Tag Archive for: Thorkelliissjóður

Hausastaðir

Grein þessi er erindi, lítið eitt breytt, sem höfundur flutti á kvöldvöku í Barnaskólanum í Garðahreppi 18. október síðastliðinn, þegar kennarar þar og nokkrir fleiri minntust 15 ára starfsemi skólans. Óskaði skólastjórinn, Vilbergur Júlíusson, eftir erindi um þetta efni, en höfundurinn liafði þá fyrir skömmu verið ráðimi til að taka saman sögu skólanna á svæðinu frá Krýsuvíkurbergi að Fífuhvammslæk. Hér er greinin lítillega stytt, en hana má lesa í heild í „Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar“ árið 1973 – „Á Hausastöðum gerðist merkileg saga„:

Ólafur Þ. Kristjánsson„Yzt í Garðahverfi, á lágum ásenda í vestur frá hinu forna prestsetri Görðum, liggur býlið Hausastaðir. Samtýmis er Katrínarkot, byggt á öldinni sem leið úr landi Hausastaða.
Hausastaða mun fyrst vera getið í máldögum Garðakirkju frá ofanverðri 14. öld og eru þeir þá í eigu kirkjunnar. Enginn veit, hve býli þar er gamalt. Hitt má telja víst, að Hausastaðaland hafi frá öndverðu verið hluti af Garðalandi, en Garðar hafa ugglaust verið elzta — og um skeið eina — býlið í Garðahverfi öllu, enda benda margar líkur til, að í Görðum hafi verið aðsetur landnámsmannsins, Ásbjarnar Össurarsonar.
Í Jarðabók Arna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er frá því skýrt, að tvær fjölskyldur búi á Hausastöðum, samtals 8 menn. Hausastaðir voru eign Garðakirkju, eins og fyrr er sagt. Árið 1762 er enn tvíbýli á Hausastöðum.
Átjánda öldin er merkilegt tímabil í sögu Íslendinga fyrir margra hluta sakir. Aldrei var eymd og vesaldómur þjóðarinnar meiri, aldrei var jafn tvísýnt um, hvort hún myndi lífi halda. En sé miðað við allar aðstæður, hafa sennilega aldrei verið hér á landi menn, sem hafa hugsað jafn djarft og stórt um framtíð þjóðar sinnar. Nægir að nefna menn eins og Skúla Magnússon og Eggert Ólafsson, og Magnús Stephensen var farinn að láta til sín taka undir aldarlokin, þótt meira yrði síðar.

Ludvig Harboe

Ludvig Harboe.

En margir fleiri voru í þessum flokki, þótt ekki séu eins nafnkunnir Einn þessara manna var Jón Þorkelsson skólameistari, ágætlega lærður maður, flestum samvizkusamari í störfum, gæddur óþrotlegum áhuga á menningu íslenzku þjóðarinnar. Hann hefur ekki verið metinn að verðleikum. Kann þar að valda nokkru um, að hann stendur í skugga af öðrum manni, dönskum að vísu, en manni sem getið hefur sér að maklegleikum gott orð í íslenzkri sögu: Ludvig Harboe biskupi. Hann var sendur hingað til lands 1741 og dvaldist hér til 1745 til þess að kynna sér ástand í kirkju- og kristnimálum og gera tillögur til bóta. En aðstoðarmaður hans í þessari ferð var Jón Þorkelsson, sem verið hafði skólameistari í Skálholti 1729 til 1737. Átti hann mestan þátt í að ferð þessi var farin, en það ýtti og undir, að þá var heittrúarstefnan svonefnda (pietisminn) í sem mestum uppgangi í Danmörku. Bar Harboe fram ýmsar tillögur um kristnihald í anda þeirrar stefnu, og reyndust sumar þeirra að vísu heldur fánýtar í framkvæmd, en aðrar komu að drjúgu gagni, svo sem það, hve mikil úherzla var lögð á að börn lærðu að lesa, að vísu til þess að þau gætu lesið guðsorð sér til sáluhjálpar. Víst er, að þessar tillögur ýmsar voru frá Jóni Þorkelssyni runnar, því að hann hafði sýnt það áður, að hann var mikill áhugamaður um uppfræðslu barna og unglinga, og átti hann í því sammerkt við Harboe. Hitt er alkunnugt, að lestrarkunnátta þjóðarinnar tók miklum framförum á næstu áratugum.
Jón Þorkelsson
En Jón Þorkelsson lét ekki hér við lenda. Hann dvaldist í Danmörku eftir að rannsókn þeirra Harboes hér á landi lauk og andaðist þar 5. maí 1759, 62 ára gamall, ókvæntur og barnlaus og án nokkurra nákominna ættingja á lífi. Hann lét eftir sig töluverðar eignir, bæði hér á landi og í Danmörku. Hann gerði erfðaskrá og mælti svo fyrir, að í kirkju í Innri-Njarðvík, þar sem hann var fæddur og upp alinn, skyldu geymast guðfræðirit hans á íslenzku, bæði prentaðar bækur og handrit, en eigandi ritanna væri uppeldisstofnun, sem öðrum eigum hans skyldi varið til að koma á fót og starfrækja. Í þessari stofnun áttu hin allra aumustu og fátækustu börn í Kjalarnesþingi að fá kristilegt uppeldi og alla nauðsynlega umönnun, þar í talið húsnæði, fatnaður og fæði, unz þau gætu unnið fyrir sér hjá öðrum. Má hiklaust fullyrða, að aldrei hafi maður lagt fram jafnstóra gjöf til uppeldismála hér á landi, miðað við verðgildi á þeim tímum. Og gjöfin skyldi koma þeim til gagns, sem sízt gátu borið hönd yfir höfuð sér og áttu enga von á sæmilegu uppeldi nema þetta kæmi til. Er dánargjöf Jóns skólameistara einstök í sinni röð að flestu leyti og þá líka maðurinn, er erfðaskrána setti.

Ólafur Stephensen

Ólafur Stephensen.

Stiftamtmaðurinn yfir Íslandi og biskupinn yfir Sjálandi áttu að sjá um framkvæmd erfðaskrárinnar. Voru eignir Jóns í Danmörku seldar og myndaður af sjóður, en hans var heldur slælega gætt og varð hann fyrir stórtjóni af verðfalli peninga og fleiri sökum. Eigur Jóns á Íslandi voru í jörðum, sem skiluðu árlega landskuld og leigum í sjóðinn. Sjóðurinn var kenndur við gefandann og kallaður Thorkillii-sjóður, en þau rök liggja til nafnsins, að skólameistari færði oft heiti sitt í latneskan búning að hætti lærðra manna á þeim tímum og kallaði sig Johannes Thorkillius, en Thorkillii er eignarfall af Thorkillius.
Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi og Magnúsi Gíslasyni amtmanni var skjótlega falið að semja reglugerð fyrir væntanlega uppeldisstofnun. Gerðu þeir það 1761, og mun raunar biskupinn hafa átt þar að mestan hlut. Tóku æðri stjórnarvöld tillögum þeirra vel, og var rætt um að setja stofnunina á fót í Innri-Njarðvík, fæðingarstað gefandans, því að sú jörð var í eigu konungs og átti því að vera auðfengin. Ekkert varð úr framkvæmdum: viður til húsagerðar þótti dýr og fleira tafði. Liðu svo 30 ár.
Þá varð það árið 1790, að íslenzkur maður var skipaður í embætti stiftamtmanns, Ólafur Stefánsson, sem kunnastur er undir nafninu Stephensen. Hann tók erfðaskrá Jóns skólameistara Þorkelssonar skjótt til athugunar, skrifaði Balle Sjálandsbiskupi [Nicolai Edinger Balle] og kvað einsætt að stofna skóla samkvæmt erfðaskránni, enda væri sjóðurinn þess vel megnugur. Tók biskup þessu vel. Stiftamtmaður samdi þá ýtarlega reglugerð fyrir hina nýju stofnun, og fór þar í mörgu eftir reglugerð Finns biskups og Magnúsar amtmanns frá 1761, en breytti þó ýmsu.
Jarðnæði fyrir skólastofnunina var fengið á Hausastöðum í Garðahverfi. Prófasturinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu átti að hafa eftirlit með skólastarfseminni, og nú vildi svo til, að prófastur var séra Markús Magnússon í Görðum, einn af mest virtu prestum á landinu á þeim tímum. Munu hafa þótt hæg heimatökin að hafa skólann í nágrenni hans. Jörðin var eign Garðakirkju, eins og fyrr var sagt, og því auðgert að losa hann úr ábúð, en Thorkillii-sjóður galt kirkjunni jafnan leigu fyrir jörðina þau ár, sem skólinn stóð þar.

Nicolai Edinger Balle

Nicolai Edinger Balle.

Vanda þurfti til forstöðumanns við hina nýju uppeldisstofnun. Var til þess fenginn Þorvaldur Böðvarsson, búandi maður á Flókastöðum í Fljótshlíð. Hinn nýi skólahaldari — eins og hann var jafnan nefndur — var maður tæplega hálffertugur að aldri, vel að sér og prúðmenni mikið og ríkur að lífsreynslu. Hann hafði verið aðstoðarprestur hjá föðurbróður sínum á Breiðabólsstað og verið kvæntur dóttur hans. Þau voru saman í hjónabandi í 5 ár, en þá andaðist kona hans. Þau höfðu eignazt 3 börn, er öll dóu á 1. ári, en hið 4. fæddist andvana.
Þá réðst til prests bústýra, sem Margrét hét Arnoddsdóttir. Þau felldu hugi saman, en mjög var það að óvilja frænda séra Þorvalds, einkum þó móður hans, sem var skaprík kona og fullmetnaðar fyrir hönd sína og sinna, en Margrét þótti smárrar ættar. Kom svo, að beðið var honum til handa lögréttumannsdóttur utan úr Gnúpverjahrepp, Guðrúnar Einarsdóttur, mætrar konu. En kunningsskapur hélzt með presti og Margrétu, og fæddist þeim sonur haustið 1787. Var þá ekki að sökum að spyrja, og var prestur dæmdur frá kjóli og kalli, eins og lög stóðu til. Tók hann sér þetta nærri, ekki sízt vegna konu sinnar, sem hann mat mikils. Bar hann þó harm sinn í hljóði, því að hann var stillingarmaður. Bjó hann embættislaus á Flókastöðum, eins og áður er að vikið, þegar til hans var leitað um að taka að sér forstöðu hins nýja skóla. Segir hann í ævisögu sinni, sem prentuð er í 4. árgangi Fjölnis, að það hafi verið fyrir atbeina séra Páls Þorlákssonar á Þingvöllum, en sá séra Páll var bróðir séra Jóns Þorlákssonar skálds á Bægisá og var kvæntur systur fyrri konu Þorvalds, þekkti hann vel og vissi, hvílíkur hæfileikamaður hann var.

Finnur Magnússon

Finnur Magnússon.

Þorvaldur Böðvarsson fluttist að Hausastöðum vorið 1792 og veitti skólanum forstöðu til 1804 eða í 12 ár. Gerðist hann á þeim tíma þekktur lærdómsmaður og kenndi mörgum piltum undir skóla bæði fyrr og síðar. Jafnframt varð hann frægur fyrir sálma, sem hann orti, eins og sjá má á sálmabókinni, sem Magnús Stephensen sá um útgáfu á (1801). Var Þorvaldur bæði vinsæll maður og vel metinn.
Það var loks árið 1803 að Þorvaldur fékk uppreisn og réttindi til prestskapar á ný, sér til mikillar gleði og ekki síður maddömu Guðrúnu, en hún andaðist í ársbyrjun 1804. Fer séra Þorvaldur um það þessum orðum í ævisögunni: „Þannig var ég sviptur trúfastri og hollri aðstoð, sem ég hafði notið í 18 ár, og stóð nú uppi á Hausastöðum með 4 börn ásamt móður minni, sem þá var mjög hnigin að kröftum, og 16 skólabörnum, vafinn töluverðum kaupstaðarskuldum, og sá mér öldungis ófært að bjargast framvegis.“ — Eitt af þessum 4 börnum hans var Böðvar, faðir séra Þórarins í Görðum, er stofnaði Flensborgarskóla.
Vorið 1804 lét séra Þorvaldur af stjórn Hausastaðaskóla og gerðist prestur á Reynivöllum í Kjós og kvongaðist í 3. sinn, en frá Reynivöllum fór hann prestur að Holti í Önundarfirði og var síðan um skeið á Melum í Borgarfjarðarsýslu, en síðast í Holti undir Eyjafjöllum. Þar dó hann 1836, hátt á áttræðisaldri, og þótti hafa verið hinn merkilegasti maður.
Þótt venja sé að tala um skólann á Hausastöðum og forstöðumaðurinn væri kallaður skólahaldari, var þó hér um meira að ræða en venjulegan skóla. Þetta var uppeldisstofnun, þar sem börnin voru allan ársins hring frávikalaust og höfðu allt uppeldi, komu í skólann 6 eða 7 ára gömul og voru þar í 10 eða 12 ár. Skólahaldarinn kostaði þau að öllu leyti, en fékk 16 ríkisdali til jafnaðar með hverju barni, en það meðlag var síðan hækkað í 20 dali. Einnig hafði hann 45 ríkisdali í árslaun, en kona hans 15 dali. Enn fremur fékk hann leigulausa ábúð á Hausastöðum og hafði Vífilsstaði hálfa til afnota.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson.

Ekki auðgaðist Þorvaldur Böðvarsson á veru sinni á Hausastöðum, enda óx verðlag allrar vöru mjög á þeim árum vegna Norðurálfuófriðarins (Napóleonsstyrjaldanna). Eru áðurgreind ummæli séra Þorvaldar um hag sinn, er hann fór þaðan, en um komuna þangað segir hann þetta: „Þetta embætti var bæði örðugt og launalítið og þurfti mikið fólkshald, í tómu húsi að kalla mátti, því ekki urðu hafðar fleiri en 4 kýr.“ — Tómthús er sama og þurrabúð.
Nokkra uppbót fékk séra Þorvaldur síðar á laun sín sem forstöðumaður skólans. Þess var áður getið, að skólanum hefði verið sett reglugerð. Hún var í 23 greinum, sumum löngum, og öll á dönsku, en hér á eftir verða nokkur atriði úr henni endursögð, sum nákvæmlega, önnur lauslegar.
Tilgangur með skólanum er að gera alþýðubörn að kristnum, duglegum, siðsömum og nýtum mönnum. Þess vegna skal öll starfsemin miða að því að innræta börnunum hollan og heilbrigðan hugsunarhátt, einlægan guðsótta og ráðvendni, iðjusemi, aðgát, nægjusemi og þrifnað.  Skólahaldarinn átti að vera vammlaus og hæfur maður, kunnur að ráðvendni og siðprýði, lipur til kennslu, duglegur og með þekkingu á búskap. Honum til aðstoðar átti að vera kona, helzt eiginkona hans, væri hún nauðsynlegum kostum búin, en hún átti að vera þrifin, nægjusöm og myndarleg í framkomu og kunna skil á öllu, sem bóndakonu hæfði að kunna og vita, einkum þó að búa til óbrotinn, hreinlegan og bragðgóðan mat úr innlendum efnum. Kona þessi er kölluð skólamamma (Læremoder).

Skálholt

Skálholt.

Börnin átti að velja úr hópi öreiga, sennilega þeirra, sem voru á sveitarframfæri, en foreldrarnir þó helzt að vera sómasamlegt fólk og börnin sjálf vel lynt og viðráðanleg. Hverju barni átti að fylgja vottorð frá sóknarpresti þess um aldur þess og foreldra og enn fremur um gáfnafar þess og hneigðir. Skólahaldari sjái börnunum fyrir öllum nauðþurftum. Öll áttu börnin að borða við sama borð, nema veik væru, piltar þó við borð sér og stúlkur sér. Skólahaldari eða skólamamma áttu að vera viðstödd til eftirlits. Börnin skiptist á um að lesa hæn, er setzt er að borðum og er upp er staðið. Þau skulu vanin á að ganga vel og hæversklega að mat sínum. Tekið er fram, að þau séu vanin á kálmeti, enda á að rækta það svo, að dugi allt árið: grænkál, hvítkál, gulrófur og jarðepli. Maturinn á að vera sem mest úr innlendum efnum, hollur en íburðarlaus, svo að börnin fúlsuðu síður við mat hjá bændum, er þau réðust í vist. Fötin skyldu vera úr innlendu efni, búin til eftir því sem unnt væri í skólanum sjálfum, öll af sömu gerð. Fátækrasjóður hreppsins leggi til 4 ríkisdali til fata með hverju barni um leið og það kemur í skólann, en fær fötin, sem barnið kemur í, jafnskjótt til baka, því að barnið fer í skólafötin. Skólahaldari kostar að sjálfsögðu skólafatnaðinn, og sæmilega fötuð skyldu börnin vera, er þau færu úr skólanum að vist þar lokinni.
Hausastaðir
Skólamamma átti að sjá um að börnin væru snyrtilega til fara, aldrei rifin, bæði þau og fötinhrein. Telpurnar á að venja sem fyrst við að þvo og bæta föt og einnig að gera við skó, drengjanna líka. Stúlkurnar eiga að búa um rúmin, en ekki skulu þær draga klæði af drengjunum; það skulu þeir sjálfir vandir á að gera.
Dagurinn hófst með því að skólahaldari fór með bæn og sálmur var sunginn, lesið úr biblíunni og síðan farið með morgunbæn. Börnin lesa til skiptis, þau sem læs eru, en öll séu þau viðstödd. Á kvöldin var farið með bæn, lesinn kafli úr guðrækilegri bók, sem sóknarprestur hafði valið, sálmur sunginn og kvöldbæn lesin. Skólahaldari spyr úr efninu til þess að æfa eftirtekt og athygli nemendanna og jafnframt skýrir hann efnið. Á sumrin var morgunbænin ein látin nægja, en allt haft eins á kvöldin, þótt sumar væri.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Jafnskjótt og börnin eru orðin bóklæs, fara þau að læra barnalærdóminn, kverið. Skólahaldari skýri og útlisti hvern kafla áður en hann er lærður. Mikil áherzla er lögð á að börnin skilji trúarlærdóm og siðalærdóm, svo að þau geti haft kunnáttuna að leiðarvísi í daglegu lífi, hvert eftir því sem það hefur greind til. Þau eiga að ganga til spurninga til sóknarprestsins undir fermingu eins og önnur börn í sókninni.
Til bóknáms voru ætlaðir 2 klukkutímar fyrir hádegi og 4 eftir hádegi daglega yfir veturinn, sem talinn var frá 13. október til 11. maí. Yfir sumarið átti að halda því við, sem lært hafði verið. 10 ára gömul skyldu börnin hafa lokið við kverið. Eftir það áttu þau að rifja upp eftir þörfum og læra sálma, bænir og fleira gott. Hvern virkan dag frá nóvemberbyrjun fram til marzmánaðar átti að kenna hverjum pilti í tvo tíma á hverjum degi að skrifa og reikna 4 höfuðgreinir reiknings í heilum tölum og einnig þríliðu. Einnig átti að kenna þeim vefnað og smíðar á tré og járn eftir því sem hver bóndi þurfti að kunna. Stúlkur, sem langar til að læra að skrifa og reikna, fái kennslu í því einn tíma tvisvar á viku. Þær læri að sníða og sauma föt á sig og piltana og öll heimilisstörf hjá forstöðukonunni. Garðyrkju átti að kenna bæði piltum og stúlkum. Öll venjuleg verk á heimili úti og inni áttu þau að læra. Þau unnu öll í einni vinnustofu, svo að betra væri að fylgjast með störfum þeirra, en þó skyldi vera skilrúm milli pilta og stúlkna, grind. Skólahaldari fékk verðlaun fyrir hverja alin, sem ofin var, 2 skildinga. Það var einkum vaðmál og einskefta, sem ofin var. Aldrei skyldu börnin vera iðjulaus og aldrei rápa á aðra bæi nema með leyfi skólahaldara, og það leyfi skyldi hann ekki láta í té nema nauðsyn bæri til, og er þó ekki langt milli bæja í Garðahverfinu. Einn klukkutíma á dag máttu börnin leika sér að eigin vild, en þó skyldi skólahaldari eða skólamamma líta eftir að þau gerðu ekki neitt hættulegt eða ósiðlegt.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – Helgi S. Jónsson (1910-1982).

Eins og áður er að vikið var markmið skólans að venja börnin á guðsótta og góða siði, iðjusemi og nýtni, og átti skólahaldari að leiða þau með lempni á þá braut. Hann átti að skýra fyrir þeim svo að þau gætu skilið af hverju þau ættu að haga sér á þennan hátt eða hinn. Aldrei átti hann að líða þeim óátalið að aðhafast neitt, sem ekki átti að vera, en aðfinnslur átti að bera fram gremjulaust með ástúðlegri hógværð. Dugi ekki endurteknar áminningar, skal grípa til refsinga, þó einungis með venjulegum vendi, en áður skyldi barninu gert skiljanlegt, af hverju þetta hlaut þannig að vera. Skipist barnið ekki við þríendurtekna refsingu, skal sóknarpresti gert aðvart, og skal hann og skólahaldari þá reyna að finna ráð til bóta eftir sinni þekkingu á skapgerð barnsins. Komi allt fyrir ekki, má vísa barninu burtu eftir að málið hefur verið borið undir eftirlitsmenn skólans, og sé þá jafnskjótt annað barn frá sama hreppi tekið í staðinn. Gert er ráð fyrir, að börnin geti fermzt á 15. ári. Þau eiga að vera orðin nokkurn veginn kunnandi í öllu, sem læra skal, á 17. ári, og yfirgefa þau þá skólann að afstöðnu prófi. Skólahaldari fær 2 ríkisdali aukalega fyrir hvern pilt, sem nær prófi innan 17 ára aldurs, en skólamamma sömu upphæð fyrir hverja stúlku, og auk þess fær skólahaldari 2 dali fyrir hverja stúlku, sem lært hefur að vefa, en skylt var að kenna piltum vefnað.
Sérstakt hús var reist fyrir skólann árið 1793. Það var 15 álna langt og 8 álna breitt, og var allur gólfflöturinn þannig innan við 50 fermetra. Húsið var í 7 stafgólfum, allt þiljað og með fjalagólfi nema grjótlagt stykki fyrir framan reykháfinn. „Langseftir er húsið gegnumþiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 verelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi,“ segir í úttektarlýsingu. Átta gluggar voru á húsinu, hver með 6 rúðum. Loft var í húsinu með tveim herbergjum afþiljuðum í endunum, og voru 3 gluggar á loftinu með 4 rúðum hver.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – tóftir.

Þegar séra Þorvaldur Böðvarsson lét af störfum sem forstöðumaður Hausastaðaskóla vorið 1804, reyndist erfitt að fá mann til að taka við skólanum. Um síðir var ráðinn til þess prestlærður maður, 27 ára gamall, Guðni Guðmundsson að nafni, síðar prestur í Miðdal og á Ólafsvöllum. Hann var karlmenni til burða og kallaður Guðni sterki, en þótti ekki mikill gáfumaður. Stjórn hans á skólanum var léleg, og þótti séra Markúsi í Görðum hann ekki hæfur til þess starfs. Hann hafði hins vegar talið stjórn séra Þorvalds fullnægjandi í sumum efnum, og mun þá hafa átt við bóklegu kennsluna, en nokkurs vera á vant í öðru, enda segir prófastur einhvers staðar, að séra Þorvaldur sé ekki mikill fésýslumaður. Nemendur höfðu verið 12 fyrsta árið, jafnmargt af piltum og stúlkum, en eftir 3 ár voru þeir orðnir 16, og hélzt sú tala, meðan Þorvaldur var við skólann, en þegar Guðni sleppti skólastjórninni eftir 2 ár (1806) voru þeir aðeins 8, á aldrinum 8 til 16 ára.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – AMS-kort.

Til er „úttekt“ á skólabörnunum, þegar Guðni fór, en því miður finnst engin slík „úttekt“, þegar hann tók við, þótt hún hafi sennilega verið gerð þá líka.
Þegar Guðni sterki fór frá skólanum 1806, tók við annar prestlærður maður, einnig 27 ára gamall, Hjálmar Guðmundsson, síðar prestur á Kolfreyjustað og Hallormsstað. Hann var vel að sér og prýðilega gefinn, en þótti síðar nokkuð sérvitur. Hann stjórnaði skólanum í 6 ár við erfiðar aðstæður, því að dýrtíð óx enn ákaflega. Til er skrá, sem Hjálmar samdi, þar sem hann gerir samanburð á verðlagi á ýmsum vörum 1792 og 1810. Höfðu þær yfirleitt tvöfaldast eða þrefaldast í verði, en gluggarúður til að mynda fjórfaldast. Meðlag með hverju barni var þó hið sama og áður, 20 ríkisdalir, og skyldi skólahaldari kosta uppihald þeirra að öllu leyti. Kvartaði Hjálmar oft undan þessu, en fékk aldrei neina uppbót á kaup sitt. Taldi hann sig hafa tapað 992 ríkisdölum samanlagt. Nemendurnir voru oftast 8 í hans tíð, en 9 skilaði hann af sér, þegar hann hætti. Verður ekki annað séð en Hjálmar hafi leyst starf sitt við skólann vel af hendi, þegar alls er gætt.

Hausastaðir

Hausastaðir – loftmynd.

1812 afsagði Hjálmar með öllu að vera við skólann lengur. Erfitt reyndist að fá skólahaldara í hans stað, og brá þá stiftamtmaðurinn Castenskjöld á það ráð án þess að spyrja nokkurn að, að hann lagði skólann niður með öllu það ár. Hausastaðaskóli var úr sögunni eftir að hafa starfað í 20 ár. Einn veturinn hafði hann meira að segja verið eini opinberi skólinn í landinu. Það var veturinn 1804—1805.
Skólarnir höfðu þá fyrir nokkru verið fluttir frá biskupssetrunum í Skálholti og á Hólum til Reykjavíkur og settur einn skóli þar vestur á Hólavelli eða Hólavöllum. Nú var skólahúsið orðið svo lélegt, að heilsa nemenda og kennara þótti í voða, ef þar væri kennt, því að bæði lak húsið og vindar blésu lítt hindraðir þar í gegn, en ofn spjó reyk í allar áttir nema upp um reykháfinn. Næsta vetur hóf latínuskólinn starf á Bessastöðum.
Thorkillii-sjóður kemur nokkuð við sögu menntamála í landinu eftir þetta allt fram á þennan dag, þótt hér verði ekki rakið. En aldrei síðan Hausastaðaskóli var að störfum hefur tilraun verið gerð til að framkvæma fyrirmæli hins stórhuga stofnanda sjóðsins, Jóns skólameistara Þorkelssonar, með því að setja á fót uppeldisstofnun fyrir fátækustu börn í Kjalarnesþingi. Þessi tilraun var látin nægja.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Hafði tilraunin með Hausastaðaskóla þá misheppnazt og gagnið af henni orðið lítið eða ekkert? Þessu verður auðvitað ekki svarað til hlítar, ekki sízt þar sem enginn veit, hvernig rættist úr börnum þeim, er þar áttu dvöl, auk þess sem gagnsemi af skólavist verður aldrei mæld með kvarða eða vegin á vog, einkum þó þegar meira en öld er liðin síðan nemendurnir hurfu af sjónarsviðinu.
Sé nú á það litið, sem bezt verður vitað um uppeldi sveitarbarna á þessum tímum, þegar efnaleysi og erfiðleikar surfu hvað fastast að þjóðinni, ekki sízt í verstöðvunum við Faxaflóa, þá getur engum um það hugur blandast, að skólabörnin á Hausastöðum hafa haft gagn af verunni þar, sum mjög mikið. Þau hafa hlotið þar bóklega menningu og verklegan þrifnað, sem þau hefðu ella að öllum líkindum farið á mis við. Segja mætti mér, þótt ekki verði það sannað, að fleiri eða færri af börnunum hefðu tortímzt algerlega bæði andlega og líkamlega, ef þau hefðu ekki notið vistar í Hausastaðaskóla og aðhlynning hans að sál þeirra og líkama orðið til að gera þau að farsælum mönnum, sem fengu notið sín, sér og þjóðfélagi sínu til nytja.
Það var merk saga, sem gerðist á Hausastöðum áratugina tvo frá 1792 til 1812.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað 24.12.1973, Á Hausastöðum gerðist merkileg saga – Ólafur Þ. Kristjánsson, bls. 7-11.
https://timarit.is/page/4677480?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/al%C3%BE%C3%BD%C3%B0ubla%C3%B0%20hafnarfjar%C3%B0ar%20j%C3%B3labla%C3%B0

Hausastaðir

Hausastaðir og nágrenni – túnakort 1918.