Stígurinn var auðkenndur að mestu fyrir nokkrum árum með stikum sem merktar eru Byggðasafni Hafnarfjarðar. Þær hafa eitthvað týnt tölunni en þar sem þær eru ennþá vísa þær veginn. Austan Gerðisstígs stendur myndarleg varða sem vísar á slóðann þar sem hann liggur um Hólaskarð milli vesturbrúnar Brunans og Hólanna. Hér var stígurinn jafnan nefndur Hólaskarðsstígur.

Gerðisstígur

Gerðisstígur um Selhraun.

Framundan er Seljahraun, þunn hraunþekja sem var farartálmi áður en Seljahraunsstígur var ruddur í gegnum apalhraunið í firndinni.

Seljatún nefndist lítil gróin flöt norðan Seljahrauns og sunnan Brunans. Þetta tún er að hluta til að hverfa en þó má sjá hvar hlaðið gerði er enn til staðar þó það sé fallið að mestu. Þetta gerði nefnist Stekkatún. Þegar komið er yfir Seljahraun blasti áður fyrr við augum áberandi kennileiti, Þorbjarnarstaðarauðimelur. Hann er horfinn með öllu en þar sem hann var áður er ófrágengin rauðamelsnáma. Rauðamel var mokað upp á vörubílspalla á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar og efnið notað í gatnagerð og til að fylla í húsgrunna víðsvegar í Hafnarfirði. Rauðimelur gekk stundum undir heitinu Rauðhólar á sínum tíma, eða jafnvel Þorbjarnarstaða-Rauðhólar til aðgreiningar frá öðrum slíkum í nágrenninu.

Gerðisstígur

Neðri-Hellar.

Rétt norðan Rauðamels eru Neðri-Hellar, einnig nefndir Litlu-Hellar. Skammt norðan melsins er lág klettaþyrping þar sem nefnast Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri, oftast nefndir einu nafni Rauðamelsklettar. Vestur frá Rauðamelsklettum taka við lágar brekkur, Ennin. Stígur liggur til suðurs frá námunni eða melnum um Gráhelluhraun eftir gamalli ruddri slóð að Efri-Hellum. Norðaustan melsins er Réttargjá, sprunga sem snýr nánast suður og norður. Þar var hlaðið fyrir svo að sauðfé héldist þar þegar vetrarbeit var enn stunduð á þessum slóðum um miðja 19. öldina. Botninn í gjánni er mjög gróinn.

Gerðisstígur

Réttargjá.

Skammt austan við Réttargjá, alveg í Brunabrúninni þar sem æfingasvæði Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar er núna, er Þorbjarnarstaðarétt. Þessi rétt var líka nefnd Vorréttin þar sem hún var einkum notuð á vorin. Enn eitt nafnið á réttinni er Rauðamelsrétt, þó hún sé spottakorn frá melnum. Þetta er fallega hlaðin hraunrétt í skjólgóðum krika sem myndast hefur við Brunabrúnina.

Ógreinilegur stígur sem er að gróa upp og hverfa liggur frá Vorréttinni að Efri-Hellum. Þar er áberandi hraunklettur í Brunabrúninni sem vísar á hellana.

Vorréttin

Vorréttin/Rauðamelsrétt.

Stígurinn er nú nefndur Efrihellnastígur en hann tekur enda við fjárhellana sem eru vestan við áðurnefndan hraunklett, sem minnir á stórar hellur úr fjarska. Féð hefur gegnið inn í annan hellinn frá suðri, en hinn úr norðurátt. Hellarnir eru ekki manngengir en smalinn hefur getað skriðið inn í þá og farið í gegn ef því var að skipta. Hellarnir eru á svæði sem gæti verið hluti af Búrfellshrauni.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Nokkrir einkennandi og áberandi stapar standa upp úr Brunanum á þessum slóðum. Haunið skiptir um nafn við þessa stapa og nefnist Brenna, þar sem brunatungan sunnan Efri-Hella gegnur til vesturs. Neðst í Brennunni er Brennuhóll, hraunstapi sem mikið ber á. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti, hjáleigu frá Óttarsstöðum, sótti sér kvarnarsteina í Brennuna og bar þá heim á bakinu. Setti hann mosa á bakið til að hlífa því, er hann bar hellugrjótið heim í Eyðikot.

Efri-Hellar

Efri-Hellar; hraunkarl.

Leiðin liggur áfram til suðvesturs í áttina að vörðu sem vísar á gott haglendi. Þessari slóð er fylgt þar til komið er að lágum hraunhrygg sem nefnist Kolbeinshæð með Kolbeinshæðarvörðu. Hraunið á milli Rauðamels og Kolbeinshæðar nefnist Gráhelluhraun. Það er vel gróið umhverfis Kolbeinshæð og sunnan í henni vestanverðri er Kolbeinshæðarskjól, forn smalaskúti. Það mótar enn fyrir hleðslum framan við skútann og áður mun hafa verið reft yfir hann en nú er þekjan fallin. Það er eingöngu einn fúinn trjádrumbur sem minnir á þá tíð er setið var yfir sauðum við Kolbeinshæð.

Austanvert í hæðinni er Kolbeinshæðarhellir, en Kolbeinshæðarstígur er óglöggur þar sem hann liggur til suðurs um skarð í áttina að Laufhöfðahrauni. Kjarrið er þéttara umhverfis Laufhöfðann og í vesturbrún hraunsins er Kápuhellir ofan við Katlanna. Þar norðan og neðan við er Jónshöfði og frá honum liggur Fornaselsstígur útfrá Straumsselsstíg um Laufhöfðahraun að Gjáseli og Fornaseli.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Þessi sel tilheyrðu Þorbjarnarstöðum og trúlega einnig Lambhaga. Nyrðra selið, Gjásel er utan skógræktargirðingar en Fornasel innan girðingar. Í hvoru seli fyrir sig hafa verið þrjár vistarverur og nærri þeim eru niðurgrafin vatnsból í selhæðunum. Vatnsbólið í Gjáseli er lítið og slæmt enda þornar það upp bæði að vetri og sumri, Fornaselsbrunnurinn er stærri og betri. Í slakka eða jarðfalli norðan Gjásels er forn kví og upp frá selinu er Gránuskúti, eða Gránuhellir. Þegar horft er í suðvestur blasir við Litlaholt, sem liggur á milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en svo nefnist hæðin sem hæst rís og þekkist á því að þar er steyptur landmælingastólpi, en áður var þar landamerkjavarða, Hafurbjarnarholtsvarða.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Þegar horft er í vesturátt frá Gjáseli blasir Straumsselsvarða við efst í Straumselshöfðum. Það er ágæt ganga vestur í Straumssel og þaðan áfram í Óttarsstaðasel og best að taka stefnuna á selvörðurnar sem sjást víða að. Einnig er hægt að halda til baka og fylgja t.d. Straumsselsstíg til norðurs að Tobbuklettum og áfram að Þorbjarnarstöðum og Gerðinu.

Þriðji kosturinn er að halda áleiðis að Hrauntungukjafti og freista þess að rekast á Hrauntungustíg, eða það litla sem eftir er af honum, því hann hefur að mestu verið eyðilagður eftir að Skógrækt Ríkisins leyfði efnistöku á þessum slóðum.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Efsta lag Brunans hefur verið skafið ofan af og eftir stendur víðáttumikið námasvæði sem er eins og svöðusár í Brunanum. Þeir sem kjósa að ganga Hrauntungustíg í áttina að Krýsuvíkurvegi ættu fyrst að skoða Fjárborgina sem er fallega hlaðin tvískipt borg úr hraunhellum. Það voru börn bóndans á Þorbjarnarstöðum sem hlóðu fjárborgina á seinni hluta 19. aldar. Hún hefur sennilega ekki verið notuð nema í stuttan tíma, allavega er ekki jafn gróið umhverfis hana og aðrar sambærilegar fjárborgir. Þegar búið er að grandskoða fjárborgina er stefnan tekin eftir vegslóða í áttina að Krýsuvíkurvegi. Það er líka hægt að halda til baka og fylgja slóðinni í gegnum Hrauntunguna norðan skógræktargirðingarinnar og athafnasvæðis rallýkrossmanna. Hrauntungan er vel gróin myndarlegum birkitrjám, víðikjarri og einnig þar sem hún liggur á milli Efri og Neðri skolta hrauntungukjafts. Hrauntungustígur liggur annarsvegar í áttina að Hamranesi, um Helludal og Ásflatir að bænum Ási sem stóð undir Ásfjalli, og hinsvegar framhjá Fornaseli til Krýsuvíkur og Grindavíkur.“

Heimild:https://www.hraunavinir.net © Jónatan Garðarsson 2009

Straumssel

Straumssel – tilgáta.