Tag Archive for: Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Þorbjarnarstaði í Hraunum. Veður var frábært – sól og logn. Tjörnin milli Þorbjarnarstaða og Gerðis, Brunntjörn, var spegilslétt. Norðvestar er Fagurgerði umgirt.

Þegar komið er að Þorbjarnarstöðum frá gamla Keflavíkurveginum er fyrst komið að Þorbjarnarstaðaréttinni (Hraunaréttinni), sem mun hafa verið allfjörug á meðan var. Réttin stendur vel heilleg austan undan Sölvhól.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Þorbjarnarstaðastekkur/Himnaríki.

Byrjað var á því að ganga austan með hleðslugarði bæjarins, en heimatúnið er girt hringinn með slíkum garði – reyndar tvöföldum. Sunnan undir hraunhól skammt sunnar er tótt og gerði framan og til hliðar við hana. Skammt sunnan þess er önnur heilleg tótt og hlaðinn garður sunnan hennar. Þar virðist hafa veriðum matjurtargarð að ræða. Vestan garðsins er gamalt gerði og tótt sunnan í því. Framundan er Tjörnin. Í henni gæti sjávarfalla, en tjörnin er ekki síst merkileg vegna þess að ferkst vatn kemur í hana undan hrauninu þegar fjarar út. Suðvestast í henni eru mannvirki – hlaðinn bryggja út í tjörnina. Ef vel er að gáð má einnig sjá hlaðna brú út í hólma, sem þarna er og aðra hlaðna bryggju frá honum út í tjörnina. Í hólmanum mótar fyrir tótt. Þarna var m.a. ullin þveginn sem og annar fatnaður á árum fyrrum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir.

Stígur (þvottastígur) liggur frá aðstöðunni við tjörnina upp á heimtröðina. Þegar honum er fylgt sést skeifulaga lægð á vinstri hönd. Í henni er skúti. Á hægri hönd er hringlaga lægð. Í henni er einnig skúti. Tótt er vestan við lægðina. Efsti hluti heimtraðarinnar er hlaðinn beggja vegna. Þegar komið er að bæjarhúsunum má sjá tveggja rýma hús á vinstri hönd og fjölrýma hús á þá hægri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru bæjarhúsin á Þorbjarnarstöðum. Stutt er síðan þakið féll af syðri húsunum. Greinilegt er að tréþiljað hefur verið að framan á nyrðri húsunum og er fallegur gangur þar framan við. Vestan og sunnan við bæinn er hlaðinn garður. Frá bænum sést Miðmundarvarða á Miðmundarhól vel, fallega hlaðinn á sprungubarmi. Hún var eitt eyktarmarkanna frá Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Tótt er syðst á túninu. Þegar komið var yfir suðurveggina sást móta fyrir gamalli hleðslu neðan ytri veggjarins skammt austar. Vestan við hleðsluna er laut og sunnan hennar fótur af gamalli vörðu. Norðan hennar liðast Alfaraleiðin gamla úr vestri til austurs. Alfaraleiðin var aðalgatan út á Útnesin. Önnur varða sést við götuna skammt vestar.
Beint framundan til suðurs sjást hraunbakkar. Undir þeim er gömul hlaðin rétt. Inni í henni er hlaðinn dilkur og tveir aðrir vestan í henni. Réttin stendur enn mjög vel, enda hefur hún upphaflega verið vel gerð.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – flugmynd.

Þegar gengið er norður með vestanverðum heimatúnsgarðinum sést vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið. Við norðvesturhorn hans er nokkurs konar dalur í hrauninu. Þar gæti hafa verið nátthagi. Innan og norðanundir garðinum er minni dalur. Innst í honum er skúti. Vestan við hraunhólinn, sem myndar dalinn, er enn ein tóttin. Auðvelt er að greina húsaskipan af tóftum Þorbjarnarstaðabæjarins, sem fór í eyði um 1930.

Þorbjarnastaðaborgin er upp í Brunntorfum, en henni eru gerð góð skil í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. HÉR og HÉR.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Á Þorbjarnastöðum bjó hið ágætasta fólk og eru afkomendur þess m.a. margir mætir Hafnfirðingar.
Gangan tók u.þ.b. klukkustund. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur.