Tag Archive for: Þórusel

Kúastígur

Gengið var af tengivegi línuvegarins í Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar skammt austan við Voga, að Kánabyrgi og Viðauka, um Heljarstíg á Hrafnagjá, að Huldum, um Kúastíg á Hrafnagjá og eftir henni að Axarhól, þaðan að Hvíthólum og að upphafsstað.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Áður en gengið var að Kánabyrgi var litið á hlaðna refagildru í heiðinni, milli línuvegarins og Reykjanesbrautar, skammt austan tengivegarins. Hún lítur út eins og varða, nema að þessi varða er ekki á hæð eða við stíg, heldur í lægð, en slíkt er sjaldan varða siður. Þegar fallhellan, sem snýr mót suðri, er tekin frá opinu sést gildran vel. Það voru Brunnastaðabræður (Stakkavíkurbræður) sem bentu FERLIR á gildru þessa.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Kánabyrgi er skammt austar, norðan línuvegarins. Þar er hóll eða há klettaborg þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir ‘þrjótur, slæpingi; seppi“. En þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Gengið var eftir Heljarstíg, sem er einstigi yfir Hrafnagjá spölkorn suðvestan við Kánabyrgi. Þar er tæp gata og djúpar gjár til beggja handa.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra.

Þegar farið var til smölunar frá Kánabyrgi lá leiðin upp heiðina og um Huldur. Svæðið ber einnig örnefnið Margur brestur, sem þýðir líklega “margir eru brestirnir” því þarna eru víða sprungur er leyna á sér.
Ofar í heiðinni er Inghóll, með gamalli vörðu á, sem sagður er á eða við mörk Brunnastaða og Voga á Huldum. Hóllinn er fast ofan við Litlu-Aragjá. Fast neðan við hólinn og gjána eru Inghólslágar.
Viðaukur, Viðuggur eða Viðauðgur skammt austan Vogaafleggjarans skammt ofar er annað hvort heiti á nokkuð áberandi hólum þarna í heiðinni, sem standa rétt vestan við Línuvegsafleggjarann eða margstofna klöpp fast ofan við hólana. Klöppin er með rismikilli og fallegri vörðu á og stendur hún um 100 m neðan Hrafnagjár. Sumir ætla að varðan sé landamerkjavarða Brunnastaða og Voga.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Nafnið Viðaukur er sérkennilegt og vel má ætla að það sé rétta útgáfan af örnefninu og að það sé komið til vegna þess að einhver bóndinn hafi bætt við sig landi, þ.e. “aukið við” land sitt.
Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.
Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá “Stráka”.

Þórusel

Þórusel – stekkur.

Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána. Við Kúastíginn er tófugreni.
Efri gjárbarmi Hrafnagjár var fylgt til vesturs að Axarhól. Hann er nokkuð brattur og sprunginn eftir endilöngu og má líkja sprungunni við axarfar og af því dregur hóllinn trúlega nafn sitt. Norðan við Axarhóla eru Hvíthólar. Á leiðinni að þeim var komið við í Þóruseli, sem er suðvestan hólanna.

Hvíthólavarða

Hvíthólavarða.

Hvíthólavarða er á þeim, 70-80 cm á kant og traustbyggð. Varðan er áberandi kennileiti ofan við Vogana. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvar Þórusel hafi verið nákvæmlega, enda landið nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en á því átti að hafa staðið höfuðból með “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar þarna. Önnur tilgáta er að Þórusel hafi verið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Gjásel

Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar – Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, fjallar hann um „Selstöður í heiðinni“ – Vogaheiði.

Árni Óla

Árni Óla.

„Seljarústir segja sína sögu um búskaparháttu fyrr á öldum. Landnámsmenn fluttu með sér frá Noregi þann sið að hafa í seli. Og íslenzka bændastéttin var fastheldin á þetta, því að um þúsund ár hafa selin staðið.

Þegar Vatnsleysuströnd byggðist, munu hafa verið mjög góðir hagar í heiðinni. Hver jörð átti þá sitt sel, og sennilega hefir þá verið vatnsból hjá hverju seli. En er gróður gekk til þurrðar, jarðvegur breyttist og uppblástur hófst, þá hverfur vatnið víða. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um 12 selstöður, en viðkvæðið er oftast, að þar sé vatnsskortur til mikils baga, og sum selin sé að leggjast niður þess vegna. Þó er enn haft í seli á flestum eða öllum jörðunum, en sum selin hafa verið færð saman. Selin hafa því upphaflega verið fleiri.
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.

Selhólar

Selhólar.

1. Selhólar heita skammt fyrir ofan Voga. Þar sést fyrir gömlum seltóftabrotum. Vatnsból þess sels hefir verið í Snorrastaðatjörnum.

Nýjasel

Nýjasel.

2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. Þar hafa verið glöggvar seltóftir fram til þessa. (Þegar leitað er Nýjasels verður það ekki auðfundið. Fylgja þarf gjánni  uns komið er að tóftunum, sem eru harla óljósar. Fyrir þá/þau er þekkja til seltófta er þarna þó augljós selstaða, en lítilmátleg hefur hún verið í þá tíð; þrjár litlar tóftir og stekkur – þrátt fyrir allt dæmigerð sem slík á þessu svæði.)

3. Þórusel er skammt austur af Vogum. Er þarna allstórt svæði, sem einu nafni nefndist Þórusel.

Þórusel

Þórusel.

Þar sjást nú engin merki seltófta [sem er reyndar ekki rétt] og ekkert vatnsból er þar nærri. Þjóðsagnir herma, að fyrrum hafi verið stórbýli, þar sem nú heitir Þórusker hjá Vogavík, og hafi þar verið 18 hurðir á járnum.

Þórusel

Þórusel.

Býli þetta var kennt við Þóru þá, er selstaðan dregur nafn af. Þórusker var utan við Vogavíkina og þótti fyrrum vera hafnarbót, enda þótt það kæmi ekki upp fyrr en með hálfföllnum sjó. Alldjúpt sund var milli skersins og lands, en nú er þar kominn hafnargarður, sem tengir skerið við land. Norður af Þóruskeri em 4—5 sker, sem nefnd eru Kotasker, og yfir þau fellur sjór á sama tíma og hann fellur yfir Þórusker. Norðvestur af Þóruskeri eru 2 allstórir boðar, sem nefnast Geldingar. Þar á ábúandi Þóruskers að hafa haft geldinga sína. Geldingarnir koma úr sjó nokkru fyrir stórstraumsfjöru, en í smástraum sjást þeir ekki. Milli þeirra og Þóruskers er fremur stutt sund, sem ekki er bátgengt um stórstraumsfjöru. Á milli Geldinganna er mjótt og djúpt sund og er þar hvítur sandur í botni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá (Litla-Aragjá er nokkru neðar) og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, en vatn mun þar ekki nærlendis. Túnið var seinast slegið 1917.

Vogasel

Vogasel eldri.

5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum?).

7. Stóruvogasel.

Vogasel

Vogasel yngri.

 Jarðabókinni segir svo um Stóru-Voga: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri, þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.“

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hafa öll þessi sel, sem hér hafa verið talin, verið frá Vogum, færzt til eftir því sem á stóð um vatn og beit. Jarðabókin segir, að Minni-Vogar hafi þá í seli með Stóru-Vogum í Vogaholti. Gera má og ráð fyrir, að hjáleigubændurnir hafi fengið að hafa skepnur sínar þar. Og eftir því sem Jarðabókin telur, hafa þá verið í selinu 21 kýr og 35 ær.

Gjásel

Gjásel.

8. Gjásel er um 3/4 klukkustundar gang frá Brunnastöðum. Þar em glöggar seltóftir, en lítið seltún. Hjá selinu er djúp gjá, nafnlaus. Í gjánni er óþrjótandi vatn, en erfitt að ná því. Benjamín gerir ráð fyrir því, að þar hafi nágrannaselin fengið vatn handa skepnum sínum og til annarra þarfa.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

9. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna em margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. Á Brunnastöðum var stórt bú 1703 og hafa þá verið þar í seli 16 kýr og 34 ær. Þarna eru þó taldir litlir hagar og vatnsskortur tilfinnanlegur þegar þurrkar ganga.
10. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. Í Jarðabókinni segir að hagar sé þar bjarglegir, en vatnsból lélegt „og hefir orðið að flytja úr selinu fyrir vatnsskort“.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

11. Knarrarnessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. Þar eru margar og allglöggar seltóftir. Þar hefir verið sundurdráttarrétt, hlaðin úr grjóti, og sést vel fyrir henni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. í miklum þurrkum hefir vatn þetta þomað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. Ekki er vitað, að mór hafi fundizt annars staðar í allri Strandarheiði.
Það er sízt að undra, þótt selsrústir sé hér meiri en annars staðar, því að 1703 höfðu hér 5 bæir í seli: Stóru-Ásláksstaðir, Litlu-Ásláksstaðir, Litla-Knarrarnes, Stóra-Knarranes og Breiðagerði. Á þessum bæjum öllum voru þá 22 kýr og 45 ær. Réttin mun hafa verið gerð til þess að aðskilja fé bæjanna.

Auðnasel

Auðnasel.

12. Auðnasel er austur af Knarranesseli. Þar em margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. Vatn er þar dálítið í brunnholu, sem ekki lekur. Brunnholan er svo sem metri að þvermáli og er sunnan við háan og brattan klapparhól.

Breiðagerðissel

Í Auðnaseli.

Af hólnum og klöppunum þar um kring rennur rigningavatn í holuna, svo að í vætutíð hefir verið þar nægjanlegt vatn, en í miklum þurrkum þraut vatnið. Vatnsból þetta er ekki í selinu sjálfu, það er norðvestur af því og nokkurn spöl neðar. Munu nú fáir vita, hvar vatnsból þetta er, og varla munu menn rekast á það nema af tilviljun. Sagt er, að Auðnabóndi hafi haft ítak í Knarranesseli, líklega vegna vatnsins þar. Í Auðnaseli munu hafa verið 11 kýr og 32 ær árið 1703.

Kolgrafarholt

Kolgrafarholt.

13. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. Sýnir nafnið, að þar hefir fyrrum verið gert til kola, enda má enn sjá kolgrafir, sem sagðar eru frá Þórustöðum. En allur skógur er horfinn þar 1703, því að þá sækir jörðin kolskóg í Almenninga. Hjá Kolgrafaholti sjást engar seltóftir, en þarna var gerð allstór fjárrétt og gætu seltóftirnar þá hafa horfið. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin (Þórustaðir) þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból svo lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefir því búandinn selstöðu að annarra láni með miklum óhægindum og langt í burtu.“

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

14. Flekkuvíkursel er um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, sem sagt er að nái frá Reykjanesi og í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, með gjárbarminum. Heim að selinu er þröngt einstigi yfir gjárhamarinn. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi og báglegt eldiviðartak.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

15. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, undir allháum melhóli, sem nefnist Rauðhóll. Vatn er þar ekkert, en nóg vatn í Kúagerði, og þar mun líka einhvern tíma hafa verið sel.

Oddafellssel

Oddafellssel.

16. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. Þótti þangað bæði langt og erfitt að sækja, en þar voru bjarglegir hagar og vatn nægilegt.

Sogasel

Sogasel

17. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru-Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. Umhverfis seltóftirnar, sem eru greinilegar, og kargaþýft seltúnið er allhá hringmynduð hamragirðing, en lítið op á henni til suðurs. Þar var inngangur að selinu. Þarna er skjól í flestum áttum. Fyrir sunnan selið eru Sog og eftir þeim rennur lítill lækur, sem þó getur þornað í langvarandi þurrki. Ekki er mjög langt frá selinu að Grænavatni, en þar bregzt aldrei vatn. Í þessu seli hafa sennilega verið 15 kýr og 36 ær árið 1703. [Sogasel var selstaða frá Krýsuvík, enda í þess landi, en var látið Kálfatjörn í tímabundið skiptum fyrir uppsátur.]

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

18. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. Þar voru góðir hagar, „en vatnsból brestur til stórmeina“.“

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í framangreinda umfjöllun vantar reyndar nokkrar fyrrum selstöður í heiðinni, s.s. Snorrastaðasel, Kolholtssel, Hólssel, Fornuselin, Hlöðunessel, Selsvallaselin, Hraunssel o.fl.

Heimild:
Strönd og Vogar, Selstöður í heiðinni, Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, Árni Óla, Reykjavík 1961, bls. 242-246.

Ströbnd og Vogar

Strönd og Vogar – Árna Óla.

Þórusel

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ árið 2011 er getið um Steinsholt, kot milli Vogastapa og Voga. Kot þetta var ekki langlíft, einungis í ábúð um fimm ára skeið. Eftirstandandi minjarnar segja þó sögu:

Steinsholt

Steinsholt.

„Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll“, segir í örnefnaskrá (AG).
„Innan Kristjánstanga er Síkið og liggja úr því Síkisrennan og Síkisrásin norðar, sem einnig nefnast Rennan og Rásin, [svo] Þá er Steinsholt og Steinsholtstún sem verið hefur heldur smátt í sniðum.“ segir í örnefnaskrá (GS). Steinsholt var byggt 1874 sem tómthús en hefur verið í eyði frá 1879. Sex tóftir og eitt gerði eru á svæðinu. Gerðið og tóftirnar eru í þýfðu graslendi 10-20 m vestan við Gamla-Keflavíkurveg. Síkistjörn er norðan við, á milli og uppi á Steinsholti, tveimur 1,5-2 m háum hæðum grónum grasi og mosa.

Steinsholt

Steinsholt – bæjarstæðið.

Getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um „Mannlíf og mannvirki í hreppnum„. Þar segir: „Guðmundur Magnússon, koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir […] byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og var þar útgerð, enda landtaka góð. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður. […] Eins og áður segir byggðu þau í Steinsholti, þar sem enn má sjá klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin bláfáttæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars árið 1879.“

Steinsholt

Steinsholt – útihús.

Á þessum stað eru 6 tóftir; torf- og grjóthlaðið gerði, tóft í SV horni gerðisins, tóft fast NNA við NNA-enda gerðisins, tóft um 45 m SA, tóft fast SV við Gamla-Keflavíkurveg (samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur var þarna íbúðarhúsið í Steinsholti) og tóft vestan í Steinsholti og var hún smiðjan í Steinsholti samkvæmt „Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“.

Steinsholt

Steinsholt – smiðja.

Í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, skrifuð af Guðmundi Björgvin Jónssyni og útgefin 1987 segir:
„Guðmundur Magnússon koparsmiður, f: um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir, f. 17. júlí 1836 í Reykjavík, byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Guðmundur var frá Reynivöllum í KJósarsýslu og bjó um 1856 í Garðhúsum í Vogum er var í eigu Stóru-Voga. Hann hafði í fyrstu ráðskonu er hann svo kvæntist. Árið 1958 voru þau húshjón í Stóru-Vogum og árið 1859 voru þau komin í Hólmabúðir. Árið 1870 fóru þau aftur að Stóru-Vogum uns þau fluttu að Steinsholti 1874. Enn má sjá þar klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði sem eldsmiðju.

Steinsholt

Steinsholt – matjurtargarður.

Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin sögð bláfátæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars 1879, og þar með lagðist sá bær í eyði.
Fyrir norðan og neðan Steinsholts, í sandfjörunni, sést í skipsstefni upp úr sandinum. Þar var skipsskaði í sept. 1904, er seglskip slitnaði upp á Vogavík og rak upp í fjöru án manntjóns. Skipið var Mandal í Noregi og var með timburfarm, er fara átti til Jóhannesar Reykdals í Hafnarfirði. Hét skip þetta Fjallkonan. Mörg hús í hreppnum voru byggð úr þessu strandgóssi.

Þórusel

Þórusel.

Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ 2011 er getið um „Vogasel“ millum Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautar, heldur þó nær brautinni. Ekki er getið hver heimild um „Vogasel“ er á þessum stað. Vogasel; Gömlu-Vogasel og Nýju-Vogasel, eru hins vegar uppi í Vogaheiði, sunnan Brunnastaðasels. Hins vegar er í heimildum getið um „Þórusel“ þar sem „Vogasel“ er sagt vera.

Þórusel

Þórusel.

Lýsing á Þóruseli, sem var heimasel þar sem einu mannvirkin voru stekkur og hlaðið skjól, passar við lýsinguna: „Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,“ segir í örnefnaskrá.
Í heimaseli hélt smali fé sínu til haga, en selsmatsseljan kom í selið að morgni og fór heim að kveldi, enda skamma leið að fara. Svæðið í kringum Þórusel er vel grasi gróið, sem bendir til selstöðu. Stekkurinn gefur til kynna að í selinu hafi verið u.þ.b. 20 ær. Slík fjölg hefur þótt góð í seli fyrrum. Ofan við stekkinn er hlaðið skjól, líklega smalaskjól.
Þórusel er að öllum líkindum heimanfærð selstaða eftir að aldagamlar selstöður í heiðinni lögðust af um 1870. Að þeim gegnum færðust fráfærur nær bæjum vegna mannfæðar og breyttra búskaparhátta. Yngstu minjar selsbúskapsins má finna í stekkjum heimatúnanna, jafnan í jaðri túngarðsins.

Þórusel

Þórusel – uppdráttur.

Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun. Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m.“

Þórusel

Þórusel.

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi„, útg. 2007 segir m.a. um Þórusel:
„Heimildir úr Brunnastaðahverfi segja Þórusel vera á sléttlendinu suður og upp af Gíslaborg og innan við Vogaafleggjarann en ólíklegt hefur verið sel þar. Heimildir frá Vogamönnum segja Þórusel hafa verið ofan við Reykjanesbraut en eðan Hrafnagjár og þær verða látnar gilda hér þó svo að einnig sé ósennilegt að þar hafi verið selstaða“.

Vogasel

Nýju-Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars staðar segir: „Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæðið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan við Vigaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er ur Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar „átján hurðir á hjörum“. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð“.

Vogasel

Vogasel eldri.

Í bók Sesselju segir um Vogasel: „Utan í Vogaholti að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel.
Þar sjáum við þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli“.
Í „Strönd og Vogar segir Árni Óla um „selstöður í heiðinni“: „Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera“.
Seltóftir „Nýja-Vogasels“ hafa enn ekki verið skráðar – sjá Ferlir.is; – Nýjasel – Pétursborg – Oddshellir – Vogasel – Ferlir

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Ari Gíslason.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961.

Vogasel

Vogasel yngri.

Lynghólsborg

Farið var að Pétursborg og skoðað Hólssel, sem er u.þ.b. 1 km norðaustan hennar.

Pétursborg

Pétursborg

Pétursborg stendur á Huldugjárbarmi, heilleg og falleg aðkomu. Sunnan undir borginni eru fjárhústóftir. Frá Pétursborg er fallegt útsýni yfir heiðina að Hrafnagjá, Snorrastaðatjarnir og Háabjalla. Svæðið myndaðist á svipaðan hátt og Þingvellir, misgengi þar sem miðjan sígur á sprungurein og gliðnar um u.þ.b. 2 cm að jafnaði á ári.
Erfitt getur verið að finna Hólssel, en það er ofan gjárinnar í u.þ.b. kílómeters fjarlægð, sem fyrr sagði. Um er að ræða þrjá hraunhóla og í klofi eins þeirra eru hleðslur. Þá eru og hleðslur suðvestan undir hólnum.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Nokkrar tóftir er umhveris hólinn sem og  í sprungunni, sem er vel gróin. Hins vegar er allnokkur landeyðing í kringum hólana.
Gengið var niður heiðina og komið var við í meintu Þóruseli, sem einnig er í háum grónum hraunhól. Í honum mótar fyrir tóftum.
Frá selinu var gengið ákveðið áfram norður heiðina að Lynghól. Undir honum er nokkuð stór fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg), vel gróin, en til suðurs frá henni liggur hlaðinn leiðigarður. Neðan við borgina er nokkur jarðvegseyðing.
Veður var frábært, lyngt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Pétursborg

Pétursborg.

Ólafsgjá

Gengið var að Pétursborg á Huldugjárbarmi. Ágætir Vogabúar slógust með í för. Eftir u.þ.b. 20 mín gang var komið að Huldugjá. Fjárborgin á barminum er bæði heilleg og falleg. Hún mun vera fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904), sem talinn er hafa hlaðið borgina. Vesturveggurinn hefur haldið sér nokkuð vel, en austurveggurinn hefur aðhyllst jörðinni – að hluta a.m.k. Fjárhústóftir eru sunnan við borgina.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Frá borginni var stefnan tekin að Arahnúkaseli undir Stóru-Aragjá þar sem hún er hæst. Gjáinn er ein margra er marka landssigið að sunnanverðu í Vogaheiði. Hrafnagjá og Háibjalli markar það að norðanverðu. Þarna eru heillegar tóftir vænlegs sels á skjólgóðum stað með hið ágætasta útsýni niður heiðina að Vogum. Hlaðnir stekkir eru við selið líkt og í öðrum hinum 140 seljum á Reykjanesskaganum.
Þá var stefnan tekin að Stapaþúfu, stundum nefnd Stapaþúfuhóll, norðan Brunnastaðasels. Þúfan er hár kringlóttur hóll. Gamlar sagnir frá 18. öld kveða á um manngerðar hleðslur undir hólnum. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að kanna hvort svo gæti verið. Ljóst er að norðanundir hólnum hafa verið gamlar hleðslur er lognast hafa út af. Þó sást enn móta fyrir hleðslum í samræmi við heimildir. Fokið hefur að hólnum og hann gróið upp, en grjótið stendur út undan honum við fótstykkið. Á þúfunni var hreiður með þremur eggjum og bak við stein austan í henni fundust þrír torkennilegir peningar.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Frá Stapaþúfu var haldið að Gjáslel, einu fallegasta selinu á Reykjanesskaganum. Þar eru, auk stekkjar og kvíar, átta keðjuhústóftir undir gjárveggnum. Líklega er þetta eitt fyrsta raðhús hér á landi. Óvíst er frá hvaða bæ selstaðan þarna var. Það er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703. Talið er þó líklegt að Hlöðunesmenn hafi haft þarna í seli, en sel þeirra var þá þarna ofar í heiðinni, en aflagt. Enn sést þó móta fyrir tóftum og stekk hins gamla Hlöðunesssels á stakri torfu, sem nú er að blása upp.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Haldið var niður heiðina að Ólafsgjá (6357678-2218860) og bæði varðan og gjáin skoðuð. Í gjána féll Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi á aðfangadag árið 1900 er hann var að huga að fé. Mikil leit var gerð að honum, en hann fannst ekki fyrr en u.þ.b. 30 árum síðar er menn voru að vitja kindar, sem átti að hafa fallið í gjána. Þar sást þá hvar Ólafur sat enn á klettasyllu í gjánni, en fótleggirnir höfðu fallið dýpra niður í hana.

Ólafur Þorleifsson

Bein Ólafs eftir fundinn.

Af verksummerkjum að dæma virtist hann hafa lærbrotnað við fallið í gjána, en reynt að nota göngustaf sinn til að komast upp aftur, en hann þá brotnað. Lengi vel var talið að Ólafi hafi verið komið fyrir í heiðinni og hlutust af því nokkur leiðindi.
Gátan leystist hins vegar 30 árum seinna, sem fyrr sagði. Gjáin, sem er á sléttlendi, er fremur stutt og þröng, en æði djúp. Frásögn af Ólafi og atburði þessum má lesa í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum sem og í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Loks var gengið í Hólssel ofan Huldugjár og tóftirnar og hleðslurnar í og við hraunhólinn skoðaðar. Hólssel er það sel, sem einna erfiðast er að ganga að sem vísu í heiðinni. Það er á milli þriggja hóla austan við Pétursborgina ofan við Huldugjá.

Pétursborg

Pétursborg.

Í bakaleiðinni var skyggnst eftir Þóruseli, sem á að var stutt frá Reykjanesbrautinni nálægt Vogaafleggjara. Einn staður kemur sterklegar til greina en aðrir; hár klofinn hraunhóll, gróinn bæði að utan- og innaverðu. Sjá má móta fyrir tóftarhlutum utan í honum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Komið var við í Gvendarstekk skammt ofan við Voga. Ýmislegt bendir til að hann sé gömul fjárborg, en enginn veit nú frá hvaða bæ hann var. Gvendarbrunnur er þarna skammt rá, einn af fjórum á Reykjanesskaganum. Ekki er með öllu útilokað að nafngiftin tengist að einhverju leyti Guðmundi góða, líkt og brunnurinn. Hann gæti t.d. hafa átt viðdvöl þar í skjólinu á leið sinni um Ströndina, án þess að nokkurt sé um það fullyrt. Taldið t.a.m. að sá góði maður hafi aldrei litið marga brunnnafna sína augum, ekki frekar en Grettir grettistökin víða um land.
Að göngu lokinni var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð í Vogunum.
Skínandi veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Pétursborg

Pétursborg.