Færslur

Þorbjarnastaðir

Tóftir Þorbjarnastaða eru síðustu heillegu minjar af íslenska torfbænum í umdæmi Hafnarfjarðar (áður Garðahrepps). Bærinn eru hluti af heilstæðu búsetulandslagi Hraunajarðanna ofan og utan Straumsvíkur og í þeim felast því mikil vanmetin menningarverðmæti.

Tóftir Þorbjarnastaða

Túngarðurinn við Þorbjarnarstaði er hlaðinn tvöfaldur. Ástæðan er tvíþætt; annars vegar er um útfærslu að ræða og hins vegar endurgerð. Bæjartóftirnar eru dæmigerðar fyrir bæjarstæði. Bærinn var úr torfi og grjóti, en nýjustu viðbyggingar og útihús voru með bárujárnsþaki. Tréþil stóðu mót suðri. Heimtröðin er milli gaflana og dæmigerðs matjurtargarðs í umgirtum hallanda. Brunngatan er til norðausturs að Tjörnunum. Þar, sem ferskt vatn kemur undan hrauninu, er hlaðinn brunnur svo og steinbrú. Á hana var ull og þvottur lagður eftir atvikum í þerrum.
Í landi Þorbjarnarstaða má finna allt það er tilheyrði gömlu bæjararfleifðinni; auk íbúðar- og útihúsa, hlaðinn túngarð, réttir, stekki, fjárskjól, götur og stíga, eyktarmörk, brunna, vatnsból, byrgi, selstöður, vörður og álagabletti.
Hafnarfjarðarbær á heimajörðina, en hefur langt í frá sýnt henni tilhlýðilega virðingu. Íslenska álfélagið keypti útjörðina af bænum fyrir nokkrum árum. Til stóð að selja hana alla, en nokkrir bæjarfulltrúar með skilningshjarta komu í veg fyrir það.
Stekkur við ÞorbjarnarstaðiÍ örnefnaskrá fyrir Þorbjarnarstaði má sem svolítið áþreifanlegt sýnishorn nefna Þorbjarnarstaðakerið. Það virðist hvorki merkilegt né áhugavert, er jafnvel ósýnilegt þeim sem ekki kunna að lesa landið, en er samt sem áður ágætt dæmi um hlutdeildina í hinu áðurnefnda ómetanlega búsetulandslagi.
“Úr skarðinu [á Kapelluhraunsbrúninni/Brunabrúninni] liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur. 

Þorbjarnarstaðakerið

Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins.”
Þorbjarnarstaðakerið er vandfundið, líkt og önnur mannvirki í Hraununum. Það er þó þarna. Hleðslan er áþreifanlegur minnisvarði um Þorkel bónda – og burkninn, sem þar vex nú, er hinn ágætasti minnisvarði um þann ágæta mann. Þorkell, sem var frá Guðnabæ í Selvogi, og Ingveldur, dóttir Jóns Guðmundssonar hreppsstjóra á Setbergi (Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga úr Tungunum), einnig þá í Garðahreppi, áttu 11 börn. Þorkell var löngum við róðra eða vinnumensku annars staðar, en Ingveldur annaðist bæði uppeldi barnanna og búreksturinn. Segja má því með sönnu að Ingveldur Jónsdóttir hafi verið dæmigerð móðir, dugnaðarkona og því verðug að minnast – ekki síst í ljósi síðari tíma krafna um jafnrétti versus ábyrgð og skyldur.

Thorbjarnarstadir

Áætlanir eru uppi um að “valta yfir” menningarminjar í Selhrauni (Selhraunum) og nágrenni og gera þar akstursæfingasvæði. Slík framkvæmd, ef af yrði, væri hin mesta sóun menningarverðmæta í umdæmi Hafnarfjarðar á síðari árum – og er þó nóg komið af slíku síðustu ár og áratugi.
Hvorki Byggðasafn Hafnarfjarðar né menningarfulltrúi Hafnarfjarðar, hvað þá kjörnir bæjarfulltrúar, hafa svo sem lyft litlafingri til mótvægis við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. Nýleg fornleifaskráning á svæðinu er í einu orði sagt háðung. Og íbúarnir virðast algerlega ómeðvitaðir, og jafnvel áhugalausir, um verðmæti svæðisins til lengri framtíðar litið. Þarna er jú um að ræða eina vitnisburð og einu tengsl íbúanna við fortíðina, þá arfleifð er skilaði þeim til þessa dags – nútímans. Hana ber bæði að virða og heiðra – markvisst.
Sá einn sem fær tækifæri til að standa á barmi Þorbjarnarstaðakersins, staldra við og horfa niður á hleðslurnar og gróðurinn, veit hvaða mikilvægi fortíðin hafði fyrir nútíðina. Hleðsla Þorkels sést enn og er táknræn – henni var ætlað fyrir fé er rataði óvart niður í kerið í snjóum, en hefði ella orðið þar til. Fyrir tilstuðlan hleðslunnar komst það upp úr jarðfallinu – og lifði.

Thorbjarnarstadir

Þorbjarnastaðaborg.